
2 minute read
4. Girðingar
3. Garðplöntun
Alldjúp hola er þá grafin með venjulegri stunguskóflu, lífrænn áburður settur í botn holunnar og honum blandað saman við jarðveg. Þá er plantan tekin og henni haldið í miðri holu á meðan greitt er úr rótum og holan fyllt emð mold. Að lokum þarf að stíga þéttingsfast í kringum plöntuna svo að hún sitji föst.
Á þennan hátt eru stórar plöntur yfirleitt settar niður.
Við höfum nú rifjað upp ýmislegt sem okkur er kennt um plöntun en við höfum ekki enn minnst á hvernig vinna okkar í skóginum fer fram.
Við byrjum á því að taka nokkra tugi trjáplantna úr beðinu sem þær hafa vaxið í, setjum þær í kassa eða plöntustamp og förum með þær út í Lýsishól. Þar eru plönturnar settar niður eins og fyrr segir. Ráðstafanir eru gerðar til þess að rætur plantnanna þorni ekki, hvorki í upptöku né við plöntun og strangt eftirlit haft með því. Fyrst í stað er ætlast til að tveir vinni saman og setji niður og gangi frá einni plöntu á mínútu. En afköstin vaxa með aukinni leikni.
Okkur er skipt í fimm manna hópi og gert ráð fyrir að hver hópur setji niður til jafnaðar áttatíu plöntur á klukkustund. Einn úr fimm manna flokknum er verkstjóri sem fylgist með því ásamt kennaranum, að vandlega sé plantað. Við vinnum þá af kappi í tuttugu mínútur en síðan er hvíld í tíu mínútur. Sá tími er notaður til að fræða okkur um skógrækt en stundum njótum við einnig hvíldarinnar eins og okkur best lystir. Vinnum síðan enn í tuttugu mínútur og aftur er tíu mínútna hvíld. Þannig koll af kolli.
Hér hafa snúrur verið strengdar og ætlast er til að plantað sé meðfram þeim svo að bil milli plönturaða sé jafnt. Þá er lerki og greni sett í plöntupokana og vinnan hefst skipulega.
Plantað er í brekku og við byrjum neðst.Þegar lokið er við að planta með hverri snúru er hún færð til. Bil milli þeirra er haft um 1,50 m og á milli plantnanna er haft svipað bil. Þó verður að gæta þess að velja bestu staðina fyrir plönturnar þótt gert sé ráð fyrir þessu millibili og planta hvorki á þúfnakolla né í dældir milli þúfna, þar sem hætta er á að vatn safnist fyrir. Ekki má heldur setja í flög eða melfláka.
Unglingarnir planta af krafti og stinga fyrst fyrir með bjúgskóflu eða haka. Þeir gæta þess að taka plönturnar ekki úr pokunum fyrr en holan er fullgerð. Annars þorna ræturnar. Þeir varast einnig að sólin nái nokkuð að skína á ræturnar.
Í fyrstu eru þeim mislagðar hendur en æfast fljótt. Sumir eiga erfitt með að festa plönturnar nægilega, nokkrir böggla ræturnar og aðrir setja plöntuna of djúpt.En það verður hverjum að list sem hann leikur.
Þannig líður dagurinn og brátt er vel unnu dagsverki lokið. Við göngum frá plöntum og áhöldum og hver hreinsar mold af sínu verkfæri.
Við höfðum nú plantað nokkrum þúsundum trjáa í skóginn. Eftir tuttugu ár getum við vonandi sagt eins og Stephan G. Stephansson í kvæðinu Í Nýjaskógi:
Nú prýða sig hæðirnar tvítugum trjám. – Í tirjunum grúfðu þær sviðnar og auðar er kynni vor hófust, frá kolli o´n að tám með kvikuna bera og vorgróður-snauðar.
Þetta erindi á þó enn betur við þegar við förum að planta í skóglaust land.