ÍSÍ fréttir - Apríl 2019

Page 5

Ólympíuleikar í Tókýó 2020 Næstu Ólympíuleikar fara fram í Tókýó 24. júlí til 9. ágúst 2020. Tókýó hefur áður haldið leikana, en það var árið 1964. Á leikunum munu 11.000 íþróttamenn keppa í 33 íþróttagreinum. Nýjar íþróttagreinar munu líta dagsins ljós á leikunum. Það eru karate, hjólabretti, íþróttklifur og brimbretti. Setningar- og lokahátíðarnar fara fram á Ólympíu-leikvanginum, þar sem keppni í frjálsíþróttum og knattspyrnu fer einnig fram. Aldrei áður hefur ríkt jafn mikið kynjajafnvægi og á þessum leikum, en á leikunum verða konur 49% keppenda. Skipuleggjendur leikanna leggja mikið upp úr umhverfisvitund, endurvinnslu og sjálfbærni og vilja hvetja Japani og gesti Ólympíuleikanna til þess að gera slíkt hið sama. Verðlaunapeningar leikanna eru t.d. gerðir úr endurnýttum málmi. Merki Ólympíuleikanna í Tókýó 2020 var valið úr tæplega 14.600 tillögum. Merki hönnuðarins Asao Tokolo frá Tókíó var valið. Merkið sýnir blátt munstur sem þekkt er í Japan undir nafninu „ichimatsu moyo“ og finna má allt frá Edo tímabilinu 1603-1868. Hver reitur í merkinu merkir ólíka menningu og þjóðerni þátttakenda og merkið á að senda skilaboð um samstöðu og einingu í fjölbreytileikanum. Lukkudýr Ólympíuleikanna 2020 eru Miraitowa og Someity, en þau hafa ferðast um Japan undanfarnar vikur til þess að vekja athygli á leikunum.

Andri, Líney og Halla ásamt Halldóri Elís Ólafssyni starfsmanni sendiráðs Íslands í Tókýó.

Vettvangsferð til Tókýó Dagana 17.-19. mars sl. sóttu Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri upplýsingfundi fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Á fundunum var farið í gegnum stöðu mála í öllum þáttum undirbúningsins og mannvirki voru skoðuð. Undirbúningur leikanna gengur samkvæmt áætlun og gott skipulag virðist vera um alla þætti hans. Byggingu Ólympíuþorpsins miðar vel en það verður staðsett á fallegum stað niður við sjó. Þríeykið fundaði einnig með Elínu Flygenring sendiherra Íslands í Tókýó og Halldóri Elís Ólafssyni starfsmanni sendiráðsins. Það hefur reynst dýrmætt að geta leitað til sendiráða Íslands á undanförnum leikum, svo sem í Peking og London, og ómetanlegt að fá hagnýtar upplýsingar frá þeim sem gagnast geta íslensku þátttakendunum.

Halla, Líney og Andri með Ólympíuþorpið í baksýn.

Skoðaðar voru aðstæður fyrir mögulegar æfingabúðir íslenska hópsins í nágrannasveitarfélögum Tókýóborgar, í tengslum við leikana, en íþróttafólkið mun þurfa tíma til að aðlagast níu klukkustunda tímamismun og miklum sumarhita. Ljóst er að áhugi fyrir Ólympíuleikunum í Tókýó er mikill, ekki síst hjá almenningi í Japan, og ætla má að viðburðir leikanna verði vel sóttir. Vefsíða leikanna ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.