SHS starfsáætlun 2015-2016

Page 1

STARFSÁÆTLUN 2015 - 2016

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins og SHS fasteignir ehf.


Efnisyfirlit Inngangur ................................................................................................................ 3 Starfsemin ................................................................................................................ 5 Eigendur og dagleg stjórn ................................................................................................................. 5 Þjónustusvæði og starfsstöðvar ..................................................................................................... 5 Hlutverk og helstu verkefni ............................................................................................................... 6 Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins .......................................................................... 7 SHS fasteignir ehf. .................................................................................................................................... 7 Verkefni á áætlun 2015 - 2016 ............................................................................. 9 Forvarnasvið ................................................................................................................................................ 9 Viðbúnaðarsvið ...................................................................................................................................... 11 Aðgerðasvið ............................................................................................................................................. 13 Fasteignir .................................................................................................................................................... 14 Fjármál ......................................................................................................................................................... 15 Mannauður og almannatengsl .................................................................................................... 16 Skrifstofa slökkviliðsstjóra ................................................................................................................ 18


Inngangur Nýlega var undirritaður samningur milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutningaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu árin 2015 - 2020. Óvissa hefur ríkt um framtíð SHS undanfarin misseri, en síðasti samningur rann út í árslok 2011. Til margra ára hefur SHS lagt starfs- og fjárhagsáætlun sína fram í einu skjali. Ákveðið var að breyta til og birta nú áætlanirnar aðskildar. Starfsáætlun SHS fyrir árin 2015 og 2016 stendur því að þessu sinni á eigin fótum. Byggingu nýrrar slökkvistöðvar við Skarhólabraut í Mosfellsbæ er nú að mestu lokið. Þar sem samningar um sjúkraflutningana hafa náðst verður hún stækkuð til að hýsa sjúkrabifreiðar. Að öðru leyti hófst starfsemi í hinni nýju stöð vorið 2015, þegar hún var fullbúin til notkunar og þjálfun nýrra starfsmanna lokið. Var þá langþráðum áfanga náð, en undirbúningur að fjölgun slökkvistöðva hófst með ákvörðun stjórnar SHS þar að lútandi um mitt ár 2006, þar sem fyrir lá að ekki væri hægt að standa undir kröfum um viðbragðstíma í austustu byggðum þjónustusvæðisins. Af sömu sökum þarf að finna starfseminni í Tunguhálsi nýjan stað til að betur verði hægt að þjónusta efri byggðir í austurhluta Reykjavíkur og Kópavogs, þ.e. Breiðholt og hverfin á og við Vatnsendahæð. Á árinu 2015 er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á mönnun útkallsliðsins, sem m.a. miðar að því að fjölga mönnum í dagvinnu þar sem álagið er mest. Það er trú okkar að þessar breytingar muni ekki koma niður á hinni daglegu þjónustu SHS. Sá fyrirvari er gerður að þær hljóti samþykki Mannvirkjastofnunar, en samkvæmt leiðbeiningum stofnunarinnar um gerð og innihald brunavarnaáætlunar, sem stofnunin þarf að samþykkja skv. 13. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, skal þar gerð grein fyrir mönnun og viðbúnaði slökkviliðsins í samræmi við skilgreint þjónustustig þess. Ný brunavarnaáætlun SHS verður lögð fyrir Mannvirkjastofnun á árinu 2015. Áætlun þessi er endurbætt útgáfa starfsáætlunar 2015 – 2016 sem fyrst var lögð fram 21. nóvember 2015.

Reykjavík, 15. júlí 2015. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna höfuðborgarsvæðisins. 3


4


Starfsemin Starfsáætlun 2015 – 2016 er áætlun SHS samstæðunnar, sem samanstendur af móðurfélaginu Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs. (SHS), Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) og dótturfélaginu SHS fasteignum ehf. (SHS-F).

Eigendur og dagleg stjórn SHS er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Stjórn SHS er skipuð framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaganna og fara stjórnarmenn með atkvæðavægi í samræmi við íbúafjölda þess sveitarfélags sem þeir eru fulltrúar fyrir. Borgarstjóri Reykjavíkur er formaður stjórnar SHS. Slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á daglegri stjórn SHS skv. lögum nr. 75/2000 um brunavarnir.

Þjónustusvæði og starfsstöðvar Þjónustusvæði SHS nær til sveitarfélaganna sex sem standa sameiginlega að rekstri liðsins, frá Hvalfjarðarbotni í norðri, til Straumsvíkur í suðri og Bláfjallasvæðisins í austri. Liðið veitir Kjósarhrepp þjónustu samkvæmt samningi og veitir nærliggjandi sveitarfélögum aðstoð samkvæmt samningum þar að lútandi. Á starfsárinu 2015 verða slökkvistöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu orðnar fjórar, í Skógarhlíð 14 og Tunguhálsi 13 í Reykjavík, í Skútahrauni 6 í Hafnarfirði og að Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ, en sú stöð verður tekin í notkun í upphafi ársins. Jafnframt sinna meðlimir björgunarsveitarinnar Kjalar útköllum fyrir SHS á Kjalarnesi sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn samkvæmt samningi þar um.

5


Hlutverk og helstu verkefni Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er byggðasamlag sem sinnir lögbundnum verkefnum sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum verkefnum sem ákvörðuð eru af stjórn SHS samkvæmt stofnsamningi og varða velferð íbúa, falla að tilgangi SHS og eru ekki falin öðrum til úrlausnar í lögum. Hlutverk SHS er að sinna forvörnum og útkallsþjónustu á þjónustusvæðinu eins og best verður á kosið samkvæmt brunavarnaáætlun sem samþykkt er af stjórn SHS og Mannvirkjastofnun. SHS sinnir þjónustunni í eftirfarandi forgangsröð: Að bjarga lífi. Að afleiðingar af umhverfisslysum verði sem minnstar. Að bjarga eignum. SHS sinnir vatnsöflun, slökkvistarfi og reykköfun, björgun fólks með klippum, glennum og öðrum útbúnaði, viðbrögðum við mengunar- og eiturefnaslysum og eiturefnaköfun, björgunarköfun, björgun utan alfaraleiða, eldvarnaeftirliti og forvarnastarfi, auk ýmissar annarrar þjónustu við íbúa þjónustusvæðisins. Auk þess hefur SHS sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu með höndum samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið og sinnir verðmætabjörgun í samvinnu við tryggingafélögin. Einnig hafa Faxaflóahafnir gert samning við SHS um að annast aðgerðir vegna mengunar innan hafnarsvæðisins.

6


Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) var stofnuð árið 2004. Hún er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, ásamt Kjósarhreppi, og er annar fulltrúanna borgar-/bæjarstjóri viðkomandi sveitarfélags. Stjórn SHS skipar framkvæmdaráð AHS. Slökkviliðsstjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sitja einnig í nefndinni. Slökkviliðsstjóri er framkvæmdastjóri AHS.

Nefndin starfar samkvæmt IV. kafla laga um almannavarnir nr. 82/2008. Hlutverk slökkviliðsins í almannavarnakerfinu er fjölþætt. Því er ætlað að leiða stjórnun og útfærslu björgunar­ aðgerða ásamt því að taka þátt í aðgerðastjórn. Meðal verkefna liðsins í almannavörnum eru björgun úr rústum, slökkvistarf og aðhlynning og flutningur slasaðra. Í þessu skyni hefur slökkviliðið yfir að ráða góðum búnaði og sérþjálfuðum starfsmönnum.

SHS fasteignir ehf. SHS fasteignir ehf. eiga og leigja út húsnæði Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar. Slökkvilið höfuðborgar­ svæðisins leigir húseignina að stærstum hluta en aðrir leigjendur í Skógarhlíð eru Neyðarlínan hf., Ríkis­ lögreglustjóri, Landhelgisgæslan og Slysavarnafélagið Landsbjörg.

7


8


Verkefni á áætlun 2015 - 2016 Samkvæmt skipuriti SHS og AHS skiptist starfsemin í þrjú meginsvið, forvarnasvið, viðbúnaðarsvið og aðgerðasvið, auk fjögurra stoðeininga, fasteigna, fjármála, mannauðs og almannatengsla og skrifstofu slökkviliðsstjóra. Framkvæmdastjórn er skipuð slökkviliðsstjóra og yfirmönnum sviða og stoðeininga. Slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á daglegri yfirstjórn gagnvart stjórn SHS.

Stjórn SHS Slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarna

Forvarnasvið

Viðbúnaðarsvið

Aðgerðasvið Sjúkra-­‐ flutningar

Slökkvi-­‐ starf

Stoðeiningar

Fasteignir

Fjármál

Mannauður og almannatengsl

Skrifstofa slökkviliðsstjóra

Hér á eftir er í stuttu máli gerð grein fyrir helstu verkefnum sem lögð verður sérstök áhersla á fyrir utan reglubundin verkefni sviða og stoðeininga á starfsárunum 2015 og 2016.

9


Forvarnasvið Forvarnasvið sinnir reglubundnu eftirliti með eldvörnum bygginga og lóða í eldvarnaskoðunum, sem m.a. fela í sér úttekt, kröfugerð, eftirfylgni og leiðsögn til forráðamanna húsnæðis. Sviðið veitir hönnuðum ráðgjöf vegna eldvarna og hefur eftirlit við hönnun mannvirkja og lóða í samstarfi við byggingarfulltrúa, fer yfir aðaluppdrætti og í öryggisúttektir bygginga. Forvarnasvið veitir umsagnir um eldvarnir húsnæðis vegna starfs- og rekstrarleyfa vegna heimadaggæslu barna sem og gististaða, veitingastaða eða skemmtanahalds. Það sinnir einnig skipulögðum fræðsluverkefnum, hefur sérstakt eftirlit með mannmörgum stöðum og stendur öryggisvaktir á stór­ tónleikum og öðrum stærri viðburðum innanhúss. Sviðið hefur umsjón með vinnslu áhættugreiningar og áhættumats á þjónustusvæðinu og stýrir átaksverkefnum kjölfar áhættumats. Forvarnasviði er stýrt af sviðsstjóra sem ber ábyrgð á sviðinu gagnvart slökkviliðsstjóra.

Eldvarnaskoðanir Á árinu 2015 verður lokið þeim þáttum gagnagrunns er lúta að eldvarnaskoðunum og skráningu skoðana, en það felur jafnframt í sér kröfugerð, eftirfylgni og samskipti við málsaðila. Óljóst er enn um áframhaldandi fjármögnun forritunar en stefnt er að því að móta tölfræðigátt og möguleika á rannsóknum og greiningu. Þá þarf að móta notendagátt þar sem eigendur og forráðamenn geta farið inn á sína síðu, fengið upplýsingar, gengið frá frestum og staðfest lok úrbóta. Einnig er stefnt að því að endurskoða og fullmóta verklýsingar vegna skoðana og eftirfylgni þeirra.

Sérstök átaksverkefni Föst verkefni verða með sama sniði og áður, svo sem skoðanir sjúkrastofnana og hjúkrunarheimila, skóla og leikskóla. Einnig verður farið í ítarlega skoðun á óleyfisíbúðum í atvinnuhúsnæði og eftir atvikum lokað eða gerðar kröfur á eigendur viðkomandi eigna um úrbætur á eldvörnum þeirra ef þurfa þykir.

Eigið eldvarnaeftirlit eigenda og forráðamanna Kynningu á eigin eldvarnaeftirliti eigenda og forráðamanna verður sem áður sinnt samhliða eldvarnaskoðunum.

Áhættugreining – áhættustjórn á starfssvæðinu Í kjölfar endurskoðaðs áhættumats fyrir höfuðborgarsvæðið hefur verið farið í að minnnka áhættu eftir því sem slökkviliði er kleift, m.a. gagnvart eldhættu á bensínafgreiðslustöðvum, vegna gróðurelda, gasmála, málningarlagera 10


og -framleiðslu. Einnig hefur verið gert átak á sundstöðum vegna hættu af klórmengum og unnið að endurbótum á eldvörnum olíubirgðastöðva. Eftir stendur að minnka áhættu vegna hættulegra efna, smitsjúkdóma og faraldra, sjávarflóða, jarðskjálfta, óveðurs og samgangna. Unnið verður að því að vinna þessum málum farveg á vettvangi almannavarnanefndar.

Viðbúnaðarsvið Starfsemi viðbúnaðarsviðs snýr að undirbúningi viðbragðs SHS og AHS við vá. Það felst m.a. í eftirliti og umsjón með tækjakosti og búnaði liðsins, gerð viðbragðsáætlana og að tryggja samstarf við aðra viðbragðsaðila. Einnig í stuðningi við AHS með þjónustu við nefndarmenn og umsjón með fundum, utanumhaldi um aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins og skipulagi neyðarstjórna sveitarfélaganna, sem og að sjá um samskipti við samhæfingar- og stjórnstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (SST). Viðbúnaðarsviði er stýrt af varaslökkviliðsstjóra sem ber ábyrgð á sviðinu gagnvart slökkviliðsstjóra.

Útboð slökkvibifreiða Stjórn SHS hefur samþykkt að fara í útboðsferli og vegna nýrra slökkvibifreiða. Útboðsferlið á að hefjast haustið 2015.

Ný starfsstöð, skipulag og nýr búnaður Með tilkomu starfsstöðvar við Skarhólabraut í Mosfellsbæ hefur starfsstöðvunum fjölgað úr þremur í fjórar. Yfirfara og aðlaga boðunar- og verkferla í samræmi við fjölda stöðva og mönnun á vakt. Fara yfir staðsetningu búnaðar og horfa til dreifingar á sérhæfingu og álagi milli stöðva í samvinnu við aðgerðasvið.

Neyðarstjórn sveitarfélaganna Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa öll komið sér upp neyðarstjórnum og eru þær komnar inn í boðunarkerfi Neyðarlínunnar. Fylgja þarf eftir æfingum sem voru haldnar vorið 2015 með frekari fræðslu og æfingum. Útbúa þarf handbók

11


fyrir neyðarstjórnirnar. Auka og samhæfa upplýsingaflæði og tryggja þannig skjót og örugg viðbrögð við ýmiskonar áföllum sem snúa að ýmsum stoðum samfélagsins. Tengja þarf upplýsinga- og kynningarfulltrúa sveitarfélaganna inn í vinnu neyðarstjórnanna.

Samstarf við aðra viðbragðsaðila Auka þarf samstarf og traust milli viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með reglulegum samráðsfundum. Ekki síst þarf að horfa til samstarfs við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með mánaðarlegum fundum. Vinna þarf að viðbragðsáætlunum í samvinnu aðila og nýta samstarfs-rundvöllinn sem liggur í aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins enn betur. Jafnframt þarf að yfirfara og auka samstarf við viðbragðsaðila á nágrannasvæðum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu, endurskoða samninga og viðbragðsáætlanir varðandi gagnkvæma aðstoð og viðbrögð og samstarf aðila á skörunarsvæðum. Haft verður frumkvæði að fundum með viðbragðsaðilum á skörunarsvæðum, bæði vegna slökkviliða og sjúkraflutninga.

Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins hefur fengið húsnæði í Skógarhlíð 14. Skipuleggja þarf aðstöðuna, hanna og koma upp í samræmi við niðurstöður vinnuhóps um aðstöðuna. Vinna þarf að uppbyggingu aðgerðastjórnar höfuðborgarsvæðisins og nýta þá breytingu sem verður með aðstöðu hennar í að efla starf hennar, auka samstarf aðila m.a. með sameiginlegri fræðslu og æfingum. Uppfæra þarf samstarfsgrundvöllinn sem aðgerðastjórnin starfar eftir í samræmi við breyttar aðstæður. Leggja þarf áherslu á starf hennar í daglegum viðbúnaði, ekki eingöngu við almannavarnaástand. 12


Viðbragðsáætlanir og æfingar Vinna þarf viðbragðsáætlanir sem gera sveitarfélagið, stofnunina, fyrirtækið eða þann aðila sem hlut á að viðkomandi máli betur í stakk búinn til að takast á við viðbragðsástand. Áætlanir eiga að tryggja að ákvarðanir verði sem bestar, að mikilvægar ákvarðanir verði ekki útundan, að starfsfólk sé kallað út og að búnaður sé til staðar og hægt sé að grípa tímanlega til hans. Í kjölfar útgáfu viðbragðsáætlana þarf að huga að æfingum til að æfa aðgerðir skv. áætlununum. Á tímabilinu mun viðbúnaðarsvið fylgja eftir vinnu við viðbragðsáætlanir fyrir SHS, aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins og neyðarstjórnir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgerðasvið Aðgerðasvið er byggt upp á tveimur meginstoðum; sjúkraflutningum og slökkvi­ starfi. Undir starfsemi aðgerðasviðs falla almennir sjúkraflutningar og viðbrögð við slysum og eldsvoðum, aðgerðir í mengunaróhöppum, leitar- og björgunarköfun, björgun utan alfaraleiða og verðmætabjörgun, m.a. vegna vatnsleka. Undir verksvið aðgerðasviðs fellur starfsmannahald varðliðs, vaktaskipulag, æfingar og þjálfun, og umsjón stoðdeildar. Aðgerðasviði er stýrt af slökkviliðsstjóra auk tveggja deildarstjóra sem hvor ber ábyrgð á sinni stoð gagnvart honum.

13


Sjúkraflutningar Stefnt er að því að vinna við endurskoðun vinnuferla fyrir sjúkraflutningamenn og rafræna skýrslugerð haldi áfram á tímabilinu.

Ný starfsstöð, fjölgun á vakt Með tilkomu stöðvar við Skarhólabraut í Mosfellsbæ fjölgar starfsstöðvunum úr þremur í fjórar. Fylgja þarf eftir nýju skipulagi með fjölgun stöðva, færslum á búnaði og skráningum. Menntun nýrra starfsmanna verður í samráði við mannauðsstjóra. Gert er ráð fyrir því að töluverð vinna verði við ráðningarferli og námskeiðshald fram eftir ári 2015.

Menntun, þjálfun og æfingar Mikilvægt er að nýta vel aðstöðu SHS og tíma á vöktunum til að halda úti fjölbreyttri þjálfun. Áhersla er lögð á að tryggja öryggi starfsmanna og gæði þjónustunnar með því að uppfylla kröfur laga og reglugerða um endurmenntun og þjálfun slökkviliðsmanna. Æfingar verða skipulagðar og sett upp sí- og endurmenntunaráætlun í samráði við mannauðsstjóra með það fyrir augum að lögbundnar kröfur um endurmenntun og þjálfun reykkafara verði uppfylltar frá og með árinu 2015.

Fasteignir Undir fasteignir falla eftirlit og viðhald fasteigna, lóða og innanstokksmuna, ný­byggingar og leigumál. Starfsemin skiptist í megindráttum í umsjón dóttur­ fyrirtækisins SHS fasteigna ehf., umsjón Rekstrarfélags leigjenda í Skógarhlíð 14, umsjón þjónustuvers Björgunarmiðstöðvarinnar Skógarhlíðar og húsnæðismál SHS.

14


Á verksviði fasteigna er umsjón með mannvirkjum í eigu SHS fasteigna ehf., sem nú er Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð í Skógarhlíð 14, og SHS, sem eru slökkvi­ stöðvarnar í Skútahrauni 6 í Hafnarfirði, á Tunguhálsi 13 í Reykjavík og á Skar­hóla­ braut 1 í Mosfellsbæ. Umsjón nýbygginga og stærri sem smærri viðhalds­verkefna á fasteignum og lóð. Einnig eftirlit með leigusamningum og samskipti við leigu­ taka, sem og umsjón með því geymsluhúsnæði sem SHS hefur á leigu. Að auki er viðhald innréttinga, húsgagna og annars húsbúnaðar á verksviði fasteigna. Fasteignum er stýrt af framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á einingunni gagnvart slökkviliðsstjóra.

Ný slökkvistöð við Skarhólabraut Starfsemi hófst í nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ á fyrri hluta árs 2015. Gert er ráð fyrir að nokkur vinna verði við að ljúka standsetningu hennar, koma upp innbúi og gera hana tilbúna til íveru. Sömuleiðis er áætlað að lagfæra og slétta lóðina, koma upp merkingum/skiltum þannig að vegfarendur átti sig á hvaða starfsemi er um að ræða.

Flutningur á slökkvistöð Á tímabilinu verður gengið frá lóðamálum vegna nýrrar slökkvistöðvar í stað stöðvarinnar í Tunguhálsi.

Malbikun lóða Löngu tímabært verkefni við malbikun lóðanna við slökkvistöðvarnar hófst árið 2014 með malbikun baklóðar við Skógarhlíð. Stefnt er að því að ljúka verkefninu á tímabilinu.

Fjármál Stoðeiningin fjármál sér um fjármálastjórn SHS samstæðunnar. Hún ber ábyrgð á vinnslu fjárhagsáætlunar og rammaáætlana, veitir slökkviliðsstjóra fjárhagsupplýsingar, sinnir kostnaðareftirliti og vinnur útkomuspár. Einingin annast fjárhags- og viðskiptamannabókhald, árshlutauppgjör og uppsetningu ársreiknings. Sinnir útreikningum og afgreiðslu launa og launatengdra gjalda, hefur eftirlit með launaþróun og framkvæmd kjarasamninga og vinnuréttar og sinnir ráðgjöf á því sviði. Fjármál bera ábyrgð á gerð greiðsluáætlunar og sinna auk þess innheimtu og gjaldkerastörfum fyrir samstæðuna. Sambærilegri þjónustu er sinnt fyrir Rekstrarfélag leigjenda í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð. Fjármálum er stýrt af fjármálastjóra sem ber ábyrgð á einingunni gagnvart slökkviliðsstjóra.

15


Nýir kjarasamningar Kjarasamningar Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga urðu lausir 1. maí 2015. Talsvert umstang fylgir endurnýjun kjarasamninga við breytingar í launakerfi, uppfærslu verkferla og verk­ lýsinga, sem og upplýsingagjöf til starfsmanna.

Verkferlar og gæðamál Unnið er reglubundið í uppfærslu verkferla og verklýsinga í takt við breytingar á vinnulagi og þróun í launa- og réttindamálum starfsmanna og breytingar á lögum og reglugerðum. Sömuleiðis er unnið að því að fjölga verkferlum og verklýsingum og er stefnt að því að ekki færri en fjórir nýir verkferlar taki gildi á hvoru ári um sig.

Mannauður og almannatengsl Starfsemi mannauðs og almannatengsla snýst um vinnuvernd, heilbrigðismál, menntunarmál og kjaramál, sem og önnur starfsmannamál. Þar að auki sinnir einingin almannatengslum og upplýsingagjöf, þ.m.t. heimasíðu, og hefur umsjón með viðburðum og uppákomum SHS. Mannauður og almannatengsl sjá um viðhald starfsmannahandbókar, starfs­ manna­ráðningar og móttöku nýliða. Einingin skipuleggur starfsmannasamtöl og heldur utan um frammistöðumat starfsmanna, sér um samræmingu fræðslumála í sam­vinnu við stjórnendur og undirbýr og skipuleggur þjálfunaráætlun starfs­ manna. Einingin vinnur að heilsutengdum forvörnum og fræðslu og fylgist með áhættu­ þáttum í vinnuumhverfi starfsmanna. Mannauði og almannatengslum er stýrt af mannauðsstjóra sem ber ábyrgð á einingunni gagnvart slökkviliðsstjóra.

16


Starfsmannamál Gerð verður samantekt á niðurstöðum starfsmannasamtala og þær kynntar fyrir bæði stjórnendum og starsfmönnum. Útbúinn verður listi yfir athuga­ semdir/tillögur starfsmanna m.t.t. úrbóta og þær settar í farveg og forgangs­röð. Til stendur að taka í notkun mannauðsmælikvarða á árinu og gera reglu­legar skoðanakannanir á meðal starfsmanna, m.a. til að fylgjast með mannauðs­ mælikvörðunum.

Kjaramál Fylgst verður með framvindu samningaviðræðna og leitast við að veita starfsmönnum upplýsingar og aðstoð eftir þörfum. Kjarasamningur LSS rann út 30. apríl 2015.

Heilbrigðismál og vinnuvernd Áhersla verður lögð á að starfsmenn nýti sér þá aðstöðu sem komið hefur verið upp á öllum starfsstöðvum SHS til íþróttaiðkunar og þjálfunar. Ennfremur verður lögð áhersla á fræðslu og persónulega ráðgjöf íþróttaþjálfara og trúnaðarlæknis innan stöðvarinnar og hvatt til frumkvæðis starfsmanna hvað varðar þátttöku í mótum, keppnum og uppákomum sem tengjast heilsurækt á einn eða annan hátt. Einnig mun fara fram úttekt á vinnuverndarvísum SHS, þeir skráðir og þeim forgangsraðað. Reynt verður að gera úrbætur jafnóðum til að uppfylla vinnuverndarvísana, m.a. með því að breyta verklagi og ferlum til að draga úr líkum á starfstengdum slysum og sjúkdómum.

Menntunarmál Mat verður lagt á menntunar- og fræðsluþörf starfsmanna í samvinnu við stjórnendur, m.a. í gegnum starfsmannasamtölin. Leitað verður síðan leiða til að bæta og/eða viðhalda menntunarstigi liðsins, m.a. með námskeiðshaldi, kennslumyndböndum, fyrirlestrum og með fræðsluefni á innri vef. Auk þess verður leitast við að efla þekkingarmiðlun á meðal starfsmanna með því að hvetja starfsmenn til að halda fyrirlestra á sínu sérsviði og skipuleggja framkvæmdina.

Ytri og innri vefur Á nýjum ytri vef verður lögð áhersla á fréttir úr starfinu, forvarnir og fræðslu til almennings. Lögð verður aukin áhersla á að birta þar ýmsar tölfræðiupplýsingar sem lúta að starfi SHS. Sérstök gagnagátt verður einnig tekin í notkun á árinu fyrir Almannavarnanefnd, sambærileg þeirri sem sett hefur verið upp fyrir stjórnar­ menn, til að miðla skjölum á milli. Jafnframt stendur til að auka upp­lýsingaflæði til fjölmiðla í gegnum fréttaveitu á ytri vef á meðan á stærri útköllum stendur í þeim tilgangi að miðla upplýsingum jafnóðum svo allir sitji við sama borð. Nýr innri vefur verður áfram í uppbyggingu en til stendur m.a. að auka virkni á ,,mínum síðum“ starfsmanna með því að veita þeim aðgang að ýmsum persónulegum upp­lýsingum og gögnum, t.d. vinnutímaskýrslum, vinnufyrirkomulagi, frítöku og réttindum. Á innri vefnum verða jafnframt birtar gagnlegar upplýsingar sem lúta

17


að innra skipulagi SHS, fréttir úr starfinu, upplýsingar um ferðir og uppákomur og vægi fræðsluefnis verður aukið.

Almannatengsl Sendar verða út fréttatilkynningar til fjölmiðla þegar á þarf að halda og fyrirspurnum fjölmiðla beint í réttan farveg. Samstarf við fræðsluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu verður eflt þegar von er á óveðri sem raskað getur skólastarfi og þátttöku í fjölmiðlahópi samhæfingarstöðvar Almannavarna haldið áfram þegar upp koma óvænt atvik. Haldið utan um skipulag og vinnu samstarfshóps um upplýsingagjöf vegna viðbragðsáætlana á höfuðborgarsvæðinu.

Skrifstofa slökkviliðsstjóra Skrifstofa slökkviliðsstjóra sinnir sérverkefnum fyrir slökkviliðsstjóra sem lúta að stjórnsýslu og samskiptum við stjórn og samstarfsaðila. Hún sér um framkvæmd innra eftirlits og hefur umsjón með skipulagi og samræmingu verkferla SHS. Skrifstofan vinnur árlega starfsáætlun SHS, vinnur stefnumótun og greiningu á starfsemi SHS og hefur umsjón með vinnslu og útgáfu brunavarnaáætlunar. Hún hefur eftirlit með útgefnu efni SHS og umsjón með skjalavörslu SHS. Skrifstofa slökkviliðsstjóra vinnur tölfræðiupplýsingar, sér um tölvu- og hugbúnaðarmál, þ.m.t. smíði gagnagrunna, sem og símamál og tæknilega aðstoð við starfsmenn. Skrifstofu slökkviliðsstjóra er stýrt af skrifstofustjóra sem ber ábyrgð á einingunni gagnvart slökkviliðsstjóra.

Stofnsamningur 17. gr. stofnsamnings SHS kveður á um endurskoðun hans á tíu ára fresti. Endurskoðun samningsins verður framkvæmd samkvæmt ákvörðun stjórnar SHS.

18


Brunavarnaáætlun SHS ber að vinna brunavarnaáætlun til að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin í lögum og reglugerðum. Áætlunina skal endurskoða á fimm ára fresti og hún lögð fyrir Mannvirkjastofnun til umsagnar og sveitarstjórnir til samþykkis. Ný brunavarnaáætlun verður gefin út árið 2015.

Skipulag og stefna Stefnumótun fyrir SHS var gefin út og samþykkt af stjórn SHS á árinu 2003, í ritinu Skipulag og stefna. Nýtt rit verður gefið út á árinu 2015.

Skjalavistun Stefnt er að því að taka nýtt skjalavistunarkerfi í notkun á tímabilinu og endurskoða verklag í framhaldi af því.

Umhverfisstefna Sett verður og skjalfest umhverfisstefna SHS á tímabilinu og unnar verklagsreglur vegna framkvæmdar hennar og eftirlits. Áfram verður unnið að því að efla pappírslaus samskipti. Hið nýja skjalavistunarkerfi mun auðvelda vistun gagna miðlægt, úr símum og spjaldtölvum, sem og borðtölvum.

Vaki Haldið verður áfram með þróun Vaka. Vaki er gagnagrunnur sem heldur m.a. utan um vaktaskipulag og verkefni varðliðs, námskeiðs- og æfingaskrá, fjarvistir og tilkynningar um bilanir á búnaði og viðgerðir vegna þess. Enn er unnið að því að slípa kerfið til, auka virkni þess og notkunarmöguleika og fullmóta að þörfum SHS.

Brunavörður Áfram verður unnið að þróun Brunavarðar. Brunavörður er gagnagrunnur fyrir eldvarnaskoðanir sem heldur m.a. utan um rafræna skráningu skoðana, kröfugerð, eftirfylgni og samskipti við málsaðila. Unnið er í samstarfi við Mannvirkjastofnun og Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, sem fjármagnar verkefnið að hluta.

19


Útgefið í júlí 2015

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs.

Skógarhlíð 14

105 Reykjavík

www.shs.is


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.