7 minute read

Roller Derby

ÍÞRÓTTIN MENNINGIN SAGAN

Íþróttin roller derby er stunduð út um allan heim og meðal annars á Íslandi. Margir gætu kannast við nafnið úr þáttum eða kvikmyndum, aðrir koma af fjöllum. Er bolti? Kylfa? Línuskautar? Í langflestum deildum er íþróttin spiluð eftir reglum Women’s Flat Track Derby Association (WFTDA) og kunna reglurnar að virðast flóknar í fyrstu, en það þarf ekki nema einn leik til þess að skilja og heillast af þessari spennandi og hörkulegu – en strategísku – íþrótt og öllu samfélaginu í kringum hana.

Íþróttin

Roller derby er hröð snertiíþrótt sem spiluð er á hjólaskautum og fer fram á flatri sporöskjulaga braut innanhúss. Fimm eru inn á úr hvoru liði í einu, einn jammer (sókn) og fjórir blockerar (vörn).

Jammerinn er með stjörnu á hjálminum og er þannig hægt að greina hann frá öðrum keppendum. Hlutverk hans er að skora stig með því að hringa blockera andstæða liðsins, en fyrir hvern blocker sem hann hringar fæst eitt stig – því fleiri hringir, því fleiri stig.

Hlutverk blockeranna er hins vegar að koma í veg fyrir að jammer andstæðingsins nái að hringa sig, en einnig að aðstoða sinn eigin jammer að komast fram úr andstæðingunum. Einn blocker í hvoru liði er með línu á hjálminum sínum og kallast pivot. Hann einn má skipta um hlutverk við jammerinn í miðjum leik.

Snerting

Þrátt fyrir að íþróttin hafi orð á sér fyrir mikil hörkulegheit er það þó mýta að það sé leyfilegt að gefa olnbogaskot, fella og jafnvel kýla aðra leikmenn. Hins vegar má gefa svokölluð hits með öxlum, upphandleggjum og lærum – en að gefa hit með fæti fyrir neðan hné eða handlegg fyrir neðan olnboga er ávísun á villu og jafnvel brottrekstur.

Algengt er að blockerar úr sama liði myndi nokkurs konar mannlegan vegg á brautinni til þess að koma í veg fyrir að jammer andstæðingsins komist fram úr þeim. Þeir sem eru saman í liði mega nota framhandleggi til að styðja sig við og/eða stýra hvor öðrum. Þá er algengt að nota bak, rass eða brjóstkassa til að blokka andstæðinginn.

Blockerar úr báðum liðum þurfa að mynda svokallað pack sem þýðir að þeir mega ekki dreifast of mikið um brautina. Því er ekki hjá því komist að það sé mikil snerting og óreiða, en skipulögð þó. Packið er skilgreint þar sem flestir blockerar eru saman innan 3 metra frá hvorum öðrum. Packið getur þó teygst þannig að blocker má fara 3 metra frá packinu, og sá næsti 3 metra frá honum, og koll af kolli. Ef það verður ekkert pack eftir með þessum hætti eða öðrum kallar dómarinn hins vegar villu á þá sem skemmdu packið.

Packið Ljósmyndari: Richard Lafortune

Tímastjórnun

Hver leikur er einn klukkutími að lengd og skiptist niður í tvo 30 mínútna hálfleiki. Hver hálfleikur skiptist svo upp í fjöldann allan af jömmum (e. jams) sem geta að hámarki orðið 2 mínútna löng, en sá jammer sem er fyrstur til þess að komast út úr packinu fær rétt til þess að stjórna því. Þá fær hann stöðuna lead jammer og getur endað jammið þegar hann vill (innan tveggja mínútna) með því að slá höndum á mjaðmir. Þetta getur hann gert til þess að takmarka stigafjölda hins jammersins, en líka til þess að stjórna því að nýtt jam byrji á meðan einhver úr andstæða liðinu situr ennþá í villuboxinu – hafi einhver brotið af sér í fyrra jammi.

Menningin

Það er þekkt innan íþróttarinnar að spilarar og jafnvel dómarar velji sér önnur nöfn til að nota á brautinni. Þetta er gert í þeim tilgangi að búa til svokallað „alter-ego“ þar sem það er í lagi að skauta fast á aðra manneskju eða gefa henni harkalegt hit. Þá eru nöfnin oft hnyttin og/eða með tilvísun í dægurmenningu, t.d. Biceptual, Hermione Danger og Scald Eagle. Oft eru númerin líka tilvísun í menningu, sögu eða almennan nördisma, en það er t.a.m. nánast alltaf einn í hverri deild númer 42.

BÚNAÐUR

Roller derby íþróttin er spiluð í hjólaskautum – ekki línuskautum, heldur þessum gömlu góðu með fjórum dekkjum og tástoppara að framan.

Roller derby samfélagið er þekkt fyrir að vera opið og inklúsíft. Mikið af hinsegin fólki, þ.á.m. trans fólki, finnur sig í íþróttinni auk fólks sem hefur ekki fundið sig í öðrum íþróttum af mörgum mismunandi ástæðum. WFTDA er með sterkar siðareglur þar sem kemur skýrt fram að fordómar eru ekki liðnir innan íþróttarinnar. Einnig hefur hreyfingin frá upphafi verið kennd við DIY (do it yourself) og því geta allir átt hlutverk jafnvel þó það sé ekki á skautum.

Þrátt fyrir að berjast harkalega á brautinni eru allir vinir í eftirpartíinu og til er stórt samfélag roller derby spilara í heiminum þar sem fólk getur kíkt á æfingu hvar sem er, tekið þátt í leikjum erlendis sem dómarar, brautarteymi eða sjálfboðaliði og jafnvel fengið fría gistingu. Þar sem íþróttin er frekar harkaleg er einnig nauðsynlegt að vera með hjálm, olnbogahlífar, hnéhlífar og úlnliðshlífar. Þá er líka skylda að vera með munnvörn, en hún verndar tennur og dempar auk þess höfuðhögg.

Saga roller derby á Íslandi

Saga roller derby á Íslandi hófst þegar Guðný Jónsdóttir kynntist íþróttinni í Bandaríkjunum árið 2009 þar sem hún byrjaði að æfa með Atlanta Roller Girls og varð þar til derby-sjálf hennar, Ice Sickle. Þegar sá fyrir heimför kviknaði sá draumur að taka íþróttina upp hér á Íslandi svo Ice þyrfti ekki að leggja skautana sem hún hafði tekið ástfóstri við á hilluna, enda íþróttin nánast með öllu óþekkt hér á landi á þeim tíma. Kallaði Ice því saman hóp áhugasamra kvenna sem hóf þá vinnu að koma upp íslenskri roller derby deild og var stofnfundur Hjólaskautafélagsins, sem þá hét Roller Derby Ísland, haldinn í sumarlok árið 2011 en spennan var svo mikil að fyrsta æfing var haldin strax næsta dag.

Starfið fór hægt af stað, enda hvergi hægt að nálgast almennilega skauta og hlífar hér á landi. Ekki var heldur hlaupið að því að finna hér góða æfingaaðstöðu þar sem fullkomið reynsluleysi olli áhyggjum innan íþróttafélaga um áhrif búnaðarins á gólfin. Fyrst um sinn æfðu því sumar liðskonur á línuskautum og flakkaði hópurinn á

milli bílakjallara, GoKart hallar og ýmissa misheppilegra sala á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Félagskonur æfðu skautafærni undir leiðsögn félaga sinna erlendis yfir internetið, lásu sér til um reglur og framgang leiksins og sóttu ráðstefnur, æfingabúðir og mót út fyrir landsteinana.

Ragnarök og Team Iceland

Þegar nokkrar reyndar derbykonur sneru aftur að utan árið 2013 má segja að hjólin hafi farið að rúlla af alvöru og þjálfunin orðin töluvert markvissari. Æfingabúðir með þekktum, erlendum gestaþjálfurum urðu fastur liður í vetrarstarfinu og þreytt voru lágmarkshæfnipróf (e. minimum skills) sem gerði skautara keppnisfæra. Árið 2014 var ferðaliðið Ragnarök stofnað og haldið var til Finnlands þar sem fyrstu tveir útileikirnir voru spilaðir og síðar sama ár fyrsti heimaleikurinn gegn gestaliði frá Frakklandi.

Árin sem fylgdu safnaði liðið fleiri heimaleikjum í reynslubankann og haustið 2016 var stofnað landslið Íslands fyrir Evrópumótið í Belgíu. Liðið samanstóð aðallega af liðskonum Ragnaraka, en einnig nokkrum sem æfa með erlendum liðum úti í heimi. Á Evrópumótinu voru spilaðir fjórir leikir á einni helgi og kom liðið heim með ómetanlega reynslu og metnað fyrir komandi tímum. Heimaleikir urðu í kjölfarið tíðari, byrjað var að halda þríhöfðamót og landsliðið tók svo þátt í heimsmeistarakeppninni í Englandi árið 2018, þar sem aftur voru spilaðir fjórir leikir en í þetta sinn náðist fyrsti landsliðssigur Íslendinga í roller derby, gegn Kosta Ríka.

Viðurkennd íþrótt og eigið húsnæði

Árið 2018 varð roller derby loks viðurkennd íþrótt af Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) eftir nokkuð tímafrekt umsóknarferli þar sem íþróttin fékk meðal annars íslenskt nafn, hjólaskautaat. Þar með fékk Hjólaskautafélagið sömuleiðis inngöngu í Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) undir nafninu Hjólaskautafélagið. Síðar sama ár, fékk deildin svokallaða „apprentice“ stöðu innan hinna alþjóðlegu félagasamtaka Women’s Flat Track Derby Association (WFTDA) en fagnaði þeim merka áfanga að vera orðinn fullgildur meðlimur snemma árs 2019.

Síðla árs 2020 varð svo annar stór draumur að veruleika þegar félagið gerði samning við Reykjavíkurborg um afnot af gömlu verkstæði uppi á Höfða. Þetta var í fyrsta sinn sem félaginu bauðst að vera með sitt eigið húsnæði og hófst þá mikil vinna og fjáröflun til að koma verkstæðinu í stand sem æfinga- og félagshúsnæði. Þetta tókst og úr varð Hjólaskautahöllin á Sævarhöfða 33 þar sem félagið æfir og heldur viðburði, m.a. opið skautagólf fyrir almenning á laugardögum.

NÖFN OG NÚMER ÚR ROLLER DERBY Á ÍSLANDI

Nafn Númer Staða

Veni Vidi Vicious

LOUD Mary

Ice Sickle

Peaches n’ Scream 47

194 dB

32°

666 Jammer

Blocker

Pivot

Blocker

Binary Demon

Grim Creeper 1101

383 Blocker

Blocker / Varafyrirliði

Texti af www.rollerderby.is eftir Gabríellu Sif Beck og Lenu M. Aradóttur. Ljósmyndir: Joe Mac, Richard Lafortune og Gabríella Sif Beck

This article is from: