Þvagfærasýkingar eða blöðrubólga er mjög algengt vandamál. Þvagfærasýkingar geta endurtekið sig aftur og aftur og verið ansi þrálátar. Einkennin geta verið óljós og því er mikilvægt að fá greiningu áður en nokkur meðferð er hafin. Frumgreining er gerð með þar til gerðum strimlum sem greina óæskilegar agnir í þvagi s.s. hvít blóðkorn, prótein, Nitröt og blóð. Í framhaldi af þessari greiningu er oft gerð nákvæmari ræktun og smásjáskoðun á þvagi til þess að ganga úr skugga um hver meingerðin er og ákveða bestu mögulegu meðferð.
Til þessa hefur alltaf verið nauðsynlegt að leita til læknis til þess að fá greiningu á þvagfærasýkingu. Nú er hægt að fá einfalt próf í öllum apótekum sem einstaklingar geta gert sjálfir heima hjá sér til þess að ganga úr skugga um hvort þessi óljósu einkenni séu í raun þvagfærasýking sem krefst meðhöndlunar. Komi fram litabreytingar á einhverjum af þeim fjórum þáttum sem prófað er fyrir er ráðlagt að leita læknis og fá viðeigandi meðhöndlun.