ÍSLANDSPÓSTUR
SIÐAREGLUR 1. MARKMIÐ 1.1. Markmiðið með siðareglum Íslandspósts er að setja siðferðilegan ramma innan fyrirtækisins sem byggir m.a. á grunngildunum Traust, Vilji og Framsækni. Með reglunum er leitast við að viðhalda heiðarleika starfsmanna og að tryggja að siðferðileg sjónarmið séu virt. Við viljum að Íslandspóstur sé þekktur fyrir hátt siðferði og jákvæða fyrirtækjamenningu. 1.2. Traust: Við höfum það orðspor að vera ábyrg og það eru grunngildi okkar að vera traustsins verð. Við sýnum heilindi í samskiptum og vinnubrögðum, bæði inn á við og út á við. Við leggjum áherslu á skilvirkni og gæði þjónustu okkar og viðhöldum þannig trausti viðskiptavinarins. 1.3. Vilji: Við erum jákvæð og veitum framúrskarandi þjónustu. Við komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Við erum kröftug og göngum rösklega til verka. 1.4. Framsækni: Við leitum að tækifærum og bætum stöðugt frammistöðu okkar. Við sýnum frumkvæði og metnað í starfi og sækjum þannig fram á við. Við erum óhrædd við að fylgja hugmyndum okkar eftir.
2. HVERN SNERTA SIÐAREGLURNAR? 2.1. Siðareglurnar ná til allra þátta í starfsemi Íslandspósts og allra starfsmanna fyrirtækisins. 2.2. Starfsmenn fyrirtækisins bera ábyrgð á því að þekkja siðareglurnar og fylgja þeim í daglegum störfum.
3. SIÐANEFND 3.1. Siðanefnd er skipuð af forstjóra. 3.2. Hlutverk siðanefndar er að hafa eftirlit með því að siðferðilegum viðmiðunum Íslandspósts sé framfylgt.
4. ÍSLANDSPÓSTUR ER ÁBYRGUR VINNUVEITANDI 4.1. Íslandspóstur er faglegur vinnuveitandi sem virðir grundvallarmannréttindi. 4.2. Hjá fyrirtækinu viðurkennum við fjölbreytileika hvers annars og nýtum hann til góðs. Íslandspóstur samþykkir ekki óréttlæti eða mismunun vegna kynferðis, skoðana, aldurs, efnahags, trúarbragða, litarháttar og þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar eða stöðu að öðru leyti.