Cloacina, sem við fáum hið alþjóðlega heiti klóaksins af, var rómversk gyðja sem ríkti yfir helsta skólpræsi borgarinnar eilífu. Hún var gyðja hreinlætis. Það var andans fólk af aðeins öðru tagi sem lét leggja fyrstu skólplögnina í Reykjavík. Nunnurnar í Landakoti fengu Knud Zimsen til að leggja skólplögn ofan af hæðinni niður Ægisgötuna og í sjó fram. Það var nokkrum árum áður en þessi ungi verkfræðingur var orðinn borgarstjóri í Reykjavík og skrúfaði frá brunahana við Laugaveginn og markaði þar með upphaf vatnsveitu í Reykjavík.
Í þessari bók er saga fráveitu Veitna í Reykjavík og aðkoma fyrirtækisins að samskonar rekstri á Akranesi og í Borgarbyggð rakin. Áður hafa verið gefnar út sögur vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu í borginni. Saga fráveitunnar, sem tekið hefur gríðarlegum framförum síðustu öldina, var útundan þar til nú.
Höfundur bókarinnar er Guðjón Friðriksson.