Jólasveinarnir

Page 4

Jólasveinarnir eru allir af svipaðri stærð og manneskja, það er að segja fyrir utan einn, hann er lítill! Sá verður sjálfsagt aldrei stór, ekki stærri en barn. Tröllkerlingin vekur syni sína einn af öðrum af værum blundi, og sendir þann fyrsta til byggða þrettán dögum fyrir jól til að finna mat sem þau öll geta notið saman yfir hátíðarnar. Þeir leggja af stað, alltaf í sömu röð hver sinn dag, út í aðfaranótt komandi dags og ná til byggða á meðan börnin sofa. Í byggðinni nota jólasveinarnir tímann til að safna matarbirgðum fyrir fjölskyldu sína og gefa öllum börnum í byggðinni í skóinn. En þrátt fyrir að Grýla sé hræðileg tröllskessa gengur henni ekki alltaf vel að vekja strákana sína og þarf stundum að beita hörku. Þeir eru litríkur flokkur trölladrengja og Grýla gefur hverjum og einum viðeigandi meðhöndlun. Suma hristir hún upp af værum svefni, aðra slær hún í andlitið með votum vettling og einhverjir fá spark í bakhlutann. Svo sér hún til þess að þeir gleymi ekki að fara til byggða og útvega ljúffengan mat. Áður en jólasveinarnir halda af stað á leið til byggða, gefur Grýla þessum sísvöngu sonum sínum, hverjum og einum, poka með kartöflum og segir við þá eins og hún gerir alltaf: „Þessar kartöflur eru ekki fyrir ykkur að éta í ferðinni, drengir, heldur til að borga fyrir heimsóknina. Ég fékk þær frá dvergum sem ég þekki hér í nágrenninu. Við pabbi ykkar gerðum þeim greiða fyrir margt löngu og á hverju ári upp frá því gefa þeir mér þessar galdrakartöflur fyrir jólin. Dagana fyrir jól hafa börnin í byggð fyrir sið að setja fínasta skóinn sinn út í gluggakistuna áður en þau fara að sofa. Þetta gera þau í von um að finna eitthvað fallegt í honum að morgni“, segir hún.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.