1 minute read

Helgarpistillinn

Harpa Mjöll Reynisdóttir Elskaðu að hata nágrannann

„Elskaðu nágranna þinn eins og sjálfan þig,“ er tilvitnun úr Biblíunni. Þó ég hafi aldrei verið sérstaklega trúrækin eða komist nálægt því að lesa svo mikið sem eitt orð úr hinni heilögu bók, þá hef ég alltaf vitað af þessari tilteknu setningu. Nágranni er líklega víðara hugtak en bara þeir sem eiga búsetu nálægt þér en mín upplifun er sú að þeir sem búa næst þér, þola þig verst.

Fyrir tæpu ári síðan keypti ég mér mína fyrstu eign með sambýlismanni mínum, bjartsýn á komandi tíma og spennt að hefja lífið sem fullgildir meðlimir samfélagsins; íbúðareigendur. Ég hafði einhverja reynslu af svokölluðum „íbúasíðum“ á Facebook en aldrei hafði ég sérstaklega hugsað til þess hversu heitt og innilega margir hata nágranna sína, fyrr en núna. Í kringum okkur búa að mestu leyti ungt fólk. Við vorum viðbúin partýstandi, ælu fram að svölum, háu góli og jafnvel öllu ruslinu. Aldrei hefði okkur þó grunað að aðal vandamálið væri íbúasíðan.

Upplifunin er sú að alltaf séu augu á manni. Ekki leggja vitlaust, ekki henda papparusli í almenna gáminn og í guðanna bænum fylgstu með hverju skrefi kattarins! Upp kom mál nýlega þar sem skítur fannst í sameigninni, málið rataði beinustu leið inn á húsfélagsfund og auðvitað vantaði ekki umræðuna inn á íbúasíðuna góðu. Fólk rökræddi hvaðan skíturinn gæti verið að koma, hverjum væri hægt að kenna um og refsa. Hvort er þetta hunda- eða kattareigendum að kenna? Það þótti mikilvægt að komast til botns í þessu en á meðan sitja önnur mál á hakanum. Myndir af gæludýrum voru birtar, getur þetta verið sökudólgurinn, HVER á þennan kött? HVERJUM get ég refsað?

Íbúasíðan er mestmegnis gremja og reiði, hvort sem það tengist dýrunum eða einhverju öðru, væntumþykju til náungans er ekki að finna þarna inni. Áhugavert væri að skoða hvað veldur þessu, hvaðan kemur þessi hatur? Líklega á þetta við fleiri en nágranna. Kannski er maðurinn búinn að þróast út í reiðar og hatursfullar verur með alltof greiðan aðgang að tækni sem auðveldar þeim að skapa vettvang fyrir tilfinningarnar. Líklega kemst ég aldrei að niðurstöðu í þessu máli. Ég held áfram að passa mig við daglegar athafnir, ekki myndi ég vilja enda sem umræðuefni á húsfélagsfundi eins og blessaður kötturinn.

This article is from: