
3 minute read
1.2. Miklar kröfur og væntingar til menntastofnana
Mannkynið hefur enn þá ekki tekist á við málefnið og farið í róttækar breytingar: Kröfur um róttækar breytingar í samfélögum okkar koma úr virtum og viðurkenndum áttum eins og frá bestu vísindamönnum heims og frá Sameinuðu þjóðunum (SÞ). Við vitum í grófum dráttum hvað þarf að gera en virðumst ekki finna leiðina þangað auk þess að okkur skortir kjark og þor að taka á málunum. Stóru ákvarðanirnar liggja í höndum stjórnmálafólks, fjármagnseigenda og eigenda og stjórnenda stærstu fyrirtækja um allan heim. Auk þess hefur hver og einn ýmsa möguleika til að stuðla að nauðsynlegum breytingum hvort sem er í daglegu lífi eða sem áhrifavaldur og þá m.a. á stjórnmálafólk.
1.2. MIKLAR KRÖFUR OG VÆNTINGAR TIL MENNTASTOFNANA Það hefur verið sannreynt með rannsóknum í umhverfisfélagsfræði að aukin umhverfisvitund er mjög mikilvægur grunnur en leiðir samt bara lítillega til umhverfisvænni lifnaðarhátta. En þeir sem lifa á umhverfisvænni hátt leggja oft meiri áherslu á önnur gildi en veraldleg gæði og efnishyggju. Þessar niðurstöður gefa okkur ýmis skilaboð m.a. um ákveðin markmið með menntun framtíðarkynslóða, um menntun sem lykilþátt til að stuðla að sjálfbærri þróun. Kennsluaðferðir eiga að vera í sífelldri þróun og menntun í dag verður að vera í takt við tímann og svara nútímaáskorunum sem einkenna kennarastarfið á hverjum tíma. Hér á eftir er vikið stuttlega að nokkrum mikilvægum þáttum í þessu tilliti.
Advertisement
Þverfagleiki: Ástandið í heiminum gerir ýmsar kröfur um breytingar í menntun. Til þess að skilja sjálfbæra þróun, heimsmarkmiðin og loftslagsmálin verðum við að hugsa þverfaglega og heildstætt. Það þarf að skoða og skilja allt í samhengi. Þetta getur verið flókin staða fyrir kynslóð sem ólst upp við það að búta niður efni eftir fögum þannig að við höfum stundum misst fókusinn á það að eitt hefur áhrif á annað og hvernig málin eru samtvinnuð. Og núna eigum við að kenna nýrri kynslóð að sjá allt samhengið sem við erum næstum því búin að týna. Heimsmarkmiðin sýna okkur hvernig allt er samofið og gefa leiðarljósið sem við þurfum á að halda.
Efling á hæfni: Áherslan í menntun hjá okkar kynslóð var á það að afla þekkingar. Menntun í dag á auk þekkingaröflunar að auka hæfni nemenda á hinum ýmsu sviðum og gerir þar með kröfur um aðrar og fjölbreyttari kennsluaðferðir. Nýstárlegar kennsluaðferðir: Til þess að efla hæfni nemenda og fara út fyrir þann ramma að leggja aðallega áherslu á þekkingaröflun þarf að nota aðrar kennsluaðferðir en þær að kennarinn segi frá og útskýri ýmis mál. Aðferðirnar þurfa m.a. að vera þátttökuhvetjandi, uppbyggjandi, lausnamiðaðar og nýstárlegar.
Hlutverk kennara: Kennarinn á ekki lengur að vera aðalmiðill að þekkingaröflun heldur á hann frekar að vera leiðtogi eða verkstjóri í þekkingarleit nemenda. Ekki lengur bílstjóri, heldur hvetjandi ferðafélagi. Kennarinn á heldur ekki að gera þær kröfur til sín að vera sérfræðingur á öllum sviðum sjálfbærrar þróunar og loftslagsmála en með því að beita leitarnámi og þátttökunálgun leiðir hann nemendur í að skilja málin, beita gagnrýninni hugsun, koma auga á rót vandamála og finna lausnir. Þessi afstaða ætti að minnka hugsanlegar áhyggjur kennara um að geta ekki svarað öllum spurningum um þessi flóknu og þverfaglegu mál. (Nánar í kafla 2.6. og 3.4.4).
Ádeila á ráðandi kynslóð: Það er þversagnakennt að kynslóðin sem er hluti af núverandi kerfi og lífstíl, kerfi og lífstíl sem á drjúgan þátt í rót vandans, eigi að kenna nýrri kynslóð að gera betur og haga sér öðruvísi. Þar með verðum við að viðurkenna að við séum þátttakendur í samfélagsgerð sem er ekki sjálfbær, við verðum að taka okkur á og reyna að verða betri fyrirmyndir. Við megum ekki setja alla von okkar á næstu kynslóðir, heldur berum við ábyrgð. Að kenna nýrri