Portrett3

Page 1

tölublað nr. 3 - 21. júlí 2016 - GUÐRÚN BRJÁNSDÓTTIR - ODDUR SNORRASON - REBEKKA JENNÝ REYNISDÓTTIR - DÍANA SJÖFN JÓHANNSDÓTTIR

PORTRETT


UM PORTRETT Hér gefur að líta þriðja og síðasta tölublaðið af Portretti sem unnið er í Skapandi sumarstörfum sumarið 2016. Með skáldunum fjórum sem kynnt eru hér á eftir hafa alls verið kynnt tólf skáld á aldrinum sextán til tuttugu og fjögurra ára. Hingað til hefur ekkert þeirra gefið út bók en ef til vill (og vonandi) er þess ekki langt að bíða. Markmiðið með þessu blaði var að hvetja ung skáld með því að birta verk eftir þau og gera öðrum kleift að sjá það sem þau hafa verið að gera. Það er dýrmætt að fá að koma því sem maður hefur verið að vinna að á framfæri. Ég hvet ykkur lesendur til þess að leyfa skáldunum að heyra það ef þið hrífist af því sem þau hafa skrifað! Stuðningur getur skipt sköpum. Það er mjög ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir hversu ólíkar skoðanir skáldin hafa þá eiga þau það sameiginlegt að rita á íslensku og vera annt um málið. Tungumálið hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkfæri skáldsins og ein besta leiðin til þess að standa vörð um það er að halda áfram að lesa og skrifa. Ég vil færa öllum viðmælendum mínum þakkir fyrir að hafa undantekningarlaust tekið ákaflega vel í þetta verkefni, lesendum og þeim sem hafa sýnt blaðinu áhuga og Garðabæ fyrir að standa fyrir Skapandi sumarstörfum. Kærar þakkir. Lesið áfram.

2

-Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir, ritstjórn


efnisyfirlit

UM PORTRETT..................................2 „ekki heldur hafa áhyggjur af því að breyta heiminum“....................................4 mót..........................................6 Í fókus......................................7 Rebekka Jenný Reynisdóttir...................8 Oddur Snorrason.............................14 Guðrún Brjánsdóttir.........................20 Díana Sjöfn Jóhannsdóttir...................26

3


,,EKKI HELDUR HAFA ÁHYGGJUR AF ÞVÍ AÐ BREYTA HEIMINUM...“ AÐ SKRIFA ER EKKI AÐEINS ANDAGIFT HELDUR EINNIG ÆFING. PORTRETT LEITAÐI TIL NOKKURRA ÞEKKTRA RITHÖFUNDA OG BAÐ ÞÁ UM RÁÐ FYRIR UNGA HÖFUNDA.

HALLGRÍMUR HELGASON Skringilegur sálarkláði Það er svolítið einkennilegt að vera rithöfundur. Sá sem lendir í því verður að sætta sig við að vera svolítið öðruvísi en aðrir. Þetta er skringilegur kláði sem leitar á sálina og lætur mann ekki í friði fyrr en maður sest við skrifborð og byrjar að skrifa. Í fyrstu veit maður ekkert hvað er að gerast en smám saman fattar maður að þetta er eitthvað sem þarf að sinna, eitthvað sem gefur lífinu gildi, eitthvað sem er grundvallaratriði í þínum persónuleika. Án þess værir þú nánast ekkert. En þegar maður áttar sig á orðnum hlut og sættir sig við hann, tekur hann í fangið og fer að vinna með hann, er þetta auðvitað bara æðislegt. En fyrst þarf að fara yfir birtingarþröskuldinn, stíga það skref að birta eitthvað eftir sig, sýna öðrum að maður ætli kannski að verða rithöfundur. Þetta er nokkuð erfitt skref að taka og getur valdið andvökunóttum, en þetta er hollt stress, og merki þess að skrifin skipti þig máli og vonandi aðra líka. En enginn þarf að hafa neinar áhyggjur, á meðan hann fylgir og hlýðir þeirri rödd sem hann/ hún heyrir innra með sér. Ekki hafa áhyggjur af því að stuða fólk með skrifum ykkar, ef það gerist sýnir það bara kraftinn sem liggur í orðum ykkar. Og ekki hafa áhyggjur af því hvað aðrir segja um skrif ykkar, vinir, fjölskylda eða gagnrýnendur. Fyrstu viðbrögð eru alltaf krampakennd, yfirleitt á enginn von á neinu frá ykkur. Sannir rithöfundahæfileikar koma alltaf úr óvæntri átt. Og gleðin sem fylgir því að koma fólki í opna skjöldu gefur orðum ykkar alltaf vængi. Og ekki heldur hafa áhyggjur af því að breyta heiminum með birtingu textans ykkar. Það verður hvorki heimsendir né bylting. Það eina sem gerist er að þörfin kemur skríðandi til ykkar á ný, og þá er um að gera að taka hana í fangið og sinna henni. Ef hún kemur ekki, þá eruð þið kannski ekki rithöfundar, þrátt fyrir allt, og getið þá snúið ykkur að lögfræðinni eða lagnamennskunni. En ef þið reynist vera rithöfundar, þá er ekki annað að segja en: Til hamingju! 4


GERÐUR KRISTNÝ Lesið sem allra mest og veljið bækurnar vel. Gætið ykkar á því að það sést á textanum ykkar ef þið lesið aðallega á ensku. Takið ykkur góðan tíma í skrifin og njótið þess að skrifa. Það eiga lesendur nefnilega eftir að finna þegar þeir fá að lesa verkið ykkar.

SJÓN 1. Verið duglegri að lesa en skrifa. Lesið ljóð og skáldsögur, ævisögur og sagnfræðilega texta. Þjálfið ykkur í að taka eftir því þegar eitthvað snertir ykkur, þegar ykkur finnst efnið eða efnistökin áhugaverð. Lesið bæði gamalt og nýtt, merkilegt og fánýtt, útlent og innlent. Lesið. 2. Munið að þið eruð bæði að skrifa fyrir ykkur sjálf og aðra. Og sennilega meira fyrir aðra því þegar þið hafið lokið verkinu og komið því frá ykkur eruð þið ekki lengur manneskjan sem þurfti að skrifa viðkomandi ljóð, sögu, leikrit eða hvað það nú var. Svo skrifið alltaf texta sem þið sjálf mynduð njóta ef hann væri eftir einhvern annan. Skrifið. 3. Horfið, hlustið og takið þátt í öðrum listformum, hvort sem er sem gerendur eða njótendur. Frásagnaraðferð í japanskri kvikmynd sem þið sjáið getur fært ykkur lausnina að því hvernig á að lýsa tilteknu atrið í textanum sem þið eruð að skrifa, hljómur í gömlu dægurlagi getur verið tilfinningin sem þið voruð að leita að. Njótið. 4. Verið óhrædd við að gefa út, lesa upp og birta það sem þið skrifið. Ekkert kemur í staðinn fyrir upplifunina af því að sjá ljóðið sitt eða söguna, leikritið eða textann verða hluta að veruleikanum. Deilið með öðrum því sem þið lesið, skrifið, njótið. Deilið. Mynd: Dagur Gunnarsson

5


mót Ljóðabókin mót kemur út í lok júlí en hún verður gefin út í hundrað eintökum undir merkjum Partýforlagsins. Lauslegt þema bókarinnar er „tímamót“ en hún er skrifuð af þremur nýstúdentum á tuttugasta aldursári sem að loknum menntaskóla standa nú á vissum tímamótum. Skáldin þrjú sem standa að bókinni eru þau Katrín Helga Ólafsdóttir, Salome Lilja Sigurðardóttir og Victor Karl Magnússon. Þau eiga öll ljóð í bókinni. Verkefnið er styrkt af og unnið í Skapandi sumarstörfum í Kópavogi. Eintökin hundrað eru öll handsaumuð úr pappírsafskorningum frá prentsmiðjum í Kópavogsbæ og tannþræði sem er að mestu leyti fenginn frá móður Katrínar Helgu en lögð var áhersla á að vinna bókina á umhverfisvænan og ódýran hátt.

sýnishorn: stúdentsveislur

svefnlaus

er til hræðilegri setning á voru ylhýra máli en

einmanaleikinn er hangandi á hælum mér svo ég sæki í þig og þú sækir í mig innávið

„hvað ætlar þú svo að gera næsta haust?“

[án titils] þau segjast ekki vera tvíkynhneigð það þykir ekki fínt á hommabar

sælublossi mig á augnablik en svo sektarkennd sækir jafnharðan á og hvað geri ég við mig þá? tómið mig tekur á sína vængi svefnlaus við svífum og vökum lengi


Í F Ó K U S 6


R E R B E E Y K N K I A S D J Ó E T N T N I Ý R ,,Ég heiti Rebekka Jenný og ég er tuttugu og þriggja ára. Ég er í háskólanum að læra tannsmíði. Það hentar mér ágætlega að vera að gera eitthvað í höndunum. Ég hef búið í Garðabæ frá því að ég man eftir mér. Áhugamálin mín eru að mála og skrifa ljóð. “ Að skrifa Hvenær var það sem þú byrjaðir að skrifa? ,,Flest ljóðin mín skrifaði ég af því að ég ákvað að byrja að skrifa ljóð þegar ég var sextán ára og ég skrifaði eitt ljóð á hverjum degi í heilt ár. Ég hugsa mjög endanlega og þegar ég var sextán ára fannst mér ég ekki hafa gert neitt. Ef ég væri ekki til næsta dag myndi það ekki breyta neinu svo ég ákvað: ,,Nú skrifa ég bara ljóð á hverjum degi í heilt ár og þá hef ég það, að minnsta kosti. “ Ljóðin eru náttúrulega mjög mismunandi, stundum var maður í engu stuði og hafði engan tíma og fattaði kannski fimm mínútur í tólf: ,,Ég á eftir að skrifa ljóð í dag!“ Það var aldrei hægt að dvelja lengi við hvert ljóð þar sem það kom alltaf næsti dagur og þá þurfti ég að byrja á einhverju nýju. Flest ljóðin eru í styttri kantinum en sum eru meira útpæld, til dæmis ef ég hafði dauðan dag og gat setið við að skrifa. En dagsdaglega gaf ég mér aldrei mikið meira en hálftíma því annars hefði ég ekki gert neitt annað — ég þurfti að halda í venjulegu rútínuna líka þótt ég væri að þessu. En það sem kom út úr þessu var að ég fann betur hvernig ég vildi að skrifa. Ég skrifaði svo öll ljóðin upp í tölvu að lokum en ég hafði upphaflega skrifaði ég- þau í alls konar stílabækur og á einhver krotblöð. Það var mjög gaman að fara í gegnum þetta eftir á. Ég gerði það líka að 8

ég skrifaði niður ef það var sérstök pæling á bak við ljóðið af því að þegar þú skrifar þrjúhundruð sextíu og fimm ljóð á einu ári ertu aldrei að fara að muna hvað var á bak við hvert eitt og einasta. Ég las aftur ljóðin og síðan pælinguna og var þá eiginlega sjálf lesandi að ljóðunum. Ég mæli rosalega mikið með að gera eitthvað svona, að skora á sig. Ég les svolítið um það að skrifa og ég las einhvern tímann að þeir sem skrifa halda oft að þeir skrifi fullkomið í fyrsta skipti - þeir byrja á skáldsögu og ætlast til þess að hún verði meistaraverk en að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem þú átt að þurfa að æfa þig í. Það er ekki þannig að þú skrifir eitt ljóð og það sé frábært. Þú skrifar þrjúhundruð sextíu og fimm ljóð og það koma kannski fimm góð ljóð úr því. Þess vegna er ágætt að skora á sig til þess að maður hugsi ekki: ,,Ég ætla að skrifa tuttugu ljóð og gefa út bók“ þar sem maður þarf miklu meira efni til þess að geta skrifað eitthvað gott.“ Notarðu alltaf bragarhætti þegar þú skrifar? ,,Nei, alls ekki. En ég er svolítið föst í því að þegar eitthvað stuðlar óvart finnst mér ég ekki geta eyðilagt það því mér finnst stuðlar svo fallegir og það kemur svo skemmtileg hrynjandi í þá. En ég skrifa alveg líka ljóð sem eru eins og talað mál og hreinar hugsanir. Mér finnst samt mjög gaman að leika mér með bragarhætti, það er svolítil áskorun í að velja sér bragarhátt og ákveða að skrifa í honum. Þá áttar maður sig líka á því hvað það er stundum erfitt. Maður hefur kannski lesið fullt af ljóðum og finnst t.d. fornu hættirnir ekkert tilkomumiklir af því að erindin eru svo stutt og línurnar líka en að reyna að skrifa í þessum háttum... það er eiginlega bara ekki hægt. Einu sinni skrifaði ég dróttkvæði


til mömmu minnar af því að hún átti stórafmæli. Ég var marga daga að því, að púsla öllu saman svo það væri hundrað prósent rétt en svo þegar ég las það ári seinna tók ég eftir einni villu.“ Áttu einhvern uppáhaldsbragarhátt? ,,Nei. Sléttubönd eru mjög fyndin því það er hægt að lesa þau afturábak og áfram en það er ekkert erfitt að skrifa svoleiðis, í rauninni tiltölulega einfalt. Þegar ég les kvæði í bragarháttum finnst mér sonnettur svolítið skemmtilegar því það er öðruvísi hrynjandi í þeim. En mér finnst bara allir bragarhættir jafnskemmtilegir.“ Áttu þér einhverja rútínu þegar þú skrifar? ,,Ég er svolítið eins og rannsakandi þegar ég skrifa. Ég á uppáhaldssíðu sem er ritmálssafn. Það er skrá yfir öll orð sem hafa verið rituð niður, líka samsett orð. Ég er sjálf miklu hrifnari af samsettum orðum en stökum. Það er svo alltaf hægt að ýta á orðið og sjá hvernig það er notað. Ég skrifa hjá mér orðin sem mér finnst falleg það skipti og passa við andann á ljóðinu sem ég ætla að skrifa. Svo bý ég til ljóð úr þeim lista. Þetta er ekki einu sinni eini orðalistinn sem ég nota. Ég hangi svolítið á þessum orðalistum. Oft hefur maður heyrt einhver af þessum orðum áður en þarf smá aðstoð við að finna þau. Stundum uppgötvar maður orð sem eru ótrúlega falleg og maður vissi ekki að væru til. Það er erfiðara að nota orð sem allir eru hættir að nota og enginn skilur en mörg samsett orð eru mjög skýr og auðskiljanleg. Ég held að besta orðið sem ég hef fundið sé ,,heiðríkjuvök.“ Það er auðvelt að sjá það fyrir sér og það hljómar fáránlega að segja ,,gat í skýjunum“ þegar við eigum þetta orð!“

Að lesa Lestu mikið? ,,Ég er með einfaldan smekk á bókum. Ég les til dæmis mikið af barnabókum. Mér finnst það skemmtilegar bókmenntir af því að þær eru skrifaðar á allt öðruvísi hátt en aðrar bækur. Þá er ég ekki að meina barnabækur sem eru skrifaðar til skemmtunar heldur barnabækur sem eru líka með boðskap. Svo les ég einnig afþreyingarbækur sem eru ef til vill hálfgert rusl. En það sem ég leita alltaf aftur í eru barnabækur. Oft eru ljóð í þeim líka, t.d. skrifaði Roald Dahl oft ljóð í sínum bókum og Doktor Seuss líka. Mér finnst þeir svo miklir snillingar að geta gert ljóð skemmtileg fyrir alla. Þetta er yfirleitt ekki eins þungt og ljóð og skáldsögur sem ég hef ekki endilega mikla þolinmæði í en les það alveg líka inn á milli. Það er kannski svona ein fyrir hverjar tíu. En segir maður ekki alltaf að maður ætti að vera duglegri að lesa?“ Eigin verk Hvað af ljóðunum hér á eftir er í uppáhaldi hjá þér? ,,Mér fannst rosalega gaman að skrifa ljóðið Maður. Það var svolítil áskorun af því að það voru þröngar skorður í bragarhættinum. Ég fékk tækifæri til þess að lesa það upp fyrir framan mjög

marga, bæði á myndlistarrsýningu og nokkrum elliheimilum. Ég var nefnilega alltaf í Skapandi sumarstörfum að skrifa og mála en í sumar ákvað ég að takast á við eitthvað nýtt. Ég hef oft lesið upp ljóð sem hentar ekki að mála, ef þau eru löng eða myndin passar ekki. Eitt sumarið í Skapandi sumarstörfum spreyjaði ég líka ljóð á göngustíg í Garðabænum. Í þrjú ár á eftir sagði fólk mér að það hefði séð ljóð eftir mig sem var rosalega skemmtilegt. Þar sem ég vildi ekki spreyja ofan í eru þau farin núna. Mér fannst mun áhrifaríkara að hafa þau þarna aðeins í ákveðinn tíma.“ Finnst þér fara vel saman að mála og skrifa? ,,Ég hef mjög gaman af því og það er auðvelt að miðla því til fólks. Það eru ekki allir sem lesa í dag svo ef þú getur sett fram ljóð í mynd þá verður það aðgengilegra fyrir þá sem eru ekki vanir að lesa ljóð. Þegar ég mála ljóð vil ég setja þau í stemninguna sem ég sé fyrir mér að sé í ljóðinu. Stundum skrifar maður upp einhverja mynd í ljóðinu en nær auðvitað aldrei að skrifa hana alla, þá yrði það allt of langt en þegar þú málar meðfram ljóðinu verður beina myndin sem maður er að reyna að koma frá sér öll sterkari. Svo getur verið allt annar boðskapur á bak við hana. Mér finnst gaman að skrifa falleg


ljóð þar sem eitthvað ljótt býr að baki. Ég var til dæmis með verk sem heitir ,,Rósknappur“ á myndlistarsýningu Grósku, sem er félag myndlistamanna í Garðabæ, um daginn og fólki fannst það svo fallegt - það var bara náttúrumynd af íslensku hrauni en svo kom það sumum á óvart þegar ég sagði að það væri um fóstureyðingar og ekki bara þessa mynd sem var búið að birta. Það er yfirleitt mikið af náttúru í ljóðunum sem ég skrifa en þau eru kannski ekkert endilega um náttúruna. Þau líta langflest út fyrir að vera einhver náttúrumynd en svo eru þau um eitthvað allt annað. T.d. ljóðið Svartur svanur sem er um aðstöðu flóttamanna í vestrænum heimi. Um það leyti sem ég var að skrifa þetta ljóð voru mál flóttamanna mikið í umræðunni og svo kom einmitt svartur svanur til Íslands. Fólk talaði um að taka hann af lífi af því að hann átti að vera svo skæður fyrir lífríkið og mér fannst það endurspegla það sem verið var að segja um flóttamenn. Svanurinn kom hingað sjálfur, það var bara gangur náttúrunnar. Mér finnst landamæri svo gamaldags og ég get ekki séð neina ástæðu til þess að loka þeim, sama hvort um svarta svani eða flóttamenn er að ræða. Hver segir að þú ,,eigir“ eitthvað land? Það er búið að vera þarna miklu lengur en þú og það á sig sjálft.“

Sumarnótt Blikar á heiðinni boðberi nætur brennur við sjónbauginn kvöldroði hlýr rauðanótt brýst fram við himinsins rætur rökkvar er sól undir skýhulu flýr Nætursól ægi með skrautfjöður skýtur skapar á haffleti villt glóðarbál máttug höft kvöldsins og miðnáttar brýtur magnast þá sumarsins dulúðga tál Túnfífill drúpir við döggvotar grundir droparnir leika um allt sem er frjótt andvari gustar um andvökustundir ílengist svefnleysi um roðagulls nótt Umvafin dala‘læðu‘ í kyrrlátri dögun dreymin ég stari á himnanna spil í upprisu nýs dags með náttúrulífgun nótt kveður fjalldrapann græna og mig

,,Hver segir að þú ,,eigir“ eitthvað land? Það er búið að vera þarna miklu lengur en þú og það á sig sjálft.“ [án titils]

10

Stundum er ég ein biðukolla ekkert í kringum mig nema gulir fíflar á víðáttumiklu túninu en innan skamms verða ljósu lokkarnir fallnir


Sjónarspil Eldhnettir upplýsa hvolfhiminn jarðar Ástríða brennur á stjarnþoku baug Spretta fram upphimins glitrandi garðar Glæða nótt dýrðlegri regnbogataug Hugurinn streymir í stjarnljósa glætu Stjörnumergð upphefur bjart sjónarspil Líkaminn lyftist úr jarðneskri vætu Ljósvakar uppljóma sáldjúpan hyl

Meyja Hafvindar vingast við hrokkinn koll er ég klýf öldur heimshafanna sjö Löðrið leikur um vanga minn og salttárum fyllir augun tvö Bárutoppar barmi strjúka perlar á hörundi mistur hafsins Sporðurinn klífur sjávarborðið framundan viðburðir örlagadagsins Fjötrum bundin við fleysins stafn sé nálgast lok á þrælaævi Andlit mitt brotnar í spón er skip merst við hamar á grunnsævi Ævintýrin í hyldjúpum hafsins eyddi allri ævinni að þrá Tveir bláir safírar á hafsbotni liggja með þeim augum fæ ég loksins að sjá

11


Maður Maður! magnaða dýr þú alráður ávaxta jarðar! Hvar er þín ábyrgðarkennd, kærleikur og friðarins von? Barnfæddur borinn í heiminn gefið fékkst gersemar dýrar, lífríkið litríka er þín lánsama fæðingargjöf. Eitt er þitt veglegast verk að varðveita meðfædda arðinn. Gakktu‘ ekki á gjöfula jörð, græddu og rækta þitt fræ. Undur lands uppfylla sátt um eilífa gagnkvæma alúð, mannsómynd man ei sín orð, morknar því náttúrusál. Berghraunið, sem eitt sinn brann og skóp þér í landinu skýli, bregst fyrir byggingakór, brátt verður víðáttan tóm. Flæðandi uppspretta alls sem sárþyrstum kverkunum svalar virkt undir virkjanaflóð – veröldin sekkur í kaf. Landið, sem eitt sinn var ósnert, örlögum skelfingar mætir. Fallegir gimsteinar fá í flóðinu helblauta gröf. Syrgi ég ófagra sjón, svart verður bláaugum fyrir, heyri ég eingöngu hljóð hamförin í eyrun sker, krafturinn kæfandi óp, af mannshönd er mátturinn knúinn. Það er mín einlæga ósk að eilífðin verði enn rík. Æskunnar angandi blóm falli í frjósama vegi, viðurinn sproti nývöxt og vætutíð gefi nýtt brum. Svarðarins saklausu börn svipt eru morgundags færum. Réttindum hlunnfarinn hlein er hlekkjuð af lævísum hug böðulsmenn brýna sín vopn og breiða sig hyljandi kufli, glittir í eitraðan orm undan þeim ljúgvitnishjúp. Nú sé ég fjallkonu fjörbrot vofandi vordögum yfir. Farsældafrón, vertu til, fyrirgef mannanna svik! Ó bróðir hvenær kann lífstuldi þessum að linna? Mundu þú varst eitt sinn mold og munt verða aftur á ný

Rósknappur Í hjartalyngi rósknappur rekur þyrna í klappir drangar hrufla drauma um dreyrlit blöð angistin angar um mosahreiður Undir rós er illgresi tekið upp með rótum í mosabing er markað moldarspor engist um í angan sem enginn sér

12


Þrengsl Þrengir að mér þögnin í þegjanda hljóði visnar vonarögnin vöknar í eldmóði Logar lítið áberandi ljóstíra í minni sál stöðugt stelur myrkrafjandi styrknum í eigið bál Rækilega bandið reyrt rígheldur mínu skinni grát minn getur enginn heyrt ég er að brenna inni

Lifun Stríðir ólgustraumur um stræti í hjartaborg flæðandi táraflaumur fyllir hvern kima sorg Tvennar lautir tómar trega þrungnar sjá hvar stjarna lítil ljómar lengst höndum þeirra frá Skýjaveröld vildi vitja þessa ljóss heimti úr lífsins hildi svo harmur ákaft óx Dimmur dapurleikinn dreifist allt um kring blíðu augnablikin bara endurminning

Draumur heyrist í vindinum hann feykir upp dyrunum ber með sér töfraryk sem fyllir dimmt herbergið lýsir upp allt stjörnublik og ég fer í sandkassaleik baða mig í mánaskini týni öllu tímaskyni tipla á tánum á smástirnum púsla með stjörnunum á milli jarðar og hæsta himins iljar mínar yfir tóminu er ég sit á tunglinu og horfi yfir konungsríki til ármilljóna hringar Satúrnusar eru mín kóróna það er miðnætti finn fyrir mínum andardrætti vef um mig himnanna slæðum fallega grænum og lygni aftur augunum draumalandið skríður út um skráargatið draumaveröld sakna nóttin er köld, ég vakna í einhæfum heimi samstundis öllu gleymi

Þjáningin mun þverra þá er undin grær þrútin augu þerrar hinn þýði vonarblær Hlýnar hjartarótum hjá mynd af orðni tíð dofinn fer úr fótum frelsið leikur um líf Annað segja aðrir en óskir geta ræst er fæ ég mínar fjaðrir flýg með þér skýjum næst 13


O D S D N U O R R R A S O N ,,Ég heiti Oddur Snorrason og ég er tuttugu og eins árs. Í haust er ég að fara í íslensku í háskólanum. Ég útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík fyrir ári og fór þá út til Svíþjóðar og lærði bókmenntafræði í eina önn við Háskólann í Lundi.” Að skrifa Hvenær byrjaðirðu að skrifa? Hvað ertu helst að skrifa? ,,Ég skrifaði alltaf þegar ég var krakki en svo byrjaði ég aftur að skrifa þegar ég fór í rithöfundaskólann í Biskops Arnö í Svíþjóð fyrir þremur árum. Ég skrifa eitthvað af öllu, bara það sem mér dettur í hug. Ef það er smásaga þá er það smásaga, ef það er ljóð þá er það ljóð. En ég reyni að forðast lengri sögur og ég reyni að hafa þetta stuttar smásögur og stutt ljóð. Skrifarðu mikið? Hvar skrifarðu þegar þú skrifar? ,,Ég skrifa yfirleitt eitthvað á hverjum degi en suma daga dettur maður út og skrifar ekki neitt og aðra skrifar maður rosalega mikið. Ég forðast það að skrifa á tölvu og hef alltaf frekar með mér blað og blýant. Ég hef dálítið verið að daðra við það að koma á kaffihús og skrifa og hitta vini sem eru líka að skrifa. Það gengur oftast illa. Best er að finna einhvern afvikinn stað. Það er mjög fínt að fara upp á fimmtu hæð á Borgarbókasafninu þar sem eru bara 14

námsmenn að læra og maður getur setið við borð við gluggann og skrifað í friði. Ég skrifa helst ekki heima, bara einhvers staðar þar sem enginn er að trufla mig.” Hefurðu birt eitthvað efni eftir þig? ,,Já. Ég birti með Fríyrkjunni sem var skáldskaparhópur, ég held reyndar að hann sé dauður núna. Ég var einmitt að koma í hópinn þegar þau gáfu út Fríyrkjuna II svo ég flýtti mér að senda inn eitthvað efni. Ég man reyndar ekki hvað var sem ég sendi en ég held að það hafi verið ljóð. Svo var það bara eitthvað smá í skólablöðum í MR en ég hef ekki birt mikið hingað til. Ég og vinur minn, Hringur, erum núna að þýða gamlar sænskar smásögur eftir Strindberg. Þær eru kannski ekkert mjög viðeigandi í dag en þær eru mjög skemmtilegar. Við erum að hugsa um að senda eina eða tvær á Stínu, tímaritið sem Guðbergur Bergsson, Kormákur Bragason og Kári Tulinius eru með. Svo ef ég væri nógu ánægður með eitthvað efni væri hægt að senda inn ljóðahandrit til Meðgönguljóða. Það er kannski slæmur hugsunarháttur en ég vil frekar senda eitthvað sem ég er pottþéttur með frekar en að taka við höfnun. Annars þarf maður að venja sig á að fá hafnanir. En þótt maður sé ánægður með eitthvað efni þarf maður líka að hugsa: ,,Er þetta sá stíll sem ég er að reyna að ná fram? Er þetta


mjög ,,Oddslegt“? Það er erfitt að tútskýra þetta en þegar maður hugsar um uppáhaldsthöfundana sína hafa þeir ákveðinn stíl sem gengur í gegnum verk þeirra þannig að þú sérð strax að þetta er eftir þá. Maður vill skapa sér sinn eigin stíl, sama hvort hann sé góður eða slæmur. Svo þarf maður líka að hugsa um hvort þetta sé það efni sem maður vill skrifa um. Það er til dæmis mjög vinsælt hjá skáldum á okkar aldri að skrifa um þunglyndi og eiturlyf, svona bölsýni um hvað allt er erfitt en samt ástin! Allt mjög sígilt en þú vilt hafa efni sem grípur athygli lesandans og finna eitthvað sem þú ert sáttur við. Það er einhver tilfinning sem maður leitar að, maður sendir ekki bara hvað sem er frá sér. Mig langar ekki að gefa út eitthvað bara vegna þess að ég gat klárað það. Það þarf samt auðvitað að finna jafnvægi, annars gæfi maður aldrei neitt út. Annars hata ég hugmyndina um hinn gullna meðalveg. Hatar fólk ekki meðalmanninn? Er það ekki það ómerkilegasta sem þú getur verið? Það er miku betra að vera stórgallaður einstaklingur heldur en einhver sem er ,,allt í lagi“. Til hvers þá að vera að þessu?,,Þú stendur fyrir þínu! Þú ert sæmilegur, ég hef aldrei lesið slæma bók eftir þig en heldur aldrei neina sérstaklega góða!” Mér finnst miklu betra að skrifa slæma bók eða slæmt ljóð sem er með — ótrúlega asnalegt að segja ,,sál” — en er skrifað af innblæstri.“ Að lesa Hvaða höfundar eru í upáhaldi hjá þér? Ég hef alltaf haldið mjög mikið upp á — eða ,,alltaf“, í um það bil þrjú ár — Þórberg Þórðarson. Þegar maður á einhvern svona uppáhaldsrithöfund getur maður lesið hvað sem er eftir hann og verið ánægður með það. Það er ef til vill ekki uppáhaldsbókin þín, kannski er engin af bókunum hans uppáhaldsbókin þín. Ofvitinn er uppáhaldsbókin mín eftir Þórberg. Núna er stöðugt verið að tala um Laxness og Sjálfstætt fólk. Hún er rosalega góð, ég held að það elski hana nánast allir sem lesi hana. Hún er svo átakanleg og lífið þar var svo erfitt! Bjartur er svo þrjóskur og tekur svo margar slæmar ákvarðanir og það er alltaf gaman þegar persóna er erfið og maður finnur til með henni en er jafnframt alltaf reiður út í hana. En þrátt fyrir það og hversu góð hún er hef ég, verandi tuttugu og eins árs strákur í Reykjavík. fæddur úti á Nesi þar sem himininn gerist ekki blárri, lítið til þess að tengja við þessar raunir eða samsama mig þeim. En í Ofvitanum á það sem hann segir um námið enn við í dag og það sem hann segir um vinsæl skáld og það að semja. Auðvitað er margt þar úrelt, jafnréttið er ekkert og hann hefur alveg fáránlegar hugmyndir um ást - þú áttir helst aldrei að tala við ástina þína, aldrei snerta hana og ef þú kysstir hana var hún orðin að einhverri vændiskonu og kynlíf var ekki til í myndinni. Fyrir nokkru hitti ég skáldið Matthías Jóhannessen sem er reyndar frægari fyrir að hafi verið ritstjóri Moggans. Ég

Mínimalíski rithöfundurinn Orð. Hann skrifaði alltaf færri og færri orð. Uns hann reit ekki eitt Og þótti ekkert betur gert.

15


Í U P P Á H A L D I

var þá nýkominn úr námi í Svíþjóð og það er eitt pirrandi við námið þar. Svíar eru mjög meðvitaðir um jafnrétti og til dæmis mátti ekki lesa Hemingway, Knut Hamsun og fleiri af því að til dæmis er Hemingway kvenhatari og Knut Hamsun nasisti. Þeir voru í rauninni bara strikaðir út af námsskránni og við hunsuðum þá og fleiri höfunda, eins og okkur væri ekki treyst, að ef við ungu nemendurnir læsum þá uppfylltumst af kvenhatri og yrðum nasistar. Þetta var stórskrítið. Ég nefndi þetta við Matthías og hann var mjög hneyksaður og talaði um að fólk hefur alltaf átt það til að gera góða rithöfunda úr fólki með góðan boðskap. Í dag eigum við það til að hefja listamenn með góðar skoðanir upp á stall þrátt fyrir að það að vera með góðar skoðanir og að vera góður höfundur eigi ekkert sameiginlegt. Ég veit ekki hvaða skáld maður ætti að nefna, eiginlega bara öll frægustu skáld heims. Fæstir voru femínistar í gamla daga. Það er einnig talað um ,,góðan boðskap“ sem er pæling út af fyrir sig. Ráðast gæði höfunda af því hvort bækur þeirra hafi góðan boðskap? Góðar bækur með boðskap, eru þær góðar út af boðskapnum eða er hann bara aukaatriði? Góður listamaður þarf ekki endilega að vera góð manneskja. Það sem ræður gæðum bókar er yfirleitt bara stíll, inntak og efni, ekki hvort það sé góður boðskapur eða góðar skoðanir sem liggja á bak við hana.“ Eigin verk Hvað varstu að hugsa með Sögunni af matvöndu konunni? Ég og vinur minn ákváðum einhvern tímann í apríl að skrifa þjóðsögur. Við höfðum verið að lesa gamlar íslenskar þjóðsögur og upp kom 16

Mig langar í sígarettu. Í gljásvörtum leðurskóm, með stuttklippt, og sveipt hárið og þykkar, trölla og fjalla augabrúnir ekki grátt hár á sál minni að finna. Ég vil sitja í skugganum, reykur liðast frá mér, og brosa og hlæja en aldrei vinalega, aldrei glaðlega — ég er ekki skátastrákur, góðkunnur gamlingi — heldur hæðandi, sjálfumglatt, illskeytt ungmenni. Ekkert sem á undan mér kom skiptir nokkru og ekkert sem á eftir kemur heldur. Ég verð ekki til mikið lengur. Ég er ekki annað en augabragðs ljóstíra, ljómi eldspýtu, brenn bjart en dey næstum jafn fljótan. Sjáið mig — Ungan mann!


sú hugmynd að skálda svona sögur, eins og þær væru einhverjar þjóðsögur en í raun væru þær bara bull. Einhvern daginn hafði ég klukkutíma aflögu og spurði vin minn um hvað ég ætti að skrifa og hann sagði að ef ég gæfi honum hugmynd gæfi hann mér hugmynd. Ég man ekki hvaða hugmynd ég gaf honum en hann gaf mér þá hugmynd að skrifa um mannát og kom með lýsingu á kanadískum andatrúardjöfli sem heltæki mann ef maður stundaði mannát og að tengja það við þjóðsögur. Á þessum tíma var ég að lesa Þjóðháttabók Jónasar Jónassonar og þar eru rosalega fyndnar lýsingar á læknum í gamla daga en þeir voru kallaðir ,,blóðtökumenn“. Ég var svo bara að hugsa um hvað fólk hefði gert í gamla daga ef það væri eitthvað að þér og þú vildir ekki borða. Í dag myndi það ráðfæra sig við lækni eða sálfræðing en í gamla daga hefði bara komið einhver maður, sagt eða gert eitthvað bull og farið svo. Hugmyndin var líka góðvild sem snýst yfir í einhvern óhugnað. Hvað af því sem birtist hér var í uppáhaldi hjá þér? Sagan um gamla kallinn og tröllið því ég fékk svo mörg skemmtileg viðbrögð við henni! Ég sýndi alls konar fólki hana og því fannst hún annað hvort mjög sorgleg eða mjög fyndin þrátt fyrir að hún hefði hvorki átt að vera neitt sérstaklega sorgleg eða sérstaklega fyndin.“

Stofan heima.

,,Í dag eigum við það til að hefja listamenn með góðar skoðanir upp á stall þrátt fyrir að það að vera með góðar skoðanir og að vera góður höfundur eigi ekkert sameiginlegt.“

Dimmt úti. Stakir ljósastaurar standa vörðinn. Við sitjum í bjartri stofunni— úrvinda og saddir að liðnum degi. Ég les ljóðabók Hannesar Péturssonar á meðan hinn Hannes, minn Hannes, syngur með músíkinni. Styttist í svefninn. Geispi kominn í menn. Sitjum örlítið lengur. Horfum út um gluggann. Skoðum símann. Á svona stundum vantar ekkert en það er einmitt þá sem eitthvað óskast. —Sitja í myrkrinu og hlusta á þunga bláa tóna og á milli ekkjarsoga snökta lágt.— Lífið er miklu fábrotnara þegar allt leikur í lyndi.

17


Sagan af matvöndu konunni Einu sinni bar það til á bæ nokkrum á suðurlandi að gömul kona á heimilinu missti alla matarlyst. Menn gátu með engu móti matað hana og dag frá degi grenntist hún þar til húðin þornaði og stífnaði um beinin, augntóttirnar víkkuðu, kinnarnar sugust að kjálkanum og konan tók á sig mynd lifandi beinagrindar. Þá var kallað á lækni. Hann skoðaði konuna og sagði að í hana væri kominn illur andi sem nærðist á mannakjöti og æti hana nú innan frá, eins og ormur epli, þar sem ekki væri aðra fæðu að hafa. Hann sagði að nú þýddi ekki annað fyrir konuna en að afla sér mannsholds ellegar deyja af innvortis bitsárum. Að því sögðu fór læknirinn. Þótt heimilismönnum væri mannát á móti skapi vildu þeir enn síður glata gömlu konunni því hún var ljúf og sá fyrir spjörum á alla á bænum. Þar sem enginn vildi drepa annan mann eða gefa upp öndina sjálfviljugur var ákveðið að fara aðrar leiðir. Fyrst skar yngsti meðlimur heimilisins af sér einn fingurinn, því ekki þyrfti hann á þeim öllum að halda til að leggja hönd á plóg, og gaf konunni. Hún vildi ekki sjá fingurinn en fékkst lokst til að narta í hann og var þá fljót að hrækja bitanum út aftur. Fólkið sammæltist um að of lítið kjöt fengist úr einum fingri og í tilliti til þess var næsti biti fenginn neðan af hnjálið gamlingja á bænum. Sá kveinkaði sér ekki en féll þegar í stað til jarðar, fölur og sveittur. Konan fékkst heldur ekki til þess að kyngja fætinum. Fólkið var aftur sammála um að við stærð bitans væri að saka, auk þess sem kjöt gamla mannsins væri orðið seigt og illa lyktandi. Nú voru góð ráð dýr og menn úrkula vonar. Þá vildi svo til að hreppsómagi gekk inn um bæjardyrnar, þögull og feiminn, og horfði forvitnaraugum á matvöndu, gömlu konuna sem allir snerust í kringum. Heimilisfólk sá sér leik á borði og var ómaginn barinn til bana, afklæddur og rúinn öllu hári svo hann kom fyrir sjónir sem nýslátruð rolla. Fólkið vildi enga áhættu taka í þetta skiptið og var kjötið því eldað og matreitt fyrir konuna eins og fínasta jólafæði. Enn einu sinni hafði heimilisfólk útvegað gömlu konunni mannakjöt og enn og aftur þrjóskaðist hún við að borða það. Nú var heimilisfólki ljóst hvernig í pottinn var búið og hvaða bót væri á meini gömlu konunnar. Konan var teymd inn í hlöðu þar sem höggvið var í höfuð hennar svo út stóð heili og var líkið grafið úti í móa langt frá bænum. Var vandamál bæjarins þar með úr sögunni.

18


Gömlu landvættirnir Það var nótt eina á hernámsdögum að gamlingi hallaði sér að staf sínum í útjaðri Reykjavíkurog sá óvenju stóran mann nálgast sig. Maðurinn stansaði við hlið gamlingjans og lengi vel sagði hvorugur orð. Að lokum spurði stóri maðurinn hvort sá gamli væri uppalinn í borginni. „Þegar ég var ungur kölluðum við þetta bæ, ekki borg. Reykjavík var aldrei meira en stórt þorp,“ sagði gamlinginn. „Þá var kaninn ekki kominn með kamrana sína hingað,“ sagði hinn. Gamlinginn ansaði þessu ekki og þagði fyrst um sinn. Svo spurði hann hverra manna sá stóri væri. „O, ekki vænti ég að þú þekkir þá,“ sagði stóri maðurinn. Gamlinginn spurði hvaðan þeir væru. „Af fjöllum,“ svaraði sá stóri. Gamlinginn kvaðst þá skilja að maðurinn væri tröllkarl. Tröllið játti því. Gamlinginn spurði tröllið frétta af ættmennum hans. „Það var ekki margt og samt mun það minna á morgun og ekkert þar á eftir,“ svaraði tröllið. „Varla eru tröllin hætt öllum látum?“ spurði sá gamli. Tröllið sagði að þau yrðu brátt öll. „Ekki var það sennilegt,“ sagði gamlinginn. „Ég hef heyrt af tröllum í grasafjöllum nyrðra sem tæla menn til sín og breyta í tröll.“ „Það var þá,“ sagði tröllið. „Hver fer á fjöll í dag?“ Gamlinginn þagði. Skammt frá þeim stóð braggabyggð þar sem nokkrir braggar voru í smíðum og tugir manna sem um þá snerust. „Veistu mig er farið að dreyma húsabyggingar,“ sagði gamlinginn. Tröllið sagði að það vissi ekki á gott og spurði hvort það væru veikindi í ættinni. Gamlinginn hló og sagði: „Nei en það er verst því ég er orðinn svo þreyttur á borgarumrótinu.“ „Þú ert orðinn gamall,“ sagði tröllið. „trúir enn á töfra og hulduverur“ „Hvort ég trúi. Ég er að tala við eina slíku veru,“ sagði gamlinginn. „Það verður ekki aftur,“ sagði tröllið. „Mennirnir eru búnir að girða svo mikið og lýsa á svo margt að brátt verður enginn felustaður eftir og við verðum flæmd burt.“ „Það er ekki mikið pláss til fyrir gamalt fólk, það skal ég segja þér. Það er meira að segja farið að vanta pláss fyrir handan,“ sagði gamlinginn og glotti. Nú var orðið aldimmt og gjörvöll náttúran í dvala. Þó var ljós í borginni. Hún glóði ein í myrkrinu eins og kyndill á hafsbotni, þéttbyggð og endalöng, eins og líf á öðru tilverustigi. „Það er einkennilegt að skyggnt fólk sé aldrei myrkfælið,“ sagði tröllið. „Ætli það sjái ekki að myrkrið sé hættulaust,“ svaraði gamlinginn. Þá varð tröllið órólegt og sagði: „Þú sérð mig og að ég er hættulaus. Gætir þú ekki kynnt bæjarbúa fyrir okkur og sagt að það þrengi að okkur?“ „Iss, það er ekki hægt,“ sagði gamlinginn. „Þau trúa ekkert frekar á mig en þig.“ Síðan sagði hann ekki meir við tröllið en hvarf á braut og hafa þeirra líkir ekki sést hér á landi síðan.

19


G U Ð B R R Ú J N Á N S D Ó T T I R ,,Ég heiti Guðrún Brjánsdóttir og ég verð tuttugu og eins árs á árinu. Ég útskrifaðist úr MR fyrir ári og fór í íslensku í Háskóla Íslands um haustið. Í janúar tók ég samt pásu og fór til Sviss sem au pair þar sem ég passaði lítinn strák. Í haust byrja ég svo aftur í íslenskunni. Ég er með ritlist sem aukagrein en er ekki enn búin að fara í neina ritlistaráfanga. Með náminu er ég að læra klassískan söng.“ Að skrifa Hvenær byrjaðirðu að skrifa? ,,Ég held að ég hafi byrjað mjög snemma í grunnskóla. Mér fannst svo ótrúlega gaman þegar við fengum ritunarverkefni og kennararnir mínir í grunnskóla hvöttu mig mikið áfram. Þegar ég var á unglingastigi skrifaði ég ekki mikið en ég byrjaði aftur þegar ég fór í rithöfundaskólann í Biskops Arnö fyrir þremur árum. Þá kynntist ég líka fólki í MR sem var að skrifa líka og hef verið að skrifa aftur síðan þá.“ Áttu þér einhverja rútínu þegar þú skrifar? Skrifarðu á hverjum degi? ,,Ég skrifa oft á næturnar. Ég byrja oft á smásögum kvöldin og þá þarf ég helst að klára söguna. Það er sjaldan sem ég er að skrifa eina smásögu á einhverju löngu tímabili. Ég klára hana yfirleitt til enda en svo fer ég náttúrulega yfir hana seinna og laga og bæti við en þá er ramminn kominn. Maður hefur ekki mikinn tíma með sjálfum sér á daginn til þess að skrifa, maður er alltaf í einhverju prógrammi. 20

Ég get ekki sagt að ég skrifi á hverjum degi. Það koma samt bæði tímabil þar sem ég les mikið og skrifa mikið. Mig langar að vera duglegri að skrifa og mér finnst fínt að hafa fólk í kringum mig sem skrifar líka og spyr mig ef til vill hvort ég hafi skrifað eitthvað í vikunni. En þegar ég fæ svona tímabil skrifa ég oft frekar mikið, bæði ljóð og smásögur. Svo getur komið heill mánuður þar sem ég skrifa ekki neitt, sérstaklega á veturnar þegar það koma annatímabil í skólanum. Það væri gaman ef maður myndi nýta sumrin betur en ég er oft andlega uppgefin eftir mína vinnu. En þegar maður er í fríi í vinnunni á sumrin, þá gerist oft eitthvað! Ég þarf samt að passa mig af því að stundum fer ég í þann gír að ég vil bara skrifa ef ég finn einhverja frábæra hugmynd og þá þarf ég að minna mig á það að þetta er æfing og alls ekki bara einhver andagift. Þannig stundum þarf maður svolítið að neyða sig til þess að vera alltaf í æfingu og að prófa sig áfram þótt það sé ekki alltaf eitthvað gott.“ Hvað er það sem þú ert helst að skrifa? ,,Mest smásögur. Ég skrifa ljóð líka en það kemur mun sjaldnar fyrir. Mér finnst eiginlega mun skemmtilegra að skrifa smásögur og það hljómar kannski asnalega að segja það en ég held að ég skrifi bara ljóð þegar ég ,,þarf þess“, ef ég þarf mikið að tjá eitthvað. Ég sest ekki niður og hugsa: ,,Nú ætla ég að skrifa ljóð!“ eins og ég geri þegar ég skrifa smásögur.“ Lestu mikið af smásögum sjálf? ,,Ég á smásagnahefti eftir Alice Munro sem ég les


mikið. Mér finnst hún alveg frábær, ég er örugglega undir áhrifum frá henni. Svo var ég mjög hrifin af smásögu sem ég las í íslensku, Hráa hjarta eftir Kristínu Eiríksdóttur. Lítil smásaga getur haft mikil áhrif og ég get hugsað mikið um hana. Ég les samt almennt frekar skáldsögur. Þar sem ég er í íslensku hef ég síðastliðið ár verið að kynna mér mismunandi íslenska höfunda. Ég hef verið að lesa Auði Jóns, Auði Övu og Kristínu Ómarsdóttur. Ég er komin styttra en ég myndi vilja — maður vill alltaf vera búinn að lesa meira en maður hefur gert. Svo las ég líka eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, hún er í sérstöku uppáhaldi og ég ætla að reyna að lesa meira eftir hana.“ Finnst þér að maður þurfi að lesa mikið til þess að geta skrifað? ,,Ekkert endilega… Ég held að ég lesi ekki neitt brjálæðislega mikið. Ég er líka frekar vandlát á það sem ég les. Ég er rosalega eirðarlaus þannig ég hef ekki þolinmæði til þess að lesa eitthvað sem mér líst ekki rosalega vel á. Það er leiðinlegt, ég ætti kannski að vera aðeins agaðri. Ég hugsa samt að það sé erfitt að fá flæði í textann sinn ef maður les lítið því maður þarf að hafa tilfinningu fyrir rituðu máli.“ Hefurðu látið birta eitthvað eftir þig sem þú hefur skrifað? Langar þig að birta meira í framtíðinni? ,,Það var eitthvað birt á netinu eftir rithöfundaskólann í Biskops Arnö. Svo birti ég líka tvisvar, held ég, í skólablöðum í MR. Svo er fyndið með söguna sem birtist hér á eftir - ég skrifaði hana fyrst á ensku og sendi hana í smásögukeppni félags enskukennara á Íslandi og hún sigraði þar. Svo fannst mér mjög skemmtilegt að þýða hana á íslensku og þá bætti ég mörgu við. Maður getur sagt miklu meira á móðurmálinu sínu. Mér fannst það mikil áskorun að skrifa á ensku. Manstu svo eftir barnablaði Morgunblaðsins? Ég var alltaf að senda inn í það þegar ég var lítil, oft einhver ljóð sem voru frekar skrítin. Ég veit ekki hvort það væri sniðugt að fara að grafa þau upp. Mig langar að birta meira en maður er alltaf svo harður við sjálfan sig. Meira að segja þegar ég sendi eitthvað í skólablöð í MR fannst mér það mjög erfitt því ég var alltaf með svo mikla fullkomnunaráráttu, sem flestir eru með. Mér finnst aldrei neitt nógu gott og mér finnst ég aldrei hafa lesið það nógu oft yfir. Ég held að það

væri gott fyrir mig að æfa mig í því að senda hluti inn á hina og þessa staði - það er náttúrulega hluti af því að verða betra skáld að gera það.” Eigin verk Hvað er það sem veitir þér helst innblástur? ,,Ég skrifa mjög mikið um mína eigin reynslu og byggi á henni. Hugmyndirnar koma frá mér og því sem ég er að gera. Það segir sig kannski sjálft að ég á erfitt með að skrifa eitthvað sem ég veit ekkert um. Það var til dæmis auðvelt fyrir mig að ímynda mér sögusviðið í Klementíu af því að ég vinn á Grund og svo átti ég bæði afa og ömmu sem voru á Grund og voru með heilabilun. Ég hef þess vegna kynnst þeim sjúkdómi vel og mig langaði til þess að skrifa um hann. Mér fannst þetta mjög merkilegt af því maður fylgdist með þessu svo lengi. Það er ekki eins og maður hafi alltaf verið ótrúlega leiður að sjá þau í þessu ástandi, stundum var það forvitnilegt að vita hvað þau væru að hugsa um á þeirri stundu því oft voru þau kannski á allt öðrum stað en við hin. Mér fannst það mjög merkilegt sem þau voru að upplifa og hvað það var raunverulegt fyrir þeim.“ Um hvað fjallar ljóðabálkurinn Tóm? Er hann allur um sama atburðinn? ,,Já, það að amma mín dó. Ég skrifa einmitt frekar ljóð um einhverja þannig atburði. Málið var samt að tveir kennarar úr rithöfundaskólanum í Biskops Arnö komu og voru með vinnubúðir yfir helgi um haustið og við áttum að senda inn efni. Mig langaði að skrifa eitthvað nýtt og þá var þetta nýbúið að gerast og ég gat ekki skrifað um neitt annað. Annars hefði ég örugglega ekki skrifað þetta en þar sem þetta var það eina sem mér lá á hjarta á þessari stund þá kom þetta. Það er samt skrítið að þegar ég les þessi ljóð núna tengi ég ekkert rosalega mikið við þau. Maður breytist svo hratt.“ 21


Klementía Valgerður Jónsdóttir var einstaklega gömul þegar ég kynntist henni. Það var ekkert undarlegt við það í ljósi þess að ég vann á elliheimili. Eftir fyrsta sumarið sem ég vann þar tók ég mér hlé til þess að einbeita mér að náminu. Þegar ég kom aftur um vorið voru nokkrir af gömlu vinum mínum dánir og nýtt fólk bjó í gömlu herbergjunum þeirra. Valgerður Jónsdóttir var ný. Ég starði á nafnspjaldið á hurðinni hennar í dálitla stund áður en ég fór inn til að kynna mig. Ég syrgi alltaf gömlu vini mína á elliheimilinu þó að ég eigi ekki að gera það. Konan sem hafði búið í herberginu hennar Valgerðar á undan henni hafði verið góð vinkona mín. Hún gaf mér stundum konfektmola og sagði mér aftur og aftur hvað ég væri falleg. Ég bankaði, heyrði glaðværa rödd segja: „Kom inn!“ og opnaði dyrnar varlega. Valgerður Jónsdóttir sat á rúmstokknum sínum. Hún var með lesgleraugu og Sudokubók í kjöltunni. Hún líktist öðrum gömlum konum sem ég þekkti. Grátt hár, permanent og hrukkur. Við hliðina á rúminu var göngugrind. Ég tók í höndina á henni. „Góðan daginn, Valgerður, ég heiti Gréta. Gaman að kynnast þér.“ Hún tók af sér gleraugun og setti bókina á náttborðið sitt. „Ég býst við því að þú vinnir hér miðað við hvítu starfsmannafötin og gervibrosið,“ sagði hún. Ég hætti ekki að brosa þegar hún sagði þetta. „Já, jæja, ég reyni allavega að líta á þennan stað sem heimili þitt frekar en vinnustaðinn minn.“ Hún hló hvellum hlátri. „Það er frekar undarlegt.“ Hún skoðaði mig gaumgæfilega frá toppi til táar en ég hélt bara áfram að brosa. Hún virtist örugg, yfirveguð og full af kænskubrögðum. Mér leið eins og hún sæi inn í sál mína, eins og hún hefði hlegið að mér vegna þess að hún vissi að ég var allt öðruvísi þegar ég var að vinna á þessu elliheimili; alltaf að passa mig, alltaf að reyna að geðjast gamla fólkinu. Ég var alltaf brosandi því samkvæmt bókinni átti það að breyta dimmu í dagsljós. Og vanalega dugði það til. Fólkið var hlýlegt og brosti til baka. Valgerður brosti ekki. „Jæja, Gréta, það er stóll þarna í horninu. Sérðu hann?“ Ég sá lítinn, grænan stól í horninu á bak við dyrnar. Ég gekk í átt að honum en allt í einu heyrði ég hana hlæja að baki mér. „Ég var ekki að bjóða þér að setjast í þennan stól, elskan mín. Hann er brotinn. Ég þarf nýjan og mér þætti aldeilis gaman að vita hvort manneskjan sem bjó hér á undan mér hafi nokkurn tímann fengið gesti í heimsókn vegna þess að hún hefði brotið rófubeinin þeirra ef hún hefði boðið þeim að setjast niður.“ Andlitið mitt varð að tómati. „Við skulum bara finna nýjan stól handa þér,“ hvíslaði ég og flýtti mér út úr herberginu. Sumarið var yndislegt og á sólskinsdögum fóru allir út í garð, sumir gangandi og sumir í hjólastólum, og söfnuðust saman í kringum lítinn gosbrunn. Við sungum við harmónikkuleik og hláturinn hljómaði um allan garðinn. Valgerður kom aldrei út. Hún fór aldrei út úr herberginu sínu. Við færðum henni allt sem hún þurfti og hjálpuðum henni eins mikið og okkur bar skylda til en allir voru dálítið hræddir við hana vegna þess að hún hæddist að starfsfólkinu og hló eins og lítill púki. Ég hélt mig í öruggri fjarlægð frá henni og sneiddi fram hjá hugsuninni sem sótti á mig af og til; kannski var hún einmana. „Gréta, ertu til í að banka hjá Valgerði og spyrja hana hvort hún vilji hjónabandssælu eða súkkulaðiköku með kaffinu?“ sagði samstarfsmaður minn sem var í óðaönn að skera kökusneiðar á diska inni í eldhúsi. Ég kinkaði kolli og fann á sama tíma fyrir vægum óþægindum í maganum. Daginn áður hafði Valgerður starað inn í sál mína og sagt: „Þú þekkir mig ekki, Gréta. Það er synd og skömm. Ég held að okkur myndi koma vel saman.“ Ég brosti við þessum yfirlýsingum og hafði ekki hugmynd um hvort hún var að hæðast að mér eða ekki. Ég stóð stjörf fyrir framan dyrnar hennar. Þetta var ofureinföld spurning. Hjónabandssæla eða súkkulaðikaka. Ég gæti meira segja staðið í dyragættinni allan tímann og látist vera á hraðferð til þess að hún næði ekki að segja neitt andstyggilegt. Ég andaði djúpt og bankaði en enginn svaraði svo að ég opnaði dyrnar varlega og gægðist inn fyrir. Á rúminu sat lítil, ljóshærð stelpa í ljósbláum kjól og sveiflaði fótunum til og frá. Hún skælbrosti til mín í barnslegri einfeldni. „Hæ!“ sagði hún hvellri röddu. Ég leit í kringum mig. Það var enginn annar inni í herberginu. „Halló, hvað heitir þú?“ spurði ég vingjarnlega. 22


Litla stelpan skellihló. „Nú ég heiti auðvitað Vala, hvað heldurðu eiginlega?! Hvaða kökur eru til?“ Hæðnin í röddinni hljómaði kunnuglega í eyrum mínum. „Gréta, hvað er að? Ertu kannski búin að gleyma hvaða kökur eru til?“ Ég steig inn fyrir þröskuldinn og lokaði á eftir mér, fann adrenalínið streyma um líkamann og hræðsluna hertaka mig. Brosið mitt var horfið út í veður og vind. „Ég veit ekki hvað í andskotanum þú ert að gera. Hættu þessu. Hættu þessu núna!“ Einhvers staðar úr fjarska heyrði ég sjálfa mig öskra á litla barnið. Hún hnipraði sig saman og fór að skæla. „Ekki lemja mig, Gréta, gerðu það. Ég þarf ekki neina köku. Má ég bara fara til mömmu minnar eða getur þú fundið hana fyrir mig?“ Ég settist hjá henni, þjökuð af eftirsjá, og tók varlega um öxl hennar. „Fyrirgefðu. Ég ætlaði ekki að öskra á þig. Viltu hjónabandssælu eða súkkulaðiköku?“ spurði ég lágt. Hún reisti höfuðið varlega upp frá hnjánum, enn með hendurnar fyrir andliti sínu, og skoðaði mig á milli fingranna. „Ég vil báðar!“ sagði hún, lét hendurnar falla og skellihló. En hláturinn varð henni um megn. Andlitið herptist saman og hún fór aftur að gráta. „Ég vil fá mömmu mína! Ég vil fá mömmu mína!“ Líkami hennar var heitur og skjálfandi. Ég spratt á fætur. „Mamma þín er ekki hér en ég skal koma með köku,“ svaraði ég og þaut út um dyrnar. Ég lokaði þeim á eftir mér og reyndi að ná andanum og takast á við geðshræringuna. „Er allt í lagi, Gréta?“ Ég leit við og sá samstarfsmann minn ganga í átt til mín frá hinum enda gangsins. Ég brosti. „Já, allt í toppstandi bara!“ svaraði ég aðeins of hátt til þess að það væri sannfærandi. „Kaffið byrjar eftir korter. Hvernig köku vill hún?“ spurði hann. Það leið dágóð stund áður en ég svaraði vegna þess að hjartað mitt sló of hratt til þess að ég næði að hugsa skýrt. „Valgerður vill báðar kökurnar,“ sagði ég. „Báðar?“ endurtók hann vantrúaður. „Já. Hún vill fá tvær sneiðar með kaffinu í dag. Svona til tilbreytingar.“ Áður en ég náði að halda áfram að útskýra mál mitt heyrðum við einhvern kalla nafnið mitt. Röddin kom frá herberginu hennar Valgerðar. Þetta var greinilega rödd gamallar konu. Líkami minn var stjarfur af hryllingi. „Hún er að kalla á þig, Gréta,“ sagði samstarfsmaður minn annars hugar. „Ég ætla að fara að gá að kaffinu og þú getur kíkt inn til hennar aftur.“ Ég fikraði mig í átt að dyrunum og opnaði þær. Á rúminu sat ung kona á aldur við mig, varla eldri en tvítug. „Ef þú vildir vera svo væn að loka á eftir þér, ljúfa,“ sagði hún og ég hlýddi vegna þess að það var auðveldara að hlýða skipunum hennar heldur en að reyna að ná tangarhaldi á mínum eigin hugsunum. Eftir eitt andartak hvarf óttinn. Hún var gullfalleg. Hún var í hvítum, síðum kjól og með gullfesti í stíl við liðað, gyllt og þykkt hárið. „Fyrirgefðu mér. Ég skipti nefnilega um skoðun, ég vil bara hjónabandssælu,“ sagði hún. Hún stóð á fætur, tyllti sér á gluggasylluna og virti fyrir sér bílana dreymin á svip. „Nonni ætlar að sækja mig, hann kemur bráðum,“ sagði hún. „Hefurðu hitt hann? Hann er svo dannaður.“ Hún horfði á mig full eftirvæntingar og ég sá glitta í brothætta, litla barnið í augum hennar. „Ég hef ekki hitt hann enn, Valgerður,“ sagði ég. Hún hló. „Æ, elsku Gréta, við erum nú einu sinni vinkonur, kallaðu mig Völu. Enginn kallar mig Valgerði nema kannski hún amma mín blessunin! En nóg um mig. Er kannski einhver piltur sem ætlar að sækja þig á eftir?“ Ég brosti án þess að ætla mér það. Brosið kom aftan að mér og læddist upp á varirnar. „Ég á ekki kærasta, en...“ „En! Aha! Þú ert algjör ráðgáta, Gréta. Væri nú ekki gráupplagt að þú næðir í tvo kaffibolla og köku handa okkur og svo geturðu sagt mér allt af létta.“ Ég hljóp í óðagoti inn í eldhús, hellti kaffi í tvo bolla, skar hjónabandssælu á disk handa Völu og súkkulaðiköku handa mér. Ég var nærri því búin að missa þetta allt yfir samstarfsmann minn þegar ég mætti honum í eldhúsdyrunum. „Hvað gengur á! Fyrir hvern er þetta eiginlega?“ spurði hann og benti á bakkann sem ég hélt á. 23


„Völu... og mig.“ „Ætlar þú að borða með Valgerði?“ spurði hann gáttaður. „Já, ætli hún hefði ekki gott af félagsskap.“ Ég bankaði hressilega á dyrnar hennar Völu og gekk rakleitt inn. Unga, glaðlega konan var horfin. Á rúminu sat miðaldra, dökkhærð kona. Hún virtist ekki vitund spennt að sjá mig. „Heyrðu mig, Gréta, ég hef svo agalega mikið að gera og ég hef varla tíma til að borða í augnabliinu. Gætirðu komið aftur eftir svona klukkutíma? Og á meðan ég man, þá vil ég heldur súkkulaðiköku,“ sagði hún þurrlega án þess að líta upp. Á náttborðinu, rúminu, gólfinu og í kjöltu hennar voru útrifnar sudokublaðsíður og hún var niðursokkin í eina þeirra. „Já, það er ekkert mál, Valgerður.“ „Bíddu aðeins, Gréta!“ sagði hún þegar ég bjóst til að fara og ég sneri mér við enn einu sinni. „Mig langar að biðjast afsökunar á hegðun minni undanfarið. Þetta er bara búið að vera svo erfitt, skilurðu, síðan krakkarnir fluttu að heiman og Nonni dó.“ Hún var svo ægilega þreytuleg. „Þú þarft ekki að biðjast afsökunar á neinu, Vala,“ sagði ég og enn á ný birtist bros á vörum mínum án þess að ég yrði þess samstundis vör. Að lokum bætti ég við: „Og fyrirgef þú mér. Að ég geti ekki gefið þér neitt nema köku.“ Þá sá ég þakklæti geisla af tárunum í augum hennar. Klukkustund síðar kom ég til baka með súkkulaðiköku. Valgerður sat á rúminu sínu með lesgleraugun sín og Sudokubókina. Hárið var grátt og andlitið hrukkótt. Hún var einstaklega gömul. Og ráðvillt. „Hvurslags klaufaskapur er þetta,“ flissaði hún. „Er ég búin að rífa allar blaðsíðurnar úr bókinni?“ Hún leit upp og brosti við mér. „Þú þekkir mig svo vel, Gréta mín! Ég elska súkkulaði.“ Hún tók fagnandi við kökunni, hámaði hana í sig og gaf frá sér nautnahljóð. Ég virti fyrir mér þessa fögru, yndislegu vinkonu, þessa gömlu konu sem ég þekkti varla og samt þekkti ég hana betur en nokkur annar og ég elskaði hana eins og hún væri dóttir mín eða systir mín eða mamma mín. „Heyrðu, ég gleymdi alveg að koma með kaffið þitt, Valgerður. Ég kem eftir smá,“ sagði ég og hún kinkaði kolli með munninn fullan. Þegar ég var að loka dyrunum á eftir mér heyrði ég hana hvísla nafnið mitt og ég gægðist með höfuðið inn til hennar. „Ég er svo fegin að þú hafir náð að kynnast mér, Gréta,“ sagði hún. „Ég líka,“ svaraði ég og lokaði dyrunum. Þegar ég kom aftur inn í herbergið hennar Valgerðar nokkrum mínútum síðar lá hún í rúminu sínu. Hún hreyfði sig ekki, svaraði mér ekki og andaði ekki. Ég syrgi alltaf gömlu vini mína á elliheimilinu þó að ég eigi ekki að gera það. Sumir gefa mér konfekt og slá mér gullhamra en svo eru aðrir sem gefa mér miklu meira en það. „Ég held að hún sé komin á einhvern stað þar sem henni líður loksins vel. Það er svo erfitt að berjast við svona heilabilun,“ sagði samstarfsmaður minn. Við sátum inni í eldhúsi á elliheimilinu á meðan presturinn blessaði líkama Valgerðar og hjúkrunarfræðingurinn á vaktinni hafði samband við börnin hennar. Vaktin okkar var næstum því búin og sumarið var að klárast. „Ha, heilabilun?“ „Heilabilun. Dementíu. Þú vissir alveg að hún var greind með heilabilunarsjúkdóm, Gréta. Þú hlýtur að minnsta kosti að hafa áttað þig á því. Hún var alltaf að leita að mömmu sinni eða manninum sínum sem dó fyrir tíu árum síðan og svo reif hún allar bækurnar sínar í sundur og tæmdi fataskápinn sinn niður á gólf. Og hún var alltaf grátandi eða hlæjandi eða vitstola af bræði. Hún var ný manneskja í hvert skipti sem við komum inn til hennar.“ „En það er ekki satt,“ sagði ég. „Hún var alltaf sama manneskjan.“ Ég sagði ekkert meir við samstarfsmann minn vegna þess að ég vissi vel að hann myndi ekki skilja neitt. Hvers vegna ætti hann svosem að gera það? Við eignumst vini á elliheimilum rétt eins og við eignumst vini annars staðar. Sumir ná betur saman en aðrir, eins og tveir litlir krakkar á leikskóla sem verða bestu vinir vegna þess að þeir finna það á sér að þeim sé ætlað að kynnast, að þeir eigi samleið. Valgerður fann eitthvað á sér þegar hún hitti mig og þess vegna skipti heilabilunin engu máli fyrir okkur. Við kynntumst bara þeim mun betur. Hún gat verið á hvaða aldri sem er og í hvaða ástandi sem er en okkur þótti alltaf jafn vænt um hvor aðra í hvert skipti sem ég kom inn til hennar.

24


Tóm II Í dag fann ég snjókorn snerta saltaða, rauða kinn. Þar rann oft volæðisvökvi en visnaði, þornaði um sinn. Ég reigði höfuð til himins heilluð af drifhvítri sjón. Birtan beygði mig niður, blindaði mál mitt og tón. Þögnin sem allir þráðu þyrlaðist upp í hvítt. Á brá minni bráðnaði snjókorn og bar með sér eitthvað nýtt.

Tóm IV Ef algleymið er þá til uppfullt af engu óttinn bæri mig áfram í áttina þangað áfram, lengur Ef sorta er þá litur sálarlaus, stór svefninn kysi ég svartan og sykki í djúpið sorgarlaus, tóm Ef finnst þá friður fölvalaus, flúinn fegin sleppti ég festu og félli í holið fótalaus, búin Tóm V Og kannski bráðum klárast tómið tekur enda og við tekur næsta stig og þú mátt vita að ég nýt þess að hugsa til þín allan daginn alla daga. Kannski bráðum ræðst raunveruleikinn á mig og miðað við tómið sem umlykur mig núna þá þyrfti hann að klóra mig allrækilega djúpt til þess að ég yrði vör við það. Ég heyrði einu sinni einhvern segja að tíminn væri afstæður. Ef hann er það get ég kannski sigrað hann og fengið aftur að kúra hjá þér og sofna við það að hlusta á þig syngja undarleg lög um hunda sem eiga ól og hvolpa. Ég á bara fallegt frá þér. Þó ég leyfi þér að sofa, viltu samt ekki fara frá mér? Gerðu það gerðu það gerðu það. Í tóminu deyfi ég mig aftur og aftur. Finn samt kvíða fyrir því sem koma skal þegar það er búið. Ég laug. Ég er hrædd og ég veit ekki neitt um neitt. Ég veit bara að ég sakna þín og ég vil hafa þig hjá mér. 25


D Í A N J A Ó H S A J N Ö N F S N D Ó T T I R ,,Ég heiti Díana Sjöfn Jóhannsdóttir. Ég er tuttugu og fjögurra ára og er fædd í Reykjavík. Ég var að klára BA-gráðu í bókmenntafræði í Háskóla Íslands og er að fara í master í menningarfræði. Ég hef mjög gaman af því að skrifa og lesa og stefni á einhvers konar ritstörf í framtíðinni.“ Að skrifa Hvenær byrjaðirðu að skrifa? ,,Þegar ég var krakki. Ég var í svona þriðja bekk þegar ég ákvað: ,,Ég ætla að verða rithöfundur.“ Það var bara af því mér fannst svo gaman að lesa. Síðan þá hef ég alltaf verið að skrifa öðru hvoru. Í vetur skrifaði í Stúdentablaðið, greinar og viðtöl. Svo tók ég ritlist sem aukafag í háskólanum, það var mjög skemmtilegt. Ég tók til dæmis leikritunarnámskeið þar sem átti að skrifa leikrit. Svo tók ég ljóðaáfanga en fyrir hann hafði ég bara verið að skrifa greinar eða sögur. Mér fannst ljóðið skemmtilegt form til að prófa en ég hafði alltaf haldið að ég gæti ekki skrifað ljóð, að maður þyrfti 26

alltaf að vera eitthvað að ríma og nota stuðla og höfuðstafi.“ Hvaða form ertu helst að nota? Ég hef verið að prófa alls konar og sjá hvað hentar mér best. Út af þessu námskeiði er ég búin að vera að skrifa meira af ljóðum, kannski af því að það er fljótlegra þegar maður hefur lítinn tíma. Svo þykist ég vera að skrifa skáldsögu núna sem ég er alltaf að dytta að. Hún er búin að taka smá tíma, ég veit ekki hvernig hún verður. Ég á samt oft erfitt með að halda mig við hugmyndir. Þess vegna finnst mér ljóðin líka skemmtileg af því að ég klára þau allavega. Það er líka bara svo góð útrás. Ljóðin mín eru kannski oftast bitur um frekar leiðinlega hluti en svo tek ég húmorstvist á þá og djóka með þá. Mamma mín dó núna á árinu og ég hélt að ég myndi fá mikla útrás með því að skrifa en svo endaði ég á því að skrifa ljóð sem var eiginlega bara eitthvað djók. Ég veit ekki af hverju. Það er alvarleiki í öllum ljóðunum sem ég skrifa en alltaf eitthvað djók með, andstæður sem kallast á.“


Ertu að reyna að koma einhverju á framfæri með því að skrifa eða meira bara að koma einhverju frá þér? Ég er kannski mest að reyna að miðla einhverri tilfinningu. Eins og þegar maður hlustar á rapp — en ég er mjög mikill aðdáandi rapptónlistar — þá finnst mér það snúast mest um hvernig manni líður á meðan maður hlustar á það. Frekar tilfinningin heldur en einhver boðskapur. Ég kann reyndar að meta ljóð sem eru með skýran boðskap, eins og til dæmis femínískan boðskap.“ Nú varst þú í ritlist, myndir þú mæla með henni fyrir fólk sem er að skrifa? ,,Já, ég mæli alveg hiklaust með því. Það er ekki hægt að taka hana á BA-stigi nema sem aukafag en svo er hægt að fara í master. Ég hugsaði lengi um að gera það en svo ákvað ég að fara frekar í eitthvað nám með víðtækari sýn og vera frekar með mitt skrítna form. En ég veit að margir eru mjög ánægðir með ritlistina. Ég fékk náttúrulega tíu einingar fyrir að skrifa ljóð þannig að það var mjög skemmtilegt! Ég mæli eiginlega með henni fyrir alla, þótt þeir haldi að þeir séu lélegir að skrifa, bara að prófa að hleypa tilfinningum út. Margir festast í að halda, eins og ég gerði, til dæmis að ljóð þurfi að vera einhver svaka formúla því það er það sem maður lærir í grunnskóla.“ Ert þú sammála að það sé slæmt fyrir skáld að fara í bókmenntafræði og læra um ,,hvernig bækur eigi að vera“? ,,Ég hef ekki upplifað það að ég sé neitt að missa skáldatilfinninguna í bókmenntafræði! Mér finnst hún frekar hafa aukist og bókmenntafræðin hafa hjálpað mikið. Maður kynnist til dæmis bókmenntaverkum sem manni hefði ekki dottið í hug að lesa sjálfur. Svo er þetta líka svo fyndið með bókmenntafræðina. Við erum sex saman vinkonur úr bókmenntafræðinni og við höfum allar upplifað rosalega mismunandi nám vegna þess að það er hægt að velja svo mikið út frá því hvað maður vill persónulega gera. Ég var sjálf mikið í vestrænum bókmenntum með smá kvikmyndafræðivinkli og svo ritlistinni, auðvitað. En ein vinkona mín var mikið í austurlenskum bókmenntum, arabískum og svona, og önnur fór í kynjafræði þannig hún var mikið í femínískum bókmenntum. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt nám, ég mæli mikið með því.“ Hefurðu alltaf lesið mikið? Hvað er í uppáhaldi hjá þér? ,,Já, ég hef alltaf verið mikill bókaormur og lesið mikið. Ég byrjaði að elska Sylviu Plath geðveikt mikið, eins klisjulega og það hljómar. Ég var

Rót andans (108 og víðar) Þið finnið mig ekki lengur í Hverfinu ég týndi sjálfri mér og hef ekki getað fundið mig aftur eftir einhver ár mun ég líklegast rölta þar um og tína upp brot og bita sem gerðu mig að því sem ég er þegar ég verð.


með vinkonum mínum í Edinborg og þar fann ég The Unabridged Journals of Sylvia Plath í einhverri fornbókabúð en ég hafði lengi leitað að henni hérna heima og ekki fundið hana. Svo er ég mikill Harry Potter aðdáandi og ég skrifaði BA-ritgerðina mína um Harry Potter, um hvernig höfundar og lesendur eru farnir að eiga í meiri samskiptum á netinu og hvernig netið er farið að skapa skáldverkum meiri vídd. Svo las ég bók í einhverjum áfanga sem hét Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud. Fyrst þegar ég las hana hugsaði ég: ,,Hvaða vella er þetta?“ en svo las ég hana aftur og mér fannst hún snilld. Svo er ég líka mjög hrifin af dönsku þannig að ég las oft bækur á dönsku. Það er samt enginn einn höfundur sem mér finnst bara frábær. Mér finnst þetta svolítið eins og með tónlist - ég fíla yfirleitt ekki öll lög með einhverjum einum tónlistarmanni, kannski bara eitthvað eitt ákveðið lag og sömuleiðis einhverja eina ákveðna bók. Ég er einnig hrifin af rússneskum bókmenntum, þar er svo góð persónusköpun. Það sem ég kann best að meta er góð persónusköpun sem kemur á óvart, þegar persónan hættir að vera klisja en er samt trúverðug.“ Eigin verk Sögubrotið sem birtist hér á eftir, er það hluti af bókinni sem þú ert að skrifa? ,,Já. Mig langaði að skrifa um krísuna sem mér finnst margir ungir karlmenn í dag upplifa. Mér finnst eins og það sé svo mikill fjöldi sem veit eiginlega ekkert hvað hann á að gera, margir eru þunglyndir og sjálfsmorðstíðni ungra karla er há. Mig langaði að kanna þetta. Svo eru sumir strákar sem eru með allt á hreinu en ekkert endilega öðruvísi bakgrunn. Ég fór að spá af hverju það væri. Sagan fjallar um strák sem er á sjónum og kemur heim í fríhelgi. Það er svolítið þekkt dæmi að einhleypir strákar á sjónum koma í fríhelgina sína í bænum og eiga kannski milljón eftir túrinn en eyða öllu á einni helgi á djamminu. Sagan er kannski dálítið um stefnuleysi karlmanna í samfélaginu í dag.“


Fríhelgin [brot] Ballið var byrjað og það voru allir vel í glasi. Snæi fann varla fyrir andlitinu á sér og hann gat ímyndað sér að hann væri með áfastann aulasvip á andlitinu, en honum var sama. Ragnar hafði heimtað að fara sem næst sviðinu og núna var hann í furðu vel heppnaðari sveiflu við vinkonu sína frá því fyrr um kvöldið, Mæju, eða hvað sem hún nú hét aftur. Snæi mundi að það var samt eitthvað sem byrjaði á M. Parið virtist stundum ætla að detta ofan á hvort annað og alla aðra í kringum sig en Ragnar náði samt alltaf á undraverðan hátt að láta ryskingarnar virka og breytti þeim bara í enn betri sveiflur og snúninga. Stúlkan hló og virtist líka vel. Snæi lokaði augunum og hreyfði sig rólega í einstaklingstilraun sinni til að vera í takt við tónlistina. Hann rakst utan í einhvern og fékk olnbogaskot í síðuna. Hann rakst aftur í einhvern og var ýtt lengra í burtu. Hann opnaði augun og skakklappaðist að borðunum sem voru dreifð upp við veggi félagsheimilisins. Jafnvægið var að kikna undan honum svo hann settist á stól og grúfði höfuðið í höndum sér, andaði djúpt þar til hann fann til svima í höfðinu og leit svo hálf vonleysislega upp. Mikill hópur fólks dansaði enn, fór framhjá honum eins og svífandi skuggamyndir sem hann greindi til skiptis í hægagangi en svo á allt of miklum hraða. Honum fannst allir horfa á sig illum augum, þau hlógu líka og hann hataði þau. Fékk klígju í hálsinn og langaði að berja þau í glottandi andlitin þangað til foreldrar þeirra þekktu þau ekki einu sinni frá óhirtum hundakúk á ónefndri gangstétt. Hver héldu þau að þau væru? Allt skítapakk sem taldi sig á einhvern hátt betra og hæfara til að lyfta sér upp úr þessari gröf eyjunnar í norðurhafi. Hann sá Hauk Yngva R. út undan sér nokkrum borðum til hægri við sig. Hann sat sem miðpunktur í stórum hópi og hló hátt. Vinstri hönd hans hvíldi á ungri, dökkhærðri konu. Hann sá Snæa ekki og virtist ekki gefa neinu öðru gaum heldur en eigin vinahópi sem virtist safnast í kringum hann eins og byttur að brennivíni. Snæi sneri sér að fólkinu sem sat næst honum. Vildi finna félagsskap, hafði enga lyst á að súpa af velgengni Hauks Yngva R. og þar sem Ragnar var of upptekinn með vinkonu sinni hafði hann lítið annað að gera en að blanda geði. Áfengisblandan var að minnsta kosti búinn. Hann hristi samt pelann sinn úr innanávasanum einu sinni enn til að fullvissa sig um að þar væri ekkert eftir, hvolfdi úr honum upp í kjaftinn á sér. Ekki einn dropi. Nokkuð myndarleg stúlka sat tveimur stólum frá honum, hann leit til hennar og beið eftir að hún tæki eftir honum. Hún hlýtur að hafa skynjað augnaráðið því það leið ekki á löngu þar til hún sneri hausnum við í átt til hans en flýtti sér síðan að líta aftur á vinkonur sínar og hélt áfram að spjalla. Leikur á borði, hugsaði hann, stóð upp og var næstum búinn að hrinda frá sér stólnum í leiðinni en náði örsnöggt að rétta hann af. Hann nálgaðist fínu frúna, sem leit ekki á hann. Köttur og mús – hann þekkti leikinn. - hæ þú, fína frú. Kemuru oft hingað? Eða ég meina dastu af himnum eða eitthvað? Þvoglumæltur en samt náði hann að halda kúlinu og horfa daðrandi augnaráði á hana. Hún horfði á hann forviða. Vinkonur hennar fóru að hlæja og honum fannst hann aðeins minni en hann var fyrir fimm sekúndum síðan. Hugsaði svo að þær væru bara heimskar beljur með dæmigerða hjarðhegðun. Hann gæti mögulega hafa sagt þá hugsun upphátt og einhverntímann stuttu eftir þetta lá hann í gólfinu með dúndrandi verk í enni og nefi. Yfir honum bograði karlmaður, sem var líklega tvöfalt stærri en hann sjálfur eða kannski þrefalt, en það hlaut að vera ímyndun út frá staðsetningu hans á gólfinu. Snæi gerði sér ekki grein fyrir því strax en mundi síðan að svipað byggður maður sat nokkuð nálægt stúlkunum sem hann hafði verið að tala við. Hann klöngraðist á fætur og reyndi að hjóla í manninn en var of valtur og skrítinn í kroppnum og hausnum að hann endaði á að hlaupa á borðin og stólana í kring. Maðurinn vék

30


sér frá. Dyraverðir komu og báru hann út. Snæi reyndi að útskýra að hann hefði einungis ætlað að spjalla við sætu stelpuna á léttu nótunum um daginn og veginn, kannski komandi daga, saman tvö. Eins og fagmaður, hann var fagmaður. Hann rétti snöggt úr sér eftir að þeir slepptu honum nokkrum skrefum fyrir framan hurðina. Lagaði jakkafötin og otaði höku og nefi hátt upp í loft í átt að vörðunum. Helvískir þrælar og reglumenn með krosslagðar hendur. Einhverjir plebbar héðan úr sveitinni sem vissu ekkert og léku leikrit harða mannsins í sirkussýningu sumarsins. Hann gaf þeim puttann. Fólkið í kring horfði á hann, horfði og reykti. Hann heyrði hlátur og hnegg, sem minnti hann smá á fáranlega sveitalubbann á pikköpp bílnum sem hafði keyrt þá á leiðarenda. Hann reyndi að hreyta einhverju í pakkið. Pakkið sem stóð hringinn í kringum hann eins og hann væri einhvers konar dýr í dýragarði. Górillu kannski, eins og þessa sem hann hafði séð í Danmörku þegar hann var smápjatti. Hvað hét hún aftur? Þetta hafði verið ein af þessum fáu fjölskylduferðum og hann hafði heimtað að þau færu í dýragarðinn í Köben. Móðir hans var lítið spennt en pabbi hans hafði skemmt sér jafnvel betur en sjálfur Snæi litli, Snæi þegar hann var lítill, saklaus eða frekar vitlaus. Górillan hafði verið í miðju garðsins í hringlaga búri sem var grafið ofan í jörðina svo að áhorfendur mændu á hann ofan frá. Snæi leiddist litlu dýrin í kring og vildi helst sjá þessi mest stærstu og vígalegustu og górillan var þar ofarlega á lista. Hann var því spenntur að sjá þegar þau komu að miðju garðsins. Snæi varð fljótt fyrir ákveðnum vonbrigðum. Górillan var engann veginn eins og hann hafði búist við. Hún var ekki stór né mikil eins og hann hafði séð í sjónvarpinu. Hún öskraði ekki og sýndi aldrei hnefann né sló sér á brjóst. Þarna sat hún bara eins og aumkunarverður vesalingur á vergangi. Snæa fannst hún svo lítil og það var ekkert við hana sem gladdi eða sýndi mikilfengleika. Menn gláptu og þarna sat hún og tuggði tré í sínum ljóta og eyðilagða pytti. Snæi spurði föður sinn afhverju górillan væri svona leið og afhverju hún réðist ekki á fólk. Faðir hans virtist ekki vita hvað hann ætti að segja, dró bara upp hnetupoka sem þau höfðu keypt við innganginn og spurði hvort górillan væri kannski ekki bara svöng. Síðan henti hann einhverjum hnetum til skepnunnar sem leit varla á þær á meðan móðir hans hvessti á hann augunum og benti honum á skilti, sem sagði víst eitthvað um að það mætti ekki fóðra dýrin. Faðir hans hló bara og þá leið Snæa aðeins betur. Hneturnar gerðu það líka að verkum að górillan horfði örlitla stund í átt til þeirra en um leið og Snæi leit í svört augun á dýrinu fann hann fyrir vorkunn og örlítilli skömm. Górillan var þræll. Mennirnir sem stóðu og störðu í kring voru einnig ákveðnir þrælar en eina ástæðan fyrir því að þeir gátu brosað og glápt að vild var vegna þess að þeir stóðu einungis einu stigi hærra en pytturinn. Auk þess að þeir höfðu borgað 200 krónur danskar fyrir innkomu. Eftir fríið fór faðir hans aftur í vinnuna og sást lítið heima. Frí kosta sagði móðir hans, klappaði honum á kollinn og sendi hann inn í stofu í teiknimyndirnar. Hún hafði verið að elda hafragraut, nokkuð þreytuleg í framan með rautt í uppháu glasi. Hann heyrði Daniel með Elton John ómar úr fjarska, sem truflaði hann og í fyrstu bölvaði hann þeim sem var að spila lagið. Síðan áttaði hann sig á því að lagið var að óma frá hans dýpstu hugarrótum og hann reyndi að hrista það af sér með því að hrista hausinn til og frá og skallaði þá jörðina. Hann lá á jörðinni í keng, í fyrstu hélt hann að hann lægi á berangri og hann reyndi með herkjum að koma sér á fætur en líkaminn neitaði að hlýða og hann bifaðist ekki. Sá svo að hann lá inn í tjaldinu. Hann rotaðist á ný.

31


Deild 11E Ég skildi við barnæsku mína á dansgólfi í miðbænum í ælu í ölglasi er ég flýti mér á hringbraut til að kveðja mömmu í hinsta sinni hvísla brottleyfi í eyra og syng barnsdómsvísur frá fyrri tímum en kíki síðan stutt í Kringluna eftir á til að kaupa símahulstur og glimmergalla fyrir næsta fössara Við heimkomu veggfóðra ég húsið með samúðarskeytum drekk heila rauðvínsbelju geng um ganga í leiðslu þar til ég man að ég fæ engu ráðið grasið grænkar með sumrinu og næst á dagskrá er að kenna pabba á þvottavélina.

morning glory að kveðja ástarviðfang í fullum strætisvagni á miðvikudagseftirmiðdegi með samfaramakkann og putta-burstaðar tennur gerir það vandræðalegt að kyssa bless svo ég vinka. Sé hann aldrei meir.

æj ég ætlaði að vakna snemma fyrir allar aldir og fara út að skokka fara út með ruslið gera magaæfingar búa til boost þrífa íbúðina hátt og lágt gefa öndunum læra heima lesa æviverk Laxness og Þórbergs fara með uppsafnaðar dósir á Sorpu semja skáldverk semja meistaraverk fara í heimsókn til mömmu og ömmu baka tíu sortir og súrdeigsbrauð skrifa rannsóknarritgerð þvo þvottinn æfa upp kúlurass kaupa íbúð flýja úr landi flýja sjálfa mig fara í heimsreisu læra framandi tungumál finna mig - og kannski þig í leiðinni kaupa í matinn plana framtíð mína mála mig sæta mála stofuloftið velja filter á nýjustu prófíl myndina missa fimm til tíu kíló hringja í kvennsa gera jóga og öndunaræfingar taka lýsi eyða fyrrum ástmönnum úr símanum fara í sturtu gera heimagerðan maska gleyma stund og stað og fyrrum misbrestum skrifa ættjarðarljóð skrifa ástaróð ryksuga sameignina og vaska upp þegar ég vakna er klukkan langt yfir hádegi fæ samviskubit fer aftur að sofa.

29



Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.