Arbaejarbladid 12.tbl 2007

Page 10

10

Fréttir

Árbæjarblaðið

Eftir vinnu tek ég upp hamarinn - segir Fannar Jónasson, nýr útibússtjóri Kaupþings í Árbæ Fannar Jónasson tók við starfi útibússtjóra hjá Kaupþingi í Árbæ nú nýverið. Við tókum hann tali á dögunum. - Hvar ertu fæddur og hvað með fjölskylduhagi, náms- og starfsferil? ,,Ég er fæddur í Reykjavík en hef búið meginhluta ævinnar austur á Hellu á Rangárvöllum. Foreldrar mínir voru Rangæingar og á Hellu sleit ég barnsskónum. Ég er stúdent frá Versló og tók síðan viðskiptafræðina í Háskóla Íslands. Ég var þó heima á Hellu öll sumur og um það leyti sem ég útskrifaðist krækti ég í alveg öndvegis rangæska heimasætu sem heitir Hrafnhildur Kristjánsdóttir. Við settumst að á Hellu og eigum þrjú börn. Á háskólaárunum stofnaði ég fyrirtæki austur á Hellu ásamt skólabróður mínum úr háskólanum. Við þetta fyrirtæki vann ég næstu tvo áratugina, en starfið fólst í bókhaldsþjónustu, uppgjörum, rekstrarráðgjöf, fasteignasölu og ýmsu því tengdu. Þetta voru góð ár og sérstaklega var gott að ala upp börnin í þessu samfélagi. Þegar stefndi í að eldri börnin færu í framhaldsnám til Reykjavíkur seldi ég minn hlut í fyrirtækinu og fjölskyldan tók sig upp og flutti búferlum árið 2001.’’ - Hvernig kom það til að þú hófst störf í bankanum og gerðist útibússtjóri í Árbænum? ,,Eftir flutninginn til Reykjavíkur fór ég í MBA nám í Háskóla Íslands og vann með því við ýmis sérverkefni. Að náminu loknu bauðst mér vinna í aðalútibúi Kaupþings-Búnaðarbanka við Austur-

stræti. Seinna varð ég útibússtjóri Kaupþings í Mjódd og í sumar losnaði staðan í Árbæjarútibúinu og ég fluttist þangað.’’ - Munu viðskiptavinir Kaupþings í Árbæ mega eiga von á breytingum í kjölfar ráðningar á nýjum útibússtjóra? ,,Öll útibú Kaupþings vinna eftir samræmdum reglum og ákveðnum grunngildum. Einstakir starfsmenn móta því ekki útibúin eftir sínu höfði og viðskiptavinir eiga að ganga að sambærilegri þjónustu í öllum útibúum bankans. Hitt er svo annað mál að einhver blæbrigðamunur kann að vera á milli útibúanna sem mótast m.a. af umhverfinu. Í nýjum hverfum með háu hlutfalli barnafólks kunna þarfir viðskiptavinanna t.d. að vera aðrar en í hinum rótgrónu hverfum. Árbæjarútibúið er meðal yngstu útibúa Kaupþings og ég sé mikla möguleika á farsælu og vaxandi samstarfi við íbúana. Við leggjum mikla áherslu á persónulega og faglega þjónustu. Þá vil ég nefna að fyrirtækjum verður einnig gert hátt undir höfði og þjónusta við þau efld. Árbæjarútibúið hefur líka þá sérstöðu að þar er sérhæfð fasteignaþjónusta með mjög reynslumikla starfsmenn sem einvörðungu sinna þeim málum.’’ - Hvernig metur þú möguleika Kaupþings í Árbæ til framtíðar litið? ,,Ég lít mjög björtum augum til framtíðarinnar. Við erum vel í sveit sett og aðgengi að útibúinu er gott. Okkar auðlind felst í hæfileikaríku starfsfólki sem tilbúið er til að leggja sig fram fyrir viðskiptavinina. Ég hef fundið fyrir mikilli

Fannar Jónasson, nýr útibússtjóri Kaupþings í Árbæ. samkennd meðal Árbæinga og hér er t.d. Fylkir ákveðinn samnefnari. Við viljum vera meðlimir í Árbæjarliðinu og nýlega var undirritaður styrktarsamningur milli handknattleiksdeildar Fylkis og Kaupþings. Í þeim samningi er ekki síst hugað að stuðningi við unga fólkið. Við ætlum okkur að eflast og dafna og bjóðum fólk velkomið til okkar.’’ - Helstu áhugamál? ,,Hestamennska hefur verið mitt helsta áhugamál. Reyndar hefur lítið farið fyrir útreiðum frá því við fluttum að austan en vonandi verður hægt að taka upp þráðinn síðar. Svo höfum við hjónin mjög gaman af ferðalögum og þá ekki síst í útlöndum. Ég má kannski skjóta því inn að áhugamál okkar hjónanna eru ekki alfarið sameiginleg. Hún er t.d. snilldardansari, en var svo óheppin að

ÁB-mynd PS

giftast algerum spýtukarli á dansgólfinu. Ég hef hins vegar gaman af söng og var í söngnámi í nokkur ár. Svo er ég áhugamaður um þjóðmál og var að vasast í sveitarstjórnarmálum í mörg ár austur í Rangárþingi. Var m.a. oddviti sveitarstjórnar á tímabili og því embætti fylgdu alls konar nefndastörf. Þetta var mjög lærdómsríkur tími sem hefur reynst mér ágætt veganesti síðar. Um þessar mundir eru trésmíðar reyndar ofarlega á vinsældalistanum. Það hefur blundað með mér áhugi á smíðum nokkuð lengi og í fyrra hóf ég nám í húsasmíði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Ég er svo á fullu í kvöldskólanum aftur í vetur. Eftir vinnu í bankanum tek ég því upp hamarinn, en tilgangurinn er sá að geta orðið sæmilega sjálfbjarga í timburverkinu.’’

- Hvað var það skemmtilegasta við hestamennskuna? ,,Ég hef gaman af dýrum og lít á mörg þeirra sem vini mína. Það eitt að fara í hesthúsið til að gegna og moka undan eru góðar stundir. Þar getur maður strokið og klappað hestunum og talað við þá. Fátt er líka meira gefandi en vera innan um stóðið á stillum vorkvöldum og fylgjast með folöldunum. En upp úr stendur þó að vera á gæðingi í góðu veðri og virða fyrir sér stórbrotna náttúruna. Ég fór í mörg sumur í góðra vina hópi í hestaferðir inn á hálendið. Við fórum mest um afréttina í Rangárvallasýslu en einnig á Þórsmörkina, Landmannaafrétt og víðar. Þessar ferðir voru alveg ógleymanlegar margar hverjar,’’ sagði Fannar Jónasson.

Kæru viðskiptavinir Hafið það sem allra best í desember! Bestu kveðjur, Starfsfólk Höfuðlausna

Hársnyrtistofan Höfuðlausnir Foldatorginu - Hverafold 1-3 112 Reykjavík Sími: 567-6330 - www.hofudlausnir.is Opið: Mán 08.00-18.00 - þri - fim 09.00-18.00 fös 08:00-18:00

Pöntunarsími: 567-6330


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Arbaejarbladid 12.tbl 2007 by Skrautás Ehf. - Issuu