Áfangastaðir á starfssvæði Norðurhjara:
Stefnumarkandi framkvæmdaáætlun Vinnuhópur Norðurhjara um áfangastaðaverkefnið vann árið 2013 áfangastaðaskýrslu, sem var endurskoðuð og uppfærð af sama vinnuhópi 2017. Eftirfarandi eru niðurstöður um forgangsröðun og framkvæmdaþörf á áfangastöðum á starfssvæði Norðurhjara. Tekin var afstaða til allra staða sem tilnefndir voru á svæðinu, alls 30. Forgangur 1A (röðun er landfræðileg frá vestri til austurs) Fjallahöfn: Vinsælt útskot á vegi 85, við Lónin vestast í Kelduhverfi, þar sem gaman er að skoða fugla og fara niður í fjöru. Nokkuð er um utanvegaakstur í sandinum, sem er til lýta. Framkvæmd: Rætt hefur verið við Vegagerðina sem tekur vel í að setja upp útskotsskilti og ganga þannig frá að ekki sé hægt að aka út af, til að forða náttúruspjöllum. Hagsmuna landeigenda verður gætt og þess að hægt sé að komast að ósnum ef þörf krefur. Upplýsingaskilti við Hraunin: Við gatnamót norðausturvegar (85) og vegarins um Hólssand (864), austan við Jökulsárbrú er áfangastaður sem Vegagerðin hefur útbúið. Skiltin eru að nokkru leyti úrelt, ásamt því að gróður er farinn að skyggja á vegmerki. Framkvæmd: Eftir viðræður við Vegagerðina ætlar Vegagerðin að fara yfir þessi skilti á næstunni og laga þau eftir ábendingum vinnuhópsins. Samráð verður haft við Vatnajökulsþjóðgarð. Naustárfoss / Valþjófsstaðafjara: Rétt við norðausturveg 85 í Núpasveit við Öxarfjörð er falleg sýn yfir Naustárfossinn sem fellur þar í sjó í fallegri fjöru. Mikið er um að fólk stoppi við Valþjófsstaðafjöru og keyri jafnvel niður í fjöruna og lendi í vandræðum. Framkvæmd: Finna ákjósanlegan stað fyrir bílastæði sem þjóni hvoru tveggja. Þá yrði sett upp merkið Áhugaverður staður, síðan gert útskot, í samstarfi við Vegagerðina og landeigendur. Snartarstaðanúpur: Frá Sléttuvegi (870) við Geitasand, norðan Kópaskers er þægileg og skemmtileg gönguleið á Snartarstaðanúp. Framkvæmd: Setja þarf upp gönguleiðarmerki við veginn í samráði við Vegagerð og landeigendur. Hólaheiði: Við gatnamót norðausturvegar (85) og Raufarnafnarvegar (874) þarf að gera bílaplan svo hægt sé að njóta norðurljósa, en þar er engin ljósmengun. Útskotið kæmi sér líka vel fyrir fólk á svæðinu sem sameinast í bíla á þessum gatnamótum. Framkvæmd: Vegagerðin er með málið í athugun. Flugvélarflakið við Sauðanes: Á gamla flugvellinum norðan við Sauðanesbæinn á Langanesi er flak af amerískri flutningavél sem hlekktist á í lendingu á kaldastríðsárunum. Aukinn áhugi ferðafólks á flugvélagarflakinu veldur átroðningi. Niðri við sjóinn er trappa yfir girðingu vegna gönguleiðar út í Grenjanesvita. Framkvæmd: Setja upp leiðbeiningaskilti við hliðið, færa tröppuna að hliðinu, bæta við annari tröppu nær vélinni, allt í samráði við landeigiendur og ábúendur.