3 minute read

Miðstöð skólaþróunar – MSHA

Next Article
Lokaverkefni

Lokaverkefni

MIÐSTÖÐ SKÓLAÞRÓUNAR HA – MSHA

Miðstöð skólaþróunar er starfrækt innan Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hlutverk hennar er að efla leik-, grunn- og framhaldsskóla sem faglegar stofnanir og vera farvegur þekkingar til starfandi kennara á öllum skólastigum og frá þeim til háskóla.

Advertisement

Meginviðfangsefni sérfræðinga MSHA lúta að þróunar- og umbótastarfi á vettvangi skólastarfs og annast þeir ráðgjöf og fræðslu til starfandi kennara og skólastjórnenda. Innan MSHA hefur byggst upp margvísleg þekking á stjórnun og forystu, starfsþróun og fagmennsku, fjölbreyttum starfsháttum í skólum, námskrárgerð, mati á skólastarfi og læsi. Í samstarfi við sérfræðinga innan kennaradeildar Háskólans á Akureyri hefur miðstöðin forgöngu um að kynna kennurum nýjungar á sviði skólaþróunar. MSHA stendur auk þess fyrir rannsóknum á starfsháttum í skólum (starfendarannsóknum) og heldur ráðstefnur, námskeið og fræðslufundi. Þá sinna sérfræðingar MSHA kennslu í kennaradeild.

MSHA hefur með höndum sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar skv. sérstökum samningi þar um. Fleiri sveitarfélög víðsvegar um landið hafa að auki gert tímabundna samninga við MSHA um ýmis áhugaverð skólaþróunarverkefni. Unnið er samkvæmt starfs- og þróunaráætlunum viðkomandi sveitarfélags/skóla. Í starfi MSHA á vettvangi skólastarfs er lögð áhersla á fræðslu, ráðgjöf, samræðu, samvinnu og ígrundun. Skólaþróunarverkefnum er ætlað að leiða til starfsþróunar og eflingar skólastarfs á öllum skólastigum.

Helstu verkefni hjá Miðstöð skólaþróunar á árinu 2019:

• Byrjendalæsi og Læsi til náms/Læsi fyrir lífið – þróun starfshátta í læsiskennslu í leik- og grunnskólum. • Orðaleikur – málörvun leikskólabarna og barna ef erlendum uppruna, þróunarverkefni og námsefnisgerð. • Samræðufélagar – málörvun barna af erlendum uppruna – þróunarverkefni í grunnskóla. • Stærðfræðileiðtogar – þróun starfshátta í stærðfræðikennslu á miðstigi grunnskóla. • Zankov – þróunarverkefni í stærðfærði á yngsta stigi grunnskóla. • Samskipti stúlkna – þróun fyrirbyggjandi aðgerða gegn einelti, sérstaklega hjá stúlkum. • Krakkaspjall – samskiptaverkefni á yngsta og miðstigi grunnskóla. • Unglingaspjall – samskiptaverkefni á unglingastigi. • Bekkjarfundir – ráðgjöf og stuðningur við starfandi kennara á grunn- og framhaldsskólastigi. • Forvarnir gegn einelti – stuðningur og ráðgjöf við gerð forvarnaáætlana gegn einelti. • Leiðsagnarmat – þróun fjölbreyttra leiða í námi, kennslu og námsmati á öllum skólastigum. • Snjallvagninn – notkun snjalltækja í námi og kennslu í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla. • Kennslufræðilegur stuðningur við kennara á grunnskólastigi, í samstarfi við fræðslusvið Akureyrarbæjar. • Úttektir og mat á afmörkuðum þáttum skólastarfs á grunn- og framhaldsskólastigi. • Stuðningur og ráðgjöf varðandi stefnumótun og skólanámskrárgerð á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. • Námsefnisgerð í tengslum við málörvun og læsi. • Þýðing og staðfært efni í mannkostamenntun. • Námskeið og stutt erindi samkvæmt óskum frá skólum á öllum skólastigum.

Ráðstefnur og námskeiðahald

MSHA stendur árlega fyrir ráðstefnum um skólamál með þátttöku sérfræðinga úr háskólum bæði hérlendis og erlendis. Árleg vorráðstefna MSHA var haldin þann 30. mars í Háskólanum á Akureyri og bar að þessu sinni yfirskriftina Vísindi í námi og leik. Um 100 þátttakendur sóttu ráðstefnuna. Miðstöðin hefur staðið fyrir ýmiss konar viðburðum á Alþjóðadegi læsis 8. september í samstarfi við bókasafn HA og Amtsbókasafnið á Akureyri en haustráðstefna um læsi er haldin annað hvert ár. Þann 14. ágúst stóð MSHA í samstarfi við Akureyrarbæ að sameiginlegum námskeiðsdegi fyrir grunnskólakennara á Akureyri og komu um 250 grunnskólakennarar hjá Akureyrarbæ í HA og sátu áhugaverð og fjölbreytt námskeið allan daginn. Eins stóð MSHA, í samstarfi við Fræðslusvið Akureyrarbæjar, fyrir fjölbreyttum styttri námskeiðum alla haustönnina og yfirlit yfir þau má finna hér

Styrkir

Miðstöðinni varð vel ágengt í öflun styrkja á árinu. Styrkir fengust til þróunar á nýjum verkefnum, kennslugögnum og námsefni og m.a. fengust styrkir til þess að opna tvær heimasíður á vegum MSHA, aðra um Snjallvagninn og hina um Orðaleik. Þeir aðilar sem styrktu starfsemi MSHA á árinu voru KEA, Norðurorka, Lýðheilsusjóður, Þróunarsjóður námsgagna, Þróunarsjóður innflytjenda, Endurmenntunarsjóður grunnskóla, Sprotasjóður, Verkefnasjóður HA og Rannsóknasjóður HA. Á fyrri hluta ársins 2019 störfuðu 5 sérfræðingar hjá MSHA í 3,8 stöðugildum. Á síðari hluta ársins voru þeir sjö í 4,6 stöðugildum. Forstöðumaður til 1. september var Laufey Petrea Magnúsdóttir en þann 1. október tók Gunnar Gíslason við starfinu.

This article is from: