SJÁVARAFL apríl 2025 1.tbl 12.árg

Page 1


SJÁVARAFL

Apríl 2025 1. tölublað 12. árgangur

Plastið í hafinu er hnattrænt
er
æfa reglulega
um fosfatið Vanmetin auðlind Blóðgun og kæling

4 ,,Við erum til taks og svörum kallinu“

8 Úr ýmsum áttum

10 Íslendingar henda fimm milljón plastpoka í hafið á hverju ári

13 Staðan í afla einstakra tegunda innan kvótans

14 Lífið er saltfiskur

17 Faxaflóahafnir stærstar í botnfiski

17 Snjallvæðing á vatns- og rafmagnsafgreiðslu á Austurbakka í Gömlu höfninni í Reykjavík

20 Skötuselurinn var vanmetin auðlind

23 Tannlaus um tíma

25 Fækkað á undanförnum árum

25 Semja um rekstur Vaktstöðvar siglinga

26 Einfalt og gott

Útgefandi: Tímaritið Sjávarafl ehf

Sími: 6622 600

Ritstjóri og

ábyrgðarmaður: Elín Bragadóttir elin@sjavarafl.is

Vefsíða: www.sjavarafl.is

Umbrot og hönnun: Prentmet Oddi ehf

Ljósmyndari: Óskar Ólafsson

Forsíðumynd: Guðbrandur Örn Arnarson

Prentun: Prentmet Oddi ehf

Þekking í sjávarútvegi

Sjávarútvegurinn reiðir sig stanslaust sig á rannsóknir og vöruþróun en reynslan hefur sýnt að aukin verðmætasköpun í greininni byggir á hugviti sem við megum vera stolt af. Allt þetta byggir á þeim stoðum sem við þekkjum svo vel. Sú þekking er okkar auður og innsýn inn í frekari nýsköpun til framtíðar, um er að ræða þætti eins og þekkingu, hæfni, menntun og menningu þeirra sem landið byggja.

Mikilvægi þess að afla okkur þekkingar í sjávarútvegi er grunnur fyrir því að geta nýtt sér þann lærdóm og hæfni sem við búum yfir. Að miðla bæði þekkingu og því sem vitað er um rannsóknir og fræðslu, eigum við meiri möguleika á að þróa okkur í sjávarútvegi og takast á við áskoranir í síbreytilegu samkeppnisumhverfi. Með því að miðla okkar þekkingu myndast einnig tengslamyndun sem getur verið fyrirtækjum ómetanleg.

Því má segja að þekking í sjávarútvegi sé nauðsynleg. Sérfræðingar í menntamálum sjá hvernig við eigum að meta aflamagn sem hefur í heild sinni hætt að aukast en verðmætaaukning samt sem áður haldið áfram. Fjöldinn allur af sprotafyrirtækjum hefur einnig átt sinn þátt í því að auka framlegð í sjávarútvegi. Allt er nýtt í dag, sama hvort það er roð eða bein. Sú virðing fyrir þeim takmörkuðu náttúruauðlindum sem við búum yfir hefur stóraukist. Sjávarútvegsgeirinn hefur breyst mikið undanfarin ár og framþróun í tækni og beitingu hennar í þágu sjávarútvegsins er mikil. Hreint haf, gæði og ferskleiki eru meðal annars mælanleg auðæfi sem hafa skapað okkur ríkidæmi og eru enn frekar hvati fyrir áframhaldandi nýsköpun og frekari markaðssetningu á okkar einstöku afurðum. Ég fyllist stolti og gleði við að fylgjast með hversu dugleg við erum sem þjóð að kynna okkar land, þennan óslípaða demant sem á engan sér líkan.

Elín Bragadóttir ritstjóri

Bára Huld Beck blaðamaður
Sigrún Erna Geirsdóttir blaðamaður
Óskar Ólafsson ljósmyndari og prófarkalesari
Óskar Þór Halldórsson blaðamaður
Kristín List Malmberg blaðamaður
Guðrún Erlingsdóttir blaðamaður
Alda Áskelsdóttir blaðamaður
Malín Brand prófarkalesari

Síldarvinnslan hf óskar landsmönnum gleðilegra páska

Nauðsynlegt er að æfa reglulega svo allir geti gengið

beint til verks ,,Við erum til taks og svörum kallinu“

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru ein stærstu samtök sjálfboðaliða á Íslandi og nemur fjöldi þeirra um átján þúsund. Björgunarsveitir Landsbjargar voru nýverið kjörnar maður ársins 2016 á Rás 2 og skal engan undra þegar litið er til þeirra starfa sem sveitirnar sinna, til sjós og lands. Mikilvægi björgunarsveitanna fyrir sjómenn verður aldrei ofmetið og Sjávarafl fór á stúfana til þess að fræðast nánar um sjóbjörgunaræfingar.

Sigrún Erna Geirsdóttir
Mynd 1(6571): Björgunarskipin Sveinbjörn Sveinsson og Hafbjörg fylgja Bjarna Ólafssyni AK70 á landsæfingu sjóbjörgunarsveita þann 17. september 2016. Ljósmyndari: Guðbrandur Örn Arnarson.
Sigurður R. Viðarsson

Menn eru samhentir í björgunarsveitunum, meira að segja þegar slakað er á! Ljósmyndari: Guðbrandur Örn Arnarson.

Stórar æfingar annað hvert ár

Við tókum Sigurð R. Viðarsson sem heldur utan um sjóbjörgunaræfingar hjá Landsbjörgu tali og spurðum hann um fyrirkomulag björgunaræfinga. „Það er um tvenns konar æfingar að ræða, annars vegar landsæfingar og hins vegar æfingar sem björgunarsveitirnar halda fyrir sitt fólk. Ef við skoðum fyrst þær síðari þá er allur gangur á því hversu oft þær eru haldnar, það fer eftir því hvað sveitin er virk. Þetta getur verið allt frá einni til tveimur upp í tugi æfinga á ári. Sveitirnar eru líka misjafnar hvað styrkleika og sérhæfingu varðar. Æfingarnar eru af öllum toga, stundum eru haldnar einfaldar leitaræfingar eða bara æft að setja út ankeri eða yfirfara búnað. Það er líka æft um borð í björgunar bátnum og jafnvel án þess að þörf sé á því að setja bátinn út.“ Landsæfingar eru haldnar annað hvert ár og hafa t.d verið haldnar á Grundarfirði, Skagaströnd, Norðfjarðarflóa og í Grindavík. En sjóbjörgunarhópar sveitanna á þessum stöðum sem skipuleggja þær. Sigurður segir að það sé nokkuð breytilegt hversu margir taki þátt í þessum æfingum, það sé ekki auðvelt að fara með stóra báta þvert yfir landið, þótt það sé stundum gert, og yfirleitt taki þær sveitir þátt sem þurfa styst að fara, sem og sveitir stærri byggðarfélaga. ,,Á Norðfjarðaræfinguna sem haldin var sl. ár komu hátt í tuttugu hópar, í heildina voru þetta því um hundrað manns. Skiptingin er þannig að á minni björgunarbátunum eru 3 í áhöfn og 5 á þeim stærri, svo er æfingarstjórnunarhópur og aðgerðarstjórnendur sem keyra æfinguna.“ Næsta landsæfing sjóbjörgunarsveitanna verður að vori eða hausti árið 2018 en ekki er búið að ákveða staðsetningu hennar. ,,Það verður ákveðið með góðum fyrirvara og undirbúningur hefst svo c.a 4­6 mánuðum áður hjá þeim sveitum sem eru á staðnum. Mesti undirbúningurinn fer svo fram mánuði fyrir æfingu þegar menn fara að hittast til að raða niður mannskap og verkefnum. Hverju verkefni fylgir umsjónarmaður og ef það eru sjúklingar þarf að manna þær stöður líka.“ Sigurður segir að

það sé vissulega nokkurt púsluspil að koma svona æfingum saman en yfirleitt takist þetta mjög vel. Sjálfboðaliðar vinni daglega ýmis störf í bæði dag­ og vaktavinnu og geti t.d oft mætt á æfingar á miðjum degi. Atvinnurekendur séu oft skilningsríkir líka.

Líkt eftir raunverulegum aðstæðum Æfingar björgunarsveitanna eru yfirleitt með svipuðu sniði og oft líkja þær eftir aðstæðum sem björgunarsveitirnar sem skipuleggja æfinguna hafa lent í sjálfar. ,,Á Norðfirði t.d var björgunarskipið sent út til þess að sækja veikan einstakling. Það er reynt að hafa verkefnin sem raunverulegust. Æfingin er því ekki endilega skipsskaði heldur er kannski verið að æfa að ferja björgunarhópa sjóleið að gönguleið á einangruðu svæði, að koma fólki út í skip eða í land, koma dælum út í skip, setja þær í gang og dæla. Æfingarnar eru fjölbreyttar. Það er margt sem reynir á svo það er alltaf reynt að hafa léttleika í gangi líka.“

Allir þurfa að vita hvað þeir eiga að gera

Sigurður segir að mikil þörf sé á reglulegum æfingum því ef menn æfi ekki hlutina sé ekki hægt að ætlast til að fólk kunni handtökin þegar á reynir. „Sérstaklega á þetta við um nýliða. Hópurinn vinnur saman sem einn og allir eiga að vita hvað á að gera. Það er aldrei einn sem stendur og skipar fyrir, allir eiga að geta gengið beint til verks. Sumir hafa gert þetta hundrað sinnum og sumir aldrei. Æfingarnar eru því sérlega mikilvægar fyrir nýliða,“ segir Sigurður. Á fámennari stöðum þar sem nýliðun er hægari og hreyfing er ekki mikil á mannskapnum eru æfingar haldnar sjaldnar. Þar sem mikil hreyfing er á sveitunum, eins og á höfuðborgarsvæðinu og í stærri byggðarlögum, eru þær því mun tíðari. ,,Við æfum líka reglulega með Landhelgisgæslunni og eigum mjög gott samstarf við hana. Sameiginlegu æfingarnar hafa komið báðum aðilum til góða því þeir þurfa auðvitað að æfa sig líka.“

Síldarvinnslan á Neskaupsstað tók þátt í æfingunni með björgunarsveitunum sem fólst m.a í að koma slösuðum manni frá skipinu og um borð í björgunarskip. Ljósmyndari: Guðbrandur Örn Arnarson.

Áhugi á sveitunum

Þar sem mikill mannfjöldi býr er auðvitað mun meiri ásókn í að ganga til liðs við sveitirnar en á fámennari stöðum úti á landi. ,,Í allra minnstu sjávarplássum er ekki mikil nýliðun enda eru kannski tveir eða þrír krakkar í sveitarfélaginu. Þar geta þau gengið til liðs við sveitirnar 14­15 ára en yfirleitt er miðað við að þau séu orðin sextán.“ Í stærri byggðarfélögum er virkt unglingastarf sem hefur skilað sveitunum öflugum sjálfboðaliðum þegar krakkarnir geta farið í útköll, 18 ára gömul. ,,Þar sem töluverð útgerð er og í stærri byggðarlögum er sem betur fer ekki vandamál að manna sveitirnar en svo eru svæði eins og t.d Raufarhöfn þar sem mikil útgerð er á sumrin en bæjarfélagið er fámennt og þar er þetta erfiðara.“ Ávallt hafi þó tekist að manna öll útköll og stærri æfingar. Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna koma úr öllum áttum og þarna er t.d að finna lækna, lögfræðinga, smiði og pípara. ,,Ég leyfi mér að fullyrða að allar starfsstéttir eigi sína fulltrúa,“ segir Sigurður og brosir. Hann bætir við að konum hafi líka fjölgað mikið í starfi sveitanna undanfarin ár og það séu þó nokkur dæmi um að konur stjórni sveitum. ,,Meirihlutinn í sjóbjörgunarsveitunum er enn karlmenn en við eigum feiknaöflugar konur þar líka.“

Fjöldi útkalla

Sjóbjörgunarhópar björgunarsveitanna fá um hundrað útköll á ári en sem betur fer eru fæst þeirra alvarleg. ,,Ætli það séu ekki 10­15 útköll á ári í hæsta forgangi, t.d þegar björgunarskip er kallað út til þess að sækja veikan mann eða neyð sé um borð. Það er fimm manna áhöfn á þessum skipum og svo eru menn í stjórnstöð sem eru þeirra bakland.“ Ef það er leit koma fleiri hópar að því. ,,Ef bátur dettur t.d út úr tilkynningarskyldu og er saknað er boðað út heilt svæði til eftirgrennslan og þá getur fjöldi þeirra sem kallaður er út hlaupið á tugum. Mannfrekustu útköllin eru leitir, að fara út í skip og ná í veikan mann

krefst ekki eins mikils mannfjölda.“ Hann segir að vélabilanir og slíkt séu algengustu útköll sjóbjörgunarhópanna en sjómenn eru þó mjög duglegir að koma hvor öðrum til aðstoðar og draga í land ef þörf er á. ,,Við erum til taks og kappkostum að svara kallinu og koma sjómönnum til aðstoðar jafnvel þótt lítil hætta sé á ferðum.“ Sumir vilja meina að útköllum björgunarsveitanna hafi fjölgað en Sigurður segir að það sé sín tilfinning að útköllum á sjó hafi fækkað. ,,Skipsskaðar á sjó eru sem betur fer orðnir fátíðir og lítið um að bátar sökkvi, brenni eða strandi. Við viljum samt alltaf vera viðbúnir þessum atburðum.“ Vegna aukningar ferðamanna hefur útsýnisferðum á sjó, t.d vegna hvalaskoðunar, stórfjölgað og hefur verið bent á það sem áhættuþátt. Sigurður segir að þessi fjölgun hafi þó ekki valdið fleiri útköllum. „Þessi hópur hefur ekki komið oft við sögu hjá sjóbjörgunarsveitunum. Það er stíft regluverk í kringum þessa atvinnugrein og fjöldi skilyrða sem þarf að uppfylla svo leyfi fáist fyrir starfseminni. Samgöngustofa hefur eftirlit með þessum hlutum og hefur sinnt því hlutverki ágætlega.“ Ein af stærstu ógnunum sem við búum við eru auknar komur skemmtiferðaskipa. ,,Menn fóru að velta þessum þætti fyrir sér fyrir nokkru því slys vegna skemmtiferðaskipa geta alveg átt sér stað hér eins og annars staðar. Almannavarnir, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, hafnirnar og Umhverfisstofnun eru meðvituð um þessa áhættu og það er t.d komin viðbragðsáætlun fyrir Landeyjarhöfn og áætlun fyrir Faxaflóa er í vinnslu.“ Það verður síðan hægt að heimfæra þessar áætlanir á aðra staði. Hvað björgun á landi varðar segir hann að útköllum vegna erlendra ferðamanna hafi langt í frá fjölgað í samræmi við fjölgun ferðamanna . Það sé þó og verði alltaf nauðsynlegt að brýna vel fyrir ferðafólki að sýna varkárni er farið er um landið. Ef eitthvað komi upp og fólk lendi í vanda séu og verði björgunarsveitirnar ávallt viðbúnar að svara kallinu.

Björgunarskipið Ingibjörg sprautar á Bjarna Ólafsson en á landsæfingunni var m.a verið að æfa umhverfiskælingar. Ljósmyndari: Guðbrandur Örn Arnarson.

Um hundrað manns tók þátt í björgunaræfingunni á Norðfirði. Ljósmyndari: Guðbrandur Örn Arnarson.

Úr ýmsum áttum

Gleðilega páska

Guðfinnur Sigurvinsson

Héðinsfjörður 2020. Hér var hreinsað af heimamönnum.

Íslendingar henda fimm milljón plastpoka í hafið á hverju ári

Eftir 30 ár verður meira plast í sjónum en fiskur ef ekkert verður að gert. Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta enda sjávarútvegur önnur stærsta atvinnugreinin hér á landi. Lyfta þarf grettistaki í þessum málefnum hér sem víðast annars staðar í heiminum. Íslendingar eru þó eftirbátar

margra þjóða þegar kemur að rannsóknum og aðgerðum sem miða að því að draga úr plastmengun í hafinu.

Guðfinnur Sigurvinsson, skilaði nýverið lokaritgerð til MPA­ gráðu í opinberri stjórnsýslu sem fjallaði um plastmengun í hafi. Megintilgangur ritgerðarinnar var að skoða til hvaða ráða stjórnvöld geta gripið til, til að stemma stigu við þeim vágesti sem plastmengun í hafi er.

“Hér á Íslandi hafa verið gerðar litlar sem engar rannsóknir sem miða að því að skoða hvernig ástandið í hafinu er við landið þegar kemur að plastmengun. Úr þessu er brýnt að bæta,” segir Guðfinnur en í ritgerðinni kemur fram að Íslendingar geti ekki gert ráð fyrir öðru en að plastmengun sé vandamál hér líkt og annars staðar í heiminum.

Sjávarstraumar virði hvorki landamæri né haflögsögu. “Í rannsókn sem nýverið var gerð í Noregi kom í ljós að örplast mælist í kræklingi meðfram allri strönd Noregs en þetta er umfangsmesta rannsókn á örplasti sem Norðmenn hafa ráðist í. Mældist mest örplast í kræklingi nyrst í Noregi, einmitt á svæðinu sem menn bjuggust við að væri hvað hreinast. Einnig kom á óvart að stærsti hluti þess örplasts sem fannst voru þræðir úr fatnaði eða vefnaði en fram að því höfðu Norðmenn talið að minnst helmingur örplasts sem bærist út í hafið við Noregsstrendur væri frá bílaumferð.”

Sjávarstraumar virða hvorki landamæri né haflögsögu Plastmengun í hafi má að stærstum hluta rekja til plastumbúða, s.s. plastpoka, drykkjarflaskna o.s.frv. og svo til örplasts. Hvoru tveggja runnið undan rifjum mannsins og hafnar í hafinu fyrir tilstilli hans. “Þvert á það sem eitt sinn var talið þá brotnar plast niður í náttúrunni en það hverfur ekki heldur umbreytist í örplast, örfínar plastagnir. Örplast er ekki einungis að finna niðurbrotið í náttúrunni heldur framleiðum við það beinlínis, s.s. í snyrtivörur. Því er bætt í tannkrem og við þvott á flíspeysum fara trefjaagnir út með þvottavatninu og með skólpinu til sjávar.”

Guðfinnur Sigurvinsson, skilaði nýverið lokaritgerð til MPA­ gráðu í opinberri stjórnsýslu sem fjallaði um plastmengun í hafi: “Hér á Íslandi hafa verið gerðar litlar sem engar rannsóknir sem miða að því að skoða hvernig ástandið í hafinu er við landið þegar kemur að plastmengun. Úr þessu er brýnt að bæta.”

Íslendingar fleygja um 70 milljónum plastpokum eða um 1.120 tonnum árlega. Samkvæmt rannsóknum má gera ráð fyrir að um 8% þeirra endi í hafinu eða sem jafngildir um 5 milljónum plastpoka á Íslandi árlega. Þá er ótalin sú mengun sem fer í hafið af örplasti með t.d. skolpi. Hvort pokarnir og örplastið endar í maga fiska og annarra sjávarlífvera í hafinu við landið er lítt vitað. Það er hins vegar ekkert betra að hugsa til þess að plastmengun af okkar völdum endi í maga lífvera annars staðar í heiminum. Íslendingar geta einnig gert ráð fyrir því að hafstraumar beri mengun hingað. Heimsbyggðin er því samábyrg í þessum efnum og enginn ætti að hlaupa undan merkjum.

Hvalir og fiskar stútfullir af plasti „Það vakti mikinn óhug í byrjun árs 2017 þegar sárþjáðan hval rak á land í Noregi, um var að ræða rúmlega sex metra langan gáshnall sem hafði ítrekað rekið á land við Björgvin. Þegar dýrið var aflífað kom í ljós að það hafði innbyrt meira en þrjátíu plastpoka. Fréttir af hvalrekanum með ljósmyndum af innvolsinu bárust víða um lönd og málið vakti mikla athygli á samskiptamiðlum. Í fréttum RÚV var rætt við hvalasérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun, sem sagði að ekkert í líkingu við þetta hafi komið upp á Íslandi en staðfesti að „bútar úr plastpokum og svona eitthvað drasl úr sjónum“ hefðu fundist í mörgum hvölum við Íslandsstrendur,” segir Guðfinnur. Það er því ljóst að þó að hér á landi hafi ekki fundist hvalir stútfullir af plasti er í maga þeirra plast og annað drasl úr sjónum.

Plastið í hafinu er hnattrænt neyðarástand Á Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í Naíróbí í Kenía undir lok árs 2017 ræddu fundarmenn af ákafa um að taka þyrfti á plastmengun í hafi með mun hertari aðgerðum. Ríkisstjórnir, fyrirtæki og almenningur verði að grípa til róttækari og skjótari aðgerða en hingað til, ella verði tjónið óbætanlegt. Langtímaáætlanir til 2025 um

að draga svo og svo mikið úr plastmengun dugi ekki til. Á þinginu vildu Norðmenn leggja fram ályktun sem beinlínis bannar plastmengun. Lisa Svensson, yfirmaður UN Oceans fór ekki í grafgötur í orðavali og sagði plastmengun hafsins vera hnattrænt neyðarástand. Þegar horft er til þeirra áætlana sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér t.d. um að draga úr plastpokanotkun þjóðarinnar eru þær í engu samræmi við þessi orð. “Í september 2016 undirrituðu Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis­ og auðlindaráðherra og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu samning um að draga úr notkun léttra burðarplastpoka og gaf ráðherra út aðgerðaáætlun í sama tilgangi við þetta tilefni. Samningurinn kveður á um að fyrir árslok 2019 verði notkunin hér á landi ekki meiri en 90 plastpokar á einstakling á ári og að sú tala verði komin niður í 40 árið 2025 en gert er ráð fyrir að hver einstaklingur hérlendis noti um 105 burðarplastpoka á ári.” Guðfinnur segir að aðgerðaáætlun umhverfis­ og auðlindaráðuneytisins sé til þess að gera mild; fjallað er um fræðslu, alls kyns athuganir og samstarf við ýmsa, eins og átakið með Samtökum verslunar og þjónustu. Sambandi íslenskra sveitarfélaga verður þá gert að upplýsa Umhverfisstofnun um hvaða skref hafi verið tekin til að tryggja flokkun úrgangs og draga úr plastpokanotkun vegna úrgangs. Árið 2018 lítur dagsins ljós frumvarp til laga sem kveður á um að óheimilt verði að afhenda burðarpoka án endurgjalds og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Stefnt er að gildistöku slíkra laga eigi síðar en 1. janúar 2019.

„Íslendingar fleygja um 70 milljónum plastpokum eða um 1.120 tonnum árlega. Samkvæmt rannsóknum má gera ráð fyrir að um 8% þeirra endi í hafinu eða sem jafngildir um 5 milljónum plastpoka á Íslandi árlega. Þá er ótalin sú mengun sem fer í hafið af örplasti með t.d. skolpi. Hvort pokarnir og örplastið endar í maga fiska og annarra sjávarlífvera í hafinu við landið er lítt vitað. Það er hins vegar ekkert betra að hugsa til þess að plastmengun af okkar völdum endi í maga lífvera annars staðar í heiminum.“

Á ferðalagi um landið á árinu 2021. Ljósmyndin er tekin á Langanesi en þar safnast saman mikið af rusli og rekavið, en sjávararrusl er ógn við heilbrigði sjávar og stranda. Ljósmynd. Tómas J. Knútsson

Íslensk stjórnvöld verða að bregðast bæði skjótar og harðar við Á sama tíma og íslensk stjórnvöld stefna að því að draga úr plastpokanotkun hvers landsmanns um fjörutíu á tíu árum hafa margar þjóðir gengið miklu lengra bæði í Evrópu og víðar. Athygli vekur að þær þjóðir sem hvað lengst hafa gengið í takmörkun á notkun burðapoka eru þjóðir sem oft eru nefndar í sömu andrá og orðið þróunarlönd. Þjóðir sem Íslendingar eða aðrar vestrænar þjóðir bera sig sjaldan saman við. “Máritanía bannaði plastpoka með öllu á síðasta ári og eru þeir sem staðnir eru að notkun plastpoka sektaðir um 4.200 dollara. Plastpokar í farangri erlendra ferðamanna eru gerðir upptækir. Rúanda bannaði líka notkun plastpoka 2008 og er sagt að götur höfuðborgarinnar Kigali séu tandurhreinar. Suður­Afríka bannaði næfurþunnu plastpokana árið 2003 og Tansanía, Úganda, Kenía og Senegal sigldu í kjölfarið.”

Guðfinnur segir að íslensk stjórnvöld verði að bregðast bæði skjótar og harðar við en áætlanir geri nú ráð fyrir. Þau geti nýtt sér ýmis stjórntæki innan stjórnsýslunnar til að taka á þessum vanda, það sé ekki eftir neinu að bíða. “Til að nýta tímann sem best er nauðsynlegt að beita stjórntækinu, reglum, endurskoða reglugerðir, herða reglur og fara í bönn þar sem við á. Hagrænir hvatar stjórntækja á borð við ríkisstyrki og skattastyrki gætu samhliða styrkt notkun stjórntækjanna, sérstaklega á sviði nýsköpunar og rannsókna. Þá er brýnt að afla opinberra upplýsinga en með þeim skapast vísindalegur grunnur til að grípa í framhaldinu til fleiri stjórntækja og með miðlun opinberra upplýsinga verður hægt að virkja mannauð til athafna og grípa til nauðsynlegra bjarga.”

„Á sama tíma og íslensk stjórnvöld stefna að því að draga úr plastpokanotkun hvers landsmanns um fjörutíu á tíu árum hafa margar þjóðir gengið miklu lengra bæði í Evrópu og víðar. Athygli vekur að þær þjóðir sem hvað lengst hafa gengið í takmörkun á notkun burðapoka eru þjóðir sem oft eru nefndar í sömu andrá og orðið þróunarlönd. Þjóðir sem Íslendingar eða aðrar vestrænar þjóðir bera sig sjaldan saman við.“

Ljós í myrkri

Þó að íslensk stjórnvöld hafi ekki gripið til afgerandi aðgerða til að stemma stigu við plastmengun í hafi eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Guðfinnur segir að vitundar­ vakning hafi orðið hjá almenningi og vísbendingar séu um að dregið hafi úr notkun innkaupapoka um 20% á tveimur árum. Þá hafi ýmsar stofnanir og fyrirtæki látið sig málið varða og þar hefur sjávarútvegsfyrirtækið Grandi verið fremst í flokki. “Umgengni útgerðarinnar hefur batnað mikið á síðustu árum og umhverfisvitund aukist innan sjávarútvegsins. Guðbergur Rúnarsson verkfræðingur sem starfar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi segir að Grandi hafi yfirburðarstöðu hvað íslenskar útgerðir varðar þegar umhverfismál eru annars vegar. Fyrirtækið hafi reist eigin flokkunarstöð fyrir starfsemi sína. Þar sé flokkaður bæði úrgangur úr skipum og landvinnslu. Aðrir séu þó ekki komnir alveg á það stig. Hann eigi hins vegar ekki von á öðru en innan einhverra ára verði stærstu fyrirtækin komin á sama stað og Grandi í þessum efnum enda fyrirmyndin góð.” Guðfinnur segir að einnig megi sjá mikla virkni í alls kyns grasrótarstarfi á Íslandi sem snýr að umhverfisvernd í öllum sínum blæbrigðum og þar er baráttan gegn plasti sérstaklega vel sýnileg. “Sé horft til baráttunnar gegn plastmengun hafsins á Íslandi ber Blái herinn höfuð og herðar yfir annað starf á þeim vettvangi. Um er að ræða sjálfboðaliðastarf fjármagnað með styrkjum og vinnustundirnar eru yfir 50 þúsund frá upphafi. Blái herinn er hugmynd og framkvæmd Tómasar Knútssonar kafara á Suðurnesjum en fyrir sitt framlag hlaut hann Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á Degi íslenskrar náttúru 2014. Bláa herinn stofnaði Tómas árið 1995 og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu hefur hann til dæmis skipulagt og framkvæmt yfir 100 hreinsunarverkefni í nokkrum sveitarfélögum á landinu, mest þó á Suðurnesjum. Tómas hefur hreinsað yfir 1100 tonn af alls kyns rusli og drasli úr umhverfi okkar, aðallega við sjávarströndina, á opnum svæðum og í höfnum landsins.”

Sjóklæðin frá Elka fást hjá okkur. | |

khvinnufot.is Nethylur 3 Sími 57 7 1000

Staðan í afla einstakra tegunda innan kvótans

ÞORSKUR

Aflamark 169.250.916 kg

Veiddur afli: 69,5%

KARFI

Aflamark 39.079.802 kg

Veiddur afli: 55,7%

UFSI

Aflamark 66.613.139 kg

Veiddur afli: 24,7%

ÝSA

Aflamark 59.178.696 kg

Veiddur afli: 71,5%

Nauðsynlegt að huga að öllum skrefum saltfiskvinnslu

Lífið er saltfiskur

Samvinna við iðnaðinn

Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís, veit flestum meira um saltfisk og verkun hans enda segir hann að saltfiskur hafi verið sér hugleikinn í tuttugu ár. „Ég hef reyndar alltaf haft mikinn áhuga á fiski almennt og margir kalla mig fiskifræðing,“ segir hann. Þessi áhugi á fiski hefur leitt til þess að auk þess að vera í fullu starfi hjá Matís kennir hann fjölda námskeiða við Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar; í matvælafræði, vélaverkfræði og sjávarútvegsfræði. Fræðin og rannsóknir hafa alltaf verið stunduð jöfnum höndum hjá Sigurjóni og hefur hann alltaf starfað náið með íslenskum fyrirtækjum. „Ég hef verið svo lánsamur að sjávarútvegsfyrirtækin hafa haft mikinn áhuga á rannsóknum okkar, komið að þeim og nýtt niðurstöðurnar. Það sem hefur skort í mörgum löndum eru einmitt þessi tengsl iðnaðar og rannsóknaaðila því þau örva tækniþróun sem leiðir til framfara í greininni.“ Þessi nána samvinna Sigurjóns og iðnaðarins er ástæða þess að starf Sigurjóns, hjá Matís og forverum, er samtvinnað sögu íslenskrar saltfiskverkunar síðastliðin tuttugu ár. „Ástæðan fyrir því að saltfiskurinn var tekinn föstum tökum á sínum tíma er sú að verið var að endurskoða nýtingarstuðla um borð í frystitogurum. Á sama tíma voru sex skip að verka saltfisk um borð hjá sér og það var ákveðið að endurskoða það ferli um leið.“ Sigurjóni fannst þetta mikilvægt verkefni og fór að leggja áherslu

Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís

á skoða vandlega söltunarferilinn. „Útkoman er m.a. sú að við höfum útskrifað þrjá doktorsnemendur (Kristín Anna Þórarinsdóttir, Nguyen Van Minh og María Guðjónsdóttir) í saltfiski sem hafa bætt miklu við okkar þekkingu á saltfiskverkun og staðan í saltfiskvinnslu hefur gerbreyst. Einn doktorsnemandinn tók það að sér að skoða hvernig salt fer inn í vöðvann og hvaða áhrif það hefði á nýtingu og gæði. í meistaranáminu hafði hann áður skoðað hvaða áhrif ferskleiki hráefnisins hefði á saltupptöku í verkunarferlinu. Þá var t.d skoðað hvort það ætti að salta strax og fiskurinn var veiddur eða láta það bíða sem reyndist raunin. Nú er fiskurinn saltaður eftir tvo daga, þegar dauðastirðnun er lokið, þar sem dauðastirðnun hefur neikvæð áhrif á verkun.“

Baráttan um fosfatið Margir muna eflaust eftir umræðunni um notkun fosfats í saltfiskverkun og bann Evrópusambandsins árið 2010 við notkun þess, en þá var ákveðið að notkun fosfats við verkun saltfisks flokkaðist undir aukefni og þurfti að koma því inn á aukefnalista. Fyrir þann tíma var litið á fosfatið sem tæknilegt hjálparefni ef það var notað við verkun saltfisks og þá þurfti ekki að fá leyfi til þess og einnig þurfti ekki að taka það fram á umbúðum að það hafi verið notað í verkunarferlinu. Það var mikill þyrnir í augum saltfiskverkenda að þurfa að flokka viðbætt fosfat sem aukefni þar sem fiskur er að öllu jöfnu afar hrein afurð og inni­

heldur fosfat frá náttúrunnar hendi. Menn töldu því brýnt að fá þessu banni aflétt. Það er þarna sem Sigurjón kemur að málinu þótt eflaust séu margir sem ekki eru meðvitaðir um það. „Það var talið að fosfatið hefði áhrif á bindieiginleika fisksins þannig að meira vatn yrði eftir í honum og hann yrði því síður gulur. Þetta vildi ég skoða og fór annar doktorsnemandinn í það að skoða áhrif fosfats í saltfiskverkun. Í rannsóknum hans kom í ljós að þetta var ekki rétt, það sem fosfatið gerir er að binda kopar og aðra málma þannig að fitan í fiskinum þránar ekki og hann gulnar því ekki. Í þorski er ekki nema 0,9% af fitu en hún er hins vegar einstaklega viðkvæm fyrir þránun út af omega 3 fitusýrunum, sem er einmitt það sem gerir fiskinn svona hollan. Málið snerist því ekki um að finna leiðir til þess að gera fiskinn hvítan heldur hjálpa honum að varðveita hvíta litinn sem er það sem markaðurinn vill.“ Tveir doktorsnemanna komu að mælingunum og var Sigurjón viss í sinni sök um skaðleysi fosfatsins og raunverulega virkni þess. Útgerðarfyrirtækin Vísir og Þorbjörn og aðrir saltfiskframleiðendur studdu vel við hann og eftir að íslenskir saltfiskframleiðendur stofnuðu með sér félag (Íslenskir saltfiskframleiðendur, ÍSF), bættust samtökin í þann hóp. Fór

Sigurjón margsinnis til fundar við yfirvöld í Brussel í þeim tilgangi að fá reglunum breytt. „Það tókst á þremur árum og það var vegna þess að við vorum búin að vinna heimavinnuna og gátum sýnt fram á að fosfatið hafði þann tilgang sem við héldum fram. Annars hefði það ekki tekist.“

Uppfyllum óskir markaðarins

Sigurjón segir að íslenskur sjávarútvegur hafi ávallt lagt á það áherslu að uppfylla óskir markaðarins og því sé stöðugt eitthvað nýtt sem vekur áhuga á að skoða fisk og vinnslu hans varðar. „Þetta gildir ekki síst um saltfiskinn sem hefur lengi verið okkur mikilvægur. Bæði söltunaráhrif og verkunaraðferðir skipta máli og við vildum t.d. skoða hvað söltun

væri nákvæmlega, hvernig geymslu­ og verkunarferlið væri á öllum stigum og margt fleira. Markaðurinn vill fá verkaðan og hvítan saltfisk með réttri áferð og þá er það keppikefli hjá okkur að verða við því. Spánverjar, Ítalir og Grikkir vilja fá fallegan hvítan saltfisk sem fleygast í sundur við matreiðslu og vegna þess að okkur tókst að afhenda þannig fisk unnum við þann markað og höfum haldið honum. Í Portúgal vilja menn svo gulan fisk og grófverkaðri og þá uppfyllum við þær óskir líka.“ Sigurjón segir að hvíti saltfiskurinn sé sá sem honum finnst bestur en sá er pæklaður en sá guli er pækilsaltaður. „Munurinn á þessu er sá að þegar maður pæklar fisk er saltpækli sprautað inn í holdið og fiskurinn látinn liggja í pækli í tvo daga. Síðan er fiskurinn þurrsaltaður í tvær vikur. Það kom í ljós í rannsóknum að vegna þess hve hnakkinn er þykkur vantaði söltun á því svæði og því er sprautað í hnakkann til þess að jafna saltmagnið í fiskinum. Með þessari aðferð höldum við líka próteinmagninu að mestu í fiskinum. Þegar við verkum saltfiskinn fyrir Portúgal er fiskurinn hins vegar settur í lokað ker með salti og saltið dregur vatnið úr vöðvanum og leitar inn í fiskinn á sama tíma, þar til að það er komið jafnvægi á saltstyrk í pæklinum og inni í fiskholdinu. Þessi aðferð eyðileggur/eðlissviptir ysta próteinlagið í fiskinum og saltið kemst ekki langt inn. Að auki virkar próteinið í þeim fiski eins og gúmmímotta og fiskurinn fleygast ekki jafn vel.“

Ferlahugsun er nauðsynleg

Saltfiskur hefur um langa hríð vegið þungt í efnahagi landsins og hafa menn því lagt áherslu á að halda hlut okkar á saltfiskmörkuðum. „Þetta hefur tekist og við fáum besta verðið í þessum löndum því við erum með gæðafisk sem er verkaður samkvæmt óskum markaðarins. Norðmenn urðu hins vegar undir í þessari samkeppni því þeir sögðu: Þetta er það sem við framleiðum. Þá vantaði þennan sveigjanleika sem við höfðum,“ segir Sigurjón. Íslenskir framleiðendur vilji sífellt gera betur og betur.

Saltfiskur til sölu á Spáni.

„Þegar kvótinn var skorinn mikið niður fyrir um 25 árum tókst okkur með stýringu og uppbyggingu þekkingar að byggja upp verðmætasköpun og halda okkar hlut. Við jukum nýtingu, bættum gæðin og buðum upp á rétta afurð á markaði. Þannig fengum við hærra verð.“ Sigurjón segir að það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið öflug samvinna rannsóknaraðila og iðnaðar en því hafi ekki verið þannig farið í Noregi sem hafi ekki áttað sig á þessum ávinningi fyrr en nýlega og rói nú að því öllum árum að ná okkar forskoti. „Við erum til dæmis fyrir löngu búin að átta okkur á mikilvægi þess að þekkja og stjórna hverju einasta skrefi í ferlinu frá því að fiskurinn er veiddur og þar til hann fer á diskinn hjá neytandanum.“

Veiðitímabilið mikilvægt

Sigurjón segir að veiðitímabilið sé annar þáttur sem hafi haft mikið að segja um velgengni Íslendinga á mörkuðum. „Með því að láta kvótatímabilið byrja 1. september þá eru ekki allir á vertíð á sama tíma heldur dreifist aflinn yfir tímabilið. Nú er verið að veiða þorsk frá september og fram í apríl þegar gæði hans eru sem mest en ekki á vorin eða sumrin þegar hann fer á „fæðingardeildina“ og er svo að jafna sig eftir hrygningu. Sigurjón segir að önnur ástæða sé sömuleiðis fyrir því að taka ekki þorsk til saltfiskverkunar á sumrin. „Við höfum skoðað talsvert vatnsinnihald í fiski og komist að því að það er talsvert mismunandi eftir árstíma. Það er meira af þurrefni í fiskinum á haustin og veturna, 19% á móti 17% á vorin og sumrin; sem gerir það að verkum að nýting hækkar um 5% ef fiskurinn er ekki veiddur að sumri.“

Blóðgun og kæling

Nú þegar tökum hefur verið náð á söltunarferlinu sjálfu segir Sigurjón að næst verði augunum beint að blæðingu og kælingu sem séu ekki síður mikilvægir þættir Bæta megi þekkingu á áhrifum blóðs á gæði. „Það er nauðsynlegt að láta blæða vel og kæla. Rétt meðferð hráefnisins um borð er gríðarlega mikilvæg, maður breytir ekki lélegu hráefni í lúxusvöru.“ Hann segir að í dag sé verið að byggja á gamalli vitneskju um blæðingu og kælingu og þarna sé rými til þess að bæta sig. Unnið sé að því að afla nýrrar þekkingar í samvinnu við HB Granda, Samherja og Fisk Seafood og hafi doktorsnemandi (Sæmundur Elíasson) t.d. verið um lengri tíma á sjó og náð í mikið af gögnum sem nú þurfi að vinna úr. Niðurstöðurnar eigi eftir að skila þeim miklu. Sigurjón segist sömuleiðis vilja skoða betur hvernig hægt sé að draga úr tapi á fiskholdi, þ.e. hvernig má koma í veg fyrir tægjur og sömuleiðis finna leiðir til að draga úr tapi næringarefna eins og prótíns sem myndi auka nýtinguna enn frekar. Þá mætti horfa til fleiri vöruflokka saltfiskafurða, eins og hausa, kinna og gella.

Unnið að saltfskþurkun hér áður fyrr.
Verið að salta þorskinn.
Þorskur saltaður á gamla mátann.
Gullfallegir saltfiskhnakkar til sölu á Spáni.

Faxaflóahafnir stærstar í botnfiski

Mestum botnfiskafla á landsvísu var landað í Reykjavíkurhöfnum Faxaflóahafna á síðastliðnu ári samkvæmt gögnum Fiskistofu. 65.666 tonnum var landað á árinu 2024, sem er ríflega 15% af öllum botnfiskafla sem landað var á Íslandi það ár. Þetta er aukning um rúmlega 7 þúsund tonn frá árinu 2023, sem má að einhverju leiti rekja til góðrar dragnótaveiði í Faxaflóa sem skilaði þúsund tonnum aukalega ásamt almennri aukningu í löndunum í Reykjavík. Landaður botnfiskafli í Vestmannaeyjum var 36.349 tonn og í Hafnarfirði 33.722 tonn. Það varð loðnubrestur árið 2024 sem varð þess valdandi að landaður uppsjávarafli varð aðeins 10.300 tonn í öllum höfnum Faxaflóahafna. Akraneshöfn er mikilvæg löndunarhöfn uppsjávarafla og varð loðnubresturinn þess valdandi að aðeins 8.930 þúsund tonnum af uppsjávarafla var landað þar á árinu 2024.

Hafnir Reykjavíkur áfram mikilvægar sjávarútvegshafnir

Gamla höfnin í Reykjavík á sér yfir hundrað ára sjávarútvegs­ og atvinnusögu og er samofin þeim samfélagsbreytingum sem hafa orðið í höfuðborginni og Íslandi öllu. Nýjar atvinnugreinar hafa vaxið fiskur um hrygg síðastliðna áratugi og sett myndarlegan svip sinn á hafnarlífið. Hafnirnar í Reykjavík eru mikilvægar botnfiskhafnir, og á starfssvæði Faxaflóahafna í Reykjavík er gleðilegt að sjá að sjávarútvegur er mikilvægur þáttur í starfseminni nú sem áður fyrr.

Aðalhafnargarðurinn á Akranesi lengdur

Til að bæta aðgengi fyrir fiskiskip, farþegaskip og önnur þau skip sem höfnin á Akranesi þjónustar verður ytri hluti Aðalhafnargarðsins lengdur um 120 metra. Heildarlengd þess hluta bakkans verður þá 220 m. Áætlað er að framkvæmdum ljúki á þessu og endurbætt bryggja mun þá þjóna enn betur hlutverki sínu sem löndunarhöfn fyrir uppsjávarog botnfiskafla á vesturlandi. (Birt af vef Faxaflóahafna 11. febrúar 2025)

Snjallvæðing á vatns- og rafmagnsafgreiðslu

á Austurbakka í Gömlu höfninni í Reykjavík

Mikilvægur áfangi Faxaflóahafna í vegferðinni í átt að snjallari og skilvirkari höfnum er náð með nýju sjálfafgreiðslustöðvunum. Í fyrsta áfanga voru settar upp þrjár sjálfafgreiðslustöðvar á Austurbakka, sem þjónusta báta og skip með rafmagn, heitt og kalt vatn. Aðgangur að rafmagni og vatni hefur hingað til krafist þess að hafnarstarfsmenn séu kallaðir til að virkja þjónustu á staðnum og skrá notkun handvirkt. Með Marineium og Waterstation lausninni frá danska fyrirtækinu Vikingegaarden A/S – Smart IoT solutions. í gegnum Emiko stýrikerfið, getum við nú veitt viðskiptavinum Faxaflóahafna aðgang að skilvirku sjálfsafgreiðslukerfi. Þessar nýju stöðvar veita 24/7 aðgang að rafmagni, köldu vatni og heitu vatni – alla daga ársins. Í gegnum Emiko stýrikerfið geta viðskiptavinir hafnarinnar nú pantað og stjórnað þjónustu í gegnum snjallforrit í símanum, með netgreiðslum, rauntíma fjarvöktun á notkun, skýrslugerð og viðvörunum. Þessi þróun eykur ekki aðeins þægindi viðskiptavina heldur bætir einnig skilvirkni, og mætir kröfum markaðarins um skilvirka miðlun á umhverfisspori vörunnar alla leið til neytenda.

Sjálfsafgreiðslustöðvar á öðrum bryggjum og bökkum Faxaflóahafnir stefna að því að þessar sjálfafgreiðslustöðvar leysi smátt og smátt af hólmi núverandi fyrirkomulag. Til að byrja með verður horft til afgreiðslu á rafmagni til smábáta sem í dag er leyst með sérstökum mælasnúrum með álestri. (Birt af vef Faxaflóahafna 13. febrúar 2025)

Okkar aðall okkar gæði

Sigurður gerir út trilluna Svölu Dís KE – 29.

Skötuselurinn var vanmetin auðlind

Það má kannski segja að Sigurður Haraldsson sé ekki hinn hefðbundni trillukarl í orðsins fyllstu merkingu, þrátt fyrir að hann hafi gert út trillu í hátt í tuttugu ár. Hann hefur farið aðrar leiðir en margir aðrir í sömu starfsstétt. Sigurður var einn þeirra fyrstu sem veðjuðu á skötuselsveiðar, enda kom hann fljótt auga á að hann væri mun verðmætari en þorskur. Nú eltir hann hins vegar makrílinn um miðin við Íslandsstrendur.

Sigurður er fæddur og uppalinn í Keflavík, bænum sem oft er kenndur við Bítlana, enda var og er mikil gróska í tónlistarlífinu þar í bæ. En það er ekki bara tónlistin sem blómstrar í Reykjanesbæ eins og bæjarfélagið nefnist í dag. Þar er einnig stunduð blómleg útgerð af miklum móð. Siggi eins og Sigurður er gjarnan kallaður ákvað ungur að leggja fyrir sig sjómennskuna. „Það voru hvorki sjómenn í föður­ né móðurfjölskyldunni minni. Mér fannst eitthvað heillandi við sjómennskuna og var viss um að það væri eitthvað sem hentaði mér vel,“ segir Siggi. Og það má segja að hann hafi hitt naglann á höfuðið því hann er enn að, nú þremur áratugum eftir að hann fór fyrst á sjó 16 ára gamall.

„Fyrsta rúma áratuginn og eitthvað í þá veru var ég á sjó hjá öðrum. Ég var á vertíðarbátum en það er mikil erfiðisvinna og fjarvistir frá fjölskyldunni oft mjög langar. Bátarnir fylgdu fiskinum og stundum voru þeir jafnvel gerðir út frá Austfjörðum sem þýddi að ég kom kannski heim tvær helgar í mánuði. Þegar við gerðum svo út héðan þá fórum við út klukkan þrjú á nóttinni og komum í land um kvöldmatarleytið þannig að þetta var mjög ófjölskylduvænt starf.“

„Það voru hvorki sjómenn í föður­ né móðurfjölskyldunni minni. Mér fannst eitthvað heillandi við sjómennskuna og var viss um að það væri eitthvað sem hentaði mér vel.”

Vildi gera út sjálfur

Siggi vildi þó ekki hætta á sjónum en ákvað engu að síður að breyta til. Hann var með skipstjórnarréttindi og bjó því við ákveðið frelsi. „Ég ákvað árið 2001 að kaupa mér trillu og hefja útgerð og þar með var ég orðinn minn eigin herra. Ég sá fyrir mér að geta verið meira heima og róa eftir veðri.“ Á þeim tíma sem Siggi var að hefja sína útgerð var kerfið örlítið hagstæðara en það er núna. Hann segir að í dag sé varla gerlegt

Sigurður Haraldsson keypti smátt og smátt skötuselskvóta og þegar mest lét hafði hann heimild til að veiða fimmtíu og tvö tonn eða um tvö prósent af heildarkvótanum.

að hefja smábátaútgerð, kvótaleigan sé of há og ætli menn að kaupa kvóta þurfi eigið fé að nema um 30%]. „Ég byrjaði á því að leigja mér kvóta en eftir fyrsta árið sá ég að útgerð byggð á því kerfi myndi ekki ganga upp enda endaði það ár í tapi hjá mér,“ segir Siggi og bætir við: „Ég lagði því spilin á borðið og komst að þeirri niðurstöðu að ef ég ætlaði að halda útgerðinni áfram væri nauðsynlegt fyrir mig að koma mér inn í kerfið, vinna með því en ekki á móti og kaupa mér kvóta.“ Á þessum árum var til nokkuð sem hét Jöfnunarsjóðskvóti. Hann virkaði þannig að hann fylgdi bátum en varð ekki virkur nema útgerðin ætti kvóta á móti. „Það var á þennan hátt sem ég komst inn í kerfið. Ég keypti ódýran Jöfnunarsjóðskvóta, um fjórtán tonn, og þar með gat ég farið í bankann og fengið lán fyrir hinum fjórtán tonnunum sem upp á vantaði til að gera kvótann frá sjóðnum virkan. Ég var þá kominn með veiðiheimild upp á tuttugu og átta tonn og veðið því orðið miklu rýmra en ella hefði verið.“

„Ég ákvað árið 2001 að kaupa mér trillu og hefja útgerð og þar með var ég orðinn minn eigin herra. Ég sá fyrir mér að geta verið meira heima og róa eftir veðri.”

Skötuselurinn var bjargvættur

Kvótinn sem Siggi hafði yfir að ráða var upp á þorsk. Hann hafði hins vegar uppi aðrar hugmyndir um nýtingu hans að stórum hluta. Á þessum tíma voru skötuselsveiðar lítt stundaðar og þar sá Siggi tækifæri. Mjög fáir stunduðu þessar veiðar en eftirspurnin var mikil og verðið hátt. „Ég var á grásleppu en fékk oft skötusel í netin. Ég komst fljótt að því að það var mun arðvænna að veiða skötusel en t.d. þorsk. Ég ákvað því að veðja á skötuselinn og var með þeim fyrstu sem gerði út á skötusel frá Reykjanesinu. Útgerðir höfðu yfirhöfuð lítinn áhuga á þessari fisktegund. Hún var í kvóta en ég gat skipt út þorskkvóta fyrir skötusel og þar gilti tonn á móti tonni. Með þessu náði ég að margfalda virði kvótans og þar með tekjurnar. Verðið sem fékkst fyrir kíló af skötusel var kannski þrefalt hærra en það sem fékkst fyrir kíló af þorski.“ Til að byrja með nýtti Siggi grásleppunetin við veiðar á skötusel, eitthvað sem mátti á þessum árum en er ekki leyfilegt nú. „Það hefði verið mjög dýrt og erfitt að koma sér upp netum sem sérstaklega eru ætluð til skötuselsveiða á einu bretti,“ segir Siggi og bætir við: „Ég byrjaði smátt, keypti eina trossu í einu. Þegar fyrsta trossan hafði borgað sig fjárfesti ég í annarri og svo koll af kolli þar til ég átti nægilega margar til að stunda veiðarnar af fullum krafti.“

900 kg skiluðu meira en 3 tonn

Siggi fann fljótt út að hann þyrfti að auka kvótann og ákvað að snúa sér nær alfarið að skötuselsveiðum. „Smátt og smátt keypti ég skötuselskvóta og þegar mest lét hafði ég heimild til að veiða fimmtíu og tvö tonn eða um tvö prósent af heildarkvótanum. Þetta endaði með því að níu mánuði á ári snérist útgerðin hjá mér um skötuselsveiðar, hina mánuðina gerði ég út á grásleppu og þorsk.“ Siggi segir að á þessum árum hafi útgerðarmenn almennt ekki komið auga á verðmætin sem fólust í skötuselnum. „Ég man eftir því að ég var kannski að koma í land með níuhundruð kíló af skötusel í land á meðan aðrir voru með tvö til þrjú tonn af þorski, þá var glott út í annað og jafnvel hlegið að mér. Mönnum þótti aflinn heldur rýr hjá mér. Staðreyndin var hins vegar sú að mín níuhundruð kíló skiluðu meira en tvö til þrjú tonnin þeirra – og ég leyfði þeim bara að hlæja.“ Siggi segir að skötuselsveiðar henti einkar vel fyrir trilluútgerð. „Skötuselurinn lifir lengur í netunum en t.d. þorskur. Því skiptir ekki svo miklu máli að það sé ekki hægt að sækja sjóinn daglega t.d. vegna veðurs þar sem aflinn liggi ekki undir skemmdum.“

„Ég ákvað árið 2001 að kaupa mér trillu og hefja útgerð og þar með var ég orðinn minn eigin herra. Ég sá fyrir mér að geta verið meira heima og róa eftir veðri.”

Hrunið setti strik í reikninginn

Siggi unni sér vel á sjónum og útgerðin blómstraði enda lagði hann allt að veði og stundaði sjóinn af ástríðu. Eins og hjá svo mörgum öðrum setti hrunið hins vegar strik í reikninginn. „Ég var með íslensk lán sem voru samt sem áður tengd gjaldeyri. Við hrunið stökkbreyttust þau. Næstu fjögur ár barðist ég í bökkum við að standa skil á skuldum útgerðarinnar. Síðar kom svo í ljós að þessi lán voru dæmd ólögleg og mér bauðst að semja upp á nýtt. Þeir samningar voru hins vegar þess eðlis að ég sá mig tilneyddan til að selja félagið að undanskildum bátnum. Ég réð ekki við afborganirnar og sá að það myndi taka mig þrjú til fjögur ár að éta mig innan frá.“ Þegar Siggi talar um þetta færist þungi í svipinn enda segir hann að það hafi verið erfitt að sjá á eftir útgerðinni. „Ég var alls ekki sáttur enda hafði ég haft mikið fyrir því að byggja upp útgerðina. Ég var með fínar heimildir og ætlaði mér

að halda áfram. Ég sé hins vegar ekki eftir því núna að hafa selt enda opnast alltaf nýjar dyr þegar aðrar lokast.“

Siggi hélt bátnum eftir eins og áður segir og gerir hann út yfir sumartímann. „Ég ákvað að hella mér af kappi út í makrílveiðarnar og kom mér upp búnaði til að geta stundað þær. Ég lagði svo mjög hart að mér meðan á viðmiðunarárunum stóð. Ég elti hann um öll mið til að ná að veiða sem mest. Aflinn sem veiddist á þessum tíma var hafður til hliðsjónar þegar bátunum var síðan úthlutaður makrílkvóti. Ég er því með góðar makrílheimildir núna og má veiða um níutíu til hundrað tonn á ári.“

Tekur enga áhættu þegar veðrið er annars vegar

Siggi kann vel við sig á sjónum og þá ekki síst í trilluútgerðinni enda sinn eigin herra þar. Hann segir að það sé mikill munur á að starfa um borð í vertíðarbátum eða trillu. „Vinnan er allt öðruvísi og lögmálin önnur. Veðrið skiptir t.d. miklu meira máli þegar maður er á litlum bát en stórum. Það stjórnar meira hvenær farið er á sjó og hvenær heima er setið.“ Þar sem Siggi var reyndur sjómaður þegar hann hóf útgerðina vissi hann að sjálfsögðu um hætturnar sem geta leynst í veðurofsanum en þar sem hann hafði alltaf verið á stórum bátum gat verið auðvelt að misreikna sig.

„Ég fékk ágætis viðvörun strax á fyrsta árinu sem ég gerði út á trilluna. Ég var með net í Garðssjó sem ég þurfti að vitja um. Ég vissi hins vegar að spáin var vond en tók áhættuna. Þegar ég lagði úr höfn var blankalogn – svokallað svikalogn. En þar sem það var stutt að fara og við skjólmegin við landið ákvað ég að taka áhættuna. Þegar ég var að verða búinn að vitja um netin skall veðrið á af miklum ofsa. Ég ákvað að hætta að draga og drífa mig í land. Sú ferð rennur mér seint úr minni. Veðrið var snældusnarvitlaust og sigling sem átti að taka klukkustund varð að sex klukkutíma barningi. Ég get ekki neitað því að ég fann fyrir mikilli hræðslu þarna og hef haft það að leiðarljósi síðan að fara að öllu með gát og taka enga óþarfa áhættu þegar veðrið er annars vegar.”

Tannlaus um tíma

Steinbíturinn er venjulega orðinn rýr á vorin og sækir þá fæði upp á grunnslóð. Þá er hann að leita að botndýrum eins og skeljum, kúfiski, sniglum, krabbadýrum og ígulkerum ásamt loðnu og öðrum fiski. Á þessum tíma hafa honum vaxið nýjar tennur en hann missir þær um hrygningartímann og er tannlaus um tíma og tekur þá ekki til sín fæðu. Hrygningartíminn stendur yfir frá október til nóvember og aðalhrygningarstöðvarnar eru á 160­200 metra dýpi undan Vesturlandi og Vestfjörðum.

Steinbíturinn er veiddur að mestu leyti á línu eða rúmlega helmingur aflans. Aflinn er fenginn allt í kringum landið en að mestu leyti á Vestfjörðum og sunnanverðum Faxaflóa á vorin og sumrin sem og við SA­land á sumrin. Steinbít er einnig að finna í öllu N­Atlantshafi, bæði austan og vestan megin. (Heimild: Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson, Fjölvi 1992).

Kúlaðan steinbít eða sigin steinbítsflök telja margir algert sælgæti. Þessar sannkölluðu sjávarperlur eru eitt best geymda leyndarmál sjávar fangs hér við land. Þeir sem vilja gæða sér á þessu ljúfmeti ættu að prófa að hafa með vestfirskan hnöðmör eða vestfirðing eins og hann er kallaður, ásamt soðnum kartöflum.

Fækkað á undanförnum árum

Fram kemur á vef mbl.is að fiskiskipum hefur fækkað töluvert á undanförnum árum. Þá kemur fram að í árslok 2024 voru fiskiskip 1.531 en til samanburðar voru þau alls 1.814 hér á landi árið 2014. Þessi gögn eru sótt á heimasíðu Hagstofu þar sem vitnað er til talna frá Samgöngustofu. Þá eru flest skip smábátar og hefur haldist svipaður síðustu árin eða 820 og hefur fjöldi þeirra haldist mjög svipaður síðustu árin. Smábátarnir eru á bilinu frá 3­7 tonn og um 88% smábátanna eru yfir 20 ára gamlir að sögn Hagstofunnar.

Hinsvegar hefur togurum fækkað jafnt og þétt á síðustu árum, þeir voru 70 árið 2004 en voru 37 á síðasta ári. Þá hefur vélskipum einnig fækkað með árunum, þau voru 869 árið 2004 en eru nú 675 talsins.

Sjávarafl/ Óskar Ólafsson

Semja um rekstur Vaktstöðvar siglinga

Fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar, þann 28. mars að Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, undirrituðu í vikunni samning um rekstur Landhelgisgæslunnar á Vaktstöð siglinga. Þá er sagt að samningurinn verði til tíu ára og samkvæmt honum tekur Landhelgisgæslan að sér að stýra og manna vaktstöð siglinga og framkvæma þau verkefni sem vaktstöð siglinga er falið með lögum og reglugerðum. Vaktstöð siglinga starfar allan sólarhringinn alla daga ársins í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Umrædd breyting sem felst í samningi þessum er sú að Vegagerðin semur nú beint við Landhelgisgæslu Íslands um rekstur Vaktstöðvarinnar en Neyðarlínan bar áður ábyrgð á rekstrinum og fól Landhelgisgæslunni framkvæmdina en tæknilegur hluti Vaktstöðvarinnar er áfram í höndum Neyðarlínu. Samningur felur í sér það markmið að uppfylla ákvæði laga um vaktstöð siglinga en markmið laganna er að tryggja öryggi og skilvirkni siglinga í íslenskri efnahagslögsögu, eftirliti með umferð skipa og upplýsingaskiptum í þágu siglingaöryggis, öryggi skipa, farþega og áhafna og siglingavernd. Þá er Vegagerðin ábyrg fyrir starfsemi Vaktstöðvarinnar en framkvæmdin er sem áður segir á forræði Landhelgisgæslu Íslands samkvæmt samningnum.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Ljósmynd Landhelgisgæslan

Meðal helstu verkefna Vaktstöðvar siglinga er vöktun og eftirlit sjálfvirks tilkynningakerfis skipa (STK), þ.m.t. sjálfvirks alþjóðlegs auðkenningarkerfis skipa (AIS), móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning, móttaka og miðlun neyðarkalla til viðeigandi aðila auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó.

Einfalt og gott

Það gerist ekki einfaldara en að búa til svokallaðar Amerískar pönnukökur og getur meðlætið verið eins og hugur manns óskar eftir.

Hægt er að hafa lárperu (avókado), papriku en best er að hafa þær rauðar eða gular, beikon og spælt egg. Einnig má setja sýróp, osta, ferska niðurskorna ávexti eins og jarðarber ofl.

Bara eins og hugurinn girnist

Efni:

• Ca 12 pönnukökur

• 4 dl hveiti

• 3 tsk lyftiduft

• ½ tsk sykur

• 2 lítil egg

• 4 dl mjólk

• Smá salt

• 4 msk brætt smjör

Aðferð:

Blandið fyrst öllum þurrefnum saman og svo mjólk, eggjum og smjöri. Hrærið vel og steikið á pönnukökupönnu.

Magn sem steikt er í einu er rúmlega hálfur bolli.

Þau fiska sem þróa

Aukið virði sjávarafurða í krafti rannsókna og nýsköpunar

Náttúran fer sínu fram

Í strangri sambúð við náttúruna horfum við áfram til hafs. Einbeittari en nokkru sinni.

Hafið hefur kennt okkur auðmýkt gagnvart náttúruöflunum og ábyrgðartilfinningu gagnvart lífríkinu. Hafið hefur kennt okkur að hagnýta tæknina af virðingu fyrir fiskum og mönnum.

Visirhf.is

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.