
2 minute read
1.3. Tilmæli úr alþjóðlegum samningum til menntastofnana
kynslóð getur þar með líka verið mikilvægt tækifæri til að bæta eigið líf með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Stjórnmálaleg ádeila: Staða loftslagsmála er skýr meðal vísindafólks og ætti því ekki að vera deilumál. Þó jafnframt sé vitað í grófum dráttum hvað þarf að gera, eru leiðir þangað hins vegar umdeildar og pólitískar. Því miður er skilningur margra á lífheiminum, sjálfbærri þróun og samhengi málefna lítill og þá er sérstaklega orðið sjálfbærni oft misskilið og misnotað. Áskorun kennara er hér m.a. að kenna þessi málefni á þann hátt að nemendur hugsi sjálfstætt og gagnrýnið og komi auga á lausnir án þess að kennarinn taki pólítíska afstöðu sjálfur. Nýjar kennsluaðferðir í gegnum menntun til sjálfbærni og umbreytandi nám eru lykillinn að því.
Advertisement
Loftslagskvíði: Staða loftslagsmála, hnignun vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni eru ógnvekjandi. Margir nemendur og kennarar finna í auknum mæli fyrir loftslagskvíða . Þessi kvíði getur valdið því að fólk vill helst setja hausinn í sandinn. Hvernig geta kennarar hvatt sjálfa sig, hver annan og ekki síst nemendur þegar kemur að þessu yfirþyrmandi málefni? Hvernig er hægt að minnka loftslagskvíða? Kennsluaðferðir menntunar til sjálfbærni eiga að efla getu til aðgerða (nánari skilgreining í kafla 2.2). Með því að vera virkur þátttakandi í ýmsum aðgerðum og breytingum er hægt að minnka þennan kvíða, hvetja hvert annað og öðlast aðgerðavilja. Valdefling er mikilvæg þ.e. að finna að hvert og eitt okkar getur haft áhrif og það er hægt að móta framtíðina og umbreyta þeim veruleika sem okkur er gefinn. Kenna þarf staðfasta bjartsýni sem þýðir m.a. að við búum okkur til framtíðarsýn, trúum því að hún geti raungerst, setjum okkur markmið og vinnum skipulega og staðfastlega að því að ná henni, sýnum gott fordæmi og stuðlum að samstöðu og samtakamætti. Á þennan hátt getur menntun til sjálfbærni stuðlað að því að minnka loftslagskvíðann hjá bæði nemendum og kennurum. Nánar er fjallað um þessar kröfur og væntingar til menntastofnana í kafla 2 um menntun til sjálfbærni.
1.3. TILMÆLI ÚR ALÞJÓÐLEGUM SAMNINGUM TIL MENNTASTOFNANA Áskoranir samtímans eru hnattrænar og þær þarf að meðhöndla sem slíkar. Alþjóðasamfélagið reynir að taka á þessum málum sérstaklega í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og með margskonar samningum og stefnum. Hvort sem er í stefnum og samningum um sjálfbæra þróun, Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eða menntun til sjálfbærni þá er menntun alls staðar skilgreind sem eitt af grundvallaratriðum í átt að árangri og er útfærð víða á skýran og hagnýtan hátt. Þessar skilgreiningar miðla ekki einungis mikilvægri þekkingu til kennara heldur líka mikilvægum skilaboðum og hvatningu um að framfylgja þessum skýru tilmælum alþjóðasamfélagsins og styðja við bakið á kennurum. Nánari umfjöllun um tilmæli úr alþjóðlegum samningum verður í næstu köflum handbókarinnar.
Samantekt
Í þessum kafla er fjallað um mikilvægi og eiginleika kennarastarfsins í ljósi núverandi áskorana mannkyns varðandi loftslagsvá, tap á líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbæra þróun. Menntun til sjálfbærni hefur verið þróuð bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi sem svar við þessum áskorunum. Ljóst er að samfélög verða að fara í róttækar breytingar á skömmum tíma og samhliða þarf að mennta nýja kynslóð á þann hátt að hún verði í stakk búin til að finna nýjar leiðir, nýtt kerfi, nýja hugsun, nýjar stefnur og lausnir. Einnig þarf að auka hnattræna vitund.
Kröfur til menntastofnana eru miklar. Það þarf að mennta nemendur í þverfaglegri og heildstæðri hugsun og efla ekki einungis þekkingu heldur einnig ýmsa hæfni þeirra. Kennarar eiga að vera leiðtogar eða verkstjórar í þekkingarleit nemenda og nota fjölbreyttar og nýstárlegar kennsluaðferðir.