Talfræðingurinn 27.árgangur 2025

Page 1


TALFRÆÐINGURINN

TÍMARIT FÉLAGS TALMEINAFRÆÐINGA Á ÍSLANDI

1. TBL. | 27. ÁRGANGUR

Ingibjörg Rúnarsdóttir

Kirstín Lára Halldórsdóttir

Ragnhildur Gunnarsdóttir

Talfræðingurinn

1. tölublað, 27.árgangur 2025 Útgefandi

Félag talmeinafræðinga á Íslandi

Ritnefnd

Anna Lísa Benediktsdóttir

Ingibjörg Rúnarsdóttir

Kirstín Lára Halldórsdóttir

Ragnhildur Gunnarsdóttir

Prófarkalestur: Ritnefnd

Ljósmyndir:

Úr einkasöfnum

Umbrot:

Elín Esther Magnúsdóttir

Layout.is

Greinar eru á ábyrgð höfunda.

Frá ritnefnd

Talfræðingurinn er nú gefinn út í 27. skipti. Fyrsta tölublaðið var gefið út árið 1984 og því ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Hugtökin breytingar, þróun og nýbreytni eru orð sem voru ritstjórn ofarlega í huga við undirbúning blaðsins. Út frá því var ákveðið að gefa blaðinu yfirskriftina

Nýjar áskoranir og nálganir í talmeinafræði

Í þeim anda var tekin sú ákvörðun að gefa blaðið eingöngu út rafrænt að þessu sinni. Við lítum á það sem tækifæri til að ná til fleiri lesenda þar sem flestir lesendur hafa internetið í höndum sér, í bókstaflegri og óeiginlegri merkingu.

Við vonum að á þennan hátt verði blaðið aðgengilegra en áður auk þess sem okkur þótti spennandi kostur að geta nú gert lesendum kleift að deila stökum greinum og efni úr blaðinu á öðrum rafrænum miðlum.

Í blaðinu er að finna greinar sem tengjast nýjum áskorunum eða nálgunum í talmeinafræði á einn eða annan hátt. Umfjallanir um nýjar starfsstöðvar talmeinafræðinga, mögulega nýtingu máltæknilausna og gervigreindar í starfi talmeinafræðinga, tækni og tjáskiptalausnir auk ábendinga um efnivið sem talmeinafræðingar hafa sent frá sér á internetinu, svo eitthvað sé nefnt. Einnig er gefin innsýn í líf og störf talmeinafræðinga með nýju innslagi sem ber heitið Dagur í lífi talmeinafræðings og í frásögnum talmeinafræðinga sem hafa sótt sér endurmenntun á ráðstefnum utan landsteinanna.

Frá því fyrstu talmeinafræðingarnir hófu störf á Íslandi árið 1953 hefur margt breyst í starfi og umhverfi stéttarinnar eins og endurspeglast í viðtali við heiðursfélaga Félags talmeinafræðinga á Íslandi, Ingibjörgu Símonardóttur. Starfsstéttin hefur stækkað verulega og þar með hefur fjöldi skjólstæðinga og starfsstöðva aukist. Einnig hefur tækninni fleygt fram og birtist það okkur á ýmsa vegu. Aðgengi að þjálfunargögnum er betra en á árum áður og nú er hægt að fylgjast með störfum talmeinafræðinga, jafnt hér á landi sem erlendis, á samfélagsmiðlum og fá þaðan hugmyndir og fræðslu sem nýtist fagaðilum jafnt sem skjólstæðingum. Gervigreindin hefur rutt sér til rúms bæði sem auðlind og áskorun. Það er því mikilvægt nú sem aldrei fyrr að vera vakandi fyrir því hvernig við getum nýtt okkur framþróunina ásamt því að stíga varlega til jarðar og vega og meta hvort efniviður og upplýsingar séu gagnreyndar, áreiðanlegar og nytsamlegar.

Sérstakar þakkir færum við greinahöfundum blaðsins. Með þeirra framlagi hefur tekist að setja saman fjölbreytt og fræðandi blað um ýmis málefni tengd talmeinafræði. Okkar ósk er að lesendur muni bæði geta notið lestursins og nýtt sér efni blaðsins til að auka þekkingu sína.

Ritnefnd Talfræðingsins

Orð eru ævintýri

Höfundar:

Þóra Sæunn Úlfsdóttir talmeinafræðingur og verkefnastjóri hjá Miðju máls og læsis

Dröfn Rafnsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur og deildarstjóri hjá Miðju máls og læsis

Bókin Orð eru ævintýri var gefin út á haustmánuðum 2023. Aðdragandinn var að Helgi Grímsson, þáverandi sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, hafði samband við Miðju máls og læsis (MML), eftir hvatningu frá talmeinafræðingi, og óskaði eftir að hópurinn þar útbyggi bók fyrir börn á leikskólaaldri sem endurspeglaði íslenskan raunveruleika. MML fékk til liðs við sig námsbraut í talmeinafræði, Menntamálastofnun – sem í dag kallast Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), leikskólana Laugasól og Blásali og Austurbæjarskóla. Jafnframt sóttu starfsmenn MML um styrki svo hægt væri að hefja vegferðina.

Markmið bókarinnar var að gefa ungum börnum og börnum sem eru að læra íslensku sem annað tungumál aðgang að grunnorðaforða í íslensku út frá margskonar þemum sem endurspegla fjölbreyttan veruleika íslensks samfélags.

Orðin sem valin voru í bókina Orð eru ævintýri byggja á rannsóknum dr. Jóhönnu Thelmu Einarsdóttur, prófessors í talmeinafræði við HÍ, á samtölum barna. Í bókinni Tíðni orða í tali barna er samantekt á orðum sem börn á aldrinum tveggja og hálfs árs til tæplega átta ára (2;6-7;11) notuðu í 451 málsýni. Í fyrrnefndri bók er listi yfir orðin sem börnin

notuðu og hversu oft hvert orð kom fyrir, en börn læra þau orð og þær beygingarmyndir orða sem eru algengar í málumhverfi þeirra fyrr en orð sem eru sjaldgæfari í málinu (Jóhanna Thelma Einarsdóttir o.fl., 2019). Þessar upplýsingar voru hafðar til hliðsjónar við val á orðum ásamt viðmiðum um aldur barnanna. Jóhanna Thelma fékk Samfélagsstyrk HÍ sem gerði henni kleift að ráða nema í talmeinafræði sem vann lista yfir orð. Í upphafi var miðað við að orðin þyrftu að vera 1000 talsins og byrjaði Rannveig Gestsdóttir, sem þá var talmeinafræðinemi, að raða þeim eftir tíðni og á hvaða aldri orðin komu inn í mál barna þegar það var hægt. Valdi hún 1168 orð sem varð grunnurinn að þeim orðaforða sem kemur fyrir í bókinni.

Val á þemum sem endurspegla íslenskt samfélag var að mestu leyti í höndum starfsmanna MML í samvinnu við Rannveigu. Þemun voru valin út frá orðunum sem börnin notuðu en jafnframt fór fram rýni á hvað einkenndi íslenskt samfélag. Orðalistarnir undir hverju þema voru margyfirfarnir. Nokkrum orðum sem ekki komu fyrir í málsýnum en þóttu skipta máli fyrir þemun var bætt við.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sá um myndvinnslu og var myndritstjórn í höndum Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur. Teiknarar voru Blær Guðmundsdóttir, Böðvar Leós, Elín

Elísabet Einarsdóttir og Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson. Myndhöfundar teiknuðu myndir sem tengdust öllum þemunum ásamt smámyndum sem raðað var í kringum myndirnar á hverri opnu og tengjast efni þeirra.

Aftast í bókinni eru stuttar leiðbeiningar til foreldra og hvatning um að nota bókina til að efla málþroska barna. Bókin er fyrsta námsefni sem MMS gefur út fyrir börn á leikskólaaldri og er vel til þess fallin að byggja brú á milli heimilis og skóla.

Samhliða útgáfu bókarinnar voru unnir hugmyndabankar hugsaðir fyrir annars vegar starfsmenn í leikskólum og hins vegar kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál (ÍSAT) í grunnskólum. Þessir hugmyndabankar voru unnir í samstarfi við leikskólakennara og ÍSAT kennara.

Hugmyndabankarnir byggðu á að skapa námsefni út frá hverri opnu bókarinnar og áhersla var lögð á eflingu orðaforða og hvatt til samtals við börnin.

Ákveðið var að hafa sömu áhersluatriði við allar opnur í hugmyndabanka leikskólans. Undir hverju þema voru settar fram hugmyndir að umræðum til að ræða við börnin, hugmyndir að leikjum og sköpun, tillögur að vinnu með tónlist og stundum ítarefni. Til viðbótar bjó Kristín Ragna til stuttar sögur

sem fylgja hverri opnu þar sem horft er á efnið með augum kattarins Kúra. Hann er eina fasta sögupersónan í bókinni og kemur fyrir á öllum opnum. Sögurnar bjóða upp á frekari umræður um orðaforða svo sem að ræða merkingu orðanna „litskrúðugur“ og „kynjaverur“ og orðtaksins „í kappi við tímann“.

Í hugmyndabanka fyrir grunnskóla – ÍSAT, voru einnig settar fram fjölmargar hugmyndir fyrir kennara nemenda með íslensku sem annað mál til að nýta bókina. Þar koma fram tillögur að verkefnum tengdum umræðum og orðaforða, ritun og sköpun og leikjum.

Í ferlinu við gerð bókarinnar var alltaf gert ráð fyrir að hægt væri að nálgast bókina rafrænt þar sem orðin væru þýdd á nokkur tungumál. Þannig gætu foreldrar séð orðið ritað á heimamáli sínu og íslenska útgáfu orðsins ásamt að heyra það sagt á íslensku. Brúarsmiðir MML þýddu orðin á sín heimamál og MMS bætti við þýðingu á dönsku. Nú er mögulegt að sjá orðin á 8 tungumálum ásamt íslensku með því að fara á tungumálavef bókarinnar.

Upphaflega var hugmyndin að bókin Orð eru ævintýri yrði gefin reykvískum börnum með prentunarleyfi fyrir öll sveitarfélög. Fljótlega breyttist sú hugmynd og unnið var ötullega að því að fá fjármagn til að öll börn í ákveðnum árgangi á Íslandi fengju bókina að gjöf.

Í desember 2024 höfðu fjórir árgangar barna fengið bókina þ.e. börn sem eru fædd 20182021. Hafist hefur verið handa við að afla fjár til að gefa fleiri árgöngum bókina.

Eftir útgáfu bókarinnar og leiðbeininganna vann Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vef byggðan á efninu. Vefurinn kallast Orðatorg Þar má finna tungumálavefinn, orðaleiki, rafbók, hugmyndabanka fyrir grunnskóla – ÍSAT, hugmyndabanka fyrir leikskóla og leiðbeiningar fyrir mynda- og orðaspjöld. Á Orðatorgsvefnum er allt efni tengt bókinni á einum stað.

Til viðbótar gaf MMS út tvö ný verkfæri. Það eru stór myndaspjöld (A3) af hverri opnu bókarinnar með tillögum að spurningum á bakhliðinni og mynda- og orðaspjöld af smámyndum bókarinnar sem hægt er að nýta á fjölbreyttan hátt. Allir leikskólar landsins hafa fengið þetta viðbótarefni sent til sín. Á Orðatorginu má finna leiðbeiningar með mynda- og orðaspjöldunum og stóru myndaspjöldunum sem settar voru upp í

Heimildir:

tengslum við þætti aðalnámskrár leik- og grunnskóla.

Viðtökur við bókinni og fylgiefninu hafa verið mjög góðar. Í sumum leikskólum er byrjað að nota efnið skipulega t.d. með því að taka fyrir ákveðnar opnur í bókinni og vinna út frá þeim á fjölbreyttan hátt bæði úti og inni. Í nokkrum grunnskólum var bókin gefin öllum börnum í fyrsta bekk. Unnið var með bókina allan veturinn og fengu þau hana síðan með sér heim að vori. Auk þess hefur frést af bæði foreldrum og starfsmönnum með erlendan bakgrunn sem nota bókina til að læra íslenskan grunnorðaforða. Þeir nota Orðatorgið með bókinni og bæta þannig við orðaforða sinn. Börnum finnst bókin skemmtileg. Oftast byrja þau á að fylgjast með Kúra og finna hann á hverri opnu. Einnig finnst þeim gaman að para saman smámyndirnar við stóru myndina á opnunni. Þessir leikir gefa tilefni til að ræða heiti hluta og notkun þeirra ásamt því að finna samheiti og andheiti og fleira. Góð hugmynd er að endurtaka verkefnið aftur og aftur. Þannig eflist orðaforði barna.

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Anna Lísa Pétursdóttir og Íris Dögg Rúnarsdóttir. (2019). Tíðni orða í tali barna Háskólaútgáfan, Reykjavík.

FÉLAGSNET TALMEINAFRÆÐINGA

Velkomin í Visku – stéttarfélag

Viska er nútímalegt og framsækið stéttar félag. Þjónusta félagsins og hagsmunagæsla byggir á norrænni fyrirmynd og heildrænni nálgun í þágu félagsfólks.

Félagsnet talmeinafræðinga innan Visku er vett vangur fyrir talmeinafræðinga sem vilja starfa að kjaramálum stéttarinnar. Megintilgangur hópsins er að standa vörð um kjör og réttindi talmeinafræðinga og endurmenntun þeirra.

Skráðu þig hér

Orðaheimurinn á Íslandi

Höfundur:

Aðjúnkt í talmeinafræði, Háskóli Íslands

Íslensk þýðing úr ensku:

Ingibjörg Rúnarsdóttir, talmeinafræðingur hjá Reykjavíkurborg og Talsetrinu

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, talmeinafræðingur

Ph.D., prófessor á

Heilbrigðisvísindasviði og Menntavísindasviði, Háskóla Íslands

Þóra Másdóttir, talmeinafræðingur

Ph.D., CCC-SLP, dósent á Heilbrigðisvísindasviði, Háskóla Íslands

Breytingar á menningarlegu og mállegu umhverfi á Íslandi hafa verið miklar á síðastliðnum tuttugu árum. Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað ört á þessum tíma. Hugtakið innflytjendur vísar til þeirra einstaklinga sem fæddir eru erlendis og eiga báða foreldra fædda erlendis.

Hlutfall íbúa á Íslandi, sem fæddir eru erlendis, hefur aukist úr 3% árið 2000 í 18% árið 2023 (Hagstofa Íslands, 2024c,d). Árið 2023 áttu 17% barna í íslenskum leikskólum að minnsta kosti eitt foreldri sem talaði annað tungumál en íslensku heima, þar af voru algengustu tungumálin pólska (5%), enska (2%) og arabíska (0,8%) (Hagstofa Íslands, 2024a).

Margsinnis hefur verið sýnt fram á að fjöltyngd börn standa höllum fæti í íslensku skólakerfi þegar litið er til málþroska og námsárangurs. Sem dæmi má nefna að 45,8% barna sem eru innflytjendur á Íslandi flosnuðu upp úr námi í framhaldsskóla samkvæmt gögnum frá árinu 2018 (Hagstofa Íslands, 2024b).

Fleiri framhaldsskólanemendur sem eiga foreldra sem fæddir eru erlendis hætta námi en nemendur sem eiga foreldra sem fæddir eru á Íslandi (Hagstofa Íslands, 2024b). Ýmis atriði hafa áhrif á það hvernig fjöltyngdum einstaklingum vegnar í námi en ljóst er að margir þeirra eiga erfitt með að ná upp þeirri tungumálafærni sem er nauðsynleg til að geta tileinkað sér nám á íslensku.

Á fyrstu árum lífsins eru fjöltyngd börn lengur að tileinka sér sömu færni í tveimur tungumálum en eintyngdir jafnaldrar þeirra eru að tileinka sér í aðeins einu tungumáli. Þetta skýrist að miklu leyti af því að sá tími sem fjöltyngd börn fá í málumhverfi hvers tungumáls fyrir sig skiptist á milli tungumála. Þar af leiðandi fá þau minna máláreiti í hverju tungumáli og um leið færri tækifæri til að læra og öðlast færni í báðum eða öllum tungumálunum. Fjöltyngd börn ættu að geta staðið jafnfætis eintyngdum jafnöldrum ef

gætt er að magni og gæðum máláreitis í hverju tungumáli fyrir sig (Bialystok og Craik, 2010). Vísbendingar eru hins vegar um að þetta sé ekki raunin hjá fjöltyngdum börnum á Íslandi. Fjöldi rannsókna á íslenskukunnáttu barna og unglinga sem tala annað tungumál en íslensku heima fyrir benda til áberandi munar milli íslenskukunnáttu fjöltyngdra barna og eintyngdra íslenskra jafnaldra (sjá Hjördís Hafsteinsdóttir o.fl., 2022; Sigríður Ólafsdóttir o.fl., 2016; Sigríður Ólafsdóttir og Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2010, Thordardottir, 2020, 2021, Thordardottir og Juliusdóttir, 2013). Að auki er hugsanlegt að gríðarlega langir biðlistar eftir þjónustu talmeinafræðinga hérlendis gætu að einhverju leyti stafað af því að fjöltyngdum börnum (sem eiga í erfiðleikum með að tileinka sér íslensku en eru ekki endilega með málþroskaröskun) er ranglega vísað til talmeinafræðings.

A World of Words

Með þessar áskoranir í huga, ásamt þeirri staðreynd að flest börn á Íslandi verja meirihluta af vökutíma sínum í leikskóla, er mikilvægt að leikskólar hafi aðgang að gagnreyndum, réttmætum og áreiðanlegum verkfærum til að styðja við íslenskutileinkun fjöltyngdra barna. Aftur á móti er ekki til nein íhlutun sem mætir þessum kröfum og er á sama tíma viðeigandi fyrir menningu, mál og umhverfi íslenskra leikskólabarna og leikskólakennara. Í leit að lausn við þessum vanda var litið til yfirlitsgreinar Crowe o.fl. (2021) um gagnreyndar meðferðarleiðir til að styrkja málfærni fjöltyngdra barna. Sú íhlutun sem þótti mest viðeigandi að kanna frekar

Kate Crowe

WOW meðferðaefnið hefur verið ítarlega metið með vönduðum rannsóknum og hefur verið skipað í flokk áreiðanlegra gagnreyndra aðferða hjá What Works Clearinghouse (2023).

hérlendis var World of Words, eða WOW, en meðferðarleiðin er þróuð af Susan Neuman í Bandaríkjunum (WOW, 2024). WOW var upphaflega notað í Head Start leikskólum í Bandaríkjunum. Markmið WOW er að styðja við enskutileinkun barna sem skortir viðunandi máláreiti og talið er að hafi seinkaðan málþroska vegna bágrar félagslegrar stöðu. Með WOW er einblínt á að efla málþroska 4-7 ára barna, auka orðaforða þeirra og að þau öðlist hæfni til að skilja og setja „stærri hugmyndir“ í samhengi ásamt því að þekking á vísindalegum hugtökum er efld í samræmi við fyrirfram skilgreinda þemavinnu. WOW meðferðaefnið hefur verið ítarlega metið með vönduðum rannsóknum og hefur verið skipað í flokk áreiðanlegra gagnreyndra aðferða hjá What Works Clearinghouse (2023). Auk þess hefur verið sýnt fram á að WOW sé árangursríkt fyrir fjöltyngd börn sem eru að tileinka sér ensku og búa við fátækt í Bandaríkjunum (Neuman og Kaefer, 2018).

Sá hluti WOW sem ætlaður er fjögurra ára börnum byggir upphaflega á sjö þemum eða lotum: sjávardýr, gæludýr, plöntur, hreyfing, hollur matur, mannslíkaminn og villt dýr. Áætlað er að unnið sé með hvert þema í tvær vikur og fá börnin sex málörvunarstundir á því tímabili. Hver málörvunarstund er 10 til 15 mínútur að lengd og hefur að geyma þrjá hluta: (a) ræðum saman, þar sem kennarinn kynnir bókina, viðfangsefni og orðaforðann í málörvunarstundinni, (b) lesum saman, þar sem kennarinn les ákveðna bók fyrir barnahópinn og spyr börnin spurninga, og (c) rifjum upp saman, þar sem

leikskólakennarinn notar fyrirfram ákveðna bók, orðaforða og aðalatriði úr tiltekinni lotu og tengir við flokkun, merkingarfræðileg hugtök og vísindaleg hugtök. Þau orð sem valin eru í hverri lotu (lykilatriðin) eru flokkuð merkingarlega með ákveðin vísindaleg hugtök í huga. Á þennan hátt er hægt að dýpka skilning á tengslum á milli hugtaka og orða. Með stigskiptingu orðaforðans í huga er hægt að skapa mikilvægt þekkingarnet í kringum nýju orðin (Neuman, 2017). Fimm textar eru notaðir í hverju þema og er áhersla lögð á rökrétta uppröðun efnisins, frá einföldum til flóknari texta, til að styðja sem best við börnin. Fyrstu textarnir í hverju þema eru svokallaðir fyrirsjáanlegir textar, einfaldir textar sem innihalda rím eða endurtekningu til að kveikja áhuga barnanna og til að kynna viðfangsefnið fyrir þeim. Næst koma frásagnartextar, ögn flóknari textagerð, yfirleitt sögubækur sem hafa að geyma texta þar sem staðreyndum er komið á framfæri í gegnum frásögn. Að lokum kynnast börnin þyngstu textagerðinni, upplýsingatexta. Slíkir textar innihalda töluvert magn upplýsinga og krefjast þess að börnin hafi tileinkað sér skilning á þeim orðum

Bækur sem fylgja þemum Orðaheimsins

og hugtökum sem koma fyrir í bókunum. Hugmyndin er sú að börn eiga auðveldara með að skilja upplýsingatextana þar sem þau hafa þegar kynnst efninu fyrir tilstuðlan hinna tveggja textagerðanna sem á undan koma.

Með því að öðlast grunnskilning á orðum sem eru notuð á mismunandi stigum í textunum ná börnin smám saman dýpri skilningi á tengingu á milli orða og hugtaka í þeim bókum sem valdar hafa verið. Upphaflega var lagt upp með að við notkun WOW meðferðarefnisins væri farið eftir ítarlegri forskrift sem kennarar fylgdu nákvæmlega og að hver málörvunarstund hefði ákveðið handrit sem fylgja átti eftir. Talið var að með skýru handriti væri hægt að minnka álag á kennara þar sem undirbúningur væri minni, auk þess sem það myndi auka líkur á að íhlutun væri framkvæmd nákvæmlega eins og lagt var upp með. Hins vegar kom í ljós að lausleg forskriftarnálgun (e. soft-script approach) mældist ekki síður árangursrík en í

henni felst að lauslega er farið eftir fyrirfram skrifuðu handriti. Kennarar hafa þannig ákveðinn sveigjanleika til að laga framkvæmd málörvunarstunda eftir sínum þörfum svo fremi sem þeir halda sig við kjarnatriði WOW (Neuman o.fl., 2021).

World of Words verður Orðaheimurinn

Sú útgáfa WOW sem þýdd hefur verið á íslensku og aðlöguð að íslenskri leikskólamenningu nefnist Orðaheimurinn. Þrjú viðfangsefni úr WOW voru þýdd, staðfærð og forrannsökuð (með fýsileikarannsókn) til notkunar með fjöltyngdum börnum í íslenskum leikskólum. Lesa má um fýsileikarannsóknina í meistaraprófsritgerðum Sædísar Dúadóttur Landmark (2022) og Svövu Heiðarsdóttur (2022). Eftir að rannsókninni lauk þróuðu Sædís og Svava efnivið fyrir þrjú viðfangsefni eða lotur til viðbótar.

• Aðlögun efniviðar: Eftir að upplýsingabók WOW, „White paper“ (Neuman, 2017), hafði verið þýdd og staðfærð varð til Grunnbók: kynning og leiðbeiningar, sem er 22 blaðsíðna rit. Einnig var útbúið aðgengilegra skjal, samantekt fyrir kennara með helstu atriðum í þriggja blaðsíðna hefti. Velja þurfti bækur sem innihéldu viðeigandi orðaforða og rétta textagerð fyrir hvert viðfangsefni. Þetta reyndist áskorun þar sem mun færri barnabækur eru í boði á íslensku samanborið við ensku. Dæmi um texta og textagerðir sem voru valdir á íslensku eru: Ég vil fisk! (Áslaug Jónsdóttir, 2007) sem er fyrirsjáanlegur texti fyrir viðfangsefnið um mat; Freyja og Fróði í sundi (Kristjana Friðbjörnsdóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir, 2015) sem er frásagnartexti fyrir viðfangsefnið sem tekur fyrir þemað hreyfingu; og Upp í sveit (Halldór Á. Elvarsson, 2010) sem er upplýsingatexti fyrir viðfangsefnið um íslensku húsdýrin. Orðaheimurinn er aðeins með sex viðfangsefni eða lotur en ekki sjö eins og í WOW en ekki fannst hentugur texti á íslensku fyrir viðfangsefnið um plöntur og þeirri lotu því sleppt að sinni. Viðfangsefnið gæludýr í WOW var breytt í íslensku húsdýrin þar sem það þótti henta betur í íslensku samhengi auk þess sem hægt var að finna fleiri hentug markorð sem

nýtast í daglegu lífi á Íslandi. Efni og spilum fyrir bingó og orðaforða var bætt við ásamt lista af hugmyndum að leikjum og lögum sem tengjast hverju viðfangsefni fyrir sig.

• Aðlögun á kennsluháttum:

Í málörvunartímum WOW er miðað við 20-30 börn í kennslustund. Þetta þótti ekki henta í íslenskum leikskólum og því ákveðið að hafa hópana mun smærri, eða 6-8 börn. Hverju barni var þannig gert kleift að vera virkari þátttakandi í málörvunarstundunum. Fjöldi málörvunarstunda fyrir hverja lotu var síðan aukinn úr sex (WOW) í níu (Orðaheimurinn).

Í WOW er hver bók í lotu lesin einu sinni en tækifæri er til að endurlesa eina af bókunum í síðustu málörvunarstund lotunnar. Í

Orðaheiminum var hins vegar mælt með að lesa aftur fjórar bækur til að auka möguleika barnanna til að læra orðaforðann og hugtökin í kunnuglegu samhengi. Lauslega forskriftarnálgunin í málörvunarstundum

Orðaheimsins var einfölduð á þann hátt að handritið hefur aðeins að geyma þau kjarnaatriði sem leggja á áherslu á í hverri stund en ekki gerðar strangar kröfur um það hvernig kennararnir eiga að koma þessum atriðum á framfæri. Var þetta gert til að virða þá áherslu sem er lögð á leikmiðaða kennslu fremur en beina kennslu í íslenskum leikskólum. Leikskólakennurum var leiðbeint um að nota svokallaða mótunarnálgun (e. shaping approach) í Orðaheiminum samanborið við nálgun með sýnikennslu (e. modelling approach) sem lögð er áhersla á í WOW.

Rannsóknin Orðaheimurinn á Íslandi Á árunum 2022 til 2024 fór fram klasaslembuð samanburðarrannsókn (e. cluster randomised controlled trial) sem nefnist Orðaheimurinn á Íslandi og var markmiðið að kanna áhrif og árangur af Orðaheiminum í íslenskum leikskólum. Fimmtán leikskólar með hátt hlutfall af fjöltyngdum börnum í Reykjavík og nágrenni tóku þátt í rannsókninni, 207 börn og 87 kennarar. Hver leikskóli gekkst handahófskennt undir eitt af þremur rannsóknarskilyrðum: íhlutun með Orðaheiminum, íhlutun með kennslu í

gegnum leik eða enga íhlutun. Eintyngd, íslenskumælandi börn og fjöltyngd börn tóku þátt í rannsókninni. Öll börn voru metin með MELB málþroskaprófi (Þóra Másdóttir o.fl., 2021) og sérhönnuðu orðaforðaprófi fyrir rannsóknina á þremur tímapunktum: fyrir íhlutun, beint í kjölfar íhlutunar og sex mánuðum eftir íhlutun. Spurningalisti, sem var notaður til að lýsa málþroska hvers barns, var einnig fylltur út á hverjum tímapunkti af leikskólakennurunum (sem svöruðu til um íslenskufærni barnsins) og foreldrum (sem svöruðu til um færni í íslensku og öðrum tungumálum). Íhlutunin átti sér stað frá janúar til júní 2023 og var síðustu gögnum aflað í febrúar 2024. Sem stendur er verið að greina gögnin og bráðlega verða birtar niðurstöður um hvaða áhrif Orðaheimurinn hafði á málþroska barnanna í rannsókninni (Crowe, Einarsdóttir, Másdóttir og Karlsson, 2024). Bráðabirgðaniðurstöður úr smærri hlutum rannsóknarinnar eru þegar aðgengilegar en nemar í talmeinafræði skoðuðu afmarkaða hluta rannsóknarinnar í meistaraverkefnum sínum.

• Bryndís Bergþórsdóttir (2024) rannsakaði áhrif 18 vikna íhlutunar í leikskólum þar sem málörvunarefnið Orðaheimurinn hafði verið notað og greindi hluta þeirra gagna sem safnað hafði verið. Árangur 110 eintyngdra og tvítyngdra barna, sem valin höfðu verið skilmerkilega, var borinn saman en börnin höfðu ýmist hlotið íhlutun með Orðaheiminum eða enga íhlutun. Marktækar bætingar mældust á Orðaheimstengdum orðaforða og flokkaþekkingu hjá þeim börnum sem höfðu fengið íhlutun samanborið við börn sem fengu enga íhlutun. Aftur á móti var ekki hægt að sýna fram á marktæka bætingu íhlutunar með Orðaheiminum þegar Orðaheimstengdur hugtakaskilningur átti í hlut eða þegar frammistaða á stöðluðu mati á tungumálafærni var mæld. Árangur eintyngdra, íslenskumælandi barna mældist meiri eftir íhlutun með Orðaheiminum samanborið við fjöltyngda jafnaldra.

• Björg Einarsdóttir (2024) rannsakaði meðferðarheldni í framkvæmd íhlutunar með Orðaheiminum meðal leikskólakennara. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að skera úr um hvort niðurstöður mælinga á börnunum í rannsókninni megi rekja til íhlutunarinnar eða hvort aðrir þættir gætu hafa haft áhrif á bætingu eða skort á bætingu. Niðurstöður sýndu fram á að flest börn höfðu fengið a.m.k. 80% af þeim málörvunarstundum sem lagt var upp með. Misræmis gætti á milli þess hvernig kennararnir mátu að þeim hefði tekist að koma aðalatriðum til skila í málörvunarstundunum og þess hvernig rannsakendur mátu hvernig tekist hafði til.

• Hanna Einarsdóttir (2024) rannsakaði félagslegt réttmæti (e. social validity) Orðaheimsins með því að taka viðtöl við þá leikskólakennara sem tóku þátt í að innleiða meðferðarleiðina og stjórnendur sömu leikskóla þar sem Orðaheimurinn var innleiddur. Félagslegt réttmæti lýsir því að hve miklu leyti íhlutun er félagslega samþykkt eða metin af notendum meðferðarleiðarinnar og tengist því beint hversu líklegt það er að íhlutunin verði notuð þegar rannsóknarinnar nýtur ekki lengur við. Niðurstöðurnar sýna fram á að kennararnir og stjórnendurnir telja Orðaheiminn vera mikilvægt tól til að efla íslenskufærni og að aðferðir Orðaheimsins teljist viðeigandi og fýsilegar. Þó voru gerðar tillögur að minniháttar breytingum á Orðaheiminum fyrir næstu rannsókn.

• Auður Ragnarsdóttir (2024) kannaði hvort munur væri á lestrarhegðun leikskólakennara sem fengu markvissa þjálfun í samræðulestri og þeim sem fengu ekki sérstaka þjálfun í samræðulestri ásamt því að meta hvort SABR-2.2 (Systematic Assessment of Book Reading 2.2.) matslistinn hentaði til að meta lestrarhegðun leikskólakennaranna í samræðulestri. Fjörutíu og eitt myndband af 22 kennurum að lesa

þrjár frásagnarbækur var metið og voru niðurstöður rannsóknarinnar þær að SABR-2.2 reyndist hafa gott notagildi til að meta gæði samræðulesturs meðal leikskólakennaranna.

Efniviður Orðaheimsins

Hægt er að hlaða niður efnivið Orðaheimsins í gegnum þessa Google möppu eða með QR kóðanum.

Þakkir

Eftirfarandi aðilar fjármögnuðu þróun og rannsóknir á Orðaheiminum: Menntarannsóknarsjóður, Rannís, Nýsköpunarsjóður námsmanna, Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur og Þróunarsjóður námsgagna. Jóhanna T. Einarsdóttir og Þóra Másdóttir voru meðrannsakendur verkefnisins og veittu Susan Neuman, Þorlákur Karlsson og Þóra Sæunn Úlfsdóttir mikilvæg ráð og samstarf. Sá hópur sem sá um að hanna efnivið og framkvæma úttektir og rannsóknir fyrir Orðaheiminn stendur saman af: Ásu Birnu Einarsdóttur, Auði Ragnarsdóttur, Björgu Einarsdóttur, Bryndísi Bergþórsdóttur, Hönnu Einarsdóttur, Iðunni Kristínardóttur, Jane Petru Gunnarsdóttur, Lísu Mikaelu Gunnarsdóttur, Rebekku Rán Magnúsdóttur, Sædísi Dúadóttur Landmark, Svövu Heiðarsdóttur og Ösp Vilberg Baldursdóttur. Kærar þakkir til allra leikskólastjórnenda, kennara, barna og foreldra sem tóku þátt í rannsókninni.

Heimildir:

Áslaug Jónsdóttir (2007). Ég vil fisk!. Mál og Menning.

Auður Ragnarsdóttir (2024). Preschool teacher shared-reading behaviours: A pilot study of the effect of explicit training in the Orðaheimurinn study [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. https://hdl.handle.net/1946/48643

Bialystok, E. og Craik, F. I. M. (2010). Cognitive and linguistic processing in the bilingual mind. Current Directions in Psychological Science 19(1), 19–23. https://doi.org/10.1177/0963721409358571

Björg Einarsdóttir (2024). Orðaheimurinn: The fidelity of a soft-structured intervention evaluated in Icelandic preschools [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. https://hdl.handle.net/1946/48629

Bryndís Bergþórsdóttir (2024). The impact of Orðaheimurinn language intervention on the vocabulary of monolingual and multilingual Icelandic-speaking preschoolers: Findings of a CRCT [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. https://hdl.handle.net/1946/48623

Crowe, K., Cuervo, S., Guiberson, M. og Washington, K. N. (2021). A systematic review of interventions for multilingual preschoolers with speech and language difficulties. Journal of Speech, Language and Hearing Research, 64(11), 4413-4438. https://doi.org/10.1044/2021_JSLHR-21-00073

Crowe, K., Einarsdóttir, J. T., Másdóttir, Þ. og Karlsson, Þ. (2024). An evidence-based vocabulary intervention for multilingual children in Iceland: A cluster randomized-control trial of Orðaheimurinn [handrit í undirbúningi].

Hjördís Hafsteinsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Iris Edda Nowenstein (2022). Íslenskukunnátta tvítyngdra barna: Tengsl staðlaðra málþroskaprófa og málsýna. Netla https://netla.hi.is/greinar/2022/alm/08.pdf

Hagstofa Íslands. (2024a). Children in pre-primary institutions having another mother tongue than Icelandic 19982022 https://px.hagstofa.is/pxen/pxweb/en/Samfelag/Samfelag__skolamal__1_leikskolastig__0_lsNemendur/ SKO01103.px/table/tableViewLayout2/

Hagstofa Íslands. (2024b). Completion rate and dropout from upper secondary education by background 19952022 https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__skolamal__3_framhaldsskolastig__1_fsProf/ SKO03224.px/table/tableViewLayout2/

Hagstofa Íslands. (2024c). Population born abroad by background, sex and country of birth 1996-2023. https://px.hagstofa.is/pxen/pxweb/en/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__3_bakgrunnur__Uppruni/MAN43004.px/ table/tableViewLayout2/

Hagstofa Íslands. (2024d). Population – key figures 1703-2024 https://px.hagstofa.is/pxen/pxweb/en/Ibuar/ Ibuar__mannfjoldi__1_yfirlit__yfirlit_mannfjolda/MAN00000.px/table/tableViewLayout2/

Halldór Á. Elvarsson (2010). Upp í sveit. Mál og Menning.

Hanna Einarsdóttir (2024). The social validity of Orðaheimurinn for supporting multilingual children’s Icelandic vocabulary development: Perspectives from teachers and directors. „This is just a language stimulant on a silver platter. You don’t need anything more, just off you go.“ [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. https://hdl.handle.net/1946/47053

Kristjana Friðbjörnsdóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir (2015). Freyja og Fróði í sundi. Forlagið.

Neuman, S. B. (2017). The World of Words: A shared-book reading program to promote vocabulary https://www.worldofwordswow.com/wp-content/uploads/2019/11/WOW-White-Paper-2017-2.pdf

Neuman, S. B. og Kaefer, T. (2018). Developing low-income children’s vocabulary and content knowledge through a shared book reading program. Contemporary Educational Psychology, 52, 15-24. https://doi.org/10.1016/j.cedpsych.2017.12.001

Neuman, S. B., Samundra, P. og Danielson, K. (2021). Effectiveness of scaling up a vocabulary intervention for lowincome children, pre-K through first grade. The Elementary School Journal, 121(3), 385-409. https://doi.org/10.1086/712492

Sædís Dúadóttir Landmark (2022). Orðaheimurinn: Málörvun fjöltyngdra leikskólabarna í gegnum leik [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. http://hdl.handle.net/1946/43377

Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason (2016). Orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. Netla, 1–25. http://hdl.handle.net/10802/11882

Sigríður Ólafsdóttir og Hrafnhildur Ragnarsdóttir (2010). Íslenskur orðaforði íslenskra grunnskólanema sem eiga annað móðurmál en íslensku. Netla, 1-10. https://netla.hi.is/serrit/2010/menntakvika2010/alm/023.pdf

Svava Heiðarsdóttir (2022). Málörvun fjöltyngdra leikskólabarna með kennslustýrðri nálgun [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. http://hdl.handle.net/1946/43203

Thordardottir, E. (2020). Are background variables good predictors of need for L2 assistance in school? Effects of age, L1, amount, and timing of exposure on Icelandic language and nonword repetition scores. International Journal of Bilingual Education and Bilingualism, 23(4), 400-422. https://doi.org/10.1080/13670050.2017.1358695

Thordardottir, E. (2021). Adolescent language outcomes in a complex trilingual context: When typical does not mean unproblematic. Journal of Communication Disorders, 89, 1-16. https://doi.org/10.1016/j.jcomdis.2020.106060

Thordardottir, E. T. og Juliusdottir, A. G. (2013). Icelandic as a second language: A longitudinal study of language knowledge and processing by school-age children. International Journal of Bilingual Education and Bilingualism, 16(4), 411–435. https://doi.org/10.1080/13670050.2012.693062

What Works Clearinghouse, Institute of Education Sciences, & U.S. Department of Education. (2023). World of Words https://ies.ed.gov/ncee/wwc/InterventionReport/731?utm_medium=email&utm_source=newsflash

World of Words. (2024). A research-based shared reading program that integrates rich vocabulary instruction in science-based topics https://www.worldofwordswow.com/

Þóra Másdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2021). Málfærni eldri leikskólabarna (MELB). Staðlað málþroskapróf fyrir börn á aldrinum 4-6 ára. Útgefandi: Háskóli Íslands og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. ISBN: 978-9935-9071-3-4

Störf talmeinafræðinga á

Geðheilsumiðstöð barna

Íþessum pistli verður farið yfir starfsemi Geðheilsumiðstöðvar barna (GMB) og stiklað á stóru í starfi talmeinafræðinga þar. GMB varð til í apríl 2022 og starfar sem hluti af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Þegar GMB varð til sameinuðust Þroska- og hegðunarstöð og geðheilsuteymi fjölskylduverndar og til varð nýtt geðheilsuteymi fyrir börn. GMB veitir 2. stigs geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu fyrir fjölskyldur með börn frá meðgöngu að 18 ára aldri. Miðstöðin sinnir greiningu, ráðgjöf og meðferð vegna geð- og þroskavanda barna og unglinga ásamt því að styðja við tengslamyndun foreldra og barna frá 0-5 ára.

Hjá GMB starfar þverfaglegur starfshópur t.d. sálfræðingar, læknar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, fjölskyldufræðingar, atferlisfræðingur, heilbrigðisgagnafræðingur og talmeinafræðingar. Áhersla er lögð á gott viðmót og fjölskyldumiðaða þjónustu. GMB á reglulegt samstarf við þjónustuveitendur víðsvegar um landið og sinnir starfsþjálfun háskólanema á sviðinu. GMB heldur fræðsluog meðferðarnámskeið fyrir foreldra og börn. Þátttakendur greiða fyrir námskeið, að öðru leyti er þjónusta GMB gjaldfrjáls.

Höfundur þessa pistils er talmeinafræðingur og hóf störf hjá GMB þann 1. febrúar 2023, fyrir þann tíma hafði enginn talmeinafræðingur starfað á GMB né innan HH.

Teymin á GMB Á GMB starfa fjögur teymi auk stoðteymis sem sinnir skrifstofu- og móttökustörfum.

Teymin eru: fjölskylduteymi 0-5 ára, tvö greiningarteymi sem skiptast í yngri og eldri barna teymi og ráðgjafar- og meðferðarteymi. Verkefni teymanna eru fjölbreytt en öll hafa þau að leiðarljósi fjölskyldumiðaða nálgun.

Ráðgjafar- og meðferðarteymi veitir börnum og ungmennum að 18 ára aldri geðheilbrigðisþjónustu við miðlungs til alvarlegum geðrænum vanda sem þarfnast þverfaglegrar heilbrigðisþjónustu. Eðli þjónustu fer eftir alvarleika og samsetningu vandans og er hún metin í samráði við barn eða ungmenni og forráðamenn. Einnig veitir teymið ráðgjöf til fagaðila og annarra þjónustuaðila á landsvísu. Mælst er til að forvinna hafi átt sér stað og reynt hafi verið á úrræði í nærumhverfi barns/ungmennis áður en vísað er í ráðgjöf og/eða meðferð hjá GMB. Þjónustan er takmörkuð við ákveðinn tíma og miðar að því að tengja einstaklinga og fjölskyldur við aðra þjónustu í nærumhverfi eða í aðra viðeigandi þjónustu ef þörf er á. Nokkuð oft er málum sem hafa farið í gegnum greiningarteymin vísað í þetta teymi.

Fjölskylduteymi 0-5 ára veitir þjónustu til verðandi foreldra og foreldra ungra barna (0–5 ára) sem þurfa tengslaeflandi meðferð vegna eigin vanlíðanar, flókins og/eða fjölþætts vanda og ef áhyggjur eru af líðan eða þroska barns. Markmið fjölskylduteymis 0-5 ára er að efla örugga tengslamyndun á milli foreldra og barns, að foreldrar greini eigin líðan og reynslu frá líðan og reynslu barnsins og bregðist við á viðeigandi hátt.

Höfundur:

Hrafnhildur Halldórsdóttir talmeinafræðingur

Greiningarteymin eru tvö; Yngri barna teymi sem sinnir 6-12 ára börnum og Eldri barna teymi sem sinnir 13-18 ára börnum. Unnin er þverfagleg greining á taugaþroskaog geðrænum vanda svo sem ADHD, einhverfurófi, kvíða, hegðunarerfiðleikum og lyndisröskunum auk mismunagreiningar í tengslum við námsvanda, slakan vitsmunaþroska, málþroskavanda og félagsþætti. Markmið greiningar er kortlagning á vanda barnsins og hömlun og að skoða hvaða úrræði gagnast barninu og fjölskyldu þess. Nauðsynlegt er að frumgreining sálfræðings liggi fyrir og viðmið er að vitsmunaþroskamat sýni greind almennt yfir viðmiðum fyrir þroskahömlunarmörk. Þverfaglegur hópur kemur að greiningunum og tilgangur þeirra er að svara spurningum um hvort hamlandi frávik séu til staðar og ef svo er hvaða frávik það eru. Eftir greiningu er mælt með viðeigandi úrræðum og vísað í frekari meðferð ef þörf er á og ráðgjöf veitt til foreldra, grunnskóla og skólaþjónustu.

Störf talmeinafræðinga á GMB Tveir talmeinafræðingar vinna á GMB. Þeir vinna þvert á öll teymin og sinna greiningum og ráðgjöf bæði til foreldra og nærumhverfis skjólstæðinganna en einnig til stálpaðra skjólstæðinga. Tilvísanir í málþroskamat koma ýmist frá teymisstjórum teymanna þegar verið er að úthluta málum eða frá sálfræðingum sem eru að vinna í einstökum málum og uppgötva að þörf er á málþroskamati samhliða öðrum athugunum eða meðferð. Stór hluti barna sem glímir við tilfinninga-, samskiptaog/eða hegðunarvanda eru með undirliggjandi málþroskavanda sem ekki hefur verið skoðaður og þau börn geta verið að greinast með málþroskaröskun DLD samhliða öðrum greiningum eða eingöngu.

Á GMB er lögð áhersla á þverfaglega teymisvinnu þar sem mismunagreiningar skipta miklu máli og eru talmeinafræðingarnir hluti af bæði stórum og litlum teymisfundum með þeim fagaðilum sem koma að skjólstæðingum hverju sinni. Mismunagreiningar geta m.a. snúist um að greina á milli ADHD og málþroskaröskunar DLD eða einhverfu og DLD.

Töluverður tími fer því í að ræða hvern og einn skjólstæðing sem talmeinafræðingarnir hitta. Einnig eru óteljandi þær fyrirspurnir sem koma frá samstarfsfólki um skjólstæðinga sem ekki hefur verið vísað til okkar talmeinafræðinganna, en spurningar um málþroska vakna ósjaldan upp í ferlinu. „Má ég spyrja þig um eitt?“ heyrist nokkrum sinnum í viku á skrifstofu talmeinafræðinga og er það mjög jákvætt.

Mismunagreiningar geta m.a. snúist um að greina á milli ADHD og málþroskaröskunar DLD eða einhverfu og DLD.

Þegar kemur að greiningum á málþroska höfum við verið að styðjast við margskonar greiningartæki. Þar liggur þó helsta áskorun starfsins þar sem það er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að greiningartækjum, sérstaklega á eldri börnum. Sem hluti af heilsugæslunni höfum við aðgang að ung- og smábarnavernd og þannig hluta af þroskasögu barnanna en einnig er tekin ítarleg þroskasaga í viðtalsformi við foreldra innan teymanna. Fyrir liggja svo gögn úr frumgreiningu og leitast er við að afla upplýsinga frá aðilum sem koma að börnunum. Í beinni athugun hjá okkur talmeinafræðingum má nefna hversu mikilvægt það er að ná góðu málsýni sem þó getur verið töluverð áskorun að teknu tilliti til þess skjólstæðingahóps sem kemur á GMB. Einnig er mikilvægt að taka tillit til annarra einkenna taugaþroskafrávika, vitsmunaþroska og/eða fjöltyngis. Maður þarf því oft að vera við ýmsu búinn. Greiningarferlið getur tekið þó nokkurn tíma eingöngu vegna þess að barnið þarf sinn tíma til að fást til samvinnu eða einkennamyndin er svo flókin að teymisfundirnir verða margir og sífellt bætast fleiri athuganir eða símtöl við.

Rödd talmeinafræðinga skiptir gríðarlegu máli, bæði sem hluti af einkennamynd og ef þörf er á mismunagreiningu þegar kemur að taugaþroskafrávikum.

Rödd talmeinafræðinga skiptir gríðarlegu máli, bæði sem hluti af einkennamynd og ef þörf er á mismunagreiningu þegar kemur að taugaþroskafrávikum. Þegar niðurstöður liggja fyrir er algengast að talmeinafræðingur skili niðurstöðum ásamt sálfræðingnum sem hefur haft umsjón með máli skjólstæðingsins, bæði til aðstandenda og barna, og í flestum

tilfellum einnig til skóla. Dæmigerð vika hjá okkur talmeinafræðingunum inniheldur því greiningar, teymisfundi, skilaviðtöl til foreldra og barna, skilafundi til skóla, niðurstöðufundi með samstarfsfólki, ráðgjafartíma og svo að sjálfsögðu skýrslu- og nótuskrif, endalaust grufl og spjall og að bregðast við „má ég spyrja þig um eitt“. Starfið á GMB er því afar fjölbreytt, lifandi og gefandi.

Það er von okkar í talmeinafræðiteyminu á GMB að teymið stækki á næstu árum og að við getum farið að bjóða upp á námskeið fyrir þau börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra sem greinast með málþroskaröskun DLD eða málröskun sem hluta af einhverfu. Einnig langar okkur að efla ráðgjafarhluta starfsins til muna út á við og sérhæfa okkur enn frekar í mismunagreiningum.

Að þrífast í krefjandi starfi

Höfundur:

Auður Erla

Gunnarsdóttir

sálfræðingur hjá Líf og sál sálfræði- og ráðgjafarstofu

Að þrífast í krefjandi starfi var yfirskrift vinnustofu sem höfundur greinar hélt fyrir Félag talmeinafræðinga í maí 2024. Var þar fjallað um helstu þætti sem mikilvægir eru varðandi vellíðan í krefjandi starfi. Það er fjölmargt sem getur haft áhrif á upplifun starfsfólks á vinnunni og margir streituvaldar geta verið í starfsumhverfinu. Stundum er um að ræða verkefnatengda streituvalda, svo sem fjölda verkefna, eða kröfur um hraða. En einnig geta samskipti, bæði innan og utan vinnustaðar, valdið streitu og álagi ef þau eru neikvæð eða erfið. Sé hins vegar vel og faglega staðið að samskiptum á vinnustað ýtir það undir að starfsmaður nái að dafna og líði vel.

Ef samskiptin eru ekki góð getur það orðið til þess að starfsmaður upplifi að sálrænu öryggi hans sé ógnað. Með sálrænu öryggi er verið að vísa til þeirrar grunnþarfar fólks að fá að tilheyra hópi þar sem allir eru samþykktir og virðing er viðhöfð í samskiptum. Þar eru faglegar leiðir nýttar til lausnar á þeim ágreiningi sem upp kann að koma.

Ef starfsmaður upplifir að sálrænu öryggi hans sé ógnað, getur það haft alvarlegar afleiðingar varðandi almennt heilsufar og líðan viðkomandi. Störf talmeinafræðinga fela í sér mikil og oft náin samskipti við ýmsa aðila, svo sem skjólstæðinga, aðstandendur, aðrar fagstéttir eða starfssemi. Það getur því reynt töluvert á í samskiptum og var því áhersla vinnustofunnar á samskipti almennt, jafnt jákvæð sem neikvæð eða erfið og krefjandi samskipti. Hér á eftir verða rifjaðir upp þeir helstu punktar sem fram komu er varða mikilvæga þætti í samskiptum.

Jákvæð og uppbyggileg samskipti Jákvæð og uppbyggileg samskipti geta falið í sér ýmsa þætti en þó má segja að ákveðin grundvallaratriði séu nauðsynleg. Eitt af þeim er að sýna gagnkvæma virðingu í garð viðmælanda með því t.d. að leggja sig fram við að vera sveigjanlegur og sýna viðmælanda skilning. Jafnframt er mikilvægt að leitað sé lausna á því sem rætt er um. Þar þarf að viðhafa virka hlustun, það er að það sé greinilegt að við séum

með athyglina við það sem viðkomandi er að ræða um. Einnig getur verið gagnlegt að draga saman það sem sagt var, nota hrósið og huga að óyrtum þáttum í eigin fari eins og líkamsstöðu okkar eða augnaráði. Við þurfum að veita viðbrögðum viðmælenda athygli, bregðast við og taka ábyrgð ef við teljum okkur sjá í viðmóti hans að við höfum farið yfir mörk. Við getum þannig rökrætt á málefnalegan hátt og jafnvel verið ósammála, en virðing og yfirvegun er viðhöfð. Hver og einn þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér og leggja sig fram við að eiga í jákvæðum samskiptum við aðra.

Erfið samtöl Þrátt fyrir að við leggjum okkur flest fram við að eiga í jákvæðum samskiptum getum við lent í erfiðum samtölum þar sem viðmælandi bregst illa við eða samskiptin verða mjög krefjandi. Yfirleitt gerist slíkt vegna hugsunarleysis, misskilnings eða jafnvel vegna streitu og álags. Þá er mikilvægt að halda ró og reyna að milda samræðurnar með því að halda sér innan ramma jákvæðra samskipta. Nýta þarf þá virka hlustun og reyna að greina af hverju viðmælandi er reiður eða sár og sýna skilning. Mikilvægt er að leita lausna og setja málið í farveg. Ef metið er svo að samtalið sé komið í strand getur verið gagnlegast að enda það en þá með þeim hætti að halda eigi því áfram síðar. Mikilvægt er að sýna virðingu en jafnframt ákveðni.

Ef við teljum að fram undan sé erfitt samtal, er gott að undirbúa sig vel. Mikilvægt er að búa til ramma, þ.e. hvernig best er að byrja og enda samtalið og hvaða atriði það eru sem er mikilvægt að komist til skila. Einnig þarf að huga að aðstæðum, þ.e. hvar er best að samtalið fari fram, hvenær, hversu lengi það á að standa og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir truflun. Einnig er mikilvægt að huga að eigin líðan og hegðun í samtalinu og hvernig við ætlum að takast á við hugsanleg neikvæð viðbrögð þeirra sem við ræðum við. Mikilvægt er að fara ekki í vörn ef við fáum neikvæð viðbrögð, því vörnin eykur einungis stigmögnun í samskiptum og leysir engan vanda. Innri stjórn er mikilvæg þar sem við höldum okkur í faglega hlutverkinu og við efnið. Varast ber að tala í kringum efnið, fara í vörn eða í þras eða þrætur.

En hvernig jöfnum við okkur eftir slík samtöl?

Það er mikilvægt að hlúa að sér sem fagaðila en einnig í persónulega lífinu til að standa traustari fótum.

Þá mætum við nýjum aðstæðum með forvitni, leyfum okkur að gera mistök, kunnum að setja mörk og búum yfir þrautseigju og þolinmæði.

Störf talmeinafræðinga fela í sér að þurfa stundum að vera boðberi slæmra frétta eða niðurstaðna og er þá hjálplegt að hafa ofangreint í huga. Þá er jafnframt mikilvægt að vera skýr í framsetningu og tala á „mannamáli“. Gagnlegt getur verið að spyrja viðkomandi hvort hann hafi skilið og meðtekið upplýsingar sem lagðar voru fram. Mikilvægt er að fylgja samtali eftir fljótlega. Oft er verið að fjalla um viðkvæm og flókin mál og viðmælendur geta upplifað streitu og vanlíðan í samtalinu og því ekki meðtekið allt sem fram fer. Því er oft gagnlegt að eiga símtal næstu daga við viðkomandi til að fylgja málum eftir og gefa rými fyrir spurningar sem kunna að hafa vaknað. Þannig er hægt að tryggja að upplýsingar hafi skilað sér á réttan hátt og að sátt ríki.

En hvað svo? Erfið samtöl reyna gjarnan á fagfólk og því þarf að huga vel að því að hlúa að sér eftir erfið samtöl. En hvernig jöfnum við okkur eftir slík samtöl? Eitt af því sem er mikilvægt að muna er að við berum ekki ábyrgð á tilfinningum eða framkomu viðmælenda. Við berum eingöngu ábyrgð á okkar eigin viðbrögðum. Ef við höfum átt í erfiðum samskiptum getur verið gott að ræða við einhvern sem við treystum um reynslu okkar og skoða eigin hugsanir. Þar er mikilvægt að skoða hvort upp hafi komið neikvæðar hugsanir í kjölfar samtalsins og hvort hægt sé að setja í staðinn rökréttar hugsanir. Í því ljósi getur verið mjög gagnlegt að sækja sér handleiðslu hjá fagaðila, svo sem hjá reyndari talmeinafræðingum eða hjá sálfræðingum, til að spegla sína upplifun og fá stuðning til að takast á við krefjandi hliðar starfsins. Ávinningur af handleiðslu er yfirleitt bætt líðan fagaðilans og betri upplifun hans í starfi og í persónulega lífinu.

Það er mikilvægt að hlúa að sér sem fagaðila en einnig í persónulega lífinu til að standa traustari fótum. Þá mætum við nýjum aðstæðum með forvitni, leyfum okkur að gera mistök, kunnum að setja mörk og búum yfir þrautseigju og þolinmæði. Ef við hins vegar stöndum veikum fótum þá förum við gjarnan í vörn, hræðumst mistök og dæmum aðra og eigum erfiðara með að sjá okkar þátt í samskiptum. Við getum unnið markvisst að því að standa traustum fótum með því að nýta gagnlegar leiðir í samskiptum og hlúa að okkur sem fagfólki og sem einstaklingum.

Dagur í lífi talmeinafræðings

Kristín Theódóra Þórarinsdóttir talmeinafræðingur hjá Garðabæ

Mánudagur

13. janúar 2025

6:45 Dagurinn minn byrjar oftast á rjúkandi kaffibolla með Agli manninum mínum. Ég myndi skilgreina mig sem mikla A týpu, vil taka daginn frekar snemma í rólegheitunum. Ég vek Þórarinn Smára son minn um 7 leytið og við byrjum að græja okkur fyrir daginn.

8:30 Dagskráin mín er fjölbreytt og mismunandi eftir dögum. Ég sinni leikskólum Garðabæjar og deili viðveru minni á milli þeirra í lotum ásamt því að sinna öðrum verkefnum, fundum, ráðgjöf og fræðslu. Í dag hef ég bókað foreldramiðaða talþjálfun í einum leikskóla. Ég fer yfir framburðaræfingar með barninu

og sýni og handleiði foreldra. Tilgangurinn er að virkja foreldra í markvissri heimavinnu. Við náum góðu spjalli og gengur talþjálfunin vel. Við sammælumst um að heyrast eftir 8 vikur og taka stöðuna.

9:00 Ég hef bókað málþroskamat fyrir tvo unga drengi í sama leikskóla. Eitt endurmat hjá rúmlega fjögurra ára gömlum dreng og fyrsta mat hjá einum þriggja ára. Ég reyni að gefa mér tíma til að spjalla við sérkennslustjóra og kennara leikskólans á meðan ég er þar, með því upplifi ég meira traust og samvinnan verður betri. Málþroskamatið gengur upp og ofan og

Kristín Theódóra í vinnugír.

úthaldið og samvinnan af skornum skammti hjá báðum drengjunum. Ég þarf að koma aftur og klára prófanirnar.

11:00 Fundur skólaþjónustuteymis er haldinn hvern mánudag á skólaskrifstofunni. Í skólaþjónustunni eru sálfræðingar, sérkennslufulltrúi, fulltrúar leikskóla og skóla ásamt talmeinafræðingum. Nokkur mál eru tekin upp á fundinum og þau spegluð á þverfaglegan hátt.

12:00 Ég nota hádegin mikið til að senda og svara tölvupóstum, klára dagnótur og skrifa skýrslur.

13:30 Ég fer í annan leikskóla eftir hádegi og hitti þar einn ungan dreng. Tilgangurinn er að leggja fyrir MUB málþroskapróf. Hitti hann fyrst á deildinni, spjalla og fylgist með honum í leik. Hann er meira en til í að koma með mér og gengur fyrirlögnin glimrandi vel.

15:00 Starfsmannafundur Fræðslu - og menningarsviðs er haldinn mánaðarlega. Á fundinum er farið yfir þau verkefni sem eru í vinnslu á sviðinu og önnur mál sem falla til af yfirmanninum, fjárhagsáætlun kynnt og betri vinnutími ræddur.

16:30 Ég er oftast bókuð í ræktina kl. 16:30 á mánudögum svo ég er orðin óþreyjufull rúmlega 16 þegar fundurinn klárast. Ég mæli mér mót við Egil og næ rétt svo að lenda á dýnunni í Laugum á réttum tíma. Þar næ ég að svitna vel og pústa út/losa um orku eftir amstur dagsins.

17:30 Þegar ég kem heim þá er Þórarinn nýkominn af körfuboltaæfingu. Við náum spjalli um daginn og ræðum kvöldmat. Í kvöld verður fiskur sem ég var búin að taka úr frysti. Sonurinn tekur ekkert sérstaklega vel í það en sættir sig við valið.

Kvöldið fer í heimalestur hjá drengnum, spilatíma og notalegheit. Er að fylgjast með þáttum sem heita Silo og við Egill náum að horfa á einn þátt áður en stuttur bókalestur tekur við fyrir svefninn. Slekk á ljósi ca. 10:30 tilbúin fyrir næsta dag.

Kristín Theódóra á ASHA ráðstefnu í Boston 2023

Gervigreind sem stuðningstæki fyrir börn með málþroskaröskun

Höfundur:

Bergmann Guðmundsson verkefnastjóri í upplýsingatækni við Brekkuskóla og Giljaskóla

Málþroskaröskun (DLD) hefur umtalsverð áhrif á daglegt líf barna, bæði hvað varðar nám og einnig félagsleg samskipti. Með tilkomu gervigreindar (AI) opnast nýir og spennandi möguleikar í stuðningi við börn með DLD. Þessi tækni getur ekki aðeins aðlagað námsefni að þörfum hvers barns heldur einnig veitt endurgjöf jafnóðum á framburð ásamt því að geta hjálpað til við félagsfærniþjálfun í öruggu umhverfi.

Við vitum að börn með DLD þurfa oft sérstakan stuðning við að tileinka sér tungumálið, bæði í töluðu og rituðu máli. Þau eiga gjarnan erfitt með að skilja flókin fyrirmæli, læra ný orð og beita réttri setningaskipan. Hefðbundnar kennsluaðferðir geta verið ófullnægjandi fyrir þessi börn, sem þurfa oft einstaklingsmiðaða nálgun og endurteknar æfingar til að ná tökum á tungumálinu.

Í þessari grein verður skoðað hvernig gervigreind getur stutt við börn með DLD og bætt bæði námsárangur þeirra og félagsfærni. Kafað verður ofan í það hvernig AI getur aðlagað námsefni, veitt endurgjöf jafnóðum og skapað öruggt æfingaumhverfi fyrir félagsleg samskipti. Einnig verður litið til framtíðar og rýnt í hvernig áframhaldandi þróun gervigreindar getur opnað enn fleiri möguleika í stuðningi við börn með DLD.

Einstaklingsmiðuð nálgun með gervigreind Þó að notkun gervigreindar, við þjálfun á íslensku tali og máli, sé enn á frumstigi eru spennandi tækifæri framundan og áhugavert að vita hvort AI geti hjálpað börnum með DLD að ná betri tökum á málinu með einstaklingsmiðaðri nálgun.

Í framtíðinni er vonast til að gervigreind geti unnið með íslenska málkerfið, greint veikleika í málnotkun og sniðið æfingar að þörfum hvers barns.

Á Íslandi er verið að stíga fyrstu skrefin í þessa átt. Þótt að enn séu ekki komin fullþróuð AIkerfi fyrir íslensku eru til staðar tæknilausnir sem geta aðlagað námsefni að getu barnsins. Þetta eru til dæmis forrit sem fylgjast með framvindu nemandans og stilla erfiðleikastig verkefna eftir árangri.

Hvað varðar málfærniæfingar á enskri tungu getur gervigreind:

- Greint nákvæmlega hvaða beygingarform barnið á í erfiðleikum með

- Búið til sérsniðnar æfingar fyrir setningafræði

- Aukið erfiðleikastig smám saman eftir því sem barnið sýnir framfarir

- Tengt æfingar við áhugasvið barnsins til að auka áhuga og einbeitingu

Endurgjöf á framburð, sem gefin er jafnóðum, er annað svið þar sem gervigreind hefur sýnt mikla möguleika. Í gegnum raddgreiningu getur tæknin:

- Hlustað á framburð barnsins og borið hann saman við réttan framburð

- Veitt nákvæma leiðsögn um hvernig á að mynda hljóðin rétt jafnóðum

- Sýnt myndrænt hvernig tunga og varir eiga að hreyfast

- Fylgst með framförum yfir tíma

Í framtíðinni er vonast til að gervigreind geti unnið með íslenska málkerfið, greint veikleika í málnotkun og sniðið æfingar að þörfum hvers barns. Þar til það er hægt þarf að nýta þær lausnir sem við höfum nú þegar samhliða því að þróa nýjar lausnir fyrir íslenskt málumhverfi.

Sjónrænar og hljóðrænar lausnir

• Dæmi um sjónrænt kennsluefni

Börn með málþroskaröskun DLD njóta góðs af því að fá upplýsingar bæði sjónrænt og heyrnrænt. Nútímatækni býður upp á fjölbreyttar leiðir til að samþætta þessar nálganir. Spjaldtölvur og snjallsímar gera það auðvelt að sameina myndir, hreyfimyndir og hljóð á gagnvirkan hátt.

Sjónrænn stuðningur er öflugt verkfæri þegar kemur að kennslu barna með DLD. Hann getur verið í formi einfaldra myndaspjalda, myndasagna með myndrænum stuðningi eða stafrænna mynda sem sýna daglegar athafnir og hugtök. Með tilkomu snjalltækja er hægt að gera þessi hjálpartæki gagnvirkari. Staða tækninnar í dag ætti að gera það mögulegt að þróa tækni þar sem börn geta snert mynd á skjá og heyrt réttan framburð orðs sem myndin táknar. Þetta eru allt forrit og öpp sem hægt er að þróa miðað við tæknina sem við höfum í dag.

Þó að íslenskur talgervill sé til og í

stöðugri þróun erum við ekki enn komin með fullþróað kerfi sem getur greint íslenskan framburð og veitt endurgjöf jafnóðum.

Tæknilausnir í notkun Þó að gervigreind fyrir íslenska tal- og málþjálfun sé enn í þróun eru nú þegar margar áhugaverðar tæknilausnir í boði sem geta hjálpað börnum með DLD. Þessar lausnir spanna allt frá einföldum texta-í-tal forritum yfir í flóknari gervigreindarlausnir sem geta átt samskipti við börnin og aðlagað sig að þeirra þörfum.

Hvað varðar talgervla og raddgreiningu er staðan flóknari fyrir íslensku. Þó að íslenskur talgervill sé til og í stöðugri þróun erum við ekki enn komin með fullþróað kerfi sem getur greint íslenskan framburð og veitt endurgjöf jafnóðum. Þetta er eitt af þeim sviðum þar sem þörf er á frekari þróun.

Talþjálfun og félagsfærni

Börn með DLD eiga oft í erfiðleikum með félagsleg samskipti við jafnaldra. Þau geta átt erfitt með að lesa í félagslegar aðstæður, halda uppi samræðum og taka þátt í hópastarfi.

Tæknin getur hjálpað til með þessa þætti á ýmsan hátt.

Hefðbundnar talþjálfunaræfingar hafa verið færðar yfir á stafrænt form sem gerir börnum kleift að æfa sig heima með foreldrum. Þó við höfum ekki enn fullþróuð samskiptaforrit á íslensku eru til einfaldar lausnir eins og upptökuforrit þar sem börn geta tekið upp tal sitt, hlustað á sig og æft framburð með aðstoð foreldra eða talmeinafræðinga.

Hvað varðar félagsfærni er hægt að nýta myndbandssögur og gagnvirka leiki til að kenna félagsleg samskipti. Þessi tæki geta sýnt dæmi um viðeigandi viðbrögð í ýmsum félagslegum aðstæðum og leyft börnunum að æfa sig í öruggu umhverfi.

• Aðgengislausnir fyrir lestur og skilning Helperbird (https://www.snjallkennsla.is/ helperbird) er dæmi um framúrskarandi aðgengisviðbót fyrir vafra og snjalltæki sem getur breytt texta í tal, aðlagað leturgerðir og litasamsetningar og gert veflestur aðgengilegri fyrir börn með DLD.

Speechify er annað vinsælt forrit sem les upp texta með náttúrulegri raddmyndun og gerir börnum kleift að hlusta á texta á sínum hraða. Þessar lausnir eru sérstaklega gagnlegar fyrir börn sem eiga erfitt með lestur en geta tileinkað sér efni vel í gegnum hlustun.

• Gervigreindarstudd samskipti ChatGPT, bæði í vafra og snjallsímum, hefur opnað nýja möguleika í tal- og málþjálfun. Börnin geta átt samskipti við gervigreindina á sínum forsendum, æft sig í að móta spurningar og svör, og fengið útskýringar á hugtökum sem þau skilja ekki. Hægt er að búa til sérstök GPT spjallmenni með það að markmiði að styðja við málþroska og félagsfærni. Þessi spjallmenni geta útskýrt flókin hugtök á einfaldan hátt, æft samtöl við börnin og veitt þeim endurgjöf á málnotkun.

Með tilkomu íslensku í ChatGPT hefur opnast ný vídd í tal- og málþjálfun fyrir íslensk börn með DLD. Nú geta þau æft sig í að eiga samskipti á móðurmáli sínu við gervigreind sem skilur og svarar á íslensku. Þetta er sérlega mikilvægt þar sem börn með DLD þurfa oft mikla æfingu í að móta spurningar og svör á sínu móðurmáli.

• Myndræn úrvinnsla og útskýringar

Ein áhugaverðasta nýjungin er samþætting myndavéla snjallsíma við gervigreind. Börn geta beint myndavélinni að hlut eða aðstæðum og fengið útskýringar frá gervigreindinni um það sem þau sjá samtímis. Þetta getur hjálpað þeim að byggja upp orðaforða og skilning á umhverfi sínu. Keypta útgáfan af ChatGPT býður upp á þessa frábæru viðbót við nýtingu gervigreindarinnar. Fyrir börn með DLD, sem oft læra best í gegnum sjónrænar vísbendingar, er þetta öflugt verkfæri til að tengja saman orð og raunverulega hluti.

• Stuðningur við ritun og textavinnslu SwiftKey lyklaborðið með innbyggðum leiðréttingum er dæmi um tækni sem getur hjálpað börnum með DLD við ritun. Lyklaborðið lærir á málnotkun barnsins og kemur með viðeigandi tillögur að orðum og setningum. Þetta getur aukið sjálfstraust barna í skriflegum samskiptum og hjálpað þeim að leiðrétta algengar villur í málnotkun.

• Þjálfun í gegnum samtöl Ein mikilvægasta nýjungin er möguleikinn á að þjálfa málnotkun og félagsfærni í gegnum samtöl við gervigreind. Þessi aðferð býður upp á:

• Þolinmóðan samtalsfélaga sem getur endurtekið sömu samræðurnar aftur og aftur

• Möguleika á að æfa mismunandi samskiptaaðstæður í öruggu umhverfi

• Tækifæri til að læra ný orð og hugtök í samhengi

• Endurgjöf á málnotkun og setningaskipan jafnóðum

Þessi samtalsmiðaða nálgun er sérstaklega gagnleg fyrir börn með DLD þar sem þau geta æft sig á sínum hraða, án þess að finna fyrir félagslegum þrýstingi eða kvíða sem oft fylgir samskiptum við jafnaldra.

Framtíðarhorfur og hvatning til foreldra

• Framtíðarsýn á tækninotkun í kennslu Þróun gervigreindar fyrir íslensku er í fullum gangi og framtíðarhorfur eru spennandi. Með aukinni áherslu á máltæknilausnir fyrir íslensku má búast við að á næstu árum komi fram öflugri tæki til málgreiningar og talþjálfunar. Verkefni eins og Málrómur og þróun íslenskrar málgreindar eru mikilvæg skref í þessa átt.

Framtíðarsýnin er að börn með DLD geti notað tæknina til að fá einstaklingsmiðaða aðstoð, bæði í skólanum og heima. Þetta gæti falið í sér gervigreind sem skilur og vinnur með íslenskt mál, getur greint framburð og veitt endurgjöf samtímis og aðlagað námsefni að þörfum hvers barns.

Þó er mikilvægt að hafa í huga að tæknin mun aldrei koma að fullu í stað mannlegs stuðnings. Hún er fyrst og fremst hjálpartæki sem getur aukið við og styrkt þá kennslu og þjálfun sem fram fer hjá kennurum, talmeinafræðingum og öðrum fagaðilum.

Hvatning til foreldra

Ég vil hvetja foreldra barna með DLD til að kynna sér þær tæknilausnir sem eru í boði og prófa að nota þær með börnum sínum. Gervigreind getur verið ómetanlegt hjálpartæki í daglegri tal- og málþjálfun en mikilvægt er að nálgast notkun hennar á skipulagðan hátt:

1. Byrjið á einföldum verkefnum og aukið erfiðleikastigið smám saman

2. Setjið raunhæf markmið og fylgist með framförum

3. Notið tæknina sem viðbót við aðra málörvun, ekki sem staðgengil

4. Verið virk í að ræða við barnið um það sem það er að læra

5. Deilið reynslu ykkar með kennurum og talmeinafræðingum barnsins

Hægt er að nýtagervigreind á fjölbreyttan hátt í daglegu lífi, til dæmis með því að:

- Lesa sögur saman og nota gervigreind til að útskýra ný orð og hugtök

- Æfa samtöl og félagsfærni í gegnum

öruggt umhverfi gervigreindar

- Nota myndavél snjallsímans og gervigreind til að kanna umhverfið og læra ný orð

- Hvetja til ritunar með aðstoð leiðréttingarforrita

Heimildir:

Með réttri notkun getur gervigreind orðið mikilvægur hluti af stuðningskerfi barnsins og hjálpað því að ná betri tökum á málinu. Við hvetjum foreldra til að vera opnir fyrir þessum nýju tækifærum en um leið gagnrýnir og meðvitaðir um að tæknin er aðeins eitt af mörgum verkfærum sem styðja við málþroska barnsins.

Lokaorð

Framtíðin er björt fyrir börn með DLD þegar kemur að tæknistuðningi. Með samvinnu foreldra, fagfólks og tækni getum við skapað öflugt stuðningsnet sem hjálpar þessum börnum að ná sínum markmiðum í máltöku og félagsfærni. Mikilvægt er að halda áfram að þróa íslenskar tæknilausnir og aðlaga erlenda tækni að íslensku málumhverfi, því hver framför í þessum efnum getur haft jákvæð áhrif á líf fjölda barna með DLD.

Georgiou, G. P. og Theodorou, E. (2024). Detection of developmental language disorder in Cypriot Greek children using a machine learning neural network algorithm. Journal of Technology in Behavioral Science

https://doi.org/10.1007/s41347-024-00460-4

Guðríður Emma Steinþórsdóttir og Katrín Georgsdóttir. (2023). Áhrifaþættir málþroskaröskunar á félagsfærni og líðan barna. [óútgefin B.Ed. ritgerð]. Háskóli Íslands. http://hdl.handle.net/1946/45539

Raisspour, N. (2024). The Role of AI and Adaptive Learning in Transforming English Language Teaching. https://dx.doi.org/10.2139/ssrn.4968283

Félag talmeinafræðinga þakkar eftirfarandi fyrir stuðninginn:

Sveitafélagið Vogar Grýtubakkahreppur

Þarf ég eitthvað að vita um starfræn einkenni?

Lengi var talið að aðkoma talmeinafræðinga að þjálfun sjúklinga með starfræn einkenni sem tengjast tali og máli væri óþörf. Sálfræðingar, iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar hafa um árabil sinnt þessum hópi sjúklinga en fáir hafa leitað til talmeinafræðinga.

Ef leitað er að rannsóknum um þetta efni sjást stöku greinar um starfræn taleinkenni.

Rannsóknum hefur hins vegar undið fram á síðustu árum og nú er almennt viðurkennt að aðkoma talmeinafræðinga sé mikilvæg fólki með starfræn einkenni. Samkvæmt ýmsum samtökum talmeinafræðinga í Evrópu upplifa talmeinafræðingar sem starfa á þessu sviði sig þó óörugga og að þá vanti reynslu, rannsóknir og gagnreyndar aðferðir til að vinna eftir.

Hvað eru starfræn einkenni?

Starfræn einkenni (e. functional neurological disorder, FND) eru skilgreind sem einkenni sem ekki er hægt að útskýra út frá sjúkdómi eða skaða á taugakerfinu. Þetta eru þó erfiðleikar tengdir taugakerfinu og skilaboðum sem send eru til og frá heilanum (FND Hope, e.d.). Talið er að líkamlegar orsakir, eins og veikindi eða slys, sálfræðilegar orsakir eða áföll af ýmsum toga séu helsti áhættuþáttur fyrir því að starfræn einkenni blossi upp.

Starfræn einkenni eru töluvert algengari en ætla mætti og greinast hjá fólki á öllum aldri en eru þó ekki mjög algeng hjá börnum undir tíu ára aldri (Maurer og Duffy, 2022). Sjúklingar sem greinast með þau sýna ýmis einkenni svo sem erfiðleika með hreyfingar, spennu í vöðvum eða skjálfta, erfiðleika með tal, skyntruflanir og eða hugræn einkenni (Goldstein o.fl. 2023).

Nú er talið að þeim sem greinast með starfræn einkenni megi skipta í tvo hópa eftir einkennum. Annars vegar eru starfræn köst þar sem helstu einkenni eru m.a. flog og yfirlið. Hins vegar er það sem kalla má starfræna hreyfiröskun. Einkenni sem koma fram í henni eru meðal annars starfræn taleinkenni.

Það er töluvert algengt hjá fólki með starfræn einkenni að þau séu breytileg. Þau geta verið alvarleg eina stundina en mild hina auk þess sem einkennin eru sjaldnast bara ein heldur eru þau oftast fleiri og geta komið fram á sama tíma (Baker o.fl., 2021; Duffy, 2016; Maurer og Duffy, 2022). Einkennin geta einnig mildast þegar athygli er beint frá þeim.

Bryndís Guðmundsdóttir yfirtalmeinafræðingur á Reykjalundi Msc SLT Höfundur:

Starfræn einkenni eru töluvert algengari en ætla mætti og greinast hjá fólki á öllum aldri en eru þó ekki mjög algeng hjá börnum undir tíu ára aldri.

Hvaða einkenni tal- og málmeina eru þekkt? Starfræn taleinkenni geta verið af ýmsum toga og mikilvægt að talmeinafræðingar fræðist um og vinni með þau. Utianski og Duffy skoðuðu hvaða starfrænu einkenni sjúklingar sýndu og töldu að á milli 25–50% þeirra sem greindust með þau væru með starfræn taleinkenni (Utianski og Duffy, 2022).

Hvaða starfrænu taleinkenni eru þekkt? Ekki er unnt að nefna þau öll hér sem þekkt eru en þó er vert að nefna nokkur af þeim algengustu:

Þvoglumæli: Eins og með önnur starfræn einkenni getur einstaklingur verið mjög þvoglumæltur um tíma en lítið eða ekkert annars.

Stam: Starfrænt stam byrjar skyndilega og einkennist einna helst af hikum, endurtekningu hljóða, atkvæða og/eða orða. Einnig er lenging hljóða þekkt. Einstaklingur sem stamar getur jafnvel stamað mjög mikið eina stundina en vægt aðra, jafnvel innan sömu klukkustundar.

Hás og rám rödd: Útiloka verður sýkingu eða skaða á raddböndum áður en grunur um starfræn taleinkenni vakna. Þessi einkenni geta verið misalvarleg en þekkt er að þau blossi aftur upp eftir slæma hálsbólgu. Þessi tegund stafrænna taleinkenna hefur verið einna mest rannsökuð (McKenzie, Hilari og Behn, 2024).

Kyngingarvandi: Fólk upplifir eins og það sé hnútur eða fyrirstaða af einhverjum toga í hálsi sem gerir það að verkum að því finnist erfitt að kyngja. Sumir hafa útskýrt einkennin þannig að það sé eins og líkaminn muni ekki hvernig á að kyngja (Utianski og Duffy, 2022).

En hvað með börnin? Eins og nefnt var á undan eru starfræn taleinkenni einnig þekkt hjá börnum. Efla þyrfti þó rannsóknir á taleinkennum barna. Í nýlegri rannsókn (Yong o.fl., 2023) þar sem skimað var fyrir starfrænum einkennum hjá börnum sem komu á barnaspítala í Skotlandi náðu 18,3 prósent þeirra greiningarviðmiðum og tvö prósent voru með starfræn taleinkenni. Meðalaldur barnanna var 13 ár. Auk áðurnefndra starfrænna taleinkenna geta börn einnig verið með starfræna framburðarerfiðleika og/eða notað barnalegra tal en ætla mætti miðað við aldur.

Hvernig skal vinna með einkennin?

Þekking er stöðugt að aukast á starfrænni hreyfiröskun og þar með talið á starfrænum taleinkennum. Í meðferð er lögð áhersla á að fræða sjúklinginn um einkenni sín, ásamt því að vinna með sjúkra-, iðju-, sál-, og talmeinafræðingum (LaFaver og Ricciardi, 2022). Áður en meðferð hefst þarf greining að liggja fyrir svo að hægt sé að setja markmið, mynda meðferðarsamband og veita fræðslu. Við mat talmeinafræðings og fræðslu getur verið nauðsynlegt að nota hljóð- og myndupptöku þar sem einkennin geta verið síbreytileg.

Áhugaverðar vefsíður um starfræn einkenni Fndsociety.org Fndhope.org Neurosymptoms.org

Heimildir:

Baker, J., Barnett, C., Cavalli, L., Dietrich, M., Dixon, L., Duffy, J. R. ... og McWhirter, L. (2021). Management of functional communication, swallowing, cough and related disorders: consensus recommendations for speech and language therapy. Journal of Neurology, Neurosurgery & Psychiatry 92(10),1112–1125. https://doi.org/10.1136/jnnp-2021-326767

Duffy, J. R. (2016). Functional speech disorders: clinical manifestations, diagnosis, and management. Handbook of clinical neurology, 139, 379-388. https://doi.org/10.1016/b978-0-12-801772-2.00033-3 FND Hope. (e.d.). https://fndhope.org/

Goldstein, A.N., Paredes-Echeverri S.,Finkelstein , S.A., Guthrie, A. J., Perez, D. L., og Freeburn, J. L. (2023). Speech and language therapy: A treatment case series of 20 patients with functional speech disorder. NeuroRehabilitation, 53(2), 227-238. https://doi.org/10.3233/NRE-220182

LaFaver, K. og Ricciardi, L. (2022). Interdisciplinary rehabilitation approaches in functional movement disorder. In Functional movement disorder: an interdisciplinary case-based approach (bls. 353-365). Cham: Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-030-86495-8_26

Maurer, C.W. og Duffy, J.R. (2022). Functional Speech and Voice Disorders. Functional movement disorder: An interdisciplinary case-based approach, 157-167. https://doi.org/10.1007/978-3-030-86495-8_13

McKenzie, K., Hilari, K. og Behn, N. (2024) An exploration of UK speech and language therapists’ treatment and management of functional communication disorders: A mixed-methods online survey. International Journal of Language & Communication Disorders, 59(6), 2752–2765. https://doi.org/10.1111/1460-6984.13113

Utianski, R. L. og Duffy, J. R. (2022). Understanding, recognizing, and managing functional speech disorders: Current thinking illustrated with a case series. American journal of speech-language pathology, 31(3), 1205–1220. https://doi.org/10.1044/2021_AJSLP-21-00366

Yong, K., Chin, R. F., Shetty, J., Hogg, K., Burgess, K., Lindsay, M. … og Pilley, E. (2023). Functional neurological disorder in children and young people: Incidence, clinical features, and prognosis. Developmental Medicine & Child Neurology, 65(9), 1238–1246.

Ritnefnd hafði samband við nokkra talmeinafræðinga sem halda úti gagnlegum upplýsingasíðum um málefni sem tengjast talmeinafræði

Íslensk upplýsingasíða um málstol

Málstol er máltruflun sem getur haft áhrif á tjáningu, málskilning, lestur og skrift. Algengasta orsök málstols er heilablóðfall en ýmis önnur mein í heila geta einnig valdið málstoli. Gera má ráð fyrir að um og yfir hundrað einstaklingar greinist með málstol á Íslandi ár hvert. Málstol hefur ekki aðeins áhrif á þann sem við það glímir, heldur einnig á aðstandendur og vini. Þekking og skilningur á málstoli og aðferðum til að bæta samskipti er einstaklega mikilvæg til að draga úr sálfélagslegum afleiðingum málstols á einstaklinga og aðstandendur.

Þrátt fyrir óumdeilt mikilvægi þekkingar og skilnings á málstoli, vantaði þó lengi vel aðgengilegar upplýsingar um fyrirbærið á okkar ástkæra og ylhýra móðurmáli. Eitthvað var til af upplýsingum, einblöðungum og greinum sem skrifaðar höfðu verið eða þýddar af talmeinafræðingum en voru samt ekki endilega aðgengilegar almenningi.

Í mörg ár hafði þessi vöntun verið til umræðu meðal talmeinafræðinga sem unnu í endurhæfingu. Það var svo snemma árs 2022, eftir mikla hvatningu frá kollegum, að ábyrgðarmaður síðunnar tók að safna saman

þeim upplýsingum sem til voru á íslensku um málstol, auk þess að þýða ýmislegt gagnlegt efni til að gera aðgengilegt á vefsíðu. Markmið síðunnar var að hún væri fagleg og aðgengileg upplýsingasíða á íslensku fyrir einstaklinga með málstol, aðstandendur þeirra og umönnunaraðila þar sem hægt væri að finna upplýsingar um einkenni, orsakir, afleiðingar og meðferð, auk ítarefnis. Síðan var svo opnuð þann 6. mars 2022, á Evrópudegi talþjálfunar sem hafði þá yfirskriftina „Þjónusta talmeinafræðinga á öllum æviskeiðum“. Talmeinafræðingar í endurhæfingu nýttu þá tækifærið og vöktu athygli á þjónustu sinni við fullorðna, m.a. einstaklinga með málstol og auglýstu síðuna.

Vefsíðan hefur síðan þá notið nokkurra vinsælda en hún fær um 50-100 nýjar heimsóknir í hverjum mánuði. Á síðunni er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar og fróðleik um málstol, einblöðunga, hlekki á meistararitgerðir, fyrirlestra og fleira sem íslenskir talmeinafræðingar hafa lagt vinnu í og gefið leyfi fyrir að deilt sé áfram. Síðan er uppfærð reglulega og er öllum ábendingum um gagnlegt efni og viðbætur vel tekið.

Ábyrgðarmaður síðunnar er Ingunn Högnadóttir talmeinafræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Efni síðunnar kemur úr ýmsum áttum og eiga talmeinafræðingar á Talmeinaþjónustu Landspítalans, Reykjalundi og fleiri þakkir skildar fyrir sitt framlag.

Ingunn Högnadóttir

Matur og munnur

Árið er 2016. Á þessum tímapunkti hafði ég sótt nokkur námskeið erlendis um fæðuinntöku barna og vanda þeim tengdum. Í kjölfarið var ég farin að spyrja foreldra allra nýrra skjólstæðinga hvernig þeim gengi að borða og mikill fjöldi svaranna var á svipaðan máta: ,,jú jú, það gengur vel að borða, vill helst bara jógúrt og brauð“. Ég var líka farin að gera ítarlegri talfæraskoðanir og þar virtist samnefnarinn með þessum svörum foreldranna liggja. Hreyfifærni tungunnar var almennt takmörkuð þar sem tunguband var stíft. Ég fór að grúska og þar með hófst vegferð sem mig hefði aldrei órað fyrir.

Það tók nokkra mánuði að láta slag standa og setja inn fyrstu færslu undir heitinu Matur & Munnur á Facebook en það var 02. mars 2017. Markmið með stofnun síðunnar var að miðla þekkingu minni á fæðuinntökuvanda barna

og tunguhöftum til foreldra og fagaðila. Ég tók líka þá ákvörðun um að hafa sem flest innlegg á síðunni á íslensku. Nafnið vildi ég hafa lýsandi fyrir þá fræðslu sem sett yrði þar inn, tengda mat og munni.

Í febrúar 2019 var Instagram-síðan Matur & Munnur stofnuð en upphaflega átti efnið þar inni að vera tileinkað fullorðnum og veikleikum á munnsvæði (e. orofacial myofunctional disorders) en varð fljótlega fyrir alla aldurshópa.

Viðtökur við síðunum hafa verið mjög góðar og stend ég í þeirri trú að mikil vitundarvakning hafi orðið á áhrifum veikleika á munnsvæði í kjölfar þess fróðleiks sem hefur farið þar inn. Þetta hugarfóstur mitt hefur sannarlega vaxið frá fyrstu færslu og alls konar hugmyndir vaknað fyrir frekari útbreiðslu fræðslunnar, sem sumar hafa verið framkvæmdar og aðrar ekki – ennþá að minnsta kosti.

Ég er Sonja Magnúsdóttir, talmeinafræðingur með ástríðu fyrir tunguhöftum, veikleikum á munnsvæði og bættum lífsgæðum barna og fullorðinna, og ég er á bak við samfélagsmiðlasíðurnar Matur & Munnur.

Sonja Magnúsdóttir

Babbl og spjall

Ég heiti Tinna og er talmeinafræðingur.

Síðan ég stofnaði Tröppu árið 2014 hef ég starfað þar og leitað allra leiða til að efla almenna vitneskju um málþroska í gegnum starfið mitt. Babbl og spjall varð til 2018 þegar ég stofnaði hóp á Facebook sem þróaðist svo út í instagramsíðuna Babbl og spjall og svo er ég líka á tiktok en þar heiti ég nafni hliðarsjálfs míns tidzja.

Mér fannst ég reka mig á það ítrekað í starfi að bæði foreldrar og fagfólk var óöruggt í vinnu með málþroska og treysti mikið á talmeinafræðinginn. Mér fannst vanta að útskýra á mannamáli hvað væri verið að tala um þegar verið er að tala um málþroska. Ég bý aðallega til myndbandsinnslög þar sem ég ræði stuttlega góð ráð til málörvunar, fjalla um rannsóknir, tala um einkenni

seinkaðs málþroska og málþroskaröskunar og reyni að hvetja áhorfendur til að vera vakandi yfir þróun málþroska.

Markmiðið hefur alltaf verið að búa til almenna vitneskju um málþroska. Hvað er verið að tala um þegar talað er um málþroska, er hægt að hafa áhrif á málþroska og þá hvernig og hvaða máli skiptir málþroski. Þessi áhugi minn hefur svo þróast út í mikinn áhuga á tengslamyndun og hvernig málþroski er þar höfuðbreyta og hvernig þetta tvennt er nánast óaðskiljanlegt. Til þess að örva og búa til góðan málþroska er nauðsynlegt að hafa góð samskipti og á okkar tímum er það hægara sagt en gert með áreitum og flækjustigum þegar kemur að tengslum manna á milli. Ég hef þannig reynt að ítreka það að góð tengsl eru forsenda góðs málþroska því það sem við gerum til að viðhalda góðum tengslum, spjalla saman, gera eitthvað skemmtilegt saman, vera góð við hvert annað, lesa bækur, þetta eru allt frábærar leiðir til málörvunar. Góður málþroski í æsku hefur fylgni við margt annað í lífinu og því mikilvægt að hlúa vel að honum og styrkja tengsl foreldris og barns um leið. Það er mjög flókið að vera foreldri í dag, alls kyns upplýsingar dynja á úr öllum áttum, börnin búa stundum hjá mömmu og stundum hjá pabba, allir eru frekar uppteknir og sjaldan sem við gefum okkur stundir til að vera bara saman án þess að vera með þétta dagskrá eða allt mögulegt annað í forgangi.

Viðtökurnar eru mjög góðar og mér þykir alltaf vænt um þegar ég fæ falleg skilaboð frá fólki sem hefur nýtt sér fræðsluna sem gerist endrum og eins, og eins hef ég svarað fólki sem sendir mér fyrirspurnir. Sumir hafa

Tinna Sigurðardóttir

verulegar áhyggjur og vita ekki hvert á að leita sem er ekki gott og bendir til að kerfin okkar séu ekki nægilega smurð og þar sé ekki nægar upplýsingar að fá þegar fólk hefur áhyggjur - hér er ég að tala t.d. um ungbarnavernd og leikskólana. Ég hef gefið kost á fyrirspurnum í gegnum miðlana og deili þá svörunum með öðrum svo allir græði. Fyrirspurnirnar sem ég fæ staðfesta það að vitneskja um málþroska er langt frá því almenn og ég tel það vera eina af skyldum okkar stéttar að fræða um okkar sérsvið, auka meðvitund um málþroska t.d. og þýðingu hans. Þrátt fyrir mikla vinnu sem liggur á bakvið þessa miðla þegar ég er í sem mestu stuði er fylgjendahópurinn ekkert rosalega stór eða í kringum 2000 manns svo akurinn er langt í frá plægður að fullu!

Töfratal

Töfratal hefur að markmiði að valdefla foreldra með því að veita einfaldar og aðgengilegar upplýsingar um málþroska og málörvun barna. Að baki Töfratals standa talmeinafræðingarnir Anna Lísa Benediktsdóttir, Ágústa Guðjónsdóttir og Eyrún Rakel Agnarsdóttir. Við kynntumst í meistaranáminu í talmeinafræði og höfum haldið hópinn síðan. Það var Eyrún sem fékk hugmyndina að því að búa til vettvang til að deila fræðslu og fróðleik til foreldra. Hún hafði tekið eftir miklum áhuga í hvert sinn sem hún birti efni í tengslum við málþroskann á sínum eigin miðli og vissi því að það væri eftirspurn eftir slíku efni. Eyrún er drífandi og tvínónar

Ágústa Guðjónsdóttir, Anna Lísa Benediktsdóttir og Eyrún Rakel Agnarsdóttir

ekki við hlutina en vissi að hún vildi fá fleiri með sér í lið. Hún leitaði því til þeirra Ágústu og Önnu Lísu sem tóku vel í hugmyndina og úr varð Töfratal. Saman myndum við gott teymi, vegum hver aðra upp og nýtum styrkleika hverrar og einnar.

Snemma árs 2024 birtust fyrstu færslurnar á instagramsíðu Töfratals og hafa viðtökurnar frá upphafi verið framar vonum. Við höfum upplifað mikla jákvæðni og velvilja úr öllum áttum. Okkur þykir svo innilega vænt um alla hvatninguna sem við höfum hlotið frá foreldrum og kennurum, en ekki hvað síst frá öðrum talmeinafræðingum.

Markmiðið hefur frá upphafi verið að efla og styrkja foreldra. Í störfum okkar höfum við fundið fyrir gífurlegri vöntun á fræðslu um málþroska og málörvun barna. Foreldrar gegna lykilhlutverki í lífi barna sinna og þeir hafa því langmest vægi þegar kemur að því að styðja við þroskaframvindu þeirra. Með Töfratali viljum við auka þekkingu foreldra á mikilvægi málþroskans og benda á leiðir til að efla hann á margvíslegan máta.

Við stöllur lögðum af stað í ferðalag sem ekki sér fyrir endann á. Framundan er ýmislegt spennandi í bígerð sem við hlökkum til að líti dagsins ljós.

Meistaraverkefni talmeinafræðinga 2023 og 2024

2023

Birna Pálsdóttir: Þróun á skimunarútgáfu Málhljóðaprófs ÞM.

2024

Anna Bjarnsteinsdóttir:

Warm-up exercises for choir singers: A study on the effects of warm-ups on community choir singers‘ vocal quality and experience. Upphitunaræfingar fyrir kórsöngvara: Rannsókn á áhrifum upphitunaræfinga á raddgæði og upplifun áhugakórsöngvara.

Auður Ragnarsdóttir:

Preschool teacher shared-reading behaviours: A pilot study of the effect of explicit training in the Orðaheimurinn study.

Verklag leikskólakennara í samræðulestri: Forprófun á áhrifum markvissrar þjálfunar kennara í Orðaheiminum.

Björg Einarsdóttir:

Orðaheimurinn: The fidelity of a soft-structured intervention evaluated in Icelandic preschools. Orðaheimurinn: Meðferðarheldni íhlutunar með sveigjanlega umgjörð, metin í íslenskum leikskólum.

Bríet Lilja Sigurðardóttir:

Forprófun á staðfærðri þýðingu málstolsprófsins The Comprehensive Aphasia Test.

Bryndís Bergþórsdóttir:

The impact of Orðaheimurinn language intervention on the vocabulary of monolingual and multilingual Icelandic-speaking preschoolers: Findings of a CRCT. Áhrif Orðaheimsins á orðaforða eintyngdra og fjöltyngdra leikskólabarna á Íslandi: Niðurstöður úr klasalembiraðaðri samanburðarrannsókn.

Eva Berglind Ómarsdóttir:

Forprófun á nýju málþroskaprófi fyrir 6-10 ára: Flokkun orða, mál- og hljóðkerfisvitund og málnotkun.

Guðrún Hafliðadóttir:

Málkunnátta ungfullorðinna íslendinga með erlendan bakgrunn á íslensku, ensku og móðurmálinu: Breytingar frá unglingsárum.

Gunnhildur Gunnarsdóttir:

Málþroski fyrirbura: Rannsókn á niðurstöðum málþroskaathugana fyrirbura á Barnaspítala Hringsins árin 2012–2021.

Hanna Einarsdóttir:

The Social Validity of Orðaheimurinn for Supporting Multilingual Children’s Icelandic Vocabulary Development: Perspectives from Teachers and Directors. „This is just a language stimulant on a silver platter. You don’t need anything more, just off you go Félagslegt réttmæti Orðaheimsins til stuðnings við íslenskan orðaforða fjöltyngdra barna: Sjónarhorn kennara og skólastjórnenda.

Hulda Rós Snorradóttir:

Líðan unglinga í samræðum á öðru máli: Hefur eigið mat á tungumálafærni áhrif á sjálfsöryggi og stress í samræðum meðal unglinga 10–16 ára þegar þau nota annað mál en móðurmál sitt.

Iðunn Kristínardóttir:

Screening for Speech Sound Disorders: Validating the ICS in the Icelandic context Skimað fyrir málhljóðaröskun: Réttmæti ICS í íslensku samhengi.

Lilja Helgadóttir: LANIS skimunarlisti: Staða málþroska tvítyngdra leikskólabarna í pólsku (T1) og íslensku (T2).

Lísa Mikaela Gunnarsdóttir: Kyngingar- og tjáskiptavandi fullorðinna einstaklinga með heilalömun (CP).

Vilborg Sólrún Jóhannsdóttir: Málfærni íslenskumælandi grunnskólabarna (MÍSL-G) fyrir 6;0-9;11 ára gömul börn: Forprófun á undirprófum MÍSL-G sem kanna merkingarfræði.

Þorbjörg Saga Ásgeirsdóttir: Undirbúningur að vefsíðu um tal- og málörvun.

Heilbrigðismáltækni: Hvað er það?

Höfundar:

Iris Edda Nowenstein lektor við Háskóla Íslands og talmeinafræðingur á Landspítala

Bryndís Bergþórsdóttir rannsakandi við Háskóla Íslands og talmeinafræðingur hjá Reykjavíkurborg

Hvernig gætu tækninýjungar undanfarinna ára, m.a. á sviði gervigreindar, umbylt starfi talmeinafræðinga? Undanfarna mánuði höfum við unnið að því að kortleggja mögulega nýtingu máltæknilausna í starfi talmeinafræðinga, bæði innan Máltækniáætlunar stjórnvalda og verkefnisins Klínísk málsýnagreining sem hlaut styrk úr Samstarfi háskóla 2024.

Í þessari grein tökum við saman nokkur dæmi um nýtingu máltæknilausna í samhengi við talmeinafræði og segjum frá þeim verkefnum sem við höfum sjálfar í hyggju að vinna að á næstu árum. Við höfum mikinn áhuga á að heyra hvað talmeinafræðingum finnst liggja mest á og hvetjum lesendur til að hafa samband ef þeir vilja koma athugasemdum og tillögum á framfæri. Í því samhengi er mikilvægt að nefna að lögð er áhersla á tjáskiptatækni, greiningu og eftirfylgd í eftirfarandi umfjöllun, þrátt fyrir að mörg tækifæri séu einnig til staðar þegar kemur að þjálfun.

1 Máltækni og heilbrigðismáltækni Tal- og máltruflanir hafa áhrif á líf barna og fullorðinna um allan heim. Undanfarin ár hafa orðið hraðar breytingar og framfarir í máltæknirannsóknum og bæði lítil og stór fyrirtæki þróa nú ýmiss konar máltæknilausnir sem gagnast fólki með tal- og máltruflanir. Það eru þá lausnir sem byggja á tölvunarfræðilegri greiningu og framköllun á bæði tali og texta, t.a.m. þegar talgreining er notuð til að breyta töluðu máli í texta og þegar talgerving er notuð til að breyta texta í tal. Undir máltækni falla líka sjálfvirkar leiðréttingar á texta, sjálfvirkar greiningar á breytum eins og fjölda mismunandi orða og svo framköllun máls með spjallmennum, svo dæmi séu tekin. Grundvöllur máltækniframfara eru svokallaðar málheildir (e. corpus), gagnasöfn sem geyma

tal og texta. Með auknum tækniframförum hefur orðið sprenging í nýjungum þar sem máltækni er nýtt í heilbrigðiskerfinu, m.a. á sviðum sem snerta starf talmeinafræðinga. Þetta er það sem við höfum viljað kalla heilbrigðismáltækni (e. clinical language technology). Nýjungarnar þegar kemur að greiningartólum og samskiptatækni sem byggja á máltækni eru þó í flestum tilfellum einungis þróaðar fyrir fólk sem talar ensku og örfá önnur stór tungumál. Við viljum breyta þessu og bæta aðgengi þeirra sem tala smærri tungumál eins og íslensku að þjónustu og hjálpartækjum sem byggja á nýjungum í máltækni og gætu aukið lífsgæði og samfélagsþátttöku. Í eftirfarandi umfjöllun eru tekin nokkur dæmi þar sem innleiðing nýrra máltæknilausna lofa góðu. Við byrjum á tólum sem nýtast í tjáskiptatækni og ræðum síðan greiningu og eftirfylgd.

• 1.2 Skilvirkni tjáskiptakerfa Tjáskiptatækni, eða óhefðbundnar tjáskiptaleiðir (e. Alternative and Augmentative Communication, AAC) geta verið af ýmsum toga. Oft verða lágtæknilausnir fyrir valinu þar sem þær eru einfaldari, aðgengilegri og ódýrari. Þó henta hátæknilausnir ýmsum og til eru ýmis tjáskiptaforrit sem geta gert einstaklingum með tjáskiptaerfiðleika kleift að tjá sig betur. Á Íslandi er nokkur fjöldi sem nýtir óhefðbundnar tjáskiptaleiðir en á síðustu 10 árum hafa 182 einstaklingar fengið sérhæfð

tjáskiptatæki í gegnum Sjúkratryggingar Íslands samkvæmt upplýsingum sem var aflað í gegnum tjáskiptatækniteymi stofnunarinnar. Þar sem samskipti í gegnum tjáskiptatölvur eru mun hægari en hefðbundin málleg samskipti eru tölfræðilíkön nýtt til þess að spá fyrir um næsta eða næstu orð sem getur hraðað á tali um 50% (Trnka o.fl., 2009). Þó er samskiptahraði aðeins um 12-18 orð á mínútu (Waller 2019) sem er mun minna en í hefðbundnu tali. TDSnap kerfið í Tobii Dynavox tölvunum nýtir sem dæmi tölfræðilíkan til að flýta fyrir innslætti. Líkanið byggir á 500.000 setningum úr talmáli og spáir fyrir um næstu orð og orðmyndir út frá því sem þegar hefur verið slegið inn (Tobii Dynavox, 2024). Forritið lærir síðan af þeim skilaboðum sem notandinn býr til og ágiskanir ættu því með tímanum að verða skilvirkari. Sambærileg tækni er til staðar í flestum snjalltækjum. En hvernig væri hægt að bæta slíka tækni enn frekar og laga hana að notendum sem glíma við tal- og máltruflanir sérstaklega?

Nýlega hefur verið meira um rannsóknir á nýtingu risamállíkana til þess að laga tjáskiptakerfi að hverjum einstaklingi. Rannsakendur hafa prófað að þjálfa líkön í því að þekkja skammstafanir í samhengi, sem getur t.a.m. flýtt fyrir tjáningu með augnstýringu eða öðrum leiðum þar sem innsláttur tekur langan tíma (Cai o.fl., 2022).

Fleiri þjálfa svo líkön til þess að víkka út segðir út frá einföldu ílagi frá notandanum og leggja þá til flóknari setningu út frá nokkrum stikkorðum. Kerfið myndi þá nýta samræðusamhengi og allar þær upplýsingar sem eru til staðar um samskiptastíl og orðaval einstaklingsins frá fyrri samskiptum og með þeim hætti lágmarka það sem hver einstaklingur þarf að slá inn sjálfur. Dæmi um slíka þróun eru verkefnin KWickChat (Shen o.fl., 2022), Speech Macros (Valencia o.fl., 2023) og Aphasia-GPT (Bailey o.fl., 2024). KwickChat notar GPT-2 mállíkan og býr til setningar út frá örfáum lykilorðum/ merkingarbærum orðum sem notandinn slær sjálfur inn. Notandinn velur svo setninguna sem honum þykir best og getur slegið inn allt að 71% minna en þyrfti að gera án stuðnings.

Speech-Macros virkar á svipaðan hátt en í því kerfi velur notandi fyrst hvað hann vill að kerfið geri (þ.e. (1) lengi svar, (2) svari með þekktum bakgrunnsupplýsingum eða (3) breyti orðum í beiðni) og uppástungur líkansins verða þá afmarkaðri. Speech Macros var prófað á einstaklingum sem ekki voru með málstol eða skerta hugræna færni heldur áttu eingöngu í erfiðleikum með tal. Aphasia-GPT er hins vegar hugsað fyrir einstaklinga með málstol og virkar á svipaðan hátt og KwickChat. Það nýtir sjálfvirka talgreiningu og sendir beiðnir á GPT3.5 Turbo Instruct líkanið sem skilar þremur tillögum að fullmótaðri segð. Risamállíkön hafa þróast hratt síðustu ár og verða sífellt betri og aðgengilegri fyrir almenna notendur. Slík þróun opnar á ýmsa möguleika fyrir hraðari og einstaklingsmiðaðri samskipti fyrir AAC notendur. Framfarir hafa einnig orðið í getu risamállíkana í íslensku og því engin ástæða til að íslenskan fylgi ekki með í þessari þróun. Það gerist þó ekki af sjálfu sér heldur þarf sérstakar aðgerðir til að lítið málsamfélag eins og íslenska haldi í við þróunina.

• 1.3 Talgreining

Framfarir í þróun risamállíkana ásamt betra aðgengi að stórum gagnasöfnum hefur leitt af sér aukna nákvæmni í sjálfvirkri talgreiningu á síðustu árum. Miklar framfarir hafa einnig átt sér stað í talgreiningu á íslensku, bæði hjá íslenskum fyrirtækjum (sjá t.d. Tíró1 og Miðeind2) og erlendum stórfyrirtækjum (t.d. Microsoft og Google). Talgreinar eiga þó enn erfitt með að skilja tal ef taltruflanir eru til staðar þar sem líkönin hafa ekki verið þjálfuð með gögnum frá einstaklingum með tal- og máltruflanir. Einnig má gera betur þegar kemur að talgreiningu fyrir íslenskar barnaraddir og raddir fólks sem talar íslensku sem annað mál, en í þeim tilfellum hefur einhverjum gögnum verið safnað innan Máltækniáætlunar stjórnvalda (sjá t.d. Mena o.fl., 2021).

1 https://tiro.is/

2 https://xn--mieind-qwa.is/is/vorur/hreimur

Engin íslensk gagnasöfn eru þó til með upptökum af fólki með tal- og máltruflanir. Þetta er mikilvægt þar sem rannsóknarfólk og fyrirtæki (aðallega í enskumælandi heiminum) hafa nýlega þróað talgreiningarlíkön sem skilja einstaklinga með tal- og máltruflanir3 en til þess þarf stór gagnasöfn með tali frá einstaklingum sem glíma við slíka erfiðleika. Einstaklingsmiðuð talgreiningarlíkön, sem hafa þá verið fínstillt með gögnum frá notandanum sjálfum, geta bætt nákvæmni til muna. Slíkur persónulegur talgreinir skilur tal betur en fólk sem ekki þekkir notandann. Manneskjan með taltruflunina getur þannig fengið texta fyrir talið sitt í rauntíma og sýnt viðmælandanum. Í sumum tilfellum býður hugbúnaðurinn einnig upp á endurtekningu á setningunni með talgervli og þannig getur viðkomandi notað röddina í aðstæðum þar sem það væri jafnvel annars ekki hægt eða mjög erfitt. Persónuleg talgreining hentar best fyrir einstaklinga með stöðuga taltruflun en þeir einstaklingar sem glíma við hrörnun í tali geta einnig nýtt persónulegt líkan með því að endurstilla það af og til. Nákvæm og áreiðanleg talgreining gerir fólki kleift að gera sig skiljanlegt nær hverjum sem er sem eykur skilvirkni og gæði samskipta auk þess sem það getur aukið sjálfstæði. Einstaklingsmiðuð talgreining getur einnig opnað á möguleikann til þess að nýta raddstýringu, en þar sem stór hluti þessa hóps glímir við hreyfihamlanir auk talerfiðleika getur raddstýring haft jákvæð áhrif á sjálfstæði og lífsgæði. Persónulegt talgreiningarmódel fyrir enskumælandi notendur getur nú verið fínstillt með jafnvel aðeins 3-4 mínútum af talgögnum frá notandanum sjálfum. Alvarleiki taltruflunar hefur þó áhrif á magn gagna sem þarf og á nákvæmni talgreiningar (Shor o.fl., 2019; Tobin og Tomanek, 2021).

• 1.4 Talgerving Einstaklingar sem nýta sér talgervingu í samskiptum þurfa oft að tala með rödd sem margir aðrir nota líka en það getur haft mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks. Á Íslandi er úrvalið mjög takmarkað þegar kemur að því að nýta rödd í tjáskiptatölvu og flestallir sem nýta sér talgervil á Íslandi hljóma því eins. Bæði börn og fullorðnir. Í Tobii Dynavox tölvunum, sem nær allir notendur talgervla í tjáskiptatölvum á Íslandi nota, er hægt að nota tvær karlmanns- og kvenmannsraddir (Karl og Dóra frá Amazon og í einhverjum tilfellum Gunnar og Guðrún frá Microsoft). Það eru til fleiri raddir á íslensku en þeir talgervlar sem hafa verið þróaðir á síðustu árum undir Máltækniáætlun stjórnvalda hafa ekki ratað inn í AAC tækin.

Nokkuð mörg erlend fyrirtæki og stofnanir þróa nú persónulega talgervla sem hægt er að nota í tjáskiptatölvum. Sú tækni gerir fólki kleift að nota rödd sem hljómar eins og þeirra eigin rödd með því að taka sig upp áður en taltruflunin verður of mikil. Einnig er hægt að nýta eldri upptökur í sumum tilfellum ef gæðin eru nægileg. Til þess að útbúa persónulegan talgervil er talgervilslíkan, forþjálfað á fjölda radda, fínstillt með gögnum frá notanda. Þessi aðferðafræði gerir það að verkum að notandinn þarf að leggja fram mun minna magn af gögnum en ef líkanið væri þjálfað frá grunni. Sérsniðin eða persónuleg talgerving er í stöðugri þróun og þarfnast sífellt minna af gögnum til þess að geta búið til rödd. Auk þess geta notendur nú tekið upp fyrir raddbanka heima hjá sér eftir leiðbeiningum. Þetta er einstaklega mikilvæg þróun fyrir fólk með hrörnunarsjúkdóma eins og MSA eða MND sem þegar finna fyrir einkennum og geta átt erfitt með að koma sér á milli staða eða tala í lengri tíma.

3 Sjá t.d. https://sites.research.google/relate/ og https://www.voiceitt.com/ 4 https://www.speakunique.co.uk/

Í ágúst 2024 opnaði skoska fyrirtækið SpeakUnique4 fyrir raddbankaþjónustu á íslensku en íslenska er eina tungumálið utan ensku sem SpeakUnique hefur þróað rödd fyrir. Bæði talmeinafræðingar og notendur hafa þegar fengið persónulegan talgervil í hendurnar sem hægt er að nota með Tobii

Dynavox og á öllum Microsoft tækjum. Verkefnið er þó enn á tilraunastigi (í samstarfi við okkur í Háskóla Íslands) og mikið svigrúm til bætinga. Þá má nefna að farnar eru af stað viðræður á milli Almannaróms og fyrirtækisins

Acapela varðandi persónulega talgervla5

Acapela býður upp á slíka þjónustu fyrir 24 önnur tungumál og er auk þess eitt fárra fyrirtækja sem býður upp á barnaraddir. Barnaraddirnar eru þó ekki persónulegar og á færri tungumálum. Persónulegar barnaraddir sem hægt er að nýta á flestum tækjum er hægt að fá á ensku frá fyrirtækinu The VoiceKeeper6. Raddirnar koma frá raddgjöfum sem gjarnan eru fjölskyldumeðlimir barnsins sem nýtir svo röddina. Í annarri Máltækniáætlun stjórnvalda á Íslandi er fyrirhugað að safna þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að þróa íslenskar barnaraddir. Verkefnin eru því mörg þegar kemur að því að íslensk heilbrigðismáltækni haldi í við þróunina úti og það á einnig við um máltækni í samhengi greiningar og eftirfylgdar með tal- og máltruflunum.

• 1.5 Greining og eftirfylgd Með hröðum framförum á sviði sjálfvirkrar tal- og textagreiningar hefur komið í ljós að hægt er að nýta málsýni fólks til að greina fyrstu stig taugahrörnunarsjúkdóma á borð við Alzheimer og MND, þar sem breytingar koma fram í tali og málnotkun. Tæknin hefur m.a. reynst gagnleg til þess að greina einstaklinga með Alzheimersjúkdóm, PPA og MND frá heilbrigðum öldruðum (Fraser o.fl., 2015; Gumus o.fl., 2023; Norel o.fl., 2018; Cho o.fl., 2024). Það hefur líka reynst mögulegt að greina á milli ólíkra undirflokka sjúkdóma svo sem PPA (Fraser o.fl., 2014) og MND (Bowden o.fl., 2023).

Sjálfvirk greining á tal- og málþáttum getur gagnast til þess að greina litlar breytingar hjá einstaklingum á byrjunarstigi sjúkdóms sem og hjá einstaklingum sem eiga á hættu að fá hrörnunarsjúkdóm síðar (Nevler o.fl., 2024) og eins er hægt að finna og fylgjast á nákvæman hátt með breytingum á einkennum í tali (Robin o.fl., 2023). Þetta gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að fylgjast með þróun einkenna og sníða lausnir, meðferð og þjálfun að þörfum fólks, auk þess sem málsýnagreiningar

nýtast í prófunum á árangri nýrra lyfja og í rannsóknum á erfðaþáttum tals og máls. Þessar nýju aðferðir hafa þann kost að krefjast ekki inngrips og vera í grunninn ódýrar. Dæmi um fyrirtæki sem nota máltækni til þess að sækja mállega þætti og greina sjálfvirkt texta og upptökur af tali eru Winterlight Labs7 (Robin o.fl., 2023) og Toolkit to Examine Lifelike Language (TELL)8 appið (García o.fl., 2023). Þessar lausnir leggja áherslu á að greina og fylgjast með taugahrörnun og eru að mörgu leyti sniðnar að þörfum taugalækna og taugasálfræðinga.

Svið taugahrörnunarsjúkdóma hefur verið sérstaklega áberandi í þessu samhengi en einnig er ljóst að sjálfvirk málsýnagreining lofar góðu fyrir skilvirkari þjónustu við börn og fullorðna með tal- og málraskanir af fjölbreyttum toga (MacDonald o.fl., 2021, Klatte o.fl., 2022 og Liu o.fl., 2023). Löng hefð er fyrir því að nýta tækni til þess að greina málsýni barna og til eru lausnir eins og SALT fyrir ensku. Þegar kemur að klínískum lausnum sem miða að málsýnum barna er þó lítið um að nýjustu máltæknilausnir séu nýttar þrátt fyrir lengri hefð. SALT Software9, ein þekktasta þjónusta fyrir málsýnagreiningu á barnamáli í Bandaríkjunum, byggir t.a.m. að hluta á handavinnu og að hluta á máltækni en málsýni eru öll rituð upp handvirkt (þrátt fyrir miklar framfarir í talgreiningarlíkönum) og svo greind að miklu leyti sjálfvirkt. Tækniyfirfærslan til talmeinafræðinga er enn minni þegar kemur að smærri tungumálum eins og íslensku, og því viljum við reyna að breyta.

5 https://mov.acapela-group.com

6 https://Thevoicekeeper.com

7 https://winterlightlabs.com

8 https://tellapp.org

9 https://www.saltsoftware.com

2 Málsýnagreining með máltækni á Íslandi

• 2.1 Vandinn

Líkt og við minntumst á hér á undan hefur þróun á klínískum máltæknilausnum verið bundin við stærri málsamfélög (García o.fl., 2023), þá aðallega ensku, og engin lausn er til sem tekur sérstaklega mið af smærri málsamfélögum. Í tilfelli Íslands, en líka annarra smærri málsamfélaga, er þörfin á tækniþróun á þessu sviði því mikil. Aðstæðum í íslensku heilbrigðiskerfi verður ekki mætt með enskum máltæknilausnum einum og sér og til lengri tíma litið getur íslenskt málsamfélag dregist verulega aftur úr í þróun og nýtingu máltæknilausna í heilbrigðisþjónustu. Við þá vinnu að rannsaka klínískar máltæknilausnir til greiningar og eftirfylgdar höfum við ekki rekist á heildræna lausn fyrir talmeinafræðinga, jafnvel þó þeir séu helstu sérfræðingar þegar kemur að einkennum í tali og máli og þeir sérfræðingar sem helst nýta málsýni í sinni vinnu. Greiningartæki sem byggja á máltækni beinast flest að taugasjúkdómum en sem talmeinafræðingar sinnum við fjölbreyttari hópi, s.s. einstaklingum með tal- eða málraskanir í kjölfar heilablóðfalls og börnum með málþroskaraskanir. Auk þess eru málsýni eitt nákvæmasta tólið til þess að greina ýmis smáatriði í málnotkun einstaklinga sem önnur tæki á borð við stöðluð próf grípa ekki. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að því að greina málþroskaröskun hjá fjöltyngdum börnum, en reynst hefur einstaklega erfitt að þróa áreiðanlegar mælingar á málþroska þeirra.

Loks má nefna að þrátt fyrir ýmsar tækninýjungar er oft ekki skýrt hvernig heilbrigðisstarfsmenn geta beitt þessari nýju tækni í eigin starfi auk þess sem talsvert vantar upp á í nýtingu máltækni í beina þágu klínískra hópa. Til þess þarf betri gögn, jafnvel í þeim málsamfélögum sem hafa náð hvað lengst. Bandaríkin hafa staðið framarlega þegar kemur að heilbrigðismáltækni og hafa nýlega farið af stað tvö stór átaksverkefni, annað drifið áfram af einkageiranum (Speech Accessibility Project10) og hitt af opinbera heilbrigðiskerfinu

(Bridge2AI Voice11), þar sem ráðist hefur verið í umfangsmiklar gagnasafnanir eins og minnst var á ofar. Því er skýrt að smærri málsamfélög þurfa einnig að huga að gagnasöfnun til að dragast ekki enn frekar aftur úr.

Aðstæðum í íslensku heilbrigðiskerfi verður ekki mætt með enskum máltæknilausnum einum og sér og til lengri tíma litið getur íslenskt málsamfélag dregist verulega aftur úr í þróun og nýtingu máltæknilausna í heilbrigðisþjónustu.

• 2.2 Lausnin

Til þess að mæta þessum þörfum höfum við verið að þróa áfram hugmynd um sjálfvirka málsýnagreiningu sem miðar að þörfum talmeinafræðinga sem starfa í smærri málsamfélögum eins og á Íslandi. Verkefnið hefur hlotið heitið ALDA sem stendur fyrir Automatic Linguistic Data Analysis (sjálfvirk málfræðileg gagnagreining). Markmið ÖLDU er að vinna að jöfnu aðgengi fólks að nýrri stafrænni heilbrigðistækni óháð tungumáli. Það viljum við gera með því að nýta íslenskar máltækniafurðir til að þróa heildstætt greiningartæki sem nær bæði til málsýna fullorðinna og barna. Greiningartækið er í formi öruggrar veflausnar sem ber vinnuheitið Klínísk málsýnagreining (e. Clinical Analysis of Language Samples, CALS). Með okkur tveimur í verkefninu eru tveir sérfræðingar í máltækni, Gunnar Thor Örnólfsson og Hinrik Hafsteinsson.

10 https://speechaccessibilityproject.beckman.illinois.edu

11 https://bridge2ai.org/voice

Fyrsta útgáfa lausnarinnar mun greina textaskjal með uppskrifuðu málsýni eða hljóðupptöku af málsýni. Upptaka verður þá skrifuð upp með sjálfvirkri talgreiningu og lagfærð handvirkt af talmeinafræðingi. Þá er málsýnið greint sjálfvirkt og lykilupplýsingar birtar á skýran og læsilegan hátt (sjá mynd 1). Með tímanum verður lausnin þróuð á þann hátt að hægt sé að greina málsýni á fleiri tungumálum og þar með fá betri upplýsingar um málnotkun fjöltyngdra einstaklinga.

Með sjálfvirkri greiningu er það okkar von að talmeinafræðingar hafi þá frekar tíma til þess að taka endurtekin málsýni sem veita skýra yfirsýn yfir árangur í meðferð og þróun einkenna. Í samstarfi við talmeinafræðinga og fræðimenn á sviði tal- og málraskana viljum við svo nýta veflausnina til þess að safna gögnum og byggja upp Íslenska málsýnabankann, þar sem við myndum byggja á nokkuð langri hefð málsýnasöfnunar á Íslandi þar sem Jóhanna T. Einarsdóttir hefur rutt veginn. Vel uppbyggður

málsýnabanki verður ómetanleg uppspretta þekkingar á birtingarmyndum sjúkdóma og raskana í máli. Gögnin munu líka vonandi nýtast til að þróa lausnina m.a. með bættri talgreiningu fyrir truflað tal og barnaraddir. Auk þess mun gott gagnasafn nýtast til þess að þróa og bæta aðrar máltæknilausnir sem auka skilvirkni og nákvæmni greiningarvinnu og svo sérhæfð tjáskiptaforrit sem geta aukið lífsgæði og eflt fólk með skerta talgetu til þátttöku í samfélaginu (mynd 2).

Mynd 1.

ALDA: Klínísk málsýnagreining.

Mynd 2.

Tengsl Klínískrar málsýnagreiningar við Íslenska málsýnabankann og aðrar afleiddar afurðir.

Eins og er er ekki til nein málheild með gögnum sem mögulegt er að nýta í rannsóknir og þróun. Málhafar íslensku eru fáir og eru t.a.m. einungis um 20-30 manns á Íslandi með MND á hverjum tímapunkti. Til þess að safna nýtilegu magni gagna í slíka málheild er því nauðsynlegt að hefjast handa strax, og við teljum að lykilatriði í þróun heilbrigðismáltæknilausna á Íslandi sé að fá

Heimildir:

starfandi talmeinafræðinga til liðs við okkur. Þróun á veflausninni er þegar hafin og við stefnum að því að hún verði nothæf í einhverri mynd á þessu ári (2025). Við biðjum því ykkur sem hafið áhuga á því að taka þátt í þróuninni með því að prófa lausnina að hafa samband við okkur. Við viljum þróa nothæft tæki fyrir talmeinafræðinga og það verður ekki gert án víðtæks samráðs við stéttina.

Bailey, D. J., Herget, F., Hansen, D., Burton, F., Pitt, G., Harmon, T. og Wingate, D. (2024). Generative AI applied to AAC for aphasia: a pilot study of Aphasia-GPT. Aphasiology, 1–16. https://doi.org/10.1080/02687038.2024.2445663

Bowden, M., Beswick, E., Tam, J. o.fl. (2023). A systematic review and narrative analysis of digital speech biomarkers in Motor Neuron Disease. npj Digital Medicine, 6, 228. https://doi.org/10.1038/s41746-023-00959-9

Cai, S., Venugopalan, S., Seaver, K., Xiao, X., Tomanek, K., Jalasutram, S., Morris, M. R., Kane, S., Narayanan, A., MacDonald, R. L., Kornman, E., Vance, D., Casey, B., Gleason, S. M., Nelson, P. Q. og Brenner, M. P. (2023). Using large language models to accelerate communication for users with severe motor impairments. arXiv https://doi.org/10.48550/arXiv.2312.01532

Cho, S., Olm, C. A., Ash, S., Shellikeri, S., Agmon, G., Cousins, K. A. Q., Irwin, D. J., Grossman, M., Liberman, M.og Nevler, N. (2024). Automatic classification of AD pathology in FTD phenotypes using natural speech. Alzheimer’s & Dementia, 20(5), 3416–3428. https://doi.org/10.1002/alz.13748

Fraser, K. C., Meltzer, J. A., Graham, N. L., Leonard, C., Hirst, G., Black, S. E. og Rochon, E. (2014). Automated classification of primary progressive aphasia subtypes from narrative speech transcripts. Cortex, 55, 43-60. https://doi.org/10.1016/j.cortex.2012.12.006

Fraser, K. C., Meltzer, J. A.og Rudzicz, F. (2015). Linguistic features identify Alzheimer’s disease in narrative speech. Journal of Alzheimer’s Disease, 49(2), 407–422. https://doi.org/10.3233/jad-150520

García, A. M., Johann, F., Echegoyen, R., Calcaterra, C., Riera, P., Belloli, L. og Carrillo, F. (2023). Toolkit to Examine Lifelike Language (TELL): An app to capture speech and language markers of neurodegeneration. Behavior Research Methods, 56(4), 2886–2900. https://doi.org/10.3758/s13428-023-02240-z

Gumus, M., Koo, M., Bhan, A., Robin, J. og Black, S. E. (2023). Speech changes in neurodegenerative diseases relate to clinical outcomes. Alzheimer’s & Dementia, 19(S18), e072857. https://doi.org/10.1002/alz.072857

Klatte, I. S., van Heugten, V., Zwitserlood, R. og Gerrits, E. (2022). Language sample analysis in clinical practice: Speech-language pathologists' barriers, facilitators, and needs. Language, Speech, and Hearing Services in Schools, 53(1), 1–16. https://doi.org/10.1044/2021_LSHSS-21-00026

Liu, H., MacWhinney, B., Fromm, D. og Lanzi, A. (2023). Automation of language sample analysis. Journal of Speech, Language, and Hearing Research, 66(7), 2421–2433.

MacDonald, R. L., Jiang, P.-P., Cattiau, J., Heywood, R., Cave, R., Seaver, K., Ladewig, M. A., Tobin, J., Brenner, M. P., Nelson, P. C., Green, J. R. og Tomanek, K. (2021). Disordered speech data collection: Lessons learned at 1 million utterances from Project Euphonia. Interspeech 2021 https://doi.org/10.21437/interspeech.2021-697

Mena, C., Borsky, M., Mollberg, D. E., Guðmundsson, S. F., Hedström, S., Pálsson, R., Jónsson, Ó. H., Þorsteinsdóttir, S., Guðmundsdóttir, J. V., Magnúsdóttir, E. H., Þórhallsdóttir, R. og Gudnason, J. (2021). Samrómur Children 21.09 [Audio corpus]. Reykjavík University. http://hdl.handle.net/20.500.12537/185

Nevler, N., Cho, S., Cousins, K. A., Ash, S., Olm, C. A., Shellikeri, S., ... og Grossman, M. (2024). Changes in digital speech measures in asymptomatic carriers of pathogenic variants associated with frontotemporal degeneration. Neurology, 102(2), e207926. https://doi.org/10.1212/wnl.0000000000207926

Norel, R., Pietrowicz, M., Agurto, C., Rishoni, S. og Cecchi, G. (2018). Detection of Amyotrophic Lateral Sclerosis (ALS) via Acoustic Analysis. bioRxiv, 383414. https://doi.org/10.1101/383414

Robin, J., Xu, M., Balagopalan, A., Novikova, J., Kahn, L., Oday, A., ... og Teng, E. (2023). Automated detection of progressive speech changes in early Alzheimer's disease. Alzheimer's & Dementia: Diagnosis, Assessment & Disease Monitoring, 15(2), e12445. https://doi.org/10.1002/dad2.12445

Shen, J., Yang, B., Dudley, J. J. og Kristensson, P. O. (2022). KWickChat: A multi-turn dialogue system for AAC using context-aware sentence generation by bag-of-keywords. Proceedings of the 27th International Conference on Intelligent User Interfaces, 853–867. https://doi.org/10.1145/3490099.3511145

Shor, J., Emanuel, D., Lang, O., Tuval, O., Brenner, M., Cattiau, J., Vieira, F., McNally, M., Charbonneau, T., Nollstadt, M., Hassidim, A. og Matias, Y. (2019). Personalizing ASR for dysarthric and accented speech with limited data. arXiv https://doi.org/10.48550/arXiv.1907.13511

Tobii Dynavox. (2024). TD Snap user guide. Tobii Dynavox. https://www.tobiidynavox.com

Tobin, J. og Tomanek, K. (2022). Personalized automatic speech recognition trained on small disordered speech datasets. ICASSP 2022 - 2022 https://doi.org/10.1109/icassp43922.2022.9747516

Trnka, K., McCaw, J., Yarrington, D., McCoy, K. F. og Pennington, C. (2009). User interaction with word prediction: The effects of prediction quality. ACM Transactions on Accessible Computing, 1(3), Article 17. https://doi.org/10.1145/1497302.1497307

Valencia, S., Cave, R., Kallarackal, K., Seaver, K., Terry, M. og Kane, S. K. (2023). “The less I type, the better”: How AI language models can enhance or impede communication for AAC Users. Proceedings of the 2023 CHI Conference on Human Factors in Computing Systems, 1–14. https://doi.org/10.1145/3544548.3581560

Waller, A. (2019). Telling tales: unlocking the potential of AAC technologies. International journal of language & communication disorders, 54(2), 159-169. https://doi.org/10.1111/1460-6984.12449

Elmar Þórðarson, talmeinafræðingur, féll frá þann 20. febrúar 2025. Við minnumst starfsfélaga okkar með þakklæti fyrir allt það sem hann gaf af sér til skjólstæðinga sinna og það góða starf sem hann vann í þágu stéttarinnar.

Fjölskyldu hans og vinum sendum við samúðarkveðjur.

Talmeinafræðingar á Íslandi eru duglegir að sækja ráðstefnur erlendis til að afla sér aukinnar þekkingar. Ritnefndin tók nokkra talmeinafræðinga á tal og fékk að heyra frá ævintýrum þeirra utan landsteinanna.

Talmeinafræðingar á ferð og flugi

Höfundur:

Linda Björk

Markúsardóttir, talmeinafræðingur

á Landspítala og

Talsetrinu

ASHA í Boston

Metfjöldi íslenskra talmeinafræðinga á ASHA 2023.

Í nóvember 2023 fjölmenntu íslenskir talmeinafræðingar (sjá meðfylgjandi mynd) á þriggja daga ASHA ráðstefnu í Boston. Yfirskrift hennar var Igniting Innovation, sem gæti útlagst sem Kynt undir nýsköpun á íslensku. ASHA stendur fyrir og er bandarískt ígildi Félags talmeinafræðinga á Íslandi, að viðbættum heyrnarfræðingum. Þessi ráðstefna er risastór, þetta ár mættu 14 þúsund manns og 350 unnu á ráðstefnusvæðinu. Til að setja það í samhengi þá bjuggu 346 manns á Hellissandi árið 2024. Á ráðstefnunni er hægt að finna fyrirlestra og vinnustofur um allt sem viðkemur starfi talmeinafræðinga, burtséð frá því hver sérhæfing þeirra er og hvaða aldurshópi þeir sinna. Dagskráin var svo yfirgripsmikil að það var heljarinnar hausverkur að forgangsraða fyrirlestrum en það tókst að lokum, þótt sex klukkustunda flugferð yfir Atlantshafið hafi ekki dugað til verksins. Það sem stóð upp úr voru einkum þrír fyrirlestrar sem ég sótti. Einn fjallaði um mikilvægi munnhreinsunar til að fækka ásvelgingarlungnabólgum, annar um ákveðin mælanleg merki í röddum fólks sem gera það mögulegt að greina sjúkdóma á borð við Parkinsons án þess að líkamleg einkenni hafi komið fram og sá þriðji um gagnsemi

öndunarþjálfa í fyrirbyggjandi skyni gegn radd- og kyngingarvanda fólks með ýmiss konar tauga- og hrörnunarsjúkdóma. Þeir höfðu hvað mest notagildi fyrir mitt starf sem talmeinafræðingur á endurhæfingarsviði LSH. Ég hafði ætlað mér að fara á ASHA frá því ég byrjaði í talmeinafræðináminu árið 2010 en þessi viðburður er ákveðin eldskírn fyrir talmeinafræðinga frá litla Íslandi. Óhætt er að mæla með ráðstefnunni út frá þessari upplifun og það væri gaman að fara aftur eftir um það bil fjögur ár, af pólitískum og mannréttindatengdum ástæðum.

ESLA í Bruges Belgíu

Ég fór á ESLA í lok september 2024. Ráðstefnan var haldin í borginni Bruges í Belgíu. Þetta er í annað sinn sem ég fer á ESLA. Yfirskrift ráðstefnunnar í þetta sinn var The power of communication in the quality of life Viðfangsefnin voru því mjög fjölbreytt og má ætla að allir hafi fundið fyrirlestra sem nýtast hverjum og einum út frá sérhæfingu og starfsvettvangi.

Mér finnst mjög mikilvægt að fara á áhugaverðar ráðstefnur. Það er fróðlegt að heyra hvað talmeinafræðingar í öðrum löndum eru að fást við. Heyra af nýjustu rannsóknum og niðurstöðum þeirra og auk þess að fá nýjar hugmyndir til að nýta í starfi. Hvað mig varðar og mína vinnu þá hef ég nýtt mér ýmislegt sem fjallað var um varðandi apraxíu og óhefðbundnar tjáskiptaleiðir. Svo var mjög áhugaverður fyrirlestur þar sem fjallað var um ýmis atriði sem gott er að nýta í málhljóðavinnu. Þar var gengið út frá því að gera málhljóðin áþreifanlegri með ýmsum aðferðum. Þá finnst mér mjög mikilvægt að heyra um niðurstöður nýjustu rannsókna varðandi fjöltyngi. Á ráðstefnum erlendis finnst mér alltaf standa upp úr að heyra erindi frá Íslandi. Það var því sérstaklega áhugavert að heyra um efni sem búið er að vera í þróun hérna á Íslandi, Lanis skimunarlistinn og Orðaheimurinn. Hvoru tveggja nýtist mér í mínu starfi.

Það sem vakti mig kannski helst til umhugsunar á ráðstefnunni almennt er staða talmeinaþjónustu í öðrum löndum. Að heyra að talmeinafræðingar í öðrum löndum eru að fást við svipaða hluti og við hérna á Íslandi hvað varðar langa biðlista og flókið málumhverfi. En svo stendur auðvitað líka upp úr samveran með öðrum íslenskum talmeinafræðingum þar sem íslenski hópurinn var ansi stór.

Íslenski hópurinn samankominn í Belgíu

Talmeinafræðingar á ferð og flugi

Höfundur: Íris Dögg Rúnarsdóttir, talmeinafræðingur hjá Reykjavíkurborg og talþjálfun Mosfellsbæjar

Talmeinafræðingar á ferð og flugi

Höfundar: Álfhildur

Þorsteinsdóttir, Halla Marinósdóttir, Hildur Edda

Jónsdóttir og Jane

Petra Gunnarsdóttir, talmeinafræðingar

Bjorem ráðstefna í Karabíska hafinu

Í apríl 2024 flugu fjórir óþreyjufullir

Karabísku drottningarnar

Jane Petra, Álfhildur, Halla og Hildur Edda.

talmeinafræðingar á vit ævintýra í karabíska hafinu. Flogið var til Ft. Lauderdale í Flórída þaðan sem við sigldum með Royal Caribbean á skemmtiferðaskipi þar sem ætlunin var að blanda saman spennandi upplifun, skemmtun og fræðslu á ráðstefnunni Making waves á vegum Bjorem Speech. Þetta var í fyrsta sinn sem boðið var upp á þennan möguleika sem brýtur upp hið hefðbundna ráðstefnuform. Mikil tilhlökkun var í íslenska hópnum, enda hafði undirbúningur hafist rúmu ári fyrr.

Á ráðstefnunni voru framúrskarandi fyrirlesarar sem allir eru vel þekktir og eru framarlega á sínu sviði innan talmeinafræðinnar s.s. Jennie Bjorem, Cari Ebert, Amy Graham og Rebecca Reinkin.

Erindi allra þeirra sem fluttu fyrirlestra voru áhugaverð og fjölbreytt og margt sem við getum nýtt okkur í starfi. Það sem okkur þótti standa upp úr var umfjöllun um framburðarvinnu og þá helst aðferðir eins og lágmarkspör (e. minimal pairs) og lotuaðferðin (e. cycles approach). Umfjöllun Cari Ebert um einhverfu var einnig mjög áhugaverð en hún fjallar um aðferðir sem ýta undir og samþykkja fjölbreytileika einhverfra (e. neurodiversity affirming).

Fyrirkomulagið í siglingunni var á þann veg að fyrirlestrar hófust eldsnemma á morgnana, eða kl. 7:00, svo lagðist skipið að bryggju um miðjan dag og þá var frjáls tími til að fara í land eða slappa af og njóta alls þess sem stórt skemmtiferðaskip hefur upp á að bjóða. Fyrirlestrar héldu svo áfram seinnipartinn þegar skipið lagði aftur úr höfn.

Við kusum að fara í land í Nassau á Bahamaeyjum þar sem við höfðum bókað okkur skipulagða ferð um eyjuna með stórskemmtilegum fararstjóra að nafni Fonzie sem keyrði um eyjuna með okkur á risastórum golfbíl. Nassau er höfuðborg Bahama eyja og á sér áhugaverða sögu. Fonzie var eldhress og fræddi okkur um Bahamaeyjarnar sem eru hvorki meira né minna en 700 talsins. Á Bahamaeyjum eru engir skattar svo misskipting er gríðarleg og keyrði Fonzie með okkur um eyjuna og sýndi okkur merki þess. Við fengum að bragða á gómsætum hefðbundnum mat og drykkjum frá Bahamaeyjum. Þátttakendur

voru hvattir til að koma með bækur til að gefa fátækum börnum á Bahamaeyjum sem við og gerðum.

Daginn eftir lagði skipið við bryggju á eyju sem heitir Cococay og var yfirskrift dagsins Perfect Day sem reyndist svo sannarlega réttnefni. Cococay er pínulítil paradísareyja þar sem enginn á fasta búsetu en starfsmenn dvelja þar á meðan þeir vinna. Þar er risastór rennibrautagarður, hægt að fara í loftbelg og ganga um og skoða ótrúlega náttúrufegurðina og strendurnar. Við ákváðum að taka því rólega á ströndinni og svamla í tærum sjónum þennan dag sem var algjörlega ógleymanlegur.

Á kvöldin var sameiginlegur kvöldverður í skipinu fyrir alla talmeinafræðingana og sátum við til borðs með öðrum talmeinafræðingum frá ýmsum löndum. Þátttakendur voru langflestir frá Bandaríkjunum en nokkrir frá Evrópu og þótti mjög merkilegt að við værum komnar frá litla Íslandi.

Að sjálfsögðu nýttu spilaóðir talmeinafræðingar einnig tækifærið til að kaupa alls kyns meðferðarefni og spennandi spil til að nota við þjálfun þar sem úrval er ótæmandi í Ameríku og svo margt sniðugt til.

Þetta var að okkar mati algjör drauma ráðstefnuferð sem við mælum með og nær hún að samtvinna fræðslu, skemmtun og afslöppun sem er einmitt það sem við þurfum öll á að halda. Við munum að sjálfsögðu fara aftur einn daginn!

Hluti hópsins með Rebeccu Reinkin sem heldur úti instagram reikningnum Adventures in speech pathology.

Þegar stíft tunguband hefur áhrif á lífsgæði:

Reynslusögur af árangursríkri íhlutun

Höfundar:

Halldís Ólafsdóttir

talmeinafræðingur hjá Tröppu

Sonja Magnúsdóttir

talmeinafræðingur hjá

EKS talþjálfun og Matur og Munnur

Öll erum við með tunguband undir tungunni. Tungubandið tengir tunguna við munnbotninn og getur haft margs konar útlit. Það getur t.a.m. náð langt fram á tungubrodd og verið vel sjáanlegt, það getur verið stutt og varla sjáanlegt en þá skiptir máli að þreifa á bandinu; það getur verið örþunnur vefur, mjög þykkur vefur og allt þar á milli. Þegar tungubandið er það stíft og stutt að það háir hreyfifærni tungunnar og hefur þar með áhrif á þau hlutverk sem hún sinnir, er talað um tunguhaft.

Fyrirbærið tunguhaft er ekki nýtt af nálinni en það er m.a. vísað í slíkt í Biblíunni. Fyrirbærið er umdeilt og fagaðilar ekki sammála um áhrif þess á einstaklinga, allt frá ungabörnum upp í fullorðna einstaklinga. Fjöldinn allur er til af rannsóknum tengdum tunguhöftum og með aukinni þekkingu er alltaf að bætast í þá flóru.

Hlutverk talmeinafræðinga er margþætt þegar kemur að greiningu á tal- og málmeinum barna eða fæðuinntökuvanda og meðal þess sem þarf að fylgja með í sögu skjólstæðings eru upplýsingar um svefn. Sömuleiðis þarf talmeinafræðingur að gera ítarlega talfæraskoðun og meta hreyfifærni tungunnar. Við talfæraskoðun getur komið í ljós augljóst (og ekki svo augljóst) stíft tunguband en því þurfa að fylgja ákveðin einkenni til að teljast sem tunguhaft og þar með hugsanleg ástæða fyrir íhlutun. Meðal einkenna geta verið frávik í framburði, munnöndun og lágstæð tunga, erfiðleikar við að meðhöndla mat og svefnerfiðleikar.

Talfæraskoðun

Talfæraskoðun felur í sér að skoða andlitsfall, samfellu og jafnvægi á milli hægri og vinstri hliða og að meta hvíldarstöðu tungunnar en

rétt hvíldarstaða hennar er lykilatriði hvað varðar þroska og vöxt andlitsbeina. Í réttri hvíldarstöðu hvílir tungan uppi við tannberg, mjög lítið bil á að vera á milli jaxla, varir eru saman og neföndun á sér stað. Tennur og útlit harða gómsins skipta miklu máli og geta gefið ákveðnar vísbendingar varðandi bit, hvíldarstöðu tungunnar, notkun snuðs eða puttasog o.þ.h. Hár og hvelfdur gómur gefur m.a. vísbendingu um að tungan nái ekki þangað upp fyrir rétta hvíldarstöðu. Hreyfingar tungu til hægri og vinstri, upp og niður og út og inn þurfa að vera til staðar og þá án þess að hreyfa t.d. kjálka eða varir með; hreyfingar tungunnar eiga að vera sjálfstæðar frá öðrum hlutum talfæra og líkamsparta. Hreyfingar kjálka sjást gjarnan fylgja tunguhreyfingum á milli munnvika t.d. þegar stíft tunguband er til staðar og höfði er gjarnan hallað aftur þegar tungu er lyft upp í átt að tannbergi með galopinn munn. Hæfni til að móta tunguna er líka mikilvægt að skoða. Við talfæraskoðun er skjólstæðingur gjarnan fenginn til að borða saltkex eða álíka, til að meta hvernig kynging er, hvort skjólstæðingur sé opinmynntur og hvort eitthvað sitji eftir á tungunni eftir að kyngt er. Sömuleiðis er metið hvernig skjólstæðingur meðhöndlar vökva og þá fylgst

með kyngingu, m.a. hvort tungan þrýstist fram í tennur. Talfæraskoðun getur því gefið miklar upplýsingar, sem talmeinafræðingur þarf að hafa í huga hvort sem er við mat á framburði málhljóða eða málþroska.

Skjólstæðingur 1

• Saga

Skjólstæðingi, stúlku fæddri 2017, var vísað til talmeinafræðings af heimilislækni vegna stífs tungubands. Í upphafsviðtali hjá talmeinafræðingi kom fram að stúlkan (þá nýorðin fimm ára) náði aldrei tökum á brjósti og hafði móður verið tjáð að hún framleiddi ekki næga mjólk. Áhyggjur hennar af áberandi tungubandi voru hunsaðar og aldrei skoðað almennilega í munn barnsins. Móðir nefndi að stúlkan valdi áferðir þegar kom að fastri fæðu og vildi helst jógúrt umfram allt og miðað við skerta hreyfigetu tungunnar má leiða líkum að því að erfitt hafi verið að færa ,,erfiðari“ mat á milli hægri og vinstri jaxla.

Fram að þessum tímapunkti hafði stúlkan átt í miklum svefnvanda, þ.e. hún vaknaði oft upp að nóttu (svefnrof) og hraut hátt og mikið. Í fimm ár hafði stúlkan aldrei náð almennilegri hvíld. Á þessum tíma (janúar 2023) hafði stúlkan nýverið tekið þátt í svefnrannsókn, sem gaf til kynna alvarlegan kæfisvefn. Í kjölfarið var stúlkan skoðuð af lækni m.t.t. líkamlegra einkenna og kom ekkert í ljós nema smá þrengsli í miðnesi, sem gat ekki útskýrt kæfisvefn. Móðir spurði lækna ítrekað hvort stífa tungubandið gæti haft áhrif á svefninn en læknar vildu meina að það hefði enga þýðingu fyrir svefnvanda stúlkunnar.

• Skoðun og meðferð Við skoðun og mat talmeinafræðings á talfærum stúlkunnar var tunguband greinilega stíft og það stíft að tungubroddurinn dróst inn og tungan varð hjartalaga þegar henni var lyft upp í átt að tannbergi. Festipunktar tungubandsins voru

Með leyfi aðstandenda langar okkur að segja frá reynslusögum tveggja skjólstæðinga okkar sem voru með fjölmörg einkenni sem horft var framhjá alltof lengi en eftir íhlutun á tunguhafti hafa lífsgæði þeirra batnað til muna. Því miður eru þessar frásagnir ekki einsdæmi.

annars vegar fremst á tungubroddinum og hins vegar á innanverðum neðri gómboga og bandið mjög stutt. Stúlkan náði ekki að hreyfa tunguna til hliðanna, hvorki á milli munnvika eða á milli jaxla. Farið var yfir ákveðnar hreyfingar (æfingar), sem mælt var með að stúlkan gerði daglega fram að íhlutun á tunguhafti, með eins miklum hreyfingum og stúlkan mögulega gæti. Í kjölfar skoðunar og mats talmeinafræðings var stúlkunni vísað til íhlutunaraðila á stífu tungubandi. Talmeinafræðingur hitti stúlkuna í eitt skipti til viðbótar fyrir íhlutun þar sem farið var yfir æfingar, sem lagðar höfðu verið fyrir til að gera heima og ítrekað að gera áfram fljótlega eftir íhlutun.

Mesta breytingin sást strax á svefni stúlkunnar þar sem það heyrðist lítið sem ekkert í henni og hún svaf alla nóttina, sem hafði í raun aldrei gerst áður.

• Íhlutun

Íhlutun var gerð af tannlækni 23. febrúar 2024, þar sem losað var um stíft tunguband.

• Eftirfylgni

Talmeinafræðingur hitti stúlkuna í fyrsta eftirfylgnitíma viku eftir íhlutun. Móðir sagði stúlkuna greinilega vera að hlífa sárinu undir tungunni, þar sem hún var ekki búin að vera dugleg að hreyfa tunguna en mikinn mun var að sjá á aukinni lyftingu tungunnar.

Tungubroddur náði nú upp að tannbergi og náði stúlkan sömuleiðis að þrýsta miðbiki tungunnar nokkurn veginn upp í góminn. Stúlkan gat rekið tungubroddinn beint út, gat spennt tunguna í odd og snert munnvikin með tungubroddinum.

Spurð um svefn, sagðist móðir hafa séð (og heyrt) breytingu á svefni strax fyrstu nóttina þar sem stúlkan svaf í gegnum alla nóttina.

Stúlkan kom í tvo eftirfylgnitíma í kjölfarið og mátti sjá breytingu á hreyfingu tungunnar á milli þessara tíma. Mesta breytingin sást strax á svefni stúlkunnar þar sem það heyrðist lítið sem ekkert í henni og hún svaf alla nóttina, sem hafði í raun aldrei gerst áður.

Ári eftir íhlutunina sefur stúlkan enn vel án svefnrofs, hreyfifærni tungunnar er góð og móðir talar um mikinn kipp í lestri og skýrmæli í kjölfar íhlutunarinnar.

Kæfisvefn, sem var greindur fyrir íhlutun á tunguhafti, er ekki lengur til staðar og var stíft tunguband hundsað sem áhrifavaldur þess og móður ítrekað tjáð að ekkert samhengi væri á milli tunguhafts og kæfisvefns.

Kæfisvefn er alvarlegur hlutur. Ítarleg talfæraskoðun er nauðsynleg ásamt svefnrannsókn þegar hann er til staðar því það skiptir máli hvar tungan hvílir í munninum - vakandi eða sofandi!

Skjólstæðingur 1 eftir íhlutun.
Skjólstæðingur 1 fyrir íhlutun.

Skjólstæðingur 2

•Saga

Skjólstæðingur, stúlka fædd 2017, kom í framburðarmat sumarið fyrir 1. bekk. Samkvæmt niðurstöðum átti hún í erfiðleikum með r og s hljóð (/r/ > /ð/ og /s/ > /þ/), bæði í stökum hljóðum og samhljóðaklösum.

Í viðtali við móður í framhaldi af framburðarmati kom fram að brjóstagjöf gekk illa, stúlkan tók aldrei brjóstið og móðir pumpaði sig fyrstu sex mánuðina. Stúlkan hélt kúrvu frá fæðingu til 14 mánaða þegar hún fór að ganga en eftir það var hún alltaf undir kúrvu. Hún var t.a.m. í fatastærð 98/104 við 5 ára aldur.

Þegar kom að því að byrja á fastri fæðu gekk það mjög brösuglega. Stúlkan spýtti öllu út úr sér og hefur alltaf verið erfitt að fá hana til að borða. Hún borðaði mjög einhæft fæði eins og pasta og pizzu og borðaði aldrei kjöt, ávexti eða grænmeti. Móðir sagði stúlkuna vera opinmynnta þegar matur væri meðhöndlaður og að hún þyrfti að drekka mikið með mat. Allir dagar snérust um að koma ofan í hana mat og móðir lýsti því sem mikilli baráttu þar sem það gat tekið allt að tvo tíma að koma einhverju ofan í hana og hún virtist ekki geta uppfyllt næringarþörf sína. Það hafði áhrif á skap og að auki var svefninn mjög slitróttur. Nefkirtlar voru teknir um 14 mánaða aldur og rör sett við sama tilefni en stúlkan hafði verið mikið eyrnabarn. Einnig kom fram að stúlkan væri í ADHD-greiningarferli og að mikill kvíði væri til staðar.

Þegar móðir var innt eftir því hvort einhvern tímann hafi verið grunur um tunguhaft, varð hún undrandi yfir því að það gæti mögulega verið orsakavaldur erfiðleika dóttur sinnar við matarinntöku; hún hafi gengið á milli lækna frá fyrsta ári og reynt að fá aðstoð fyrir stúlkuna. Móðir upplifði að auki gagnrýni frá leikskólanum yfir því að dóttir hennar væri matvönd. Oft fannst móður

ýjað að því að þetta væri henni að kenna því að hún væri ekki búin að að kynna stúlkuna fyrir nægilega fjölbreyttum mat. Móðir lýsti mörgum andvökunóttum og áhyggjum yfir líðan dóttur sinnar og erfiðleikum hennar við matarinntöku.

• Skoðun og meðferð Við talfæraskoðun kom í ljós að tungubroddur var flatur þegar hann var teygður upp að nefi og stúlkan þurfti að hjálpa til með neðri vör til að reyna að ýta tungubroddinum lengra upp að nefinu. Tunguhreyfingar á milli munnvika sýndu að kjálkinn hélst ekki stöðugur heldur fylgdi tungunni eftir til hliðanna. Framtennur í neðri góm vísuðu inn í v-stöðu sem bendir til stífs tungubands. Greinilegt stíft tunguband sást þegar skjólstæðingur gapti og teygði tungu upp í góm og tungubotn lyftist samhliða lyftu á tungu.

Móðir lýsti mörgum andvökunóttum og áhyggjum yfir líðan dóttur sinnar og erfiðleikum hennar við matarinntöku.

Stúlkan byrjaði í talþjálfun í febrúar 2024 þar sem áhersla var lögð á myndun /r/ og /s/ hljóða ásamt tunguþrýstingsæfingum og æfðu foreldrar heima með stúlkunni á hverjum degi.

Talmeinafræðingur leiðbeindi móður og skjólstæðingi með tunguteygjur og undirbúning fyrir íhlutun og voru þær æfingar gerðar heima daglega í tvær vikur fyrir íhlutun. Alls hitti talmeinafræðingur stúlkuna fjórum sinnum fyrir íhlutun.

Í ljósi sögu stúlkunnar hvað varðaði matarinntöku var henni vísað áfram til talmeinafræðings með sérhæfingu í matarinntöku.

Stúlkunni var vísað til HNE-læknis vegna einkenna og útlits tungubandsins, sem veitti íhlutun í ágúst 2024. Móðir hafði áður farið með stúlkuna til HNE-læknis í mars 2024 og sagði í miklum smáatriðum frá einkennum dóttur sinnar. Sá læknir mat að ekki væri ástæða til íhlutunar.

• Íhlutun

Íhlutun var gerð af HNE-lækni 16. ágúst 2024, þar sem losað var um stíft tunguband.

• Eftirfylgni

Tunguæfingar voru gerðar á hverjum degi eftir íhlutun til að þjálfa upp hreyfifærni tungunnar. Stúlkan fékk einnig þjálfun hjá talmeinafræðingi eftir íhlutun til að vinna bug á hræðslunni við að borða og smakka nýjan mat.

Af þessum dæmum má sjá að mikilvægt er fyrir fagaðila að vera vakandi fyrir öllum einkennum stífs tungubands sem getur haft áhrif á: brjóstagjöf, framburð, svefn og matarinntöku og nauðsynlegt er að vísa á viðeigandi fagaðila fyrir mat á færni, einkennum og útliti. Ekki þurfa öll einkenni að vera til staðar og mikilvægt er að muna að einkenni eru mikilvægari en útlit. Barn með stíft tunguband sem sýnir engin einkenni ofangreindra atriða þarf ekki á íhlutun að halda. Einnig er mikilvægt að nefna að góður undirbúningur fyrir íhlutun á tunguhafti og ekki síður eftirfylgni er nauðsynlegur hluti af ferlinu.

Tveimur mánuðum eftir íhlutun gekk stúlkunni mun betur að borða, sofa og framburður var nánast orðinn án frávika. Aðeins þurfti að minna einstaka sinnum á /r/ og /s/ í sjálfsprottnu tali.

Alls hitti talmeinafræðingur stúlkuna fimm sinnum eftir íhlutun.

Í samtali við móður í janúar 2025 er stúlkan búin að þyngjast og stækka mikið á þessu hálfa ári sem liðið er frá íhlutun, svefn orðinn miklu betri og stúlkan er farin að borða fjölbreyttari mat og smakkar nýjan mat. Framburður er nú að öllu leyti án frávika. Stúlkunni líður mun betur, bæði heima og í skólanum og einbeiting hefur batnað til muna.

Við leggjum áherslu á að aðkoma talmeinafræðings fyrir og eftir íhlutun er forsenda þess að íhlutun hafi tilætluð áhrif. Ef ekki er teygt á vefnum fyrir og eftir íhlutun er hætta á því að vefurinn grói aftur saman og að tungubandið endi jafn stíft og fyrir íhlutun.

Einnig er ljóst að samtal og samvinna fagaðila þarf að vera meiri til að komast að rót vandans svo meðferð skjólstæðings gangi hratt og vel fyrir sig.

Lestur þessarar greinar hefur vonandi vakið athygli á þessu þarfa máli og er það von okkar að samvinna fagaðila geti orðið meiri í framtíðinni, skjólstæðingum okkar til góða.

Heimildir:

Archambault, N. (2018). Healthy Breathing, ’Round the Clock: Problems with airway functioning during sleep can hurt children’s health. And SLPs, alongside other professionals, are on the front lines of identification and intervention. The ASHA Leader, 23(2), 48–54. https://leader.pubs.asha.org/doi/10.1044/leader.FTR1.23022018.48

Bussi, M. T., de Castro Corrêa, C., Cassettari, A. J., Giacomin, L. T., Faria, A. C., Moreira, A. P. S. M. ... og Júnior, A. J. M. (2022). Is ankyloglossia associated with obstructive sleep apnea?. Brazilian journal of otorhinolaryngology, 88, S156-S162. https://doi.org/10.1016/j.bjorl.2021.09.008

Dydyk, A., Milona, M., Janiszewska-Olszowska, J., Wyganowska, M. og Grocholewicz, K. (2023). Influence of Shortened Tongue Frenulum on Tongue Mobility, Speech and Occlusion. Journal of Clinical Medicine, 12(23), 7415. https://doi.org/10.3390/jcm12237415

Ghaheri B.A., Lincoln D., Mai, T.N.T. og Mace J.C (2022). Objective improvement after frenotomy for posterior tongue-tie: a prospective randomized trial. Otolaryngology–Head and Neck Surgery, 166(5), 976-984. https://doi.org/10.1177/01945998211039784

Jaikumar S., Srinivasan L., Kennedy Babu S.K., Gandhimadhi D. og Margabandhu M. (2022) Laser-assisted frenectomy followed by post-operative tongue exercises in ankyloglossia: A report of two cases. Cureus, 14(3). https://doi.org/10.7759/cureus.23274

Joyce, A og Breadmore, H.L (2022). Sleep-disordered breathing and daytime sleepiness predict children’s reading ability. British Journal of Educational Psychology, 92(2), 576-593. https://doi.org/10.1111/bjep.12465

Tripodi, D., Cacciagrano, G., Piccari, F., Maiolo, A. og Tieri, M. (2021). Short lingual frenulum: From diagnosis to laser and speech-language therapy. European journal of paediatric dentistry, 22(1), 71-74. https://doi.org/10.23804/ejpd.2021.22.01.13

Mörg áhugaverð verkefni og rannsóknir líta dagsins ljós þegar nemendur klára meistaraverkefni sín og útskrifast þar með úr námsleið í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Ritnefnd bað tvo nýútskrifaða talmeinafræðinga að segja frá meistaraverkefnum sínum og rannsóknarniðurstöðum þeirra.

Meistaraverkefni talmeinafræðinga

Höfundur:

Þorbjörg Saga Ásgeirsdóttir talmeinafræðingur

Meðhöfundur: Dr. Jóhanna T. Einarsdóttir

Prófessor í talmeinafræði við HÍ

Undirbúningur að vefsíðu um tal- og málörvun

Inngangur

Málþroski barna á leikskólaaldri leggur grunn að síðara námi í grunnskóla (Einarsdóttir o.fl., 2016). Mikilvægt er að íhlutun sem snýr að tal- og málþroska hefjist snemma, en framfarir eru hraðar á aldrinum 3–6 ára (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2015). Skimunarlistinn LANIS hefur verið í þróun á síðastliðnum árum en hann skimar fyrir málþroska og framburðarvanda þriggja ára barna (Karen Inga Bergsdóttir, 2022; Rannveig Gestsdóttir, 2022). Ef barnið hefur ekki staðist skimun og/eða áhyggjur eru varðandi tal- og málþroska barns geta foreldrar orðið uggandi ef viðeigandi þjónusta fæst ekki strax (McGill o.fl., 2020). Löng bið getur verið eftir talþjálfun eða ráðgjöf frá talmeinafræðingum og í greinargerð frá árinu 2022 kemur fram að biðin gæti verið allt að þrjú ár (Sara Lovísa Halldórsdóttir o.fl., 2022).

Það getur skipt sköpum að foreldrar fái góða ráðgjöf um hvernig hægt sé að efla tal- og málþroska barna heima fyrir en rannsóknir sýna fram á að íhlutun ætluð foreldrum skilar árangri.

Það getur skipt sköpum að foreldrar fái góða ráðgjöf um hvernig hægt sé að efla tal- og málþroska barna heima fyrir en rannsóknir sýna fram á að íhlutun ætluð foreldrum skilar árangri (Heidlage o.fl., 2020; Suttora o.fl., 2021). Í dag er internetið stór hluti af lífi flestallra og rannsóknir hafa sýnt fram á að foreldrar nýta sér það til að leita að upplýsingum um tal- og málþroska barna (Novianti o.fl., 2023). Til að þeir geti tekið vel upplýstar ákvarðanir þurfa að vera til staðar upplýsingar sem byggðar eru á niðurstöðum rannsókna eða gagnreyndum heimildum (McGill og McLeod, 2019). Til er fjöldinn allur af vefsíðum sem fjalla um tal- og málþroska barna, bæði erlendar og íslenskar (Fjölbreyttar kennsluaðferðir, e.d.; Lubbi, 2024; Lærum og leikum með hljóðin, 2013; Málefli, e.d.; Miðja máls og læsis, e.d.; Orðaleikur MSHA, e.d.; The Hanen Center, 2016; The Western NSW Local Health District, 2024). Það sem hins vegar vantar er vefsíða fyrir foreldra sem veitir bæði fræðslu og ráðgjöf um örvun tal- og málþroska þriggja ára barna. Markmið þessa verkefnis var að undirbúa hönnun að aðgengilegri vefsíðu um tal- og málörvun ætluð foreldrum ungra barna. Vefsíðan er þáttur í þróun á LANIS skimunarlistanum þar sem foreldrar geta leitað inn á síðuna ef áhyggjur vakna í kjölfar skimunar.

Rannsóknarspurningarnar sem leitast var eftir að svara voru:

1. Hvað vilja talmeinafræðingar sjá á vefsíðu um tal- og málörvun sem ætluð er foreldrum þriggja ára barna?

2. Hvaða atriði eru valin á vefsíðuna að teknu tilliti til niðurstaðna rannsókna og svara talmeinafræðinga?

3. Hversu gagnleg eru fyrstu drög vefsíðunnar að mati foreldra?

Aðferð

Þátttakendur rannsóknarinnar voru sex talmeinafræðingar og sjö foreldrar þriggja ára barna. Tekin voru viðtöl við talmeinafræðingana áður en fyrstu drög vefsíðunnar voru unnin þar sem spurt var um hvað þeim fyndist mikilvægt að kæmi fram á slíkri vefsíðu. Viðtölin fóru fram í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom. Þau voru tekin upp og síðan afrituð og unnið úr gögnunum. Notuð var þemagreining við úrvinnslu gagnanna. Beitt var aðleiðslu og sameiginlegir þættir voru teknir saman í þemu. Enn fremur voru skoðaðar niðurstöður rannsókna um hvaða aðferðir höfðu reynst árangursríkar í tal- og málörvun barna. Eftir að fyrstu drög að vefsíðu voru unnin var haft samband við átta foreldra og spurningalisti um gagnsemi vefsíðunnar var sendur til þeirra. Sjö foreldrar svöruðu spurningalistanum.

Viðtöl talmeinafræðinga Helstu niðurstöður úr viðtölum talmeinafræðinga voru þær að einkenni góðra vefsíðna væri að þær væru aðgengilegar, auðvelt væri að finna það sem maður vildi og upplýsingar sem kæmu fram væru réttar. Þeir vildu sjá fræðslu um alla þætti vefsíðunnar en í fyrstu drögum hafði verið gert ráð fyrir eftirfarandi þáttum: málþroski, framburður og tvítyngi/fjöltyngi. Undir málþroska vildu þeir sjá, eins og áður sagði, fræðslu og einnig almennar málörvunaraðferðir þar sem athafnir daglegs lífs væru nýttar, upplýsingar um lestur fyrir börn sem og þroskaþrep. Undir framburði vildu þeir einnig sjá þroskaþrep, upplýsingar um hljóðkerfisvitund og algengt var að þeir nefndu bæði Lubbi og Lærum og leikum með

hljóðin. Undir tvítyngi/fjöltyngi vildu þeir sjá almennar ráðleggingar, svo sem að foreldrar tali það tungumál sem þeim er tamast. Einnig vildu þeir sjá upplýsingar á fleiri tungumálum.

Talmeinafræðingarnir voru til í að sjá verkefni sem foreldrar gætu unnið með börnum sínum heima undir hverju sviði fyrir sig. Til að mynda vildu þeir sjá verkefni sem fara yfir afmarkaðan orðaforða undir málþroska og undir framburði nefndu þeir verkefni sem líktist efni eins og Lærum og leikum með hljóðin og Lubba. Talmeinafræðingar nefndu einnig að þeir væru til í að sjá myndbönd á vefsíðunni sem fjölluðu til dæmis um málþroska og/eða framburð. Frumdrög vefsíðunnar voru unnin út frá viðtölum talmeinafræðinga og rannsóknum á tal- og málörvun. Þar var einblínt á málþroska og framburð en ekki gafst færi á að gera grein fyrir tvítyngi/fjöltyngi.

Bygging vefsíðunnar

Vefsíðan var sett upp og atriði LANIS skimunarlistans höfð til hliðsjónar þar sem undirsíður vefsíðunnar voru málþroski, orðaforði, samræðulestur og framburður. Lestur er þó ekki hluti af LANIS listanum en í ljósi þess hversu algengt er að nota málörvunaraðferðina samræðulestur í rannsóknum til að efla tal- og málþroska (Heidlage o.fl., 2020; Suttora o.fl., 2021;

Foreldrar voru á heildina litið ánægðir og jákvæðir í hennar garð.

Þeim fannst vefsíðan vera skýr og gagnleg og allir þátttakendur svöruðu því játandi þegar spurt var hvort þeir gátu nýtt ráðin sem þar voru að finna.

Walker o.fl., 2020) og út frá viðtölum talmeinafræðinga, var ákveðið að hafa eina undirsíðu sem fjallaði um samræðulestur. Á undirsíðunni málþroski voru almennar upplýsingar um málþroska og stuttleg ráð um hvað foreldrar geta gert til efla hann. Einnig var þar að finna myndband um málþroska sem heitir Málþroski barna (Rannsókna- og fræðslustofu um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna, 2024). Á undirsíðunni Orðaforði voru almennar upplýsingar um orðaforða. Þar var einnig fræðsla um málörvunaraðferðir sem styðja við málþroska barna og geta meðal annars aukið við orðaforða þeirra. Í viðtölum við talmeinafræðinga kom fram að þeir myndu vilja sjá almenna málörvun sem foreldrar geta veitt í gegnum athafnir daglegs lífs. Þær málörvunaraðferðir sem valdar voru inn á vefsíðuna voru: fyrirmyndir (e. modeling), sjálftal og samhliðatal (setja orð á athafnir), að endurtaka leiðrétt og lengja setningar (Walker o.fl., 2020). Á undirsíðunni framburður var meðal annars áhersla lögð á þróun málhljóðanna og upplýsingar um hvernig foreldrar geta stutt við málhljóðamyndun barna til dæmis með því að nýta aðferðina að endurtaka leiðrétt og forðast það að biðja þau um að nota ákveðið málhljóð sem þau eiga í erfiðleikum með eða sem ekki er komið hjá þeim. Á undirsíðunni samræðulestur voru upplýsingar um hvernig foreldrar geta nýtt aðferðina samræðulestur til að lesa fyrir börnin sín. Á undirsíðum vefsíðunnar var einnig vísað á gagnlega hlekki.

Svör foreldra

Svör foreldra á spurningalistanum sem notaður var til að meta gagnsemi vefsíðunnar gáfu til kynna að hún væri gagnleg. Foreldrar voru á heildina litið ánægðir og jákvæðir í hennar garð. Þeim fannst vefsíðan vera skýr og gagnleg og allir þátttakendur svöruðu því játandi þegar spurt var hvort þeir gátu nýtt ráðin sem þar voru að finna. Foreldrar voru einnig spurðir hvað gagnlegast væri á hverri undirsíðu fyrir sig þar sem þeir nefndu til að mynda myndband um málþroska, málörvunaraðferðir, hlekk inn á verkefni sem tengdist orðaforða, þróun málhljóða og skref um hvernig hægt væri að lesa fyrir börn. Spurt var um hvort eitthvað hefði vantað á vefsíðuna og komu fram nokkrar tillögur að því sem bæta mætti við hana. Foreldrar nefndu að þeir vildu sjá þroskaþrep er varðar málþroska og upplýsingar um hvenær foreldrar ættu að hafa áhyggjur. Einnig nefndu tveir þátttakendur að þeir vildu sjá lista yfir stofur talmeinafræðinga. Flestir foreldrarnir skoðuðu vefsíðuna oftar en einu sinni og algengast var að þeir kíktu inn á hana fjórum sinnum. Allir svöruðu því játandi þegar spurt var um hvort að þeir myndu fara aftur inn á síðuna og hvort þeir myndu mæla með henni við vini og ættingja.

Lokaorð Þó að ýmsir vankantar voru á rannsókn verkefnisins svo sem tímaskortur, skortur á fjármagni til að vinna síðuna og lítið úrtak þátttakanda, þá sýndu niðurstöður samt sem áður fram á að fyrstu drög vefsíðunnar virtust gagnleg og hentuðu foreldrum barna á þessum aldri. Næstu skref beindust að því að þróa vefsíðuna áfram og bæta við hana efni og verkefnum. Ný og betrumbætt síða var opnuð í október 2024 sem heitir Tal- og málörvun og er vistuð á eftirfarandi slóð https://talmal.hi.is/

Heimildir:

Einarsdóttir, J. T., Björnsdóttir, A., og Símonardóttir, I. (2016). The predictive value of preschool language assessments on academic achievement: A 10-year longitudinal study of Icelandic children. American Journal of Speech-Language Pathology, 25(1), 67–79. https://doi.org/10.1044/2015_ajslp-14-0184

Fjölbreyttar kennsluaðferðir. (e.d.). https://fjolbreyttkennsla.is/

Heidlage, J. K., Cunningham, J. E., Kaiser, A. P., Trivette, C. M., Barton, E. E., Frey, J. R. og Roberts M. Y. (2020). The effects of parent-implemented language interventions on child linguistic outcomes: A meta-analysis. Early Childhood Research Quarterly, 50(1), 6–23. https://doi.org/10.1016/j.ecresq.2018.12.006

Hrafnhildur Ragnarsdóttir. (2015). Málþroski leikskólabarna: Þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings milli fjögra og fimm ára aldurs. Netla. https://netla.hi.is/greinar/2015/ryn/007.pdf

Karen Inga Bergsdóttir. (2022). LANIS skimunarlisti: Önnur forprófun á framburðarhluta listans [Meistararitgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/41652

Lubbi. (2024). https://www.lubbi.is/

Lærum og leikum með hljóðin. (2013). https://laerumogleikum.is/

Málefli. (e.d.). https://www.malefli.is/is

McGill, N. og McLeod, S. (2019). Aspirations for a website to support families’ active waiting for speech-language pathology. International Journal of Speech-Language Pathology, 21(3), 263–274. https://doi.org/10.1080/17549507.2019.1604802

McGill, N., Crowe, K. og McLeod, S. (2020). “Many wasted months”: Stakeholders’ perspectives about waiting for speech-language pathology services. International Journal of Speech-Language Pathology, 22(3), 313–326. https://doi.org/10.1080/17549507.2020.1747541

Miðja máls og læsis. (e.d.). Miðja máls og læsis https://mml.reykjavik.is/

Novianti, R., Mahdum, Suarman, Elmustian, Firdaus, Hadriana, Sumarno, Rusandi, M. A. og Situmorang, D. D. B. (2023). Internet-based parenting intervention: A systematic review. Heliyon, 9(3), e14671. https://doi.org/10.1016/j.heliyon.2023.e14671

Orðaleikur MSHA. (e.d.). https://ordaleikur.msha.is/

Rannsókna- og fræðslustofu um þroska, læsi og líðan barna og ungmenna. (2024, 4. Janúar). Málþroski barna [myndband]. Vimeo. https://vimeo.com/899824155

Rannveig Gestsdóttir. (2022). LANIS skimunarlisti: Önnur forprófun á skimunartæki fyrir málþroska þriggja ára barna [Meistararitgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/41609

Sara Lovísa Halldórsdóttir, Aðalbjörg Guðmundsdóttir, Rán Þórisdóttir og Óskar Haukur Níelsson. (2022). Greinargerð: Starfshópur um þjónustu talmeinafræðinga við börn, tillögur um breytt fyrirkomulag. Stjórnarráð Íslands, Heilbrigðisráðuneytið.

Suttora, C., Zuccarini, M., Aceti, A., Corvaglia, L., Guarini, A. og Sansavini, A. (2021). The effects of a parentimplemented language intervention on late-talkers’ expressive skills: The mediational role of parental speech contingency and dialogic reading abilities. Frontiers in Psychology, 12, 723366. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2021.723366

The Hanen Center. (2016). https://www.hanen.org/

The Western NSW Local Health District. (2024). Waiting for speech pathology https://wnswlhd.health.nsw.gov.au/our-services/speech-pathology/

Walker, D., Sepulveda, S. J., Hoff, E., Rowe, M. L., Schwartz, I. S., Dale, P. S., Peterson, C. A., Diamond, K., GoldinMeadowh, S., Levine, S. C., Wasik, B. H., Horm, D. M. og Bigelow, K. M. (2020). Language intervention research in early childhood care and education: A systematic survey of the literature. Early Childhood Research Quarterly, 50, 68-85. https://doi.org/10.1016/j.ecresq.2019.02.010

Málþroski fyrirbura:

Rannsókn á niðurstöðum málþroskaathugana

fyrirbura á Barnaspítala Hringsins árin 2012–2021

Meistaraverkefni talmeinafræðinga

Höfundur:

Gunnhildur Gunnarsdóttir talmeinafræðingur

Undir leiðsögn Heiðu D. Sigurjónsdóttur, talmeinafræðings á Barnaspítala Hringsins

Fyrirburar eru viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að fylgja eftir. Ýmiss konar áhætta fylgir því að fæðast fyrir tímann og fyrirburar eru meðal annars líklegri til að glíma við heilalömun (CP), sjón- og heyrnarskerðingar, taugaþroskaraskanir og ýmiss konar vitræna, félagslega og námstengda erfiðleika (Pinto o.fl., 2019; Platt, 2014).

Hvers vegna koma íslenskir fyrirburar svo vel út þvert á niðurstöður erlendra rannsókna?

Erlendar rannsóknir benda til þess að fyrirburar séu með seinkaðan málþroska í samanburði við fullburða jafnaldra (Barre o.fl., 2011; Capobianco og Cerniglia, 2017; Imafuku o.fl., 2019; Putnick o.fl., 2017; Sutanto o.fl., 2021). Í grein Ingibjargar Georgsdóttur og félaga sem birtist í Læknablaðinu árið 2004 var þroski minnstu fyrirburanna (meðgöngulengd <28v og/eða fæðingarþyngd <1000g) skoðaður við 5 ára aldur. Málþroski var metinn af Ingibjörgu Símonardóttur talmeinafræðingi sem lagði málþroskaprófið TOLD-2P fyrir börnin. Niðurstöður leiddu í ljós að málþroskatala fyrirbura var lægri en hjá samanburðarhópi fullburða jafnaldra en frávikin mældust væg og marktækur munur kom ekki fram á hópunum þegar einstaka undirpróf voru skoðuð. Leiðbeinandi þessa meistaraverkefnis var Heiða D. Sigurjónsdóttir, talmeinafræðingur í fyrirburateymi Barnaspítala Hringsins. Hún hafði lengi gengið með hugmynd í kollinum að meistaraverkefni sem myndi snúast um að rannsaka málþroska íslenskra fyrirbura við tveggja ára leiðréttan aldur.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna málþroska íslenskra fyrirbura við tveggja ára leiðréttan aldur. Að fengnum leyfum var gögnum safnað úr sjúkraskrám fyrirbura um niðurstöður málþroskaathugana, lengd meðgöngu, alvarleika heilablæðingar og kyn svo eitthvað sé nefnt. Skilyrði þátttöku voru þau að barn hefði fæðst fyrir 28. viku meðgöngu og/eða hefði haft fæðingarþyngd undir 1000 grömmum.

Að auki þurfti málþroskaprófið Málfærni ungra barna (MUB) (Þóra Másdóttir o.fl., 2018) að hafa verið lagt fyrir þau við 24 mánaða leiðréttan aldur en á þeim aldri eru fyrirburar kallaðir inn í málþroskamat samkvæmt verklagi fyrirburateymisins. Í lokaúrtakinu voru 43 fyrirburar sem uppfylltu þessi skilyrði. Niðurstöður þeirra úr MUB málþroskaprófunum voru bornar saman við viðmið um hefðbundinn málþroska jafnaldra.

Að auki var kannað hvort marktækur munur væri á máltjáningu og málskilningi, hvort tengsl væru milli alvarleika heilablæðingar og alvarleika málþroskavanda og að lokum hvort finna mætti kynjamun á frammistöðu í málþroskaathugunum.

Niðurstöður sýndu að 70% þátttakenda voru innan marka samkvæmt viðmiðum MUB. Frammistaða 11% þátttakenda var afburðargóð. Að lokum voru 19% þátttakenda undir mörkum og töldust því með slakan málþroska. Enginn marktækur munur fannst á frammistöðu þátttakenda á málskilnings- og máltjáningarhluta prófsins. Engin fylgni fannst á milli alvarleika heilablæðingar og lækkaðrar málþroskatölu. Að lokum fannst enginn marktækur munur á frammistöðu stúlkna og drengja.

Hvers vegna koma íslenskir fyrirburar svo vel út þvert á niðurstöður erlendra rannsókna? Hafa ber í huga að þetta úrtak var hugsanlega ekki nægilega lýsandi fyrir þennan hóp fyrirbura þar sem börnin með alvarlegustu fylgikvilla fyrirburafæðinga gátu ýmist ekki tekið þátt í fyrirlögn eða var vísað á aðra stofnun. Gögn þeirra gætu því sagt allt aðra sögu. Einnig var algengt að börn drægju sig í hlé og vildu ekki taka þátt í fyrirlögn eða höfðu ekki úthald eða einbeitingu til að klára. Þær upplýsingar gætu gefið vísbendingu um málþroska fyrirbura í sjálfu sér, en fyrirburar eru líklegri til að glíma við athyglistruflanir og kvíða (Fitzallen o.fl., 2021; Franz o.fl., 2018; Perra o.fl.,

Heimildir:

2021; Sømhovd o.fl., 2012). Að auki gætu prófanir hafa átt sér stað of snemma, þar sem raunverulegur vandi er oft ekki kominn fram eða er ekki orðinn mjög áberandi við tveggja ára leiðréttan aldur. Góður málþroski fer að vega meira með tímanum, einkum þegar skólaganga hefst, og því breikkar bilið milli þeirra sem hafa góðan og slakan málþroska. Einnig þarf tveggja ára barn einungis fáein stig á MUB til að teljast innan marka fyrir hefðbundinn málþroska. Niðurstaða þessa verkefnis varð því til þess að ákvörðun var tekin um að seinka málþroskaprófunum á íslenskum fyrirburum frá 2 ára leiðréttum aldri til 3 ára aldurs.

Barre, N., Morgan A., Doyle, L. W., Anderson, P. J. (2011). Language abilities in children who were very preterm and/or very low birth weight: A meta analysis. The Journal of Pediatrics, 158(5), 766–775. https://doi.org/10.1016/j.jpeds.2010.10.032

Capobianco, M. og Cerniglia, L. (2017). Early language development in preterm children without neurological damage: A longitudinal study. F1000Research, 6, 2169. https://doi.org/10.12688/f1000research.13314.1

Fitzallen, G. C., Sagar, Y. K., Taylor, H. G. og Bora, S. (2021). Anxiety and depressive disorders in children born preterm: A meta-analysis. Journal of Developmental & Behavioral Pediatrics, 42(2), 154–162. https://doi.org/10.1097/DBP.0000000000000898

Franz, A. P., Bolat, G. U., Bolat, H., Matijasevich, A., Santos, I. S., Silveira, R. C., Procianoy, R. S., Rohde, L. A. og MoreiraMaia, C. R. (2018). Attention-Deficit/Hyperactivity Disorder and very preterm/very low birth weight: A metaanalysis. Pediatrics, 141(1), e20171645. https://doi.org/10.1542/peds.2017-1645

Imafuku, M., Kawai, M., Niwa, F., Shinya, Y. og Myowa, M. (2019). Audiovisual speech perception and language acquisition in preterm infants: A longitudinal study. Early human development, 128, 93–100. https://doi.org/10.1016/j.earlhumdev.2018.11.001

Ingibjörg Georgsdóttir, Evald Sæmundsen, Þóra Leósdóttir, Ingibjörg Símonardóttir, Snæfríður Þóra Egilson og Atli Dagbjartsson. (2004). Litlir fyrirburar á Íslandi: Niðurstöður þroskamælinga við fimm ára aldur. Læknablaðið, 90, 747-754.

Perra, O., Wass, S., McNulty, A., Sweet, D., Papageorgiou, K. A., Johnston, M., Biello, D., Patterson, A. og Alderice, F. (2021). Very preterm infants engage in an intervention to train their control of attention: Results from the feasibility study of the Attention Control Training (ACT) randomised trial. Pilot and Feasibility studies. 7, 66. https://doi.org/10.1186/s40814-021-00809-z

Pinto, F., Fernandes, E., Virella, D., Abrantes. A. og Neto, T. M. (2019). Born preterm: A public health issue. Portuguese Journal of Public Health, 37(1), 38–49. https://doi.org/10.1159/000497249

Platt, M. J. (2014). Outcomes in preterm infants. Public health, 128(5), 399–403. https://doi.org/10.1016/j.puhe.2014.03.010

Putnick, D. L., Bornstein, M. H., Eryigit-Madzwamuse, S. og Wolke, D. (2017). Long-term stability of language performance in very preterm, moderate-late preterm, and term children. The Journal of Pediatrics, 181, 74–79. https://doi.org/10.1016/j.jpeds.2016.09.006

Sutanto, A. V., Tamtomo, D. G. og Murti, B. (2021). The effect of premature births on language delay in children: A meta-analysis. Journal of Maternal and Child Health, 6(1), 67–76. https://doi.org/10.26911/thejmch.2021.06.01.07

Sømhovd, M. J., Hansen, B. M., Brok, J., Esbjørn, B. H. og Greisen, G. (2012). Anxiety in adolescents born preterm or with very low birthweight: A meta-analysis of case-control studies. Developmental Medicine & Child Neurology, 54(11), 988–994. https://doi.org/10.1111/j.1469-8749.2012.04407.x

Þóra Másdóttir, Sigurgrímur Skúlason, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Friðrik Rúnar Guðmundsson. (2018). MUB – Málfærni ungra barna. Handbók. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Heiðursfélagi Félags talmeinafræðinga á Íslandi

– Ingibjörg Símonardóttir

Viðtal og umfjöllun

Höfundur:

Ingibjörg Rúnarsdóttir talmeinafræðingur hjá Reykjavíkurborg og á

Talsetrinu

Ingibjörgu Símonardóttur þarf vart að kynna fyrir félagsmönnum FTÍ en hún er einn fyrsti starfandi talmeinafræðingur á Íslandi ásamt því að vera einn af stofnmeðlimum FTÍ. Hún hætti störfum árið 2011 og er framlag hennar til stéttarinnar er mikið. Við settumst niður með Ingibjörgu og fórum yfir ævistarfið.

Ingibjörg Símonardóttir er fædd árið 1944

og er uppalin á Siglufirði. Eftir að hafa slitið barnskónum þar lá leiðin til Akureyrar í

Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hún útskrifaðist árið 1963. Árið 1964 útskrifaðist hún sem kennari frá KÍ. Hún rifjaði upp með okkur fyrstu árin eftir að hún lauk kennaramenntuninni. „Ég hóf störf við Grunnskóla Kópavogs árið 1964, þá nýútskrifuð úr KÍ og starfaði þar í nokkur ár. Þá lá leið mín í kennslu við Fjölbrautaskóla Breiðholts þar sem ég starfaði sem sérkennari í hálft ár. Eftir þetta lá leið mín á erlenda grundu.“

Námsárin erlendis

Ingibjörg fór til náms erlendis, bæði til Bandaríkjanna og seinna Svíþjóðar. „Árið 1971 fluttist fjölskyldan til Cleveland, Ohio í Bandaríkjunum. Maðurinn minn, Atli Dagbjartsson barnalæknir, fór í framhaldsnám í nýburalækningum þar úti. Eitthvað varð ég nú að gera þarna úti svo ég sótti um styrk til Fræðsluskrifstofu Kópavogs í kennslu fyrir bráðger börn, eða „super gifted“ börn eins og þau nefndust gjarnan þá. Þá var mér tjáð að þegar væri einn íslenskur kennari á styrk í slíku námi og viðbót væri því óþörf. Ég komst seinna að raun um að umræddur kennari væri Ragna Freyja Karlsdóttir, ágætis sérkennari

Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingur.

og frumkvöðull á sínu sviði. Hún var í námi til sérkennslu fyrir ADHD börn. Eftir að hafa fengið neitun um áðurnefndan styrk sá ég auglýstan styrk til náms í talþjálfun barna með þroskahömlun. Ég sótti um styrkinn og fékk. Fjölskyldan fór út vorið 1971, Atli og ég ásamt hvítvoðungi og fjögurra ára gamalli dóttur okkar. Börnin fóru í leikskóla og foreldrarnir í framhaldsnám hvort á sínu sviði. Ég var eitt misseri í Cuyahoga Community College og tvö misseri í Cleveland State University þar sem ég sótti kúrsa í talmeinafræði og sérkennslu

ásamt verklegri þjálfun hjá stofnun sem hét Montgomery Reading Center for Reading Disabled Children. Eftir dvölina í Ohio fluttist fjölskyldan til Washington D.C. þar sem við vorum búsett í tvö ár. Þar tók ég námskeið í heyrnar- og talmeinafræði á öðru og þriðja misseri. Þá fluttum við heim til Íslands og stoppuðum í fjögur ár. Var þá komið að því að við héldum aftur út en í það skiptið til Svíþjóðar til Gautaborgar. Í Gautaborg stundaði ég nám í talmeinafræði í þrjú misseri. Anna Sigríður Pétursdóttir var með mér í náminu og var lokaverkefni okkar í náminu framburðarpróf sem við þróuðum fyrir 5-6 ára gömul börn og fengum þar styrk frá íslenska menntamálaráðuneytinu. Á þessum tíma var ekki til staðlað framburðarpróf fyrir íslenskt mál. Þegar við vorum komnar af stað með framburðarprófið voru Sigríður Magnúsdóttir og Höskuldur Þráinsson komin af stað að vinna að sínu prófi.“

Aðspurð að því hvort það hafi þá ekki alltaf verið ætlunin að verða talmeinafræðingur segir hún svo ekki hafa verið. „Í rauninni ekki. Í rauninni sá ég fyrir mér að fara í nám þar sem ég gæti lært að sinna bráðskörpum börnum. Ég hafði nefnilega þá starfað í skólakerfinu um skeið og mér fannst ekkert vera gert fyrir þau börn sem voru á undan sínum jafningjum og leiddist í skóla. En eins og ég sagði þá fékk ég ekki styrk fyrir slíku námi og því fór sem fór og sé ég ekkert eftir því.“

Eftir dvölina í Svíþjóð flutti Ingibjörg heim til Íslands ásamt fjölskyldunni þar sem hún starfaði það sem eftir var starfsævinnar. „Við heimkomu fór ég að vinna hjá Greiningarog ráðgjafarstöð ríkisins en þá var sú stofnun nýorðin að veruleika. Var ég fyrsti starfandi talmeinafræðingurinn þar. Á þeim tíma lauk ég einnig BA-prófi í almennum málvísindum frá HÍ. Eftir þó nokkur ár hjá

Greiningarstöðinni færði ég mig um set og þá lá leið mín í Garðabæinn. Ég sá auglýsta stöðu hjá skólaskrifstofu sveitarfélagsins. Þá voru töluvert færri leik- og grunnskólar í sveitarfélaginu en nú. Ég lagði áherslu á að fara í alla skólana einu sinni í viku eða því sem næst. Ég hef nefnilega trú á því að í starfi sem

Ingibjörg hefur verið talsmaður þess að fyrirbyggjandi aðgerðir, eða snemmtæk íhlutun, sé höfð að leiðarljósi þar sem hún getur borgað sig margfalt.

okkar sé mjög mikilvægt að vera á staðnum, sem sagt að vera sýnilegur á vettvangi.“ Innt nánar út í þetta málefni segir Ingibjörg sig ávallt hafa talið samstarf talmeinafræðinga við sveitarfélögin mikilvægt og að þeir væru í góðu samstarfi við skólana. Hefur hún verið talsmaður þess að fyrirbyggjandi aðgerðir, eða snemmtæk íhlutun, sé höfð að leiðarljósi þar sem hún getur borgað sig margfalt. Ekki aðeins geti það sparað mikla fjármuni að grípa snemma inn í vanda barns, áður en hann vindur upp á sig, heldur hafi það mikil áhrif á skólagöngu og vellíðan barnsins.

Einnig ber að nefna að Ingibjörg starfaði í þrjú ár sem forstöðumaður námsleiðar sem þá bar nafnið Námsflokkar Kópavogs.

Ingibjörg á árum áður.

Ingibjörg ásamt eiginmanni sínum, Atla

„Á forstöðumannsárunum lagði ég til nafnabreytingu, að heitinu yrði breytt í Kvöldskóla Kópavogs, sem úr varð. Á þessum árum lauk ég einnig BA prófi í mannkynssögu frá HÍ.“

Þýðingar, rannsóknir og prófgerð Ingibjörg hefur unnið ötullega að þýðingum, rannsóknum og gerð prófa á sviði talmeinafræðinnar. Hefur þetta verið mikill ávinningur fyrir stéttina. „Þegar ég starfaði á greiningarstöðinni hafði Sigríður Magnúsdóttir, talmeinafræðingur, samband og benti mér og kollega okkar, Sigríði Pétursdóttur, á TOLD málþroskaprófin. Í einhverju bjartsýniskasti tókum við þá ákvörðun að þýða og staðla TOLD og sóttum við um styrk fyrir þessu verkefni, sem við fengum. Þetta var alveg gífurleg vinna sem tók mörg ár enda var þessu sinnt meðfram öðrum störfum.“

Ingibjörg þýddi og staðfærði tvö TOLD próf en þetta eru þýðingar á bandarískum málþroskaprófum fyrir 4-8;11 ára börn annars vegar (TOLD2-P) og 8;6-12;11 hins vegar (TOLD-2I). Þýðingarnar hafa reynst mikilvæg verkfæri fyrir talmeinafræðinga sem starfa á Íslandi. TOLD-2P þýddi hún og staðfærði ásamt

Einari Guðmundssyni, Sigurgrími Skúlasyni og Sigríði Pétursdóttur og kom þýðingin út árið 1995 en verkið hófst árið 1988. Ári síðar kom út þýðing á málþroskaprófinu TOLD-2I sem Ingibjörg sá um að þýða og staðfæra ásamt Einari Guðmundssyni og Sigríði Pétursdóttur.

Ingibjörg hefur einnig tekið að sér að hanna séríslensk próf. Ber þar fyrst að nefna HLJÓM-2 sem Ingibjörg þróaði ásamt Amalíu Björnsdóttur og Jóhönnu Einarsdóttur. Er það skimunarpróf sem hannað er til að meta hljóðkerfisvitund barna á elsta ári í leikskóla. Þetta próf kannast flestir talmeinafræðingar við og ekki síður kennarar, sér í lagi þeir sem starfa með elstu börnum leikskólans. Rannsókn við þá vinnu sem HLJÓM-2 byggir á hófst árið 1996. Upphaflega var útbúið próf með heitinu HLJÓM. Þetta próf reyndist ágætlega en þótti fulllangt og var ekki gefið út. Var ákveðið að stytta prófið þannig að það myndi henta til notkunar í leikskólum og fékk seinni útgáfan þetta heiti.

Ingibjörg er einnig einn höfunda EFI málþroskaskimunarinnar, en EFI er hannað til að skima málþroska barna á fjórða aldursári. EFI stendur fyrir eiginnöfn höfunda: Elmar

Dagbjartssyni.

Þórðarson, Friðrik Rúnar Guðmundsson og Ingibjörgu Símonardóttur. EFI var notað í 3 og ½ árs skoðunum á heilsugæslustöðvunum og því fyrst og fremst notað af hjúkrunarfræðingum þar til þeirri skimun var hætt. Sömu höfundar standa að baki EFI-2 málþroskaskimuninni og liggur sama hugmyndafræði að baki en vægi nokkurra atriða var breytt á því skimunartæki.

EFI-2 er ætlað til notkunar í leikskóla fyrir leikskólakennara og annað sérmenntað starfsfólk og er enn notað töluvert.

Að lokum má nefna að Ingibjörg er einn höfunda málþroskaprófsins Málþroski eldri leikskólabarna (MELB) sem kom út árið 2021. Prófið er samið og staðlað hérlendis og ætlað talmeinafræðingum. Prófið er er ítarlegt og kannar mörg svið málþroskans og er mikilvægt mælitæki til að mæla málþroska íslenskra leikskólabarna.

Gott ævistarf

Spurð út í það hvort eitthvað standi upp úr á ferlinum segir Ingibjörg það vera þýðinguna á TOLD prófunum. Segir hún gífurlega vinnu hafa farið í það verkefni og þótt prófið hafi sína vankanta hafi það nýst til að gefa miklar upplýsingar um málþroska barnanna.

Hún lítur sátt yfir farinn veg og segir árin hjá Garðabæ og Greiningarstöðinni hafa verið ánægjuleg. „Mér fannst árin hjá Garðabæ afar góð, þar hafði ég virkilega trú á því að ég væri að gera gagn enda starfaði ég þar, þar til ég fór á eftirlaun. Árin okkar í Kjarvalshúsi, þar sem Greiningarstöðin var til að byrja með, voru líka mjög góð. Þar starfaði ég í teymi og mér þótti teymisvinnan virkilega gefandi. Við hættum bæði störfum 67 ára, maðurinn minn og ég. Þá var nú planið að gera lítið annað en að njóta lífsins, sem hefur gengið ágætlega, en ég hélt nú samt eitthvað áfram að vinna, þá sjálfstætt starfandi við rannsóknir. Ég tók til að mynda þátt í að útbúa málþroskapróf fyrir eldri leikskólabörn eftir að ég fór á eftirlaun“ segir Ingibjörg og á þá við áðurnefnt MELB málþroskapróf.

Ævistarf Ingibjargar á sviði talmeinafræðinnar er langt og markvert. Hennar helstu hugðarefni í starfinu hafa verið að finna leiðir til að efla börn sem glíma við örðugleika í tali og máli. Hún skilur eftir sig próf, þýðingar og rannsóknir sem nýtast stéttinni og öðrum fagaðilum umtalsvert.

Dagur í lífi talmeinafræðings

Sigfús Helgi Kristinsson, talmeinafræðingur, Assistant Professor

við Communication Sciences and Disorders deildina í USC

Miðvikudagur 16. október 2024

Sigfús Helgi, aðstoðarprófessor við háskólann í Suður-Karólínu.

06:30 Vakna og vek Sigþór, yngsta strákinn okkar, og saman gerum við okkur til í skóla og vinnu. Við erum svolítið A-megin í lífinu og finnst gott að hafa smá rólegheit í morgunsárið áður en verkefni dagsins kalla.

07:30 Keyri Sigþór í skólann og skunda sjálfur á skrifstofuna, u.þ.b. 25 mínútna akstur í morgunumferðinni.

08:00 Dagskrá vikunnar er breytileg eftir árstíma en miðvikudagsmorgnar eru að öllu jöfnu nýttir til fundarhalda. Á fyrsta fundi dagsins kynni ég rannsóknarniðurstöður sem til stendur að halda framsögn um á ráðstefnu í komandi viku fyrir samstarfsfólki – n.k. generalprufa á fyrirlestrinum. Við vinnum náið saman og endurgjöf samstarfsfólksins er ómissandi svo ég segi enga vitleysu þegar á hólminn er komið!

09:00 Næst er það mánaðarlegur deildarfundur þar sem farið er yfir ýmis mál sem snúa að nemendum, kennslu og daglegum rekstri bæði námsbrautarinnar og klíníkurinnar.

10:30 Í kjölfarið er fundur með rannsakendum við deildina þar sem rætt er um framvindu rannsóknarverkefna á ýmsum sviðum og verkefnin sem framundan eru.

11:30 Eftir fundarhöldin skýst ég í ræktina sem er steinsnar frá Labinu okkar. Ég reyni að nýta mér þá frábæru íþróttaaðstöðu sem skólinn býður upp á í hádeginu sé þess nokkur kostur. Það er ekki síst mikilvægt fyrir andlega heilsu.

13:00 Ég er mættur á sjúkrahúsið en ég sé um að skanna rannsóknarþátttakendur alla miðvikudaga. Labið okkar á MRI skanna sem hýstur er á sjúkrahúsinu og við skiptumst á að skanna þátttakendur eftir hádegi alla virka daga, en þess á milli er skanninn nýttur í klínískum tilgangi.

17:00 Að loknum hefðbundnum verkefnum dagsins mæti ég á óformlegan kaffifund með nokkrum nýjum kollegum við „skólann“ (Arnold School of Public Health). Þetta er fyrsta önnin mín sem fastráðinn starfsmaður við skólann og því reyni ég að styrkja tengslin við nýja starfsmenn annarra deilda skólans.

18:30 Kem heim og við taka mikilvægustu verkefni dagsins: aðstoð við heimanám, sem er öllu meira en við kynntumst á Íslandi, kvöldmatur, heimilisverkin og fjölskyldutími. Þrátt fyrir að það sé yfirleitt meira en nóg að gera og metnaðardrifið bandarískt hugarfar krefjist stundum aukins vinnuframlags utan dagvinnutíma þá finnst mér – af fenginni reynslu – algjört grundvallaratriði að forgangsraða fjölskyldunni.

22:00 Eftir að ró er komin á heimilið stelum við hjónakornin smá stund í spjall um daginn og einn sjónvarpsþátt áður en við förum að hvíla okkur.

Sigfús heldur fyrirlestur á Society for the Neurobiology of Language í Ástralíu.

Norræn málstolsráðstefna á Íslandi 2023

Höfundur:

Þórunn Hanna Halldórsdóttir talmeinafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands

Dagana 14.–16. júní 2023 fór fram stór norræn ráðstefna um málstol í Reykjavík, Nordic Aphasia Conference (NAC23). Þar komu saman talmeinafræðingar, fræðimenn, nemar og annað áhugafólk um málstol til að fræðast um niðurstöður rannsókna og nýjungar í meðferð. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var Comprehensive aphasia therapy - From theory to practice.

Í þessari grein verður aðeins farið yfir sögu

NAC, undirbúningsferlið fyrir ráðstefnuna hér á landi og framkvæmd ráðstefnunnar sjálfrar.

Saga NAC

Mynd af skipulagsnefnd NAC23. Frá vinstri:

Þórunn H., Bryndís G., Helga T., Ester S., Iris Edda N. og Ingunn H.

NAC var fyrst haldin í Osló í Noregi árið 2006 að frumkvæði norskra talmeinafræðinga hjá Norwegian Aphasia Forum/Afasiforum og Bredtvet Resource Center, sem nú heitir Statped, Department of Speech and Language Disorders og er staðsett í Osló. Upphaflegt markmið þeirra var að stuðla að faglegri þróun innan málaflokksins og sameina rannsakendur og klíníska talmeinafræðinga frá öllum

Norðurlöndunum sem vinna með málstol. Áhugi á ráðstefnunni hefur vaxið gífurlega á síðustu árum, bæði innan Norðurlanda og frá talmeinafræðingum og fræðimönnum í Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar. Strax frá upphafi var ákveðið að Norðurlöndin myndu skiptast á að halda ráðstefnu og síðan þá hefur hún verið haldin í Kaupmannahöfn (2009), Helsinki (2011), Gautaborg (2013), Osló (2015), Kaupmannahöfn (2017), Turku (2019) og Reykjavík (2023). Til stóð að halda NAC í 8. sinn á Íslandi í júní 2021 en vegna Covid19 heimsfaraldursins var henni frestað til ársins 2023.

NAC er ætlað að gegna eftirfarandi hlutverki:

• Að vera vettvangur fyrir talmeinafræðinga og aðra sérfræðinga í málstoli að hittast, ræða saman og bera saman bækur sínar.

• Að bjóða upp á vettvang til að kynna sér nýjustu rannsóknir, gagnreyndar meðferðarleiðir og hvernig þær geti nýst best til að bæta lífsgæði einstaklinga með málstol.

• Að vera opið fyrir öðrum fagstéttum en talmeinafræðingum, þó að áherslan sé á vinnu þeirra með fólki með málstol.

• Að leggja megináherslu á rannsóknir um málstol, frekar en almennar afleiðingar ákomins heilaskaða.

• Að stuðla að aukinni þekkingu á málstoli og meðferð þess.

Lítil þekking var á NAC á meðal talmeinafræðinga starfandi á Íslandi fyrr en árið 2016 þegar ráðstefnuhaldarar frá Danmörku höfðu samband og óskuðu eftir samstarfi. Þá var það eindregin ósk að NAC yrði haldin í Reykjavík sem fyrst. Það hljómaði strax sem stórt en spennandi verkefni og varð það að samkomulagi að stefna að því að halda NAC hér á landi í júní 2021. Í kjölfarið fór hópur talmeinafræðinga frá Landspítala, Kristnesi, Reykjalundi og Talsetrinu á NAC17 í Kaupmannahöfn með þrjú veggspjöld í farteskinu. Einnig fór aðeins minni hópur til Turku 2019 nú með fjögur veggspjöld, auk þess að kynna Reykjavík sem næstu ráðstefnuborg.

Undirbúningur og áskoranir

Undirbúningur ráðstefnuhaldsins hófst fljótlega eftir ráðstefnuna í Turku 2019. Fyrsta verkið var að kalla saman hóp talmeinafræðinga sem voru tilbúnir til að taka þátt í verkefninu og var þá leitað til hóps talmeinafræðinga innan FTÍ sem vitað var að hefðu reynslu af rannsóknum og starfi með fólki með málstol. Er skemmst frá því að segja að mjög vel var tekið í þær fyrirspurnir og var mjög fljótlega mynduð skipulagsnefnd um framkvæmd ráðstefnunnar. Verkstjórar voru höfundur og Ester Sighvatsdóttir, yfirtalmeinafræðingur á Landspítala en mjög margir komu að undirbúningnum á hinum ýmsu stigum. Ber þar helst að nefna Ingunni Högnadóttur, Helgu Thors, Irisi Eddu Nowenstein og Bryndísi Guðmundsdóttur. Verkefnið varð aðeins flóknara þegar ljóst varð haustið 2020 að óraunhæft yrði að halda ráðstefnuna í júní 2021. Ester og höfundur tóku þá þátt í samnorrænum verkefnahópi sem stóð fyrir fjarviðburði NAC Online event 21 þar sem öll norrænu löndin, þar á meðal Ísland héldu 2-3 erindi um það sem var efst á baugi í rannsóknum á málstoli í hverju landi fyrir sig. Fyrir Íslands hönd voru það Sigfús Helgi Kristinsson þá doktorsnemi frá USC, dr. Helga Thors talmeinafræðingur HÍ og

Landspítala og höfundur sem héldu þar erindi. Ester Sighvatsdóttir hélt einnig smá tölu og auglýsti Reykjavík sem næstu ráðstefnuborg 2023. Er skemmst frá því að segja að þessi viðburður var mjög vel sóttur og vakti athygli hversu mikill áhugi var á ráðstefnunni bæði innan og utan Norðurlanda.

Vorið 2022 var svo þráðurinn tekinn upp aftur og skipulagning ráðstefnunnar fór á fullt. Verkefnahópurinn skipti með sér verkum, enda af nógu að taka þegar skipuleggja á svona stóra ráðstefnu. Strax var tekin sú ákvörðun að skipta við ráðstefnufyrirtæki til að sjá um utanumhald, skráningu, samskipti við þátttakendur, móttöku útdrátta og fleiri praktíska þætti. Við leituðum til Athygli ráðstefnur sem reyndist okkur afskaplega vel og við gefum þeim okkar bestu meðmæli. Þá vorum við í góðu samstarfi við Félag talmeinafræðinga á Íslandi sem veitti okkur gott bakland. Ingunn Högnadóttir og Bryndís Guðmundsdóttir tóku höndum saman við að leita að styrkjum til að standa undir þeim kostnaði sem þurfti að leggja út fyrir fram. Það starf bar árangur og verkefnið fékk styrk og stuðning frá Fræðagarði (nú Viska) og góðan fjárstyrk frá heilbrigðisráðuneytinu sem við vorum afskaplega þakklát fyrir.

Leitað var til íslenskra fræðimanna á sviði málstols til að mynda vísindanefnd og fara yfir og meta innsenda útdrætti og aðstoða við uppsetningu dagskrárinnar. Í vísindanefnd

Ingibjörg Rúnarsdóttir og Iris Edda Nowenstein kynntu greiningarferli PPA.

Anna Berglind Svansdóttir kynnti niðurstöður

MS verkefnis síns um viðmælendaþjálfun.

voru: Þórunn Hanna Halldórsdóttir, Ester Sighvatsdóttir, Helga Thors, Sigfús H.

Kristinsson, Iris Edda Nowenstein og Edda Óttarsdóttir. Alls bárust 123 útdrættir frá yfir 20 löndum sem er tvöfalt fleiri en á ráðstefnunni í Turku og fékk nefndin það vandasama en skemmtilega verk að lesa yfir þá alla og setja upp áhugaverða dagskrá.

Nokkrum mánuðum fyrir ráðstefnuna höfðu forsvarsmenn Collaboration of Aphasia Trialists (CAT), sem er alþjóðlegur samvinnuhópur fræðimanna á sviði málstols, samband og lýstu yfir áhuga á að fá samstarf við hópinn til að halda vinnufundi daginn fyrir ráðstefnuna. Vel var tekið í það erindi og fengum við styrk frá námsbraut í talmeinafræði við HÍ til að leigja stofur fyrir þau undir þá fundi. Þessi fundur CAT jók áhuga á ráðstefnunni þar sem þeirra þátttakendur komu margir líka á ráðstefnuna, auk þess sem sá hópur átti mikið af innsendum útdráttum.

NAC23 á Íslandi

NAC23 var haldin 14.-16. júní 2023 í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð.

Þátttakendur ráðstefnunnar voru um 200 og komu frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Spáni, auk Norðurlandanna. Aðalfyrirlesarar voru þrír. Við vorum mjög ánægð með að opna ráðstefnuna með okkar helsta sérfræðingi í faginu, íslenskum í þokkabót, dr. Júlíusi Friðrikssyni frá University of South Carolina. Hann hélt mjög skemmtilegt og áhugavert erindi um Taltog (speech entrainment) sem meðferð við málstoli. Á degi tvö hélt dr. Katarina Hilari, prófessor í City University London, mikilvægt erindi um andlega líðan hjá fólki með málstol og mikilvægi þess að huga að félagslegu neti og vinasamböndum. Kynnti hún meðal annars vina-verkefni á jafningjagrunni sem kallast SUPERB. Síðasta daginn var það svo dr. Marion Brady frá Glasgow Caledonian University sem hélt erindi þar sem litið var til þess hvernig fræðileg þekking á að styðja við stórar klínískar spurningar s.s. hvaða meðferðarnálgun hentar þessum skjólstæðingi, hversu áköf á hún að vera og hvernig er hægt að hámarka árangur? Er skemmst frá því að segja að þessi þrjú erindi voru öll mjög fróðleg og settu góðan tón í umræður í kaffihléum. Önnur erindi á dagskránni voru fjölbreytt en öll áhugaverð og snertu þætti eins og aðferðafræði í málstolsrannsóknum, hvaða þættir skipta mestu máli fyrir árangur, heildræna málstolsþjálfun, fjarþjálfun, tæknilausnir, ákefð í meðferð og fleira. Við Íslendingar áttum fleiri fulltrúa á ráðstefnunni, en Sigfús H. Kristinsson hélt erindi um leitina að forspárþáttum um árangur í málstolsmeðferð og meðal veggspjalda voru kynningar frá Helgu Thors, Iris Eddu Nowenstein og Önnu Berglindi Svansdóttur.

Í lok fyrsta dags ráðstefnunnar mætti Nicole Campbell, stjórnarmaður í The Tavistock Trust for Aphasia, sjóði stofnuðum af Robin Tavistock, 14. hertoganum af Bedford.

Sjóðurinn heiðrar árlega einstaklinga eða hópa sem teljast hvetjandi og hafa lagt verulega af mörkum til þekkingar á málstoli og veitir þeim viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf. Í ár var þessi viðurkenning veitt áðurnefndum CAT rannsóknarhópi, fyrir mikilvægt framlag þeirra til málstolsfræða í gegnum alþjóðlega

samvinnu við rannsóknir á málstoli. Þá má benda lesendum á heimasíðuna þeirra https://www.aphasiatrials.org/ þar sem finna má fjölbreyttan fróðleik og upplýsingar um þeirra vinnu og rannsóknarefni.

Ráðstefnan gekk vonum framar, um 200 ánægðir ráðstefnugestir spjölluðu saman í kaffihléum og yfir veggspjaldakynningum, á milli þess sem þeir nutu þess að hlusta á fræðandi erindi víðs vegar að úr heiminum. Ýmiss konar dagskrá var í kringum hefðbundna dagskrá fyrirlestra og kynninga. Reykjavíkurborg bauð okkur að halda móttöku í Ráðhúsinu þar sem ráðstefnugestir nutu sín í spjalli undir ljúfum djasstónum. Þá var þátttakendum einnig boðið að taka þátt í Gala-kvöldverði í fallega salnum í Gamla bíói og þar tróðu upp GDRN og Magnús Jóhann og fluttu nokkur lög. Eftir ráðstefnuna var síðan skipulögð ferð í Bláa lónið fyrir þá sem vildu.

Þá má ekki vanmeta tengslamyndun á slíkum viðburðum þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kynnast, skiptast á hugmyndum og spjalla saman um það sem efst er á baugi í fræðum og klínísku starfi í dag.

Ákveðið var snemma að nýta ráðstefnuna sem tækifæri til að beina athygli fjölmiðla að málstoli. Fulltrúar skipulagsnefndar mættu því í útvarpsviðtöl á Rás 1 (Ester) og Rás 2 (Sigfús og Iris Edda) og skrifuðu pistla sem birtust á vefmiðlum (Ingunn). Þá var stutt viðtal við Júlíus í sjónvarpsfréttum og fór höfundur ásamt Guðrúnu Jónsdóttur lækni í viðtal við blaðamann Morgunblaðsins, þar sem Guðrún lýsti meðal annars reynslu sinni af því að lifa með málstol.

Samantekt

Að halda ráðstefnu er ætíð mikil vinna. Þar skiptir miklu máli að hafa samstilltan hóp sem svarar kallinu og er tilbúinn að vinna saman, eins og raunin var við undirbúning þessarar

ráðstefnu. Ég hef nefnt nokkra af þeim sem tóku þátt í undirbúningi og vinnu við ráðstefnuna, en það voru fleiri sem komu að, bæði talmeinafræðingar og nemar í talmeinafræði, og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim öllum kærlega fyrir þeirra framlag.

Íslenskt fræðasamfélag innan talmeinafræðinnar græðir mikið á því að fá til landsins svo góða og merka fræðimenn að kynna fyrir okkur þeirra störf og vera þannig hvatning til okkar hinna að halda áfram faglegri og fræðilegri þekkingarleit. Þá má ekki vanmeta tengslamyndun á slíkum viðburðum þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kynnast, skiptast á hugmyndum og spjalla saman um það sem efst er á baugi í fræðum og klínísku starfi í dag. Þá styrkir þessi ráðstefna tvímælalaust tengsl okkar við kollega á Norðurlöndum og getur orðið kveikjan að samstarfi á sviði rannsókna og klínískrar þekkingar. NAC verður næst haldin 9.-11. júní 2025 í Uppsala í Svíþjóð og er ekki ástæða til annars en að ætla að dagskráin þá verði bæði áhugaverð og skemmtileg. Ég hvet alla sem hafa áhuga á rannsóknum og starfi með fólki með málstol að skrá sig og mæta til Uppsala (sjá nánar á www.nordicaphasia.com).

Helga Thors kynnti þýðingu og staðfæringu á CAT-IS prófinu.

Fjölbreyttar og styðjandi tjáskiptaleiðir - hvað á ég að gera?

Höfundur:

Ragna Laufey

Þórðardóttir

Talmeinafræðingur, CCC-SLP

Ráðgjafar og Greiningarstöð, Talsetrið og tjáskiptateymi SÍ

Skjólstæðingahópur talmeinafræðinga er fjölbreyttur og gerir það starf okkar bæði gefandi og spennandi. Hópur þeirra sem eru með flóknar tjáskiptaþarfir er stór og þarf oft stórt og þverfaglegt teymi til að veita bæði ráðgjöf og þjónustu. Hlutverk talmeinafræðinga í slíkum teymum er mikilvægt þar sem við komum með okkar viðamiklu þekkingu á nálgun á tjáskiptum.

Hugtakið óhefðbundin tjáskipti hefur verið notað lengi á Íslandi þegar það er verið að ræða um tjáskipti þar sem einstaklingar þurfa að nýta sér tjáskiptaleið sem er hvorki talað mál né íslenskt táknmál. Síðastliðin ár hafa hugtökin fjölbreyttar tjáskiptaleiðir, tjáskiptatækni eða tjáskiptalausnir verið notuð í meira mæli þar sem þau þykja jákvæðari og henta betur okkar fjölbreytta samfélagi.

Annað hugtak, sem er kannski meira lýsandi og tengist meira enska hugtakinu Augmentative and Alternative Communication (AAC), er fjölbreyttar og styðjandi tjáskiptaleiðir (FST).

Hvaða hugtak við notum er ekki aðalatriðið en það sem skiptir mestu máli er að við styðjum einstaklinga í tjáskiptum sama hvernig tjáskiptin eru.

FST er hugtak yfir mismunandi aðferðir sem geta nýst einstaklingum til að styðja við tjáskipti þeirra hvort sem það er talað mál eða ekki. Þessar aðferðir geta verið einfaldar og óstuddar lausnir eins og tákn, bendingar og líkamshreyfingar eða einfaldar studdar lausnir eins og myndir, tjáskiptabækur og spjöld (myndræn tjáskipti). Einnig eru í boði flóknari hátæknilausnir eins og spjaldtölvur, sérhæfðar tjáskiptatölvur, augnstýribúnaður, ýmsir rofar og fleira. Við Íslendingar höfum haft takmarkað aðgengi og val á mismunandi hátækni-tjáskiptalausnum þar sem algeng erlend tjáskiptaforrit hafa ekki verið þýdd yfir á íslensku og íslenskir talgervlar hafa

hingað til ekki virkað á ios stýrikerfi eins og iPad. En við höfum haft aðgang að sterkum tjáskiptaforritum frá Tobii Dynavox eins og TD Snap og nú er beðið eftir öðrum, sem eru í þýðingu, með mikilli eftirvæntingu. Það er mikið að gerast í hátæknilausnum þessa dagana. Við eigum von á aðgengi að talgervlum í ios stýrikerfi sem mun vonandi auka aðgengi að tjáskiptaforritum fyrir skjólstæðinga okkar. Tjáskiptateymi Sjúkratrygginga sér um ráðgjöf til þeirra sem sækja um sérhæfðar tjáskiptatölvur. Sótt er um ráðgjöf í gegnum gagnagátt SÍ. Gátlista, sem þarf að fylgja umsókn, er hægt að finna á island.is. Sigríður Ásta Vigfúsdóttir, talmeinafræðingur, skrifaði grein í 26. tölublaði Talfræðingsins um börn og tjáskiptatölvur og útskýrir verkferla hjá tjáskiptateyminu. Teymið, og eftirspurn eftir aðkomu þess, hefur þróast og aukist mikið frá stofnun þess árið 2018 og er vonast til að það stækki áfram og mæti vaxandi þörf fyrir ráðgjöf.

Afhverju mælum við með innleiðingu og notkun á FST? Tjáskipti eru mannréttindi og öll eigum við rétt á því að geta tjáð okkur til að mæta þörfum okkar, taka ákvarðanir, mynda tengsl og taka þátt í leik og starfi á okkar forsendum. Fötluð börn eru þar ekki undanskilin. Mýtan um að notkun á FST komi í veg fyrir að talað mál þroskist og þróist er því miður algeng og leiðir oft til þess að börnum er ekki veitt aðgengi að tjáskiptaleið

Tjáskipti eru mannréttindi og öll eigum við rétt á því að geta tjáð okkur til að mæta þörfum okkar, taka ákvarðanir, mynda tengsl og taka þátt í leik og starfi á okkar forsendum.

fyrr en mjög seint og aðeins þegar það er búið „að reyna allt annað“. Rannsóknir sýna að aðgengi að FST eykur oft talað mál en fyrst og fremst eykur það tjáskipti. Aðgengi að FST styður við málþroska, eykur málskilning, eykur þátttöku í leik og starfi, eykur félagsleg samskipti og eykur sjálfstæði. Þess vegna er mælt með innleiðingu á FST sem fyrst þegar vísbendingar eru til staðar um að barn hafi flóknar tjáskiptaþarfir. Aðgengi að sjónrænum stuðningi við tjáskipti er mikilvægt og er það gagnreynd leið til að styðja við málþroska barna (Solomon-Rice, P. og Soto, G., 2014).

Hver getur nýtt sér FST? Oft hefur verið rætt um hvaða hæfni einstaklingur þarf að hafa til að geta nýtt sér myndrænt tjáskiptakerfi, t.d. augnsamband eða myndgeymd (e. object permanence). Rannsóknir sýna hins vegar að þetta er ekki æskileg nálgun og það að vinna með þessar „forkröfur“ áður en myndræn tjáskipti eru innleidd leiði ekki til árangursríkra tjáskipta. Hér áður fyrr var niðurstaðan oft að einstaklingur væri of ungur, of gamall, of hreyfihamlaður, of þroskahamlaður eða með of mikið talað mál, og áfram mætti telja, til að eiga þess kost að nýta sér FST (Beukelman og Light, 2020). Þetta hefur verið kallað hliðvarsla (e. gatekeeping) eða aðgengishindrun að FST. Núna er mælt með að unnið sé með þátttökulíkan í mati á tjáskiptaþörfum. Með líkaninu er skoðað hverjar þarfir einstaklingsins eru og hvernig lausnir eru nýttar til að bæta upp tjáskiptaskerðingu. Þá er mælt með innleiðingu stuðnings við tjáskipti fyrr heldur en seinna. Sjónrænn stuðningur og skipulag í leikskólum og skólum er viðurkennt verklag og vitað er hversu mikilvægt það er til að aðstoða börn við að skilja umhverfi sitt. Þetta hjálpar

börnum með ólíkar þarfir, bæði börnum með flóknar tjáskiptaþarfir og þeim börnum sem eru enn að ná tökum á nýju tungumáli. Sjónrænn stuðningur getur aukið þátttöku þessara barna í samskiptum og skólastarfi.

Viðurkenndar leiðir Flest FST sérfræðiteymi úti í heimi hafa verið að vinna eftir fjórum hugtökum og áherslum sem eru núna skilgreind sem viðurkenndar leiðir (e. best practice) í innleiðingu á myndrænum tjáskiptaleiðum. Þessar áherslur eru: vinna með kjarnorðaforða, aukið aðgengi, aukin tækifæri og að fólk í umhverfi notandans sé fyrirmynd í notkun á tjáskiptaleiðinni.

Kjarnorð eru þau orð sem mest eru notuð í daglegu lífi einstaklinga. Sumar rannsóknir sýna að 80% af þeim orðum sem við notum daglega tilheyra kjarnorðaforða. Þessi orð er hægt að nota í breytilegum og fjölbreyttum aðstæðum og innihalda sagnorð, fornöfn, lýsingarorð og forsetningar. Ólöf Gunnarsdóttir, talmeinafræðingur, skrifaði um kjarnorð í meistararitgerð sinni (2020) og gaf út lista af algengustu kjarnorðum íslenskra barna. Dæmi um algeng og mikilvæg kjarnorð eru: vil, meira, fara, búin/n, stopp og aftur. Mælt er með innleiðingu á kjarnorðum sem fyrst þegar myndræn tjáskipti eru kynnt ásamt persónulegum jaðarorðaforða. Jaðarorðaforði er að mestu leyti samsettur úr inntaksorðum, svo sem nafnorðum, sagnorðum og lýsingarorðum sem eru bundin aðstæðum og áhugasviði hvers og eins. Mikilvægast er að barnið hafi orðaforða sem nýtist í sem flestum aðstæðum og tilgangi. Ef barnið notast ekki við hátæknilausn er hægt er að útbúa útprentaðar kjarnorðatöflur sem er hægt að aðlaga að þörfum þess, eins og stærð og tegund mynda og orðaforða sem lögð er áhersla á.

[...] vinna með kjarnorðaforða, aukið aðgengi, aukin tækifæri og að fólk í umhverfi notandans sé fyrirmynd í notkun á tjáskiptaleiðinni.

Mikilvægt er að barnið hafi aðgang að tjáskiptaleiðinni eða myndrænum stuðningi við tjáskipti í öllum aðstæðum. Þegar barn er 18 mánaða þá hefur það heyrt um 4,380 klukkustundir af töluðu máli. Ef barn sem er að læra að nota nýja tjáskiptaleið fær aðeins tækifæri til að nýta sér tákn/myndir tvisvar í viku í 30 mínútur í senn þá tæki það barnið 84 ár að fá jafn mikið mállegt ílag og önnur börn fá af töluðu máli (Korsten, 2011). Við sjáum að það eru ekki raunhæfar væntingar að ætlast til að barn tileinki sér nýja tjáskiptaleið með örfáum „vinnustundum“ á viku. Tjáskiptaleiðin þarf að fylgja barninu hvert sem það fer hvort sem hún er hátæknilausn í formi tjáskiptatölvu, útprentuð tjáskiptatafla eða tjáskiptabók.

Tjáskiptaspjald sem hægt er að nota í matartíma. Gott er að bæta við myndum af mat sem er í boði hverju sinni til hliðar eða efst á spjaldið.

Kjarnorðaspjald með algengum kjarnorðaforða. Pláss efst fyrir jaðarorðaforða.

Ef unnið er með útprentaðar töflur hefur verið árangursríkt að hafa kjarnorðatöfluna með auka plássi fyrir myndir þar sem hægt er að bæta við jaðarorðaforða sem passar við mismunandi aðstæður, svo sem þegar er verið að vinna með liti, föndur, leik með kubba eða dúkkur. Önnur leið til að auka aðgengi að sjónrænum stuðningi við tjáskipti er að útbúa þema eins og orðaforðatöflur þar sem notaður er kjarnorðaforði ásamt jaðarorðaforða sem passar við sérstakar aðstæður. Dæmi um þess háttar töflur eru sérstakar tjáskiptatöflur fyrir frímínútur eða útiveru þar sem orðaforði tengdur leikvelli er aðgengilegur, tjáskiptatöflur sem eru notaðar í matartíma eða samverustund, eða þá sérstakar tjáskiptatöflur með orðaforða fyrir ákveðið leikfang eða leik. Einnig er hægt að útbúa tjáskiptatöflur með kjarnorðum og jaðarorðum tengdum vinsælum bókum til að auka þátttöku í lestrarstundum.

Tjáskiptaleiðin og hversu farsæl og nothæf hún verður veltur ekki á notandanum heldur er ábyrgðin á nærumhverfi barnsins og stuðningnum sem barnið fær við notkun á tjáskiptaleiðinni. Barnið verður að fá tækifæri til tjáskipta. Það getur reynst auðveldast að innleiða myndræn tjáskipti í matartíma eða vinnustundum þar sem barnið er að læra að biðja um hluti eða velja á milli hluta. Ef þetta eru einu áherslurnar í tjáskiptum er hætta á að tjáskiptaleiðin verði að matseðli eða dótalista. Þrátt fyrir að það sé mikilvægur tilgangur tjáskipta þá má ekki gleyma því að við tjáum okkur í margskonar tilgangi og barn á rétt á tækifærum til fjölbreyttra umræðuefna, eins og að:

● biðja um meira af einhverju (meira/aftur)

● neita (ekki/nei)

● enda aðstæður (búin/fara)

● biðja um aðstoð (hjálpa/komdu)

● lýsa aðstæðum eða hlutum (skemmtilegt/ leiðinlegt, namm/ojbara)

● tjá tilfinningar (glaður/hræddur)

● taka þátt í félagslegum samskiptum (halló/leika?)

Barnið þarf að hafa aðgang að orðaforða sem valdeflir það og gefur því tækifæri til að setja mörk.

En það er ekki nóg að vera með mikið af sjónrænum stuðningi fyrir börn og ætlast svo til að þau nýti sér myndirnar til tjáskipta. Mikilvægt er að vera fyrirmynd í notkun á tjáskiptaleiðinni alveg eins og við erum fyrirmynd í notkun á töluðu máli, táknmáli eða Tákn með tali. Það er sjaldan árangursríkt að innleiða myndræna tjáskiptaleið fyrir einstakling ef tjáskiptafélagar halda áfram að nota talað mál einvörðungu. Þetta er oft ástæðan fyrir því að gefist er upp á tjáskiptaleiðinni. Aðaláherslan þarf að vera á hvetjandi og innihaldsrík samskipti og á notkun á styðjandi myndum að vera höfð þeim til stuðnings. Við tölum, án þess að ætlast til að barnið geri það sama eða hermi eftir, og bendum í leiðinni á lykilorð hverrar setningar á tjáskiptaspjöldunum. Á ensku kallast þessi nálgun „aided language stimulation“, „aided language modeling“ eða „natural aided language“. Rannsóknir sýna að notkun á þessari leið eykur orðaforða, setningamyndun, félagsleg samskipti og umfram allt sjálfstæði og þátttöku í daglegu lífi (Sennott, Light, McNaughton, 2016).

Ekki bíða

Innleiðing og notkun á myndrænum stuðningi við tjáskipti þarf ekki að vera flókin. Ferlið getur verið skemmtilegt og gefandi. Sérstaklega þegar samskipti, áhugasvið og gleði er höfð að leiðarljósi. Mikilvægt er að byrja og prófa sig áfram og sjá hvað hentar einstaklingnum hverju sinni, því þarfir geta breyst. Hugsa þarf til þess hvað einstaklingurinn þarf núna til að styðja við tjáskipti og hverjar þarfir geta orðið í framtíðinni. Getur tjáskiptaleiðin vaxið með einstaklingnum? Getur tjáskiptaleiðin verið notuð með mismunandi samskiptafélögum og aukið sjálfstæði? Er þörf á aðkomu

Þematengt tjáskiptaspjald með orðaforða fyrir sápukúluleik.

tjáskiptateymis til að ráðleggja og meta þarfir fyrir tjáskiptaleið eða þarf barnið aðeins stuðning við tjáskipti sem er hægt að mæta með auknum sjónrænum stuðningi í formi lágtæknilausna? Oft eru áhyggjur af því að eitthvað sé gert „vitlaust“ sem stundum verður til þess að lítið er gert til að mæta þörfum barna með flóknar tjáskiptaþarfir. Stærstu mistökin eru að bíða og gera ekki neitt á meðan.

Mikið er til af upplýsingum um viðurkenndar aðferðir við innleiðingu á FST á netinu en mikilvægt er að skoða þær með gagnrýnu hugarfari. Hér er mælt með Facebook hópnum Tjáskiptatækni og instagram síðunni tst_tjaskipti til að nálgast upplýsingar á íslensku. Heimasíður alþjóðasamtaka um FST, (ISAAC) www.isaac-online.org og The AAC Institute www.aacinstitute.org, eru með mikið af góðum og hagnýtum upplýsingum um innleiðingu á tjáskiptaleiðum. Einnig má nefna heimasíðurnar www.praacticalAAC.org og www.theaaccoach.com. Heimasíðan Project Core, www.project-core.com veitir aðgang að leiðbeiningum og stuttum námskeiðum um notkun á kjarnorðum.

Heimildir:

Beukelman, D. og Light, J. (2020). Augmentative and Alternative Communication: Supporting Children and Adults with Complex Communication Needs.

Korsten, Jane. (2011). QIAT Listserv. http://www.janefarrall.com/aac-systemicchange-for-individual-success/

Laher, Z. og Dada, S. (2023). The effect of aided language stimulation on the acquisition of receptive vocabulary in children with complex communication needs and severe intellectual disability: a comparison of two dosages. Augmentative and Alternative Communication, 39(2), 96-109. https://doi.org/10.1080/07434618.2022.21555 66

Ólöf Gunnarsdóttir. (2020). Íslenskur kjarnorðalisti fyrir byrjendur í óhefðbundnum tjáskiptaleiðum. [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. https://hdl.handle.net/1946/35960

Sennott, S., Light, J. og McNaughton, D. (2016). AAC Modeling Intervention Research Review. Research and Practice for Persons with Severe Disabilities, 41(2), 101-115. https://doi.org/10.1177/1540796916638822

Sigríður Ásta Vigfúsdóttir. Börn og tjáskiptatölvur. Talfræðingurinn, 26(1), 36-38.

Solomon-Rice, P. og Soto, G. (2014). Facilitating vocabulary in toddlers using AAC: A preliminary study comparing focused stimulation and augmented input. Communication Disorders Quarterly, 35(4), 204–15. https://doi. org/10.1177/1525740114522856

Einnig var stuðst við eftirfarandi heimildir við skrif þessarar greinar:

Binger, C. og Light, J. (2007). The effect of aided AAC modeling on the expression of multi-symbol messages by preschoolers who use AAC. Augmentative and alternative communication, 23(1), 30-43. https://doi. org/10.1080/07434610600807470

Binger, C., Maguire-Marshall, M. og Kent-Walsh, J. (2011). Using aided AAC models, recasts, and contrastive targets to teach grammatical morphemes to children who use AAC. Journal of Speech, Language, and Hearing Research, 54(1), 160-176. https://doi.org/10.1044/1092-4388(2010/09-0163

Dada, S. og Alant, E. (2009). The effect of aided language stimulation on vocabulary acquisition in children with little or no functional speech. American journal of speech-language pathology, 18(1), 50-64. https://doi. org/10.1044/1058-0360(2008/07-0018)

Harris, M. D. og Reichle, J. (2004). The impact of aided language stimulation on symbol comprehension and production in children with moderate cognitive disabilities. American Journal of Speech-Language Pathology, 13(2), 155–67. https://doi.org/10.1044/1058-0360(2004/016)

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.