Portrett1

Page 1

tölublað nr. RASMUSSEN

-

1

15. REBEKKA

júní SIF

2016 MARÍA STEFÁNSDÓTTIR -

RAMOS BOLLI

TANJA MAGNÚSSON

P O R T R E T T


UM PORTRETT

Tímaritið er unnið í Skapandi sumarstörfum í Garðabæ sumarið 2016 og er þetta fyrsta útgáfan á tímabilinu en alls verða þær þrjár. Hugmyndin er að kynna ung skáld og sýna hvað þau hafa fram að færa með því að draga upp mynd af þeim með viðtölum og verkum eftir þau. Vonast er til að það sé bæði hvati fyrir þau sjálf og lesendur. Aldursbil höfundanna, þ.e. á og aðeins upp úr framhaldsskólaaldri, verður gjarnan út undan - höfundarnir eru flestir aðeins of ungir til að birta og gefa út en samt sem áður eru þeir margir að gera afar vandaða og áhugaverða hluti. Hér á eftir verður meðal annars rætt við fjögur ólík skáld, um þau sjálf og í tengslum við verk eftir þau. Þau koma úr ólíkum áttum enda var miðast við að hafa hópinn fjölbreyttan. María og Tanja voru í hópi sem var valinn til að fara í Norræna rithöfundaskólann í Biskops Arnö í Svíþjóð síðasta sumar, Rebekka er í bókmenntafræði og ritlist í Háskóla Íslands og Bolli fór fyrir ljóðaþýðingarteymi Herranætur í MR síðasta vor. Endilega lesið áfram.

Mynd á forsíðu: Melkorka Davíðsdóttir Pitt Ritstjórn: Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir 2


EFNISYFIRLIT

Um Portrett................................................................2 Portrettið sem viðfang.....................................................4 Í nærmynd..................................................................5 María Ramos................................................................6 Tanja Rasmussen...........................................................12 Súsanna, Artemisia Gentileschi og Kathleen Gilje..........................15 Rebekka Sif...............................................................18 Haruki Murakami...........................................................21 Bolli Magnússon...........................................................25 #ljóðafimmtudagar..........................................................31

3


PORTRETTIÐ SEM VIÐFANG

Orðabókarskilgreiningin á portretti er ,,mynd af manni, andlitsmynd.” Við orðið koma líklega málverk upp í hugann en portrettmynd má vissulega mála með öðrum verkfærum en penslum. Eðli portrettmyndarinnar er að fanga ásjónu og persónu viðfangsins, jafnvel persónuleika þess. Elstu myndir af slíku tagi eru frá tímum faraóanna í Egyptalandi mörgþúsund árum fyrir Krist en svona myndir blómstra enn í dag - hvað eru profile myndir á facebook og selfies annað en portrettmyndir? Sjálfið endurspeglast þó í mun fleiri hlutum en útlitinu; það birtist í talsmáta, hugsunum og skoðunum og síðast en ekki síst verkum. Það getur veitt manni algjörlega nýja sýn á einhvern að lesa ljóð eða smásögu eftir viðkomandi; ef til vill kemur maður auga á króka og kima á manneskjunni sem maður hefur aldrei fengið að sjá áður.

þannig að… um leið og hér er skapaður örlítill vettvangur til að kynna skáld er reynt um leið að sýna manneskjurnar sem búa að baki verkunum.

4


í nærmynd


,,Almennt um mig? Ég heiti María Ramos og ég er átján ára. Ég er í MH, ég var að klára annað ár. Ég á tvo hunda og ég vinn í Søstrene Grene í Kringlunni. Ég bý í Vesturbænum.“ Að skrifa Hvenær byrjaðir þú að skrifa? ,,Ég hef alltaf skrifað. Ég á myndskreytingar með sögum eftir mig sem mamma og pabbi skrifuðu upp af því að ég kunni ekki einu sinni stafrófið. Svo ég veit ekki alveg hvenær ég byrjaði. Ætli ég hafi ekki byrjað að skrifa fyrir alvöru í svona níunda bekk. Ég ákvað það samt ekkert fyrr en ég byrjaði í MH að einblína á skrifin.“ Tókstu þá ákvörðun um að gera það? ,,Ég meira svona fattaði það? Meikar það sens? Ég var bara eitthvað: ,,Ég er alltaf að skrifa.” Samt hefur mér aldrei dottið í hug ,,að skrifa.“ Að gera það. Ekki sem eitthvað áhugamál. Þetta var eitthvað sem ég var alltaf að gera og pældi ekkert í. Svo áttaði ég mig dálítið.“ Hvað ertu helst að skrifa? ,,Ég hef bara skrifað eina alvöru smásögu. Tonn af ljóðum, fullt af ljóðum. Svo er ég að vinna í skáldsögu.“ Þegar þú ert að skrifa, hvernig skrifarðu? Reynirðu meðvitað að yrkja inn í einhvern bragarhátt eða kemur þetta bara einhvern veginn? 6

maría ramos

,,Ég nota ekki bragarhætti - ég gerði það í ritlist, það var ógeðslega gaman en svo hef ég ekkert gert það eftir að ég kláraði ritlistaráfangann sem ég var í. Kannski geri ég það einhvern tímann. Það er gaman að vera með markmið því það verður mjög oft til eitthvað sem maður bjóst ekki við. Það er öðruvísi en að skrifa þar sem maður lætur hugann bara reika. Ég hef samt unnið með það að nota alltaf sama stafinn og þannig hluti en engar alvöru bókmenntareglur. Mér finnst samt mjög gaman að setja sjálfri mér mínar eigin reglur.“ Reynirðu að nota einhvern stíl? Finnst þér þú eiga þér stíl? ,,Nei, ég vona ekki. Mig langar að skrifa fjölbreytt. Ég hugsa samt að ég sé með stíl sem ég sé ekki sjálf. Ég hef verið mjög hrædd um að skrifa eins texta. Það er ekkert gaman ef allt er eins.“ Svo eru samt sumir eins og Murakami. ,,Einmitt, Murakami er bara að skrifa sömu söguna aftur og aftur en það virkar.“ Skrifarðu reglulega? Skrifarðu á hverjum degi? ,,Ég er búin að vera að skrifa á hverjum degi núna í sumarfríinu en ekki þegar ég er í skólanum. Ég er samt alltaf að krota eitthvað í tímum en það eru bara einhverjar hugdettur og lítil ljóð.“ Skrifarðu á sérstökum stað þegar þú ert heima hjá þér? ,,Ég skrifa oftast við snyrtiborðið mitt því þar er


Brum Hér höfum við beinharða sönnun fyrir því að lífið heldur áfram og tíminn er ekki hættur að líða; brumið birtist í nótt! Það klæddi trén í grænan skrúða og gaf lífinu lit. Það sem áður var nakið og grátt teygir nú anga sína til himins, í átt að sólarljósinu og hrópar: verði ljós!

Kúba (ferskeytla) Í ágúst skal ég finna land þar þín rödd enn ómar. Með fuglasöng og fagran sand í fjarska landið ljómar.

,,Ég skrifa oftast við snyrtiborðið mitt því þar er ég með útsýni yfir garðinn [...] Ég skrifa bæði á tölvuna mína eða handskrifa í bækurnar mínar þar.“ Vinabandafaningur Vonlaus vinalaus varúlfur vinnur við vinabandavafning. Vefur vefnaðinn við vaskinn, vonlaus að vanda. Vitrir vinirnir vilja vinabönd, vilja viðurkenna virtan vinskapinn. Vonlausi, vinalausi varúlfurinn vill vinabönd og vitra vini, vinirnir vilja varla vonlausan vinalausan varúlf. Tár tefja trylltan tryllinginn sem annars hefði tekið vonlausa vinalausa varúlfinn taki. Truflaður, trylltur tekur hann töflu. Varúlfurinn venst vonandi vonleysinu. Af því að ef einhver er einmana eineygður úlfur er engin von vegna villimanna, veiðimanna, vondra vina sem vilja veiða, eyða vonlausum, vinalausum varúlfum. Vonlaus vinalaus varúlfur verður vegna þess vinalaus þar til hann deyr. Vonandi venst hann vonleysinu.

7


áhrifavaldar

ég með útsýni yfir garðinn. Ég hef eiginlega engan annan stað því skrifborðið mitt er úti í horni og engir gluggar í kring sem mér finnst óþægilegt. Svo finnst mér líka óþægilegt að skrifa uppi í rúmi. Snyrtiborðið mitt er úti í horni í litlu innskoti. Ég skrifa bæði á tölvuna mína eða handskrifa í bækurnar mínar þar.“ Hvað er það sem veitir þér helst innblástur? ,,Ég? Eða, þú veist. Líf mitt. En ég hef líka skrifað pólitísk ljóð þegar ég er alveg komin með upp í kok af samfélaginu. Ef ég hef einhverja skoðun á einhverju vil ég heldur setja hana óbeint fram í ljóði heldur en að setja status á facebook. Ég fæ meira út úr því.“ Hefurðu birt efni eftir þig? ,,Já, smásaga birtist eftir mig í Beneventum vorið 2015 af því að ég vann smásögukeppnina þar og svo birtist einnig ljóð eftir mig í ljótuljóðakeppninni í sama hefti. Svo hélt ég uppi bloggi í ritlist þar sem ég birti verkefni úr tímum. Ég gaf líka vinum og ættingjum ljóðabók í jólagjöf sem ég lét prenta í Háskólaprenti. Það er fyndið hvernig ég ákvað að gera hana, ég var eitthvað að skoða ljóðin mín í Google Drive, svona eins og maður gerir. Svo fór ég ómeðvitað að safna þeim saman í möppu út frá því hver mér fannst flott saman og svo þróaðist þetta einhvern veginn. Ég var ekki meðvitað að skrifa ljóðin í ljóðabókina, þetta var bara svona safn a ljóðum sem ég átti. Bæði gömul og ný. “ Að lesa Lestu mikið? ,,Ekki eins mikið og ég myndi vilja. Ég er í lestrarátaki núna í sumar og er að klára The Picture of Dorian Gray núna. Hún er æðisleg, ég mæli með henni. Svo var ég að lesa ég ljóðabók eftir Halldór Halldórsson.“ Hvað er það sem þú lest helst? ,,Mest enskar klassískar skáldsögur. Klassískar eða ekki klassískar, reyndar. Ég les helst á ensku því það er svo dýrt að kaupa íslenskar bækur en ég ætla samt líka að vera í átaki í sumar að lesa meira íslenskt. Þess vegna las ég þessa ljóðabók.“ Er eitthvað sérstakt í uppáhaldi hjá þér? ,,Ef þú hefðir spurt mig fyrir viku hefði ég sagt Murakami en í dag ætla ég að segja Dorian Gray. Það er samt svolítið þannig að uppáhaldsbókin mín er bókin sem ég var síðast að lesa. En svo er Sylvia Plath alltaf kærkomin í hjarta mér. Ég sökkti mér ofan í The Bell Jar og gat ekki lagt hana frá mér. Svo las ég ævisöguna hennar og er að lesa ljóðin hennar jafnt og þétt.“ Svo er ég líka með spurningar út frá ljóðunum sem þú sendir mér. Bæði í t.d. Salti og Fylgihlut er mikið af endurtekningu. Er það stílbragð sem þú ert hrifin af? ,,Já, ég nota hana stundum. Mér finnst það mjög gaman. Mér finnst það leggja áherslu á það sem ég vil koma á framfæri. Eins og með ,,elskan” í Salt. Ég var komin með upp í kok af þessu orði. Það er svo ömurlegt þegar það er notað undir vitlausum kringumstæðum og það getur verið svo lítillækkandi. Það hafði einhver gamall kall kallað mig elskan eða eitthvað svoleiðis í vinnunni og ég gat ekki hætt að hugsa um það. Mér fannst ég ekki geta skrifað þetta ljóð og komið þessu frá


mér nema með því að nota orðið bara aftur og aftur og aftur. Ég var í áfanga í femínískum bókmenntum á síðustu önn og þá vorum við að ræða á hversu margan hátt þú gætir beðið einhvern að rétta þér saltið. ,,Réttu mér saltið elskan“ festist svo í mér. Ég sé fyrir mér einhvern kall sem á ekki að borða salt.“ Eigin verk Finnst þér mikilvægt að koma boðskap til skila með skáldskap? ,,Ég skrifa mikið ljóð sem snúast í kringum sjálfa mig en eru samt ekki endilega augljóslega persónuleg. Mér finnst það bara geðveikt gaman og þannig ljóð eru yfirleitt áhrifamestu ljóðin sem maður les. Það er alltaf erfitt að fanga tilfinningu sem er innra með manni og koma henni á blað og láta einhvern annan fá samkennd með henni. Svo þetta eru mínar tilfinningar en samt í samhengi við aðra. Í staðinn fyrir: ,,Ég er svo leið“ og fólk væri: ,,Ó, hún er leið“ þá er þetta meira svona: ,,Við erum öll leið.““ Finnst þér þitt hlutverk sem kona vera að yrkja um stöðu kvenna? ,,Ég hef aldrei pælt í því. Mér finnst það ekki ,,mitt hlutverk.“ Mér finnst samt stundum eins og ég þurfi að gera það. Það er mjög erfitt að vera kona og skrifa um stöðu kvenna í samfélaginu. Mér finnst eins og ég verði að koma því frá mér að það þurfi ekki allir að vera í þessum sama ramma og gera hluti eins og eignast tvö börn og vera í fastri vinnu og eiga maka… Sem er allt í lagi, það er gott og blessað! Ég er ekki að dissa það. En það er einhvern veginn skylda kvenna að komast inn í það mót.“ Svo var ég að velta fyrir mér í sambandi við Brum sem er frekar klassískt náttúruljóð. Heldur þú að náttúran muni aldrei verða úrelt viðfangsefni fyrir ljóð? ,,Ekki ef maður heldur áfram að skrifa frumleg ljóð um náttúruna. Ég skrifaði þetta bara núna í vor því ég var svo fegin að sjá brumið. Ég var búin að bíða eftir því mjög lengi svo mér fannst eins og ég yrði að skrifa ljóð um það. Ég held samt að þetta sé eina ljóðið um náttúruna sem ég hef skrifað. Ég hef skrifað um veðrið en ekki um náttúruna.“ Svo var ég ekki með neitt meira nema þú viljir bæta einhverju við. ,,Nei, ég sem er búin að tala svo mikið…“

Fönix Hún öskraði nei en það eina sem hann heyrði og það eina sem hann sá var vanmáttur hennar í samanburði við styrk sinn hann öskraði þegiðu reisti hnefann og framdi sálarmorð einn daginn mun hún þó rísa upp úr öskunni með orðin að vopni og þá verður hann sá fyrsti sem verða skal fyrir höggi

,,Ef ég hef einhverja skoðun á einhverju vil ég heldur setja hana óbeint fram í ljóði heldur en að setja status á facebook. Ég fæ meira út úr því.” 9


María Ramos

Salt Réttu mér saltið elskan með litlu lófunum þínum elskan takk elskan veistu hvað elskan ég elska hvernig þú horfir á mig með elskulegu augunum þínum sem eru svo blíð elskan svolítið eins og þvottaefni fyrir börn elskan nei ég segi bara svona elskan þú ert bara svo mjúk elskan mýkri en ég allavega elskan já elskan endilega fylltu á glasið og stattu upp svo ég sjái þig elskan litlu lærin þín eru svo nett elskan ég gæti haldið utan um þau elskan bara með annari hendinni elskan þú ert svo grönn og fín elskan en kálfarnir hafa bætt á sig elskan ég hef þó engar áhyggjur elskan ég veit þú munt taka þig á í ræktinni taktu þig á elskan bara svona til öryggis elskan svo ég þurfi ekki að nota báðar hendur elskan þegar ég tek utan um hálsinn á þér elskan og kyrki þig elskan

Elskan, þú ert heigull! Í blárri peysu upp við glugga starandi upp í himininn upptekin við að hugga fyrrum maka sinn. Hann langar til að flytja aftur heim til sín er þreyttur á að sitja með hjákonunni, hún er svín. Bláklædd konan hlær og svarar: „Ég er loksins laus við þig losnað hefur snaran svik þín hafa frelsað mig! Ég keypti mér bláa jakkann sem þér fannst svo ljótur. Ég fékk mér líka rakka sem er þvert á móti þrjótur. Rakkinn hefur hugrekki sem þú aldrei hafðir Svo nei takk, ég vil ekki uppfylla þínar þarfir“ Hún skellti á og klæddi sig í nýja fína jakkann Svo dró hún fyrir gluggann og fór út að labba með rakkann.

10


María Ramos

Fylgihlutur áhorfandi en ekki þátttakandi með sólgleraugu í strætó vonast alltaf til þess - á hverri stoppistöð að inn gangi hann og brosi til hennar áhorfandi en ekki þátttakandi finnur vængina vaxa og gerir sig tilbúna til þess að takast á loft en svo hrekkur hún upp við ærandi hljóðið í vekjaraklukkunni áhorfandi en ekki þátttakandi hlustar á öldurnar fylgist með þeim kyssa fjöruna svo fer hún sjálf úr sokkunum leyfir öldunum að kyssa á sér tærnar og óskar þess að þurfa aldrei að fara aftur heim hún er áhorfandi en ekki þátttakandi eyru en ekki munnur sjón en ekki snerting fylgihlutur ekki fjárfesting

prófatíð frestunaráráttan plagar mig: tíminn líður hraðar þegar ég geri ekkert svo dagurinn styttist og sólin gerir mér ennþá erfiðara fyrir af því að að allt verður léttvægt og glaðlegt í sólarljósinu svo mig langar að gera allt nema það sem ég þarf að gera

áhorfandi aldrei þátttakandi

11


tanja

,,Ég heiti Tanja Rasmussen og ég á heima í Mosfellsbæ og er í Kvennaskólanum. Ég er að fara í þriðja bekk í haust á félagsfræðibraut.“

Um það að skrifa Hefurðu skrifað lengi? ,,Já. Ég var alltaf í ritun í íslensku í skólanum svo ég hef í rauninni skrifað síðan ég var í svona fjórða bekk en ég byrjaði kannski fyrir alvöru einhvern tímann í tíunda bekk.“ Hvernig skáldskap skrifarðu helst? ,,Ég skrifa aðallega stutta texta. Svo er ég búin að vera að prófa mig áfram með ljóð. Ég er ekkert rosa góð í þeim en mér finnst það rosa gaman.“ Hvað finnst þér mest áhugavert að skrifa um? ,,Ég held að mér finnist mest áhugavert að skrifa um einhverjar persónur sem eru ekki venjulegar persónur sem er eitthvað óvenjulegt við. Eitthvað öðruvísi. Mér finnst ekki gaman að skrifa sögur sem eru bara röð af atburðum. Ég er meira fyrir að skrifa upplifun. Ekki endilega langa sögu sem gerist yfir langan tíma heldur eitthvað sem gerðist á nokkrum mínútum og ég er inni í höfðinu á manneskjunni að skrifa hvað hún er að pæla. Já, ég held að það sé svona uppáhaldið mitt.“ Þegar þú ert að skrifa, hvar skrifarðu? ,,Ég skrifa eiginlega bara hvar sem er. Mest heima 12

rasmussen

hjá mér þar sem ég er með tölvu en ég er stundum með bók sem ég get skrifað í og þá skrifa ég niður það sem mér dettur í hug.” Þegar þú ert heima hjá þér, hvar skrifarðu þar? ,,Ég skrifa bara við eldhúsborðið, ég er búin að koma mér fyrir þar af því að ég á ekki skrifborð. Þar sit ég með bakið í gluggann, upp við vegginn.“ Finnst þér auðvelt að skrifa innan um fólk eða þarftu frekar að vera ein? ,,Mér finnst allt í lagi að vera með fólki en það má helst ekki horfa á tölvuskjáinn eða blaðið. Þannig að ég get eiginlega ekki skrifað ef ég sit við hliðina á einhverjum eða fyrir framan einhvern. Mér finnst það mjög erfitt.“ Skrifarðu á hverjum degi? ,,Nei, ég skrifa ekki á hverjum degi. Mér finnst samt að ég ætti að gera það. Ég er að reyna að taka mig á. Ég reyni að skrifa eitthvað í hverri viku. En ég er ekki alveg nógu dugleg að setjast niður og hugsa: ,,Ókei, nú ætla ég að skrifa eitthvað“ af því að ég er svo gagnrýnin á það sem ég er að skrifa að ég vil helst ekki skrifa eitthvað ef ég er ekki tilbúin með það í hausnum. Ég á rosalega erfitt með að setjast bara niður og bulla eitthvað. Ég er samt að reyna að gera það meira.“ ,


Hefurðu látið birta eitthvað eftir þig? ,,Nei.“ Ertu feimin við það? Fyndist þér það erfitt? ,,Mér fyndist ekki erfitt að birta eitthvað í blaði en mér fyndist erfitt ef ég þyrfti að koma og segja: ,,Já, ég skrifaði þetta og nú ætla ég að lesa þetta fyrir ykkur.” En ekki ef ég myndi bara senda eitthvað inn og það myndi birtast. Mér fyndist það allt í lagi ef ég væri ánægð með það sem ég skrifaði. Þótt ég væri örugglega hikandi fyrst. En ég hef aldrei birt neitt neins staðar.“ Nema núna. ,,Já, einmitt. Þetta er í fyrsta skipti.“ ,Hvort skrifarðu meira í höndunum eða í tölvu? ,,Í tölvu. Ef ég skrifa í höndunum er það oft mikið krass og ég er að reyna að koma einhverju frá mér áður en ég gleymi því. En ef ég er við tölvu er ég að skrifa eitthvað sem verður að einhverju. Ég held að ég hafi ekki skrifað heila sögu bara í höndunum síðan ég var í grunnskóla.”“ Lestur Lestu mikið? ,,Ég myndi segja í meðallagi en samt kannski mikið miðað við aðra. En með skólanum þá get ég svo sem ekki lesið mér til skemmtunar. Þá sleppi ég því að læra í staðinn sem er ekki mjög gott þannig að ég sleppi því eiginlega bara að lesa. En núna er ég í lestrarátaki.“ Hvað er það sem þú ert að lesa? ,,Ég reyni að hafa það fjölbreytt. Ég les ævintýri og venjulegar sögur, skemmtilegar, sorglegar… Það er eiginlega ekki neitt sérstakt í uppáhaldi hjá mér. Það fer bara mikið eftir því í hvernig skapi ég er. Stundum fæ ég tímabil þar sem ég les bara eitthvað ákveðið og fæ síðan leið á því og færi mig yfir í eitthvað annað. Ég held að það eina sem ég les ekki séu ævisögur.“ Er einhver höfundur sem þér finnst hafa haft áhrif á þig? ,,Það er enginn einn ákeðinn sem hefur haft áhrif á mig en ég var til dæmis rosalega hrifin af stílnum í The Catcher in the Rye og bókin On the Road var í dálítið svipuðum stíl, ekki alveg eins samt. Mér finnst flott að geta skrifað þannig að það er eins og alllt hafi fengið að fara á blaðið. Ég myndi vilja geta það og tileinka mér það. En það er enginn einhver einn rithöfundur sem ég horfi á sem fyrirmynd, þannig séð.“

Eigin verk Svo var ég með spurningar um verkin sem þú sendir mér.: Persónulýsingin í Undir yfirborðinu er mjög áhugaverð. Hún minnti mig á sumt fólk sem ég hef kynnst (eða ekki kynnst réttara sagt). Var þetta byggt á einhverjum sem þú þekkir? ,,Nei. Þetta var i rauninni svolítið út frá sjálfri mér. Ég er smá þessi týpa sem er inn í sig og ekkert endilega rosalega opin. Ég var að fókusa á þessa tilfinningu að langa til að vera opin en geta það ekki. Ég held að ég hafi ekki skrifað neitt byggt á fólki sem ég þekki. Mér gæti samt alveg dottið það í hug.“ Maður fær á tilfinninguna að málverkið ,,Súsanna“ eftir Artemisiu Gentilechi skipti máli fyrir samhengið í sögunni Súsönnu. Hvernig tengist það atburðunum í sögunni? ,,Birgitta vinkona mín sagði mér frá konu sem hafði málað málverk en hún fékk ekki að selja þau undir sínu nafni vegna þess að hún var kona svo pabbi hennar seldi þau undir sínu nafni. Hún málaði gróf og frekar ógeðfelld, kannski, málverk. Það voru einhver, minnir mig, þar sem hún hafði þurft að mála yfir upprunalegu myndina af því að hún þótti ekki við hæfi til að selja. Myndin sem ég hafði í huga var af konu sem var með mjög þjáningarfullan svip. Þetta er ekkert aðalatriðið í sögunni þannig séð. Mér fannst þetta bara passa inn vegna þess að stelpan í sögunni er að þjást. Þetta var kannski svolítið tilfallandi en samt ekki.“ Finnst þér umhverfið skipta máli í sögum? ,,Já. Það þarf kannski ekki að vera einhver svaka umhverfislýsing en staðsetningin getur alveg skipt máli upp á andrúmsloftið í sögunni. Það hefði alls ekki passað ef Súsanna hefði gerst í ísbúð. Maður sér náttúrulega að það hefði ekki gengið upp.“

Í UPPÁHALDI

13


Þú hvíslaðir Ég elska þig og líktir mér við sólina. Þú sagðir Þú ert yndisleg og líktir mér við stjörnurnar. Þú hrópaðir Ég þarf þig og líktir mér við lífið. Þú hugsaðir Ég vil þig og kallaðir mig þína.

Súsanna

Tanja Rasmussen En þú elskaðir mig ekki, aðeins hugmyndina um mig, þér fannst ég ekki yndisleg, bara sæmilega þolanleg, þú þurftir mig ekki, heldur stjórnina yfir mér, og þú vildir mig ekki, aðeins líkamann sem bar mig.

Stelpan gekk hikandi inn í salinn, fótatakið hljóðlaust og augun boruð ofan í gólfið. Eins og hún vildi ekki draga að sér athygli, eins og hún vildi að hún væri ósýnileg. En það var of seint, ég hafði tekið eftir henni og eitthvað í fari hennar gerði mér gjörsamlega ókleift að slíta augun af henni. Einhver óróleiki sem hékk yfir henni. Hún nam staðar og settist á bekk fyrir framan málverk eftir Gentileschi, Súsönnu, en virti myndina ekki viðlits. Sat bara og togaði í naglaböndin, leyfði augunum að flökta um salinn en virtist þó ekki sjá neitt. Ég fikraði mig örlítið nær, langaði að setjast hjá henni en var ekki viss um hvort það væri góð hugmynd. Áður en mér gafst tækifæri til að gera upp hug minn kom strákur stormandi inn í salinn, blautur inn að beini og ráðvilltur á svip. Það hlaut að vera byrjað að rigna. Hann skimaði í örvæntingu yfir salinn, án þess að nema staðar, æddi svo rakleiðis að stelpunni þegar hann kom auga á hana. Þau voru eins og svart og hvítt andspænis hvort öðru. Hann vofandi yfir henni með rigningarvatnið drjúpandi úr hárinu, örvæntingin og ákveðnin augljós í líkamstjáningunni. Hún hokin í sætinu, brotin og týnd í hyldýpi einhverrar sorgar sem var augljóst hvaðan kom. Hann orsök en hún afleiðing. Eftir störukeppni sem virtist ætla að vara að eilífu en endaði með skyndilegu undanhaldi stráksins, opnaði hún loksins munninn. „Hæ.“ Orðið var varla meira en hvísl en röddin brast. Hún reyndi að segja eitthvað meira en gat það ekki, þagði bara á meðan strákurinn bunaði út úr sér illa gerðum, og að því er virtist óæfðum, afsökunum,og kinkaði kolli annað slagið til þess eins að leyfa honum að halda að hún væri að hlusta. Augun héldu áfram að flökta um salinn. „Veistu hvað er verst af öllu?“ greip hún svo fram í fyrir honum og leit niður. Röddin skalf. „Að vita að þegar þú horfir á mig þá sérðu galla, þá sömu og ég sé í hvert einasta skipti sem ég lít í helvítis spegilinn. Að vita að í hvert einasta skipti sem þú sérð mig hugsarðu „Ég vildi að hún væri aðeins öðruvísi“ en ekki „Vá hvað hún er falleg.“ Hún bældi niður ekkasog og leit á myndina. „Veistu hvað það er helvíti vont?“ 14


SÚSANNA - ARTEMISIA GENTILESCHI KATHLEEN GILJE Málarinn Artemisia Gentileschi var uppi á Ítalíu á sextándu öld og hún var hluti af kynslóðinni sem fylgdi á eftir Caravaggio og er jafnframt talin einn fremsti eftirmaður hans. Súsanna og öldungarnir var hennar fyrsta verk en hún málaði það árið 1610 þegar hún var sautján ára. Það var byggt á biblíusögunni um Súsönnu sem var áreitt af tveimur eldri mönnum. Karlkyns samtímamenn Artemisiu höfðu gjarnan málað senuna eins og Súsanna væri samþykk áreitninni og nyti hennar jafnvel en Súsanna Artemisiu finnur greinilega fyrir mikilli vanlíðan. Artemisia var elsta barn foreldra sinna en faðir hennar, Orazio Gentileschi, var einnig málari. Móðir hennar lést þegar hún var tólf ára. Artemisia var í læri hjá föður sínum en árið 1611 réð faðir hennar málarann Agostino Tassi til þess að kenna henni. Tassi misnotaði Artemisiu og var sakfelldur fyrir nauðgun ári síðar en sat þó aðeins inni í eitt ár. Á meðan á rannsókn nauðgunarmálsins stóð var Artemisia m.a. pyntuð til þess að sanna vitnisburð sinn 1612 giftist Artemisia hæglátum málara frá Flórens og fluttist þangað og varð hirðmálari. Þau eignuðust dótturina Prudentiu sem var einnig málari en engin af verkum hennar hafa varðveist. Artemisia var fyrsta konan til að hljóta inngöngu í Teikniakademíuna og hún var í vinfengi við þekkta samtímamenn, m.a. Galileo Galilei. Nokkrum árum síðar fluttist fjölskyldan til Rómar og Napólí og seinna unnu bæði Artemisia og Orazio faðir hennar hjá ensku hirðinni í London. Artemisia naut ákaflega mikillar velgengni á listamannsævi sinni og er talin meðal fremstu barokkmálara. Strax á tuttugustu öldinni var farið álíta hana sem femíniskt tákn og bandaríska listakonan Kathleen Gilje vann verk árið 1998 byggt á málverkinu Súsönnu þar sem hún lét líta út fyrir að undir málverkinu væri annað mun hryllilegra málverk. Það átti að undirstrika hve líkar sögur Súsönnu og Artemisiu voru.

Gentileschi

Gilje

15


Tanja Rasmussen Undir yfirborðinu Þegar ég hitti hana fyrst hélt ég að hún væri ein af þessum manneskjum sem gekk í gegnum lífið án þess að upplifa almennilega það mikla tilfinningaróf sem tilveran bauð upp á. Ein af þessum sem varð aldrei fullkomlega hamingjusöm, aldrei verulega sorgmædd, aldrei virkilega reið. Ein af þessum sem hafði ekki hugmynd um hvað alvöru ástríða var. Ég hélt að hún væri algjörlega grá. Yfirleitt var svipurinn tómlegur og augun líflaus. Þegar hún brosti var brosið lítið, varirnar límdar saman með örlítilli sveigju sem varla sást, þegar hún hló var hláturinn tilgerðarlegur, eins og hana langaði ekki í raun og veru að hlæja, og þegar einhver mælti á móti henni eða sagði eitthvað sem hefði átt að vekja reiði gáfu svipbrigði hennar til kynna að henni gæti ekki staðið meira á sama, eins og orðin hefðu ekki minnstu áhrif á hana eða kæmu henni hreinlega ekki við. Mér þótti hún satt að segja frekar sorgleg. Eða kannski þótti mér bara sorglegt að hún skyldi fara svona í gegnum lífið, pökkuð inn í kassa sem kom í veg fyrir að hún fyndi fyrir neinu af alvöru. En það var áður en ég kynntist henni. Það var á föstudagskvöldi í júní sem áttaði mig á því hvernig manneskja hún var í raun og veru. Við vorum á djamminu, allur hópurinn, fjórða kvöldið í röð af því að það var sumarfrí og við gátum það, hún sat við barinn og horfði á okkur hin eins og vanalega en ég var úti á dansgólfinu, týnd í tónlistinni og æsingnum í kringum mig. Ég var full af lífinu, svo hátt uppi að mér fannst ég geta sigrað allan heiminn, allan alheiminn ef út í það var farið, og gerði mér enga grein fyrir raunveruleikanum eins og hann var. Svo var hún allt í einu komin og við vorum tvær að dansa. Ég hafði aldrei séð hana svona, lausa við taumana sem sífellt virtust halda henni í skefjum og brosið svo breitt að ég hélt í augnablik að fyrir framan mig stæði ókunnug manneskja. Ljóst hárið var laust úr taglinu og hnésíði kjóllinn sem hún vanalega klæddist hafði fengið að víkja fyrir öðrum styttri. En þetta var hún, laus við kassann og tómlegan svipinn, formlegan klæðnaðinn og stíft brosið. Hún færði sig nær mér og varir hennar strukust við eyrað mitt, hún hvíslaði eitthvað sem ég heyrði ekki. Eða kannski öskraði hún, það skipti ekki máli, hávaðinn var of mikill til að heyra nokkurn skapaðan hlut. Einhvern veginn tókst henni samt að koma mér í skilning um að hún vildi fara eitthvert annað og hún vildi að ég kæmi með henni, hún vildi fara á ströndina, vildi fara að synda í sjónum. Ég kinkaði kolli, mig dauðlangaði að fá að sjá meira af þessari lifandi, næstum ókunnugu manneskju sem stóð fyrir framan mig, og hún brosti enn breiðar, teymdi mig svo á eftir sér út í milda sumarnóttina. Við keyptum romm á leiðinni á ströndina, í subbulegri hornbúð sem var opin allan sólarhringinn, og skiptumst á leyndarmálum inn á milli sopa. Hún hafði stolið varalit einu sinni, en aldrei þorað að nota hann og lét sig dreyma um að ferðast um Asíu, hélt kannski að hún væri lesbía en var samt ekki viss. Ég sagði henni að mamma mín væri á meðferðarheimili fyrir eitulyfjafíkla og að það vantaði á mig eina tánögl. Við hlógum, svo fullar að ekkert var íþyngjandi og allt var léttvægt. Tilveran var leikur og við vorum að vinna. Við hlupum hlæjandi restina af leiðinni.

16


Tanja Rasmussen

Ströndin var algjörlega mannlaus og um leið og fætur okkar snertu sandinn reif hún sig úr fötunum og hljóp allsnakinn út í sjó. Ég hikaði eitt augnablik áður en ég gerði það sama. Við skvettum hvor á aðra og hlupum um, hoppuðum yfir öldurnar og öskruðum ókvæðisorð út á svart hafið. Ég horfði á hana þar sem hún stóð og öskraði og velti því fyrir mér hvað hafði breyst, af hverju hún hafði svona skyndilega orðið þessi lífsglaða, litríka manneskja sem lét sig dreyma um að ferðast og synti nakin í sjónum. Ég hafði verið svo viss um að hún væri gjörsamlega grár persónuleiki, algjörlega út í gegn, en ég hefði ekki getað haft meira rangt fyrir mér. ,,Ég vildi að ég væri svona alla daga,“ hvíslaði hún svo með lokuð augun og ég áttaði mig á því að hún var meðvituð um hversu stíf hún var vanalega, vissi af hverju hún var að missa þegar hún lét sem tilfinningarnar væru ekki hluti af henni. Því það var það sem hún gerði, ég varð skyndilega viss um það. Hún var alls ekkert grá út í gegn, heldur hafði hún búið sér til vandlega samansett yfirborð sem litirnir komust ekki í gegnum, dregið sig inn í skel sem útilokaði allar tilfinningar. En undir niðri ólguðu þær eins og kvika undir eldfjalli, og einhverra hluta vegna hafði ég fengið að sjá þær. Hún hafði hleypt mér í gegn, eða kannski hafði ég komið af stað eldgosi. Ég tók í hönd hennar en sagði ekki neitt, dró bara að mér ferskt sjávarloftið og horfði heilluð upp í himininhvolfið. Eftir nóttina á ströndinni varð hún aftur eins og hún átti að sér að vera, að minnsta kosti í augum annarra. Í augum þeirra sem ekki þekktu hana, í augum þeirra sem aldrei höfðu séð þá hlið á henni sem ég hafði fengið að sjá, var brosið alveg jafn stíft og vanalega, hláturinn alveg jafn þvingaður, augun alveg jafn líflaus. Í mínum augum var hún hins vegar allt önnur. Ég sá í gegnum yfirborðið, hafði séð það sem var undir því. Í tómum svipnum sá ég dagdrauma, í þvinguðum hlátrinum heyrði ég hamda gleði, og þegar hún brosti til mín fann ég að hún meinti það.

17


rebekka sif ,,Ég heiti Rebekka Sif og ég er tuttugu og þriggja ára. Ég er að fara að klára bókmenntafræði í HÍ með ritlist sem aukagrein. Ég er búin með þrjú söngnám og hef verið að kenna söng og syngja úti um allt. Ég hef verið að skrifa mjög lengi.“ Að skrifa Skrifarðu mikið? ,,Ég skrifaði meira þegar ég var barn og unglingur. Þá kom þetta svo ósjálfrátt og ég gat eytt öllum deginum í að skrifa án þess að fatta hvað ég var að gera. Mér líður eins og ég hafi haft miklu meiri tíma þá. Núna er ég ekkert alltaf í stuði til þess að setjast niður og einbeita mér og þar að auki er ég miklu meðvitaðri um það sem ég er að skapa. Er það gott eða bara ömurlegt? Á ég að vera að þessu? Ég byrjaði samt að skrifa meira núna í vor, meira af ljóðum og jafnvel dagbók, bara til að halda einhverju flæði í gangi.“ Skrifarðu á hverjum degi? Hvernig tegund af skáldskap skrifarðu helst? ,,Nei, ég skrifa ekki á hverjum degi. Suma daga langar mig ekki að gera neitt skapandi og suma daga syng ég ekki einu sinni. Núna er ég mest búin að vera að skrifa ljóð sem 18

eru öll frekar stutt og fjalla um eitthvað sérstakt viðfangsefni. Mig langar yfirleitt að þau séu með einhvern tilgang og leiði einhverja hugmynd eða hugsun í ljós í staðinn fyrir að vera óræð. Það er mjög auðvelt að skrifa óræð ljóð sem hljóma fallega og líta vel út en eru ekki um neitt. Mig langar ekki til þess að skrifa svoleiðis ljóð.“ Er einhver ástæða fyrir því að þú skrifar? ,,Þegar ég byrjaði var það til að fá útrás þegar mér leið illa og að vinna úr hlutum sem mér fannst ég ekki skilja eða geta talað um neinn við. Núna reyni ég að skrifa líka þegar mér líður vel. Mér finnst að stundum verði lífið skýrara bara með því að skrifa.“ Sýnirðu fólki það sem þú skrifar? ,,Já, ég geri það núna en ég gerði það ekki fyrst. Þegar ég var yngri var ég samt alltaf að birta nafnlaust inni á huga.is. Ég hef ekki mikið verið að birta neitt undir nafni sem ég geri fyrr en nýlega, meðal annars birti ég á bloggsíðunni minni. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að deila því sem ég skrifa en ég var alltaf hrædd um að fólk dæmdi mig út frá því sem er skrítið - ég er til dæmis aldrei hrædd um að fólk dæmi mig þegar ég er að syngja. Ég var í ljóðakúrs í háskólanum í vor og þar deildum við ljóði með bekknum í hverri viku og þá hætti ég að vera hrædd við að deila því sem ég skrifa með fólki og fór að finna að mig langaði til þess.“


Þú syngur mjög mikið, semurðu lögin og texta við þau? ,,Já, ég hef alltaf samið mína eigin texta. Ég lærði sjálf á gítar þegar ég var svona fimmtán ára til þess að geta samið laglínur við textana mína. Fyrst samdi ég alltaf á íslensku en núna sem ég alltaf texta á ensku en ljóð á íslensku. Það veitir meiri fjarlægð að semja á ensku. Maður getur aftengt sig aðeins.“ Ritlist í HÍ Þú ert í ritlistinni í HÍ. Hvernig finnst þér það? Myndirðu mæla með henni fyrir fólk sem er að skrifa? ,,Mér finnst ótrúlega gaman að hafa tækifæri til þess að læra ritlist á háskólastigi og fá tækifæri til að vinna með höfundum og ljóðskáldum. Ég á eftir að fara í nokkra kúrsa sem ég er mjög spennt fyrir, meðal annars smásagnasmiðju sem ég hef heyrt að sé mjög metnaðarfull og líka ritfærnikúrs. Já, ég myndi mæla með henni. Maður lærir mikið á því að vera stöðugt að skrifa og hafa smá pressu á sér, til dæmis bara það að þurfa að skila einu ljóði á viku og vera ánægður með það. Það er erfiðara en maður heldur.“ Þú ert líka í bókmenntafræði - það er oft sagt að skáld fari í bókmenntafræði til þess að deyja. Hvað finnst þér um það? ,,Ég fór í bókmenntafræði af því að mér finnst svo gaman að lesa og ég var ekkert búin að pæla í því mikið dýpra en það. Ég er samt engan veginn sammála þessu. Bókmenntafræðin gefur manni svo miklu meiri innsýn inn í skáldskap. Það er svo gaman þegar maður les um eitthvað og áttar sig svo á hvað einhver höfundur sem maður hefur lesið bækur eftir hefur verið að gera flotta hluti, eitthvað sem maður hefði ekki áttað sig á ef maður þekkti ekki fræðina á bak við það. Í bókmenntafræði lærum við að greina texta. Í ritlist eigum við að hugsa um hvernig við upplifum skáldskap og hvernig hann hefur áhrif á okkur. Þetta eru bara tvær leiðir til þess að horfa á hlutina og mér finnst þær báðar mjög skemmtilegar.“ Að lesa Þú lest væntanlega frekar mikið - hvað er í uppáhaldi hjá þér? ,,Uppáhaldsrithöfundurinn minn um þetta leyti er Haruki Murakami. Ég er búin að lesa nokkrar bækur eftir hann á ári undanfarin ár. Ég eyddi öllu síðasta sumri í að lesa IQ84 sem er um eittþúsund blaðsíður. Þegar maður hefur lesið margar bækur eftir hann þá sér maður margar tengingar á milli bóka og þemu sem eru gegnumgangandi, eins og kettir, karlmenn sem kunna ekki að elska og konur sem hverfa. Ég dett alltaf inn í heiminn sem hann býr til þrátt fyrir að hann geti verið mjög hversdagslegur - hann lýsir því mjög nákvæmlega hvað fólkið borðar, hvernig það er klætt og hvernig veðrið er. Síðan kemur bara allt í einu eitthvað út í hött og þá er maður bara: ,,Ha? Um hvað er hann að tala hérna?““

sólarsyndin að sitja inni þegar hamingja þjóðarinnar kíkir í heimsókn samviskubitið við að finna ekki þörfina til að brenna á andliti og sál íslendingar þjáðar sólarsálir ráfandi um í stefnuleysi

þungi innilega illt þessi sársauki innbyggður í hjarta mitt mitt innra líf er auðn

www.rebekkasif.com 19


hraun ég fór út í hraun að leita að þér ég fór út í hraun og þóttist finna þig ég fór út í hraun að sannfæra álfana að hleypa þér aftur í mannheima ég var átta ára og trúði á álfa ég var átta ára og saknaði þín ég var átta ára þegar ég hætti að trúa á Guð en ég trúi enn á álfana

20

Eigin verk Svo er ég líka með spurningar um ljóðin þín. Þau eru mikið í fyrstu persónu - eru þau um þig sjálfa? Hvað finnst þér um að það sé oft talið að ,,ég“ eigi við rithöfundinn? ,,Mörg af ljóðunum eru um mig eða eitthvað sem ég hef upplifað. Þetta með að ,,ég” eigi við um höfundinn er einmitt eitt af því sem þú lærir um í bókmenntafræði. Það eru svo margar kenningar um hvernig á að taka við ljóðum. Þótt ég skrifi út frá sjálfri mér vil ég samt að lesandinn lesi og hugsi. ,,Já! Ég er svona. Ég er svona líka.“ Ég vil það miklu frekar en að það hugsi um að þetta sé um mig og hvernig mér líður. Þá væri þetta í rauninni frekar tilgangslaust og þá væri enginn tilgangur með ljóðum. “ Svo var ég líka að hugsa um ,,genveruleika.“ Ég gúglaði orðið en það kom ekkert upp. Hvað þýðir það? ,,Ég bjó orðið til. Þetta ljóð var hluti af smásögu sem ég skrifaði í Sæborg-kúrsi í HÍ. Orðið er í raun orðaleikur því það blandar saman gen og veruleika og minnir líka dálítið á geimverur.“ Hvað af þessum ljóðum er í uppáhaldi hjá þér? Geturðu sagt mér frá því? ,,hraun er í uppáhaldi. Þegar ég skrifaði það kom það út bara á tveimur mínútum og mér fannst það svo fallegt. Það stendur mjög nærri mér en ég skrifaði það til að minnast unnusta systur minnar sem lést þegar ég var átta ára. Þá leið mér eins og tíminn hefði stoppað svo það var mjög auðvelt að fara til baka og upplifa allt aftur.“

í uppáhaldi


haruki murakami

Hver er Murakami sem nær allir viðmælendurnir virðast nefna og vera að lesa? Síðasta bókin eftir hann, Hinn litlausi Tsukuru Tazaki, var þýdd á íslensku árið 2014 en áður höfðu verið þýddar Sunnan við mærin, vestur af sól (2001), Spútnik-ástin (2003) og Norwegian Wood (2006). Haruki Murakami fæddist í Kyoto í Japan árið 1949 en ólst upp í hafnarborginni Kóbe sem er skammt þar frá. Hann flutti svo til Tókýó og lærði við Waseda-háskóla. Þar kynntist hann konunni sinni, Yoko en þau giftust árið 1971. Foreldrar hans voru kennarar sem kenndu báðir japanskar bókmenntir en móðir hans hætti þó að vinna þegar hún giftist. Murakami sjálfur hreifst mun frekar af vestrænni menningu og hann hefur verið gagnrýndur í Japan fyrir að vera of vestrænn. Eftir að hann fluttist til Bandaríkjanna í byrjun tíunda áratugsins urðu stíll hans og viðhorf þó dálítið þjóðræknari. Hann kenndi meðal annars við Princeton, Tufts og Harvard og á þeim tíma skrifaði hann meðal annars bókina The Wind-Up Bird Chronicle. Murakami byrjaði ekki að skrifa fyrr en hann var orðinn tuttugu og níu ára gamall en sagan segir að hann hafi fengið hugljómun þegar hann horfði á hafnaboltaleik og hafi byrjað á fyrstu skáldsögu sinni nóttina eftir leikinn. Í dag hefur hann skrifað á annan tug skáldsagna. Hann hefur einnig skrifað smásögur og bækur sem teljast ekki til skáldskapar, m.a. What I Talk About When I Talk About Running þar sem hann lýsir ást sinni á maraþonhlaupum en hann er mikill hlaupari. Dagsrútína hans þegar hann er að vinna að bók er þekkt en hann vaknar eldsnemma á morgnana og skrifar fram að hádegi og hleypur, les og hlustar á tónlist um eftirmiðdaginn. Bækur Murakami hverfast gjarnan um einmanaleika og eru oft súrrealískar. Hann skrifar næstum alltaf í fyrstu persónu sem er hefðbundið í Japan en hann hefur einnig talað um að hann geri það til að ná betri tengslum við persónurnar. Tónlist er áberandi í bókunum hans en hann er sérstakur aðdáandi djass og rak m.a. djassbar sem hét Peter Cat áður en hann byrjaði að skrifa. Murakami er öflugur þýðandi og hann hefur meðal annars þýtt bækur eftir Scott Fitzgerald, J.D. Salinger, Raymond Carver og marga fleiri. Í nokkur ár hefur hann verið orðaður við Nóbelsverðlaunin í bókmenntum enda einstakur höfundur.

村上 春樹


Rebekka Sif

genveruleiki líkaminn vél hugurinn hamslaus lek inní tómið tæti það sundur víraður veruleiki vitundin kitlar ég sekk hratt mjakast heim hringiðan gleypir spýtir mér út spjátrungsleg sálin varpar mér burt litlaus vandræðalega týnd hverf inn í mig sjálfa óhult lokuð af ánægð? litlaus og laus frá þessum heimi.

flot í álögum flýt ég inn í eilífðina sandurinn molnar ströndin afmyndast og fleyið mitt sekkur í fjötrum ánetjast ég straumnum báran taktföst bylgjan sveiflast og andi minn flýr

22


Rebekka Sif

Ég sé Ég sé. Þið heimsækið mig. Haldið að ég sjái ekki. En ég sé. Sé hvernig þið stækkið. Breytist með árunum. Sé hvað það er orðið langt, á milli heimsókna. Ég sé himininn. Ég sé daga og nætur. Ég sé skósólana ykkar. Ég sé. Ég sé ekki þá sem liggja mér við hlið. En ég bíð eftir fólkinu mínu: Að það líti niður heilsi signi mold og biðji svo að heilsa.

Kæri greifi Kæri greifi,

ég skil nú hvernig yður leið.

Er skammdegisþunglyndið fjarar burt og augun venjast dagsljósinu,

óvön sjáöldur mín brenna.

Ég er byrjuð að ráfa í myrkri næturinnar en vona þó að blóðþorstinn

heltaki mig eigi. 23


Rebekka Sif

flóttamaðurinn ég er ormurinn á götunni sem þyrstir í vatnsdropann sem þornar upp sem þú kremur á vegi þínum á forréttindabraut fótfrárra manna

stjörnuhrap ég er svo mikil stereotýpa þegar ég keyri um í rigningunni grátandi við the smiths there is a light that never goes out eymdin nær hámarki þegar please, please, please, let me get what I want rífur mig í tóm sjálfsvorkunnar þessi sjálfselskufyrstaheimseymdarvitleysa

24


bolli magnússon

,,Ég heiti Bolli Magnússon og er nýútskrifaður úr MR. Eins og er þá er ég verksmiðjustarfsmaður á leið í ferðalag um heiminn. Ég er svo að fara að byrja í háskólanum í málvísindum og Mið-Austurlandafræðum í haust.“ Að skrifa Hvenær byrjaðir þú að skrifa? Hvað er það sem þú ert helst að skrifa? ,,Ætli það hafi ekki verið um 2013 þegar ég var í skiptinámi í Malasíu. Þá hafði ég mjög mikinn tíma til þess að gera ýmislegt. Ég hafði ekki skrifað neitt af viti fyrir það en ég hef alltaf lesið mikið. Ég skrifa aðallega ljóð og alls konar lítil brot. Ég er ekkert að skrifa neinar skáldsögur.“ Ert þú að reyna að yrkja inn í einhvern stíl? Finnst þér þú eiga þér stíl? ,,Nei, alls ekki. Ég skrifa yfirleitt bara það sem mér dettur í hug og þegar eitthvað kemur sem er þokkalegt set ég það saman og það verður kannski eitthvað til úr því. Ég er ekki meðvitað að reyna að nota einhvern ákveðinn stíl en ég reyni samt að hafa allt einfalt og skýrt og engar voðalega miklar flækjur.“ Notarðu bragarhætti þegar þú skrifar?

,,Nei… Mér finnst þeir alveg skemmtilegir en þeir eru fyrst og fremst hamlandi. Þeir snúast svo mikið bara um íþróttina og eru frekar gerðir fyrir formið en efnið. Sumum tekst að ná að hafa hvort tveggja, form og innihald, þrátt fyrir að nota flókna bragarhætti en mér finnst lokaútgáfan léleg ef allt snýst um það eitt að hafa bragarháttinn nákvæmlega réttan.“ Skrifarðu mikið? Skrifarðu á hverjum degi? ,,Ég skrifa ekki mjög kerfisbundið, aðallega inn á milli þess sem ég geri annað. Hef samt ekki verið að skrifa mikið núna út af stúdentsprófunum en þegar ég er ekki mjög upptekinn þá skrifa ég alveg mikið, ábyggilega eitthvað á hverjum degi.“ Hvar skrifarðu? Finnst þér auðvelt að skrifa innan um annað fólk? ,,Ég skrifa í rauninni bara hvar sem er þegar ég hef tækifæri og er í stuði, oft er það bara eitthvað á símann, í minnisbók eða á tölvuna heima. Ég hef enga reglu á því. Ég gæti alveg skrifað innan um fólk þótt ég geri það ekki, mér fyndist það skrítið en ekki erfitt.“ Hvað er það sem veitir þér helst innblástur? ,,Ætli það sé ekki líf mitt og það sem er að gerast. Ég hef ekkert göfugra svar, það er bara það sem er í kringum mig. Ég gæti ekki beinlínis sagt að ég fengi mikinn innblástur frá fyrri heimsstyrjöldinni.“ 25


í u p p á h a l d i Geturðu sagt mér aðeins frá #ljóðafimmtudagar á twitter? ,,Já - þetta byrjaði þannig að ég var með eitthvað ljóð og birti það með þessu hashtagi í hálfgerðu djóki. Á meðan ég gerði það var ég að tala við Hinrik, vin minn, og hann ákvað að gera þetta líka. Þá voru tveir búnir að gera þetta á stuttum tíma og eftir það fór boltinn fljótlega að rúlla. Núna er ég ekki búinn að setja neitt inn í margar vikur en samt kemur þetta alltaf upp vikulega sem er mjög skemmtilegt. Ég var ekki meðvitað að reyna að hefja eitthvað - ég held að þegar svona hlutir eru gerðir meðvitað gangi þeir ekki upp. Það þarf frekar bara allt að smella saman. Það sem fólkið er að setja inn undir þessu hashtagi er samt líklega meira fyrir það sjálft heldur en lesendurna eða bókmenntalegt gildi. Sumt af þessu er kannski líkara játningum á bleikt.is heldur en einhverjum bókmenntaverkum en svo er samt eitt og eitt ljóð sem er gott.“ Að lesa Lestu mikið? Finnst þér að maður þurfi að lesa mikið til þess að skrifa? ,,Já, ég les mjög mikið. Aðallega á ensku og íslensku. Það skemmir alls ekki fyrir að lesa mikið þegar maður er að skrifa. Maður fær góðan orðaforða en það er samt alls ekki nauðsynlegt. Margir hafa skrifað eitthvað án þess að hafa lesið mikið.“ Hvað er það sem þú lest helst? Áttu þér einhvern uppáhaldsrithöfund? ,,Aðallega einhverjar góðar skáldsögur. Upp á síðkastið hef ég líka dálítið verið að lesa smásagnasöfn. Þegar ég er að lesa einhverja skáldsögu og verð leiður á henni les ég oft eina smásögu og kem síðan aftur að skáldsögunni og get haldið áfram með hana. Mér finnst til dæmis Gyrðir Elíasson semja góðar smásögur og líka kanadíski rithöfundurinn Alice Munro sem fékk Nóbelsverðlaunin fyrir þremur árum. Hún er magnaður smásagnahöfundur sem skilur mann eftir með fleiri spurningar en svör. Ég get ekki beint sagt að ég eigi mér uppáhaldsrithöfund. Það sem er í uppáhaldi er í rauninni bara sá höfundur sem ég er að lesa hverju sinni svo það er alltaf að breytast. Mér finnst samt Gyrðir Elíasson mjög góður. Í augnablikinu er ég að lesa Góða dátann Svejk eftir Jaroslav Hašek. Hún er mjög skemmtileg. Hašek skrifaði bara þessa einu bók og dó frá henni svo hún var skilin eftir ókláruð og endar í miðri setningu. Það er frekar fyndið en samt hálfsvekkjandi að vera búinn að lesa fjögurhundruð blaðsíður af bók sem er svo bara allt í einu búin.“ 26

OG eitt ósagt orð og vindurinn í trjánum og öldurnar í sjánum og fiðringur í tánum og titringur í hnjánum og…

,,Ég held ekki að íslenskir höfundar hafi meira að segja en aðrir höfundar en mér finnst íslenska svo skemmtileg og mér finnst mikilvægt að kunna hana vel.”


Finnst þér mikilvægt að lesa eftir íslenska höfunda? ,,Já, ekki vegna höfundanna sjálfra heldur vegna tungumálsins. Ég held ekki að íslenskir höfundar hafi meira að segja en aðrir höfundar en mér finnst íslenska svo skemmtileg og mér finnst mikilvægt að kunna hana vel. Ég vil ekki að orðaforðinn minn sé betri á ensku heldur en á íslensku en það er dálítið að gerast á Íslandi núna, sum sérhæf orð eru farin að verða sterkari á ensku en á íslensku.“ Eigin verk Svo var ég líka búin að skoða verkin og sá í þeim að þú varst mikið að vísa í sögulega atburði. Finnst þér það ljá þeim meira gildi? ,,Það voru flest bara svona skyndihugdettur - var nýbúinn að lesa eitthvað á wikipedia. Ég veit ekki hvort mér finnist það gefa þeim meira gildi. Fleiri geta ef til vill tengt við ljóð þegar þau eru um eitthvað þekkt en ef eitthvað er hafa sögulegir atburðir minna gildi fyrir mér heldur en það sem kemur fyrir mig. Mér finnst alveg gaman að lesa um eitthvað sem gerðist fyrir hundrað árum en það snertir mig voðalega lítið.” Þú skrifar líka ástarljóð. Finnst þér formið ,,ljóð” kalla á að skrifa um ástina eða kallar ástin á ljóðið? ,,Það er bara svo góð samsetning - þetta virkar svo vel hvort með öðru. Ljóðið getur verið þægilegt tæki til að grípa til. Ég veit svo sem ekki hvað ég get sagt meira um þetta en það.“ Ég var ekki með neinar fleiri spurningar, nema þú viljir segja eitthvað meira. ,,Nei… ég er ekki með meitlaða lokaniðurstöðu.“

HEIMSMÁLIN Höfuð mitt er hnattlíkan með inngangi heljar og alles. Horuga nefið er Everest og nýklippta hárið frumskógar Afríku eða Amazon (ég man ekki hvort). Það eina sem vantar er snúningsás og lítið ljós sem kviknar.

DRUSLA „Æ, Bríet. Hættu‘ að Æsa þig og ekki vera tík. Það tekur enginn mark á ungri stúlku‘ í Reykjavík.“

TANKA UM BANKA „Guð blessi Ísland,“ tölurnar hafa lækkað. Váleg tíðindi heyrast í útvarpinu. En þrestirnir syngja samt.

SAFFÓARLAG UM ROSU PARKS Troðfullur strætó af hvítum andlitum keyrir leiðina sem Rosa Parks lagði en fremst af öllum situr svartur maður. Hann er bílstjórinn.


Bolli Magnússon

Á FYRSTA DEITI Á fyrsta deiti spurði hún alltaf strákana hvað þeir kölluðu landið á milli Indlands og Tælands. Sumir héldu kannski að hún væri að kanna landafræðikunnáttu þeirra en í rauninni vildi hún bara vita hvort þeir styddu hernaðarstjórnina eða ekki.

NÁTTÚRULÝSING gatan hallar aðeins of mikið blokkirnar bera við himin í fjarska syngja fuglar eða var þetta bíll að flauta? það er svo yndislegt að sofna við niðinn í ánni á nóttunni hann skolar burtu öllum mínum áhyggjum “Relaxing River Sounds 10 Hours”

ÞRÁÐLAUS SAMBÖND Ég horfi á díóður á skjá af þér að horfa á díóður á skjá af mér og ég veit ekki hvernig þetta byrjaði. Þráðlaus sambönd eiga það til að slitna.

28


Bolli Magnússon

NÆTURFROST (ft. Hinrik Kanneworff) ég er eins og regnslegið malbik og þú ert frostið allt um kring en furðu fjarlægt furðu lostið umlykjandi hverja ögn hvern andardrátt og hverja þögn steinarnir springa það brakar í jörðinni frostrósir spretta upp þú ert alstaðar og hvergi í senn svífandi með nóttinni svörtu þar sem ekkert heldur lífi nema tvö helfrosin hjörtu

SAFFÓARLAG AÐ VETRI TIL Ég vakna í myrkrinu, ræsi bílinn og skafa frostrósirnar af rúðunum. Núna þarf ég bara að finna einhvern til að skafa mig.

MYNDMÁL Varir þínar eru eins og viðlíking og munnurinn myndhverfing nema miklu betri. Ástarljóð í sjö pörtum skrifað í stjörnur, læki og ár þar sem textinn er ekkert nema ég þú ég þú ég þú ég…

29


Bolli Magnússon

SUMARHÚSAÁHRIFIN þegar fregnirnar bárust um að jökullinn sameinaðist ekki loftinu heldur hafinu hurfu hlutabréf jarðarinnar í himninum og draumórar fyrri ára urðu að verðlausum pappír illa stafsettum costa del sol á íslandi og meira pláss fyrir golfvelli er það ekki það sem allir vilja? og nú geta líka týndu þjóðverjarnir loksins synt heim til sín

SKOTINN hönd í hönd fingraflétta hári stungið bak við eyra og svo………! það er ekki hægt að lýsa því síðan gekk ég upp skólavörðustíginn brosandi eins og auli

ELDHÚSVIÐHÖLD Stelpur gera alltaf ráð fyrir því að ég vilji spoona og jafnframt vera stóra skeiðin. En helst vildi ég að við lægjum þráðbein, hlið við hlið, eins og prjónapar ofan í skúffu.

30


#ljóðafimmtudagur #ljóðafimmtudagar

-íslensk hashtög eiga það til að klofna í sundurtístarar urðu fljótlega ósammála um hvort bæri að nota fimmtudag í eintölu eða fleirtölu og því fylgir hér sitt lítið af hvoru