Ljóðstafur Jóns úr Vör 2023

Page 1

LJÓÐSTAFUR JÓNS ÚR VÖR

2023

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Árið 2001 var stofnað til ljóðasamkeppni á vegum Lista- og menningarráðs Kópavogs og Ritlistarhóps Kópavogs, sem hlaut nafnið Ljóðstafur Jóns úr Vör, í minningu skáldsins sem lést 4. mars 2000.

Jón fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.

Ljóðstafur Jóns úr Vör er veittur að lokinni samkeppni þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð á íslensku, og undir dulnefni. Hér takast því á reyndari skáld og þau yngri í jöfnum leik.

Veitt eru peningaverðlaun og verðlaunaskáldið fær til varðveislu í eitt ár silfurskreyttan göngustaf, sem var í eigu Jóns úr Vör. Á stafinn er festur skjöldur með nafni verðlaunahafa ásamt ártali.

Árið 2011 var Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs sett á laggirnar, haldin í tengslum við Ljóðstaf Jóns úr Vör. Markmiðið með grunnskólakeppninni er að efla áhuga barna og ungmenna á ljóðagerð en öll grunnskólabörn í Kópavogi geta tekið þátt.

Dómnefnd, skipuð fagfólki á sviði bókmennta, fer yfir innsend ljóð beggja flokka. Verðlaun eru veitt við hátíðlega athöfn á fæðingardegi Jóns úr Vör, 21. janúar ár hvert.

Dómnefnd Ljóðstafs Jóns úr Vör 2023:

Anton Helgi Jónsson

Kristín Svava Tómasdóttir (formaður)

Þórdís Helgadóttir

Eftirfarandi hafa hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör

2023

Sunna Dís Másdóttir: Á eftir þegar þú ert búin að deyja

2022

Brynja Hjálmsdóttir: Þegar dagar aldrei dagar aldrei

2021

Þórdís Helgadóttir: Fasaskipti

2020

Björk Þorgrímsdóttir: Augasteinn

2019

Brynjólfur Þorsteinsson: Gormánuður

2018

Sindri Freysson: Kínversk stúlka les uppi á jökli

2017

Ásta Fanney Sigurðardóttir: Silkileið nr. 17

2016

Dagur Hjartarson: Haustlægð

2015

Ljóðstafur ekki veittur

2014

Anton Helgi Jónsson: Horfurnar um miðja vikuna

2013

Magnús Sigurðsson: Tunglsljós: In memoriam

2012

Hallfríður J. Ragnheiðardóttir: Triptych

2011

Steinunn Helgadóttir: Kaf

2010

Gerður Kristný: Strandir

2009

Anton Helgi Jónsson: Einsöngur án undirleiks

2008

Jónína Leósdóttir: Miðbæjarmynd

2007

Guðrún Hannesdóttir: Offors

2006

Óskar Árni Óskarsson: Í bláu myrkri

2005

Linda Vilhjálmsdóttir: Niður

2004

Hjörtur Marteinsson: Hvorki hér né ...

2003

Ljóðstafur ekki veittur

2002

Hjörtur Pálsson: Nótt frá Svignaskarði

Á EFTIR ÞEGAR ÞÚ ERT BÚIN AÐ DEYJA

Á eftir þegar þú ert búin að deyja ætla ég að taka þig með mér héðan, sveipa um þig dimmrauða teppinu sem þú felur þig undir, hylja þig nepalskri jakuxaull og stinga tönnunum þínum í vasann. Vatnið drýpur úr svampinum á náttborðinu. Hann er tannholdsbleikur á hvítum pinna og þú læsir kjálkunum um hann eins og ungbarn um móðurbrjóst þegar hann strýkst við varir þínar. Fyrsta viðbragðið er það síðasta sem hverfur. Á eftir þegar þú ert búin að deyja förum við í sirkus og borðum kandíflos sem límist í góminn klístrast við tannholdið spunninn sykur á pappírsvafningi, hann leysist upp á tungunni eins og tíminn og ég rétti þér tennurnar og sé hendur þínar verða fleygar á ný.

LJÓÐSTAFUR JÓNS ÚR VÖR 2023

LOK VINNUDAGS Í SLÁTURTÍÐ

Beinhvítur gúmmíhamurinn flysjast af mér niður í sápuvatnstunnuna en seigfljótandi blóðlyktin eltir mig úr örlagasalnum og inn á kaffistofu. Reyni að þynna hana út með kremkexinu.

Sagt er; þau áttu gott líf, en svo vaknaði grunur síðustu daga.

Við spegil búningsklefa innisundlaugarinnar pilla ég upphleyptar blóðfreknur af andlitinu

áður en ég steypi hamflettum skrokknum í klórblátt vatnið.

Hjarta, nýru, lifur og lungu eru enn skorðuð inní mér.

Solveig Thoroddsen

2. VERÐLAUN

ANNAÐ LÍF

kveikjum á fólkinu sem tekur ekki að tala um

dagarnir renna út í kæliskápum lokuðum til hálfs

dottandi fjarstýringar kalla fram endurtekið efni

á svölunum bíður sólarhringurinn og berar arminn

heimilin hverfa inn í skafla sem komast ekki til skila

merkingin setur í tösku búin að gefa frá sér orðið

gráskorpinn börkur opnar loks glufu fyrir annað líf

Helga Ferdinandsdóttir

3. VERÐLAUN

HINIR DAUÐU

Þeir stinga sér til sunds í moldinni synda neðanjarðar um alla eilífð.

Ég æfi flugsund.

VIÐURKENNING

FYRSTA SINN SEM ÞÚ BÝRÐ Á ÍSLANDI

Þú veist ekki hvar landið endar og himinn byrjar það er allt græn hvíta. Þetta er ekki dómsdags veður, svona er það bara að kyssa norðurheimskautsbaug

í febrúar og mars. Ég nálgast hringl úr eins fermetra eldhúsinu.

Á viðarlíkisflísunum, hýena, þrívíð og flöktandi hún er almynd, og þú

hefur nú þegar fóðrað hana, gefið henni afa minn sem rjúpu og ég er brjáluð.

Auðvitað vissir þú ekki að við breytumst

í grjót, rjúpur. Við gætum verið mold pollar, fléttur, elskan. Almyndin er ekki hrædd við mig, lyftir rjúpuvæng af gólfinu og strýkur

á mér kálfann, er mjúk, stekkur yfir lítinn inniskó á ganginum og gufar upp, eða flýgur … ekki viss. Skilur eftir brauðmolablóð sem þú eltir og býrð þig undir að þrífa en hnerrar í staðinn. Wowcoolhologram segir þú afi segi ég, hnerrar, þú ert kvefaður aftur og það er mér að kenna sem sannfærði þig um að flytja á þennan stað sem er alltof kaldur fyrir stór flekkótt kattardýr.

Í
VIÐURKENNING

RABARBARAPÆ

Í votum jarðvegi garðsins við ána dafnar rabarbarinn. Sker nokkra stöngla við rót, hegg blöðkurnar fimlega af yfir garðhaugnum. Uppskriftina handskrifaði ég í stílabók fyrir allnokkrum árum, eftir Helgu minni á Grófargili í Skagafirði.

Löngu óþarft að líta í bókina þar sem ég kann uppskriftina utanbókar. Hitamælirinn utan eldhúsgluggans sýnir 23 gráður, svo það er svölun að sýsla aðeins inni í eldhúsinu eftir útiveruna. Stilkana sker ég niður í fat, sykra vel og strái hveitimulningi yfir.

Þér líkar augljóslega verklagið og því þú segir „við skulum elskast meðan pæjið kraumar í ofninum“.

- Ókei.

Þurrka af smjörvuðum höndum í pilsið og tipla á eftir þér uppí risið.

Undir harðnandi deiginu mýkist rabarbarinn í 175 gráðu heitum ofninum. Við höfum 45 mínútur.

Solveig Thoroddsen
VIÐURKENNING

SKUGGASVEINN

Mundu

ef þú þarft að fara inn í brennandi hús

þar sem fólk er sagt vera inni að leita vel í öllum skápum

og undir rúmunum því þar fela börnin sig fyrir hitanum reyknum og eldinum láta lítið fyrir sér fara og hafa hljótt

hafðu minni áhyggjur af þeim sem öskra og hafa hátt

þú rennur nógu fljótt á hljóðið í þeim

Hann Svenni frændi var léttur og skemmtilegur karl með suðrænt útlit kvikur í öllum hreyfingum eflaust með skútublóð í eirðarlausum æðum

En þegar ég byrjaði í lögreglunni tók hann mig tali sem slökkviliðsmaður af gamla skólanum með reynslu af öllum kolakyntu timburhúsunum

Aldrei að þreifa þig áfram með lófann að veggnum nota alltaf handarbakið svo þú grípur síður um rafmagnsvíra eða eitthvað glóðheitt og brennandi sagði hann alvarlegur í bragði

lagði svo öróttar og brenndar hendur sínar

yfir mínar hvítar sléttar og stráheilar.

Theódór Kr. Þórðarson

VIÐURKENNING

VILLISVEPPIR Í PRIPYAT

Við búum í barnaskólanum

út um tóman gluggann glampar á

járntjaldið grafhýsi framtíðarinnar

villihestar éta skólabækurnar sem gleymdust á bekkjunum daginn sem hornsteinninn að þessari ferðamannaparadís var lagður

í eftirmiðdaginn eru rúturnar

ristar á hol

þau vella út

anda grunnt

óttablandin hrifningin

sveppalaga ský í augum þeirra

greiða fúlgur fjár

fyrir hlutdeild

í örlögum okkar

harmur er munúðarvara

að kvöldi leggjumst við

fram á lyngi vaxin borðin

dreymir:

framtíð smádýr

villisveppi

VIÐURKENNING
Sunna Dís Másdóttir

VORVINDAR

Þú segir að senn komi vorið, en ég veit það er ekki satt. Vorið er enn í gamla kassanum uppi á lofti innan um allt hitt dótið, brotnar myndir, visnuð orð, liðnar stundir, sorgir og gleði.

Stundum læðist ég upp stigann, lyfti einu horninu og hlusta á glaða vorvindana. Gæti þess þó þeir sleppi ekki út og fikra mig rólega aftur niður.

VIÐURKENNING
Pétur Eggerz
VIÐURKENNING

ÞÚ SEGIST EKKI VERA STERKUR OG ÞAÐ ER SATT

Þú segist ekki vera sterkur og það er satt, þú ert einasta blíðasta stakasta strá

smástingandi stúfur undan stéttinni, titrar í golunni og tárast undir stýri, tvístígandi axladans, handadans, magadans: búkdans uppblásna blöðrumannsins, veltist um gulur og rauður og blár og brattur, svo hnugginn, svo sperrtur, ferð í taugarnar á sjálfum þér en getur ekki hætt, svo svekktur en ég hef séð þig

falla í stafi undir úðakerfi í grænmetiskæli, vefa blómakransa úr engu nema ýlustráum, atviksorðum og örfáum fíflum úr Vesturbænum og ég gæti haldið áfram. Ég gæti haldið áfram eins og

rúðuþurrka

en mig langar að ráðast að rót og þú þarft að vera kyrr svo við getum komist að þessu innsta og minnsta.

Þú þarft að vera alveg kyrr.

Sölvi Halldórsson

LJÓÐASAMKEPPNI GRUNNSKÓLA KÓPAVOGS

KRÓNUBLÖÐ

Ég sný mér við og ligg á bakinu Ég heyri hljóðlátt píanóspil – spila fyrir mig Fyrir ofan fljóta blöðin í hægum sveip Gul og björt, eins og sólin sem skilur eftir hlýja kossa á kaldri húð minni Blað snertir húð mína mjúklega Feimið og hrætt, eins og ég myndi brotna Umkringdur gulum blómum, heyri ég þau hvísla að mér „Ég er hér“.

1. VERÐLAUN

Alexander Aron Karenarson Lindaskóla, 9. bekk

EITT TRÉ

Eitt tré

Ekki neitt meira

Bara eitt tré

Það þarf ekkert meira

Einungis eitt tré

Og einn lítill fugl

Ofan á litlum steini

Það þarf ekkert meira

Á þessari litlu jörð

Það er ekkert meira

Heiðar Þórðarson Lindaskóla, 9. bekk

2. VERÐLAUN

ÓÐUR

Þegar flöktandi form frjósa í fjölbreytilegri endurtekningu, stendur þú eftir með óð til myrkursins.

3. VERÐLAUN

Þorbjörn Úlfur Viðarsson Álfhólfsskóla, 8. bekk

ÁLFAMÆR

Hér undi forðum álfamær sem uppheimsljósið þekk og gullinbrydd var skikkjan skær og hún stjörnu bjarta á enni bar.

Ragnhildur Una Bjarnadóttir

Kársnesskóla, 5. bekk

DAGURINN

Dagur er góður, góður er Dagurinn. Dagurinn er sérstakur. Dagurinn er eitt sem við eigum, eitthvað sem við kaupum ekki. En Dagurinn kemur með sólinni.

Þórunn Ása Snorradóttir

Kársnesskóla, 5. bekk

VIÐURKENNING

FAGRA SKRÍMSLI

Fagra skrímsli, þú ert svo svo flottur, eins og Ísland. Það er mjög sérstakt. Og það er mjög mjög gaman að sjá þig að brosa fagra skrímsli. Og ég verð glöð þegar ég heyri þig hlæja og það er mjög skemmtilegt þegar þú segir mér brandara. Ég sé þig stundum leiðan en þá mun ég hugga þig. Þú ert besti vinur minn.

Freyja Kirstine Jóhannsdóttir Kársnesskóla, 5. bekk

HA. HVAÐ SAGÐIRÐU?

Hvort kom appelsínugulur eða appelsína á undan?

Eggið eða hænan?

Endirinn og lífið er framundan!

Höfum við pokann alltaf vistvænan?

Verður áfengi aftur bannað?

Hvað er eiginlega klukkan?

Er hafið fullkannað?

Bráðum kemur hrukkan!

Börkur býr til blað

Og Valur flýgur

Úlfur stekkur í blóðbað

Húni berst við tígur

Vá hvað ég þarf að pissa

Hvað í lífinu lærðirðu?

Hár hvellur líklegast byssa

Ha. Hvað sagðirðu?

Jóhann Emil Óðinsson og Markús Steinn Ásmundsson

Lindaskóla, 9. bekk

VIÐURKENNING

JÓL

Jólaklukkurnar klingja og falleg ljós á trénu lýsa okkur í myrkrinu. Börnin syngja jólalög og lengst inni í myrkrinu leynist hlýja. Og inni í húsi eru fjölskyldur að opna pakka. En börnin smá þurfa flík í gjöf, því annars kemur jólakötturinn og tekur þau.

Heiða Kristín Eiríksdóttir

Kársnesskóla, 5. bekk

LÍFIÐ

Lífið er eins og fótbolti, þú þarft kjark, sjálfstraust og hugrekki til að sigra leikinn.

Lífið er eins og fótbolti, þú lendir í meiðslum, mótbyr og árekstrum en þú heldur samt alltaf áfram.

Taktu hverja æfingu og hvern leik eins og hann sé þinn seinasti.

Lindaskóla,

Ólöf Inga Pálsdóttir 8. bekk
VIÐURKENNING

VONDUR TÍMI, RÉTTUR STAÐUR

Ég hélt alltaf að við værum eins og himinninn og stjörnurnar

Svo langt í burtu en svo nálægt hvort öðru

En nú sé ég að við vorum líkari sólinni og tunglinu

Svo nálægt hvort öðru en aldrei þarna á réttum tíma

Samt segir fólk að sólin og tunglið séu svo ólík

En eru samt alltaf skráð í sögubækur sem hlutir ætlaðir hvort öðru til endaloka

Samt var þetta vondur tími en réttur staður

Alexander Aron Karenarson, Lindaskóla, 9. bekk

VIÐURKENNING
Útgefið 21. janúar 2023 MENNING Í KÓPAVOGI Lista- og menningarráð Kópavogs
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.