Hilma kafli 1 & 2

Page 1

1


ÚTGÁFUHÓF Verið hjartanlega velkomin í spennuþrungið útgáfuhóf Draumsýnar af tilefni útgáfu fyrstu skáldsögu Óskars Guðmundssonar: - HILMA Hófið er haldið í Eymundsson Austurstræti fimmtudaginn 30.apríl klukkan 17:00. Óskar Guðmundsson les upp úr bókinni og áritar.

Allir velkomnir. Hressing í boði.

Hér bjóðum við upp á fyrstu tvo kaflana sem eiga sér stað 1989. Að öðru leiti gerist sagan í nútímanum.

3


1

. kafli 13. nóvember 1989 Mánudagur

Það hætti að snjóa í Reykjavík. Í það minnsta yfir Vesturbænum. Það lá eitthvað í loftinu og engu líkara en að himinninn héldi niðri í sér andanum. Eftir um hálftíma byrjar aftur að kyngja niður snjó. Heppilegt fyrir þá sem óafvitandi ná að hylja slóð sína. Óheppilegt fyrir þá limlestu drengi sem brátt fenna í kaf. Og það var ekkert við því að gera.

6


2. kafli Tunglið tyllti sér makindalega á Esjuna, þetta látlausa fjall sem hafði þó ákveðið í gegnum tíðina að taka nokkur mannslíf. Nú naut hún sín þarna í stillunni með hvíta og gatslitna nátthúfuna og horfði þreytuleg yfir borgina í þessu frostkalda síðdegismyrkri. Pirraðir launþegar landsins siluðust áfram í óslitinni halarófu heim á leið eftir glerhálli Hringbrautinni. Suðið undan nagladekkjum ómaði fyrir eyrum gangandi vegfarenda en þó var eins og gamalgróið Melahverfið væri friðlýst undan þessum skarkala miðborgarinnar. Umferðarniðurinn náði ekki að klífa upp veggi fjölbýlishúsanna sem stóðu við Hringbrautina og vörðu hverfið að baki þeirra. Líkt og öryggisverðir sem mynduðu mannlega keðju á stórviðburðum og héldu skaranum í skefjum. Þéttar greinar trjánna gripu hljóðbylgjur sem sluppu í gegn en gátu þó ekki hamið óhljóðin þegar Fokker-flugvél kom inn til lendingar. Og reyndar eitt enn: Ópið. Einhver staðar inni í friðlýstri kyrrðinni heyrðist þetta skerandi óp sem reif sig undan hríminu. Hljóð sem skreið með jörðinni og komst hjá því að verða fangað. Það var ekkert sérstaklega hávært en tónhæðin skar sig frá öðrum hljóðum. Smaug inn og út á milli allra hindrana sem varð á vegi þess. Drengurinn heyrði þetta óp þar sem hann lá hreyfingarlaus í húsgarðinum. Hann hafði fleygt sér í jörðina því hann gat ekki meir. Hjartað hafði ætlað að rífa sig laust og brjóta sér leið út úr líkamanum og það var eins og einhver vera hefði tekið sér bólfestu í hálsinum á honum. Kreisti saman 7


skraufþurran barkann af öllu afli. Hann gerði árangurslausa tilraun til að hrækja blóðbragðinu sem honum fannst fylla munnholið. Hvað varð af þeim? Höfðu þeir gefist upp? Fjórir saman höfðu þeir elt hann og hann vissi hvað myndi gerast ef þeir næðu honum. Þeir myndu drepa hann. Engin spurning. Drepa hann. Og nú heyrði hann ópið aftur innan úr myrkrinu. Áttaði sig reyndar á því að þetta var í rauninni ekkert óp. Þetta var öskur. Og hann heyrði högg, líkt og barið væri í sandpoka. Drengurinn stóð rólega upp og hlustaði. Gekk rólega í áttina að óhljóðunum og kom að afgirtum húsgarði. Hann brölti yfir girðinguna, mjakaði sér eins hljóðlega og hann gat í gegnum lauflaust hekkið og læddist inn í húsgarðinn. Það er á stundum sem þessum sem heilinn sendir úr tvennskonar skilaboð til að meta stöðuna. Önnur benda á kosti. Hin á galla. Af hverju fer ég ekki heim? Það er í hina áttina. Hvað hafði kennarinn aftur sagt í gær? Að mannskepnan byggi yfir sjö frumþörfum. Var það ekki rétt? Frumþörfum? Jú. Hann hafði þulið þær upp og ein af þeim var forvitnin. Átti hann að láta hana lönd og leið eða svala henni? Hann rýndi inn í myrkrið. Hann hugsaði til baka. Það munaði svo litlu, fannst honum. Að þeir hefðu náð honum þarna rétt áðan. Hann heyrði þegar hrímið og frosið grasið hafði brostið eins og ísnálar undan hröðum skrefum þeirra. Hann hafði dottið. Snúið sig á fæti. Lá á maganum og ný hljóð bættust við. Úlpuþytur í trjágreinum, andardráttur þeirra – másið. Ef ekki hefði verið fyrir myrkrið, hefðu þeir ekki þurft annað en að fylgja sporum hans. Þá hefðu þeir fundið hann. Stæðu yfir honum líkt og hungraðir, biksvartir hrafnar og hann lesið úr augum þeirra: Nú deyrðu, tittur. En þess í stað fjaraði úlpuþyturinn út. Og másið líka. Hann slapp. Sneri sér yfir á bakið og horfði upp í stjörnubjarta glufu á himninum. Hvernig ætli það sé að vera laminn

8


til dauða? hugsaði hann. Lífið murkað úr líkamanum, togað og dregið út um opinn munninn og því kastað út í myrkrið. Hann vissi að það var nákvæmlega það sem þeir ætluðu sér að gera, hefðu þeir náð honum. Sá það í augum þeirra þegar þeir höfðu króað hann af þarna á skólalóðinni. Hann hafði verið króaður af áður. Oft. Og þeir höfðu ærna ástæðu til. Hann vissi það svo sem. Hann var rosalega ljótur, leiðinlegur og allt það sem þeir höfðu gert honum átti hann skilið. Var það ekki annars? hugsaði hann. Jú. Enda var hann fyrir. Fyrir öllum. Ekki bara fyrir lífi annarra heldur lífinu sjálfu. Og þarna höfðu þeir króað hann af á skólalóðinni. En hann hafði aldrei séð augu þeirra með þessum hætti og nú. Andlit þurfa ekki að afmyndast af heift og reiði. Augun segja allt: Nú verður þú drepinn, tittur. Þá hafði hann lagt á flótta. Og nú heyrði hann að öskrin voru frá fleiri en einni manneskju og það var óhugnanlegt hvernig þau svona dempuð skáru sig í gegnum frostið og þögnina eftir hvert högg. Hann læddist nær. Dauf birta frá útiljósi yfir kjallarainngangi sem sneri að bakgarðinum, gerði honum kleift að sjá aðeins betur. Hann sá hvar einhver stóð og hélt báðum höndum um barefli og lét það dynja af alefli hvað eftir annað á æpandi og veinandi líkömum sem lágu á snævi þakinni jörðinni. Högg eftir högg eftir högg – þar til enginn veinaði. Enginn öskraði lengur. Hann sá skuggamynd þessarar manneskju sem leit nú niður að líkömunum. Virti þá fyrir sér en hóf svo bareflið aftur á loft. Högg eftir högg eftir högg. Sandpokadynkir. Manneskjan hætti að slá. Það ríkti dauðaþögn. Líkt og einhver hefði skrúfað niður í umhverfinu. Drengurinn heyrði ekki öran andardrátt sinn. Sá aðeins hvítu strókana sem líkt og skutust upp í myrkrið þegar hann andaði frá sér. Hann stóð stjarfur og fann hvernig læri hans hitnuðu að innanverðu þegar hann pissaði í buxurnar. Hann steig eitt skref til hliðar og hjarnið brast undan skóm hans. Leit upp og sá hvar manneskjan með bareflið stóð hreyfingarlaus og 9


starði í áttina til sín. Hann gat ekki séð andlit hennar þar sem skuggi frá nálægu tré huldi efri hluta líkamans. Sá hins vegar blóðugt bareflið og þegar manneskjan kastaði því á jörðina og skaust inn í myrkrið. Drengurinn færði sig nær. Og nú var eins og einhver hefði skrúfað upp öll hljóð í kringum hann. Á allt of mikinn styrk. Óttinn magnaði upp hvert smáhljóð. Það var sama hvernig hann reyndi að gera sig léttan í huganum, þá virtist marrið undan hverju skrefi í snjónum vera ærandi. Hann stóð yfir fjórum illa leiknum og blóðugum líkömum. Þeir lágu hreyfingarlausir með lokuð augun. Nema einn þeirra sem horfði á hann uppglenntum augum eins og sært dýr sem beið þess að veiðimaðurinn tæki upp hníf sinn til að skera það á háls. Drengurinn þekkti hann. Þekkti þá reyndar alla. Betur en hann hafði kært sig um. Og hversu oft hafði hann sjálfan ekki dreymt um að drepa þessa drengi? Þeir sem höfðu lamið hann hvað eftir annað. Skorið fötin hans. Migið á hann. Skitið í nestisboxið hans. Niðurlægt hann dag eftir dag. Þegar hann horfði á þá liggjandi í blóði sínu og hugsaði til þess að hann hefði átt þetta allt saman skilið, þá fann hann ekki fyrir neinu núna. Engri meðaumkun. Engu sem yfirleitt er kallað samúð. Fann meira fyrir þessari sælutilfinningu sem hellist yfir þegar langþráð ósk hefur ræst. Gat það verið? Gat verið að honum væri létt? Það var að minnsta kosti eitthvað alveg nýtt að gerast innra með honum sem minnti á þessa sælu. Einhvern tímann í gleymskunni hafði honum liðið svona. Fundið fyrir einskonar frelsi. Ef svo var, þá ætlaði hann eftir fremsta megni að njóta þessarar tilfinningar núna. Umvefja hana örmum sínum og eitthvað sagði honum að hann myndi aldrei gleyma henni. Þessari hvítu tilfinningu sem gerði hann um leið svo stóran. Nei, ekki stóran. Voldugan. Þannig var það já. Hann fann fyrir dísætu valdinu, þar sem hann stóð núna yfir hreyfingarlausum drengjunum. 10


Þrátt fyrir hlandbleytuna. Útidyr kjallaraíbúðarinnar opnuðust og eldri kona kom kjagandi upp tröppurnar með vasaljós og lýsti í allar áttir. „Er einhver þarna?“ kallaði hún veikburða röddu. „Hvaða læti eru þetta?“ Drengurinn tók til fótanna og fann hvernig ljóskeilan frá vasaljósinu reyndi að leita hann uppi. Þegar hann kom að girðingunni sneri hann sér við. Skimaði inn í rökkrið og sá nú hvar einhver beygði sig eftir blóðugu bareflinu. Kom sér fyrir undir stóru tré og horfði í áttina til hans. Stóð þar grafkyrr eins og skuggavera án líkama. Ljóskeilan frá vasaljósi gömlu konunnar lék um garðinn eins og loftvarnir stríðsáranna og eitt augnablik straukst hún leiftursnöggt yfir andlit skuggaverunnar. Gamla konan varð einskis vör, heldur tautaði eitthvað fyrir munni sér og sneri til baka. Lokaði á eftir sér og skömmu síðar slokknaði ljósið yfir útidyrunum. Myrkur. Hljóð. Drengurinn sá ekkert en heyrði fótatak marra í snjónum. Hann hefði migið á sig aftur ef hann gæti. Tilfinningin var sú sama en það kom ekkert. Síðan byrjaði það aftur. Sandpokahljóðið. Högg eftir högg eftir högg. Drengurinn tróð sér í gegnum lauflaust hekkið, yfir girðinguna og hljóp yfir götuna. Í sömu mund kom leigubifreið akandi eftir Víðimelnum og hemlaði. Naglarnir í dekkjunum hvæstu eins og köttur þegar þeir skáru sig í gegnum klakann. Ef bílstjórinn hefði ekki verið búinn að harka alla helgina, hefði viðbragðið sennilega orðið betra og hann ekki ekið á ljósastaurinn þegar hann sveigði hjá drengnum sem var nú þegar horfinn yfir í næsta garð.

11


Síðar um kvöldið þegar drengurinn var lagstur upp í rúm, sá hann það fyrir sér. Hann sá andlitið þetta leiftrandi sekúndubrot þegar ljóskeilan lýsti upp skuggaveruna. Og það var nóg. Hann vissi þó ekki um atburðarásina sem myndi eiga sér stað tuttugu og tveimur árum síðar. Himinninn gat ekki haldið í sér lengur og það kyngdi niður snjó.

12


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.