fimmtudagur 2. apríl 2020 // 14. tbl. // 41. árg.
28 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
Þegar tíu dropar verða að 18 árum
Árið 2020 Það er óhætt að segja að árið 2020 hafi fært okkur Grindvíkingum miklar og krefjandi áskoranir. Þetta ártal sem er í raun svo flott 2020! Í dag er þetta ártal sem flestir vilja gleyma. Vonandi verður þó þetta ár, það ár sem við tökum út margra ára lærdóm á örstuttum tíma. Lærdóm sem kenndi okkur að vera viðbúin og með áætlanir um viðbrögð og úrræði ef til slæmra tíðinda dregur. Það var óþægileg tilfinning að fá símtal eftir velheppnað þorrablót og fá boð með skyndi í Samhæfingarstöð Almannavarna, jörðin undir okkur byrjuð að rísa og skjálfa. Móðir náttúra hefur rækilega minnt á sig undanfarna 2 mánuði. Íbúafundur var skipulagður með hraði því mikilvægi upplýsingagjafar er ómetanleg. Góð samvinna allra viðbragðsaðila var til fyrirmyndar. Á örfáum vikum unnu viðbragðsaðilar ótrúlegt starf. Undirbúningur var allur eins og best verður á kosið. Vonandi þarf aldrei að grípa til þeirra aðgerða, en ef til þess kemur, þá erum við klár. Sem dæmi má nefna að verið er að skipuleggja færslu á Suðurstrandarveginum, og nú með hliðsjón af því að vegurinn geti nýst sem varnargarður og stýrt flæði hrauns. Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar þá bentum við hjá Framsókn á þetta, og málið fór inn í stefnuskrá okkar, en áttum við kannski ekki von á að innan við tveimur árum síðar yrði þetta að raunveruleika. Þegar við töldum að jarðhræringar væru á undanhaldi, þá hefur skollið á okkur og heimsbyggðinni allri þessi vá sem Covid 19 er. Þar reynir á okkur öll, en jörðin undir okkur er nú ekki á því að hætta að skjálfa og hefur haldið áfram að minna á sig. Við búum vel að því í Grindavík að bæjarsjóður stendur vel, skuldir bæjarins eru litlar sem engar enda hefur verið markmið undanfarin kjörtímabil að eiga sjóð, a.m.k. 1 milljarð króna. Um hann hefur þó verið deilt og sumir hafa ekki séð tilgang með honum, viljað eyða honum í framkvæmdir, markaðsstarf og ýmislegt annað. Við í Framsókn höfum barist fyrir því að fara ekki undir milljarðinn til að bregðast við ef til áfalla kæmi. Flestir sjá nú líklega tilganginn með því að eiga þennan varasjóð því áföll síðustu vikna hafa og munu væntanlega enn um sinn tak sinn toll. Vonandi munu þjóðir heims ná sér sem fyrst af þessum hremmingum en það mun taka tíma. Við munum finna fyrir þessu hér í Grindavík og nú þegar hefur komið til fjöldauppsagna í Bláa lóninu, Icelandair og
Isavia. Aðallífæð okkar sjávarútvegurinn mun verða fyrir tjóni á meðan flestir veitingastaðir út í heimi eru lokaðir því þá lokast á sölu fersk fisks. En sól mun rísa að nýju en þangað til mun Grindavíkurbær aðstoða eins og hægt er. Ný tækifæri munu koma, ferskar hugmyndir, og munum við leggjast í vinnu við að skoða hvað við getum gert til að efla nýsköpun, ekki vantar lóðir eða orkuna. Meðal aðgerða sem við höfum gripið til hjá Grindavíkurbæ, lögaðilar geta óskað eftir fresti á greiðslu fasteignagjalda vaxtalaust í 3 mánuði. Á meðan skólastarf er skert þá lagði Framsókn það til að nemendum sem mæta í skólann sé tryggð máltíð og mun Grindavíkurbær greiða fyrir þær út apríl. Einungis verður greitt fyrir þá daga sem börn mæta í leikskólann og leiga verður felld niður hjá dagmæðrum í húsnæði bæjarins svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru fyrstu skrefin og bætt verður í ef þarf. Á tímum þegar þrengir að kemur svo bersýnilega í ljós hversu mikil forréttindi það eru að tilheyra þessu þjóðfélagi. Samvinna og samheldni einkennir okkur sem þjóð og bæjarbúa og kemur samtakamátturinn víða fram og hafa undanfarnar vikur sýnt okkur það. Við getum verið stolt og þakklát fyrir það hvað fólkið okkar er að leggja á sig til að við stöndum sterk og upprétt þegar þessu lýkur. Við tökum utan um hvort annað þegar reynir á, nú er það erfitt, knúsin og faðmlögin bíða í nokkrar vikur. En við megum hreyfa okkur, þó að sundlaugar og líkamsrækrarstöðvar séu lokaðar og skipulagðar æfingar liggja niðri, þá er þetta frábær tími til að njóta þeirrar fegurðar og útivistarparadísar sem Reykjanesið er. Að lokum vil ég þakka þeim sem starfa í framlínunni, allt okkar heilbrigðisstarfsfólk, kennurum og starfsfólki í grunn og leikskólum og þeim sem sinna umönnunarstörfum. Munum svo að hlýða Víði. Sigurður Óli Þórleifsson forseti bæjarstjórnar Grindavíkur (B)
Stundum getur saklaust spjall yfir kaffibolla haft afleiðingar sem mann óraði ekki fyrir. Það var akkúrat það sem gerðist hjá mér. Samtal við Halla Valla vin minn yfir tíu dropum varð til þess að nokkrum vikum síðar leiddi ég kraftmikinn og skemmtilegan Þ-lista í bæjarstjórnarkosningum í Sandgerði. Helsti drifkrafturinn á bak við framboðslistann var ákall um breytingar. Við vorum að mestu ungt fólk sem fannst stefna í litla endurnýjun í bæjarstjórninni þegar við töldum vera þörf fyrir nýtt blóð. Í einhverri framboðsræðunni í þessum fyrstu kosningum sagði ég einmitt að ég að þegar ég væri búinn að sitja í bæjarstjórninni í átta ár yrði tímabært að sparka í mig og ýta mér út. Síðan eru liðin 18 ár og loksins er komið að því að ég hverfi af vettvangi. Þessi 18 ár hafa sannarlega verið viðburðarík. Ég hef fengið tækifæri til að takast á við alls konar verkefni, leiða þrjá mismunandi framboðslista og verið í hringiðu mannlífsins. Ég hef tekið þátt í risastórum verkefnum eins og að móta svæðisskipulag fyrir Suðurnesin, að keyra Sandgerðisbæ upp úr fordæmalausri skuldastöðu og að búa til nýtt sveitarfélag. Ég hef líka tekið þátt í ótalmörgum smærri verkefnum
sem eru kannski ekkert svo lítil þegar maður hugsar til baka. Það dýrmætasta er samt allt fólkið sem ég hefur verið með mér á þessu ferðalagi. Það er fólkið sem hefur stutt mig og hjálpað mér eins og fjölskyldan mín og vinir, fólkið sem hefur kosið mig og treyst mér til að vinna að málum í þeirra umboði, fólkið sem hefur verið með mér á framboðslistum, bæjarstjórnum og alls konar nefndum, fólkið
sem hefur starfað á vegum sveitarfélaganna og allt það fólk sem ég hef haft samskipti við út af störfum mínum sem kjörinn fulltrúi. Tilgangurinn með þessari grein er einfaldlega að segja takk við allt þetta fólk sem hefur kennt mér svo margt og fært mér gleði, kraft og vilja. Það er þeim að þakka að ég fer vel nestaður til að takast á við ný verkefni á Vestfjörðum. Ólafur Þór Ólafsson
Sérstakar aðgerðir strax í atvinnumálum fyrir Suðurnesin Aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum vegna kórónuveirunnar var samþykktur á Alþingi í aukafjárlögum sl. mánudagskvöld. Ég tel að aðgerðirnar séu góðar svo langt sem þær ná en gangi ekki nógu langt í því að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir í þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú ríkja um allan heim. Formaður fjárlaganefndar viðurkenndi að þetta dygði ekki til en boðaði frekari aðgerðir. Miðflokkurinn studdi tillögur ríkisstjórnarinnar en lagði jafnframt fram breytingartillögur ásamt stjórnarandstöðuflokkunum um víðtækari aðgerðir til að örva efnahagslífið. Tillögurnar eru hrein viðbót og hljóða upp á 30 milljarða króna til hinna ýmsu verkefna, má þar nefna Reykjanesbrautina, Hjúkrunarheimilis við Nesvelli, auk þess til Keilis og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, til að mæta brýnum aðstæðum vegna mikils atvinnuleysis á svæðinu.
Breytingartillögur minnihluta felldar sem fyrr
Ríkisstjórnarflokkarnir felldu allar tillögurnar og eru það mikil vonbrigði.
Sérstaklega þar sem Suðurnesin komu afar illa út úr efnahagsþrengingunum. Ríkisstjórnin lagði til 200 milljónir til framkvæmda við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að bæta aðkomu sjúkrabifreiða og aukið hlutafé til Isavia til framkvæmda. Í hafnarframkvæmdum er gert ráð fyrir dýpkun við Sandgerðishöfn og grjótverkefni í Keflavík og Njarðvík. Ljóst er að þessi verkefni duga engan veginn til að vinna á móti atvinnuleysinu, sem er það mesta á landinu og er spáð að verði allt að 20%. Ríkisstjórnin verður að koma strax með sérstakan aðgerðarpakka fyrir Suðurnesin.
Þingmenn svæðisins verða að standa saman
Nú reynir á sem aldrei fyrr að þingmenn kjördæmisins standi saman í því að mæta þeim mikla vanda sem Suðurnesin standa frammi fyrir í atvinnumálum. Þá þýðir ekki fyrir þingmenn stjórnarflokkana að kalla eftir samstarfi á erfiðum tímum en fella svo allar tillögur minnihlutans um aðgerðir fyrir Suðurnesin. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins og situr í fjárlaganefnd Alþingis.
Sjónvarpsperlur Víku FIMMTUDAG KL. 20:30 HRINGBRAUT OG VF.IS