3 minute read

Ekki bara ein nál og einn lokkur

Next Article
Kynning

Kynning

EKKI BARA

EIN NÁL OG EINN LOKKUR

Viðtal við gatara

Diljá Sigurðardóttir er 28 ára kona úr Reykjavík sem finnst gaman að hjólaskauta, krosssauma og ganga á fjöll – en einnig er hún ein af þeim örfáu sem teljast sem viðurkenndir gatarar á Íslandi. Diljá er nýbúin að opna sína eigin götunarstofu á Íslenzku Húðflúrsstofunni.

Hvað kom til að þú ákvaðst að læra götun?

Ég er félagsfræðingur að mennt en eftir að námi lauk hafði ég ekki hugmynd hvað ég vildi starfa við, hvaða hillu ég tilheyrði. Eftir að hafa prófað nokkur störf rakst ég á auglýsingu þar sem uppáhalds tattústofan mín var að leita að manneskju í móttökuna. Ákvað að slá til og varð þar svona „shop mama“, sá um pantanir, kaffið, birgðastöðu, móttökuna, samfélagsmiðlana etc. Ég tók eftir mikilli eftirspurn eftir götun og fannst leiðinlegt að vera sífellt að vísa fólki frá. Stofan var fyrir minn tíma með góðan gatara og einn daginn vaknaði sú hugmynd að hún myndi kenna mér götun.

Hver finnst þér vera mesta áskorunin í starfinu?

Mitt starf er ótrúlega fjölþætt, það er auðvitað götunin sjálf og síðan reksturinn í kringum hana og það geta verið áskoranir á báðum sviðum. Ég sé líka ennþá um alla stofuna svo ég þarf að gæta jafnvægis þar á milli. Ein mesta áskorunin hjá mér hefur verið að bera virðingu fyrir tímanum mínum og vinnu. Sem sjálfstætt starfandi einstaklingur sé ég sjálf um verðlagningu og jafnvel þó ég hafi alltaf viljað vera sanngjörn fékk ég oft í upphafi samviskubit á að rukka fólk fullt verð fyrir þjónustuna mína. Ég þurfti að minna mig á það að götun er ekki bara ein nál og einn lokkur heldur allur aðbúnaður, tæki og tól, reynslan mín, viðmót og þekking og allt hitt sem við kemur götuninni.

En hvað er það skemmtilegasta við starfið? Úff, það er svo margt! Eitt það skemmtilegasta við starfið sé að sjá fólk spennt og ánægt með

nýja gatið sitt. Eðli starfsins er slíkt að ég er ekki að gera eitthvað sem fólki finnst þægilegt svo ég geri mitt besta til að láta fólki líða vel í gegnum götunarferlið, það er alltaf gaman þegar það skilar sér í minna stressi hjá einstaklingnum og ánægjulegri reynslu.

Mætir þú einhverjum fordómum vegna starfsins?

Já og nei. Mörgum finnst það töff. En ég hef líka verið spurð hvort ég sé ekki að eyðileggja líkama fólks, hvort ég gati „virkilega“ þessa og hina líkamsparta, ég hef lent í ýmsum hallærislegum BDSM athugasemdum (t.d. hvort ég hljóti ekki að vera sadisti af því ég sé gatari) og ég fengið til mín karlkyns viðskiptavini (sem betur fer örsjaldan!) sem hafa sýnt starfinu mínu mikla vanvirðingu með því að ýja að því að ég sé að gera eitthvað kynferðislegt við þá þó ég sé bara að gata á þeim eyrað.

Ertu með einhver framtíðarplön varðandi starfsemina?

Já, heldur betur! Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég byrjaði að gata og ég stolt af því hvert ég er komin, en mig langar sífellt að gera betur með því að auka vöruúrvalið, sækja ráðstefnur og fleira. Ég hef byggt starfsemina upp frá grunni og hef aldrei fengið lán fyrir einu eða neinu. Vöxtur fyrirtækisins er því hægur en stöðugur, mig langar til dæmis að geta boðið viðskiptavinum mínum upp á skartgripi úr ekta gulli en aðrir hlutir hafa forgang sem stendur og hitt kemur bara með tíð og tíma.

Íslenzka Húðflúrstofan er staðsett á Ingólfsstræti 3. Opið er í götun hjá Diljá alla virka daga frá 12–18 og á laugardögum eftir pöntunum en hægt er að panta tíma hjá henni á www.icelandtattoo.is.

Texti: Gabríella Sif Beck Ljósmyndir: Diljá Sigurðardóttur

Kvár – Hagsmunasamtök kynsegin fólks Kvár – Hagsmunasamtök kynsegin fólks

kvar-samtok

JÖFN FRAMTÍÐ FYRIR ÖLL KYN

meðal fyrirlesara verða

Blær Jörgensen Formaður Kvár

Jón Jónsson Félags- og jafnréttisráðherra

Skráning á www.kvar.is

Lára Dagmarsdóttir Sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu

This article is from: