„Leitast við að læra af reynslunni og nýta hana til góðs“ Hulda Ólafsdóttir hannar gjafavöru sem sendir hjartnæm skilaboð til viðtakandans. Þau eru til þess fallin að gleðja og koma við innstu strengi þeirra sem fá þau en hvert orð er sprottið úr sárri reynslu Huldu sjálfrar. Hún hefur borið gæfu til að vinna vel úr erfiðleikunum og er því í aðstöðu til að miðla. Texti: Hildur Friðriksdóttir Myndir: Auðunn Níelsson Hár: Hárstúdíóið Sunna Föt: Centro
Á
fimmtugsaldri ákvað Hulda að söðla um; hún sagði upp störfum sem graf ískur hönnuður á auglýsingastofu, útbjó vinnuaðstöðu í kjallaranum á heimili sínu og stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Hjartalag. Hún hannar og framleiðir gjafavöru með fallegum og kærleiksríkum skilaboðum en innblásturinn kemur úr hennar eigin lífi og nánasta umhverfi. Hún hefur gengið í gegnum erfið tímabil á sinni ævi og vill nýta það sem hún hefur lært til að hjálpa öðrum. „Lífsreynsla mín endurspeglast í vörunum sem ég hanna og aðrir kaupa til að gefa vinum og ættingjum, þannig nýtist mín reynsla og líf öðrum á einhvern hátt.“
Dreymdi um að verða frægur fatahönnuður
Hulda fæddist í Reykjavík en flutti fljótlega í sveit og ólst þar upp fram á unglingsárin. „Mamma eignaðist mig átján ára gömul og fór svo sem kaupakona í sveit í Þingeyjarsýslu. Þar náði hún sér í bónda sem hún giftist fljótlega og hann var mér sem faðir. Hann lést úr krabbameini á síðasta ári en mamma er enn sem bóndi þar sem ég ólst upp,“ segir hún. Hulda fór í Menntaskólann á Akureyri, þaðan í Myndlistaskólann á Akureyri og síðan var leiðinni haldið áfram til Ítalíu í diplómanám í tískuhönnun. „Ég hef alltaf verið listræn, hafði gaman af að teikna, leika og skapa og eftir að hafa verið á listabraut í Menntaskólanum lá beinast við að fara í eitthvert listrænt nám. Fatahönnun hafði alltaf heillað mig en ég hannaði oft dress fyrir viðburði sem voru í vændum og mamma saumaði. Ég vissi að Mekka fatahönnunar væri á Ítalíu og ítalskan heillaði mig svo dag einn var
34 VIKAN
ég búin að ákveða að þangað færi ég í nám. Ég spurðist fyrir í skólanum hvort einhver vildi koma með mér og um haustið héldum við tvær saman til Ítalíu,“ segir Hulda. Draumurinn var að sigra heiminn, verða frægur fatahönnuður og ef til vill búa á Ítalíu til frambúðar. Þessi tvö ár á Ítalíu voru dásamleg segir Hulda, en þar kynntist hún nýrri menningu, nýju tungumáli og eignaðist nýja vini. „Þessi tími gaf mér tækifæri á að þroskast og ég fékk frelsi til að skapa, lifa og dafna sem ung kona – og kynnast ástinni aðeins líka. Ég stefndi á frekara nám á Ítalíu en ákvað að fara fyrst heim í einhvern tíma. Það var þá sem ég kynntist manninum mínum fyrrverandi og þá má segja að lífið hafi tekið í taumana.“ Nám fékk að sitja á hakanum og lífsbaráttan og barneignir gengu fyrir. „Mig dreymir enn að ég sé á Ítalíu og skoða allskonar heima þar á nóttunni. Í vöku dreymir mig líka um að fara þangað aftur og vera um tíma, ég geri það eflaust áður en langt um líður þegar börnin nenna ekki að púkka upp á mig lengur,“ segir Hulda og skellir upp úr.
Reyndi að halda andliti
Hulda kynntist fyrrverandi manni sínum í Reykjavík árið 1993, sama ár og hún kom heim frá Ítalíu. „Ég flutti suður og var að leita mér að vinnu. Hann var framkvæmdastjóri hjá fyrirtæki og vantaði manneskju í afgreiðslu og þrif. Ég sótti um hjá honum og var ráðin. Hann var svo ákveðinn og öruggur með sig að ég hreifst strax af honum.“ Þau fóru að vera saman, hófu búskap örfáum mánuðum síðar og næstu árum eignuðust þau þrjú börn. Árið 2002 var hins vegar orðið ljóst
að hann var orðinn mjög veikur af geðhvarfasýki en sá sjúkdómur hafði verið að ágerast frá því að þau kynntust. Það reyndi bæði mikið á sambandið og þau sem einstaklinga. „Þessi tími einkenndist af því að lifa af, reyna að bjóða börnunum upp á eðlilegt heimilishald og halda andliti. Ég áttaði mig engan veginn á hvert við stefndum heldur ásakaði hann stöðugt fyrir hegðun hans og upplifði mig mikið sem fórnarlamb. Á endanum misstum við allt, við þurftum að selja heimili okkar og fyrirtæki okkar varð gjaldþrota. Þegar ekkert var eftir til að halda okkur í Reykjavík ákváðum við að flytja aftur norður á Akureyri. Ég ýtti mikið á það vegna þess að mig vantaði stuðning og vildi vera nær mínu fólki.“ Þótt stuðningur aðstandenda væri vís fengu þau litla hjálp þegar þau leituðu eftir fagaðstoð á Akureyri. Úrræðaleysið var algert, hann var sendur heim með ávísun upp á svefn- og geðlyf en Hulda og aðstandendurnir fengu litla sem enga fræðslu né hjálp. „Þetta var mjög erfiður tími, ég var með þrjú ung börn og veikan eiginmann sem gat ekki tekist á við vandann en drakk þess í stað mikið og notaði svefnlyf. Mín upplifun var sú að allt snerist um að halda honum í jafnvægi, ef ég hagaði mér almennilega þá voru meiri líkur á að hann væri í betra standi. Ég var samt alltaf með hnút í maganum yfir því að hann myndi reiðast af minnsta tilefni. Oft hugsaði ég um að fara frá honum en það sem hélt í mig var vonin um að hann lagaðist og hræðslan við að geta ekki hugsað um börnin.“ Þau ákváðu að skilja árið 2005. Hulda hafði þá látið langþráðan draum um