Inn í myrkrið - Ágúst Borgþór Sverrisson

Page 1

1


Ágúst Borgþór Sverrisson

Inn í myrkrið skáldsaga

2


One must choose in life between boredom and suffering. Madame De Stael

3


1

Ógæfa Óskars hófst á samtalinu um köttinn. Auðvitað gat þetta stutta og sakleysislega samtal ekki verið orsök eins né neins en það var tímapunkturinn þegar langanir hans tóku að feta braut sem ekki var hægt að snúa við á. Þetta var á sólríkum en svölum laugardagsmorgni snemma í maí árið 2011 og þau voru að skrapa málningu af tröppuhandriðinu. Á eftir ætlaði Óskar að mála handriðið einn á meðan Sigrún færi í Esjugöngu með vinkonum sínum. Tilhugsunin var góð, hann naut þess að vinna með höndunum, það var róandi, og á hádegi hefði kannski hlýnað svo mikið að hann gæti farið úr að ofan og fengið lit á kroppinn. Skrúfað frá útvarpinu í bílnum og opnað allar dyr á honum, sótt bjór í ísskápinn og svo bara dundað sér í góðu yfirlæti. Það yrði dálítið eins og þegar hann var ungur og veröldin full af fyrirheitum í vorsólinni. Allt í einu trítlaði kötturinn þeirra undir tröppurnar. Gulbröndóttur högni. Sigrún rak upp óp. „Sjáðu! Hann er búinn að rífa af sér hálsólina! Gabríel þó!“ Óskar gaut augunum til kattarins, á beran hálsinn á dýrinu. Kötturinn settist, horfði á Óskar og heilsaði með glaðlegu mjálmi í spurnartóni. „Svei mér ef þetta er ekki fjórða ólin sem hann týnir,“ sagði Sigrún, tók köttinn í fangið, kjassaði hann og skammaði ástúðlega. Kötturinn nuddaði hausnum ákaft utan í húsmóður sína. Óskari var ekki sérstaklega um hann gefið, ekki frekar en aðra ketti. Þeir létu ekki að stjórn og gáfu ekkert af sér. 4


Samt dáðist hann að þeim öðrum þræði og öfundaði þá. Hvað þeir voru sjálfstæðir, frjálsir og liðugir. Gátu legið í letimóki heilu dagana og síðan sprottið fyrirvaralaust á fætur, úr miðjum draumi, stokkið upp á skáp eða klifrað upp í tré. Hann hefði frekar viljað eignast hund. Stóran og hreinræktaðan, hlýðinn og húsbóndahollan. En Sigrún vildi ekki sjá hund inn á heimilið. „Við verðum að kaupa ól á hann strax í dag. Ég ætla að koma við í gæludýrabúð á leiðinni.“ Kvíðasvipur breiddist yfir andlit Sigrúnar. Hún gerði sífellt veður út af smámunum en líf þeirra var svo áhyggjulaust að það snerist um fátt annað en smámuni. „Ég held að hann sé ekkert að fara að týnast þó að hann sé ekki með ól um hálsinn,“ sagði Óskar. „En hann verður að vera með bjöllu svo hann veiði ekki fugla.“ „Það skiptir engu máli. Hann getur ekki dregið neitt með sér niður í kjallara lengur.“ Óskar benti með höfuðhnykk á þvottahúsgluggann undir tröppunum þar sem hann hafði fest vírnet bak við glerið svo kötturinn komst ekki lengur inn um gluggarifuna. Tvisvar hafði hann dregið þangað inn með sér blóðug fuglshræ, í seinna skiptið var það hauslaust. Sigrún var óratíma að skrúbba dökka blóðblettina af steingólfinu. Í ofanálag höfðu ógeldir nágrannakettir vanir komur sínar í þvottahúsið og merkt sér svæði með tilheyrandi og langvarandi ólykt. Þetta hvimleiða vandamál var úr sögunni þegar Óskar strengdi vírnetið fyrir gluggann. „Já, en ég vil ekki að hann veiði fugla.“ „En við verðum ekkert vör við það á meðan hann dregur þá ekki inn í hús.“ „Skiptir ekki máli. Ég vil bara ekki að hann sé að veiða fugla!“ Óskar fann mótþróa og óvænta gremju vakna í sér. „Þú ert sem sagt að segja mér að þú þolir ekki þá tilhugsun 5


að kötturinn veiði fugla þó að þú yrðir aldrei vör við það?“ „Auðvitað vil ég það ekki. Við eigum að koma í veg fyrir að hann deyði önnur dýr.“ „En hann er rándýr. Það liggur í eðli hans að veiða.“ „Hann er ekki þannig dýr lengur. Hann er geldur.“ „Og er það endilega svo heilbrigt ... að gelda ketti.“ Röddin titraði lítið eitt. Hann undraðist hvað þetta kom við kvikuna í honum. Það tengdist langvarandi, mismeðvitaðri óánægju með tilveruna, tilfinning sem kom og fór, hann átti erfitt með að fanga hana í skýra hugsun, hvað þá orð. Hann róaði sig og sagði yfirvegað: „Ég held þú verðir samt að viðurkenna að það er í eðli katta að veiða. Þeir fæðast ekki geldir.“ „Eðli? Hann er ekki villiköttur! Hann býr í mannabústað. Borðar úr skál, sefur á mjúku teppi og lætur klappa sér. Ekki búum við í helli og veiðum okkur til matar. Og varla ætlarðu að segja mér að svona gæfum og hreinlegum heimilisketti líði verr en soltnum og trylltum villiketti?“ Óskar yppti öxlum. Óskiljanleg reiði ólgaði í honum og hann hamaðist með sköfuna á handriðinu svo hvítar málningarflísar hrundu niður eins og snjókoma í putalandi. Stuttu síðar fór Sigrún inn, klæddi sig í flíspeysu og anorak og batt á sig gönguskó. Þrjár vinkonur hennar sóttu hana á svörtum Land Cruiser. Andlit Sigrúnar ljómaði af hamingju. Óskar fór aldrei í fjallgöngu. Vissi ekkert leiðinlegra. Þó hafði hann haft þetta fjall fyrir augunum úr eldhúsglugganum í barnæsku. Blágrátt með hvítum snjóflekkjum. Það hreif hann ekki heldur þá, miklu frekar sjórinn sem hann ímyndaði sér að hægt væri að sigla um á heimasmíðuðum pramma, alla leið til útlanda, handan við sjóndeildarhringinn. Útlöndin voru svo langt í burtu að þau sáust ekki berum augum. Fjallið var bara í bíltúrsfjarlægð og fékk yfir sig hversdagslegt útlit í nálægð: grjót, mosi og mold. Honum þótti hins vegar gott að fara í ræktina og lyfta 6


lóðum, finna vöðvana tútna út og hugsa til þess að hann leit glettilega vel út ennþá, orðinn 48 ára gamall. Það var grafarþögn í húsinu. Selma, yngsta barnið þeirra og það eina sem bjó enn í foreldrahúsum, hafði fengið að gista hjá bestu vinkonu sinni og Sigrún ætlaði að sækja hana í bakaleiðinni úr fjallgöngunni. Óskar náði í málningu og pensla, bjór í ísskápinn, færði bílinn út úr bílskúrnum, kveikti á útvarpinu og opnaði gluggana. Hann klæddi sig úr að ofan og byrjaði að mála. Það var svalt úti en hann hamaðist við vinnuna svo honum varð ekki kalt. Hann var næstum búinn með fyrri umferðina, hafði drukkið þrjá bjóra og langur dægurlagaog auglýsingahali hafði farið inn um annað eyrað og út um hitt þegar rann upp fyrir honum að hann var enn að hugsa um kattarsamtalið við Sigrúnu. Það var enn að angra hann. Það ólgaði í honum ókyrrð sem hann gat ekki skilgreint en hún tengdist einhverju úr fortíðinni. Ógreinilegar minningar vöknuðu. Og ólund yfir tilbreytingarleysi lífsins, sem af og til sótti á hann en hvarf jafnharðan og hann undi sér við eitthvað skemmtilegt, vék nú ekki frá honum.

7


2

Óskar langaði til að fá sér fjórða bjórinn en það var ekki góð hugmynd. Hann ákvað þess í stað að fara í ræktina og taka sjensinn á að keyra með þrjá bjóra í maganum í blóðinu enda fann hann nánast ekkert á sér, puðið við tröppuhandriðið hafði haldið honum edrú. Þegar hann var að taka saman dótið sitt og stinga því í íþróttatösku rak hann augun í köttinn sem lá sofandi í gluggakistunni í stofunni, mitt á milli blómavasa og postulínsstyttu. Óskar sá köttinn stundum ekki dögum saman og skipti sér ekkert af honum. Selma og Sigrún sáu um að gefa honum að borða. Óskar hafði hins vegar smíðað kattarlúguna á útidyrahurðinni sem kötturinn rápaði inn og út um. Það var ekki bara að kettinum væri meinað að veiða fugla með því að setja bjöllu á hálsinn á honum, geldingin hafði rænt hann kynhvötinni. Ógeldur myndi hann hafa mök við þær læður sem hann næði til. Hvers konar líf er það fyrir kött að eðla sig aldrei, slást ekki og veiða ekki? Hverslags köttur er það sem búið er að svipta eðlishvötunum? Þessi köttur var svo sannarlega ólíkur Gretti, gamla kettinum hans Braga, frá því þeir voru strákar, sem lagðist reglulega í flakk og lenti í áflogum. Þegar hann skreiddist vígmóður heim tók Bragi á móti honum og hjúkraði honum, strauk yfir skítugan og blóðugan feldinn með rökum þvottapoka. Grettir vældi ámátlega undan strokunum en hann reyndi ekki að losa sig úr höndum eiganda síns. Bragi bar smyrsl á verstu sárin úr kringlóttum bauki sem Óskar hafði fyrst augum litið eftir 8


að hann hruflaði einu sinni illilega á sér hnéð á frostharðri skólalóðinni; mamma kom og fór með hann heim úr skólanum og bar varlega þetta glæra og hlaupkennda mauk á sárið. Eftir hjúkrunina gaf Bragi kettinum harðfisk og rjóma eða annað ámóta góðgæti ef hann fann það í eldhúsinu, stundum keypti hann sjálfur krásir handa honum því þau voru vel megandi á þessum árum og drengirnir áttu yfirleitt skotsilfur. Þetta var annars ljótur, sóðalegur og illskeyttur köttur sem engum þótti ýkja vænt um nema Braga enda áttu allir nema hann á hættu glefs eða klór ef reynt var að gera sér dælt við dýrið, sem var hins vegar ekkert nema elskulegheitin og malið við Braga. „Þetta hefur verið rosalegur bardagi hjá þér, Grettir minn,“ sagði Bragi einhvern tíma þegar hann var að hjúkra honum og engu líkara en hann væri stoltur af sárum og bardagagleði kattarins. Stundum lét Grettir ekki sjá sig heima í heila viku en Bragi var alltaf sannfærður um að hann myndi skila sér. „Kannski hefur hann verið drepinn núna,“ sagði Óskar einu sinni þegar kötturinn hafði ekki sést dögum saman. „Iss, hann Grettir er svo hraustur að hann lætur ekki drepa sig.“ Bragi lét engan bilbug á sér finna en þó mátti greina vott af geðshræringu í skærri röddinni. „En það gæti líka hafa verið keyrt yfir hann, hann er svo mikill villingur,“ sagði Óskar þá. „Neinei, hann Grettir passar sig, hann er líka svo eldsnöggur,“ sagði Bragi og daginn eftir skilaði Grettir sér heim svo illa rifinn á hálsinum að nú dugðu ekki hjúkrunaraðferðir eigandans heldur varð mamma að keyra með hann á dýraspítalann þar sem hann var saumaður saman og næstu vikur þurfti hann að rogast með þykkan kraga um hálsinn, í laginu eins og lampaskermur, og hann hélt sig heima um hríð. Svo fluttu þau í blokkina. Það var tæpu ári eftir að pabbi dó og flutningurinn var rökrétt afleiðing af dauða hans. Hann var lærður vélsmiður og vann lengi í vélsmiðju en síðar á heildsölulager þar sem hugmyndin að eigin fyrirtæki kviknaði: hann stofnaði véla- og verkfæraverslun sem blómstraði um skeið, 9


varð þekkt fyrir ódýr handverkfæri og landsins mesta úrval af skrúfum. Upp frá því gekk hann alltaf í svörtum og gráum jakkafötum og reykti vindla. „Hann Óskar minn vildi alltaf verða fínn maður,“ sagði móðirin einu sinni um Óskar eldri. Bára systir þeirra var sú eina af systkinunum sem mundi eftir honum sem sótugum vélsmið í dökkbláum samfestingi með smurolíubletti á fingrunum. Bræðurnir þekktu hann bara sem forstjóra í jakkafötum. Þeir þekktu ekki smurolíulyktina heldur rakspírailm og vindlalykt að ógleymdri vínlyktinni, þessum súrsæta þef sem alltaf var í senn framandi og kunnuglegur. Lengi vel vissu bræðurnir það eitt um afdrif föður síns að hann hefði látist í vinnunni. Meira var ekki sagt við þá og þeir þorðu ekki að spyrja, einhvern veginn lá í loftinu að þetta væri ónefnanlegt. Þeir höfðu báðir komið af og til í fyrirtækið og áttu erfitt með að ímynda sér það sem hættulegan vinnustað þrátt fyrir öll splunkunýju og glansandi verkfærin sem voru til sölu. Einhvern veginn og einhvern tíma síaðist sú hugmynd inn í Óskar að faðir hans hefði látist úr hjartaslagi á forstjóraskrifstofu sinni. Sextán ára gamall hélt hann þetta ennþá. Þá sagði Bára honum að faðir þeirra hefði skotið sig til bana á skrifstofunni með skammbyssu sem hann geymdi í læstri skrifborðsskúffunni. Skothvellur innan af lokaðri skrifstofu. Þetta var eins og bíómynd. Óskar var miður sín í marga daga á eftir en áræddi loks að bera þetta upp við móður sína, taugaóstyrkur og varkár. „Hvar heyrðirðu þessa kjaftasögu?“ spurði hún hryssingslega. „Þetta var bara slys. Bölvaður kjáninn var alltaf að fikta með þessar byssur sínar og ég var margbúin að grátbiðja hann um að losa sig við þetta helvítis drasl og haga sér eins og fullorðinn maður.“ Þessar upplýsingar melti Óskar af og til næstu árin, gleymdi þessu á löngum köflum en þegar hann hugsaði um það aftur var eins og það hefði ekki vikið úr huga hans. Loks tók hann málið upp við Báru eitt kvöldið þegar hann var vel í glasi, nýlega búinn að uppgötva töfra áfengisins, hvernig það 10


í senn virtist létta af honum sorginni og velta honum upp úr henni í þjáningarfullri nautn. Í slíku ástandi hringdi hann í Báru og sagði formálalaust: „Mamma sagði að þetta hefði bara verið slysaskot hjá pabba.“ Bára þagði góða stund. Spurði síðan hvar hann væri og hvort hann væri fullur. „Var þetta slysaskot hjá pabba?“ endurtók hann. – Hún andvarpaði, hikaði og sagði síðan: „Ég hef aldrei heyrt um slysaskot þar sem fólk beinir byssu að gagnauganu.“ Pabbi þeirra var aldrei mikið heima og þegar hann var heima var hann oftast vant við látinn, stundum að tala áhyggjufullur í símann, stundum niðursokkinn í pappírsvinnu inni í skrifstofuherbergi. Hann var ekki mjög strangur, var ekki sífellt að banna þeim og skipa þeim fyrir eins og móðirin, en gat rokið upp í reiði ef þeir bræður voru með hávaða. Hann þurfti alltaf að hafa næði. Einu sinni þegar Óskar var átta ára stíflaðist baðvaskurinn. Þegar hann var búinn að þvo sér í framan með þvottapoka eins og mamma hafði kennt honum og bursta tennurnar rann vatnið ekki niður úr vaskinum heldur hálffyllti hann. Óskar óttaðist að þetta væri honum að kenna eða honum yrði kennt um það. Engu að síður fór hann skelfdur inn í eldhús þar sem foreldrarnir sátu yfir morgunkaffinu og sagði frá þessu. „Alveg rétt, fjandans vaskurinn,“ sagði faðir hans glaðlega, reis á fætur í hvítri skyrtu og svörtum buxum og náði í rörtöng út í bílskúr. Hann tók Óskar með sér inn á baðherbergi og sýndi honum hvernig átti að beita rörtönginni, losa vaskinn frá rörinu, fjarlægja hroðann úr rörinu og festa vaskinn aftur. Síðan sagði hann við mömmu: „Við Óskar erum búnir að laga vaskinn.“ Óskar roðnaði af stolti. Upp frá þessu kenndi pabbi honum af og til að gera við. Yfirvegað og rólega. Skipta um dekk á bílnum, skipta um kerti og viftureim, skipta um ljósaperur, gera við reiðhjólið, festa lausa gólflista, setja upp ný gluggatjöld. Óskar þurfti lítið að spyrja en öllum spurningum var svarað skýrt og greinilega 11


með sýnidæmum: „Sjáðu, svona.“ Hann horfði á sterklegan handlegginn, hvíta uppbretta skyrtuermina, röddin sefaði og lærdómurinn var fyrirhafnarlaus. Ávallt síðan fann hann koma yfir sig þessa sömu ró þegar hann gerði við eitthvað smálegt, tók í sundur og setti saman eða dyttaði að. Í gegnum Báru fékk Óskar einhverja mynd af falli fjölskyldufyrirtækisins. Hörð samkeppni hafði komið frá fyrirtækjum sem höfðu ítök inn í stjórnmálaflokka. Þetta varð til þess að sumir heildsalar hættu að skipta við fyrirtækið og bankalán urðu torfengnari. En hvernig sem í þessu lá runnu allar eignir fyrirtækisins til lánardrottna eftir dauða hans og ekkjan sat eftir með hús sem hún gat ekki borgað af. Hún sagði: „Æ, hann var óttalegur eyðsluseggur. Það þurfti til dæmis alltaf að kaupa nýjan bíl annað hvert ár.“ Óskar minntist þess að um tíma voru þrír bílar á heimilinu, einn splunkunýr, annar nýlegur og einn gamall. Það þótti óvenjulegt á þessum tíma ólíkt því sem síðar varð. „Og allar þessar ferðir til að hitta kúnna í Danmörku og Svíþjóð og Þýskalandi – þetta voru rándýrar fyllerísreisur,“ sagði móðirin. Þrisvar fór fjölskyldan sjálf hins vegar til Mallorca á árunum upp úr 1970. Óskar og Bragi hlupu eftir ströndinni og busluðu í sjónum sem var kaldur í fyrstu en volgur eins og baðvatn eftir dálitla stund úti í. Undir iljunum var sléttur og mjúkur sandur, ólíkur fjörugrjótinu heima sem ískaldar öldur brotnuðu á. Framundan blasti við sjóndeildarhringurinn, himinn og haf mættust í blæbrigðalausri og friðsælli eilífð. Mamma og Bára lágu í sólbaði en pabbi hékk á standbarnum allan daginn. Á kvöldin borðuðu þau á veitingastöðum. Þá var pabbi yfirleitt orðinn rauður í framan og óþægilega kátur. Eftir að þau fluttu í blokkina í Breiðholti urðu utanlandsferðir fjarlægur draumur. Minningin um þær óraunveruleg eins og ímyndun. Það var einhver allt annar strákur sem hafði leikið sér á ströndinni á Mallorca. Sá 12


strákur var ekki lengur til. Það varð bræðrunum töluvert áfall að skyndilega voru ekki neinir peningar til lengur. Í nýja skólanum þekkti þá enginn en áður höfðu þeir notið aðdáunar skólafélaganna fyrir flottu bílana hans pabba, sólarlandaferðirnar og sjónvarpsauglýsingar fyrirtækisins þar sem þjóðþekktur gamanleikari mundaði borvél og slípirokk. Í nýja hverfinu voru þeir núll og nix. Vasapeningar voru úr sögunni. Hvað eftir annað var ísskápurinn hálftómur. Það kom fyrir að Óskar sofnaði svangur eða fór svangur í skólann. Oft vantaði tannkrem, stundum jafnvel klósettpappír. Þegar þau héldu fyrstu jólin í blokkaríbúðinni hafði hann ekki fengið nýja flík í meira en ár. Áður hefði slíkt verið óhugsandi. Allt í einu þurftu Óskar og Bragi að deila herbergi. Það olli því að um tíma slógust þeir meira en áður. Síðan hætti það að skipta máli. Fátæktin vandist en lífið varð dapurlegt og Óskar áttaði sig á því að hann hafði ekki haft neina hugmynd um hvað hann hafði verið hamingjusamur. Oftast var söknuðurinn ómeðvitaður og hugurinn bundinn við viðfangsefni dagsins. En sorgin litaði allt grátt. Þegar hann skrúfaði frá krananum inni á baðherbergi sá hann fyrir sér sterklegan handlegg föður síns á rörtönginni og hvíta skyrtuermina, heyrði rólega og yfirvegaða röddina leiðbeina. Fyrstu dagana eftir að þau fluttu í blokkina beið Grettir oft eftir þeim við útidyrnar og mjálmaði ámátlega. „Grettir!“ hrópaði Bragi og hljóp til kattarins. Grettir vildi ekki fara með þeim í lyftuna en hljóp stigana upp á fimmtu hæð. En allt í einu hafði hann ekki sést í heila viku. „Iss, hann kemur aftur,“ sagði Bragi, óbilandi í trúnni sem fyrr en þó óttasleginn. En þremur vikum seinna hafði kötturinn enn ekki skilað sér heim. Það var met. „Hann ratar auðvitað ekki eins vel og heima,“ sagði Óskar og talaði enn um gamla hverfið sem heima. „Hann Grettir er svo flinkur að rata, hann skilar sér, hann er bara svo mikill flökkuköttur,“ sagði Bragi í sinni vanalegu 13


bjartsýni en fór nú að leita að kettinum í hverfinu klukkutímum saman, oft langt fram á kvöld. En án árangurs. Um það bil þremur mánuðum seinna virtist hann loks hafa gefið upp alla von. Þá sagði hann, bitrum rómi: „Ef mamma hefði ekki flutt með okkur hingað væri Grettir ekki týndur“. Það síðasta úr góða lífinu var horfið.

14


3

Ekkert er betra til að hreinsa úr sér ólund og drunga en taka vel á því í ræktinni. Óskar hljóp í hálftíma á hlaupabretti, teygði vel á lærum og kálfum, tók síðan góða rispu á bekknum: tíu sinnum 50, 60 og 70 kíló, þrisvar 80 og einu sinni 90. Hann sveið í brjóstvöðvana. Tók tvíhöfða og þríhöfða með þungum handlóðum og puðaði síðan lengi í róðrarvélinni til að styrkja bakið. Gerði magaæfingar og naut þess að finna kviðvöðvana bólgna og verða grjótharða eins og í ungum manni. Vellíðan streymdi um líkamann undir sturtunni. Þegar hann var búinn að þvo sér svimaði hann skyndilega, sá ekki út úr augum eitt augnablik, festi þau síðan á handklæðinu sínu þar sem það hékk á snaganum. Þá rann upp fyrir honum að fortíðardrunginn var ekki farinn úr huganum. Hann hvarf 33 ár aftur í tímann, þegar hann kom úr sturtunni eftir leikfimitímann; þetta var skömmu eftir að þau fluttu í nýja hverfið. Um leið og hann tók handklæðið af snaganum hrifsaði einn af nýju bekkjarfélögunum það úr höndum hans, vafði því utan um sig, yfir sitt eigið handklæði, og hrópaði: „Æ, sorrý, ég er svo feitur að ég þarf tvö handklæði.“ Hinir strákarnir fylgdust glottandi með. Undrunin skall á honum og síðan uppgötvunin: svona var komið fyrir honum, í þessum skóla var hann ekkert, bara nýr strákur, sonur fátækrar ekkju. En í næstu andrá fann hann nærveru föður síns, í huganum sá hann sterklegan handlegginn og hvíta uppbretta skyrtuermina, róleg röddin sagði honum til, gerði hann yfirvegaðan og klókan. 15


Óskar þóttist bresta í grát og vældi: „Æ, nú verð ég að sitja hérna allsber þar til ég þorna og kemst ekki í landafræði til Hildu skræku.“ – Strákarnir hlógu og foringinn fleygði handklæðinu í hann með orðunum: „Sjensinn að þú fáir að sleppa við landafræði!“ Upp frá því féll hann þokkalega í hópinn og var ekki tekinn fyrir aftur. Stuttu síðar var móðirin hins vegar boðuð á fund skólastjórans vegna þess að Bragi hafði gefið bekkjarfélaga sínum blóðnasir. Þetta var tveimur mánuðum eftir að kötturinn Grettir týndist og bekkjarfélaginn sagðist hafa drepið hann. Bragi launaði honum þá gamansemi með hnefahöggi. Hann var líka látinn í friði í skólanum eftir þetta. Bragi var í senn viðkvæmur og harðskeyttur. Hann grét oft og mamma huggaði hann og hughreysti. Óskar grét ekki og þess vegna sá mamma ekki tilefni til að hughreysta hann. Að kvöldi dagsins sem Bragi hafði ráðist á skólabróður sinn grét hann í rúminu og mamma kom inn til þeirra til að sefa hann. „Hvers vegna kemur Grettir ekki?“ sífraði hann. „Ég veit það ekki, vinur. Líklega villtist hann. Kannski skilar hann sér einhvern tíma.“ „Ég vil fá pabba,“ sagði hann þá. Þessi orð höfðu ekki fallið áður. Hik kom á mömmu og síðan sagði hún það augljósa: „Það er ekki hægt, vinur.“

16


INN Í MYRKRIÐ FÆST Í ÖLLUM HELSTU BÓKSÖLUSTÖÐUM LANDSINS. NJÓTIÐ! KÆR KVEÐJA,

OG ÁGÚST BORGÞÓR SVERRISSON

17


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.