Page 1

Helgi Valgeirsson

Jólasveinarnir Ævintýri fyrir börn á öllum aldri

Þökk til allra þeirra sem komið hafa að gerð þessarar bókar. © 2012 Helgi Valgeirsson.


Land Grýlu og Leppalúða Umlukt úfnu hafi langt, langt í norðri, á hjara veraldar, liggur lítið fallegt land. Landslagið þar er hrjóstrugt, fjöllótt og veður válynd. Með djúpum dölum, háum fjöllum sem skarta björgum og hamrasölum er landið erfitt yfirferðar, einkum á vetrum þegar snjór hylur jörð. Skammdegið gerir dagana gráa og næturnar eru langar, stormasamar, kaldar og dimmar, sérstaklega þegar skýjafar er þungt svo hvorki stjörnur né máni lýsa leið. Vegna hrjóstrugrar náttúru á gróður erfitt uppdráttar í landinu. Þar þrífast fáir skógar en tré vaxa sumstaðar stök eða nokkur saman, hingað og þangað eins og litlar vinjar í auðninni, innan um mosa og kjarr. En þrátt fyrir harðar aðstæður býr í landinu gott og vingjarnlegt fólk sem með dugnaði og vinnusemi hefur byggt sér falleg og hlý heimili í borgum og bæjum. Fólkið unir í sátt og samlyndi hvert við annað, og þekkir landið sitt vel. Það fer sögum af víðum helli með mörgum afkimum uppi í háu fjalli sem heitir Tröllatindur. En enginn veit nákvæmlega hvar hann er. Þar býr tröllaparið Grýla og Leppalúði ásamt sonum sínum þrettán, jólasveinunum, að ógleymdu gæludýrinu, jólakettinum. Mestan hluta ársins, sefur öll fjölskyldan í einni kös á gólfinu, sveipuð hlýjum teppum.


Ekkert raskar ró þeirra og þau hrjóta hátt, djúpt inni í notalegum hellinum. Þegar líður að jólum ár hvert vakna þau öll, klæðast og byrja eins og við hin að undirbúa jólahátíðarnar. Þá er skynsamlegt fyrir mannabörn að hegða sér vel því þrettán dögum fyrir jól eru allir íbúar Tröllatinds við að vakna! Og þeir geta samstundis heyrt ef börnin eru óþekk. En eins og allir vita þá finnst tröllum óþekkt og læti lítt skemmtileg og geta brugðist illa við. Gauragangur og hávaði truflar tröllin ákaflega, sem fyrir jólin hafa mikið að gera. Það er víst enginn sem vill reita tröll til reiði, eða hvað? Grýla, móðir jólasveinanna er stór og ógurleg tröllskessa. Hún hefur strítt, svart og sítt hár og gamli svarti kjóllinn hennar er orðinn snjáður af langri notkun. Grýla er mörg þúsund ára en ennþá ern og stýrir heimilishaldinu af myndarbrag. Vegna þess að Grýla hefur lítinn tíma til undirbúnings fyrir jólin bregður hún um sig ljósri svuntu strax og hún vaknar, sem hún svo ber á sér allan tímann sem hún er á stjái. Hún hefur á fótum sér hvíta ullarsokka og hvítbryddaða svarta sauðskinnsskó. Hún þeysist um hellinn, upptekin við þrif og allt sem gera þarf fyrir jólin. Grýla sópar hellinn með lúnum kústi og þeytir sandi, ryki og rusli í allar áttir. Hún strýkur af með gömlum trosnuðum klút og skúrar gólfið með ryðguðum vírbursta. Tröllskessan þarf líka að gæta þess að sóta skorsteininn reglulega því annars fyllist hellirinn af óbærilegum þykkum reyk.


Jólasveinarnir eru allir af svipaðri stærð og manneskja, það er að segja fyrir utan einn, hann er lítill! Sá verður sjálfsagt aldrei stór, ekki stærri en barn. Tröllkerlingin vekur syni sína einn af öðrum af værum blundi, og sendir þann fyrsta til byggða þrettán dögum fyrir jól til að finna mat sem þau öll geta notið saman yfir hátíðarnar. Þeir leggja af stað, alltaf í sömu röð hver sinn dag, út í aðfaranótt komandi dags og ná til byggða á meðan börnin sofa. Í byggðinni nota jólasveinarnir tímann til að safna matarbirgðum fyrir fjölskyldu sína og gefa öllum börnum í byggðinni í skóinn. En þrátt fyrir að Grýla sé hræðileg tröllskessa gengur henni ekki alltaf vel að vekja strákana sína og þarf stundum að beita hörku. Þeir eru litríkur flokkur trölladrengja og Grýla gefur hverjum og einum viðeigandi meðhöndlun. Suma hristir hún upp af værum svefni, aðra slær hún í andlitið með votum vettling og einhverjir fá spark í bakhlutann. Svo sér hún til þess að þeir gleymi ekki að fara til byggða og útvega ljúffengan mat. Áður en jólasveinarnir halda af stað á leið til byggða, gefur Grýla þessum sísvöngu sonum sínum, hverjum og einum, poka með kartöflum og segir við þá eins og hún gerir alltaf: „Þessar kartöflur eru ekki fyrir ykkur að éta í ferðinni, drengir, heldur til að borga fyrir heimsóknina. Ég fékk þær frá dvergum sem ég þekki hér í nágrenninu. Við pabbi ykkar gerðum þeim greiða fyrir margt löngu og á hverju ári upp frá því gefa þeir mér þessar galdrakartöflur fyrir jólin. Dagana fyrir jól hafa börnin í byggð fyrir sið að setja fínasta skóinn sinn út í gluggakistuna áður en þau fara að sofa. Þetta gera þau í von um að finna eitthvað fallegt í honum að morgni“, segir hún.


Grýla leggur svo sonum sínum þá reglu í heiðarlegum viðskiptum við mannfólkið, að þegar þeir eru í byggð skuli þeir sem borgun fyrir matarbyrgðir og annað þarflegt, setja eina kartöflu í hvern barnaskó sem þeir finna í gluggakistum í ferðinni. Allir jólasveinarnir klæðast svipuðum fötum. Það eru leppar sem Grýla saumaði handa þeim fyrir löngu síðan og þvær á hundrað ára fresti í heitum hver í nágrenni við hellinn. Rauður jakki, gamall með bronshnöppum, grænir vettlingar og grænröndóttur trefill halda á þeim hita í kuldanum. En til að ekki frjósi á þeim neðri hlutinn á ferðalaginu um snjóinn hafa þeir svartar hnébuxur, ljósa ullarsokka og hvítbryddaða sauðskinnsskó. Jólasveinarnir skarta líka allir langri skotthúfu með dúsk, en húfurnar eru þó allar ólíkar að stærð og lit eftir því hver eigandinn er. En þrátt fyrir að þeir klæði sig allir á líkan hátt eru jólasveinarnir ólíkir hver öðrum á margan hátt. Jólasveinarnir mæla sér mót á leynilegum stað þar sem þeir safnast saman eftir heimsóknina í mannheima. Þar hittast þeir svo allir aftur áður en þeir halda heim í helli til að eiga saman gleðileg jól með mömmu sinni og pabba.


Leppalúði er karlinn hennar Grýlu og faðir jólasveinanna. Hann er sköllóttur tröllkarl með gráa barta, leiður og ljótur, með skögultönn frá neðri kjálka. Utandyra ber Leppalúði gráa loðhúfu og yfir gráu ullarpeysuna sína klæðist hann gamalli úlpu úr hvítabjarnarskinni sem er orðin grá af gömlum skít. Hann gengur í svörtum hnébuxum og eins og Grýla, hefur hann á fótunum svarta sauðskinnsskó yfir hvíta ullarsokka. Leppalúði er óþolandi letingi sem þolir ekki sápu og vatn. Hann gerir allt sem í hans valdi stendur til að komast hjá öllum hreingerningum. Í hvert sinn sem Grýla blandar sápu í vatn hverfur Leppalúði út úr hellinum eins og dögg fyrir sólu. Hann sést ekki aftur fyrr en Grýla er sjálf búin með allar hreingerningar. Leppalúði vill miklu heldur skemmta sér úti í frosti og vetrarhörkunum en dúsa í hlýjunni heima fyrir með kúst í annarri hendi, baðaður sápufroðu upp í handarkrika og með vatnsfötu í hinni. Ekki einu sinni allra verstu veður fá hann til að snúa heim í hellinn til að hjálpa við hreingerningarnar. Flest alla daga og nætur fram að jólum þeysist tröllkarlinn sem þyrill upp og niður landslagið með vindinn hvínandi í eyrum sér. Honum finnst svo skemmtilegt að flengjast um á sleðanum sínum yfir holt og móa og blaðra við mánann.


Sleðinn hans getur farið svo hratt að augu tröllkarlsins fyllast af tárum. En þó svo að hann eigi stundum erfitt með að sjá, sitjandi á sleðanum á fullri ferð, lendir hann samt aldrei í erfiðleikum í snjónum, því enginn þekkir landið betur en Leppalúði. Hann er líka alltaf sérlega varkár þegar fólk er í nánd. Það sér hann því aldrei ef hann vill það ekki sjálfur heldur finnur aðeins vindgust í andlitið þegar hann geysist hjá. En þrátt fyrir að Leppalúði sé hyskinn finnur hann sig alltaf knúinn til að útvega fjölskyldu sinni almennilegt jólatré fyrir hátíðarnar. Hann fellir fallegasta tréð sem hann finnur og setur það á sleðann sinn til að eiga auðveldara með að koma því upp í hellinn. Sem sjálfskipaður sérfræðingur í jólatrjám er alltaf öruggt að hann útvegar besta jólatréð sem völ er á heim í hellinn. Grýla verður alltaf svo fjarska glöð að fá jólatré. “Það er engu líkara en að jólin séu þegar komin!” segir hún glaðlega við Leppalúða þegar hann ber inn í hellinn, glæsilegasta jólatréð sem hann hefur fundið. Ilmurinn af greninu gerir Grýlu líka ákaflega glatt í sinni. Einstaka sinnum á hún afganga frá liðnu ári í pottinum sínum, sem hún að launum gefur karlinum sínum til að kjamsa á. Þegar þetta gerist, líður Leppalúða vel og hann umlar ánægjulega og veit vel að hann þarf ekki að gera meira en hann sjálfur vill í þetta sinn.


Jólakötturinn hefur ekki búið í hellinum hjá Grýlu og Leppalúða alla tíð. Nei, alls ekki! Sá köttur er stór sem ljón, hefur kolsvartan feld og er með grænar glitrandi glyrnur og langt, loðið, iðandi skott sem hann veifar í allar áttir þegar hann hleypur um í snjónum. Hvaðan hann kemur, hvar hann leikur sér eða veiðir sér til matar veit enginn fyrir víst. En hvernig hann varð heimilisfastur hjá Grýlu, Leppalúða og jólasveinunum færðu að vita seinna í þessari sögu. Frá því að jólakötturinn settist að í hellinum, finnst honum best að liggja í bæli sínu og mala ánægjulega. Grýla hugsar vel um köttinn, klappar honum og gefur honum nóg að éta. En engu að síður þegar Grýla hefur sérstaklega mikið að gera fyrir jólin og er upptekin við að vekja jólasveinana hefur það komið fyrir að hún hefur gleymt að fóðra köttinn. Þegar það gerist verður jólakötturinn svo svangur og eirðarlaus að hann fer af stað út úr hellinum til að finna sér eitthvað í svanginn. En hann gætir þess alltaf að vera kominn til baka ekki seinna en á þrettándanum þegar jólasveinarnir, Grýla og Leppalúði leggja sig öll til svefns á ný og bíða næstu jóla. Jólakötturinn hringar sig saman og hjúfrar sig á sínum stað og sofnar eins og hinir.


yrsti kafli: Stekkjastaur Eins og allir nú vita, er Grýla alltaf óskaplega upptekin við jólahreingerningarnar þann litla tíma sem hún hefur fyrir jólin. En hún gefur sér þó tíma til að stökkva út úr hellinum sér til ánægju og hnoða myndarlegan snjókarl framan við hellismunnann. Svo flýtir hún sér aftur inn til að halda áfram við húsverkin, vekja syni sína með látum og senda þá til byggða. Í öllu jólastússinu finnst Grýlu alltaf skemmtilegast að vekja jólasveinana. Bara tilhugsunin um það fær hana til að hlæja með sjálfri sér. Svo arkar hún að sofandi sonum sínum sem liggja í hrúgu á gólfinu. Fyrstan vekur hún alltaf Stekkjastaur með hressilegu sparki í bakhlutann. Hann er svefnpurka eins og pabbi hans og flestir bræður. Stekkjastaur er langur grannur náungi og sköllóttur með rytjulega barta sem vaxa saman i tjásulegt yfirskegg undir nefinu. „Vakna! Vakna! Þú ætlar ekki að sofa frá þér jólin eða hvað, sonur?“ gargar Grýla hátt. Stekkjastaur vaknar en hann nennir ekki á fætur. Hann lítur svefndrukknum augum á móður sína sem lítur til baka ströng á svip. Með ólund hugsar Stekkjastaur þá með sér að sennilega sé sér það þá fyrir bestu, að klæða sig. Eftir langan blund frá jólum til jóla er hann ákaflega stirður og getur alls ekki beygt fótleggina. En þegar hann loks sest upp, klórar sér á bakinu og teygir vel úr sér, er hann fljótlega ferðafær. Grýla réttir honum kartöflupoka. „Þessar kartöflur eru ekki fyrir jólasveina að éta á leiðinni, heldur á að bera þær út í byggðinni sem þökk fyrir matarbirgðir og annað. Þessar galdrakartöflur gefa mér vinfengir dvergar sem búa hér í grenndinni.“ Þetta segir hún við drenginn sinn, eins og hún sagði síðasta ár, og sem hún segir næsta ár og sem hún alltaf segir þegar hún sendir drengina sína út í kuldann.

Jólasveinarnir  

Jólasveinarnir, er ævintýrabók fyrir börn á öllum aldri, með myndum um þessa ástsælu fjölskyldu sem býr í helli sínum í fjallinu. Fjölskylda...

Jólasveinarnir  

Jólasveinarnir, er ævintýrabók fyrir börn á öllum aldri, með myndum um þessa ástsælu fjölskyldu sem býr í helli sínum í fjallinu. Fjölskylda...

Advertisement