2 minute read

Lífsreynslusagan

Viltu reykja annars staðar,

- takk!

Mér skilst að það séu sífellt færri á Íslandi sem reykja sígarettur. Það eru góðar fréttir fyrir alla, ekki síst þá sem reykja ekki og hafa aldrei gert. Ég vil ekki hljóma eins og ég kunni hreinlega illa við fólk sem reykir, alls ekki, ég kann bara illa við reykingalykt. Ég á nágranna sem reykir. Þegar hún reykir fer hún aldrei út úr húsinu, hún stendur bara í dyragættinni hvort sem það er að framanverðunni eða garðmegin og reykurinn, í íslenska rokinu, fýkur beint inn um gluggann hjá mér. Þegar ég var ólétt fór þetta sérstaklega í taugarnar á mér og endaði ég á því að biðja hana góðfúslega að stunda sínar reykingar að framanverðu þar sem að ég gat ekki sofið með reykingalyktina inni í svefnherberginu. Hún tók ágætlega í þessa beiðni í fyrstu en nokkrum mánuðum síðar hafði hún gleymt þessu og allt var komið í sama gamla farið aftur. Ég hef setið úti í garði á sumardegi meðan hún keðjureykir ofan í mig hinum megin við þilið. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef þurft að setja hreinan þvott, beint aftur í vélina vegna þess að hún reykti svo mikið þann daginn að hreinu fötin lyktuðu eins og sígarettustubbar. Ég hef gluggann á svefnherbergi barnsins míns lokaðan vegna þess að ég get ekki hugsað mér að það andi að sér sígarettureyk meðan það sefur. Þetta kann að hljóma eins og nöldur en í alvöru, hvers vegna á ég að gjalda fyrir reykingar nágrannans eða reykingar annarra yfir höfuð? Ég veit ekki hvort fólk sem reykir sé svona ómeðvitað um þann ama sem það getur valdið öðrum eða hvort því sé hreinlega bara nákvæmlega sama. Ég persónulega hallast að því að seinna atriðið eigi við um nágrannann. Ef við tökum út orðið reykingar og hugsum bara um þessa lykt. Hvers vegna finnst fólki í lagi að vond lykt, sem kemur frá því sjálfu, valdi öðrum óþægindum. Finnst nágranna mínum í lagi að ég drífi mig að loka gluggunum á kvöldin svo að húsið angi ekki, bara svo að hún geti reykt sína sígarettu. Reykingafólk! Hvort sem þið eruð meðvituð eða ómeðvituð um þetta – Í guðanna bænum takið tillit!

This article is from: