
5 minute read
Starfað að skógrækt
Í skólagarðinum skiptist á vinna og fræðsla jöfnum höndum allt sumarið.
Komið er fram í ágúst. Reitir okkar eru vel hirtir. Skjólbelti hafa verið klippt, grasfletir slegnir í síðasta sinn og kantar skornir. Á morgun hefst nýr þáttur í náminu. Við eigum að fara í gróðursetningarferð til Austurlands, í Hallormsstaðaskóg en þangað er ferðinni heitið vegna þess að þar er skógrækt á Íslandi lengst á veg komin.
Í Hallormsstaðaskógi
Hallormsstaðaskógur er við Lagarfljót sunnanvert. Landslag er þar hæðótt og víða nokkuð brattlent. Fjöllin suðaustur af Hallormsstað rísa allt að sex hundruð metra yfir sjávarmál og setja þau allmikinn svip á landslagið einkum Hallormsstaðaskóg.
Lögurinn, eða Lagarfljót öðru nafni, sígur þarna fram á leið til sjávar. Til að sjá er vatnsfallið líkara firði eða stöðuvatni en venjulegu fljóti. Ískalt jökulvatnið er gulgrænt á litinn og víða er það hyldjúpt. Svo lygn er þessi mikla móða á kyrrum sumardögum og svo mjúkar eru boglínur
Fróðleikur
Öll skógrækt hérlendis er undir því komin að afla fræs af trjám sem vaxið hafa við svipaða veðráttu og hér. Fræið þarf hæfilegt raka- og hitastig til að spíra.
hennar í víkum og vogum að landslagið allt fær mildan blæ og ljúfan. Á bökkum þessarar miklu jökulelfar og upp frá þeim hefur vaxið frægasti og mesti skógur á Íslandi.
Grös, blóm,jurtir og lynggróður einkenna jurtagróður Hallormsstaðaskógar eins og annarra íslenskra birkiskóga. Gras- og blómlendi eru þar sem jarðvegur er frjór og rakur og virðist jarðrakinn hafa meiri áhrif á gróðurfarið en hæð yfir sjó.
Allt frá 1905 hefur Hallormsstaðaskógur notið meiri eða minni friðunar. Innan skógræktargirðingarinnar eru sex hundruð og tuttugu hektarar lands, sem að mestu leyti er skóglendi.
Nú erum við stödd í Hallormsstaðaskógi. Við kynnumst hér nýjum heimi og erum þó á Íslandi.Fyrsta daginn fáum við að vita hitt og þetta um fræ og meðferð þess.
Fræ
Öll skógrækt hér á landi er undir því komin að afla fræs af trjám sem vaxið hafa við svipaða veðráttu og ríkir á Íslandi. Það er brýn nauðsyn að kunna skil á fræi trjánna og meðferð þess það eð á því veltur allt um framtíð skóganna.
Fræið þarf hæfilegt raka- og hitastig til þess að spíra. Um spírunartímann verður því að hafa vakandi auga á sáðbeðunum. Einnig sækja fuglar mjög í allt fræ en frost og sjúkdómar spilla því oft. Það er því vandasamt starf að sá trjáfræi og annast smáplöntur.
Lauftré eru dulfrævingar. Þau blómgast og bera fræ í flestum árum en oft líða nokkur ár milli fræára barr-
Sumarhiti ræður mestu um útbreiðslu trjánna á norðurhveli jarðar. Ljósmyndari / Óþekktur trjánna. Ef fræið á að ná góðum þroska, verður meðalhiti mánaðanna júní–september að vera allt að tíu stig á Celsíus.
Þess vegna ræður sumarhitinn mestu um útbreiðslu trjánna á norðurhveli jarðar og hversu hátt þau vaxa til fjalla.
Reklatré. Flest algengustu lauftrén sem vaxa í norðanverðri Evrópu teljast til reklatrjáa. Svo eru þau nefnd af því að blómin standa í reklum sem er þéttstæð, einkynja blómskipun. Til reklatrjánna teljast m.a. birki, víðir og ösp. Barrtré eru berfrævingar. Fræblöð þeirra standa þétt saman og mynda köngla. Fræin liggja á milli fræblaðanna. Kvenblóm barrtrjánna oftast minni en karlblómin og standa tvö eða þrjú saman á greinarenda en karlblómin standa í klasa umhverfis neðsta hluta sprotans. Kvenblómin mynda könglana. Til barrtrjánna teljast meðal annars fura, greni og lerki.
Gróðrarstöðin
Nú vinnum við um sinn í gróðrarstöðinni á Hallormsstað en þá kemur sér vel að hafa unnið í skólagarði fyrr um sumarið.
Allir sem kynnast vilja skógræktarstarfseminni verða að þekkja eitthvað til gróðrarstöðva því að þær eru undirstaða íslenskrar skógræktar.
Gróðrarstöðin á Hallormsstað er alls átján þúsund fermetrar eða tæpar sex vallardagsláttur að stærð. Hvergi sést yfir hana alla í einu því að henni er skipt í nokkra stóra reiti. Á hverju ári koma héðan um þrjú hundruð þúsund trjáplöntur sem er plantað á ýmsum stöðum, einkum á Hallormstað og austanlands. Í stöðinni eru að jafnaði um ein og hálf milljón trjáplantna á aldrinum eins til fjögurra ára. Rétt er að minnast þess þegar horft er yfir þessar breiður af ungum trjáplöntum að þeim er líkt farið og ungum börnum. Þær eru viðkvæmari fyrir hnjaski en fullvaxin tré.
Skógarplöntur í uppeldi nema nú um einni og hálfri milljón á ári. Margar hendur þarf því til að planta þessu magni á sem skemmstum tíma þar sem íslenska sumarið er svo stutt.
Jarðvinnsla
Jarðvegur í gróðrarstöð þarf að vera myldinn, hæfilega rakur og nokkuð sandborinn. Vinna þarf jarðveginn vel en til þess eru nú notuð ýmis vélknúin jarðvinnslutæki.
Sáning
Trjáfræi er ýmist dreifsáð eða raðsáð í beð. Fræið er misjafnt að stærð og gæðum og því er ekki alltaf sáð sama magni í hvern fermetra. Fara verður gætilega með það og gæta þess að spilla því ekki í meðförum. Trjáfræ er dýrt og oft komið langan veg. Skógrækt rikisins fær m.a. fræ frá Alaska, Norður-Noregi og Rússlandi svo að nokkur helstu löndin séu nefnd.
Hirðing
Fjarlægja verður allt illgresi jafnóðum og það vex og sporna við sjúkdómum eftir mætti.
Vökvun
Vatn er nauðsynlegt öllum plöntum svo sem fyrr greinir. Því þarf að gæta þess vel að hvorki fræ né plöntur þorni um of í beðum, því að þá er dauðinn vís. Hættast er við ofþornun þegar sólfar er mikið og hlýindi. Þarf þá stundum að vökva daglega.
Dreifsetning
Plönturnar eru að jafnaði látnar standa tvö ár í sáðbeði. Snemma vors eru þær teknar upp, greitt gætilega úr rótum þeirra, þeim raðað í kassa og rakur mosi lagður yfir ræturnar. Úr kössunum eru plönturnar dreifsettar, en þá er þeim plantað í beð með fimm til tíu sentimetra millibili svo að þær fái nægilegt vaxtarrými. Í þessum beðum standa þær í tvö eða þrjú ár en þá eru þær orðnar svo stórar að þær eru hæfar til plöntunar.
Vetrarumbúðir
Öll þessi störf væru unnin fyrir gýg, ef ekki væri búið um plönturnar undir hinn umhleypingasama íslenska vetur. Er þetta gert með því að leggja lim yfir beðin og sand og mosa að plöntunum svo þær sviðni ekki undan vetrarstormum og í vorkuldum. Þetta er þó ekki einhlítt því að ávallt ferst eitthvað af plöntum, þrátt fyrir allan umbúnað.
Plönturnar eru að jafnaði látnar standa tvö ár í sáðbeði.
Trjátegundir
Við sem erum svo lánsöm að dveljast sólríka vor- og sumardaga í skólagarði og höfum nú vikudvöl í Hallormsstaðaskógi, hljótum bráðlega að verða fær um að veita öðrum leiðbeiningar. Við getum strax sagt þeim þetta:
Birki eða ilmbjörk hefur myndað skóg hér á landi ein allra trjátegunda. Á Suðurvesturlandi og um Vestfirði er birkið víðast lágvaxið kjarr en svæðið frá Vestfjörðum að Eyjafirði er skóglaust með öllu. Í Þingeyjarsýslum eru allvíðlendir birkiskógar og kunnastur þeirra er Vaglaskógur, sem er einn beinvaxnasti og fegursti birkiskógur landsins. Á Austur- og
Suðausturlandi eru Hallormsstaðaskógur og Bæjarstaðaskógur frægastir en á Fljótsdalshéraði eru mörg skóglendi. Á Suðurlandi eru skógarleifar í uppsveitum Árnessýslu; suður af Heklu, í Þórsmörk og Skaftártungu.
Birki þarf frjóan og rakan jarðveg ef það á að vaxa vel en það getur líka haldið lífi við erfiðari aðstæður en flestar íslenskar plöntur. Það er ljóselskt og þolir illa að standa í skugga. Stærstu bjarkir á Íslandi eru um 13 metrar á hæð.
Reyniviður myndar hvergi skóga en vex hér og hvar innan um aðrar trjátegundir. Reynirinn verður allt að tíu metrar á hæð.
Auk íslenska reynisins eru þessar erlendu reyniviðartegundir: gráreynir, silfurreynir og seljureynir.
Blæösp hefur fundist villt á fimm stöð- um hér á landi og hefur verið ræktuð nokkuð í trjágörðum. Meiri vonir eru tengdar við aspartegund þá sem kennd er við Alaska og flutt var þaðan í fyrsta sinn hingað til lands árið 1944.
Alaskaösp hefur nú verið reynd víða um land og vaxið mjög hratt. Aðeins eitt kvæmi1 af henni hefur hingað til verið flutt til landsins en reyna þarf fleiri því að vorhret hafa skemmt hana víða um Suðurland.
Alaskaösp þarf frjóan og rakan jarðveg, gott skjól og gras má ekki vaxa að stofni hennar ef hún á að ná skjótum vexti.