3 minute read

Fróðleikur

Lerki er kjörviður og er notaður í vönduð hús, báta og bryggjur. Lerki er meginlandstré, ljóselskt og mjög hraðvaxta í æsku.

Lerki er kjörviður og er notaður í vönduð hús, báta og bryggjur. Bændur hafa sóst mjög eftir lerkistaurum úr Hallormsstaðaskógi í girðingar af því að slíkir staurar taka öðrum fram að gæðum. Rauðaviðurinn sem svo var nefndur á rekafjörum áður fyrr, var lerki.

Lerki er meginlandstré. Þess vegna er áhersla lögð á ræktun þess í innsveitum norðan- og austanlands þar sem úrkoma er lítil.

Næst er ferðinni heitið að Jökullæk til að skoða rauðgrenitré. Þessi tré eru mjög fögur og hafa náð ágætum þroska. Hæstu tré eru yfir 13 m á hæð.

Rauðgreni vex um Norður-Evrópu. Um aldamót var farið að planta því í Tromsfylki í Noregi, jafnvel á stöðum sem eru fimm hundruð kílómetrum norðar en Ísland og þar eru nú gróskumiklir rauðgreniskógar.

Hér á Hallormsstað hefur verið plantað talsverðu rauðgreni hin síðari ár.

Rauðgreni hefur náð góðum vexti víða um land en því verður að velja skjólríka staði, helst í halla og það gerir miklar kröfur til jarðvegs, einkum að hann sé vel rakur. Árlega er flutt til Íslands töluvert af dönsku rauðgreni sem notuð eru í jólatré. Ekki munu líða mörg ár þar til Íslendingar fá nóg af jólatrjám úr íslenskum barrskógum. Það sáum við hér á Hallormsstað.

Nú er snúið við og numið staðar á Atlavíkurstekk þar sem ýmsar erlendar trjátegundir vaxa.

Hér stendur nú um tuttugu ára hvítgreni sem dafnað hefur allsæmilega. Heimkynni hvítgrenis er Norður-Ameríka.

Frá Atlavíkurstekk er haldið út í Mörk sem er kunnasti staðurinn í Hallormsstaðaaskógi. Þar er gróðrarstöðin, þar voru fyrstu tilraunirnar gerðar með ræktun erlendra barrtrjáa og standa þar mörg fögur og hávaxin tré frá þeim tíma.

Blágreni er sú tegund barrtrjáa sem einna fyrst var gróðursett á Íslandi.

Í Mörkinni á Hallormsstað standa nokkur tré sem eru yfir hálfrar aldar gömul. Þau hafa vaxið vel og lofa góðu um ræktun blágrenis á Íslandi.

Blágreni hefur verið gróðursett á nokkrum stöðum hin síðari ár, m.a. hafa nokkrar þúsundir plantna vaxið upp af fræi blágrenitrjánna í Mörkinni.

Blágreni er upprunnið í Klettafjöllum Norður-Ameríku.

Lýsishóll nefnist svæði utarlega í skóginum og þarna eigum við að byrja að planta. Hér fer saman mikil gróska, fagurt útsýni og fjöldi erlendra trjátegunda sem fróðlegt er að kynnast. Við nemum staðar hjá sitkagreni fyrir neðan Fálkaklett og hlustum á útskýringar þeirra sem vita meira en við.

Sitkagreni er bráðþroska trjátegund og þrífst best í loftslagi þar sem úrkoma og loftraki er mikill. Það er útbreitt um vesturströnd Norður-Ameríku, allt norður í Alaska en það vex sjaldan meir en hundrað kílómetra frá sjó.

Af þessu sést að sitkagreni þolir vel sjávarseltu og raka og ætti því að vera hentug trjátegund fyrir eyland þar sem veðurskilyrði eru áþekk og í Alaska.

Sitkagreni hefur verið gróðursett í tilraunaskyni á

Hallormsstað en þar er of þurrviðrasamt fyrir það.

Auk fyrrgreindra trjátegunda vaxa svartgreni og broddgreni í Hallormsstaðaskógi. Þá vaxa hér einnig nokkrar tegundir af þin: Síberíuþinur, balsamþinur, hvítþinur og fjallaþinur en hann er vænlegastur til ræktunar hér á landi af þessum tegundum.

Fjallaþinur er hið fegursta garðtré og vinsælt jólatré.

Loks er skylt að nefna marþöll og fjallaþöll en lítil reynsla er enn fengin um þroska þeirra við íslenska staðhætti.

Útsýni er fagurt af Lýsishól. Í björtu veðri ber Snæfell við loft yfir sunnanverðu Lagarfljóti. Fljótið býr yfir sérstæðum töfrum á kyrru kvöldi síðsumars í þann mund er bregða tekur birtu.

En þó verður að halda heim. Staðnæmst er við Vínlæk, dálitla lind í Gatnaskógi. Þar nema allir staðar sem leið eiga um skóginn.

Skógarvörðurinn fer með okkur niður í Mörk, áður en við byrjum að vinna næsta dag og sýnir okkur ýmsar furutegundir.

Skógarfuran er með elstu barrtrjám heims. Hún vex um alla Norðurálfu allt frá Suður-Evrópu til nyrsta héraða Noregs og austur að Kyrrahafi.

Skógarfuran hefur verið gróðursett í Hallormsstaðaskógi og fræ fengið frá ýmsum stöðum í Noregi og Svíþjóð. Hún er með nægjusömustu trjám en samt sem áður hefur ræktun hennar á Íslandi gengið misjafnlega. Orsökin er sú að skjaldlús sækir á hana og gengur oft svo nærri henni að ungar plöntur deyja. Aðrar eru að veslast upp í mörg ár. Örfáar standa þó af sér lúsina og sumar ná sér aftur eftir langan tíma.

Elstu skógarfururnar á Hallormsstað voru gróðusettar um 1909 og eru nokkrar þeirra orðnar að fallegum trjám.

Fróðleikur

Skógarfuran er með elstu barrtrjám heims og nægjusömustu trjám.

Fjallafuran er oftast margstofna runni, sem getur orðið allt að því fimm metra hár. Danir höfðu ræktað fjallafuru á jósku heiðunum í tugi ára áður en skógrækt hófst á Íslandi. Þess vegna var hún flutt hingað til lands, jafnskjótt og byrjað var á skógrækt hér.

This article is from: