
6 minute read
Nám í skólagarði
„Þórir dúfunef var leysingi Öxna-Þóris; hann kom skipi sínu í Gönguskarðsós; þá var byggt hérað allt fyrir vestan; hann fór norður yfir Jökulsá að Landbroti og nam land á milli Glóðafeykis og Djúpár og bjó á Flugumýri. Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.“
Í byrjun átjándu aldar lýsa Árni Magnússon prófessor og Páll Vídalín lögmaður Brimnesi þannig: „Rifhrís er hér nokkuð til eldingar.“
Í dag er land þetta skóglaust með öllu. Fátækt, einokun og versnandi stjórnarfar á Íslandi gerði þjóðinni æ erfiðara að byggja landið, og loks var svo komið um aldamótin 1700 að stjórnvöldin sáu að eitthvað varð að gera til þess að þjóðin yrði ekki aldauða.
Friðrik konungur fjórði skipaði því Árna Magnússon og Pál Vídalín til þess að rannsaka hag lands og þjóðar og gera tillögur til umbóta. Bjarni Pálsson, síðar landlæknir og Eggert Ólafsson ferðuðust einnig um landið laust eftir miðja öldina í sama skyni. Eggert samdi rit um ferðir þeirra félaga þar sem mikinn fróðleik er að finna um skógana á Íslandi.
Vegur Skúla Magnússonar landfógeta var þá mestur og eitt af umbótaáformum hans var að stofna til skógræktar í landinu. En þær tilraunir mistókust.
Nítjánda öldin hófst með Norðurálfuófriðnum mikla sem hafði örlagarík áhrif hér sem annars staðar. Skógræktarhugsjónin lá í gleymsku um sinn. En ekki var langt um liðið á öldina er ýmsir áhrifamenn fóru að rita um skógrækt. Þeir bentu á þær afleiðingar sem eyðing skóganna hefði haft í för með sér. Nú væri svo komið að síðustu skógarleifunum væri stefnt í beinan voða. Þess vegna yrði að gera eitthvað til að bjarga þeim frá tortímingu. Ekkert varð þó úr framkvæmdum fyrr en í lok aldarinnar.
10
Aldamótunum 1900 var fagnað um gervallt Ísland. Skáldin ortu hvatningarljóð til þjóðarinnar. Vonir um batnandi hag mótuðu kynslóðina sem þá tók til starfa og með henni hefst framfaraskeið í öllum greinum þjóðlífsins. Nokkrir einstaklingar höfðu ræktað tré í görðum sínum, náð góðum árangri og sýnt að gróðurskilyrði leyfðu ræktun trjáa.
Árið 1899 hófu danskir áhugamenn tilraunir með ræktun barrtrjáa á nokkrum stöðum og héldu þeim tilraunum áfram fyrstu sjö ár aldarinnar. Nokkru seinna var Ræktunarfélag Norðurlands stofnað en það hafði mikið áhrif, einkum norðanlands. Ungmennafélög voru stofnuð um líkt leyti víða um land og tóku m.a. skógrækt á stefnuskrá sína. Árið 1907 voru sett á alþingi lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands fyrir forgöngu Hannesar Hafsteins. Landssjóður tók kostnað af skógræktinni á sínar herðar. Skógræktarstjóri var skipaður yfir allt landið en skógarvörður yfir hvern landsfjórðung.
Tilraunum með ræktun barrtrjáa var haldið áfram til ársins 1913 en þá var þeim hætt og þráðurinn ekki tekinn upp aftur fyrr en eftir 1930. Starfssvið Skógræktar ríkisins verður nú tvíþætt: annars vegar friðun skógarleifa eins og fyrr, hins vegar fræsöfnun og uppeldi trjáplantna frá þeim stöðum á hnettinum þar sem loftslag er líkt og á Íslandi. Hér verða því tímamót í sögu íslenskra skógræktarmála.
Loks skal þess getið að Skógræktarfélag Íslands var stofnað á Alþingishátíðinni 1930 og þjóðin minntist lýðveldis á Íslandi 1944 með stofnun Landgræðslusjóðs.
Brautin er þó aðeins mörkuð en verkefnin bíða okkar.
Þetta var árangurinn af hugsjónum íslenskra aldamótamanna sem skáldið Hannes Hafstein lýsir í þessu erindi:
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa, sveitirnar fyllast, akrar hylja móa, brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa, menningin vex í lundi nýrra skóga.
11
Við köllum fram ímyndunaraflið og hugsum okkur að við séum stödd í skólagarði, þar sem við eigum að dveljast um tíma við nám og starf. Þessi skólagarður er á margan hátt öðruvísi en þeir sem íslensk æska hefur kynnst hingað til. Við sjáum mismuninn þegar lengra er lesið.
Umhverfið er hlýlegt. Skjólbelti úr víði, greni og birki hlífa hinum smágerða gróðri sem við erum að rækta. Hér sjáum við nokkrar trjátegundir í uppvexti en auk þess runna, blóm, kálplöntur og rótarávextir og er öllu þessu snyrtilega fyrir komið. Jafnframt vinnunni er okkur kennt hið nauðsynlegasia til þess að geta skilið ræktunina og farið rétt að öllu.
Við byrjum á því að læra ofurlítið um líf trjánna í skólagarðinum en seinna höldum við náminu áfram í Hallormstaðaskógi.
Gerð trjánna Allar plöntur eru gerðar úr frumum. Utan um þær eru frumuveggir og innan þeirra er frymið en innst er frumukjarninn.
Í frymi grænu plantnanna er blaðgrænan. Hún er mest ofan til í blaðholdinu og í henni fara fram mikilvægustu efnabreytingar plöntunnar.
Í hverju tré eru margs konar frumur sem skipa sér saman og mynda vefi þess. Þar ríkir því verkaskipting eins og á sér stað í mannlegu samfélagi.
Börkurinn eða barkarvefirnir verja tréð gegn hnjaski og varna útgufun. Fyrir innan börkinn liggja sáldæðarnar sem eru myndaðar úr lifandi frumum. Eftir þeim berst næring sú sem grænu kornin vinna úr loftinu. Viðaræðarnar eru aftur á móti gerðar úr dauðum frumum sem eru vel tengdar saman og gefa trénu styrk og sveigjuþol.
Innan undir sáldæðunum er vaxtarlagið sem er eingöngu lifandi frumur. Við kynnumst starfi þess síðar. Þar fyrir innan er svo viðarvefurinn sem er myndaður af dauðum viðaræðum og viðarfrumum. Innst er loks trjámergurinn.
Ný blöð myndast Ljósmynd: Hildur Guðmundsdóttir

13
Kolsýrunám Trén eru lifandi verur eins og menn og dýr og þurfa þess vegna fæðu. Næringarefnin taka þau til sín úr jarðveginum og loftinu.
Á blöðum og barri trjánna eru smáaugu sem andrúmsloftið smýgur inn um. En í loftinu er lítið eitt af koltvísýringi sem er samsettur af tveim frumefnum, kolefni og súrefni. Trén taka til sín koltvísýring úr loftinu en grænukornin vinna kolefnasambönd úr koltvísýringnum og vatni, svo sem sykur, mjölvi, tréni, olíur og fleiri lífræn efni.
Þessi mikilvæga starfsemi getur aðeins farið fram í nægilegri birtu og hita.
Allt líf á jörðunni á landi og í sjó á rætur sínar að rekja til þessara efnabreytinga og eru því plönturnar undirstaða lífsins á hnetti okkar.
Öndun Kolsýrunámið fer aðeins fram í hinum grænu hlutum plöntunnar í birtu og hita eins og fyrr greinir, en allir hlutar hennar anda jafnt á degi sem á nóttu, bæði rætur, stöngull og blöð.
Trén anda að sér súrefni sem sameinast kolefnasamböndum en á þennan hátt losnar orka sem þau nota til efnabreytingar og vaxtar.
Öndunin er því andstæð við kolsýrunámið.
Öndun:
Súrefnið, sem plantan andar að sér, sameinast kolefnasamböndum hennar. Við það losnar orka, vatn og koltvísýringur.
Plantan léttist.
Kolsýrunám: Úr kolefni og vetni myndar plantan lífræn efni, en súrefnið hverfur út í andrúmsloftið.
Plantan þyngist.
14
Öflun vatns og útgufun Vatn er trjánum lífsnauðsynlegt við fæðuöflunina. Þau afla þess úr jarðveginum með rótunum og með því berast næringarefnin til hinna ýmsu hluta trésins.
Eins er útgufun vatns frá trjánum nauðsynleg, því að hún örvar vökvastrauminn og þar með flutning næringar um tréð. Útgufunin er mest frá laufi og barri trjánna og hún verður því örari sem heitara er í veðri. Einnig örva vindar útgufunina að mun.
Venjulegast geta trén bætt sér allt það vatn sem frá þeim fer við útgufunina. En sé hörgull á vatni í jarðveginum t.d. sakir langvarandi hita og þurranæðinga, þá er hætta á því að tréð geti ekki bætt sér missinn. Blöð þess linast og jafnvel visna og svo getur farið, að tréð deyi.
Öflun fæðu úr jarðvegi Jurtanæringarefnin leysast upp í vatni jarðvegsins og berast gegnum ræturnar og upp eftir viðaræðunum.
Næringarefnin sem trén taka til sín úr jarðveginum eru aðallega köfnunarefni, fosfór og kalí. Af öðrum næringarefnum má nefna kalk, magníum, brennistein, járn og bór.
Fyrrgreind efni hverfa aftur til jarðar þegar grös sölna eða tré falla og fúna. Öðru máli gegnir þegar land er slegið eða beitt, tré felld og flutt brott úr skógunum. Þá fer jarðveginn að skorta sum þessara efna, einkum köfnunarefni, fosfór og kalí. En unnt er þá að bæta úr næringarskorti með áburði.
Plönturnar verða veikbyggðar og hætta að vaxa, ef jarðveginn vantar steinefni eða köfnunarefni. Þess vegna er oft nauðsynlegt að gefa ungum trjám og runnum áburðarskammt en gæta verður þess að hafa hann ekki stóran. Of mikil áburðargjöf hefur skaðleg áhrif og getur grandað smáplöntum.
Eitt hið vandasamasta við alla ræktun er því að skera úr um áburðarþörfina.
15