HILMA - Kafli 1 - 5 - Islenska

Page 1

HILMA


Bókin er tileinkuð yndislegri móður minni, Svövu Gísladóttur sem hefur alla tíð haft óbilandi trú á mér.


ร skar Guรฐmundsson

HILMA

S k รก l d s a g a


Þessi saga er skáldskapur. Nöfn, persónur og atburðir eru alfarið hugarsmíð höfundar. HILMA ©Óskar Guðmundsson Draumsýn bókaforlag Reykjavík 2015 Öll réttindi áskilin Gefin út í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO Kápuhönnun: Óskar Guðmundsson Grafísk hönnun: Hjörvar Harðarsson Ljósmynd á kápu: Nína Björk Hlöðversdóttir Förðun fyrirsætu: Þóra Hrönn Ólafsdóttir Fyrirsæta: Helga Jóna Sigurðardóttir Ljósmynd af höfundi: Nína Björk Hlöðversdóttir Umbrot: Ó.G. Letur í meginmáli: Adobe Caslon Pro 10,5 / 13,5 pt Prentvinnsla: Alföldi Nyomda ZRT Vísa á bls. 36 Upp, upp, upp á fjall. Enskt keðjulag. Höf. ókunnur. Lausavísa á bls. 152 Hrafn situr á hárri stöng. Höf. Sveinn Sölvason 1. prenun apríl 2015 2. prentun júní 2015 Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN 978-9935-444-71-4 Draumsýn bókaforlag www.dsyn.is Draumsýn bókaforlag


1

. kafli 13. nóvember 1989 Mánudagur

Það hætti að snjóa í Reykjavík. Í það minnsta yfir Vesturbænum. Það lá eitthvað í loftinu og engu líkara en að himinninn héldi niðri í sér andanum. Eftir um hálftíma byrjar aftur að kyngja niður snjó. Heppilegt fyrir þá sem óafvitandi ná að hylja slóð sína. Óheppilegt fyrir þá limlestu drengi sem brátt fenna í kaf. Og það var ekkert við því að gera.

5


2. kafli Tunglið tyllti sér makindalega á Esjuna, þetta látlausa fjall sem hafði þó ákveðið í gegnum tíðina að taka nokkur mannslíf. Nú naut hún sín þarna í stillunni með hvíta og gatslitna nátthúfuna og horfði þreytuleg yfir borgina í þessu frostkalda síðdegismyrkri. Pirraðir launþegar landsins siluðust áfram í óslitinni halarófu heim á leið eftir glerhálli Hringbrautinni. Suðið undan nagladekkjum ómaði fyrir eyrum gangandi vegfarenda en þó var eins og gamalgróið Melahverfið væri friðlýst undan þessum skarkala miðborgarinnar. Umferðarniðurinn náði ekki að klífa upp veggi fjölbýlishúsanna sem stóðu við Hringbrautina og vörðu hverfið að baki þeirra. Líkt og öryggisverðir sem mynduðu mannlega keðju á stórviðburðum og héldu skaranum í skefjum. Þéttar greinar trjánna gripu hljóðbylgjur sem sluppu í gegn en gátu þó ekki hamið óhljóðin þegar Fokker-flugvél kom inn til lendingar. Og reyndar eitt enn: Ópið. Einhver staðar inni í friðlýstri kyrrðinni heyrðist þetta skerandi óp sem reif sig undan hríminu. Hljóð sem skreið með jörðinni og komst hjá því að verða fangað. Það var ekkert sérstaklega hávært en tónhæðin skar sig frá öðrum hljóðum. Smaug inn og út á milli allra hindrana sem varð á vegi þess. Drengurinn heyrði þetta óp þar sem hann lá hreyfingarlaus í húsgarðinum. Hann hafði fleygt sér í jörðina því hann gat ekki meir. Hjartað hafði ætlað að rífa sig laust og brjóta sér leið út úr líkamanum og það var eins og einhver vera hefði tekið sér bólfestu í hálsinum á honum. Kreisti saman 6


skraufþurran barkann af öllu afli. Hann gerði árangurslausa tilraun til að hrækja blóðbragðinu sem honum fannst fylla munnholið. Hvað varð af þeim? Höfðu þeir gefist upp? Fjórir saman höfðu þeir elt hann og hann vissi hvað myndi gerast ef þeir næðu honum. Þeir myndu drepa hann. Engin spurning. Drepa hann. Og nú heyrði hann ópið aftur innan úr myrkrinu. Áttaði sig reyndar á því að þetta var í rauninni ekkert óp. Þetta var öskur. Og hann heyrði högg, líkt og barið væri í sandpoka. Drengurinn stóð rólega upp og hlustaði. Gekk rólega í áttina að óhljóðunum og kom að afgirtum húsgarði. Hann brölti yfir girðinguna, mjakaði sér eins hljóðlega og hann gat í gegnum lauflaust hekkið og læddist inn í húsgarðinn. Það er á stundum sem þessum sem heilinn sendir úr tvennskonar skilaboð til að meta stöðuna. Önnur benda á kosti. Hin á galla. Af hverju fer ég ekki heim? Það er í hina áttina. Hvað hafði kennarinn aftur sagt í gær? Að mannskepnan byggi yfir sjö frumþörfum. Var það ekki rétt? Frumþörfum? Jú. Hann hafði þulið þær upp og ein af þeim var forvitnin. Átti hann að láta hana lönd og leið eða svala henni? Hann rýndi inn í myrkrið. Hann hugsaði til baka. Það munaði svo litlu, fannst honum. Að þeir hefðu náð honum þarna rétt áðan. Hann heyrði þegar hrímið og frosið grasið hafði brostið eins og ísnálar undan hröðum skrefum þeirra. Hann hafði dottið. Snúið sig á fæti. Lá á maganum og ný hljóð bættust við. Úlpuþytur í trjágreinum, andardráttur þeirra – másið. Ef ekki hefði verið fyrir myrkrið, hefðu þeir ekki þurft annað en að fylgja sporum hans. Þá hefðu þeir fundið hann. Stæðu yfir honum líkt og hungraðir, biksvartir hrafnar og hann lesið úr augum þeirra: Nú deyrðu, tittur. En þess í stað fjaraði úlpuþyturinn út. Og másið líka. Hann slapp. Sneri sér yfir á bakið og horfði upp í stjörnubjarta glufu á himninum. Hvernig ætli það sé að vera laminn

7


til dauða? hugsaði hann. Lífið murkað úr líkamanum, togað og dregið út um opinn munninn og því kastað út í myrkrið. Hann vissi að það var nákvæmlega það sem þeir ætluðu sér að gera, hefðu þeir náð honum. Sá það í augum þeirra þegar þeir höfðu króað hann af þarna á skólalóðinni. Hann hafði verið króaður af áður. Oft. Og þeir höfðu ærna ástæðu til. Hann vissi það svo sem. Hann var rosalega ljótur, leiðinlegur og allt það sem þeir höfðu gert honum átti hann skilið. Var það ekki annars? hugsaði hann. Jú. Enda var hann fyrir. Fyrir öllum. Ekki bara fyrir lífi annarra heldur lífinu sjálfu. Og þarna höfðu þeir króað hann af á skólalóðinni. En hann hafði aldrei séð augu þeirra með þessum hætti og nú. Andlit þurfa ekki að afmyndast af heift og reiði. Augun segja allt: Nú verður þú drepinn, tittur. Þá hafði hann lagt á flótta. Og nú heyrði hann að öskrin voru frá fleiri en einni manneskju og það var óhugnanlegt hvernig þau svona dempuð skáru sig í gegnum frostið og þögnina eftir hvert högg. Hann læddist nær. Dauf birta frá útiljósi yfir kjallarainngangi sem sneri að bakgarðinum, gerði honum kleift að sjá aðeins betur. Hann sá hvar einhver stóð og hélt báðum höndum um barefli og lét það dynja af alefli hvað eftir annað á æpandi og veinandi líkömum sem lágu á snævi þakinni jörðinni. Högg eftir högg eftir högg – þar til enginn veinaði. Enginn öskraði lengur. Hann sá skuggamynd þessarar manneskju sem leit nú niður að líkömunum. Virti þá fyrir sér en hóf svo bareflið aftur á loft. Högg eftir högg eftir högg. Sandpokadynkir. Manneskjan hætti að slá. Það ríkti dauðaþögn. Líkt og einhver hefði skrúfað niður í umhverfinu. Drengurinn heyrði ekki öran andardrátt sinn. Sá aðeins hvítu strókana sem líkt og skutust upp í myrkrið þegar hann andaði frá sér. Hann stóð stjarfur og fann hvernig læri hans hitnuðu að innanverðu þegar hann pissaði í buxurnar. Hann steig eitt skref til hliðar og hjarnið brast undan skóm hans. Leit upp og sá hvar manneskjan með bareflið stóð hreyfingarlaus og 8


starði í áttina til sín. Hann gat ekki séð andlit hennar þar sem skuggi frá nálægu tré huldi efri hluta líkamans. Sá hins vegar blóðugt bareflið og þegar manneskjan kastaði því á jörðina og skaust inn í myrkrið. Drengurinn færði sig nær. Og nú var eins og einhver hefði skrúfað upp öll hljóð í kringum hann. Á allt of mikinn styrk. Óttinn magnaði upp hvert smáhljóð. Það var sama hvernig hann reyndi að gera sig léttan í huganum, þá virtist marrið undan hverju skrefi í snjónum vera ærandi. Hann stóð yfir fjórum illa leiknum og blóðugum líkömum. Þeir lágu hreyfingarlausir með lokuð augun. Nema einn þeirra sem horfði á hann uppglenntum augum eins og sært dýr sem beið þess að veiðimaðurinn tæki upp hníf sinn til að skera það á háls. Drengurinn þekkti hann. Þekkti þá reyndar alla. Betur en hann hafði kært sig um. Og hversu oft hafði hann sjálfan ekki dreymt um að drepa þessa drengi? Þeir sem höfðu lamið hann hvað eftir annað. Skorið fötin hans. Migið á hann. Skitið í nestisboxið hans. Niðurlægt hann dag eftir dag. Þegar hann horfði á þá liggjandi í blóði sínu og hugsaði til þess að hann hefði átt þetta allt saman skilið, þá fann hann ekki fyrir neinu núna. Engri meðaumkun. Engu sem yfirleitt er kallað samúð. Fann meira fyrir þessari sælutilfinningu sem hellist yfir þegar langþráð ósk hefur ræst. Gat það verið? Gat verið að honum væri létt? Það var að minnsta kosti eitthvað alveg nýtt að gerast innra með honum sem minnti á þessa sælu. Einhvern tímann í gleymskunni hafði honum liðið svona. Fundið fyrir einskonar frelsi. Ef svo var, þá ætlaði hann eftir fremsta megni að njóta þessarar tilfinningar núna. Umvefja hana örmum sínum og eitthvað sagði honum að hann myndi aldrei gleyma henni. Þessari hvítu tilfinningu sem gerði hann um leið svo stóran. Nei, ekki stóran. Voldugan. Þannig var það já. Hann fann fyrir dísætu valdinu, þar sem hann stóð núna yfir hreyfingarlausum drengjunum. 9


Þrátt fyrir hlandbleytuna. Útidyr kjallaraíbúðarinnar opnuðust og eldri kona kom kjagandi upp tröppurnar með vasaljós og lýsti í allar áttir. „Er einhver þarna?“ kallaði hún veikburða röddu. „Hvaða læti eru þetta?“ Drengurinn tók til fótanna og fann hvernig ljóskeilan frá vasaljósinu reyndi að leita hann uppi. Þegar hann kom að girðingunni sneri hann sér við. Skimaði inn í rökkrið og sá nú hvar einhver beygði sig eftir blóðugu bareflinu. Kom sér fyrir undir stóru tré og horfði í áttina til hans. Stóð þar grafkyrr eins og skuggavera án líkama. Ljóskeilan frá vasaljósi gömlu konunnar lék um garðinn eins og loftvarnir stríðsáranna og eitt augnablik straukst hún leiftursnöggt yfir andlit skuggaverunnar. Gamla konan varð einskis vör, heldur tautaði eitthvað fyrir munni sér og sneri til baka. Lokaði á eftir sér og skömmu síðar slokknaði ljósið yfir útidyrunum. Myrkur. Hljóð. Drengurinn sá ekkert en heyrði fótatak marra í snjónum. Hann hefði migið á sig aftur ef hann gæti. Tilfinningin var sú sama en það kom ekkert. Síðan byrjaði það aftur. Sandpokahljóðið. Högg eftir högg eftir högg. Drengurinn tróð sér í gegnum lauflaust hekkið, yfir girðinguna og hljóp yfir götuna. Í sömu mund kom leigubifreið akandi eftir Víðimelnum og hemlaði. Naglarnir í dekkjunum hvæstu eins og köttur þegar þeir skáru sig í gegnum klakann. Ef bílstjórinn hefði ekki verið búinn að harka alla helgina, hefði viðbragðið sennilega orðið betra og hann ekki ekið á ljósastaurinn þegar hann sveigði hjá drengnum sem var nú þegar horfinn yfir í næsta garð.

10


Síðar um kvöldið þegar drengurinn var lagstur upp í rúm, sá hann það fyrir sér. Hann sá andlitið þetta leiftrandi sekúndubrot þegar ljóskeilan lýsti upp skuggaveruna. Og það var nóg. Hann vissi þó ekki um atburðarásina sem myndi eiga sér stað tuttugu og tveimur árum síðar. Himinninn gat ekki haldið í sér lengur og það kyngdi niður snjó.

11


3

. kafli 13. nóvember 2011 Sunnudagur

Gömlu mennirnir sátu hlið við hlið í sameiginlegri setustofu sjúkrahússins. Annar í stól með hækjur sem hann hafði skorðað milli fóta sér. Hinn í hjólastól. Fréttastefið glumdi í gömlu sjónvarpi sem sat á hillu hátt á veggnum. Fjórum bókum var tyllt við hlið þess. Einkennileg staðsetning því það var ekki nokkur leið að teygja sig í þær. Sjónvarpsmyndin datt út. Snjór. Sá með hækjurnar stóð upp með herkjum og skakklappaðist að Gamla bíói eins og einhver hafði kallað sjónvarpið. Hann hagræddi annarri hækjunni þannig að þegar hann reiddi hana til höggs sat hún stöðug í hendi hans. Gúmmíklæddur endi hennar skall á hlið sjónvarpsins og myndin varð skýr á ný. Bækurnar féllu á hliðina. „Þú ert orðinn laginn við þetta, Steini,“ sagði sá sem sat í hjólastólnum og hló. „Ég næði þessu aldrei, þessu flotta svingi. Ekki veit ég hvernig ég kæmist af. Þú lofar að láta ekki útskrifa þig á undan mér.“ Þorsteinn kom sér aftur fyrir í stólnum. Reyndi að útiloka þennan sessunaut sinn. Hvers vegna þurfti hann að lenda í herbergi með þessum háværa uppistandara. Bara hann hefði fengið ögn meira höfuðhögg í þessum aumlega árekstri sínum, sem hann talaði um frá því hann opnaði augun á morgnana og þar til þau lokuðust allt of seint á kvöldin. Þá hefði þetta brandarahólf í hausnum á honum líklega þurrkast út, hugsaði hann. Og hver hafði gefið honum leyfi til að kalla sig Steina? Ekki nokkur sála. 12


„Viljið þið ekki teppin ykkar?“ spurði elskulegur hjúkrunarfræðingurinn og rétti þeim sitt hvort ullarteppið sem þeir tóku við og lögðu yfir fætur sér. „Og hvar væri ég án þín, Svava mín? Þvílíkt lán, þetta slys mitt. Það verð ég nú bara að segja.“ Eftir að fréttaþulurinn hafði þulið upp það helsta sem yrði í fréttum, hófst hinn eiginlegi lestur þeirra. „Þær fréttir voru að berast okkur að Vladas Pavlovic hefur sloppið úr haldi lögreglu. Hann hefur verið í einangrun á Litla Hrauni, en þegar verið var að flytja hann til Reykjavíkur nú fyrir stundu, slapp hann með ævintýralegum hætti úr varðhaldinu. Hallgrímur er á staðnum og tekur nú við.“ „Já, þakka þér fyrir, Logi. Það var hérna sem Vladas slapp úr gæsluvarðhaldi ...“ Myndskeið á skjánum sýndi tvær bifreiðar á gatnamótum Sæbrautar og Höfðatúns sem höfðu lent í hörðum árekstri og lágu báðar á hliðinni utan vegar. Blikkandi ljós lögreglubifreiða köstuðu bláleitu ljósi á vettvanginn sem búið var að girða af. „... en svo virðist að þegar sérstök lögreglubifreið, sem sér um fangaflutninga og var á leið með Vladas innanborðs til að færa hann fyrir héraðsdóm, hafi önnur bifreið komið og ekið á miklum hraða inn í hlið hennar. Samkvæmt óstaðfestum heimildum hafi grímuklæddir menn náð Vladasi út úr fangabílnum og þeir svo horfið á braut á þriðju bifreiðinni. Ég náði tali af vitnum hér áðan og fékk staðfest að árásarmennirnir hafi borið vopn en líklega hafi þeim þó ekki verið beitt. Eitt vitnanna fullyrti að miðað við hraða og skipulag þessara manna, að þá hefði ekki verið um einhverja aukvisa að ræða. Ekki er vitað um líðan manna eftir, ja, að því er virðist, þessa grófu fyrirsát, en eins og þið sjáið þá 13


eru þrjár sjúkrabifreiðar hér á staðnum. Á þessari stundu er ekkert vitað um ferðir árásarmannanna né Vladasar, en þeirra er nú ákaft leitað og búið að loka einhverjum vegarköflum hér í kring. Hallgrímur tók sér hlé þegar ærandi hávaði barst frá sjúkrabifreiðunum þegar þær óku af vettvangi. Um leið og sírenuvælið fjaraði út, sneri hann sér aftur að sjónvarpsvélinni: Mikið hefur verið fjallað um Vladas og hans mál að undanförnu en eins og áður hefur komið fram, þá liggur rannsóknarlögreglukona þungt haldin eftir að henni var rænt af heimili sínu fyrir um þremur vikum og misþyrmt á hrottalegan hátt. Það var með naumindum að sérsveit lögreglunnar náði að frelsa hana, en í þeirri aðgerð lést annar rannsóknarlögreglumaður af sárum sínum nú fyrr í vikunni. Vladas og fleiri afbrotamenn voru handteknir í þessari aðgerð lögreglunnar en þetta er án efa alvarlegasta áfall sem komið hefur upp innan raða hennar. Vladas hefur, að því er virðist, leikið tveimur skjöldum því í aðra röndina var hann virtur í viðskiptum og hafði dvalið hér á landi í átta ár. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hann hafi í raun haft það sem eitt að aðalmarkmiði sínu, að koma á fót skipulögðum glæpasamtökum hér á landi sem höfðu með eiturlyf, peningaþvætti, mansal og þjófagengi að gera. Fjölmargir hafa verið handteknir í tengslum við málið og þar á meðal nokkrir Íslendingar ... þarna er lögreglustjórinn mættur, Logi. Ég ætla að athuga hvort ég nái að spjalla við hann.“ Hallgrímur hljóp í áttina að Guðmanni og kallaði til hans þar sem hann smeygði sér undir gulan lögregluborðann og gekk hröðum skrefum af vettvangi. Settist inn í bifreið og ók á brott. Lögreglumaður stjakaði Hallgrími frá og annar reif í vél tökumannsins. Kvikmyndatakan minnti á atriði úr súrrealískri dogmamynd. Áhorfendur heima í stofu, eða á setustofu sjúkrahússins sáu ýmist jörð eða himin og allt þar 14


á milli. Orðaskak. „Heyrðu mig! Hvaða helvítis læti ...“ Útsendingarstjóra sjónvarpstöðvarinnar þótti greinlega besti kosturinn í stöðunni að skipta yfir í fréttastúdíóið því Logi birtist á skjánum. „Já ... þakka þér fyrir þetta, Hallgrímur. Einmitt, eins og komið hefur fram þá hefur Vladas Pavlovic verið búsettur hér um nokkurra ára skeið.“ Myndskeið sýna Vladas við hin ýmsu tækifæri umlykja íslenskar lúkur þekktra aðila úr viðskipta- og stjórnmálageiranum. „Árið 2006 var hann áberandi í viðskiptalífinu og var fyrsti erlendi aðilinn hér á landi til að hljóta sérstaka viðurkenningu viðskiptaráðs fyrir að auka viðskiptaleg tengsl við Eystrasaltsríkin. Í ljósi atburða síðustu misserin og sérstaklega það sem átti sér stað nú í kvöld er hann er talinn afar hættulegur og þeir sem geta gefið einhverjar upplýsingar um ferðir hans eru ...“ „Er þetta ekki þessi Vladas sem rændi henni ... hvað heitir hún aftur? Þessi stúlkukind hérna inni á númer fimm?“ spurði uppistandarinn. Ekkert svar. „Hilma! Heitir hún það ekki? Guð minn góður. Þess vegna eru þessi læti hérna. Heldurðu það ekki, Steini?“ sagði hann og leit til hliðar. Þorsteinn var farinn. Fyrir tæpum hálftíma höfðu fjórir lögreglumenn í fullum skrúða birst á deildinni. Tveir þeirra stóðu nú vörð við inngang hennar. Tveir við dyr númer fimm.

*

* 15

*


Það var einhver að reyna að slökkva elda í andliti hennar. Hún fann hvernig húðin hreinlega kraumaði á enninu. Á kinnunum. Vissi að hárið var byrjað að sviðna því hún heyrði hljóðið. Þessa fínlegu bresti þegar það brann upp að hársrótum. Það var eins og þúsundum nála væri þrýst ofan í hársvörðinn. Fann stækja lyktina. Hún kreisti aftur augun. Ekki sársaukans vegna, heldur hafði hún það á tilfinningunni að ef hún lokaði þeim ekki, myndi hún hleypa logunum inn fyrir. Brenna augun. Hún vildi ekki missa augun. Sjónina. Hvað hafði alið af sér þetta bál? Hún vissi bara að óbeislað, eyddi það öllu sem fyrir varð. Alæta sem hvæsti og öskraði. Það rigndi. Er það ekki? hugsaði hún. Þetta var jú þetta notalega hljóð fyrir neðan gluggann sem hún heyrði þegar þúsundir regndropa féllu. Og henni létti. Þá slokknar í mér fyrr. Er þetta ekki alveg öruggt? Jú, það hlaut að rigna. Hún heyrði greinilega í regndropunum þegar þeir féllu á polla og mynduðu tóna. Regn að spila á poll. Það spilaði á allt sem fyrir varð. Húsþök, bílþök, malbikið, grasið. Notalegast fannst henni þegar það spilaði á tjaldið. Sú tilfinning líður henni ekki úr minni þótt liðin séu tuttugu ár. Þrettán ára þegar hún vaknaði og hlustaði með lokuð augun á regnið þegar hún lá í tjaldinu. Líkt og bongótrommur væru slegnar með fingurgómunum. Man meira að segja eftir því að hún hafi brosað. Brosti þarna ofan í svefnpokanum. Kannski man hún þetta svona vel vegna þess að þetta var síðasta tjaldútilegan með mömmu og pabba. Hún opnaði þau. Augun. Sneri höfðinu til þar sem hún lá og sá vatnið seytla úr þvottapoka sem einhver kreisti yfir vatnsfylltri glerskál. Sá dropana lenda og spila á yfirborðið. Kaldur þvottapokinn straukst þægilega yfir enni hennar og hár. „Ert þetta þú, Guðmann?“ Dauf lýsingin frá veggljósi yfir rúmgaflinum lýsti aðeins upp hluta andlits hans í annars 16


rökkvuðu herberginu. „Hvað ert þú að gera hér?“ „Þær hringdu. Hjúkkurnar. Sögðu að þú værir vöknuð,“ sagði hann og virti fyrir sér einmannalegt andlit hennar. Velti því fyrir sér hvað hann væri að gera við rúmstokkinn hennar. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti það að vera einhver allt annar. Fjölskyldumeðlimur, náin vinur. Kærasti. Kannski áttaði hann sig á þessu svona kröftuglega fyrst núna þegar hann horfði á hana. Þessum einmannaleika hennar. Og þeirri staðreynd að hún hefði bara þennan feitlagna og þreytta yfirmann sem sæti núna yfir henni – öll einhvern vegin svo lemstruð og tætt. „Vöknuð? Ég er meira og minna vakandi,“ sagði hún og lokaði augunum. Var það ekki annars? Hún dró hægri höndina undan þunnri sænginni og verkjaði í öxlina sem var vafin grisju ásamt brjóstum hennar. Hún strauk yfir höfuð sér. Klístraðan lubbann. Hún fann fyrir umbúðaræmunni sem lá frá hvirfli og aftur að hnakka. Skallablettur. „Mig var að dreyma,“ sagði hún og leit á Guðmann sljóum augum. „Ég stóð í ljósum logum. Þessi draumur virðist vera í uppáhaldi þessa stundina.“ „Vertu alveg róleg, Hilma mín. Þetta er allt yfirstaðið núna,“ svaraði Guðmann. „Nú þarftu bara að jafna þig. Ég veit þú verður kominn á ról áður en þú veist af.“ Hann vatt þvottapokann yfir skálinni. Hilma leit á Guðmann til að lesa trúverðugleikann úr augum hans. Hann virtist meina þetta. Hvað sem því leið þá sætti hún sig við þá skynjun. Hún hafði ekki hugmynd um ástand sitt, hvorki líkamlegt né andlegt. Hafði ekkert tímaskyn. Minni hennar var gloppótt. Það er að segja, hún mundi allt nema hvað síðustu dagar ... eða síðustu mánuðir, voru ekki til staðar. Hún var ekki viss. Kannski dagar. Eins og þeir hefðu verið rifnir burt líkt og blaðsíður úr bók. Hún hafði þó náð í slitrur hér og þar en þær voru merkingarlausar. Pössuðu hvergi inn og voru á skjön við allt. Líklega liði dágóður tími þar til hún kæmi öllu 17


heim og saman. „Hvað heldurðu að ég þurfi að vera hér lengi?“ spurði hún og benti á vatnsglas sem stóð á hliðarborðinu með röri. Guðmann lét þvottapokann á skálarbrúnina, tók glasið og lagði rörið að vörum hennar. Hún saup á og verkjaði í kverkarnar þegar hún kyngdi. „Eða kannski fyrst ... hvað er ég búin að vera hér lengi?“ „Sex daga,“ sagði hann eftir að hafa litið á armbandsúrið. Svarið hafði ekki verið að finna þar. Hann vissi það alveg. Leit á það vegna þess að spurningin hafði með tíma að gera. Ávani. „Sex daga,“ sagði hún með sjálfri sér og dró andann djúpt. „En Númi. Hvernig hefur Númi það?“ Guðmann hikaði. Hafði ekki í sér að segja sannleikann. Hvað þá að segja henni að Vladas gengi laus. Ekki á þessum tímapunkti. Hafði heldur ekki í sér að ljúga. Hann varð hálfpartinn feginn þegar hún skipti um umræðuefni. Og þó. „Réttu mér spegil,“ bað hún. „Þú þarft engan spegil, Hilma mín...“ Hún greip í hönd hans sem hafði hvílt við öxl hennar, kreisti hana og vildi með því leggja áherslu á orð sín. Var reyndar máttlaus tilraun því hún var þróttlaus í öllum skrokknum. „Viltu vera svo vænn að ná í spegil fyrir mig, Guðmann,“ sagði hún blíðlega en þó leyndist skipunartónninn með. Hann stóð upp og gekk að horninu þar sem vaskurinn var og veggfastur spegill þar fyrir ofan. „Þetta er eini spegillinn hér. Og hann er fastur. Ég kem með spegil til þín á morgun. Það liggur ekkert á,“ sagði hann og sneri enn baki í Hilmu. „Skrúfaðu hann af, Guðmann. Losaðu hann frá veggnum.“ Hann langaði að minna hana á hver það væri sem réði. Hann var yfirmaður hennar og ekki vanur að láta segja sér fyrir verkum. Fyrir utan það hvað honum fannst þetta í raun fáránlegt. En nú var það ekki við hæfi. Hann átti ekkert í þessar aðstæður og athugaði festingarnar. Fjórir krómaðir 18


hnappar í hverju horni spegilsins. Hann náði að losa einn þeirra frá og þar fyrir innan var skrúfa. „Þetta er kirfilega fest, Hilma.“ Hann kveikti á litlu ljósi fyrir ofan spegilinn. „Ég get ekki ...“ Það var eins og hann hefði verið sleginn þungu höggi. Hjartað tók kipp og blóðið spratt fram í andlit hans þegar hann sá andlit Hilmu yfir öxl sína í speglinum. Hún hafði farið fram úr og gengið til hans án þess að hann hafði heyrt nokkuð. Hann sneri sér við, steig til hliðar og tók um handleggi hennar því hún var við það að missa jafnvægið. Hilma gaf Guðmanni til kynna að sleppa takinu og hún studdi báðum höndum við vaskbrúnina. Leit í spegilinn og greip andann á lofti og hló. Stutt og lágt. Varla hlátur. Johnny Depp, hugsaði hún. Edward Scissorhands. Hann hafði reyndar meiri lubba. Hún riðaði og var næstum dottin. Guðmann náði að grípa um hana en Hilma hristi hendur hans af sér. Hún vildi vera ein. Guðmann skynjaði það og gekk að rúminu. Var til staðar á hliðarlínunni. Honum varð starsýnt á þessa nettu en herðabreiðu og kröftugu stúlku sem stóð þarna ber að ofan í hvítum spítalabuxum. Berfætt. Honum varð starsýnt á bak hennar sem var þakið litlum skurðum. Glansandi skurðum. Líklega búið að setja eitthvað glært efni yfir hvern þeirra til að verja þá sýkingum. Handleggirnir marðir. Svartir og bláir flekkir. Litlaus spegilmyndin sýndi eitthvað sem hún kannaðist ekki við. Ekki útiteknu stúlkuna sem var með þykkt og brúnt axlarsítt hár og níu freknur á nefinu. Ekki einbeitt, lifandi og skærblá, nei, ljósblá augun sem amma hennar hafði einhvern tímann sagt að væru eins og í Einari Ben. Hún sá ekkert af þessu. Augun myrk, andlitið grátt og líkt og svartri og gulbrúnni málningu hefði verið makað í kringum augun og út á kinnbein. Annað augnlokið bólgið og fjólublátt. Litlir grunnir og ljósrauðir skurðir hér og þar í andlitinu sem 19


voru við það að gróa. Fyrir utan einn langan og djúpan. Hann hlýtur að hafa verið nokkuð djúpur því hann var límdur saman með sérstökum skurðlímböndum á fjórum stöðum. Tveimur á enninu og tveimur á kinninni. Eitthvað hafði rist upp hold hennar. Líklega hnífur. Jú, það hlaut að hafa verið hnífur. Gott ef hún sá hann ekki fyrir sér núna. Óljóst. Veiðihnífur. Leiftursnöggt hefur flugbeitt blað hans þotið skáhallt yfir ennið hægra megin, yfir augnholið og haldið áfram að rista upp húðina þegar hnífsblaðið lenti á vinstri kinninni. Hún lét vísifingur renna eftir sárinu. Minning um blóðbragð ruddist fram á tunguna. Um munnholið. Hún mundi líka annað. Augnablikið og tilfinninguna þegar það slaknaði á húðinni í andlitinu þegar því var nánast rist upp í tvo hluta. Hún losaði um grisjuna á öxlinni og þrýsti henni niður. „Hilma mín ...“ sagði Guðmann. Fann ekki framhaldið. Þegar grisjan losnaði frá blasti við skurður sem myndaði X yfir lítið tattú af krossfestum engli á upphandleggnum. Hún hélt áfram að toga í grisjuna sem lá yfir bæði brjóst hennar. Eftir að hafa flett henni niður sá hún að þau voru þakin litlum skurðum. Hún starði í spegilinn. Leit undan og niður í gólf. Það söng í óþéttum glugga í herberginu þar sem kaldur vindurinn tróð sér inn. „Ég þarf að komast í sturtu,“ sagði hún lágt. Guðmann hrökk við. „Ég veit ekki hvort þú mátt ...“ „Núna, Guðmann!“ sagði hún ákveðið og leit á hann. Skipun. „Ég verð að þvo mér.“ Hún leit aftur í spegilinn. Þvo þessa ófreskju, hugsaði hún.

20


4

. kafli 14. nóvember 2011 Mánudagur

Það hlaut að koma að því. Eftir ellefu ár í starfi á lögmannsstofunni man hann enn eftir fyrsta deginum. Þegar þau sátu í fundarherberginu og undirrituðu ráðningarsamninginn. Man enn eftir því hvað hann hafði vandað undirskriftina. Hafði áhyggjur af því að lykkjurnar myndu mistakast eða yrðu ljótar. Hann vandaði sig einstaklega vel: Þ-o-r-f-i-n-n-u-r. Það var eiginlega fyrst þá sem hann fann fyrir mikilvægi sínu. Tuttugu og átta ára gamall og eftirsóttur. Þau höfðu leitað til hans. Það hafði ekki gerst áður. Og honum hafði verið sagt að hjá þeim fengi hann tækifæri til að klífa stigann. Metorðastigann. Þegar fimm ár voru liðin hafði hann ekki enn séð þennan stiga. Og nú hafði vaknað upp sú spurning hjá honum hvort hann væri yfirleitt til. Honum hafði jú verið falin meiri ábyrgð. En ekki þessi völd sem til þurfti, til að mynda þennan metorðabratta sem hann hafði séð fyrir sér. Þessi bratti stigi sem sumir félagar hans höfðu fengið að kynnast annars staðar. Stiginn sem hann sjálfur hafði fengið að reyna var meira eins og þrep í þéttskipuðum bíósal. Endalaus hænuskref. En núna var eitthvað að gerast. Nú tæki hann risastökkið. Þetta var allt spurning um þolinmæði eins og einn samstarfsmaður hans hafði stundum sagt þegar þeir voru á trúnó á árshátíðum. Hann saknaði sáran þessarar tilfinningar þegar hann gekk út af fundinum fyrir ellefu árum. Hún var ólýsanleg. Sjálfstraust og viðurkenning. Eftirsóttur. Og eitthvað svo fjandi myndarlegur. 21


„Þorfinnur, þú ert að verða allt of seinn,“ heyrðist kallað af jarðhæðinni. Hann lagaði bindishnútinn og leit í þriðja sinn á ásýnd sína í speglinum. Óaðfinnanlegur. Góður fílingur þetta sjálfstraust. Blikkaði sjálfan sig og slökkti ljósið. „Pabbi, þú ert flottastur,“ sagði sú stutta þegar hann kom hlaupandi niður og þau hlógu. Ásta var enn í náttbuxum og hlýrabol, stóð við eldhúsborðið og hellti kaffi í tvo bolla. „Pabbi er líka sætastur,“ sagði hún um leið og hún gekk að honum, kyssti og rétti honum bollann. „Spenntur?“ „Já, ég verð að viðurkenna það. En þetta fer allt vel. Hef góða tilfinningu.“ Hann saup á kaffinu og leit á klukkuna yfir bollabrúnina. „Ég verð að drífa mig.“ Morgunþáttur hljómaði í litlu útvarpi undir eldhúsglugganum. Þáttastjórnendur voru með ráðherra í stjórnarandstöðu í viðtali þar sem rætt var um öryggi lögreglunnar og hvort leyfa ætti vopnaburð hennar eftir bíræfinn fangaflótta við Skúlagötuna. „Eigum við þá eftir að sjá Lethal Weapon-gæjana hlaupa niður Bankastrætið öskrandi með hólkana á lofti?“ sagði annar þeirra, greinilega mótfallin byltingarkenndum hugmyndum viðmælanda síns. „Verðið þið heima í dag?“ sagði Þorfinnur. „Já, hún er enn með hita,“ svaraði Ásta. „Barnapían kemur reyndar seinna í dag og ætlar að sitja yfir henni. Það er kistulagning seinnipartinn manstu? Klukkan þrjú.“ „Já, auðvitað,“ sagði hann með tónfalli eins og hann hefði munað það. Móðursystir hennar lést úr krabbameini. Þetta yrði í annað skipti í þessum mánuði sem hann myndi horfa á hvítt, hreyfingarlaust andlit. Þessi andlit sem margir sögðu að væru svo friðsæl. Það fannst honum ekki. Honum varð óglatt þegar hann stóð yfir þessum andlitum. Og ekki bara það. Hann varð hræddur. Þegar hann horfði á þau var eins og þau héldu honum föstum. Hvíslandi tóku þau hann kverkataki og ísköld hugsun þeirra skreið inn í hlustirnar: „Manstu ekki eftir 22


mér?“ Og hann mundi. Hvort hann gerði. Hann hafði margoft reynt að hrekja þessar minningar úr höfðinu. Það var ekki hægt. Líkt og mynd þeirra hefði verið máluð innan á heilann - og þar sátu þær - þessar myndir: Opin augun. Óttinn í skjannahvítum andlitum þeirra. Þessi dagur árið nítjánhundruð áttatíu og níu hafði límst við líf hans. Hann hafði haldið þeim niðri. Þeir allir höfðu haldið þeim niðri þangað til kraftur þeirra til að sleppa fjaraði hreinlega út. Og þá gat hann athafnað sig að vild. Sá sem réði í hópnum. Eini munurinn á þessum andlitum sem lágu hreyfingarlaus og köld í kistunum og þessum andlitum sem hann man eftir fyrir svo mörgum árum þarna í kaldri skemmunni, var að þau voru á lífi. Þau eru á lífi og hann vissi að þau höfðu heldur ekki gleymt neinu. Hann langaði helst af öllu að sleppa því að fara í dag. Sleppa þessari kistulagningu. Hann var nýbúinn að vera í einni slíkri. Einn af þremur eigendum og stofnandi lögmannsstofunnar hafði fengið hjartaáfall og látist. Hann reyndi að bægja frá sér þeirri hugsun að fráfall hans hefði verið hans stökkpallur. Metorðaþrepið hafði eftir allt saman legið í kistunni. Nú, þegar sorgarferlið var bak og burt vegna anna í fyrirtækinu, kom kallið. Fundurinn. Einn eigandinn – sá yngsti – hafði hringt í Þorfinn seint í gærkvöldi og tilkynnt honum hvað til stæði. Hann yrði meðeigandi stofunnar sem skiptist aðallega í þrjár deildir: 1) Aðstoð við stofnun fyrirtækja hérlendis og erlendis. 2) Skattar og skyldur fyrirtækja á erlendri grund. 3) Löggjafadeild sem hafði því hlutverki að gegna að þjónusta orku- og stóriðjufyrirtæki. Hugmyndin var að Þorfinnur kæmi til með að stjórna og bera ábyrgð á þeirri deild í stað fyrrum meðeiganda sem nú var allur. Yngsti eigandinn mátti ekki segja of mikið, en gat þó 23


upplýst Þorfinn um að hann þyrfti að leggja fram hlutafé. Þetta yrði dágóð upphæð sem hann þyrfti að leggja til og vildi athuga hvernig hann stæði. Hann stóð vel og þetta yrði ekki vandamál. Hann hafði sparað svo um munaði. Lífstíll í meðallagi og hann tapaði engu í hruninu. Þvert á móti. Lögfræðistofan blómstraði sem aldrei fyrr og hann hafði hagnast. Yfirvinna og bónusar. Auðvitað hafði það kostað fórnir. Ekkert níu til fimm þar. Hjónabandið hafði oft og tíðum átt undir högg að sækja. Ekki vegna þessara fórna: Kaldan kvöldmat og jafnvel engan kvöldmat. Stopult kynlíf. Nei, það tengdist meira lífsins lystisemdum. Hvað með hús á Seltjarnarnesinu? Sko, við sjóinn, spurði Ásta. Hvað er að Breiðholtinu? Sko, Seljahverfinu, hugsaði hann. Hvað með sumarbústað? En hjólhýsi þá? Hvað með jeppa? Þennan svarta eins og í CSI sem mér finnst svo flottur. Hvað með allar Spánarferðirnar og skíðaferðir til Ítalíu? Bíðum með það, sagði hann alltaf. Ég hef beðið í tíu ár, Þorfinnur! Dæs. Þolinmæðin hafði borgað sig og núna sá hann þetta gerast. Þau fengju allt. Eða, til að hafa það á hreinu, hún fengi allt og yrði ánægð. Hamingjusöm. Honum var í raun alveg sama. Hann þurfti ekki á neinu þessu að halda. Hann vildi bara sanna sig. Vera viðurkenndur. Eftirsóttur. Hann var víst góður maður! ... eftir allt saman. Hann kyssti Ástu annars hugar, sem skyrpti ímynduðum lukkuhráka á eftir honum. Hann þoldi ekki þegar hún gerði þetta. Þessir hrákar höfðu aldrei skilað neinu. Og svona oft. Meira að segja þegar hann fór í badminton með félögum sínum. En hann ætlaði ekki að láta það pirra sig núna. Nú, þegar allt var á uppleið. Hann greip utan um þá stuttu og lyfti henni skríkjandi af gleði upp fyrir sig. „Upp, upp, upp á fjall, upp á fjallsins brún ...“ farsími hans hringdi og hann lét þá stuttu á gólfið. Veiddi símann upp úr frakkavasanum og leit á skjáinn. Fölnaði. Þetta númer hafði birst á skjánum í gær og hann svarað. Af hverju var ég að svara? 24


Hann þrýsti á rauða takkann og lét símann aftur í vasann. „Hver var að hringja?“ spurði Ásta. „Eh ... æ, enginn. Ég hringi til baka úr bílnum. Jæja, ég er rokinn.“ Á leið sinni að útidyrunum leit hann í spegilinn í forstofunni. Horfði á sjálfan sig í síðasta skipti. Hvað varð um sjálfstraustið? Fannst hann líka hafa verið herðabreiðari í speglinum uppi. Augun bjartari og geislandi einhverri orku sem hann hafði ekki orðið var við langalengi. Það var engu líkara en spegilmyndin hefði rifið þennan neista úr augunum. Og ekki nóg með það. Hún hreinlega reif hann aftur um rúmlega tuttugu ár. Hann horfðist í augu við fortíðina. Andlit hans í speglinum blandaðist öðrum andlitum sem skellihlógu. Ekki af ánægju. Ekki af hamingju. Þvert á móti. Þau hlógu að einhverjum óhugnaði. „Er ekki allt í lagi?“ spurði Ásta innan úr eldhúsi. „Jú, allt í fína. Bless, ástin mín. Sjáumst í kvöld.“ Hann greip töskuna sína og gekk út. „Þú hringir þegar fundurinn er búinn,“ kallaði Ásta rétt áður en hann lét hurðina aftur. Hann heyrði þessa bón en hún náði ekki til heilans.

*

*

*

Guðmann mætti snemma til Hilmu. Í gær hafði hún farið í bað og hann heim. Hafði ekki í sér að segja henni tíðindin. Tvær slæmar fréttir. Vladas var sloppinn. Enginn vissi hvar hann var. Enginn vissi hvað hann ætlaðist fyrir. En það sem verra var: Númi, vinur hennar og starfsfélagi, hafði látist af sárum sínum. Guðmann ákvað að bíða með það. Þar til nú. Hann fór þó fyrst út á svalir við enda gangsins á deildinni. Vildi fara yfir það í huganum hvernig hann ætlaði að koma orðum að þessu. Vani. Hvort sem hann sat við skrifborð sitt eða úti við, þá fannst honum gott að horfa upp í hvítmálað 25


loftið á skrifstofunni eða svartan og stjörnuprýddan himininn eins og nú. Þar fann hann svör við ýmsu. Hann sá gervihnött silast eftir himinhvolfinu í vesturátt. Hann vissi þó að hann silaðist ekki. Gat verið á allt að tuttugu og fimm þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Veðurathugunarstöð eða kapalsjónvarpsstöð. Kannski njósnahnöttur. Ekki gott að segja, hugsaði hann. Við þessi skilyrði hefði hann séð fleiri stjörnur í sumarbústað sínum við Laugarvatn. Ljóshjúpurinn yfir Reykjavík máði þær fjarlægustu út. Hrollur sótti að honum og hann fór inn. Sá kaffisjálfsala og gekk að honum. Hann var ekki þekktur fyrir valkvíða. Tók yfirleitt skjótar ákvarðanir þegar mikið lá við og undir erfiðum kringumstæðum. En þegar hann leit á hnappana á kaffisjálfsalanum hikaði hann. Kaffi, Expresso, Cappuccino, Café Latte, Café au lait, Café con panne, Macchiato, og eins og það væri ekki nóg, þá var einnig hægt að velja styrkleika, bollastærð, sykur eða mjólk. Eða bæði. Og til að klára þetta: Aukasykur. Aukamjólk. „Ja, hvur andskotinn,“ sagði hann með sjálfum sér. Hann valdi kaffi. Engan sykur. Enga mjólk. „Ég var að horfa á fréttir,“ sagði karlmannsrödd að baki honum. Guðmann leit á eiganda raddarinnar en aftur á kaffibollann sem var um það bil að fyllast undir kurrandi sjálfsalanum. Gervisykur. Gervikaffi. „Hvernig hefur hún það?“ „Hver ert þú?“ spurði Guðmann án þess að líta aftur upp. Hann hafði ekki séð hann koma. „Þorsteinn. Þorsteinn Bergsson. Ég þekki Hilmu. Fjölskyldu hennar. Foreldra hennar. Áður en þau létust.“ Hann þagnaði og horfði ofan í línoleumdúkinn. „Ég hef þó ekki séð hana í nokkurn tíma ... altso Hilmu,“ sagði hann og leit upp. „Nokkur ár, en hef svona fylgst með henni.“ „Já.“ Guðmann tók kaffibollann og renndi brún pappamálsins undir stútana til að ná kaffidropunum sem annars hefðu fallið niður í ristina. Nýtni. „Ég get voðalega lítið sagt 26


...“

„Hún leitaði oft til mín. Gerði það í gegnum tíðina. Þegar hún átti erfitt, blessunin.“ Hann talar ekki mikið í heilum setningum þessi maður, hugsaði Guðmann. „Ég minnist þess ekki að hún hafi nefnt þig á nafn. Hvað sagðirðu, Þorsteinn?“ „Já. Ég veit þú þekkir hana mjög vel. Betur heldur en margur annar. Hún talaði mikið um þig.“ „Nú?“ Guðmann leit á hann fyrst núna. Fyrsta upplitið hafði verið þetta líta en ekki sjá. „Já, og eingöngu jákvætt auðvitað. Þú hefur verið henni mjög góður. En ég ætla nú ekki að vera að tefja þig. Þú hefur í mörg horn að líta. En mig langaði bara að vita hvernig hún hefði það. Ég hef spurt starfsfólkið hér en það er alltaf sama svarið. Sem er ekkert svar.“ „Hvað hefur það sagt?“ „Eftir atvikum góð.“ „Jamm,“ Hann saup á kaffinu og gretti sig. „Það er ekki gott.“ „Hvað er ekki gott?“ spurði Guðmann eftir að hafa kreist aftur augun. Hitinn kallaði fram tár í augun. Bragðið, grettuna. „Kaffið,“ sagði Þorsteinn og það örlaði fyrir brosi. „Þetta er ekki kaffi,“ sagði hann og nuddaði augun með lausu hendinni. „Hilma gæti haft það betra. Hún er illa farin en kannski er þetta rétta svarið. Eina rétta svarið. Hún hefur það gott eftir atvikum.“ Þorsteinn leit út ganginn og sá hvar uppistandarinn kom aðvífandi á hjólastólnum. Hann átti enn góðan spöl að þeim en þó gat Þorsteinn lesið úr andliti hans: „Hvað er að gerast? Hvað eruð þið að tala um? Hafði ég ekki rétt fyrir mér? Á Vladas eftir að birtast hér?“ og fleiri óviðeigandi spurningar. Hann ætlaði ekki að lenda í þeirri orrahríð. „Hérna, taktu þetta,“ sagði Þorsteinn og rétti fram þykka minnisbók, þar sem sver teygja hélt henni lokaðri. Inn á milli 27


blaðsíðna glitti í ljósmyndir og pappíra. „Hilma skildi þetta eftir hjá mér í síðasta skiptið sem við hittumst. Það eru líklega fjögur ár síðan. Ég sagði henni í síma að hún hefði gleymt þessu. Hún sagðist ekki hafa gleymt neinu. Náði aldrei í þetta.“ Þorsteinn leit aftur inn ganginn og uppistandarinn nálgaðist þá. Hann talaði hraðar. „Ég bað dóttur mína að koma með þetta hingað á deildina til mín þegar ég frétti af henni hérna, en hef ekki haft tækifæri til að koma þessu til hennar. Þú kannski gerir það fyrir mig. Hafðu það gott,“ sagði hann skyndilega, skellti undir sig hækjunum og gekk á braut. Guðmann horfði á eftir honum. Furðaði sig á fiminni, og hækjurnar hljómuðu eins og taktstokkur. Presto. Hann leit á dagbókina. Hafði ósjálfrátt smeygt teygjunni utan af dagbókinni. Horfði lengi á þessa bók milli handa sér. Smeygði teygjunni aftur á sinn stað.

28


5. kafli

Guðmann gekk út ganginn og sá hjúkrunarfræðing koma út úr herbergi Hilmu. Þá sem hann hafði talað hvað oftast við í heimsóknum sínum. Þessa dökkhærðu um fimmtugt. Kannski losaði hún þann tug en bar það allavega ekki með sér. „Hvernig hefur hún það?“ Alveg rétt. Hún hét Svava. „Hún sefur,“ sagði hún og brosti til hans. „Ég held hún hafi haft gott af baðinu í gærkvöldi. Við gáfum henni róandi þannig að hún náði að hvílast vel. Úpps!“ Svava vék sér undan þegar uppistandarinn þaut hjá í hjólastólnum og hvarf inn um sömu dyr og Þorsteinn. „Það er aldeilis. Hvar var ég ... já, hún sefur núna.“ Guðmanni fannst það hljóma hálfeinkennilega þar sem Hilma hafði sofið nánast frá því hún kom inn á deildina. En hún hlaut að tala af viti þessi kona. Stúlka. Dama. Hvað um það og líklega hafði hann óafvitandi sett upp þannig svip efasemdar því hún hélt áfram. „Þó svo hún sé búin að sofa meira og minna frá því hún kom hingað inn, þá hefur líkaminn og líkamsstarfsemi hennar ekki hvílst. Það getur ýmislegt átt sér stað í svefni. Hún nær ekki þessum djúpsvefni.“ „Hvað áttu við með því, djúpsvefni?“ „Þegar þú sefur nærð þú nokkrum klukkustundum í djúpsvefni. Þá slaknar á vöðvum, það hægist á púlsinum og blóðþrýstingur lækkar. Það er eins og Hilma nái aðeins þessum létta svefni og virðist eiga í heilmiklum innri átökum. Þó svo hún hafi rankað við sér af og til, er ekki þar með sagt að 29


hún hafi vaknað að neinu ráði. Nú er hún stöðugri, þannig að með góðum svefni ætti hún að ná raunverulegri hvíld.“ „Já, ég skil. Ætli mér sé óhætt að kíkja inn til hennar?“ „Það ætti að vera í góðu lagi.“ Hann þakkaði henni fyrir og gekk í áttina að herbergi Hilmu en mundi þá eftir einu og sneri sér að Svövu. „Hver er hann, þessi Þorsteinn sem var að fara inn á herbergi?“ spurði hann og nikkaði inn ganginn. „Þorsteinn, já. Hann er fastagestur hér,“ sagði Svava og hló lágt. „Nei, ég á auðvitað ekkert að vera að segja þetta, en það er ekki við öðru að búast þegar menn á áttræðisaldri taka upp á því að stunda fjallaklifur af miklum móð. Hann er alltaf á hausnum. Þetta er í þriðja skiptið sem hann kemur hingað illa brotinn. Nú voru það tvö rif og ökklinn. Við leysum hann alltaf út með vænum skammti af kalktöflum.“ Hún hló um leið og hún talaði og tók um handlegg Guðmanns og reyndi að hemja sig. Saug upp í nefið, tók á sig rögg og kom sér á upphafspunkt aftur. „Ég talaði nú við þetta fólk þar sem þetta er stundað og bað þau hreinlega um að banna honum þetta því hann hlustar ekkert á sína nánustu. Hvað þá okkur hér. En þau geta ekkert gert. Ég bað þau þó um að hann yrði settur í eitthvert öryggisnet og hnausþykkum dýnum yrði komið fyrir neðan þennan klifurvegg,“ sagði hún og hló kæfðum hlátri og kreisti óafvitandi upphandlegg Guðmanns. Hún setti upp þennan svip þegar kvenfólk vill ekki að maskarinn fari út um þúfur, þurrkaði tárin undan augum sínum og leit í kringum sig. „En þú varst auðvitað ekkert að spyrja að þessu. Fyrirgefðu, ég bara ...“ Guðmann brosti sínu breiðasta og vildi gefa henni til kynna, frekar en að segja það, að þetta væri í góðu lagi. Og honum fannst það í lagi. Það var líka gott að geta gleymt sér í skemmtilegum sögum þó ekki væri nema rétt eitt augnablik og helst langaði hann að hlæja úr sér allt vit. Kunni bara ekki 30


við það. Mikið óskaplega var hún falleg, hugsaði hann þegar hann horfði á hvítar tennur hennar þegar hún hló og brosti þessu fallega og hlýlega brosi. Augun svo vinaleg. Eitthvað svo ... hann hristi hugsanirnar af sér. Skyldi einhver hafa séð þær? „En hann Þorsteinn er sem sagt þekktur sálfræðingur og er enn að,“ hélt hún áfram. „Mjög eftirsóttur meira að segja, en mér skilst að hann taki ekki hvern sem er. Biðlistarnir eru víst langir. Og hann sagðist þekkja hana Hilmu hér. Hefur verið að spyrjast fyrir um hana, en við höfum auðvitað ekkert sagt.“ „Þakka þér fyrir þetta,“ sagði Guðmann eftir að hafa tekið sopa og grett sig – í fjórða sinn. Hann rétti henni hálftómt kaffimálið sem hún bauðst til að losa hann við. „Það er ekki gott þetta kaffi,“ sagði hún og yggldi sig. „Þú getur beðið okkur um uppáhelling næst.“

*

*

*

Þorfinnur gekk að bílskúrshurðinni, leit yfir götuna og sá hvar nágranni hans var í óða önn að skafa framrúðuna á bíl sínum. Líklega með einhverju allt öðru en rúðusköfu því honum sóttist verkið afar illa og seint. Þorfinnur ýtti á fjarstýringuna og þung bílskúrshurðin tók kipp. Hann hafði látið það eftir Ástu að kaupa opnarann af sölumanni sem hafði bankað upp hjá þeim einn frostkaldan veturinn. Það var með naumindum að vélbúnaðurinn næði að hífa hana upp. Hann var ekki gerður fyrir svo þykka og þunga hurð, þó svo sölumaðurinn hefði sagt hann ráða við loka á stíflugarði. Þorfinnur vorkenndi vélbúnaðinum í hvert skipti sem hann þrýsti á fjarstýringuna. Rembdist líkt og kraftlyftingamaður sem hafði sett aðeins of mörg lóð á stöngina. Dauft ljósið við mótorinn kviknaði og geislar þess náðu rétt svo að sleikja svart myrkrið fyrir utan. Brunagaddurinn 31


úti minnti hann þó alltaf á hversu góð þessi kaup hefðu verið þrátt fyrir allt. Bíllinn var heitur og rúðurnar lausar við þykkt íslagið sem nágranninn hafði verið að berjast við, sem í þessum hugsuðu orðum var að aka frá húsi sínu með útsýnisrauf á framrúðunni sem minnti á sjónop skriðdreka. Þorfinnur opnaði dyrnar á bílnum og henti töskunni í farþegasætið. Út við sjónsvið hans skaust skuggi. Hann hugsaði ekki út í það. Líklega einn af þessum tugum katta í hverfinu. Þeir voru alltaf snemma á ferðinni eins og hann. Samt í stærri kantinum fannst honum. Þessi skuggi. Hann ætlaði að opna bílstjóradyrnar þegar kæfð hringing barst aftur úr frakkavasa hans. Hann tók símann upp og ljósið af stórum skjánum lýsti upp andlit hans. Horfði á númerið. Fann hita færast út í kinnarnar. Svaraði. „Viltu gjöra svo vel og láta mig í friði,“ sagði hann ákveðið og þrýsti á rauða takkann á símanum og tilfinningin var lík því að skella hurð. Hann leit á símann og sá munnvatn á skjánum. Hitinn hafði færst upp í ennið. Hann stakk símanum í vasann og gerði sig líklegan til að setjast inn. „Af hverju viltu ekki tala við mig?“ sagði rödd bak við hann. Þorfinnur hrökk við með hljóðum um leið og hann sneri sér við og féll með bakið upp að hlið bílsins, og adrenalínið virtist einungis brjótast út og niður til fóta hans. Hnén urðu máttlítil og hann seig örlítið niður með hlið bílsins. Reyndar rauk það núna til hjartans líka sem hjó og lamdi þungum höggum fram í húðina eins og fangi sem var ósáttur við að vera lokaður inni í myrkrinu. Hann greip um brjóst sér. Og nú rauk það upp í höfuðið. Það var eins og adrenalínið fyllti upp í hvern krók og kima. Líkt og það væri verið að fylla blöðru af vatni og hún væri við það að gefa eftir. Springa. Nú var adrenalínið komið um allan líkamann og hann verkjaði í hvern vöðva. Hann vissi ekki hvað líkaminn hafði verið að gera. Vissi ekki að slagæð hjartans og æðar líkamans 32


þrengdust og drógu úr blóðflæði til innyfla og húðar. Þau þurftu ekki á því að halda þessa stundina heldur ákvað líkaminn að auka hjartsláttinn og víkka æðar sem liggja til vöðva og heila. Vissi ekki að líkaminn væri að undirbúa hann fyrir baráttu upp á líf og dauða - eða flótta. „Hvað ert þú að gera hér?“ „Heimsækja þig,“ sagði yfirveguð og róleg röddin. „Heimsókn sem þú hefur átt von á í tuttugu ár.“ „En ... ég hélt ...“ „Þú heldur svo margt. Ég er satt best að segja hissa að þú skulir þekkja mig. Eftir öll þessi ár. Hvernig hefur þú haft það, Þorfinnur? Alltaf á uppleið? Kona og barn. Fallegt hús. Sjálfvirkur bílskúrsopnari. Ekkert sérstakur bíll þó,“ sagði manneskjan, leit til hliðar við Þorfinn og virti bílinn fyrir sér í daufri birtunni. Köttur birtist í bílskúrsopinu. Stóð hreyfingarlaus í myrkrinu og horfði gullnum augum inn fyrir. Engu líkara en hann væri uppstoppaður. Manneskjan tók fjarstýringuna úr hönd Þorfinns, þrýsti á hnappinn og mótorinn urraði. Kötturinn tók viðbragð. Lækkaði sig um nokkra sentímetra og hver einasti vöðvi var spenntur til hins ýtrasta. Það sama gerðist nú í líkama hans og hafði gerst hjá Þorfinni. En ólíkt honum þá tók kötturinn ákvörðun. Hann lagði á flótta. Bílskúrshurðin skall að hurðaropinu. „Hvað viltu?“ spurði hann þetta andlit sem hann hafði séð í speglinum rétt áðan. „Þú hélst þér tækist að gleyma mér, er það ekki? Hélst það myndi duga að búa til líf eins og þú vildir hafa það og ég myndi mokast undir gamlar minningar. En það var ekki svo auðvelt, var það? Ég dúkka alltaf upp. Hér og þar í einhverju litlu hólfi hér uppi í hausnum,“ sagði manneskjan og pikkaði með latexklæddum vísifingri á gagnauga Þorfinns. „Þú getur ekki gleymt. Og nú stend ég hér fyrir framan þig. Minningin 33


holdi klædd. Eitthvað sem þú vissir þó innst inni að myndi gerast en vildir ekki trúa því. Jæja. Hér er ég,“ sagði manneskjan og rétti báðar hendurnar út til hliðanna um leið og hún brosti. „Af hverju ertu með þessa hanska?“ „Ég skal segja þér það með glöðu geði,“ sagði manneskjan óþægilega glaðlega og sneri lófunum og handarbökunum á víxl fyrir framan hann. „Það er til þess að það sjáist engin verksummerki. Hljómar dálítið eins og sena úr Rauðhettu,“ sagði hún og hló. „Verksummerki?“ sagði hann lágt líkt og hann skildi ekki hvað hún ætti við. „Eftir hvað?“ bætti hann við og fannst hann kyngja sandi. „Eftir að ég drep þig, auðvitað.“ „Þú ert að grínast, ekki satt.“ En eitthvað innra með honum sagði að hann hefði líklega rangt fyrir sér. Hún var ekkert að grínast. Kannski skynjaði hann þessa svörtu nærveru dauðans. „Grínast? Nei, ég er ekki að grínast,“ sagði manneskjan og hljómaði ekki eins glaðlega og áður. „Þó svo þú horfir á mig hérna sprelllifandi, þá dó ég í raun og veru þarna fyrir tuttugu og tveimur árum. Og þú varst einn af þeim sem drapst mig. Og nú er ég hér komin til að drepa þig. Er það ekki bara sanngjarnt?“ sagði hún og þrýsti rafbyssu þétt upp að öxl Þorfinns. Hann hljóðaði lágt og féll í gólfið. Allt þetta umstang, þessir kraftar sem höfðu átt sér stað í líkama Þorfinns virtust hafa verið til einskis. Hann nýtti sér þá ekki og nú var það hvort sem er orðið of seint. Manneskjan hefði óskað þess að hún hefði getað gefið sér meiri tíma til að spjalla. Rifja upp ... nei, rífa upp minningar. En hún hafði takmarkaðan tíma. Hún tók undir axlir Þorfinns og kom máttlausum líkama hans fyrir undir stýri. Opnaði rennilásinn að svartri nælontösku og dró upp uppvöðlaða slöngu og límbandsrúllu. Öðrum enda slöngunnar tróð hún 34


inn í púströr bílsins og þétti með breiðu límbandi sem hún margvafði utan um rörið. Manneskjan settist í farþegasætið við hlið Þorfinns og gangsetti bílinn. Þrýsti á hnapp milli framsætanna og opnaði farþegagluggann að aftanverðu lítillega. Kom hinum enda slöngunnar inn um opið og gætti þess að hann lægi nálægt Þorfinni. Þrýsti aftur á hnappinn, og glugginn skorðaði slönguna af. Manneskjan fann hvernig volgt loftið þrýstist hljóðlaust út um slönguopið. Hún steig út úr bílnum og lokaði farþegahurðinni varlega. Horfði um stund inn um gluggann og á Þorfinn þar sem höfuð hans slútti fram á bringu. Líkt og hann svæfi. Velti því fyrir sér hvað hann myndi hugsa þegar hann vaknaði. Annaðhvort innan um blóm og iðagræn tún eða umlukinn logum vítis. Hún var ekki viss. Hafði hvort eð er aldrei velt þessum vistarverum sérstaklega fyrir sér. Og þetta var kannski ekki rétti tíminn til þess. Nú varð hún að drífa sig og þetta hafði bara gengið nokkuð vel, hugsaði hún. Hún kuðlaði saman íþróttatöskunni og tróð henni í úlpuvasann. Opnaði litlar dyr á bílskúrshurðinni og leit út. Engan að sjá. „Hafðu það gott, Þorfinnur,“ sagði manneskjan lágt og steig út í gaddfreðinn og myrkvaðan morgundaginn sem var um það bil að fara að teygja úr sér. Sú stutta stóð í gluggakistunni í stofunni þar sem hún var vön að vinka pabba þegar hann ók frá húsinu. Hún var með nefið klesst upp að rúðunni sem sneri út að götu. Ásta stóð fyrir aftan hana og þær rýndu út í myrkrið. „Hvar er pabbi?“ spurði hún og leit á mömmu. „Við vorum kannski bara of seinar. Pabbi farinn,“ sagði Ásta með andlitið þétt að rúðunni og notaði hendurnar til 35


að losna við speglun. Sú stutta ætlaði að fara að gráta. „Nei sjáðu þarna. Sérðu stjörnuna þarna. Hún er á fleygiferð,“ en sú stutta sá ekkert. „Þarna, sjáðu,“ sagði hún og stillti sér þannig upp fyrir aftan hana svo hún gæti bent nákvæmar. „Þetta er gervihnöttur.“ „Gervihnöttur? Hvað er það?“ „Það er svona tungl svo þú getir horft á Cartoon Network og svona. Og til að pabbi geti horft á fótboltann.“ Hún horfði á hnöttinn sem silaðist í vesturátt í um fjögur hundruð kílómetra hæð yfir jörðu. Sú litla missti áhugann og grét. Ásta tók hana upp og lyfti upp fyrir sig, sneri sér í hringi og söng:

Upp, upp, upp á fjall, upp á fjallsins brún. Niður, niður, niður, niður, Alveg niður á tún.

36


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.