Ulm blad2015

Page 15

Unglingalandsmót UMFÍ

15

LYSTISEMDIR BÆJARINS Það er ekki að ástæðulausu að hinn virti ferðavefur Lonely Planet valdi Akureyri sem besta áfangastað ferðamanna í Evrópu árið 2015. Akureyri hefur gjarnan verið talin einn fegursti bær landsins, bærinn í skóginum eins og sumir segja, og þar eru möguleikar fjölskyldunnar til útivistar og afþreyingar nánast óþrjótandi. Of langt mál væri að telja upp allt sem í boði er og hér verður aðeins fjallað um nokkra skemmtilega kosti fyrir ykkur að njóta.

Nonni og Manni

Víðfrægar eru sögur Jóns Sveinssonar um Nonna og Manna. Í gamla Innbænum má skoða Nonnahús þar sem Jón Sveinsson ólst upp og hin fagra Minjasafnskirkja er í aðeins nokkurra metra fjarlægð. Ofar í brekkunni er svo Minjasafnið á Akureyri sem varðveitir muni og ljósmyndir sem tengjast lifnaðarháttum fyrri tíma í Eyjafirði og á Akureyri. Í sýningum er leitast við að gera sögu fjarðarins skil á sem bestan hátt til fræðslu og ánægju fyrir safngesti. Yfir sumarið eru bæði Minjasafnið og Nonnahús opin gestum kl. 10–17 alla daga.

Enginn aðgangseyrir Förum út í Hrísey!

Ef þú hefur aldrei komið út í Hrísey ættirðu að skella þér þangað og ef þú hefur komið þangað áður langar þig eflaust aftur. Mörg gömul og vel hirt hús er að sjá í eyjunni, göturnar eru hellulagðar og bílaumferð í lágmarki, þar má sjá gæfar rjúpur í húsagörðum, kynnast hluta byggðarsögunnar í Húsi Hákarla-Jörundar og ganga skemmtilegar gönguleiðir sem liggja austur á eyju þar sem er meðal annars að finna magnaða orkulind. Akureyrarstofa hefur gefið út greinargóðan bækling um Hrísey sem finna má í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Menningarhúsinu Hofi og á flestum hótelum og gististöðum.

Leikföng og mótorhjól

Akureyri státar af tugum fjölbreyttra safna og eitthvert þeirra hlýtur að höfða til þín. Í bænum eru mótorhjólasafn, Flugsafn Íslands, leikfangasýning í Friðbjarnarhúsi, iðnaðarsafn, skáldahús sem helguð eru Matthíasi Jochumssyni og Davíð Stefánssyni, auk Nonna sem getið er að ofan. Einnig má nefna til sögunnar listasýningar af ýmsum toga, Amtsbókasafnið og Héraðsskjalasafnið, að ógleymdu Húsi Hákarla-Jörundar í Hrísey sem hefur að geyma merkilega sögu. Kynnið ykkur afgreiðslutíma og staðsetningu safnanna á Visitakureyri.is/is/ahugavert.

Viltu reyna aðeins á þig?

Í grennd við bæinn eru margar skemmtilegar gönguleiðir og Ferðafélag Akureyrar skipuleggur lengri og skemmri ferðir í næsta nágrenni. Reykvíkingar ganga gjarnan á Esjuna en Akureyringar fara á Súlur. Það er skemmtileg gönguleið í góðu veðri og á tindinum er gestabók þar sem fólk skráir nafn sitt. Einnig er vinsælt að ganga upp Hlíðarfjall þegar skíðasnjórinn er horfinn úr brekkunum. Ekki má heldur gleyma að nýjar hjólabrautir hafa verið lagðar um Hlíðarfjall og Glerárdal og tengjast þær niður í Kjarnaskóg. Sannkölluð ævintýraleið fyrir fólk sem tekur hjólreiðar alvarlega.

Listasafnið á Akureyri er með sýningar á þremur stöðum; í Listasafninu sjálfu, Ketilhúsinu og Deiglunni. Starf Listasafnsins hefur borið hróður bæjarins víða en sýningar þess hafa löngum þótt metnaðarfullar og ögrandi. Þessa dagana sýnir Mireya Samper innsetningar og tví- og þrívíð verk í aðalbyggingunni. Listasafnið er opið alla daga kl. 10–17 en lokað er á mánudögum. Aðgangur er ókeypis.

Hreyfing og útivera Viltu sjá hvali?

Hvalaskoðun á vaxandi vinsældum að fagna um land allt og ekki bara hjá erlendum ferðamönnum. Hvalaskoðunarfyrirtækið Ambassador starfrækir hvalaskoðun frá Torfunefsbryggju í miðbæ Akureyrar. Skip þeirra er sérútbúið með útsýnispöllum og rúmar 100 farþega. Hver ferð tekur um 3–4 klst. Kynnið ykkur málið á heimasíðunni Ambassador.is.

Lystigarðurinn

Lystigarðurinn á Akureyri er heill heimur út af fyrir sig og sívinsæll meðal bæði innlendra og erlendra ferðamanna sem og heimamanna. Í garðinum er að finna alla íslensku flóruna en einnig fágætar plötur sem vaxa varla annars staðar á Íslandi og eru af erlendum uppruna. Garðurinn er skjólgóður og rómantískur og þar er að finna gosbrunna og litlar tjarnir sem gleðja börnin. Einnig er í garðinum fallegt kaffihús en hönnun hússins hefur unnið til verðlauna.

Komdu í sund!

Sundlaug Akureyrar er ein sú besta á landinu með tveimur stórum laugum, heitum pottum, gufubaði, buslpottum fyrir börnin og stórri rennibraut. Fjölskyldufólk í helgarferð á Akureyri ætti ekki að láta hjá líða að heimsækja þessa vatnaparadís. Yfir sumarið er opið kl. 6.45–21.00 á virkum dögum en 8.00–19.30 um helgar.

Útilistaverk

Styttur bæjarins sem allir vilja horfa á. Fjöldamörg útilistaverk er að finna í öllum hverfum bæjarins en flest eru þau á miðbæjarsvæðinu og SuðurBrekkunni í námunda við Menntaskólann á Akureyri og í Lystigarðinum. Akureyrarstofa hefur tekið saman fróðleik um þessi verk og gefið út bækling þar sem má finna þau á korti, lesa um þau og skoða. Skoða má bæklinginn á Visitakureyri.is/is/ahugavert og þar má einnig finna ítarlegri upplýsingar um verkin og hlaða niður hljóðleiðsögn um valin verk.

Af öllu hjarta

Takið eftir rauðu hjörtunum í götuvitum á gatnamótum þegar þið farið um bæinn. Hjartað varð eins konar tákn Akureyrar eftir bankahrunið 2008. Þá kviknaði sú hugmynd að sýna kærleika og samstöðu með því að dreifa rauðum hjörtum sem víðast um bæinn. Stærsta hjartað var samsett úr ótal ljósum á staurum sem reistir voru í hlíðum Vaðlaheiðar og mynduðu hjarta sem gjarnan sló þegar kviknaði og slokknaði á perunum á víxl. Rekstur hjartans í heiðinni reyndist nokkuð dýr og því hefur það ekki logað síðustu misserin en nú stendur til að afla fjár til að kveikja á því aftur með tryggari hætti og vonandi verður þess ekki langt að bíða að hjartað slái í heiðinni á ný.

Mörg skemmtileg útivistarsvæði eru í og við bæinn. Kjarnaskógur hefur verið að vaxa síðustu áratugina og þar er nú skemmtilegur skógur með ótal göngustígum, leiktækjum fyrir börnin, grillaðstöðu, fjallahjólabraut sem teygir sig upp um fjöll og firnindi, strandblakvelli og ýmsum möguleikum til að hafa það gott og gaman. Önnur skemmtileg svæði með göngustígum í fögru umhverfi eru til dæmis Krossanesborgir, Naustaborgir og ósasvæðin við Eyjafjarðará.

Kaffi og kruðerí Kaupum eitthvað fallegt Skyndibiti eða à la carte? Enginn hörgull er á veitingahúsum á Akureyri. Best er fyrir gesti að rölta um bæinn og skoða matseðlana en einnig er hentugt að skoða Visitakureyri.is/is/matur–og–drykkur áður en haldið er af stað. Hvort sem þú vilt grillaða samloku, eðalfiskrétti, blóðuga steik eða framandi rétti úr öðrum heimsálfum þá finnurðu það á Akureyri.

Gestir bæjarins hafa gjarnan orð á því að hér sé vöruúrval annað en þeir eru vanir, þjónustan með öðrum hætti og á margan hátt skemmtilegra að versla en í ys og þys stórborganna. Verslanir af öllum gerðum er að finna vítt og breitt um bæinn en helstu kjarnarnir eru þó í göngugötunni í miðbænum (Hafnarstræti) og svo í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi. Gerið ykkur glaðan dag, kíkið í verslanir og farið á kaffihúsin í leiðinni.

Frítt í strætó

Á Akureyri er frítt í strætó og á miðbæjarsvæðinu eru notaðar bílastæðaklukkur. Þær fást á bensínstöðvum og hjá mörgum þjónustuaðilum í bænum, svo sem bönkum, tryggingafélögum, í Ráðhúsinu og Upplýsingamiðstöðinni.

Með auknum ferðamannastraumi hefur kaffihúsamenningin á Akureyri gjörbreyst á skömmum tíma. Afbragðs kaffihús er að finna bæði á Glerártorgi og í miðbænum en einnig víðar. Sum þeirra hafa fest sig í sessi í gegnum árin en önnur eru nýrri af nálinni. Fátt er betra en að setjast með rjúkandi heitt kakó, kaffi eða aðra drykki í huggulegheitum utandyra ef veður leyfir eða við gluggann þegar dumbungur er og virða fyrir sér mannlífið.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.
Ulm blad2015 by UMFÍ - Issuu