
1 minute read
Kynning
GABRÍELLA
Ég heiti Gabríella og er 29 ára gömul, fædd á Egilsstöðum og uppalin í Vesturbænum en bý núna í Breiðholtinu með næstum tveggja ára syni mínum og maka.
Ég byrjaði að fikta í myndvinnsluforritum þegar ég var 11 ára. Þetta var á tímum bloggsíðnanna folk.is og blog.central þar sem hægt var að hlaða inn eigin banner efst á síðuna. Innan skamms var ég komin í svaka (ólaunaðan) business við að búa til bannera handa öðrum krökkum auk undirskriftarbannera og jólakorta fyrir notendur Gæludýraspjallsins.
Á unglingsárunum var ég að sjálfsögðu á samfélagsmiðlinum Myspace þar sem hægt var að forrita útlit síðunnar sjálfur upp að vissu marki og ég sökkti mér 13 ára í html og css til að gera síðuna eins kúl og mögulegt var – en fór svo að huga að öðru með tíð og tíma.
Það var ekki fyrr en á fullorðinsárum þegar ég byrjaði að æfa íþróttina roller derby að kappi og skráði mig í auglýsinganefnd þar, að ég byrjaði aftur að hanna. Ég var með fullt af hugmyndum en fannst ég ekki hafa alla kunnáttuna sem þurfti til að ná að framkvæma þær eins og ég vildi. Einnig komst ég að því að þetta væri mögulega eitthvað sem ég hefði áhuga á að starfa við. Það var þá sem ég fór að skoða nám í grafískri miðlun og er glöð að ég tók þá ákvörðun, enda hef ég lært helling, kynnst frábæru fólki og m.a. farið í æðislega námsferð til Ítalíu á meðan náminu stóð.