
4 minute read
Er líf eftir stjórnmálafræðina?
18
Er líf eftir stjórnmálafræðina?
Advertisement
Viðtal: Jóna Ástudóttir
Reynir Jóhannesson er þrítugur Siglfirðingur sem flutti til Noregs með fjölskyldu sinni átta ára gamall. Þegar kom að því að fara í háskólanám snéri Reynir aftur til Íslands í nám við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Í dag býr hann hins vegar og starfar í Osló. Reynir gaf sér tíma til að svara nokkrum vel völdum spurningum fyrir okkur.
Hvaðan og hvenær útskrifaðist
þú úr háskóla? Ég útskrifaðist árið 2008 með BA úr stjórnmálafræði úr HÍ, eftir þrjú frábær ár með skemmtilegum fyrirlestrum, vísindaferðum, oktoberfest og ekki má gleyma stúdentapólitíkinni og Vöku. Ég er mjög ánægður með að hafa farið í nám á Íslandi og að hafa tekið þátt í félagsstarfseminni. Ég skrifaði lokaritgerð um blogg og stjórnmál og hefur það nýst mér afskaplega vel síðar.
Hvert lá leiðin eftir stjórnmálafræði? Hvaða tækifæri bárust þér
í kjölfar útskriftar? Það hefur reynst mér afar nytsamlegt að hafa lært gagnrýna hugsun, að lesa mikið magn af upplýsingum og greina hratt. Ég hefði ekki viljað vera án slíkrar háskólamenntunar í því starfi sem ég gegni í dag. Ég útskrifaðist um það leyti sem hagkerfið á Íslandi hrundi. Ég tók þá nokkur námskeið í alþjóðastjórnmálum og vann meðal annars með Indefence-hópnum sem beitti sér fyrir undirskriftasöfnun gegn Icesave samningnum í gegnum indefence.is og Facebook. Lokaritgerðin kveikti sérstakan áhuga minn á því hvernig stjórnmál og samfélagsmiðlar geta unnið saman. Í Icesave-málinu fékk ég sönnun fyrir því hversu öflugir þessir nýju miðlar geta verið. Eftir að ég flutti til Noregs fór ég að vinna sem ráðgjafi fyrir þingflokk Framfaraflokksins í Noregi og bar þá ábyrgð á uppbyggingu flokksins á samfélagsmiðlum. Um haustið 2013 ákvað ég að söðla um og hætta í stjórnmálum og hóf störf hjá upplýsingafyrirtæki í Osló. Eftir aðeins tvær vikur sem ráðgjafi þar var mér boðið að starfa fyrir nýjan samgönguráðherra Noregs. Það var tilboð sem ég gat ekki hafnað.
Segðu aðeins frá starfi þínu í dag.
Í dag er ég statssekretær í Samgönguráðuneytinu sem er staða aðstoðarráðherra. Mín helstu ábyrgðasvið eru hafnarmál, póst- og fjarskiptamál. Ég sé um að útbúa drög að samgöngufjárlögum á hverju ári og vinn að heildar stefnumótun fyrir ráðherrann.
Hugurinn leitar alltaf til Íslands og þeirra frábæru minninga sem ég á frá námsárunum í Háskóla Íslands. Þær minningar voru margar skráðar á MySpace. Við vorum ekki með Facebook þá.
Guðrún Ósk Þorbjörnsdóttir kemur frá Akureyri og útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2012 með BA gráðu í stjórnmálafræði með kynjafræði sem aukagrein. Eftir námið fluttist hún með fjölskyldu sinni til Danmerkur og fór í mastersnám í umhverfis-og átakafræði (e. Human Security) við Háskólann í Árósum. Í dag starfar Guðrún hjá NATO og hún svaraði nokkrum spurningum fyrir okkur svo við gætum fengið betri innsýn hvað sé handan námsins.

Viðtal: Bjarki Kolbeinsson
Hvernig byrjaði starfsferill þinn hjá NATO og í hverju felst starf
þitt þar? Ég byrjaði í starfsþjálfun á skrifstofu jafnréttismála í alþjóðahermálastarfsliði bandalagsins og að henni lokinni var ég ráðin í stöðu sérfræðings á sömu skrifstofu. Ég vinn meðal annars að málefnum sem snúa að stöðu kynjanna innan herliða aðildarríkjanna. Þar sem hallar á konur á þessu sviði skiptir aukin þátttaka kvenna miklu máli sem og rödd þeirra þegar kemur að ákvarðanatöku. Í þessu samhengi lítum við til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
Í starfinu felst einnig samþætting kynjasjónarmiða í allar aðgerðir bandalagsins, sem og æfingar og þjálfun. Það er af nægu að taka í þessum málaflokki, til að mynda vann ég í fyrra drög að hernaðarlegum viðmiðunarreglum um hvernig megi fyrirbyggja og bregðast við kynbundnu ofbeldi í stríðsátökum, reglurnar voru síðan samþykktar síðasta sumar. Við á hermálasviði störfum einnig náið með sérstökum fulltrúa framkvæmdarstjóra bandalagsins fyrir konur, frið og öryggi og hennar teymi.
Myndir þú segja að stjórnmálafræði sé æskileg menntun fyrir
starf á við þitt? Já, mér finnst B.A námið í stjórnmálafræðideildinni mjög góður grunnur sem hægt er að nýta á svo margan hátt. Hins vegar tel ég að það sé mikilvægt að víkka sjóndeildarhringinn, hvort sem það er að taka aukagrein, fara í skiptinám eða framhaldsnám erlendis. Ég gerði allt þrennt og sú reynsla hefur verið mér dýrmæt.
Hvað er skemmtilegast við að
vinna erlendis? Mér finnst virkilega skemmtilegt og lærdómsríkt að starfa í alþjóðlegu umhverfi með fjölþjóðlegum hópi fólks. Ég hef kynnst svo mörgu frábæru fólki allstaðar að úr heiminum og læri mjög mikið af því að vinna með því.
Getur þú sagt okkur frá einhverju eftirminnilegu atviki síðan þú
byrjaðir að vinna í Brussel? Þegar nefnd NATO um kynjasjónarmið kom saman árið 2015 var Astrid prinsessa af Belgíu sérstakur gestur á ráðstefnunni. Það var mjög áhugavert að sjá um allt umstangið í kringum þann viðburð og vinna með hennar teymi úr konungshöllinni. Mér var síðan falið það skemmtilega verkefni að leggja drög að ræðu prinsessunnar.