Egla 2. tbl.

Page 7

Ávarp formanns NMB Á þeim tíma sem ég var að klára seinasta árið mitt í grunnskóla fór ég að horfa til framtíðar. Hvert vildi ég fara? Hvað vildi ég verða? Mikilvægasta spurningin fyrir mér var hvar ég ætlaði að vera. Þetta brann á mér í langan tíma áður en ég komst að niðurstöðu. Ég ætlaði að vera hérna heima í Borgarnesi og fara í Menntaskóla Borgarfjarðar. Því sé ég ekki eftir. Frábær skóli, raunhæfar kröfur eru gerðar til manns, kennarar eru vel menntaðir og yndislegir og skólastjórnendur og starfsfólk er upp til hópa frábært fólk sem vill manni allt gott. Þegar ég velti fyrir mér hvað ég ætlaði að gera þá þurfti ég smá íhugun áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að ég ætlaði mér að verða kennari. Það getur auðveldlega náð yfir nánast alla þá hluti sem mér þykja skemmtilegir og vitur maður sagði eitt sinn að ef þú finnur þér vinnu sem þú hefur unun af, þá muntu aldrei þurfa að vinna einn einasta dag í lífi þínu. Því lífið snýst ekki um peninga eins og margir halda. Ef við verðum svo upptekin af því að eignast peninga missum við af lífinu. Áður en við vitum af erum við komin á eftirlaun og sjáum eftir þeim tíma sem við hefðum átt að eyða með fjölskyldu okkar og vinum. Skemmtun þarf ekki að kosta mikið, því lífið er fullt af nautnum sem kosta okkur ekki krónu. Að spjalla við vini og ættingja, leggjast niður og njóta sólarinnar eða að leggjast út í snjóinn á köldum vetrarkvöldum og líta upp í heiðskíran, stjörnubjartan himininn og njóta íslenskrar náttúru upp á sitt besta. Sjálf þekki ég fólk sem hefur unnið frá unglingsaldri en veit ennþá ekki hvert draumastarf þess er. Móðir mín sagði eitt sinn við mig „Þú ert mjög heppin að vita hvað þú vilt verða. En það getur nú samt alltaf breyst. Sjáðu mig, ég er komin yfir fertugt og ég veit enn ekki hvað ég vil verða þegar ég orðin stór.“ En mitt svar var að hún gæti gert allt sem hún vildi og hefði nægan tíma til að velta því fyrir sér - enda ætti hún langt í land með að verða stór. Það að finna starf sem manni þykir skemmtilegt eru forréttindi og aldrei skal taka því sem gefnu því margir vinna vinnu sem þeir þola ekki og dregur úr þeim allan þrótt. Því segi ég við ykkur að peningar skipta ekki öllu máli, heldur eru það þið sjálf sem skiptið máli. Sinnið ykkur fyrst á undan öðrum, því ekki er hægt að hjálpa öðrum þegar þú getur ekki hjálpað sjálfum þér. Nú þegar ég skrifa þetta átta ég mig á því að maður þarft ekki alltaf að ákveða hvað maður vill gera í framtíðinni heldur er allt í lagi að fylgja straumnum. Straumurinn ber þig á ótrúlega staði með helling af ókunnugu fólki. En þetta þarf ekki að vera ókunnugt fólk. Ókunnugir eru aðeins einu handabandi frá því að verða vinir. Sjálf er ég umkringd mögnuðu fólki. Fólki sem leggur mikið á sig til að sjá um sig og sína. Fólki sem reynir að vera allt sem það getur, vera besta útgáfan að sjálfu sér eins og mögulega er hægt. Það er svarið sem ég var að leita að í lok 10. bekkjar, ég veit hver ég vil vera. Ég vil vera besta mögulega útgáfan af sjálfri mér. Ég vil vera Lilja Hrönn í besta veldi. Já, ég bjó til veldi. Mitt ávarp, mínar reglur. Allir hafa mismunandi hluti að færa heiminum. Ef þú neitar að láta í þér heyra ert þú að svipta heiminn þeim forréttindum að heyra þína einstöku rödd. Þá rödd sem aðeins þú hefur, enginn, nokkurn tímann, mun hafa þessa sömu rödd. Segðu þína skoðun, mér er sama hvort það sé um stjórnmál eða hvaða sælgæti þið vinirnir ættuð að kaupa til að borða yfir lélegu gamanmyndinni sem þið voruð að kaupa. Aðalmálið er að láta í sér heyra, ræskja sig og láta aldrei nokkurn tímann þagga niður í sér. Þér getur liðið eins og enginn heyri, en þú skal halda áfram, því fólk heyrir meira en það viðurkennir. Hundsaðu efasemdarmenn og þá sem ekki styðja þig í þínum draumum, stattu á þínu. Því þín rödd er einstök og þú átt aldrei að skammast þín fyrir skoðanir þínar. Með að hlusta á aðra og aðrir hlusta á þig ert þú að víkka þinn sjóndeildarhring á meðan aðrir gera hið sama. Til þess er lífið, til að upplifa hluti. Þeir eru misgóðir en þeir móta þig, mynda þín ör, þín bros og þínar minningar, það er óhjákvæmanlegur hluti af lífinu. Njótið lífsins, verið þið sjálf, kynnist nýju fólki, upplifið nýja hluti en gleymið aldrei fyrsta skóladeginum ykkar. Ykkar kann að þykja þetta undarlegt en þar mættuð þið í skólann með hnút í maganum og vilduð helst ekki sleppa foreldrum ykkar og ganga inn í stofuna. Þetta voru kaflaskipti. Í kjölfarið fylgdu 10 súrsæt skólaár sem við munum aldrei gleyma. Að þeim loknum kvöddum við bekkjarfélaga okkar með sama trega og neitaði að sleppa hendi foreldra ykkar 10 árum áður. Breytingar geta oft verið erfiðar, en þá skuluð þið muna eftir þessum kaflaskiptum sem urðu á byrjun og enda grunnskólagöngu ykkar. Byrjunin segir oft ekkert um lokin. Í einni af mínum uppáhaldsbókum er sagt; öll endalok eru einnig upphöf, við vitum það bara ekki á þeim tímapunkti. Framtíðin bíður okkur, því segi ég drífið ykkur áfram, gerið það sem ykkur langar að gera og látið heiminn heyra ykkar rödd. Því þið gætuð ekki aðeins verið að bjarga ykkar rödd, heldur gefa öðrum kjark til að hækka sína. Breytið heiminum, því þið getið eins mikið og þið ætlið ykkur. Lilja Hrönn Jakobsdóttir

7

Ávarp formanns NMB


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.