47 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
þriðjudagur 7. apríl 2020 // 15. tbl. // 41. árg.
VÍKURFRÉTTIR FENGU NOKKRA SUÐURNESJAMENN TIL AÐ HALDA DAGBÓK Í EINN DAG
Dagbók Eysteins Óveðurssunnudagurinn 5. apríl 2020
Óveðurssunnudagurinn var tekinn mátulega snemma á heimaskrifstofunni með góðum expressóbolla og aðstoðarkettinum. Hef unnið heiman frá mér meira og minna í þrjár vikur með dyggilegri aðstoð Brúnó sem er orðinn ómissandi þátttakandi á fjarfundum með samstarfsfólki mínu hjá VIRK. Í hvert sinn sem hann sér mig tala við tölvuna – þá mætir hann! Við Guðrún unnusta mín reynum að vinna markvist gegn kofaæðinu með ýmsum ráðum – útivera í öllum veðrum og smá bjánagangur er mikilvægur hluti þeirra forvarna. Smelltum okkur því velgölluð út í óveðrið, sem var ekki alveg orðið kolbrjálað, og ætluðum að skutlast með súpu frá Obbu tengdó á Melaveginn til nýbakaðra foreldra. Það gekk svona líka vel, ók Kadjarnum snarlega í skafl á Stapavöllunum og við Guðrún vorum þar við mokstur næsta hálftímann. Losnuðum ekki fyrr en eðalfólkið Vala og Svanur Vilhjálmsbörn lögðu hönd á skóflu og kipptu okkur úr skaflinum. Kannski málið að fá sér fjórhjóladrifinn næst – eða bara ekki vera að þvælast á bílnum í skítaveðri! Á heimleiðinni, með skottið á milli lappanna, gátum við þó aðeins gert gagn og hjálpað við að losa fastan bíl á Hafnargötunni. En súpan skyldi á áfangastað – maður gefst ekki upp svo glatt. Bílnum var lagt og haldið fótgangandi á Melaveginn hvar súpan var afhent heimilismönnum og við kíktum í snjóhúsið til Sólrúnar Tinnu sem varð stóra systir á dögunum. Eftirmiðdeginum var nýttur í að ná hita kroppinn yfir góðum expressóbolla og við að skipuleggja vikuna. Netinnkaupin gerð á Nettó, alger snilld!, fyrir páskana og 85 ára afmæli pabba. Eyjólfur ætlar að fagna 85 afmælinu í hópspjalli með fjölskyldunni á Messenger á miðvikudaginn. Hann er búinn að vera að æfa sig á málfundum á Messenger með barnabörnum sínum, sönn félagsmálatröll aðlaga sig breyttum aðstæðum. Kvöldmaturinn var Tikka Masala a la Guðrún Teits frá föstudeginum, enginn matarsóun hér enda rétturinn frábær enn. Annars höfum við reynt að panta Take Away u.þ.b. tvisvar í viku frá veitingastöðunum í bænum – og gera þannig okkar til að halda þjónustustiginu í bænum uppi. Eftir stutt spjall við stelpunar mínar á Messenger horfðum við svo á streymi um kvöldið frá uppsetningu á Jesú litla í Borgarleikhúsinu. Maður er fullur þakklætis öllu listafólkinu sem syngur og leikur fyrir okkur og þar hefur okkar fólk í Leikfélagi Keflavíkur ekki klikkað frekar en fyrri daginn. Þá horfi ég til þeirra sem eru í framlínunni núna og mikið mæðir á, til dæmis heilbrigðstarfsfólks, kennara og verslunarfólks, af mikilli aðdáun og er þeim mjög þakklátur. Munum að þetta gengur yfir, það kemur vor og það kemur sumar. Förum varlega og pössum hvert annað. Eysteinn Eyjólfsson