Söguágrip

Page 1

Söguágr i p


1974 Fyrsti stjórnarfundur Hitaveitunnar var haldinn 13. febrúar 1975 í Þórshamri. Stjórnarmenn frá sveitarfélögunum voru, svo sem fyrr segir, Alfreð Alfreðsson, sveitarstjóri í Sandgerði, Eiríkur Alexandersson, sveitarstjóri í Grindavík og Jóhann Einvarðsson, bæjarstjóri í Keflavík, sem jafnframt var kosinn formaður. Frá ríkissjóði komu í stjórnina Ólafur G. Einarsson, alþingismaður, tilnefndur af fjármálaráðherra og Þóroddur Th. Sigurðsson, vatnsveitustjóri, tilnefndur af iðnaðarráðherra. Á árinu 1974 voru boraðar tvær viðbótarholur, 1.713 m og 1.519 m djúpar og á árunum 1978-1981 voru boraðar sjö holur til viðbótar, allt frá 425 m upp í 1.998 m að dýpt. Eitt af fyrstu verkefnunum var að tryggja land undir virkjun og aðrar framkvæmdir á svæðinu og jarðhita- og ferskvatnsréttindi. Hófust viðræður við landeigendur í janúar 1974 og lauk þeim með samningi þann 22. júlí 1975 þar sem kveðið var á um að gerðardómur skyldi ákveða gjald fyrir land- og jarðhitaréttindi. Gerðardómur lauk störfum í janúar 1976 og var það mat hans að greiða skyldi 87,7 milljónir króna (gamlar) fyrir réttindin, að núvirði (1999) um 95 milljónir króna. Lokafundur stjórnar Hitaveitunnar og samningamanna landeigenda með lögmönnum beggja var haldinn miðvikudagskvöldið 25. júní í Iðnskóla Suðurnesja í Keflavík. Að sögn Alfreðs Alfreðssonar, sveitarstjóra í Sandgerði og stjórnarmanns Hitaveitunnar, voru samninganefndirnar hvor í sinni stofu sín í hvorum enda skólans en lögmennirnir í miðstofunum og báru þeir tillögur og gagntillögur á milli nefndanna. Gekk þetta þannig allt kvöldið og fram á nótt en sífellt leið lengra á milli tillagna frá öðrum hópnum og biðtími hins lengdist samsvarandi. Tekið skal fram, að allir samningamenn höfðu í upphafi verið sammála um að fundi yrði ekki slitið fyrr en samningar lægju fyrir, jafnvel þótt það tæki alla vikuna. Hitaveitumenn gerðu sitthvað til að stytta sér biðtímann. Og Alfreð heldur áfram: „Því var það engin furða þó að unglingar, sem leið áttu framhjá skólanum um tvöleytið um nóttina, yrðu forvitnir við að sjá skólann uppljómaðan á þessum tíma sólarhrings. Og ekki varð undrun þeirra minni við það, sem fyrir augu þeirra bar, er þeir guðuðu á glugga í stofunni sem við, Hitaveitumenn, vorum í. Á gólfinu sáu þeir 4 fullorðna menn, snöggklædda, á fjórum fótum í „peningastykki“, þ.e.a.s. einn af þingmönnum kjördæmisins, bæjarstjórana í Keflavík og Grindavík og svo undirritaðan. Úti í einu horni stofunnar stóð svo vatnsveitustjórinn í Reykjavík á höfði, með hendurnar í vösum, í afslappandi jógastellingu. Unglingarnir trúðu vart sínum eigin augum. Hverskonar samkunda var þetta nú eiginlega? Þvílíkt og annað eins! Fyrirmenn, skríðandi á fjórum fótum og standandi á haus um miðja nótt. Og svo er verið að hneykslast á unglingunum! Ja - þeim ferst! Ekki gerðum við tilraun til neinna útskýringa þegar við urðum varir við unglingana á glugganum enda hefði það eflaust orðið erfitt. Unglingarnir fóru sína leið í forundran á þessum geggjuðu köllum og við lukum að lokum við samningana seinna um nóttina og sluppum þar með við svefnpoka og skrínukost.„Klukkan hálffjögur um nóttina höfðu samningamenn svo loks náð samkomulagi um að vísa ákvörðun um andvirði lands og landréttinda til gerðardóms, svo sem fyrr segir.

1975 Hinn 1. september var fyrsti starfsmaður Hitaveitu Suðurnesja ráðinn. Var það Ingólfur Aðalsteinsson, sem þá var ráðinn starfsmaður stjórnar, en hann var um árabil framkvæmdastjóri og síðar forstjóri fyrirtækisins eða allt til 1. júlí 1992 þegar hann hætti störfum fyrir aldurssakir. Í október voru boðin út fyrstu verkið, dreifiveita í Grindavík og síðar aðveituæðin frá Svartsengi til Grindavíkur. Jafnframt þessum framkvæmdum var unnið að borunum eftir köldu vatni og reist varmaskiptastöð sem anna skyldi heitavatnsþörf Grindavíkur.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


1976 Árið 1976 var merkisár í sögu Hitaveitu Suðurnesja. Lokið var við lagningu 1. og 2. áfanga dreifiveitu í Grindavík og aðveituæðin til Grindavíkur, Grindavíkuræð, fullfrágengin. Að mestu var lokið við 1. áfanga dreifikerfa í Njarðvík og Keflavík. Í nóvember var bráðabirgðastöðin við Svartsengi gangsett og 6. nóvember var forhituðu ferskvatni formlega hleypt á fyrstu húsin í Grindavík þegar hleypt var hita á félagsheimilið Festi við hátíðlega athöfn að viðstöddum fjölda gesta. Í ræðu bæjarstjórans í Grindavík og stjórnarmanns Hitaveitu Suðurnesja, Eiríks Alexanderssonar, við þessa athöfn, lýsti hann þannig þeim merka atburði er fyrstu holunni var „hleypt upp“: „Ég mun aldrei verða svo gamall að ég gleymi þeim atburði þegar sú hola var fyrst látin blása, sem kallað er, en það var 19. desember 1971. Umhverfis holuna hafði safnast saman nokkur hópur manna, hreppsnefndarmenn úr Grindavík, fleiri menn úr Grindavík, sem komist höfðu á snoðir um hvað til stóð, ennfremur nokkrir starfsmenn Orkustofnunar og, ef ég man rétt, 2-3 ónefndir jarðfræðingar, að ógleymdum sjálfum mér. Menn stóðu opinmynntir en héldu þó niðri í sér andanum af eftirvæntingu, þegar 2 algallaðir Orkustofnunarstarfsmenn gengu niður tröppur borkjallarans svokallaða og byrjuðu að skrúfa frá lokum holunnar. Fyrst kom smáhvinur - síðan gnýr, sem óx brátt ógurlega og varð fljótlega svo ógnvekjandi, að ýmsir tóku að hörfa afturábak og fjarlægjast þann ógnar gufustrók, sem nú geystist tugi metra í loft upp, bólginn og illúðlegur, og fór gnýrinn stöðugt vaxandi. En þá skyndilega skeði það. - Ég veit núna hvað það var, sem gerðist, en ég vissi það ekki þá. Holan ruddi sig nefnilega, eins og það heitir á fagmáli. Hún spúði nú ekki einungis gufu heldur möl og grjóti í þokkabót. Öllu þessu fylgdu svo meiri drunur og undirgangur en nokkur orð fá lýst. - Næstu sekúndurnar vissi ég ekki gjörla hvað skeði en það sem ég vissi næst var að ég hafði snúist á hæli og var nú á hlaupum út í hraunið, beint af augum, svo hratt sem fæturnir gátu borið mig í karganum. Þá loksins áttaði ég mig og hægði ferðina. – „Nú hef ég orðið mér rækilega til skammar,“ hugsaði ég. - Mér varð litið í kringum mig, - en viti menn. - Allir hinir voru líka á hlaupum eins og ég en nú var óðum að draga af þeim líka og loks var allur flokkurinn stansaður. Menn stóðu þarna hálf sneypulegir fyrst í stað en sneru síðan í átt til holurnar aftur sem nú hafði jafnað sig og gaus nú eðlilega, hvítum, stórfenglegum gufumekki með tilheyrandi gný. Sem betur fer hafði enginn orðið sár, hvorki af hlaupunum í hraunkarganum né af grjótregninu. Stundum verður mér á að hugsa að á þessum miklu hlaupum hefjist reyndar saga Hitaveitunnar í Svartsengi og hafa ýmsir farið hægar af stað. Á þessari stundu hlýtur mönnum að hafa orðið ljóst að til að beisla slíka reginkrafta náttúruaflanna þurfi mikið, sameinað átak margra, samstilltra aðila. Já, svona er hægt að gera söguskýringu einfalda. Þremur árum síðar varð svo Hitaveita Suðurnesja til með lögum frá Alþingi.“ Í árslok voru notendur í Grindavík orðnir 76 og keyptu þeir samtals 292 mínútulítra. Fyrsta gjaldskráin var sett á árinu og var verðið á mínútulítranum ákveðið 25 krónur. Skrifstofa H.S. var að Vesturbraut 10a í Keflavík en leigð var vöruskemma í Grindavík og önnur að Brekkustíg 36 í Njarðvík þar sem síðar urðu höfuðstöðvar Hitaveitunnar. Jafnframt var um nokkurra mánaða skeið opin skrifstofa í afgreiðslu Landsbankans í Grindavík milli klukkan 17 og 19 þar sem Grindvíkingum voru kynnt Hitaveitumál og tekið var við greiðslu tengigjalda. Annar starfsmaður Hitaveitunnar hóf störf 1. maí en í árslok voru fastráðnir starfsmenn orðnir 5, tveir lausráðnir og matsveinn í Svartsengi. „Mötuneytið í orkuverinu var vel búið tækjum. Þangað var meðal annars keyptur örbylgjuofn sem þá var nýjung á markaðnum. Þótti hann mesta þarfaþing. Þegar mat var stungið í ofninn til hraðhitunar talaði starfsfólkið um að skjóta á hann.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Forstjórinn kom einhverju sinni með góða gesti í skoðunarferð í orkuverið. Hann vildi gera vel við þá og bauð þeim í mat í mötuneytinu. Eitthvað dróst þó koma þeirra, og var maturinn farinn að kólna er þeir loks birtust. Eldhússtúlkan taldi ekki mikið vandamál að bæta úr því og sagði við gestina, um leið og hún afhenti þeim diskana: „Fáið ykkur bara það sem þið viljið á diskana - ég skrepp svo bara með þá fram í eldhús og skýt á þá!“ Engum sögum fór af matarlyst gestanna!

1977 Stærsta verkefni þessa árs var lagning stofnæðar frá Svartsengi að Njarðvík, Njarðvíkuræðar, en þann 30. desember hleypti Gunnar Thoroddsen, iðnaðarráðherra, vatni á æðina við formlega athöfn. Þáverandi stjórnarformaður Hitaveitunnar, Jóhann Einvarðsson, sagði meðal annars svo frá átökum Gunnars við vatnslokann í grein um minnisstæða atburði í uppbyggingu Hitaveitunnar sem birtist í fréttabréfi Hitaveitunnar, Fréttaveitunni, í desember 1988: „Ég minnist ßess þegar þáverandi iðnaðarráðherra, dr. Gunnar Thoroddsen, hleypti vatni á Njarðvíkur-Keflavíkursvæðið. Þegar dr. Gunnar spurði: „Á ég að snúa til hægri?“ - og ég svaraði að bragði: „Já, auðvitað!“ Áfram var unnið að lagningu dreifiveitna í Njarðvík og Keflavík og var vatni hleypt á nokkur hús fyrir áramótin. Orkuver 1 var byggt og fyrsta rás þess tekin í notkun. Reistur var miðlunargeymir fyrir Grindavík á Selhálsi, boraðar kaldavatnsholur og lögð frá þeim safnæð að orkuverinu. Notendur voru orðnir 320 í árslok og keyptu þeir 1.014 mínútulítra heits vatns. Í lok ársins störfuðu hjá Hitaveitunni 14 fastráðnir starfsmenn, tveir vaktmenn við gæslu og matsveinn í Svartsengi.

1978 Miklar framkvæmdir voru á þessu ári. Þar má nefna byggingu þjónustuhúss í Svartsengi og uppsetningu vinnslurásar 2 í orkuveri 1. Í þjónustuhúsinu var m.a. stór móttökusalur, þar sem gróðursettar voru trjáplöntur og hitabeltisjurtir. Hlaut hann af því nafnið „Apagarðurinn“. Í Keflavík var langt komið lögn 3., 4., og 5. áfanga dreifikerfis. Lagningu 3. áfanga í Grindavík var því sem næst lokið og sama er að segja um 3. áfanga í Njarðvík. Bæði í Garði og Sandgerði var lögn 1. áfanga dreifikerfa rúmlega hálfnuð. Lagning aðveituæða var komin nokkuð vel á veg. Lokið var við 80% Sandgerðis- og Gerðaæðar og um 5% Vogaæðar. Keypt var húsnæði að Brekkustíg 36 í Njarðvík fyrir birgðageymslu og efri hæð undir skrifstofur. Í árslok var Grindavík nánast fulltengd og voru notendur þar orðnir 402 með 1.466 mínútulítra notkun. Í Njarðvík voru 313 notendur, sem keyptu 1.183 mínútulítra, og í Keflavík voru 932 notendur með 3.105 mínútulítra notkun en fyrsta húsið þar, barnaskólinn, var tengt 19. janúar. Þann 8. desember var barnaskólinn í Sandgerði tengdur Hitaveitunni. Þann 17. ágúst undirritaði Jóhann Einvarðsson, þáverandi stjórnarformaður, samning við Varnarliðið um kaup þess á heitu vatni fyrir radarstöðina í Grindavík. Í apríl urðu enn ein merk tímamót í sögu Hitaveitu Suðurnesja þegar raforkuframleiðsla hófst í orkuverinu með gangsetningu tveggja 1 MW AEG-gufuhverfla. Var hluti rafmagnsins, 1,4 GWst., notaður til eigin þarfa í orkuverinu en afgangurinn, 0,3 GWst., seldur út á landsnetið. Í árslok voru fastráðnir starfsmenn orðnir 17, 2 voru lausráðnir og 3 í mötuneyti.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


1979 Lokið var við uppsetningu vinnslurása 3 og 4 í orkuveri 1, byggt dæluhús fyrir ferskvatn í Gjá og unnið að undirbúningi orkuvers 2. Samþykkt var að reisa 6 MW raforkuver við Svartsengi til viðbótar þeim tveim 1 MW hverflum sem voru þegar komnir í notkun. Fulllokið var lagningu aðveituæða og dreifikerfa í öllum þéttbýlisstöðunum nema Höfnum og var vatni hleypt til Gerða 15. júní og til Voga 7. september. Notendur í árslok voru 2.813 og keyptu þeir 9.185 mínútulítra vatns. Raforkuframleiðslan var 6,95 GWst.,þar af voru 2,2 GWst. seldar út á netið. Í árslok voru fastráðnir starfsmenn orðnir 19, 2 lausráðnir og 3 í mötuneyti.

1980 Lokið var við að reisa dælustöð á Fitjum, orkuver 2 og raforkuver í Svartsengi. Með lögum nr. 26/1980 var gerð breyting á lögunum um Hitaveituna þar sem m.a. var veitt heimild til þess að stækka raforkuverið um allt að 6 MW, leggja og starfrækja flutningslínur o.s.frv. Þann 20. desember hófst raforkuframleiðsla með 6 MW Fuji-gufuhverfli í orkuverinu. Lokið var við að bora holur 8, 9, 10 og 11 sem allar reyndust vel en holur 1, 2 og 4 voru orðnar ónothæfar. Var þá áætlaðri gufuaflsþörf, 360 kg/sek., auk 100% varaafls, fullnægt. Gengið var frá skrifstofuhúsnæði að Brekkustíg 36 í Njarðvík og var það tekið í notkun í mars. Þann 22. febrúar undirritaði Albert Karl Sanders, þáverandi stjórnarformaður, samning við Varnarliðið um kaup þess á heitu vatni en þau viðskipti hafa síðan verið Hitaveitunni geysilega mikilvæg. Í upprifjun um samningamálið í Fréttaveitunni í desember 1988 segir Albert Karl að samningar við Varnarliðið hafi gengið seint, þar til „stjórn H.S. ákvað að fá beinar viðræður við þá menn í USA, sem helst hefðu með málið að gera, til að binda enda á „strögglið.“ Niðurstaðan varð sú, að boðað var til fundar í Washington um miðjan október 1979.“ Til viðræðnanna fóru fyrir Hitaveituna stjórnarformaðurinn og Þóroddur Th. Sigurðsson, vatnsveitustjóri í Reykjavík, sem einnig var stjórnarmaður. Fyrir sex manna samninganefnd Varnarliðsins fór Mr. Reeder, sem þá var yfirmaður allra verklegra framkvæmda á vegum sjóhersins á NorðurAtlantshafi. Hann lét strax í ljós að hann væri mjög upptekinn maður og hefði afar takmarkaðan tíma til að eyða í viðræður við Íslendingana. Eftir tveggja til þriggja stunda umræður og ekki hafði verið hróflað við meginmálinu þurfti að umorða og vélrita smákafla í samningsdrögunum. Á meðan varpaði Mr. Reeder þeirri spurningu til Alberts Karls hvort Íslendingar væru nokkuð farnir að fást við olíuleit eða olíuvinnslu en Albert vísaði spurningunni til Þórodds sem einmitt sat í ríkisskipaðri nefnd um þessi mál. Í viðræðum þeirra tvímenninganna fór viðmót Mr. Reeders að breytast en hann var verkfræðingur að mennt og hafði, þar til hann hóf störf í hernum, unnið sem ráðgjafi við olíuleit og olíuvinnslu hjá olíufyrirtækjum í Texas. Og áfram heldur Albert: „Eftir að Þóroddur og Reeder höfðu ræðst við um olíumál langt á annan tíma var komið matarhlé. Þá lét Reeder aðstoðarmann sinn fresta öllum fundum, sem hann átti að mæta á þennan dag og næsta dag, til að geta lokið samningum við þessa ágætu menn frá Íslandi, eins og hann kallaði okkur nú. Er ekki að orðlengja það að það var nýr og breyttur Reeder sem settist á fund með okkur eftir matarhlé. Kæmi upp ágreiningur um einhver atriði í samningnum var viðkvæðið hjá Reeder: Hvað segir Mr. Sigurðsson um þetta? eða: Hvernig vill Mr. Sigurðsson hafa þetta? og eftir að Þóroddur hafði látið í ljós sitt álit sagði Reeder: „Þá höfum við þetta eins og Mr. Sigurðsson leggur til.“ Samningum lauk um miðjan seinni dag viðræðnanna.“

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Notendur í árslok voru 3.890 og keyptu þeir 10.303 mínútulítra heits vatns. Raforkuframleiðslan var 8,8 GWst. en þar af voru 2,7 GWst. seldar út á landsnetið. Í árslok var 21 fastráðinn starfsmaður, 2 voru lausráðnir og 3 í mötuneyti.

1981 Helstu verkefni voru ýmis frágangsverkefni í orkuveri, vinna við lagerhúsnæði þar, við kaldavatnsgeymi í Svartsengi og við dreifikerfi á Keflavíkurflugvelli. Þá var einnig ákveðið að leggja hitaveitu til Hafna. Raforkuframleiðslan var 38,8 GWst. og þar af voru 31,8 GWst. seldar út á netið. Í árslok voru fastráðnir starfsmenn orðnir 30, 3 starfsmenn voru í mötuneyti og 3 lausráðnir.

1982 Lokið var lagningu dreifiveitu á Keflavíkurflugvelli og dreifiveitu í Höfnum, ásamt lagningu aðveituæðar þangað. Þá var unnið áfram að byggingu kaldavatnsgeymis í Svartsengi og jafnframt að endurbótum á rásum í orkuveri 1. Þann 25. maí var undirritaður samningur við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um bætur vegna tafa á tengingum jafnframt því að verðskrá var hækkuð og samningurinn frá 1980 framlengdur til 1992. Hafnir voru formlega tengdar Hitaveitukerfinu 24. september og 19. október var undirritaður samstarfssamningur við Landsvirkjun um jarðhitarannsóknir í Eldvörpum. Starfsmannafjöldi var óbreyttur frá fyrra ári.

1983 Áfram var unnið að byggingu kaldavatnsgeymis í Svartsengi og endurbótum á framleiðslurásum í orkuveri 1. Boruð var 1.265 m djúp gufuhola í Eldvörpum og tókst það nokkuð vel því þrátt fyrir erfiðleika í boruninni reyndist holan gjöful. Fastráðnir starfsmenn voru í árslok 35.

1984 Á Alþingi var samþykkt breyting á lögum um Hitaveitu Suðurnesja þann 18. maí og voru þau staðfest 29. maí (nr. 91/1984). Samkvæmt þeim var endurskoðaður tilgangur fyrirtækisins og varð hann þá þessi, samkvæmt lögunum: „Tilgangur fyrirtækisins skal vera a) að virkja jarðhita í Svartsengi og annars staðar á Reykjanesi ef hagkvæmt þykir, b) að reisa og reka orkuver, aðveitur og orkudreifikerfi á starfssvæði hennar og annast sölu á heitu vatni til notenda, og c) önnur nýting á jarðgufu og heitu grunnvatni.“ Í lögunum voru jafnframt ákvæði um að Hitaveitan fengi einkaleyfi til starfrækslu rafveitu á starfssvæðinu og ríkissjóði var heimilað að selja allar eignir Rafmagnsveitna ríkisins á svæðinu. Undir lok ársins hófust síðan viðræður stjórnar Hitaveitunnar og sveitarstjórna á Suðurnesjum um sameiningu rafveitnanna og Hitaveitunnar.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Jafnframt voru teknar upp viðræður við fulltrúa iðnaðarráðuneytisins um kaup Hitaveitunnar á eignum Rafmagnsveitna ríkisins. Þá var gengið frá kaupum á óinnréttuðu fiskverkunarhúsi að Brekkustíg 32-34, sem var sambyggt skrifstofubyggingu Hitaveitunnar, og það innréttað sem birgða- og skrifstofuhúsnæði. Fastráðnir starfsmenn í árslok voru 37.

1985 Þann 17. maí var undirritaður samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Hitaveitu Suðurnesja um sölu á eignum Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum til Hitaveitunnar og tók hann gildi 1. júlí. Þá var 5. júlí undirritað samkomulag milli Hitaveitu Suðurnesja og sveitarfélaga á Suðurnesjum um sameiningu rafveitna á Suðurnesjum og Hitaveitu Suðurnesja. Þann 31. desember voru samþykkt lög nr. 101 um breytingu á lögum um Hitaveitu Suðurnesja. Með þessum lögum var eignarhluti ríkissjóðs lækkaður úr 40% í 20% og stjórn fyrirtækisins skipuð 9 mönnum í stað 5 áður. Á þessu ári urðu þau merku tímamót að hagnaður varð af rekstri fyrirtækisins í fyrsta sinn en uppsafnað rekstrartap til þess tíma var að núvirði (1999) um 2,8 milljarðar króna. Við sameininguna varð umtalsverð lækkun á gjaldskrá raforku á svæðinu. Starfsmönnum fjölgaði mikið á árinu með sameiningunni og voru fastráðnir starfsmenn í árslok 61.

1986 Helstu verkefni á rafmagnssviðinu voru strenglögn til flugstöðvarinnar, undirbúningur lagningar 132 kV línu frá Svartsengi til Fitja, og vinna við aðveitustöð í Grindavík. Í hitaveituþættinum var unnið við dælustöð fyrir Voga og flugstöð og aðrar framkvæmdir voru helstar við innréttingar og breytingar á húsnæðinu við Brekkustíg 32-34 og byggt var baðhús við Bláa lónið. Mikil aukning varð á raforkuframleiðslu í kjölfar rýmkaðra heimilda vegna sameiningarinnar. Voru framleiddar 61,5 GWst. á móti 41,1 GWst. árið áður, en þar af fóru 49,7 GWst. út á landsnetið í stað 30,9 GWst. árið áður. Fastráðnir starfsmenn voru 69 í árslok.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


1987 Þann 20. mars var undirritaður samningur milli Hitaveitunnar og utanríkisráðuneytisins þar sem tryggður var einkaréttur H.S. til orkuvinnslu í Eldvörpum. Þann 5. desember keypti Hitaveitan hlutabréf ríkissjóðs í Sjóefnavinnslunni hf. og varð með hlutafjáraukningunni eigandi 98,9% hlutafjárins með samtals 53,4 milljóna króna eignarhluta. Tilgangurinn með þessum kaupum var að tryggja Hitaveitunni ráðstöfunarrétt hitaorku á Reykjanesi. Með bréfi dagsettu 9. nóvember veitti iðnaðarráðherra Hitaveitunni leyfi til virkjunar „strompgufunnar“ í Svartsengi með allt að 3,6 MW gufuhverflum. Viðræður áttu sér stað á árinu um endurskoðun á raforkusamningi við Varnarliðið. Fastráðnir starfsmenn í árslok voru 66.

1988 Þann 25. febrúar var undirritaður samningur um kaup á þremur Ormatgufuhverflum í Ísrael og hófust framkvæmdir við virkjunina á árinu. Þá hófst og bygging rofastöðvar í Svartsengi en hún er nauðsynleg vegna aukinnar raforkuframleiðslu og til að taka í raun á því að orkuverið er ekki lengur einungis varmaorkuver heldur einnig raforkuver. Byggð var ný aðveitustöð við Aðalgötu í Keflavík, aðallega vegna flugstöðvarinnar, lögð ný 132 kV háspennulína frá Svartsengi til Fitja og lagðir strengir að laxeldisfyrirtækjum. Í janúar var gengið frá nýjum samningi um raforkuverð við Varnarliðið og var hann talsvert hagstæðari en eldri samningurinn. Fastráðnir starfsmenn voru í árslok 68.

1989 Þann 8. september voru formlega gangsettir 3 Ormat-gufuhverflar, samtals að afli 3,6 MW og var þá uppsett afl í orkuverinu orðið 11,6 MW. Lagðir voru strengir frá aðveitustöð við Aðalgötu að radarstöð H-1 á Rosmhvalanesi og frá Svartsengi til Grindavíkur, hafist handa við lögn 132 kV línu frá Hamranesi við Hafnarfjörð til Fitja í Njarðvík og lokið við 132 kV línuna frá Svartsengi til Fitja. Lögð var tvöföld stofnæð hitaveitu, 6 km löng, frá dælustöð á Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gerður var samningur við Vatnsveitu Suðurnesja (VAS) um að Hitaveitan annaðist vatnsöflunarþátt VAS en vatnsból fyrirtækjanna eru hin sömu. Fastráðnir starfsmenn í árslok voru 68.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


1990

Unnið var við háspennulínuna Hamranes við Hafnarfjörð-Fitjar í Njarðvík og hafinn undirbúningur að byggingu nýrrar aðveitustöðvar á Fitjum. Lokið var við stækkun og endurnýjun aðveitustöðvar í Sandgerði. Gengið var frá samkomulagi við Varnarliðið vegna nýrrar rafmagnstengingar þess við nýja aðveitustöð á Fitjum en samkvæmt því greiðir Varnarliðið um 365 milljónir króna á 6 árum vegna

tengingarinnar. Þann 12. janúar var undirritað samkomulag við danskt félag um rekstur efnavinnslu Sjóefnavinnslunnar hf. og stóð þetta danska félag síðan fyrir stofnun Íslenska saltfélagsins hf. með 85% eignarhlut á móti 15% hlut íslenskra aðila. Mikil aukning varð á raforkuframleiðslunni í kjölfar gangsetningar Ormat-hverflanna. Voru framleiddir 87,6 GWst. á móti 64,9 GWst. árið áður en þar af fóru 73,7 GWst. út á netið en voru 53,5 GWst. áður. Fastráðnir starfsmenn voru 67 í árslok.

1991 Unnið var að því að stórauka niðurdælingu í orkuverinu og uppsetningu liðaverndar í rofastöð og allar aðveitustöðvar fyrirtækisins. Þann 20. desember var tekin í notkun ný 132 kV aðveitustöð á Fitjum jafnframt því sem hleypt var straumi á 132 kV línuna Hamranes-Fitjar. Þá var lokið viðbyggingu við riðbreytistöðina á Keflavíkurflugvelli og strenglögn að henni frá aðveitustöðinni á Fitjum. Við byggingu aðveitustöðvarinnar gjörbreyttist hlutverk aðveitustöðvarinnar í Bolafæti í Njarðvík og voru gerðar umfangsmiklar breytingar á henni. Lagðir voru strengir frá radarstöð H-1 til Sandgerðis (verkinu lauk 1992) frá Fitjum að Aðalgötu og lagður strengur til Stafness í Miðneshreppi (nú Sandgerði. Lokið var byggingu nýrrar birgða- og tækjageymslu að Bakkastíg 22 í Njarðvík en það er 420 m² tveggja hæða hús. Þann 22. maí var undirritaður samningur í Ísrael um kaup á 4 Ormat-gufuhverflum til viðbótar þeim þrem sem fyrir voru en ekki lá þó fyrir virkjunarleyfi vegna hverflanna. Kosin var nefnd til að vinna að sameiningu Sjóefnavinnslunnar hf. við Hitaveituna. Fastráðnir starfsmenn voru í árslok orðnir 69.

1992

Stærsta verkefnið var uppsetning 4 Ormat-hverfla, alls 4,8 MW að aflgetu og bygging stöðvarhúss. Reist var niðurdælingarstöð og lagðar safnæðar til að safna saman öllu tiltæku niðurdælingarvatni. Þá var boruð könnunarhola í gufupúðann við holu 10, 140 m djúp og 75/8" í þvermál, og steyptur holukjallari o.fl. fyrir vinnsluholu úr gufupúðanum.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Lagður var 36 kV jarðstrengur frá Svartsengi til Reykjaness, um 15 km leið. Þann 7. október var, eftir allnokkra fundi í Norfolk, gengið frá samkomulagi við Varnarliðið um ný verðákvæði samningsins um sölu á heitu vatni en þau áttu að renna út í árslok. Með þessu samkomulagi náðust tveir mikilvægir áfangar, þ.e. að Varnarliðið viðurkenndi í fyrsta skipti í reynd réttmætti þess að það greiddi hærra verð en almennir notendur og í fyrsta sinn tryggði Varnarliðið viss, árleg lágmarkskaup þannig að starfsgrundvöllur Hitaveitunnar var mun traustari eftir en áður. Þann 1. júlí lét Ingólfur Aðalsteinsson forstjóri af störfum en hann hafði þá starfað hjá fyrirtækinu í tæplega 17 ár eða frá 1. september 1975. Við starfi hans tók Júlíus Jónsson sem verið hafði framkvæmdastjóri fjármálasviðs og starfað hjá fyrirtækinu frá 1. október 1982. Aðstoðarforstjóri var ráðinn Albert Albertsson, sem verið hafði framkvæmdastjóri tæknisviðs, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá 1. september 1977. Fastráðnir starfsmenn í árslok voru 67 en með lausráðnum, sem unnu mestallt árið, voru starfsmenn 79 talsins.

1993 Ormat II-virkjunin var gangsett formlega 5. mars en virkjunarleyfi vegna hennar var gefið út 4. febrúar. Lokið var við borun nýrrar gufuholu (nr. 14) og henni hleypt upp 5. mars. Hafist var handa við byggingu nýrra aðveitustöðva í Garði og Vogum ásamt lagningu 36 kV jarðstrengja Sandgerði-Garður og Fitjar-Vogar. Þá var einnig lagður strengur frá Járngerðarstaðahverfi í Grindavík að Húsatóftum í Staðarhverfi. Þann 23. júlí var keypt 1.300 m² birgðahúsnæði að Fitjabraut 20-22 í Njarðvík og með samningi 4. febrúar var keyptur hlutur Landsvirkjunar í rannsóknarkostnaði í Eldvörpum. Stjórn fyrirtækisins samþykkti á fundi sínum 2. apríl að verja allt að 40 milljónum króna til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu og voru í framhaldi af því keypt hlutabréf í tveim fyrirtækjum fyrir u.þ.b. 29 milljónir króna og veittir nokkrir minni styrkir. Áformum um sameiningu Hitaveitunnar og Sjóefnavinnslunnar hf. miðaði nokkuð vel áfram á árinu. Á árinu var farið af stað með sérstak forvarnaviðhaldskerfi og tekin upp svonefnd „KKS“-skráning einstakra hluta kerfisins og Altæk gæðastjórnun innan fyrirtækisins. Gæðastjórnunarverkefnið eitt þótti það mikið að vöxtum að nauðsynlegt væri að hluta það í mörg minni. Aðstoðarforstjóranum, sem telst heldur frjálslega vaxinn, fannst rétt að orða það svo að verkefnið yrði fitusprengt! Mikil aukning varð á raforkuframleiðslunni í kjölfar gangsetningar Ormathverflanna. Voru framleiddar 99,8 GWst. en voru 89,1 GWst. árið áður en þar af fóru 84,7 GWst. út á netið og til Reykjaness í stað 73,6 GWst. árið áður. Fastráðnir starfsmenn í árslok voru 67 en með lausráðnum, sem unnu mest allt árið, voru þeir 78 talsins.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


1994 Þann 16. mars kom út fyrsta reglulega tölublað Fréttaveitunnar sem er fréttabréf Hitaveitu Suðurnesja og starfsmanna hennar. Síðan hefur það komið út á tveggja vikna fresti, með fáeinum undantekningum þó, og 6. október 1999 var gefið út 127. tölublað. Blað með sama nafni var gefið út fyrst í desember 1987 og voru gefin út fáein blöð til ársins 1991 en síðan lá útgáfan niðri til 1994. Blaðinu er ætlað að upplýsa starfsmenn Hitaveitunnar í stuttu máli um hvað er að gerast innan fyrirtækisins á hverjum tíma. Þar eru m.a. birtar allar fundargerðir stjórnar, greinar um helstu verkefni innan fyrirtækisins og þau verkefni (fyrirtæki) sem Hitaveitan tekur þátt í, um starfsmannafélagið og félagslífið. Flestar greinarnar skrifa starfsmenn en einnig stjórnarmenn og aðrir sem tengjast fyrirtækinu með ýmsum hætti. Þann 21. október var tekin í notkun 635 m² verkstæðisbygging í Svartsengi og þann 28. október var ný aðveitustöð í Garði tekin formlega í notkun ásamt 36 kV nýlögðum jarðstreng frá Sandgerði til Garðs. Þann 25. nóvember var svo tekin í notkun ný aðveitustöð í Vogum ásamt 36 kV jarðstrengslögn frá Fitjum til Voga. Lagður var 36 kV strengur að Helguvík og á hann að geta flutt 25-30 MW. Leigjandi mannvirkja Sjóefnavinnslunnar hf., Íslenska saltfélagið hf., varð gjaldþrota og keypti Hitaveitan allar eignir þess og móðurfyrirtækis þess. Á árinu var gengið frá sameiningu Hitaveitunnar og Sjóefnavinnslunnar hf.. Enn varð aukning á raforkuframleiðslunni í kjölfar gangsetningar Ormat-hverflanna, og voru framleiddar 104,1 GWst. á móti 99,8 GWst. árið áður. Vatnsframleiðsla var 7,8 milljónir tonna (545 GWst.) og jókst um 6,8% en upptektin úr jarðhitasvæðinu nam um 7,6 milljónum tonna. Þann 31. desember voru liðin 20 ár frá stofnun fyrirtækisins og var þess minnst með margvíslegum hætti, m.a. veglegum afmælisfagnaði sem efnst var til í Félagsheimilinu Stapa í Njarðvík 30. desember. Í tilefni afmælisársins var endurnýjað kynningarefni, keypt listaverk og sjúkrahúsi, Þroskahjálp, björgunarsveitum og börnum gefnar gjafir, gjaldskrá Hitaveitunnar um hemla lækkuð um 20%, skipuð nefnd til undirbúnings byggingar móttöku- og kynningarhúss í orkuverinu við Svartsengi og fleira.

1995 Á árinu voru lagðir 36 kV strengir frá Vogum að Kálfatjarnarkirkju, lokið við frágang strenglagnar frá Svartsengi að nýrri aðveitustöð við fiskimjölsverksmiðjuna í Grindavík, lagður strengur frá Aðalgötustöð í Keflavík til Helguvíkur og frá Keflavík í Garð. Þá var byggð ný aðveitustöð í Grindavík og hafinn undirbúningur að byggingu nýrrar aðveitustöðvar í Helguvík. Aukning var enn á raforkuframleiðslunni og voru framleiddar 107,2 GWst. en voru 104,1 GWst. árið áður. Vatnsframleiðsla var 7,3 milljónir tonna (530,3 GWst.) og minnkaði um 6% en upptektin úr jarðhitasvæðinu var um 8,1 milljón tonna. Hitaveitan óskaði með bréfi til iðnaðarráðuneytisins, dagsettu 20. nóvember, eftir heimild til að auka rafmagnsframleiðsluna um allt að 25 MW.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Undirbúningur hófst að byggingu „kynningar- og mötuneytishúss“ í Svartsengi og fór fram arkitektasamkeppni þar sem 43 tillögur bárust. Fyrstu verðlaun hlaut tillaga arkitektanna Ragnars Ólafssonar FAÍ og Gísla Sæmundssonar FAÍ. Hitaveitan tók að sér forystu hóps sem vildi kanna möguleika á byggingu magnesíumverksmiðju á Reykjanesi og er enn (1999) unnið að því máli.

1996 Á árinu var lokið lagningu 36 kV jarðstrengs frá Vogum að Keilisnesi, frá aðveitustöð við Aðalgötu í Keflavík til Helguvíkur og Garðs og að mestu lokið byggingu aðveitustöðvar í Helguvík. Undirbúningur hófst að endurbyggingu elsta hluta orkuversins (orkuvers 1 - OV 1) með byggingu á „nýju“ orkuveri (orkuver 5 - OV 5) þar eð orkuver 1 var orðið úrelt og nauðsynlegt að ráðast í umfangsmiklar endurbætur. Í þessum nýja hluta er framleiðslugeta á heitu vatni 240 l/sek., 60% meiri en í OV 1 sem merkir um 20% aukningu heildarframleiðslugetu orkuversins. Þá verður þar 30 MW rafmagnshverfill en í OV 1 eru 2 MW hverflar þannig að aukningin er 28 MW. Alls verður þá uppsett afl orkuversins 150 MW í varma og 44,4 MW í rafmagni en það var áður 16,4 MW, þannig að aukningin er 171%. Unnið var að hönnun „kynningar- og mötuneytishúss“ og jarðvinna boðin út en húsið er um 1.220 m2 og 5.360 m3 að stærð. Raforkuframleiðslan jókst enn og voru framleiddar alls 117,2 GWst. eða um 59,1% forgangsraforkunotkunar á svæðinu. Vatnsframleiðsla var 7,2 milljónir tonna (504,9 GWst.) og minnkaði um 5,3%, en upptektin úr jarðhitasvæðinu var um 7,7 milljónir tonna.

1997 Lokið var við aðveitustöð í Helguvík og dælustöð fyrir heitt vatn byggð undir Grindavíkurgeymi, auk þess sem lokið var framkvæmdum við útibirgðastöð við Fitjabraut/Fitjabakka í Njarðvík. Miklar breytingar voru gerðar á aðalstöðvum fyrirtækisins að Brekkustíg í Njarðvík og stóðu þær breytingar yfir fram á árið 1999. Keyptur var jarðarpartur í Hvassahrauni, 617,5 ha, en það er liður í áformum um frekari nýtingu jarðhita á Reykjanesskaganum. Hitaveitan festi kaup á 30 MW rafmagnshverfli frá Fuji í Japan auk þess sem unnið var að hönnun og undirbúningi hins nýja hluta orkuversins (OV 5) af fullum krafti. Boðin var út bygging „kynningar og mötuneytishússins“ í Svartsengi og var meginhluti þess byggður á árinu. Umtalsverð aukning varð á raforkuframleiðslunni og voru framleiddar alls 125 GWst. eða um 61,9% forgangsraforkunotkunar á svæðinu. Vatnsframleiðsla var 7,3 milljón tonn (521,3 GWst.) og minnkaði um 2,8% en upptektin úr jarðhitasvæðinu varð um 7,6 milljónir tonna. Stjórnarformaður Hitaveitunnar 1997-98 er mikill grínisti. Verið var að ræða á stjórnarfundi viðbrögð Landsvirkjunar við slæmum vatnsbúskap. Var meðal annars komið inn á mikinn fjölda virkjana í sumum fallvötnum landsins og að alltaf virðist vera hægt að fjölga þeim enda þótt leikmönnum þyki orðið fullvirkjað. Varð þá stjórnarformanninum að orði, grafalvarlegum: „Er þetta ekki orðið hálfónýtt vatn þegar búið er að virkja það svona oft?“

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


1998 Miklar framkvæmdir voru við endurbyggingu elsta hluta orkuversins (OV 5 í stað OV 1), og var kostnaður við það um 930 milljónir króna. Þá voru boraðar 4 háhitaholur, ein 448 m djúp í gufusvæðið, tvær hefðbundnar tveggja fasa (gufa og jarðsjór), önnur 1.600 m og hin 1.855 m djúp og loks 1.260 m niðurdælingarhola í u.þ.b. tveggja kílómetra fjarlægð frá orkuverinu. Heildarkostnaður við þessar boranir var 440 milljónir króna á árinu. Loks var undirbúin borun háhitaholu á Reykjanesi og var hafist handa við verkið í desember og kostnaður ársins um 30 milljónir króna. Þann 30. desember var undirritað samkomulag við Landsvirkjun um meginatriði væntanlegs samrekstrarsamnings um rekstur 30 MW virkjunarinnar en iðnaðarráðuneytið hafði gert slíkan samning að skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfis. Byggingu Eldborgar, „kynningar og mötuneytishúss“ í Svartsengi, lauk að mestu á árinu og var það tekið í notkun formlega þann 6. mars. Kostnaður við húsið var þá í heild orðinn um 250 milljónir króna, að meðtöldum kostnaði við „Gjána“, auk u.þ.b. 16 milljóna króna vegna ýmiss búnaðar. Ákveðið var að í gjá, sem sprengd var niður í hraunlögin undir húsinu, yrði komið fyrir áhugaverðu kynningarefni (sjá kafla 1999 og sérstakan kafla um Eldborg). Byggð var ný dælustöð fyrir Sandgerði og Garð við Mánagrund í Keflavík. Raforkuframleiðslan var nánast sú sama og árið áður, enda vélakostur fyrirtækisins fullnýttur, og voru framleiddar alls 125,5 GWst. eða um 61,3% forgangsraforkunotkunar á svæðinu. Vatnsframleiðsla var 7,7 milljónir tonna (534,6 GWst.) og jókst um 4,6% en upptektin úr jarðhitasvæðinu var um 7,0 milljónir tonna og að teknu tilliti til niðurdælingar var nettóupptektin 6,4 milljónir tonna. Í október var samið við Varnarliðið um nýja gjaldskrá fyrir heita vatnið. Nýja gjaldskráin er í íslenskum krónum í stað Bandaríkjadala og leiðir til umtalsverðrar lækkunar tekna Hitaveitunnar, 120 milljóna króna lækkunar á árinu 1999 frá árinu. Hitaveitan hafði frumkvæði að byggingu nýrrar aðstöðu við Bláa lónið með því að gerast 44% eigandi í Bláa lóninu hf. sem stendur fyrir uppbyggingunni. Framkvæmdir hófust snemma vors við nýja og glæsilega aðstöðu við lónið og var byggingartíminn áætlaður um það bil eitt ár. Þann 15. október var undirritað samkomulag Hitaveitu Suðurnesja við Hafnarfjarðarbæ, Garðabæ og Bessastaðahrepp, sem Kópavogsbær gerðist síðar þátttakandi í, en tilgangur þess var að kanna möguleika á víðtæku samstarfi eða samruna fyrirtækja þeirra um orkuvinnslu og orkudreifingu.

1999 Lokið var að mestu við endurbyggingu orkuversins og var framleiðsla hafin í orkuveri 5 þann 3. nóvember. Gufuholurnar fjórar, sem boraðar voru 1998, voru tengdar orkuverinu og eru safnæðar nú orðnar samtals 4,7 km að lengd. Lokið var við borun háhitaholu á Reykjanesi og varð hún 2.054 m að dýpt og heildarkostnaður á árinu um 95 milljónir króna. Byggð var aðveitustöð við radarstöð Varnarliðsins við Grindavík og hún tengd almennu dreifikerfi Hitaveitunnar en stöðin var áður tengd Keflavíkurflugvelli með sérstakri línu sem hefur verið fjarlægð.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Endurnýjuð var stofnæð Hitaveitu frá Fitjum að Innri Njarðvík til að auka flutningsgetu og einnig var lögð ný aðveituæð í Helguvík og það svæði tengt Hitaveitukerfinu. „Gjáin“, sem er um 120 m2 svæði undir Eldborgarhúsinu, var formlega opnuð 12. nóvember. Þar hefur verið komið fyrir öflugri og áhugaverðri kynningu á Hitaveitu Suðurnesja, virkjunarsvæðinu, jarðsögunni, jarðhitavinnslunni og fleira og er þar nýtt öll nýjasta tækni á sviði kynningar og margmiðlunar. Þann 15. júlí var opnuð formlega ný og glæsileg aðstaða Bláa lónsins hf. en Hitaveita Suðurnesja á þar 44% eignarhlut. Er það samdóma álit manna að einstaklega vel hafi tekist til um alla hönnun og byggingu og mannvirkin séu öllum sem að byggingu þeirra hafa komið til mikils sóma. Á árinu var keypt jörðin Þórustaðir á Vatnsleysuströnd og viðbót við athafnasvæði fyrirtækisins við Svartsengi og loks var jarðhitasvæðið á Reykjanesi keypt af sveitarfélögunum á svæðinu. Heildarkostnaður við þessi kaup á landi og hitaréttindum var um 100 milljónir króna. Mikið er af áhugasömum golfleikurum hjá Hitaveitunni og stunda þeir vel þetta áhugamál sitt enda hefur verið sagt að Golfstraumurinn liggi frá Hitaveitunni út í Leiru um leið og vinnu lýkur!

2000 Á árinu urðu miklar breytingar á rekstri fyrirtækisins þegar Hitaveita Suðurnesja (HS) og Rafveita Hafnarfjarðar (RH) sameinuðust sem Hitaveita Suðurnesja hf. Ljóst er að þessi breyting rekstrarforms í hlutafélag kemur til með að hafa mikil áhrif þegar fram líða stundir þó ekki sé um að ræða nein heljarstökk. Eitt af því sem olli erfiðleikum á samrunaferli HS og RH var það að enginn skilgreindur farvegur var fyrir hendi fyrir slíkar viðræður, en í hlutafélagaforminu er nokkuð ljóst hvernig standa skal að slíkum málum. Á árinu lét Jarðlind ehf., sem Hitaveita Suðurnesja hf. á 68,3% í, bora rannsóknarholu í Trölladyngju. Borun holunnar, sem varð 2.307 m. djúp, lauk 19. júní. Þann 19. október var holan síðan afkastamæld og var henni hleypt upp af iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Hitaveita Suðurnesja, fyrir hönd Jarðlindar ehf., sótti til iðnaðarráðuneytisins um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum 27. apríl. Á árinu 2000 hófust rannsóknir á hugsanlegum lághitasvæðum á Rosmhvalanesi . Ástæður þessara rannsókna eru þær, að miðað við aldur og afstöðu til gosbeltisins á Reykjanesskaga mætti búast við að lághitakerfi gæti verið undir Miðnesheiði (Rosmhvalanesi) Nú í nokkur ár hefur verið vænst umfangsmikilla breytinga á lagaumhverfi orkufyrirtækja, sérstaklega varðandi raforku. Hitaveita Suðurnesja hf. hefur lagt áherslu á að ný orkulög verði þannig úr garði gerð, að orkuiðnaðurinn fái að þróast með eðlilegum og hagkvæmum hætti. Starfsmannafjöldi jókst um 24 starfsmenn við sameininguna og var í árslok 100 í 97,5 stöðugildum.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


2001 Á vettvangi fyrirtækisins ber langhæst samruna Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar í sameinað hlutafélag, Hitaveitu Suðurnesja hf. Á ýmsu gekk áður en af samrunanum gat orðið en að lokum gekk dæmið upp og haldinn var stofnfundur 30. mars 2001. Í lok ársins kom í ljós að viðræður Selfossveitna, Bæjarveitna Vestmannaeyja (BV) og Hitaveitu Suðurnesja hf. (HS) um sameiningu, sem byggðust á undirritun viljayfirlýsingar 29. ágúst 2001, gengu ekki upp, en tvíhliða viðræður BV og HS í framhaldinu leiddu til samkomulags 19. Desember, sem nú hefur leitt til ákvörðunar um samruna fyrirtækjanna. Af borframkvæmdum er það að frétta að þann 17. september var holu TR 1. í Trölladyngju hleypt upp af Valgerði Sverrisdóttur Iðnaðarráðherra. Af erlendum vettvangi standa að sjálfsögðu upp úr hörmungaratburðirnir 11. september og þó heimsmyndin hafi óumdeilanlega breyst til frambúðar, þá verðum við öll að vona, að jafnvægi komist á og eðlilegt líf komist á sem fyrst á ný. Starfsmannafjöldi var í árslok 100 manns.

2002 Það sem hæst bar á árinu 2002 var að sjálfsögðu samruni HS hf. við Bæjarveitur Vestmannaeyja sem og að nýtt raforkulagafrumvarp var lagt fram í lok ársins um jöfnun kostnaðar við flutning og dreifingu raforku og hafði forstjórinn í nógu að snúast við að berjast fyrir því að helstu agnúar þess yrðu sniðnir af áður. Lokið var borun 3. rannsóknarholunnar á Reykjanesi vegna nýrrar 90 til 100MW virkjunar HShf vegna tilkomu Norðuráls og varð hún um 2.506 m. djúp og um leið dýpsta háhitahola á landinu. Verðkönnun Neytendasamtakan sýndi að upphitunarkostnaður væri hæstur á Suðurnesjum. Í ljós kom að niðurstöðurnar hefðu verið reiknaðar út frá röngum upplýsingum starfsmanns HS hf. og spunnust töluverðar umræður vegna þessa sem erfitt reyndist að leiðrétta. Starfsmannafjöldi var í árslok 120 manns.

2003 Það helsta sem upp úr stendur á árinu er að gengið var frá samkomulagi milli HS hf, OR og Norðuráls um orkuöflun og orkusölu til Norðuráls frá vordögum 2006. Þá var gengið frá kaupum á vatnsveitu Reykjanesbæjar. Einnig var gengið frá samningi við Jarðboranir hf um borun á allt að 6 háhitaholum á Reykjanesi og er borun þeirrar fyrstu þegar hafin Eins og allir væntanlega vita, þá eru miklar sparnaðaraðgerðir í gangi hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og hefur m.a. yfir 100 starfsmönnum verið sagt upp störfum. Það fer ekki hjá því að þessi sparnaður komi við hitaveituna, því þann 1. desember barst bréf þar sem óskað er eftir tæplega 500 mínútulítra lækkun á vatnskaupum í desember og síðan öðrum tæplega 500 mínútulítrum í byrjun janúar. Ástæða þessarar skiptingar er sú, að með samningi frá 1998 er kveðið á um að varnarliðið megi ekki minnka vatnskaup sín um meira en 4% á ári og er beiðnin því sniðin að þeim mörkum. Þetta er umtalsverð minnkun og má í því sambandi nefna að um síðustu áramót voru keyptir 740 mínútulítrar í Vogum og 1.130 í Garði. Magnið svarar þannig nánast til þess að engin vatnssala væri lengur í Garði. Starfsmannafjöldi var í árslok 115 manns.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


2004 Gengið var frá samruna við rafveituhluta Selfossveitna. Meginverkefni ársins hefur verið virkjunin á Reykjanesi og hafa verið boraðar eða hafin borun á 5 háhitaholum til viðbótar og að þeirri borun lokinni verða þær orðnar 8 talsins og verða þær sem á vantar boraðar 2005. Keyptar voru 2 túrbínur frá Fuji, 50 MW hvor og á haustdögum hófust framkvæmdir við stöðvarhús o.fl. af fullum krafti (Eykt hf). Í lok ársins var Vatnsveita Garðs keypt og sameinuð rekstri HS hf.

2005 Framkvæmdir við Reykjanesvirkjun voru í fullum gangi allt árið og voru boraðar 6 háhitaholur, sem voru þá orðnar 13, en tvær verða boraðar til viðbótar 2006. Byggingu stöðvarhúss lauk að mestu og túrbínurnar komnar á sinn stað og er gert ráð fyrir gangsetningu a.m.k. vélar 1 þann 1. maí og vélar 2 þá litlu síðar. Bókfærður kostnaður við virkjunina og línuframkvæmdir var á árinu tæplega 6,7 milljarðar og er þá um 9,7 milljarðar í heild frá upphafi. Í maí var undirritað samkomulag milli HS hf, Reykjanesbæjar og Norðuráls um sameiginlega athugun á möguleikum þess að byggja álver í Helguvík. Samkvæmt samkomulaginu vinnur HS hf nú að athugun á möguleikum til orkuöflunar fyrir slíkt álver og hefur m.a. þess vegna verið óskað eftir rannsóknarleyfi á tveimur mögulegum virkjunarsvæðum á Krýsuvíkursvæðinu, en fyrir hefur fyrirtækið rannsóknarleyfi í Trölladyngju og við Sandfell. Á árinu var ákveðið að ráðast í aukna raforkuframleiðslu í Svartsengi og var gengið frá kaupsamningi við Fuji um kaup á 30 MW hverfli. Ráðnir hafa verið hönnuðir og eftirlitsaðilar og samkvæmt áætlunum verður virkjunin gangsett í árslok 2007. Breyting varð á hluthafahóp HS hf þegar fyrirtækið keypti 0,1811% hlut Sveitarfélagsins Álftaness að nafnvirði kr. 13.496.000. Þessi hlutabréf vor síðan seld öðrum hluthöfum fyrirtækisins.

2006 Fyrstu skóflustungur að 30 MW Orkuveri 6 teknar 31. mars og framkvæmdir hófust í ágúst. Í mars sagði varnarliðið segir upp viðskiptasamningi sínum við HS hf og í kjölfarið náðust samningar um 10 milljón dala eingreiðslu bandaríkjastjórnar vegna uppsagnarinnar. Raforkuframleiðsla hófst í Reykjanesvirkjun í maí og hófst full afhending eða 100 MW í lok mánaðarins en formleg vígsla fór fram 15. desember. HS hf ákvað að fylgja ekki eftir umsókn sinni frá árinu 2000 um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í árslok tilkynnti ríkissjóður að ákveðið hefði verið að selja hlut ríkisins í HS hf.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


2007 Vinna við Orkuver 6 var stærsta verkefnið og var orkuverið 30 MW gangsett um miðjan desember en verkinu mun ljúka á vordögum 2008. Unnið var að lokafrágangi Reykjanesvirkjunar og þar boraðar tvær nýjar holur og tvær endurboraðar. HS hf og Norðurál undirrituðu 23. apríl orkusölusamning vegna álvers í Helguvík. Geysir Green Energy (GGE) kaupir 15,2% hlut ríkisins í HS hf 3. maí en Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær nýttu forkauprétt sinn í byrjun júlí en áður höfðu mikil viðskipti átt sér stað með hlutabréf í HS hf. Vestmannaeyjar, Sandgerði, Garður, Vogar, Árborg og Kópavogur seldu GGE bréf sín að mestu og Reykjanesbær þann hluta sem hann keypti af hlutabréfum ríkissjóðs. Grindavík seldi Orkuveitu Reykjavíkur nánast öll sín bréf svo og þau bréf ríkissjóðs sem hann hafði keypt og það gerði Hafnarfjörður einnig. Þessar sölur voru allar háðar forkaupsréttarákvæðum. Í kjölfarið náðist samkomulag þann 10. júlí þannig að Reykjanesbær ætti 34,75%, GGE 32%, OR 16,6% og forkaupsrétt að 15,4% hlut Hafnarfjarðar og síðan fjögur sveitarfélög á Suðurnesjum með 1,25%. Málefni HS hf voru aftur mjög í brennidepli vegna samrunaferlis GGE og Reykjavík Energy Invest í byrjun október en það ferli gekk til baka. Þann 14. Desember var fagnað 20 ára afmæli Fréttaveitunnar og heimildagagnagrunnur HS hf, Hver.is, formlega opnaður við sama tækifæri.

2008 Ársins verður aðallega minnst fyrir það að Hitaveita Suðurnesja hf var sem slík lögð niður en við hlutverki hennar tóku tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Orka hf og HS Veitur hf. Þetta var gert þann í kjölfar samþykkta laga nr. 58 frá 7. júní 2008 þar sem m.a. er kveðið á um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi í tvö aðskilin og sjálfstæð fyrirtæki sem hafi sjálfstæðar stjórnir fyrir 1. júlí 2009. Þegar þessi lagasetning lá fyrir hófst umfangsmikil undirbúningsvinna fyrir uppskiptinguna sem síðan lauk með hluthafafundi þann 1. desember þar sem nafni Hitaveitu Suðurnesja hf var breytt í HS Orku hf og síðan haldinn stofnfundur fyrir nýtt félag, HS Veitur hf. Fjárfestingar á árinu 2008 voru alls 5,5 milljarðar, ívið minna en á árinu 2007. Raforkuframleiðsla var alls 864,43 GWst frá orkuverunum, þ.e. Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Heitavatnsframleiðsla var tæplega 11,2 milljónir tonna. Met var slegið í framleiðslu einstakan dag, en þann 31. janúar um kl. 19:00 var framleitt alls 438 l/s enda norðan rok og kuldi úti. Sunnudaginn 20. janúar fór þyrla með mannskap og búnað út í Eldey í þeim tilgangi að koma fyrir kvikmyndatökuvél sem sendir myndir frá einni stærstu Súlubyggð í heiminum. Ekki tókst að koma myndum á veraldarvefinn sökum tæknivandamála. Miðvikudaginn 6. febrúar var Íslenska Ánægjuvogin afhent fyrirtækinu en þetta er sjötta árið í röð sem fyrirtækið er hlutskarpast í þessari mælingu á ánægju viðskiptavina sem Samtök Iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup standa að. Þann 3. apríl fór fram formleg vígsla á orkuveri 6 í Svartsengi. 6 elstu starfandi vélfræðingar orkuversins tóku skóflustungu að orkuverinu í apríl 2006 og mættu nú með barna börn sín sem opnuðu orkuverið formlega. Frá kynslóð til kynslóðar voru skilaboðin.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Þriðjudaginn 8. apríl kom Al Gore f.v. varaforseti Bandaríkjanna í heimsókn í Svartsengi. Fimmtudaginn 10. apríl var tekið í notkun nýtt vatnsból og ferskvatnsdælustöð fyrir Sveitarfélagið Voga. Þriðjudaginn 29. apríl kom forsætisráðherra Finnlands, Matti Vanhanen í heimsókn í Svartsengi. 29. maí var stór jarðskjálfti á Suðurlandi 6,2 stig. Engar skemmdir urðu á virkjunum né búnaði í dreifikerfinu. 16. júlí fór fram formleg opnun á sýningunni Orkuverið jörð í Reykjanesvirkjun. Alls komu rúmlega 5300 manns í heimsókn til fyrirtækisins, fengu fræðslu um orkuvinnsluna og af hverju það er mögulegt að vinna jarðhita á Reykjanesskaganum. Starfsmannafjöldi var um áramót 132 í 130,3 stöðugildum.

2009 Umtalsverðar breytingar urðu á eignarhaldi HS Veitna hf þegar Reykjanesbær keypti 32% hlut Geysis Green Energy í félaginu og er Reykjanesbær þá eigandi 66,75% hlutafjár í félaginu. Þetta var fyrsta rekstrarár HS Veitna hf í kjölfar þess að Hitaveita Suðurnesja hf var sem slík lögð niður og við hlutverki hennar tóku tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Orka hf og HS Veitur hf. HS Veitur hf eru með sjálfstæða stjórn en starfsmenn HS Orku hf annast alla þjónustu félagsins í samræmi við verktakasamning milli félaganna. HS Veitur hf sjá um alla veitustarfsemi sem Hitaveita Suðurnesja annaðist þ.e. dreifingu raforku auk dreifingar og sölu á heitu og köldu vatni. Tap varð á rekstri félagsins að upphæð 254,6 m.kr. aðallega vegna mikils fjármagnskostnaðar sem nam 843 m.kr. nettó. Samdráttur varð í orkunotkun á veitusvæðinu í fyrsta skipti um árabil og dróst almenn raforkunotkun saman um 2,2% og sala á heitu vatni á Suðurnesjum um hemla dróst saman um 4,1%. Fjárfestingar á árinu 2009 voru mun minni en árið áður og námu alls 432 m.kr. en 2.174 m.kr. á árinu 2008. Þegar tekið er tillit til sérstakra framkvæmda við vatnsleiðslu til Vestmannaeyja þá voru aðrar framkvæmdir 2009 alls 408 m.kr. en 1.165 m.kr. árið áður eða nær þrefalt meiri. HS Veitur hf sinna innheimtu orkureikninga bæði fyrir HS Orku hf og HS Veitur hf. Vanskil jukust á ákveðnum svæðum HS Veitna hf. Útistandandi skuldir jukust um 14,6% frá árinu 2008. Notendaskipti voru alls 5.166 á árinu á móti 5.507 árið 2008. Á árinu var ákveðið að ganga til samstarfs við Intrum á Íslandi (nú Motus) um innheimtu orkureikninga og þjónustugjalda. Umfang innkaupa og innflutnings var mun minni en árið 2008. Einungis eitt útboð var auglýst á árinu og voru það kaldavatnsdælur. Bilun kom upp í stofnlögn heita vatnsins fyrir Sandgerði og Garð 2. desember. Loka þurfti fyrir vatnið í um 10 klst. vegna þessa. Einni af 5 kaldavatnsborholum sem fyrirtækið rak í Sveitarfélaginu Garði var lokað 8. desember og dæluhús rifið. Þetta var holan í Fagrahvammi, stóð við Fiskverkun Karls Njálssonar. Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 102 í 100,3 stöðugildum.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


2010 Hagnaður varð á rekstri félagsins að upphæð 321 m.kr. en fjármagnsliðir voru 374 m.kr. lægri en árið áður. EBITDA var 1.420 m.kr. en 1.139,5 m.kr. árið áður. Eiginfjárhlutfall var 53%. Notkun forgangsorku var 449,7 GWst og dróst saman um 0,8%, var 453,5 GWst árið áður en notkun ótryggrar orku stóð nánast í stað, 96,6 GWst á móti 97,4 GWst árið áður. Heildar notkun á heitu vatni var svipuð og árið áður eða um 11,5 milljón tonn. Vatnsnotkun jókst í Eyjum um 4,2%. Fjárfestingar í veitukerfinu á árinu námu 579 m.kr. og 588 m.kr. alls en árið áður 431 m.kr. í veitukerfinu og 434 m.kr. alls. Fyrirtækið réðist í vatnsmælavæðingu fyrirtækja, stofnana og félagsamtaka á Suðurnesjum. Þannig voru alls um 900 hemlar teknir úr kerfinu og í staðinn settir rennslismælar. Aðalfundur félagsins var haldinn föstudaginn 19. mars og var mætt af hálfu allra hluthafa eða 100%. Vegna eldgosins í Fimmvörðuhálsi og síðar Eyjafjallajökli í mars og apríl var viðbúnaður og reglulegar mælingar á vatnsbólinu við Syðstu Mörk en vatnsbólið þjónar Vestmannaeyjum. Gæði vatns var mælt reglulega vegna hættu á kvikuinnskoti í vatnsbólin. Fyrirtækið festi kaup á þjónustubifreiðunum sem ganga fyrir metangasi. Þetta eru fyrstu bifreiðarnar sem fyrirtækið kaupir sem ekki ganga fyrir bensíni eða díselolíu. Fyrirtækið hóf í samstarfi við InExchange útsendingar á rafrænum reikningum á NES-UBL formi og vinna við stefnumótun fyrirtækisins hófst á árinu. Vinna við lagningu nýrrar kaldavatnsstofnæðar fyrir Sveitarfélagið Garð fór af stað. Einnig var lögð ný 350mm stálpípa í 500mm plastkápu frá Bolafót í Njarðvík að Asparhlíð til styrkingar á dreifikerfi heita vatnsins til Helguvíkur, Garðs og Sandgerðis. Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 101 í 99 stöðugildum.

2011 Hagnaður varð á rekstri félagsins að upphæð 270 m.kr. EBITDA var 1.400,5 m.kr. en 1.420 m.kr. árið áður. Eiginfjárhlutfall var 53%. Endurbætt heimasíða fór í loftið þann 16. maí 2011. Guðmundur Bernharð hjá M74 Studios sá um hönnun síðunnar ásamt heimasíðuhóp fyrirtækisins. Ljósmyndir á síðunni er teknar af Oddgeir Karlssyni ljósmyndara. Raforkunotkun jókst lítilega á veitusvæðinu eða um 0,7%. Notkunin var 452,8 GWst en árið áður 449,7 GWst. Notkun á ótryggri orku var 102,5 GWst eða 6,1% aukning frá fyrra ári. Heildar notkun á heitu vatni var sama og árið áður eða um 11,5 milljón tonn. Vatnsnotkun jókst í Eyjum um 1,8%. Meira var dælt af fersku vatni til Vestmannaeyja er árið áður eða 17%. Fjárfestingar í veitukerfum námu á árinu 417 m.kr. og 440 m.kr. í heild á móti 579 m.kr. í veitukerfum árið áður og þá 588 m.kr. í heild. Aðalfundur félagsins var haldinn 25. mars og var mætt af hálfu allra hluthafa. Þriðjudaginn 24. maí var lokað fyrir kalda vatnið í Keflavík, Ytri Njarðvík og Sandgerði í hálfan sólarhring. Færa þurfti stofnlögn vegna framkvæmdar Vegagerðarinnar við undirgöng við Grænás. Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 102 í 99,5 stöðugildum.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


2012 Hagnaður fyrirtækisins var alls 442 m.kr. EBITDA var 1.570,1 m.kr. eða hækkun um 12%. Eiginfjárhlutfall var 52,1%. Fyrirtækið hóf sjálft að innheimta vatnsgjöld í upphafi árs en fram að þessu höfðu sveitarfélög séð um innheimtuna fyrir HS Veitur með innheimtu fasteignagjalda. Aðalfundur var haldinn 15. mars og var mætt af hálfu allra hluthafa eða 100%. Fjárfestingar í veitukerfum voru um 409 m.kr. og 424 m.kr. í heild á móti 417 m.kr. í veitukerfum árið áður og 440 m.kr. í heild. Raforkunotkun var svipuð á veitusvæðinu og var um 460,6 GWst eða 1,7% aukning. Notkun á ótryggri orku var 116,5 GWst eða 13,6% aukning frá fyrra ári. Heildar notkun á heitu vatni var um 11,7 milljón tonn. Alls bættist við 1 km. í hitaveitudreifikerfið og er það nú alls 486,2 km. Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 98 í 96,1 stöðugildum.

2013 Ársreikningur ársins 2013 var samþykktur af stjórn 22. febrúar en aðalfundur haldinn 14. mars. Heildarhagnaður ársins 2013 nam 666 m.kr. á móti hagnaði upp á 442 m.kr. árið 2012. Fjárhagsstaða er sterk og horfur góðar. Eiginfjárhlutfall í árslok 2013 var 53,1%. Veltufjárhlutfall var í lok ársins 4,28 samanborið við 2,87 í árslok 2012. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) hækkar milli ára, EBITDA árið 2013 var 1.798 m.kr. (35,6%) á móti 1.570 m.kr. árið 2012 (33,4%). Almenn raforkunotkun jókst frá 2012 á veitusvæðinu um 0,8% þ.e. úr 460,6 GWst í 464,4 GWst. Notkun ótryggar orku jókst um 2,5% eða úr 116,5 GWSt í 119,5 GWst. Heildar notkun á heitu vatni var um 12,7 milljón tonn. Fjárfestingar námu 409 m.kr. í veitukerfum og alls 507 m.kr. 31. maí var formlega opnað og tekið í notkun ný starfsaðstaða við Eyraveg 53 á Selfossi. Húsið er 300 m2 með lóð upp 1200 m2. Þann 4. Júlí, á 40 ára goslokaafmæli, fór fram athöfn í svonefndu Gufugili í Vestmannaeyjum. Þá fór fram afhjúpun á upplýsingaskiltum um hraunhitaveituna. Við setningu ljósanætur var afhjúpað listaverkið Uppspretta á vatnstanknum Vatnsholti. Verkið var unnið í samstarfi við fleiri aðila meðal annars listahópinn sem kallar sig Toyista. Í október gaf fyrirtækið út skuldabréfaflokk í fyrirtækinu, HSVE 13 01. Í desember var það tilkynnt að um ármótin 2013 – 2014 myndi Júlíus Jónsson láta af stöfum sem forstjóri HS Orku og Ásgeir Margeirsson taka við. Júlíus verður áfram forstjóri HS Veitna hf. Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 98 í 96,4 stöðugildum.

2014 Aðalfundur félagsins var haldinn 6. mars og framhalds aðalfundur 10. apríl. Ekki tókst að ljúka fyrri aðalfundi þar sem eignarhald var að breytast því 34,38% hlutafjár skipti um eigendur þann 8. apríl. Eftir breytingarnar átti Reykjanesbær 50,1%, HSV Eignarhaldsfélag slhf 34,3822%, Hafnarfjarðarbær 15,4278% og Sandgerðisbær 0,1%.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Heildarhagnaður ársins var 804 m.kr. á móti hagnaði upp á 666 m.kr. árið 2013. EBITDA lækkar aðeins milli tímabila, EBITDA fyrir árið 2014 var 1.749 m.kr. (33,1%) á móti 1.798 m.kr. (35,6%) árið 2013. Almenn raforkunotkun minnkaði frá 2013 á veitusvæðinu um 3,2% og notkun ótryggar orku um 6%. Heildar notkun á heitu vatni var um 12,3 milljón tonn. Fjárfestingar námu 766 m.kr. í veitukerfum og alls 814 m.kr. Í byrjun september var send út tilkynning til íbúa Sveitarfélagsins Vogum um að sjóða allt neysluvatn vegna sýnis sem tekið var af HES og innhélt E.coli bakteríur. Ástæða mengunar er talin vera yfirborðvatn sem komst í grunnvatn. Þriðjudaginn 30. september var slökkt á riðbreytistöðinni á Keflavíkurflugvelli í síðasta sinn og verður hún ekki framar í rekstri eftir að hafa verið starfrækt í um 54 ár. Í desember var send út tilkynning og viðskiptavinir Suðurnesjum beðnir um að spara heita vatnið vegna mikillar notkunar. Mikil notkun var vegna stífrar norðanáttar og kulda. Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 84 í 83,1 stöðugildi. Í febrúar var fyrirtækið tilnefnt FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI fyrir árið 2013 af Creditinfo, eitt af 462 íslenskum fyrirtækjum.

2015 Um áramótin fluttust 75 starfsmenn sem áður voru starfsmenn HS Orku en unnu eingöngu fyrir HS Veitur yfir til HS Veitna hf. Aðalfundur félagsins var haldinn 18. mars. Heildarhagnaður ársins 2015 var 780 m.kr. á móti hagnaði upp á 804 miljónum króna árið 2014. EBITDA hækkar milli tímabila, EBITDA fyrir árið 2015 var 1.896 m.kr. (32,4%) á móti 1.749 m.kr. (33,1%) árið 2014. Fjárhagsstaða er sterk og horfur góðar. Eiginfjárhlutfall þann 31. desember 2014 var 42% og veltufjárhlutfall var 3,50 þann 31. desember 2015 samanborið við 3,68 í árslok 2014. Almenn raforkunotkun jókst verulega frá 2014 á veitusvæðinu, var 524 GWh á móti 450 GWh árið áður eða aukning um 16%. Notkun ótryggar orku var um 128 GWh en 112 GWh árið áður og aukning þá um 14%. Heildar notkun á heitu vatni var um 13,2 milljón tonn. Fjárfestingar námu 931 m.kr. í veitukerfum og alls 1.005 m.kr. Í maí hófst mælavæðing hjá fyrirtækinu þar sem byrjað var á að skipta út hemlum fyrir mæla á heita vatninu hjá notendum Suðurnesjum. Sett verður upp kerfi fjaraflesinna mæla bæði á vatni og rafmagni. Kerfi sem skilar inn raun notkun hverju sinni inn í orkureikningakerfi fyrirtækisins. Áætlað er að vinnu við fjaraflesna mæla verði búið árið 2022 og að þá verði allir mælar hjá fyrirtækinu fjaraflesnir. Í september tilkynnti Landsnet um skerðingu á raforku til Vestmannaeyja og bað viðskiptavini í Eyjum að spara raforkunotkun.22. desember var því fagnað að búið var að setja upp 1.000 mæla á heita vatninu í stað hemla. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og er unnið alfarið af starfsmönnum veitunnar. Um var að ræða heimilið Leirdal 6 í Sveitarfélaginu Vogum. Forstjóri fyrirtækisins ásamt verkstjóra vatnsdeildar mættu og færðu heimilisfólki smá gjöf.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Fjöldi starfsmanna sem störfuðu að hluta eða öllu leiti fyrir HS Veitur í árslok var 87 í 85,9 stöðugildum. Í febrúar var fyrirtækið tilnefnt FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI fyrir árið 2014 af Creditinfo, eitt af 578 íslenskum fyrirtækjum. Þetta er annað árið í röð sem fyrirtækið fær nafnbótina FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI.

2016 Aðalfundur félagsins var haldinn 9. mars. Heildarhagnaður ársins 2016 var 736 m. kr. á móti hagnaði upp á 780 m.kr. árið 2015. EBITDA ársins 2016 er 1.899 m.kr. (32,9%) á móti EBITDA 1.896 m.kr. (32,4%) árið 2015. Eiginfjárhlutfall þann 31. desember 2016 var 42,3%. Almenn raforkunotkun stóð nánast í stað frá 2015 á veitusvæðinu, var 521 GWh á móti 524 GWh árið áður eða minnkun um 0,5%. Notkun ótryggar orku var um 114 GWh en 128 GWh árið áður og minnkun þá um 11%. Heildar notkun á heitu vatni var um 13,2 milljón tonn. Fjárfestingar námu 1.343 m.kr. í veitukerfum og alls 1.972 m.kr. Þann 13. júlí voru undirritaðir samningar í Eyjum sem segja má að marki formlegt upphaf að framkvæmd varmadæluverkefnis í Vestmannaeyjum. Þann 3. október fór klórblandað vatn inn á ferskvatnsdreifikerfi veitunnar í Keflavík en í mjög litlum mæli sem betur fer. Um mistök voru að ræða en skynjari sem sagði til um þrýsting kerfis hafði orðið fyrir eldingu fyrr um morgun. Nýtt skipurit fyrirtækisins tók gildi á árinu. Fjöldi starfsmanna var 92 í 89,4 stöðugildum. Í febrúar var fyrirtækið tilnefnt FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI fyrir árið 2015 af Creditinfo, eitt af 682 íslenskum fyrirtækjum. Þetta er þriðja árið í röð sem fyrirtækið fær nafnbótina FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI.

2017 Aðalfundur félagsins var haldinn 22. mars. Heildarhagnaður ársins 2017 var 848 m.kr. á móti hagnaði upp á 736 m.kr. árið 2016. EBITDA var 2.160 m.kr. (34,6%) en var 1.899 m.kr. (32,9%) árið 2016. Eiginfjárhlutfall þann 31. desember 2017 er 50,4% en var 42,3% í ársbyrjun. Veltufjárhlutfall var 0,68 þann 31. desember 2017 samanborið við 2,52 í árslok 2016. Almenn raforkunotkun 2017 jókst um 3,7% á veitusvæðinu, var 540 GWh á móti 521 GWh árið áður. Notkun ótryggar orku var um 102 GWh en 114 GWh árið áður og minnkun þá um 10%. Heildar notkun á heitu vatni var um 11,2 milljón tonn. Heildar notkun á fersku vatni dróst saman um 3,71% frá árinu 2016. Sala á heitu vatni um mæla Eyjum var 1.611,4 í þúsundum tonna á móti 1.451,8 árið 2016. Sala á heitu vatni um mæla Suðurnesjum var 10.405 þúsund tonn á móti 7.801 tonni árið 2016 en sala á heitu vatni um hemla Suðurnesjum í árslok 2017 voru 2.624 l/m á móti 7.743 l/m í árslok 2016.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Heildar notkun á heitu vatni hefur dregist verulega saman og var nánast sú sama 2017 og árið 2009 og þá um 15% minni en þegar hún var mest 2015. Þá hefur framlegðin aukist verulega, árið 2014 fóru 57,5% af tekjum af vatnssölu til kaupa á heitu vatni en árið 2017 var þetta hlutfall komið í 48,3% sem jafngildir um 140 m.kr. árlegum sparnaði. Fjárfestingar námu 2.008 m.kr. í veitukerfum og alls 2.261 m.kr. Í árslok hafði verið skipt út 4.932 hemlum eða 86,5% af þeim sem skipta átti út. Þann 1. apríl var spennusett nýtt spennuvirki í Vestmannaeyjum með 66/33 kV 60 MVA spenni. Spennuvirkið var svo formlega vígt 23. ágúst að viðstöddu fjölmenni og fékk þá nafnið Garðar eftir fyrrum rafveitustjóra í Eyjum. Í febrúar var fyrirtækið tilnefnt FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI fyrir árið 2016 af Creditinfo, eitt af 624 íslenskum fyrirtækjum. Þetta er fjórða árið í röð sem fyrirtækið fær nafnbótina FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI. Fjöldi starfsmanna var í árslok 96 í 93,6 stöðugildum.

2018 Aðalfundur var haldinn mánudaginn 19. mars að Brekkustíg 36 í Njarðvík. Heildarhagnaður ársins 2018 var 682 miljónir. EBITDA var 2.456 m.kr. (35,5%) eiginfjárhlutfall er 43,5%. Veltufjárhlutfall var 3,14 þann 31. desember 2018 samanborið við 0,68 í árslok 2017 Nýtt útlit á merki og letri fyrirtækisins var kynnt til sögunnar í upphafi árs. Í júní var tekin í notkun þjónustubifreið sem gengur fyrir vetni en það er stefna fyrirtækisins að innan fárra ára gangi allar bifreiðar fyrirtækisins fyrir umhverfisvænum orkugjöfum. Í nóvember var tilkynnt að fyrirtækið vær í hópi þeirra 2% íslenskra fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði greiningar Creditinfo á Framúrskarandi fyrirtækjum 2018. Þetta er sjötta árið í röð sem fyrirtækið hlýtur nafnbótina. Fyrsta desember voru 10 ár frá því HS Veitur voru stofnaðar. Í desember skrifuðu Landsnet, Rarik, HS Veitur og Félag íslenskra fiskimjölsframleiðanda undir viljayfirlýsingu þessa efnis að stuðlað verði að aukinni notkun á endurnýjanlegri orku í fiskmjölsiðnaði á Íslandi. Í nóvember var skrifað var undir samning við S.Þ verktaka um byggingu nýrrar aðveitustöðvar fyrir Hafnarfjörð sem fær heitið JÓN-A. 26. nóvember var byrjað að keyra varmadælustöð i Vestmannaeyjum. Fjöldi starfsmanna var í árslok 94 í 91,1 stöðugildum

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


2019 Aðalfundur var haldinn miðvikudaginn 27. mars að Brekkustíg 36. Heildarhagnaður ársins 2019 var 1.592 m.kr. EBITDA var 2.701 m.kr. (37,7%) og eiginfjárhlutfall er 46,7%. Veltufjárhlutfall var 2,12 þann 31. desember 2019 samanborið við 3,14 í árslok 2018 Í mars mánuði hófust framkvæmdir við byggingu nýrrar aðveitustöðvar í Hafnarfirði sem hefur hlotið nafnið Jón-A. Byggingin er staðsett á Hamranesi. 15. apríl fór í lofið ný og endurbætt heimasíða. Síðan var unnin í samstarfi við Vettvang og Hvíta Húsið. Miðvikudaginn 29. maí fór fram formleg vígsla varmadælustöðvar í Vestamannaeyjum. Stöðin er staðsett á Hlíðarvegi 4. Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ívar Atlason, svæðisstjóri vatnssviðs í Vestmannaeyjum opnuðu stöðina með formlegum hætti að viðstöddu fjölmenni. Forseti Þýskalands Frank-Walter Steinmeier og eiginkona hans Elke Büdenbender ásamt forseta Íslands Guðna Th. Johannessyni og Eliza Reid eiginkona hans heimsóttu varmadælustöðina fimmtudaginn 13. júní. Fimmtudaginn 22. ágúst voru veittar umhverfisviðurkenningar af Rótarý klúbbnum í Vestmanneyjum og Vestmannaeyjabær. Varmadælustöðin var útnefnd snyrtilegasta fyrirtækið. Í október var tilkynnt að HS Veitur færu í hópi 2% fyrirtækja sem hafi uppfyllt ströng skilyrði Creditinfo um Framúrskarandi fyrirtæki. Þetta er sjöunda árið í röð sem fyrirtækið hlýtur þessa nafnbót. Unnið var áfram að mælavæðingu á veitusvæðinu öllu, uppsetning svokallaðra snjallmæla og kerfis (safnstöðva) til að taka við álestrum frá þeim. Alls var skipt um 2.763 raforkumæla og 833 vatnsmæla. Áætlað er að búið verði að skipta um alla sölumæla í árslok 2022. Fjöldi starfsmanna í árslok var 95.

2020 Ársins verður helst mynnst fyrir COVID – 19 og sóttvarnir en allt árið fór í baráttu við þennan vágest, verja starfmenn, viðskiptavini og rekstur fyrirtækisins. Heimavinna, hópaskiptingar, fjarfundir, sóttvarnir, handþvottur og spritt var notað mikið á þessu ári. Heildarhagnaður ársins var 675 m.kr EBITDA var 2.544 m.kr. (35,3%) og eiginfjárhlutfall er 47,3%. Í janúar var farið af stað með valáfangann ORKA & TÆKNI í samstarfi við Heiðarskóla. Um er að ræða valáfanga fyrir nemendur 8. – 9. og 10. bekk og er markmiðið að krakkarnir kynnist iðnmenntun og starfssemi fyrirtækisins 28. janúar lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi í Grindavík vegna landris við fjallið Þorbjörn. Enskur hluti heimasíðunnar fór í loftið í febrúar mánuði. Skopos þýðingarstofa vann þýðingar á síðunni.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Aðalfundur var haldinn miðvikudaginn 11. mars að Brekkustíg 36 að viðstöddum 99,9% hluthafa. 17. mars var afgreiðslum fyrirtækisins lokað vegna sóttvarna. Opnað var aftur 15. maí en lokað aftur 5. október og var lokað út árið. 18. mars byrjaði fyrirtækið að taka eingöngu á móti rafrænum umsóknum. Sótt er um inn á MINAR SÍÐUR á heimasíðu fyrirtækisins. Meðal verkefna voru endurnýjun merkinga húsa, málningarvinna og fleira. Þannig var skipt um þak á lagerhúsnæði Fitjabraut. Starfsstöð Tangagötu Vestmannaeyjum fékk nýtt útlit með málningu. Þá var ein hið á dæluhúsi Eyjavöllum máluð með listaverki „gröffuð“. Listamaður var fengin til verksins sem heitir Seweryn Chwala. Í október var tilkynnt að HS Veitur færu í hópi 2% fyrirtækja sem hafi uppfyllt ströng skilyrði Creditinfo um Framúrskarandi fyrirtæki. Þetta er sjöunda árið í röð sem fyrirtækið hlýtur þessa nafnbót. 1. nóvember var opnuð ný starfsstöð Selhellu 8 Hafnarfirði. Húsið skiptist í lager og verkstæði samtals 744 m2 með 7,7 m. lofthæð. Skrifstofa og starfsmannaaðstaða er 442 m2 með 4,0 m. lofthæð. Milliloft eru 280 m2 eða samtals 1.366 m2. Fjöldi starfsmanna í árslok var 94.

2021 Áfram var barist við COVID – 19 og verður að hrósa starfsmönnum fyrirtækisins fyrir að halda þjónustu gangandi þessi 2 ár sem þessar skrýtnu aðstæður hafa varað. Áfram var því notast við heimavinnu og hópaskiptingar og vinsælasta orðið var áfram „huga að persónulegum sóttvörnum“. Hagnaður ársins var 949 m.kr. EBITA var 3.238 (40,2%) og eiginfjárhlutfall er 48%. Í janúar fór, nú annað árið í röð, valáfangann ORKA & TÆKNI í samstarfi við Heiðarskóla af stað. Um er að ræða valáfanga fyrir nemendur 8. – 9. og 10. bekk og er markmiðið að krakkarnir kynnist iðnmenntun og HS VETUM. Alls voru 9 nemendur í áfanganum. Í janúar fékk fyrirtækið jafnlaunavottun. 4. mars urðu tímamót fyrir veitusvæðið í Hafnarfirði þegar 33 kV jarðstrengur á milli aðveitustöðvar í Hamranesi (JON-A) og aðveitustöðvar í Öldugötu (OLD-A) var tekinn í rekstur. Föstudaginn 5. mars varð rafmagnsleysi í Grindavík og kom það ofan í tíða jarðskjálfta sem bæjarbúar höfðu þurft að búa við. Rafmagn fór af kl. 13:40 og var komið á alla notendur kl. 4:20 að morgni laugardags að nýju. Engin tengsl voru á milli skjálftana og bilunarinnar. Bilunin varð í dreifistöð 118 við höfnina. Röð atvika varð til þess að rafmagnsleysið varð svona víðtækt og stóð svo lengi yfir.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


19. mars hófst eldgos í Geldingadölum austan við Grindavík og stóð yfir fram eftir ári. Engir innviðir voru i hættu. Um vorið lagður jarðstrengur í áttina að gossvæðinu til að efla dreifikerfið á svæðinu. Aðalfundur var haldinn 22. mars. Mætt var 100% fyrir hönd hluthafa. Eftir venjuleg aðalfundarstörf kom nýkjörin stjórn kom saman til fundar og skipti með sér verkum. Guðný Birna Guðmundsdóttir var kjörin formaður stjórnar og er fyrst kvenna til gegna þeirri stöðu. Í október var HS VEITUR tilnefnd sem Framúrskarandi fyrirtæki 2021 af Creditinfo 9 árið í röð. Í desember var vottun ISO 9001 á gæðastjórnunarkerfi HS VEITNA endurnýjuð. Fjöldi starfsmanna í árslok var 95 og var meðalaldur þeirra 53,4 ár.

HS VEITUR - Brekkustíg 36 260 Reykjanesbæ Sími 422 5200

hsveitur.is


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.