Fjardabyggd vor 2014

Page 1

Vor Framkvæmdasvið 2014 FJARÐABYGGÐ |

FJARÐABYGGÐ

fjardabyggd.is


Hreinn bær, okkur kær Kæri íbúi. Þegar vetur flýr undan hækkandi sól eru vorverkin sjaldan langt undan. Mikið hefur áunnist í fegrun sveitarfélagsins á undanförnum árum og þar hefur Árni Steinar Jóhannsson, umhverfisstjóri, lyft Grettistaki ásamt dugmiklu samstarfsfólki. Árangurinn er glæsilegur og hefur hróður Fjarðabyggðar borist víða fyrir snyrtilegt umhverfi og fallega ásýnd bæjarkjarna. Nú í vor var Árni Steinar gerður að heiðursfélaga Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga fyrir brautryðjandastörf fyrir samtökin og framlag til umhverfismála sveitarfélaga. Ég vil óska Árna Steinari innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu. Mikilvægt er að við tökum höndum saman og fylgjum þessum frábæra árangri eftir. Dagana 26. til 30. maí fer árlegt vorhreinsunarátak okkar fram og þá aðstoða starfsmenn þjónustumiðstöðva íbúa eftir bestu getu við að losa garðúrgang og annað rusl af lóðum. Það er því um að gera að grípa tækifærið sem gefst þessa daga. Hreinn bær á að vera metnaðarmál okkar íbúanna. Metfjöldi ferðamanna sótti Fjarðabyggð heim á síðasta ári og mikil uppbygging á sér nú stað innan greinarinnar. Ferðaþjónustan á mikið undir því, að Fjarðabyggð byggist upp sem eftirsóknarverður áfangastaður ferðamanna og því er til mikils að vinna í umhverfismálum sveitarfélagsins. Vægi endurvinnslu fer stöðugt vaxandi, enda um mikilvægt mál að ræða bæði gagnvart verndun náttúrunnar og heilnæmi umhverfisins. Þá borgar endurvinnsla sig einnig fjárhagslega og má þar nefna vaxandi sorphirðukostnað sveitarfélaga sem dæmi. Sorpflokkun er ein af meginstoðum endurvinnslu og í stuttu máli er staðan hjá okkur sú, að við getum gert miklu betur. Sést það m.a. á því að hlutfall flokkaðs sorps er talsvert lægra hjá okkur en í sambærilegum sveitarfélögum. Langar mig til að hvetja alla sem eru ekki nú þegar að losa t.d. mjólkurfernurnar í grænu tunnuna, að kynna sér leiðbeiningar hér í bæklingnum (sem einnig má nálgast á fjardabyggd.is). Þetta er einfaldara en margur ætlar. Einnig standa efni til þess að minna hundaeigendur á að í Fjarðabyggð gilda vissar reglur um hundahald. Í þéttbýli sveitarfélagsins er mikilvægt er að hundar séu alltaf hafðir í ól og skilgreind hundasvæði nýtt sem best. Er völlur grær og vetur flýr, vermir sólin grund. Þessi sígildi dægurlagatexti vísar skemmtilega til þess að sumarið er að öðrum árstíðum ólöstuðum einn besti tími ársins. Á það ekki hvað síst við um Fjarðabyggð með fallegum fjörðum sveitarfélagsins, fjöllum og bæjarkjörnum. 2

Með ósk um gleðilegt sumar, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri


Vorhreinsun Dagana 26. – 30. maí fer fram árleg vorhreinsun í Fjarðabyggð en þá taka allir höndum saman, eigendur lóða og landsvæða og hreinsa og fegra bæinn fyrir sumarið. Hægt verður að setja garðaúrgang út fyrir lóðamörk og munu starfsmenn sveitarfélagsins fara um byggðakjarnana alla daga. Ef íbúa vantar aðstoð við að fjarlægja stærri hluti af lóðum, s.s. ökutæki án skráningamerkja, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra hluti, eru þeir hvattir til að hafa samband við framkvæmdasvið í síma 470-9000. Leggjumst nú öll á eitt og förum inn í sumarið í hreinni Fjarðabyggð.

Umhverfisdagur garðeigenda, fyrirtækja og stofnana Sveitarfélagið hvetur garðeigendur, fyrirtæki og stofnanir til að skipuleggja umhverfisátak til að bæta ásýnd og þrif. Eins og undanfarin ár, mun starfsfólk bæjarskrifstofu láta til sín taka og verður umhverfisdagur skrifstofunnar haldinn í lok maí. Garðeigendur eru hvattir til að nýta hreinsunarvikuna til hins ýtrasta. Það er gaman að gera garðinum gott og að fjölskyldan grilli saman að afloknum starfsdegi er góð hugmynd. Öll fyrirtæki eru hvött til að halda umhverfisdag. Hægt er að hafa samband við starfsmenn framkvæmdasviðs sem gefa ráðleggingar. Sveitarfélagið hvetur alla sem standa fyrir Umhverfisdegi að senda frétt og myndir á fjardabyggd (hjá)fjardabyggd.is öðrum til hvatningar.

3


Garðeigendur í Fjarðabyggð Þeim tilmælum er beint til garðeigenda að sjá til þess að gróður trufli ekki eða hindri umferð gangandi eða akandi vegfarenda. • • •

Limgerði sem vaxa út á gangstéttir og stíga ber að klippa, svo að gróður trufli ekki gangandi umferð. Limgerði og tré, sem vaxa fyrir eða skyggja á umferðarmerki, ber að klippa á þann hátt að allar merkingar sjáist vel. Garðeigendur eru einnig hvattir til að klippa og snyrta gróður sem er nágranna til ama. Tré sem valda skugga á nágrannalóð getur þurft að fella.

Þjónustumiðstöð Fjarðabyggðar veitir garðeigendum ráð, en einnig er hægt að fá aðstoð vegna klippinga eða trjáfellinga sem þurfa að eiga sér stað vegna umferðarmerkja. Hafðu samband við verkstjóra í síma 470-9000.

Fegurri sveitir í Fjarðabyggð Bændur og aðrir eigendur landa í Fjarðabyggð eru hvattir til að taka til á jörðum sínum. Bæði Íslenska Gámafélagið og Hringrás bjóða upp á gáma heim að bæjum, til dæmis fyrir járn, timbur og spilliefni. Vert er að kynna sér hvaða þjónustu þessi fyrirtæki bjóða upp á. Eins og undanfarin ár verður hægt að fá liðsinni Veraldarvina sem aðstoða við tiltekt og niðurrif gamalla girðinga. Forsvarsmenn jarðeigna geta haft samband við bæjarverkstjóra á hverjum stað í síma 470-9000 alla virka daga frá kl. 10.00 - 16.00.

Sími: 577 5757

4

Sími: 550 1900 Óli Heiðar verkstjóri á Reyðarfirði s. 773 1029


Sorphirða Hvert heimili í Fjarðabyggð hefur aðgengi að tveimur tunnum, önnur er fyrir endurvinnanlegt hráefni og hin er fyrir almennt óflokkað sorp og lífrænan úrgang. Tunnan fyrir endurvinnsluhráefnið (græna tunnan) er losuð einu sinni í mánuði, en tunnan fyrir almennt sorp er losuð hálfsmánaðarlega (gráa tunnan). Sorphirðudagatali var dreift í hús í byrjun árs en þar má sjá hvaða daga tunnurnar eru losaðar. Einnig er hægt að nálgast sorphirðudagatalið á heimasíðu Fjarðabyggðar eða sækja útprentað eintak á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar.

Árangur flokkunar í Fjarðabyggð Flokkunin hefur gengið ágætlega í Fjarðabyggð á undanförnum árum og hefur endurvinnsluhlutfallið verið í kringum 15% af heimilissorpinu. Markmið okkar í Fjarðabyggð er þó að ná 20% endurvinnsluhlutfalli og því er ljóst að við þurfum að gera aðeins betur. Við hvetjum því vini og fjölskyldu til að flokka og drögum þannig úr kostnaði og umhverfisáhrifum sem hlýst af urðuninni. 2011 2012 2013 Endurvinnsluhlutfall í Fjarðabyggð 16% 14% 15% Önnur sveitarfélög hafa náð góðum árangri í endurvinnslu. Endurvinnsluhlutfall árið 2013 var 20% í Stykkishólmi, 21% í Fjallabyggð og 23% á Fljótsdalshéraði. Hér er aðeins átt við endurvinnanlegt hráefni úr grænu tunnunni sem hlutfall af heildarúrgangi.

Græna tunnan Hugmyndafræði Grænu tunnunnar gengur út á að auðvelda fólki flokkun sorps og minnka þannig magn þess sorps sem fer til urðunar. Auðvelt að flokka Má fara beint í Grænu tunnuna, raðað saman eða í glærum plastpoka.

Fer í Grænu tunnuna, í glærum plastpoka.

Nauðsynlegt er að fjarlægja allar matarleifar.

5


Nánari upplýsingar Oft er spurt hvaða plast megi fara í grænu tunnuna. Allar umbúðir úr hörðu eða mjúku plasti t.d. plastpokar, hreinsiefnabrúsar, skyrdósir og plastfilma fara í grænu tunnuna. Það plast sem ekki er verið að endurvinna er frauðplast. Ef þið eruð í vafa er betra að setja meira en minna í grænu tunnuna. Við setjum plast og málma í glæra plastpoka í grænu tunnuna til þess að auðvelda flokkun þar sem starfsmenn Íslenska Gámafélagsins handflokka allar afurðir úr grænu tunnunni á flokkunarstöð á Reyðarfirði. Gler má alls ekki fara í grænu tunnuna þar sem innihald tunnunnar er handflokkað og því getur brotið gler verið varasamt. Einnig getur glerið skemmt annað hráefni í tunnunni og gert það óhæft til endurvinnslu. Hvað er þá hægt að gera við gler? Hægt er að fara með gler á söfnunarstöðvar í Fjarðabyggð og þá er það notað í jarðvegsfyllingar. Önnur endurvinnsla á gleri hér á landi er enn sem komið er hvorki umhverfislega- né fjárhagslega hagkvæm. Rafhlöður mega ekki fara í tunnuna þar sem þær eru flokkaðar sem spilliefni. Sumar rafhlöður innihalda sýrur sem geta skemmt annað efni í tunnunni þannig að það verði óhæft til endurvinnslu. Rafhlöðum má skila á flokkunarstöðvar.

Hvað verður um endurvinnsluafurðina frá Fjarðabyggð? Allt endurvinnsluhráefni sem fer í grænu tunnuna er handflokkað af starfsmönnum Íslenska Gámafélagsins á Reyðarfirði. Þar eru mismunandi hráefnisflokkar aðskildir og pressaðir í bagga sem síðan eru fluttir út í skipagámum beint frá Reyðarfirði til endurvinnslu. Á síðasta ári voru fluttir út um 750 tonn af endurvinnsluhráefnum frá Reyðarfirði sem safnað hafði verið frá heimilum og fyrirtækjum á Austurlandi.

Hvað á að fara með á söfnunarstöðvar? • Glerílát, glerbrot, perur og postulín sem er malað niður og notað í jarðvegsfyllingar. • Timbur, flokkað í tvo flokka; hreint og málað. Málað timbur er tætt niður og urðað í Þernunesi. Hreint timbur er tætt niður og notað í jarðvegsfyllingar. • Spilliefni s.s. rafhlöður, rafgeymar, málning, hreinsefni og flúorperur. Rafhlöður og rafgeymar eru fluttir út og endurunnir, t.d. er blý og plast tekið frá. Málning, hreinsiefni og flúorperur fara í eyðingu hjá Kölku.

6


Hvatning til betri umgengni á lóðum fyrirtækja og stofnana • Fjarðabyggð gerir þá kröfu til forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana sveitarfélagsins að umgengni og þrif á lóðum sé til fyrirmyndar. • Lögð er áhersla á að vélum og tækjum sé lagt á skipulagðan hátt af afloknum starfsdegi. • Einnig að efni sem verið er að vinna með á lóðum sé komið fyrir á haganlegan hátt. • Að farga því sem ónýtt er og koma því til endurvinnslu. Sveitarfélagið hvetur öll fyrirtæki til þess að hafa ofangreind atriði að leiðarljósi til bættrar umgengni og betri ásýndar. Boðin er fram aðstoð við að koma ónýtum bílum, vélum, tækjum og öðrum brotamálmi í endurvinnslu. Hafa ber samband við þjónustumiðstöðvar Fjarðabyggðar. • Öllum líður betur í snyrtilegu og fallegu umhverfi. • Starfsánægja okkar allra vex og við skilum betri árangri í leik og starfi. • Með samstilltu átaki okkar allra verður Fjarðabyggð til fyrirmyndar. Hér má sjá tvö dæmi um fyrirtæki sem leggja metnað í að hafa snyrtilegt í kringum sig.

Myndin er af athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Gert hefur verið stórátak í fegrun umhverfisins á undanförnum árum. Síldarvinnslan er til mikillar fyrirmyndar fyrir matvælaframleiðendur.

Myndin er af Shell skálanum á Reyðarfirði. Plönum er haldið hreinum og allir kantar vel málaðir og þrifnir auk þess sem öllum mannvirkjum er mjög vel við haldið. Shell skálinn er til mikillar fyrirmyndar fyrir fyrirtæki í þjónustustarfsemi.

7


Matjurtagarðar Íbúum Fjarðabyggðar stendur til boða að nýta garðlönd sér að kostnaðarlausu. Mælst er til að hver fjölskylda taki sér ekki stærri ræktunarreiti en 50 m2 og afmarki það svæði sem hún notar. Stefnt er að því að vinna garðlöndin í lok maí. Auglýst verður á heimasíðu Fjarðabyggðar hvenær vinnslu landanna er lokið. Garðyrkjumenn sveitarfélagsins munu veita faglega ráðgjöf og verður tímasetning auglýst á heimasíðu Fjarðabyggðar.

Staðsetningar garðlanda: Eskifjörður: Svæði ofan Dalbrautar og innan spennistöðvar. Fáskrúðsfjörður: Svæði á Kirkjubóli. Norðfjörður: Svæði fyrir ofan Nesbakka. Reyðarfjörður: Svæði í Teigagerði milli starfsmannaþorps og kirkjugarðs. Stöðvarfjörður: Svæði utan skógræktar, utan við bæinn.

Garðaúrgangur Í sumar geta íbúar losnað við garðaúrgang á eftirfarandi stöðum: Eskifjörður: Gámur fyrir garðaúrgang verður fyrir neðan söfnunarstöð (bak við hafnarvog). Fáskrúðsfjörður: Losað í gryfju við hlið söfnunarstöðvar. Norðfjörður: Gámur fyrir garðaúrgang verður við þjónustumiðstöð. Reyðarfjörður: Losað við Teigagerði fyrir austan byggðina. Stöðvarfjörður: Losað við Byrgisnes. Mikilvægt að muna eftir að taka allt plast og annan ólífrænan úrgang með af svæðinu.

Gróðurmold í garðinn Vegna framkvæmda í sveitarfélaginu fellur oft til gróðurmold sem nota má í garða. Verkstjórar þjónustumiðstöðva sveitarfélagsins hafa góða yfirsýn yfir hvar mold fellur til. Með því að hafa samband við þá er oft hægt að fá upplýsingar um hvar ákjósanlega mold er að finna. Blandaða gróðurmold er hægt að fá víða í sveitarfélaginu, s.s. í byggingarvöruverslunum og blómabúðum. 8


Á að byggja í sumar? Nú þegar vorið er komið og sumarið er á næsta leiti, eru margir að hugsa um að fegra umhverfi sitt með ýmsum smábyggingum, pöllum og girðingum. Við fögnum fegrun í sveitarfélaginu en til að koma í veg fyrir ágreining og að ekki sé ráðist í óleyfilegar framkvæmdir, er minnt á að sækja þarf um leyfi fyrir:

• Garðskúrum • Pöllum • Girðingum og skjólveggjum • Heitum pottum • Varmadælum • Móttökuloftnetum og móttökudiskum

Frekari upplýsingar veitir byggingafulltrúi í síma 470-9000 eða byggingarfulltrui@fjardabyggd.is.

Gámar á íbúðasvæðum Fjarðabyggð vill vekja athygli á að ekki er heimilt að staðsetja gáma á íbúðasvæðum nema í mjög takmarkaðan tíma, t.d. vegna flutninga. Sækja þarf um stöðuleyfi fyrir gáma vegna geymslu, framkvæmda, o.fl. Í sumar verður farið í átak vegna heimildarlausrar staðsetningar á gámum í Fjarðabyggð. Í öllum þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar eru skilgreind svæði þar sem hægt er að leigja aðstöðu fyrir gáma.

9


Breytt ásýnd Mikið hefur áunnist á síðustu árum í umhverfismálum í Fjarðabyggð. Sveitarfélagið ásamt einstaklingum og fyrirtækjum, hafa tekið höndum saman um að bæta ásýnd og fegra umhverfið. Gott dæmi um þann ávinning sem hefur orðið er Hjallaleira á Reyðarfirði. Hér fyrir neðan má sjá fjórar loftmyndir af Hjallaleiru teknar árin 2006, 2009, 2011 og 2013.

Loftmynd af Hjallaleiru á Reyðarfirði árið 2006 Loftmynd af Hjallaleiru á Reyðarfirði árið 2009

Loftmynd af Hjallaleiru á Reyðarfirði árið 2011 Loftmynd af Hjallaleiru á Reyðarfirði árið 2013

10


Til eigenda gæludýra Í þéttbýlum Fjarðabyggðar hefur gæludýrum fjölgað síðustu árin og þar með eykst þörf á að eigendur fari eftir reglum og sýni tillitsemi við aðra íbúa og umhverfi. Flestir eru til fyrirmyndar og hugsa vel um gæludýrin sín en alltaf má gera betur. Hér að neðan má sjá punkta sem snúa að góðum venjum og reglum sem tengjast gæludýrahaldi í þéttbýli. • Í Fjarðabyggð er hægt að fá leyfi til þess að hafa hund og skrá þarf heimilisketti. Vinsamlega kynnið ykkur reglur um hunda og kattahald á heimasíðu sveitarfélagsins. • Mikilvægt er að eigendur gæludýra sýni öðrum tillitssemi og fari eftir þeim reglum sem um dýrahaldið gilda. Á heimasíðu Fjarðabyggðar er að finna samþykktir um hunda og kattahald í sveitarfélaginu. • Skilgreind hundasvæði er að finna við alla þéttbýlisstaði sveitarfélagsins þar sem hægt er að leyfa hundi að ganga lausum undir eftirliti. Kort yfir hundasvæðin er að finna á heimasíðu Fjarðabyggðar. Þess má geta að lausaganga hunda er ekki leyfð í þéttbýlum Fjarðabyggðar. • Hundaeigendum ber að þrífa upp eftir hunda sína. Til þess að auðvelda þrif hefur sveitarfélagið sett upp fleiri ruslatunnur í þéttbýliskjörnunum og á gönguleiðum. • Hundaeigendum ber að hafa í huga, að margir eru hræddir við hunda og geta viðbrögð því orðið röng gagnvart dýrinu. Að fylgja þeim reglum sem settar eru, lágmarkar hættuna á árekstrum á milli fólks. • Kattaeigendum ber að hafa hálsól með bjöllu á köttum sínum en einnig er skylda að láta örmerkja þá. Ómerktir bjöllulausir kettir geta verið teknir sem villikettir og þeim fargað. • Eigendur katta eru einnig hvattir til að halda köttum sínum innan dyra yfir varptíma fugla og á þeim tíma sem ungar eru að verða fleygir. • Kattaeigendur eru hvattir til að sýna nágrönnum sínum og öðrum tillitssemi með því að hafa gætur á dýrum sínum og koma í veg fyrir að þau fari á flakk. • Eigendur annarra dýra, s.s. kanína og hænsnfugla, eru hvattir til að hafa þrifalegt í kringum dýr sín til þess að auka lífsgæði dýranna og af tillitssemi við nágranna. • Hægt er að hafa samband við dýraeftirlitsmann sveitarfélagsins í síma 470-9000 á opnunartíma skrifstofu.

11


Bílar og brak á lóðum einstaklinga og fyrirtækja

Kappkostað er að ónýtir bílar og annað brak sé fjarlægt af lóðum og því fargað. Til að auðvelda slík þrif, býður sveitarfélagið fram aðstoð við förgunina. Hafa ber samband við verkstjóra þjónustumiðstöðvanna á hverjum stað og er þessi þjónusta veitt allt árið. Sveitarfélagið lætur fjarlægja ónýta bíla og brak sem eru á opnum svæðum sveitarfélagsins. Eigendur ónýtra og númerslausra bíla eru hvattir til að koma þeim til förgunar á söfnunarstöðvum. Við minnum á að Úrvinnslusjóður greiðir 20.000 kr. skilagjald fyrir bíla sem eru yngri en árgerð 1980. Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til þess að halda lóðum sínum hreinum og vel hirtum. Sveitarfélagið kappkostar að gera slíkt hið sama og halda götum, torgum og opnum svæðum hreinum og snyrtilegum.

12


Framkvæmdafréttir Það eru fjölmargar framkvæmdir í gangi og fyrirhugaðar á næstunni í Fjarðabyggð. Stærstu einstöku verkefnin eru eftirfarandi: Norðfjarðargöng Framkvæmdir við ný Norðfjarðargöng hófust síðastliðið sumar. Göngin verða 7,9 km löng, þar af eru vegskálar um 320 m. Áætlað er að opna fyrir umferð í september 2017. Vegagerðin bauð verkið út og verktakar eru Metrostav a.s. frá Tékklandi og Suðurverk hf. Þann 9. maí 2014 höfðu verið grafnir um 1.040 metrar Eskifjarðarmegin og um 400 metrar í Fannardal, alls um 1440 metrar, sem er um 19% af heildarvegalengdinni. Þá er hafin vegagerð Norðfjarðarmegin og á næsta ári hefst vegagerð Eskifjarðarmegin. Bygging nýrrar brúar yfir Norðfjarðará lauk í fyrra og ráðgert er að bygging nýrrar brúar yfir Eskifjarðará hefjist á næsta ári. Nánari upplýsingar um framkvæmdina má nálgast á www.austurfrett.is Norðfjarðarhöfn Undanfarið ár hefur verið unnið að stækkun Norðfjarðarhafnar, verkið hefur gengið vel og skv. tímaáætlun. Lokaáfanginn í þeim verkhluta sem nú er í gangi, þ.e. færsla á grjótvarnargarði á nýjan stað, stendur yfir og er gert ráð fyrir að því verki verði lokið í haust. Nú þegar er búið að gera nýja smábátahöfn og lengja stálþil togarabryggju um 60 metra. Lokafrágangur við það er í gangi auk þess sem meginhluti dýpkunar innan hafnar er lokið en lokið verður við dýpkun um leið og lokið verður við að dæla efni úr gamla garðinum yfir í þann nýja. Á árinu 2015 er gert ráð fyrir að steypa þekju á nýja stálþilið og setja svokallaða tunnu á enda nýja grjótgarðsins. Snjóflóðavarnir í Tröllagili Norðfirði Bygging snjóflóðavarna í Tröllagili er á áætlun og er reiknað með að verkinu ljúki 1. október næstkomandi. Uppbygging á leiðigarði og keilum er í fullum gangi ásamt stígagerð og frágangi á umhverfi. Ráðgert er að á árunum 2015 og 2016 verði unnið við 13


uppgræðslu og útplöntun. Að verkinu loknu verður komið flott útivistarsvæði með göngustígum og áningastöðum. Aðalgöngustígur mun liggja langs eftir svæðinu milli byggðar og þvergarðs. Í framhaldinu verða lagðir tengistígar sem munu m.a. tengja saman aðalstíg og byggðina. Einnig verða lagðir aðrir útivistarstígar um svæðið. Útsýnisog áningastaður verður efst í hlíðum þvergarðsins og einnig verða aðrir áningastaðir, t.d. við tjörn vestan leiðigarðs og á aðalstígnum. Við lok verks mun verða útbúið svokallað bæjarhlið og minningarreitur um þá sem létust í snjóflóðunum 1974 og 1978. Ofanflóðavarnir Eskifirði Fjarðabyggð og Ofanflóðasjóður hafa sett af stað hönnunarvinnu á ofanflóðavörnum á Eskifirði. Um er að ræða varnir á fimm svæðum í samræmi við hættumat en það eru svæðin við Bleiksá, Grjótá, Lambeyrará, Ljósá og Hlíðarendaá. Hönnun ofanflóðavarna við Bleiksá er lokið og felst framkvæmdin í leiðigarði sem verður byggður á flöt ofan við kirkjuna og vestan við Bleiksá í 10-15 m. hæð yfir sjó. Garðurinn er V laga, 150 m. langur og um 3 m. hár. Land neðan leiðigarðs verður mótað með sléttri flöt, mun halla að kirkjumiðstöð og myndast þannig skemmtilegt svæði til útivistar. Farvegur Bleiksár verður breikkaður og dýpkaður og bakkarnir mótaðir með grjóthleðslum. Reiknað er með að verkið verði boðið út í sumar og að framkvæmdir hefjist á þessu ári. Ofanflóðavarnir Fáskrúðsfirði - Nýjabæjarlækur Verkið hófst vorið 2013 og fólst í byggingu grjótstíflu, þvergarðs og leiðigarðs. Verkinu miðar vel og samkvæmt áætlun lýkur því í haust með lokafrágangi á svæðinu, uppgræðslu og gróðursetningu trjáa. Að verkinu loknu verður komið gott útivistarsvæði milli skólamiðstöðvar og varnargarðs með stígum, áningastöðum og skógrækt. Við hönnun var lögð áhersla á að svæðið geti nýst kennurum og nemendum skólamiðstöðvar til náms og fræðslu og íbúum til útivistar. Ofan við skólamiðstöð verður komið fyrir útsýnisstað/skólarjóðri sem má nýta við útikennslu. 14


Umhverfisfrágangur smábátahafna á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði Vinna stendur yfir við frágang umhverfis við smábátahöfnina á Fáskrúðsfirði og er áætlað að framkvæmdum ljúki í lok júní. Afhending malbiks getur haft áhrif á verklok en verktaki er háður afhendingu þess til að geta lokið yfirborðsfrágangi við höfnina. Gert er ráð fyrir að hafist verði handa við umhverfis og yfirborðsfrágang á Stöðvarfirði 2015 og verkið boðið út í haust.

Nýtt hjúkrunarheimili Eskifirði Bygging hjúkrunarheimilis á Eskifirði er nú langt komin. Reiknað er með að framkvæmdum innandyra ljúki í maí og framkvæmdum utandyra í lok júní. Vígsla hússins verður þann 18. ágúst og flutt verður inn um miðjan september.

Þekja Mjóafirði Í sumar verður endurnýjuð þekja ofan við bryggjuna á Mjóafirði, en gamla þekjan er orðin ónýt og komin göt í hana sem nauðsynlegt er að laga. Þá verður löndunarkrani endurnýjaður.

Leikskóli Norðfirði Tekin hefur verið ákvörðun um að byggja átta deilda leikskóla á Norðfirði og þegar er hafin vinna við frágang teikninga og útboðsgagna. Verkið verður boðið út í sumar og verklok verða 2016.

15


Vikuna 26. - 30. maí verður árleg vorhreinsun í Fjarðabyggð og þá hvetjum við alla íbúa til að taka til á lóðum sínum. Hægt verður að setja garðaúrgang út fyrir lóðarmörk en hann verður síðan sóttur af starfsmönnum Fjarðabyggðar. Mikilvægt er að ganga vel frá garðaúrganginum þannig að hann fjúki ekki.

Starfsmenn Framkvæmdasviðs Hægt er að fá samband við starfsmenn framkvæmdasviðs í gegnum skiptiborð Fjarðabyggðar í síma 470-9000. Á heimasíðu Fjarðabyggðar má einnig nálgast netföng flestra starfsmanna sviðsins.

16

Héraðsprent

Vorhreinsun


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.