Stúdentablaðið - apríl 2016

Page 36

Ohayo minna-san! Þegar ég skrifa þetta bréf eru tæpir átta mánuðir liðnir síðan ég pakkaði niður í ferðatöskurnar og missti af fyrsta fluginu mínu en það var tengiflugið mitt til Japans frá Svíþjóð. Sem betur fer hafði styrkurinn minn keypt tryggingu með fluginu, og ég gat fengið flug daginn eftir, en þetta var engu að síður klaufaleg byrjun á skiptináminu sem ég hafði beðið eftir síðan ég hóf nám við japönskudeildina í HÍ fyrir tveimur árum. Eftir langt svefnlaust flug og tveggja tíma bílferð komst ég að lokum heim á heimavistina mína hér í Kyoto. Tekið var vel á móti mér, farið yfir allar reglur hússins og að lokum sögðu þau mér að ég þyrfi að fara beinustu leið upp í háskólann og taka stöðupróf, helst í gær. Velkomin til Japans! Mér fannst frekar skondið að það væri verið að senda fólk í stöðupróf þegar það var nýbúið að ferðast hálfan hnöttinn. Gæti nokkur maður staðið sig vel í slíku prófi? Maður spyr sig. Enda var ég ekki búin að læra að maður fær enga sénsa ef maður er seinn, þrátt fyrir að hafa verið á ferðalagi í tvo daga. Það er margt við japanska kerfið sem ég og margir aðrir skiptinemar þurftum að venjast og stundum virðast hlutirnir vera flóknari en þeir þyrftu að vera. Sem dæmi má nefna að það er mun meiri pappírsvinna en heima, leiga og aðrir reikningar eru borgaðir í reiðufé, maður má aldrei vera mínútu of seinn og banönum er pakkað inní plast. Hinsvegar eru göturnar tandurhreinar, allir flokka sorpið sitt og allt kerfið virðist ganga eins og smurt. Ekki leið á löngu þangað til ég fór sjálf að leggja meiri áherslu á hreinlæti, stöðuga tillitsemi og temja mér að vera tímanleg. Það eina sem mér fannst virkilega erfitt að venjast var hversu erfitt það er að vera grænmetisæta hérna og hversu mikið maður sker sig úr. Oftast er starað á mann en stundum hrósar fólk manni eða vill fá mynd af sér með manni. Ætli ég komi ekki heim eftir eins árs dvöl með „celebritysyndrome“ frá Japan. Það var því margt sem ég var ekki undirbúin fyrir, því það er allt annað að læra um samfélag en að taka þátt í því. Þetta er þó búið að vera algjört ævintýri og Japan er æðislegt land. Ég er ótrúlega þakklát fyrir allt sem ég hef upplifað á síðustu mánuðum. Það eru forréttindi að fá að búa í jafn fallegri borg og Kyoto og þetta reynsla sem ég mun aldrei gleyma. Ástarkveðjur frá Japan, Sunna Axelsdóttir nemi í japönsku máli og menningu

PIPAR\TBWA • SÍA • 156107

Sendibréf frá skiptinema

36