



Nú heldur Sviðslistamiðstöðin brátt upp á þriggja ára afmæli sitt. Hún tók til starfa 1. febrúar 2022, þegar ég settist í stól framkvæmdastjóra. Miðstöðin var síðust í röð listgreinanna til að fá eigin miðstöð, og það tók tíma að leggja traustan grunn að starfseminni og byggja upp tengslanet innanlands sem utan.
Miðstöðin er rekin fyrir rekstrarstyrk frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en snemma varð ljóst að fjármagnið myndi aðeins duga fyrir einum starfsmanni – framkvæmdastjóranum. Þrátt fyrir þetta hefur okkur tekist, með öflugri og fjölbreyttri stjórn, að móta metnaðarfulla stefnu, setja fram skýr markmið og framkvæma aðgerðir sem styðja við sviðslistir á Íslandi.
Á þessum stutta tíma höfum við stutt yfir 50 sýningarferðir erlendis, þýtt tíu leikrit, ferðast með listafólk á hátíðir og markaði í Evrópu og Norður-Ameríku, haldið námskeið, birt viðtöl við tólf listamenn á Íslandi í bæði hlaðvarpsformi og greinaskrifum og eflt sviðslistafólk með fræðslu og þjálfun. Jafnframt höfum við unnið að því að standa vörð um hagsmuni sviðslistageirans í hvívetna – allt þetta með einum starfsmanni við stjórnvölinn.
Á nýju ári hyggjumst við halda áfram á þessari braut og bæta í. Við munum kynna nýja ferðastyrki fyrir innanlandsferðir, leggja sérstaka áherslu á að kynna íslensk leikskáld á alþjóðavettvangi og efla umræðu um sviðslistir með málþingum og öflugri útgáfu. Nýlega var undirritaður samningur um rekstur miðstöðvarinnar til næstu tveggja ára, og stefna okkar og aðgerðaáætlun verður endurskoðuð með hliðsjón af þeim áskorunum og tækifærum sem við sjáum framundan.
Sviðslistamiðstöðin er komin til að vera. Með nýja sviðslistastefnu fyrir Ísland, sem bíður þess að verða lögð fyrir þing, er ljóst að miðstöðin á eftir að vaxa og styrkjast enn frekar á komandi árum. Ég hlakka til að vinna áfram í þágu alls sviðslistafólks og sjá íslenskar sviðslistir blómstra.
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar Íslands
Sviðslistamiðstöðin veitir ferðastyrki þrisvar á ári – í janúar, maí og september – til að styðja sviðslistafólk á sýningaferðalögum og þátttöku í viðburðum erlendis. Markmið styrkjanna er að auka sýnileika sviðslista og skapa ný tækifæri fyrir listafólk frá Íslandi á alþjóðavettvangi.
Miðstöðin veitir 75 þúsund króna styrk fyrir hvern einstakling fyrir ferðir innan Evrópu en 100 þúsund fyrir ferðir utan Evrópu.
Á árinu 2024 úthlutaði miðstöðin samtals 4.975.000 krónum til 15 verkefna, sem nýttust 64 einstaklingum. Samtals bárust 25 umsóknir, upp á 7.350.000 krónur fyrir 93 einstaklinga. Flestar umsóknir voru tengdar sýningarferðum innan Evrópu, þar sem íslenskt sviðslistafólk kynnti verk sín á hátíðum, í leikhúsum og öðrum alþjóðlegum vettvöngum.
Þannig stuðlaði miðstöðin að aukinni dreifingu sviðslista frá Íslandi og styrkti tengsl við erlenda samstarfsaðila. 15 verkefni 4.975.000 64 listamenn
Þýðingarstyrkir eru veittir tvisvar á ári – í febrúar og október – til að styðja við þýðingar á íslenskum leikritum og sviðsverkum fyrir erlenda markaði.
Á árinu 2024 bárust alls sjö umsóknir, og fimm verk hlutu styrk:
• Lúna eftir Tyrfing Tyrfingsson
• … og hvað með það? eftir Árna Pétur
Guðjónsson, Rúnar Guðbrandsson og
Sigurð Edgar Andersen
• Helgi Þór Rofnar eftir Tyrfing Tyrfingsson
• Sýslumaður dauðans eftir Birni Jón
Sigurðsson
• Ariasman eftir Tapio Koivukari til textunar fyrir Kómedíu leikhúsið
Þýðingar þessara verka auka sýnileika íslenskrar leikritunar og opna dyr að nýjum tækifærum fyrir íslensk leikskáld og sviðslistahópa.
Fagráð er skipað þremur fulltrúum og þremur til vara. Hlutverk þess er að taka ákvarðanir um veitingu ferðastyrkja sem og annarra styrkja sem miðstöðin hefur til úthlutunar og er ráðgefandi um meiriháttar alþjóðleg samstarfsverkefni sem skapast á sviði sviðslista.
Skipan fagráðs skv. tilnefningu SAFAS, samráðsvettvangi fagfélaga í sviðslistum - 1. Apríl 2024 - 31. Mars 2026.
Aðalfulltrúar:
Andri Björn Róbertsson
Aðalbjörg Árnadóttir
Rebekka Ingimundardótti
Varafulltrúar:
Friðþjófur Þorsteinsson
Tinna Grétarsdóttir
Þóra Einarsdóttir
11. 16. nóvember 2024 sótti Sviðslistamiðstöðin sviðslistamarkaðinn CINARS í Montréal. Miðstöðin styrkti þrjá fulltrúa íslenskra sviðslistahópa til þátttöku í Nordic Pulse, samnorrænni pitch-session norðurlandanna:
• Handbendi Brúðuleikhús: Verðlaunað brúðuleikhús með sýningar fyrir alla aldurshópa. Listrænn stjórnandi er Greta Clough, sem hefur yfir áratuga reynslu af alþjóðlegum sýningum.
• Marble Crowd: Verk þeirra eru Moving Mountains in Three Essays og ØLAND, sem hlaut Grímuverðlaun fyrir dans, sviðsmynd og búninga. Saga Kjerulf var fulltrúi hópsins á Nordic Pulse.
• Trigger Warning: Leikhópur stofnaður 2016, sem hefur skapað
heimildaleikhúsverk eins og Hún Pabbi, Velkomin heim og Stroke. Andrea Elín Vilhjálmsdóttir var fulltrúi hópsins.
Þessir hópar kynntu nýjustu verkefni sín á Nordic Pulse, sameiginlegri kynningu Norðurlandanna. Sviðslistamiðstöðin var einnig með bás undir merkjum Nordics Combined, í samstarfi við norrænar kynningarmiðstöðvar.
Viðburðir eins og Nordic Party á Bar Pamplemousse gáfu svo þátttakendum tækifæri til að tengjast alþjóðlegum fagaðilum og efla tengslanet sitt.
CINARS er mikilvægur vettvangur fyrir íslenskt sviðslistafólk til að koma verkum sínum á framfæri og skapa ný tengsl á Norður-Ameríkumarkaði.
Nordics Combined er norrænt samstarfsnet sem sameinar kynningarmiðstöðvar sviðslista á Norðurlöndunum.
Aðilar að netinu auk Sviðslistamiðstöðvar eru:
• Statens Kulturråd (Swedish Arts Council) og Konstnärsnämnden (Swedish Arts Grants Committee)
• PAHN – Performing Arts Hub Norway
• The Danish Agency for Culture and Palaces/ Danish Arts Foundation
• Circus and Dance Info Finland og TINFO (Theater Info Finland)
Markmið Nordics Combined er að efla útflutning norrænna sviðslista á alþjóðavettvangi og styrkja tengslanet listafólks. Meðal samstarfsverkefna eru Tanzmesse, CINARS, Korea-Nordic Connection og Circus Expo.
Á árinu 2024 sameinaðist Nordics Combined um þátttöku í viðburðum eins og Tanzmesse í Düsseldorf og CINARS í Montréal. Samstarfið felur í sér viðburði á borð við tengslanetsfundi og sameiginleg kynningarsvæði, sem stuðla að auknum sýnileika norrænna sviðslista og tengslamyndun á alþjóðlegum vettvangi.
GLEN -stjórnendur og listafólk
Sviðslistamiðstöðin er félagi í GLEN – Great Little European Network – sem var stofnað árið 2023. Netverkið tengir saman sviðslistastofnanir frá átta Evrópulöndum: Íslandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Kósóvó, Slóveníu, Möltu og Luxemborg.
GLEN miðar að því að efla tengsl milli smærri Evrópuþjóða, deila þekkingu og skapa ný tækifæri fyrir listafólk. Þátttaka í netverkinu hefur veitt Sviðslistamiðstöðinni ómetanlegar tengingar við stofnanir í löndum þar sem slík tengsl voru ekki fyrir. Þessi tengsl geta skipt sköpum fyrir íslenskt sviðslistafólk með því að opna nýjar dyr að tækifærum, samstarfi og vettvangi fyrir verk þeirra.
Netverkið hefur tvívegis hlotið 20.000€ skammtíma netverksstyrk frá Norrænu Menningargáttinni (Kulturkontakt Nord). Á árinu 2024 voru fundir haldnir í Tartu og Vilníus, en fundurinn í Riga fór fram haustið 2023. Síðasti fundurinn í þessari styrktarlotu verður haldinn í Reykjavík í apríl 2025. Í tengslum við fundinn í Reykjavík er stefnt að því að kynna íslenskar sviðslistir með sérstakri sýningardagskrá og viðburðum sem efla tengsl við alþjóðlegan vettvang.
Frá Íslandi tók Snæfríður Sól Gunnarsdóttir, leikstjóri og sviðshöfundur, þátt í netverkinu. Hún var valin úr hópi umsækjenda til að taka þátt og hefur verið virkur þátttakandi í þeim tækifærum sem netverkið býður upp á.
Heimasíða
Heimasíða Sviðslistamiðstöðvarinnar var áfram mikilvægur vettvangur fyrir kynningu
á sviðslistum frá Íslandi og til upplýsingagjafar fyrir sviðslistafólk.
Notendur nýttu sér síðuna til að nálgast upplýsingar um styrki, viðburði og alþjóðleg verkefni.
Enn eru tækifæri til að nýta heimasíðuna enn betur, til dæmis með þróun verkfærakistu fyrir listafólk og öflugri upplýsingagjöf sem stuðlar að auknu gagnsæi og virkni. Markmiðið er að auka notagildi síðunnar fyrir sviðslistafólk og fagaðila, bæði á Íslandi og erlendis.
Samfélagsmiðlar Sviðslistamiðstöðvarinnar, Instagram og Facebook, gegna mikilvægu hlutverki í kynningu á íslenskum sviðslistum.
Árið 2024:
• Instagram náði til 13.500 einstaklinga með 23.200 skoðunum (views) og fjöldi fylgjenda (followers) jókst í 941.
• Facebook náði til 29.900 einstaklinga með 10.900 skoðunum og fjöldi fylgjenda jókst í 1.200.
Miðlarnir hafa reynst áhrifaríkir í að deila upplýsingum um styrki, viðburði og alþjóðleg verkefni.
Fréttabréf
Á árinu 2024 voru sex fréttabréf send út með upplýsingum um styrki, alþjóðlega viðburði og önnur tækifæri fyrir sviðslistafólk.
Meðalfjöldi viðtakenda var 220, og opnunarhlutfallið 77,2%, sem sýnir hversu vel þau ná til markhópsins.
Fréttabréfin hafa reynst einföld og árangursrík leið til að miðla upplýsingum og halda sviðslistasamfélaginu upplýstu um það helsta sem er á döfinni.
Á árinu setti Sviðslistamiðstöðin tvær hlaðvarpsseríur í loftið. Í febrúar var sett af stað enska hlaðvarpið Performing Arts Centre Iceland Podcast, þar sem talað var við sviðslistafólk starfandi á Íslandi og þeirra starf á alþjóðlegum vettvangi. Meðal vinsælustu þáttanna voru viðtöl við Tyrfing Tyrfingsson leikskáld og Ásrúnu Magnúsdóttur danshöfund.
Í nóvember hófst svo íslenska hlaðvarpið Sviðsljósið, þar sem Salka Guðmundsdóttir ræðir við gesti um helstu áskoranir og tækifæri fyrir sviðslistir á Íslandi. Fyrsti þátturinn hefur fengið góðar viðtökur, og unnið er að frekari þróun þáttaraðarinnar.
Þrátt fyrir ágætis árangur í miðlun er tækifæri til að fjölga notendum bæði innanlands og erlendis og auka áhrif miðlanna enn frekar. Það er mikilvægt skref í því að styrkja stöðu miðstöðvarinnar á öllum miðlum til að standa jafnfætis öðrum listmiðstöðvum á Íslandi, sem hafa forskot með lengri starfssögu. Með markvissri stefnu í miðlun og aðgengilegu og grípandi efni getur miðstöðin náð til stærri hóps og eflt tengslin við sviðslistasenuna innanlands og erlendis.
Sviðslistamiðstöðin, í samstarfi við 101 Productions og RÚV, framleiddi sjónvarpsþættina Sviðið með styrk frá Barnamenningarsjóði. Þættirnir, sem fjalla um leiklist, óperu, dans, sirkus og leikritun, byggja á viðtölum við ungt sviðslistafólk í ólíkum hlutverkum.
Markmið verkefnisins er að kynna fjölbreytileika sviðslista fyrir ungmennum og vekja áhuga þeirra á listforminu og gera það aðgengilegt.
Fyrsti þátturinn fer í loftið á RÚV 8. janúar 2025, og þættirnir verða einnig aðgengilegir í Sarpi, á vef List fyrir alla og á vef Sviðslistamiðstöðvarinnar.
Zoe Halliday stýri námskeiði í Þjóðleikhúskjallara
Á árinu lagði Sviðslistamiðstöðin áherslu á að styðja sviðslistafólk með fjölbreyttu fræðslustarfi, einstaklingsmiðaðri ráðgjöf og þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.
Afslappaðar sýningar (Relaxed Performances):
Námskeiðið um afslappaðar sýningar var haldið í samstarfi við Þjóðleikhús, Borgarleikhús og Listahátíð í Reykjvík.
Námskeiðinu stýrði Zoe Halliday, sérfræðingur í afslöppuðu sýningarhaldi, frá Skotlandi. Þátttakendur fengu innsýn í hvernig hægt er að gera sýningar aðgengilegri fyrir breiðan hóp áhorfenda, þar á meðal skynsegin einstaklinga. Námskeiðið lagði áherslu á praktískar lausnir sem bæta upplifun allra áhorfenda og auka aðgengi að menningarviðburðum.
Leiðir til jafnræðis í listum – Málþing á Reykjavík Dance Festival: Reykjavík Dance Festival stóð fyrir málþinginu Leiðir til jafnræðis í listum, sem var haldið í samstarfi við Norræna húsið og með stuðningi Sviðslistamiðstöðvarinnar.
Málþinginu stýrði Sonya Lindfors, sem leiddi þátttakendur í gegnum gagnvirkar umræður og samræður um jafnrétti í listum. Abid Hussain, yfirmaður fjölbreytni og aðgengis
hjá Arts Council England, flutti lykilfyrirlestur þar sem hann lagði áherslu á
mikilvægi kerfisbundinnar nálgunar við innleiðingu jafnréttis og aðgengis í listageiranum.
Þrátt fyrir að mæting hafi verið hófleg, var málþingið tekið upp og birt á vef Sviðslistamiðstöðvarinnar, sem gerir fleirum kleift að nálgast umræðurnar. Þátttakendur fengu gagnlegar hugmyndir til að stuðla að fjölbreytni og jafnræði í eigin starfi.
GLEN vefnámskeið: Í tengslum við GLEN netverkið voru haldin nokkur vefnámskeið og fyrirlestrar sem voru opin öllum áhugasömum. Þessir viðburðir voru vettvangur fyrir miðlun þekkingar og tengslamyndun á milli sviðslistastofnana og listafólks í smærri löndum Evrópu.
Ráðgjöf
Framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar veitti ýmsa ráðgjöf fyrir sviðslistafólk sem sneri að upplýsingum um styrkjamöguleika, og hagnýtra ráðlegginga um sýningarhald á erlendis. Ráðgjöfin styrkir faglega stöðu listafólks og auðvelda þeim að skilja og nýta tækifæri sem gætu aukið sýnileika og tengslamyndun á alþjóðlegum vettvangi.
Sviðslistastefna
Á árinu tók Sviðslistamiðstöðin virkan þátt í vinnu við mótun sviðslistastefnu Íslands fyrir Menningar- og viðskiptaráðuneyti. Mikil undirbúningsvinna fór fram haustið 2023, þar sem tekin voru viðtöl við um 20 hagsmunahópa auk opins samráðsfundar. Stefnan byggir á þessum samtölum og tekur á ýmsum áskorunum og tækifærum sviðslistanna á Íslandi í dag.
Þegar ljóst var að stefnan yrði ekki tilbúin fyrir vorþing 2024 var vinnunni frestað, en þráðurinn var tekinn upp að nýju strax haustið 2024. Stefnunni var loks skilað á borð ráðherra rétt áður en ríkisstjórn var slitið í lok október. Fulltrúar miðstöðvarinnar í starfshópnum voru Frðrik Friðriksson framkvæmdastjóri og Vigdís Jakobsdóttir, stjórnarmaður.
Vonir standa til að stefnan verði tekin til umræðu hjá nýjum ráðherra og rati á borð þingsins á komandi ári.
Í aðdraganda kosninga í nóvember tók Sviðslistamiðstöðin þátt í tveimur kosningafundum:
Kosningafundur listmiðstöðva og Rannsóknarseturs skapandi greina var haldinn 6. nóvember, þar sem frambjóðendur stjórnmálaflokkanna ræddu framtíðarsýn sína í menningarmálum.
Kosningafundur SAFAS og Tjarnarbíós var haldinn 10. nóvember, þar sem framkvæmdastjóri Sviðslistamiðstöðvar flutti opnunarræðu um helstu áskoranir sjálfstætt starfandi sviðslistafólks.
Þann 5. desember sendu svo listmiðstöðvarnar frá sér sameiginlega yfirlýsingu og ákall til stjórnvalda þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að viðhalda sjálfstæðu ráðuneyti menningar við myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Árið 2024 var viðburðaríkt í starfsemi
Sviðslistamiðstöðvar Íslands, sem starfar með það að markmiði að styðja íslenskt sviðslistafólk, bæði heima og erlendis. Rekstur miðstöðvarinnar var í höndum framkvæmdastjóra, sem starfar í nánu samstarfi við stjórn og fagráð.
Í júní 2024 flutti Sviðslistamiðstöðin í nýtt húsnæði á 4. hæð í Austurstræti 5. Skrifstofan er nú staðsett í líflegu og skapandi umhverfi sem miðstöðin deilir með Miðstöð Íslenskra Bókmennta, Myndlistarmiðstöð, Listahátíð í Reykjavík, List fyrir Alla og Safnaráði. Þetta hefur skapað náið samfélag þar sem stofnanirnar styðja hver aðra og deila þekkingu..
Samstarfið styrkir tengsl milli listgreina og auðveldar samvinnu í verkefnum sem tengjast listafólki, bæði innanlands og erlendis. Aðstaðan býður upp á að halda stærri fundi og námskeið og er það von allra að samstarf miðstöðvanna muni aukast á komandi misserum.
Samskipti og samstarf
Miðstöðin átti í reglulegu samstarfi við ráðuneyti menningar og viðskipta og utanríkisráðuneytið, Íslandsstofu, auk annarra listmiðstöðva, fagfélaga og fagaðila á Íslandi. Með fjölbreyttum fundum og samstarfsverkefnum, meðal annars með Íslandsstofu, hefur miðstöðin lagt sitt af mörkum til að styrkja sviðslistir frá Íslandi á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Stjórn Sviðslistamiðstöðvarinnar fundaði níu sinnum á árinu 2024. Á fundunum var fjallað um stefnumörkun, fjárhagsáætlanir og verkefnastýringu auk þess sem ákveðnar voru áherslur og verkefni til framtíðar.
Stjórnin er skipuð fimm fulltrúum. Formaður stjórnarinnar er skipaður af menningar- og viðskiptaráðherra, en hinir fjórir stjórnarmenn eru tilnefndir af helstu hagaðilum sviðslistageirans: Sviðslistasambandi Íslands (SSÍ), Sjálfstæðu Leikhúsunum (SL), Samráðsvettvangi fagfélaga í sviðslistum (SAFAS) og Samtökum Atvinnurekanda í Sviðslistum og Tónlist (SAVÍST).
Þessi fjölbreytta samsetning tryggir að ólíkar raddir og sjónarmið innan sviðslista hafi rödd við mótun stefnu og starfsemi miðstöðvarinnar.
Fjárhagsstaða
Miðstöðin hlaut 30 milljóna króna rekstrarstuðning frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu á árinu 2024. Að auki hlaut miðstöðin sérstakan stuðning frá Íslandsstofu fyrir alþjóðleg verkefni eins og Ice Hot í Osló og CINARS í Montréal. Þessi fjárstuðningur gerir miðstöðinni kleift að styðja sviðslistafólk með styrkjum, efla sýnileika þess og þróa mikilvæg alþjóðleg samstarfsverkefni.
Frá innflutningshófi í Austurstræti 5
Starfsáætlunin fyrir árið 2025 byggir á stefnu Sviðslistamiðstöðvar Íslands sem miðar að því að efla alþjóðlegan sýnileika íslenskra sviðslista, styrkja faglega getu listafólks og skapa ný tækifæri til þróunar og samstarfs.
Tímalína helstu verkefna ársins
Janúar
Opnað fyrir umsóknir um ferðastyrki Stefnumótunarvinna 2025 - 2027.
Febrúar
Nýtt fyrirkomulag þýðingarstyrkja kynnt. Stutt málþing í samstarfi við SSÍ
Mars
Námskeið með Wolfgang Hoffmann markaðssetningu á alþjóðavettvangi.
Apríl
GLEN netverksfundur og showcase í Reykjavík. Fyrsta leikskáldakynningin haldin í sendiráði.
Maí
Opnað fyrir umsóknir um ferðastyrki.
Netvinnustofa PS verkefnisins.
Júní
Vorþing sviðslista í tengslum við Grímuverðlaun. Vinnustofa PS verkefnisins í Hanko Finnlandi.
Ágúst
Undirbúningur fyrir haustverkefni
September
Vinnustofa PS verkefnisins á Sirenos í Vilníus. Haustnámskeið fyrir sviðslistafólk.
Október
Opnað fyrir þýðingarstyrki
Nóvember
Leikskáldakynningar í sendiráðum. Pitch viðburður á Reykjavík Dance Festival. Lokaverkstofa PS verkefnisins í Osló.
Desember
Undirbúningur starfsáætlunar fyrir 2026.
Aðalstjórn
Formaður:
Þorsteinn J. Vilhjálmsson (skipaður af Menningar- og viðskiptaráðherra)
Gjaldkeri:
Gunnar Sturluson (tilnefndur af Sviðslistasambandi Íslands - SSÍ)
Ritari:
Ásgerður G. Gunnarsdóttir (tilnefnd af Samráðsvettvangi fagfélaga í sviðslistumSAFAS)
Meðstjórnandi:
Adolf Smári Unnarsson (tilnefndur af Samtökum atvinnurekenda í sviðslistum og tónlistSAVÍST)
Meðstjórnandi:
Vigdís Jakobsdóttir (tilnefnd af Sjálfstæðu Leikhúsunum - SL)
Varastjórn
Hallfríður Þóra Tryggvadóttir (skipuð af Menningar- og viðskiptaráðherra)
María Pálsdóttir (tilnefnd af SSÍ)
Pétur Ármannsson (tilnefndur af SAFAS)
Kristín Eysteinsdóttir (tilnefnd af SAVÍST)
Guðmundur Ingi Þorvaldsson (tilnefndur af SL)
Austurstræti 5, 4. hæð 101 Reykjavík, Ísland
Sími: +354 699 0770
Netfang: svidslistamidstod@svidslistamidstod.is
Vefsíða: www.svidslistamidstod.is