1 minute read

leiðarinn

Nú þegar sumarið er loks að skella á með hlýindum og gróðurinn blómstrar, þyrpast bæjarbúar út og njóta sín innanbæjar eða í fjölbreyttu upplandi Hafnarfjarðar. Íbúar á tveimur jafnfljótum eru hins vegar oft meðhöndlaðir sem annars flokks og margar hindranir verða á vegi þeirra. Detti einhverjum í hug að framkvæma eitthvað er eins og gangstéttar og stígar séu sjálfsögð geymslusvæði og ekki skipti neinu þó gangandi hafi enga aðra leið en út á miðja götu. Þetta á líka við um opinbera aðila, stórfyrirtæki og aðra sem maður hefði haldið að kynnu til verka. Í dag finnst bæjaryfirvöldum t.d. sjálfsagt að engin göngu­ eða hjólaleið sé meðfram nýju Ásvallabrautinni þó gortað hafi verið af slíku við gerð brautarinnar. Nú er í tísku að malbika yfir steyptar gangstéttir í stað þess að laga og þá geta myndast háir kantar og líkt við malbikunarframkvæmdir á götum þá sitja gangbrautir eftir í lægðinni og fyllast af vatni í rigningatíð. Já, það er skoðun mín að gangandi og hlaupandi séu útundan í Hafnarfirði. Stefnuleysi virðist ríkja og samráð við íbúana er lítið. Gönguleiðir eru hvergi merktar í bænum eins og t.d. hjólaleiðir, en víða eru gönguleiðir inn úr botnlöngum t.d. í hrauninu í bænum, algjörlega ómerktar. Er ekki rétt að ganga í þetta verk?

Guðni Gíslason ritstjóri.

Advertisement

Tímamótasamningur um rekstur sporhunda

Þriggja ára samningur við ríkislögreglustjóra um rekstur sporhunda var undirritaður

Í aðdraganda aðalfundur Björgunarsveitar Hafnarfjarðar sl. fimmtudag var skrifað undir tímamótasamning milli Björgunarsveitarinnar og Ríkislögreglustjóra um rekstur sporhunda. Hefur sveitin þjálfað sporhunda óslitið frá árinu 1960 og á í dag tvo hunda, þær Urtu og Pílu. Samningurinn er mikil viðurkenning fyrir sporhundastarf sveitarinnar en í gegnum árin hefur sporhundahópur sveitarinnar unnið að ýmsum verkefnum beint fyrir lögregluna. Samningurinn hefur þegar tekið gildi og gildir til þriggja ára.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri undirritaði samninginn og sagði við tilefnið að samningurinn hafi verið lengi í umræðunni og sagði að þessi sérhæfing sveitarinnar sem enginn annar hefði, væri ómetanleg. Væri styrkurinn, þó hann væri ekki hár, mikil viðurkenning á starfi sveitarinnar.

Þakkaði hún um leið björgunarsveitunum fyrir ómetanlegt starf í þágu þjóðfélagsins.

Sjá nánar á fjardarfrettir.is