Skólaskýrsla 2013

Page 53

Á árunum 2005–2012 jókst rekstrarkostnaður vegna leikskóla um rúma 7ma.kr. eða 33% og mest á öndverðu tímabilinu eða fram til ársins 2007. Fram til ársins 2008 er þróunin sú að rekstrarkostnaður hækkar ár frá ári. Árið 2009 stendur kostnaður að raungildi í stað miðað við fyrra ár og hefur síðan dregist saman frá fyrra ári eða staðið í stað. Þjónustutekjur drógust hins vegar saman um 18% á tímabilinu eða um rúman milljarð króna. Athygli vekur að árið 2011 snýst þróunin við og þjónustutekjur aukast um 6% miðað við fyrra ár og aukast aftur um 8% árið 2012 miðað við fyrra ár. Þá hefur hlutfall þjónustutekna af rekstrarkostnaði lækkað árið 2012 miðað við árið 2004 eða úr 29% í 18%, en hækkar um eitt prósentustig sé litið til fyrra árs. Fróðlegt er að skoða á hve hátt hlutfall af rekstrarkostnaði við leikskóla er bókfært á innri leigu, en það er æði misjafnt milli sveitarfélaga og stofnana. Sé litið á innri leigu sem hlutfall af brúttó rekstrarkostnaði þá er það allt frá 0% og upp í 25%. Vegið meðaltal fyrir allt landið er um 11%. Sveitarfélög verja mismiklu hlutfalli af skatttekjum sínum til reksturs leikskóla, allt frá 4% og upp í 17% af skatttekjum. Flest sveitarfélög, eða 30 talsins, verja á milli 13-16% af skatttekjum sínum til reksturs leikskóla. Vegið meðaltal allra sveitarfélaga er 14% af skatttekjum og hefur hækkað um tvö prósentustig frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður á hvert heilsdagsígildi leikskólabarns árið 2012 nettó nam 1.292 þús.kr. á landsvísu og lækkar að raungildi frá fyrra ári um 2% en er 30% hærra en það var 2005. Brúttó kostnaður á hvert heilsdagsígildi var 1.578 þús.kr. á landsvísu árið 2012 og stóð í stað að raunvirði frá fyrra ári en er 14% hærri en hann var árið 2005.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.