Mannsröddin efnisskrá4

Page 1

LA VOIX HUMAINE EFTIR FRANCIS POULENC & JEAN COCTEAU

ÓPERA OG LEIKRIT Í EINUM ÞÆTTI



Tónlist eftir Francis Poulenc Texti eftir Jean Cocteau

FRUMSÝNT ÁRIÐ 1959 Í THÉATRE NATIONAL DE L´OPERA COMIQUE Í PARÍS OG Í SAMA MÁNUÐI Á LA SCALA Í MÍLANO

Leikstjóri: Leikmynd og búningar: Ljósahönnuður: Myndband í leikmynd: Flytjendur: Elle: Píanó:

Brynhildur Guðjónsdóttir Helga I. Stefánsdóttir Pálmi Jónsson Elmar Þórarinsson Auður Gunnarsdóttir Elva Ósk Ólafsdóttir Eva Þyri Hilmarsdóttir

Höfundur eikgerðar: Brynhildur Guðjónsdóttir Þýðandi: Kristján Þórður Hrafnsson Tónlistarstjóri og raddþjálfi: Irene Kudela Sýningarstjóri og aðstoðarleikstjóri: Níels Thibaud Girerd Sviðsstjóri: Ólafur Haukur Matthíasson

Sýningin er um klukkustundar löng án hlés ÍSLENSKA ÓPERAN · 84. VERKEFNI · FRUMSÝNT 9. FEBRÚAR 2017


Með vonina að vopni Það er sérstakt ánægjuefni að kynna fyrir gestum nýja nálgun á óperunni; Mannsröddinni eftir Poulanc, sem er nú sett upp í annað sinn á vegum Íslensku óperunnar. Ein helsta áskorun þeirra sem velja viðfangsefni sviðslistastofnanna er að finna gott jafnvægi á milli hefðbundinna verka og framsækinna. Það er ef til vill ekki alltaf mögulegt í sömu uppfærslunni en ég bind vonir við að með aukinni notkun fleiri sala í Hörpu gefist tækifæri til þess að fjölga verkefnum og umleið auka fjölbreyttni í verkefnavali. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Íslenska óperan setur upp verk í Kaldalóni og það er mikið tilhlökkunarefni að deila þessu mannlega og tilfinningaþrungna verki með áheyrendum í nálægð sem hæfir verkinu mjög vel. Það hefur verið mjög ánægjulegt og gefandi að fylgjast með sköpunarferli verksins undir styrkri stjórn Brynhildar Guðjónsdóttur sem gerir nýja leikgerð verksins og fléttar saman óperunni og leikritinu þannig að úr verður ein heild.

Þessi nýja framsetning verksins er því til framdráttar og gerir það að verkum að við skiljum án tafar allt sem persónan er að upplifa þótt önnur syngi á frönsku en hin tjái sig á íslensku. Áhorfandinn sér inn í allar þær óravíddir tilfinningalífsins sem aðalpersónan túlkar og flest okkar hafa upplifað á einhverjum tímapunkti. Við höfum öll upplifað missi, en finnum leiðir til þess að takast á við hann, halda áfram og endurheimta vonina. Við stöndum nú frammi fyrir breyttum samtíma þar sem frelsi og önnur mannréttindi eru ekki sjálfgefin og það er aldrei mikilvægara en nú að listirnar standi vörð um þau gildi sem mannleg tilvist byggir á með samhyggð að leiðarljósi. Þá er gott að eiga vonina að vopni.

Njótið vel,

Steinunn Birna Ragnarsdóttir · óperustjóri


Já, ég veit vel að við verðum að leggja á… Það er mér sannur heiður að kynna fyrir áhorfendum nýja útgáfu af Mannsröddinni eftir Francis Poulenc og Jean Cocteau. Hér mætast ópera og leikhús í einni upplifun, tvö tungumál, með það að augnarmiði að auka skilning okkar og dýpka upplifun. Jean Cocteau fékkst yfirleitt við óraunverulegan heim. Í Mannsröddinni er viðfangsefnið hins vegar raunveruleikinn, raunheimur yfirgefnu konunnar sem er að horfa á eftir ástinni í fangið á annarri konu. Í því ástandi sem hún er, að upplifa höfnunina og einsemdina, þar er engin leið að skilja á milli raunveruleika og draums. Á þeim stað sleppir allri skynsemi og tilfinningarnar ráða ríkjum. Sannleikurinn verður verri en martröð. Við hittum Elle fyrir á þriðja degi djúprar ástarsorgar. Ágeng upphafstónlist Francis Poulenc setur ólguna af stað og í klukkustund fylgjumst við með Elle engjast af sársauka þar sem hún á síðasta símtalið við manninn sem búinn er að yfirgefa hana og ætlar að giftast hinni á morgun. Í gegnum símann reynir Elle að halda í eitthvað sem hún veit að er ómögulegt. Símasnúran er eina tengingin

sem ennþá er á milli þeirra og það sem Elle hræðist mest er að leggja á, „að sökkva ofaní myrkrið”. Það er togstreitan milli skynsemi og tilfinninga sem knýr verkið áfram, bæði í texta og tónlist, og hjartað slær hraðar eftir því sem á líður. Ekki nema á rústum getur orðið til nýtt upphaf og í hörmungum Elle eygjum við von. Í lok verksins hefur hún skilið að með því að leggja sjálfa sig á botninn og fara í gegnum sárið, hefur hún eignast möguleikann á nýju upphafi. Hún kveður manninn fyrir fullt og fast og hún kýs sjálfa sig og lífið. Þegar allt kemur til alls, þá er ef til vill ekki það versta að leggja á.

Brynhildur Guðjónsdóttir · leikstjóri


Listrænir stjórnendur & söngvarar BRYNHILDUR GUÐJÓNDÓTTIR leikstjóri og höfundur leikgerðar, úrtskrifaðist með BA-gráðu í leiklist frá Guildhall School of Drama vorið 1998. Hún lék sitt fyrsta hlutverk við Royal National Theatre í London sama ár og hefur síðan hefur síðan starfað sem leikari, leikskáld og leikstjóri, bæði hérlendis og erlendis. Brynhildur lagði áður stund á frönsku, franskar bókmenntir og málvísindi, sem og ítölsku og útskrifaðist hún með BA-gráðu í frönsku frá Hálskóla Íslands 1995. Veturinn 2011-2012 var hún rannsóknarnemandi í leikritun við Yale School of Drama. Brynhildur var fastráðin við Þjóðleikhúsið frá 1999-2011 en starfar nú sem leikari við Borgarleikhúsið. Brynhildur er handhafi Íslensku Bjartsýnisverðlaunanna 2008, hún fékk Stefaníustjakann 2008 fyrir störf sín í leiklist og hefur hún sex sinnum hlotið Íslensku leiklistarverðlaunin, Grímuna. Á ferli sínum hefur Brynhildur leikið fjölda hlutverka. Þeirra á meðal eru Njáll Þorgeirsson í Njálu, Frida í Frida, viva la vida, Brák í samnefndu verki, Edith Piaf í leiksýningu Þjóðleikhússins, Karítas í leiksýningu Þjóðleikhússins, Sólveig í Pétri Gaut ofl. Um þessar mundir leikur hún Tönju í söngleiknum Mamma Mia! í Borgarleikhúsinu en á komandi misserum mun hún leikstýra eigin leikriti, Brák, á Dramaten í Stokkhólmi. Mannsröddin er fyrsta leikstjórnarverkefni Brynhildar við Íslensku Óperuna.

AUÐUR GUNNARSDÓTTIR lauk 8. stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1991 þar sem kennari hennar var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Árið 1997 lauk hún prófi frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart úr óperuskólanum og ljóða- og einsöngvaradeild Kennarar hennar þar voru Prof.Luisa Bosabalian og Carl Davis. Haustið 1999 fékk Auður samning við óperuna í Würzburg þar sem hún söng hin ýmsu hlutverk, svo sem Rosalindu í Leðurblökunni, Antóníu í Ævintýrum Hoffmanns, Pamínu í Töfraflautunni, Micaälu í Carmen, Donnu Elviru í Don Giovanni, Blance í Samtal karmellítanna, Annínu í Nótt í Feneyjum, Luísu í Unga lordinum o.m.fl. Einnig söng Auður sem gestasöngvari í óperuhúsunum í Mannheim, Heidelberg, Bielefeld og Hannover. Auður hefur haldið fjölda ljóðatónleika hér heima og erlendis. Hún hefur sótt námskeið hjá Renötu Scotto, Brigitte Fassbaender, Hermann Prey og Neil Semer. Í gegn um tíðina hefur hún hlotið fjölda styrkja, m.a. Listamannalaun ríkisins, styrki úr Tónlistarsjóði og styrk Wagnerfélagsins í Stuttgart. Árið 1999 kom út geisladiskurinn Íslenskir söngvar þar sem Jónas Ingimundarson leikur á píanóið, en þau hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina. Að auki hefur Auður sungið inn á heildarútgáfu sönglaga Sigvalda Kaldalóns og Jóns Þórarinssonar. Árið 2010 kom út diskurinn Little Things


Mean a Lot þar sem Auður flytur þekkt lög og aríur úr kvikmyndum, söngleikjum og óperettum við undirleik hljómsveitarinnar Solon Islandus. Árið 2011 kom út diskurinn Ljóð, Lieder, Songs ljóðasöngvum frá ýmsum löndum í flutningi Auðar og Andrej Hovrin píanóleikara. Diskurinn var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2012. Hjá Íslensku óperunni hefur Auður farið með hlutverk Mimiar í La Bohéme, Pamínu í Töfraflautunni , Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós, Santuzzu í Cavaleria Rusticana og 2.Dömu. Auður hefur einnig komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

ELVA ÓSK ÓLAFSDÓTTIR Elva Ósk Ólafsdóttir lauk námi við Leiklistarskóla Íslands 1989. Hún hefur farið með fjölda burðarhlutverka við Þjóðleikhúsið, meðal annars í Gauragangi, Snædrottningunni, Oleönnu, Stakkaskiptum, Þreki og tárum, Don Juan, Sem yður þóknast, Grandavegi 7, Óskastjörnunni, Komdu nær, Brúðuheimilinu, Horfðu reiður um öxl, Vilja Emmu, Veislunni, Rauða spjaldinu, Jóni Gabríel Borkmann, Þetta er allt að koma, Edith Piaf, Öxinni og jörðinni, Dínamíti, Hjónabandsglæpum og Hart í bak. Veigamikil hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur og öðrum leikhúsum eru t.d. Hús Bernhörðu Alba, Íslandsklukkan, Ferjan, Hamlet, Ég er meistarinn, Kjöt, Heima hjá ömmu, Englar í Ameríku, Nóttin nærist á deginum, Hamskiptin, Sími látins manns ofl. Elva Ósk hefur einnig leikið í fjölda kvikmynda, meðal annars í Ófeigur gengur aftur, Stuttum frakka, Benjamín dúfu, Ikingut, Hafinu og Kaldri slóð. Hún lék einnig í framhalds-

þáttunum Erninum hjá Danmarks Radio. Einnig hefur hún leikið mikið í sjónvarps og útvarpsverkum. Elva Ósk hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist fyrir túlkun sína á hlutverki Nóru í Brúðuheimili og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í Veislunni og Hjónabandsglæpum. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Hafinu. Elva Ósk Ólafsdóttir hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2007. EVA ÞYRI HILMARSDÓTTIR lauk Píanókennaraprófi og Burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar Diplómaprófi og Einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Árósum í Danmörku. Hún stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music í London og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn og verðlaun fyrir framúrskarandi lokatónleika. Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi verka, m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London. Undanfarin ár hefur hún lagt mikla áherslu á flutning ljóðasöngs og kammertónlistar og sótt mörg meistaranámskeið á þeim vettvangi. Af nýlegum verkefnum má nefna frumflutning á sönglögum eftir Oliver Kentish, Atla Heimi Sveinsson og Áskel Másson, einleikstónleika í Salnum, fjölmarga tónleika á vegum CCCR - Pearls of Icelandis Song í Hörpu, Háskólatónleika með kammerverkum eftir


Þorkel Sigurbjörnsson og flutning á sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jórunnar Viðar í Listasafni Sigurjóns í júlí 2015.

HELGA I. STEFÁNSDÓTTIR lauk námi frá leikmyndadeild L’Accademia di Belle Arti di Roma, Ítalíu 1989. Helga hefur áður starfað fyrir Íslensku óperuna en hún var höfundur búninga í Carmen 2013. Meðal verkefna Helgu fyrir Borgarleikhúsið eru leikmynd og búningar fyrir Ræmuna, Beint í æð, Núna, Rautt, Beðið eftir Godot, Dauðasyndirnar, Gítarleikararnir, Carmen, HONK, Largo Desolato og Fló á skinni og sem búningahöfundur fyrir í Billy Elliot, Galdrakarlinn í Oz, Enron, Ófagra veröld, Amadeus, Púntila og Matti, Bláa herbergið og Horft frá brúnni. Í Þjóðleikhúsinu gerði hún ma. búninga fyrir Heimkomuna, Ofsa, Lúkas, Macbeth, Afmælisveisluna, Sjöundá, Heimsljós, Lé konung, Gerplu, Pétur Gaut, Ívanov, Þetta er allt að koma og RENT. Hún var leikmynda- og búningahöfundur í Pollock?, Þrettándakvöldi, Hálsfesti Helenu, Já, hamingjan, Komdu nær, Kaffi og Krabbasvölunum. Helga hefur starfað við fjölmargar kvikmyndir, síðast við Fyrir framan annað fólk sem búningahöfundur, og einnig við Djúpið, Mömmu Gógó, Brúðgumann, Last Winter, A Little Trip to Heaven, Niceland, Kaldaljós, Fálka, No Such Thing, Engla alheimssins, Sporlaust, Agnesi, Tár úr steini, Svo á jörðu sem á himni, og sjónvarpsmyndirnar Virus au Paradis og Djáknann. Hún var höfundur leikmyndar í kvikmyndinni Regína og sjónvarpsþáttaröðinni Allir litir hafsins eru kaldir. Helga var yfirmaður búningadeildar

fyrir Sense8 og kvikmyndanna The Secret Life of Walter Mitty og Flags of Our Fathers. Hún tók þátt í innsetningu Ragnars Kjartanssonar í Vínarborg 2014. Helga hefur verið tilnefnd til Grímuverðlaunanna. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir Brúðgumann og Djúpið.

PÁLMI JÓNSSON er rafeindavirkjanemi í Tækniskólanum í Reykjavík. Hann starfar utan skóla sem ljósamaður í ljósadeild Borgarleikhússins. Hann hefur séð um ljósastjórn og forritun á hinum og þessum sýningum innan sem utan leikhússins, þar má helst nefna Mamma Mia!, Bláa Hnöttinn og Sölku Völku – allt í uppfærslu Borgarleikhússins. Pálmi hefur lagt stund á tæknilega útfærslu og hönnun ljósakerfa fyrir margskonar viðburði, en þá aðallega leikhús. Pálmi hefur bakgrunn í kvikmyndagerð og hefur því hannað margskonar myndefni fyrir tónleika og hátíðir eins og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og sameiginlega tónleika Todmobile og Nik Kershaw. Einnig hefur hann séð um lýsingu fyrir auglýsingar og sjónvarp. Mannsröddin er fyrsta óperuverk sem Pálmi tekur sér fyrir hendur.


Um verkið Francis Poulenc er tvímælalaust með merkari tónskáldum Frakka á tuttugustu öldinni. Hann fæddist í París árið rétt fyrir aldamótin nítjánhundruð og er í tónlistarsögunni gjarnan kenndur við Sexmenningana svokölluðu, eða „Les Six“ – en það er nafn sem komin er hefð fyrir að nota um hóp tónskálda sem öll bjuggu og störfuðu í París um og eftir 1920. Tónlist þessarra tónskálda var ekkert endilega svo skyld, en þau áttu það kannski helst sameiginlegt, fyrir utan það að vera góðir vinir, að ögra viðteknum hefðum í tónlist sinni, hvert á sinn hátt. Poulenc er ef til vill ekki sá framsæknasti af þeim hvað varðar form, hryn og hljómanotkun. Þar mætti kannski frekar nefna Arthur Honegger og Darius Milhaud. Poulenc var ekki tónlistarlegur byltingarsinni, en hann var þó eins konar andófsmaður. Poulenc hefur stundum verið kallaður antí-rómantíker. Ein tónlistaralfræðiorðabókin orðar það reyndar svo, í

lauslegri þýðingu minni, að hann hafi gjarnan lagt svo langa lykkju á leið sína til að forðast rómantíkina, að hann hafi endað í einskonar hringferð sem bar hann aftur til rómantíkur, bara af annarri gerð. Sú „rómantík“ sé undir áhrifum sirkus- og barmenningar, kannski einhvers konar einstaklingsbundin og expressíonísk Parísarrómantík? Sú lýsing er kannski ekki svo galin. Poulenc samdi yfirleitt innan tóntegundar, í dúr eða moll. Að því leyti er hann hefðbundinn tónsmiður, en samt er hann alltaf dálítið ólíkindatól. Hinn vel þekkti franski fágaði léttleiki er yfirleitt ekki langt undan hjá honum og húmor og glettni ekki heldur. En Poulenc forðast þó ekki að sýna og takast á við erfiðar tilfinningar í tónlist sinni og þar hikar hann ekki við að brjóta viðteknar venjur í hryn og framvindu, ef það þjónar efninu, eða svo sem í söngtónlistinni, ef það þjónar textanum. Nýbreytni Poulencs fólst


ekki síst í fagurfræðinni í verkum hans og tjáningunni. Poulenc samdi mjög mikið fyrir mannsröddina, yfir 50 sönglög og lagaflokka, töluvert af kirkjulegri tónlist og kórtónlist og svo fékkst hann auðvitað við óperurtónlist, einkum á seinni hluta ferilsins. Óperan Mannsröddin og samspil raddar og hljómsveitar í því verki eru kannski ágætisdæmi um frásagnargáfu Poulencs og hæfileika hans til að miðla tilfinningalegu ástandi í gegnum laglínur, hryn og hljómræna áferð. Francis Poulenc naut forréttinda að mörgu leyti. Hann var af yfirstétt og ólst upp á miklu menningarheimili í einu af fínustu hverfum Parísar. Þótt fjölskyldan hafi að vísu ætlað honum starf við annað en tónlist, þá fékk hann gott veganesti með sér að heiman. Móðir hans kenndi honum ungum á píanó og foreldrarnir höfðu fyrir honum tónlist eftir Beethoven, Mozart og Chopin, ljóðlist og skáldsögur og margt annað sem upprennandi tónskáld hafa gott af að kynnast. Í gegnum fjölskylduna sína fékk Poulenc snemma að-

gang að menningarkreðsum Parísarborgar og þegar hann ákvað um tvítugt að gera tónsmíðarnar að ævistarfi, var hann þegar kominn í kynni við marga af helstu tónlistarmönnum, skáldum, leikús- og myndlistarmönnum samtíðarinnar í París. Poulenc var sannkallaður bóhem og naut velgengni í lifanda lífi, bæði sem tónskáld og píanóleikari. Montparnasse var var deiglan í listinni á þessum tíma, þar héldu Sexmenningarnir og aðrir listamenn til á kaffihúsunum og veittu hver öðrum innblástur og uppbyggilega gagnrýni. Meðal vina Poulencs voru menn eins og Pablo Picasso, tónskáldið Erik Satie sem var í miklum metum hjá honum, og fjöldinn allur af skáldum, en eitt þeirra þeim var einmitt Jean Cocteau. Poulenc samdi töluvert við texta vinar síns Jean Cocteau, bæði sönglög og stærri verk. Mannsröddin er þó með þeim viðamestu. Rakel Edda Guðmundsdóttir – hluti af pistli hennar úr Víðsjá á Rás 1

Stjórn og starfsfólk Íslensku óperunnar og sérstakar þakkir Starfsfólk Íslensku óperunnar: Steinunn Birna Ragnarsdóttir · óperustjóri, Þorgerður Gylfadóttir · fjármálastjóri, Virpi Jokinen · skipulagsstjóri, Nathalía Druzin Halldórsdóttir · markaðs- og kynningarstjóri, Níels Th. Girerd · verkefna- og sýningarstjóri, Ólafur Haukur Matthíasson · leiksviðsstjóri. Stjórn Íslensku óperunnar: Helga Lára Guðmundsdóttir · formaður, Pétur J. Eiríksson, Hákon Guðbjartsson, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Gunnar Snorri Gunnarsson.

Sérstakar þakkir: Snorri Sigfús Birgisson fyrir tónlistarráðgjöf, Leikmunadeild Þjóðleikhúsins, Búningadeild Þjóðleikhúsins, Leikmunadeild Ríkisútvarpsins, Friðrik Friðriksson hjá Prentmet. Útgefandi: Íslenska óperan. Ritstj órn: Nathalía Druzin Halldórsdóttir. Ábyrgðarmaður: Steinunn Birna Ragnarsdóttir. Hönnun kynningarefnis og leikskrár: Helga Gerður Magnúsdóttir. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.




Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.