Hvar liggja nauðsynjarnar?

Page 1


Hvar liggja nauðsynjarnar?

Arkitektúr á Íslandi þróun og einkenni

Inngangur

Við erum eyja umvafin djúpum sjó, þakin hvítum jöklum. Samspil manns og náttúru er afar

fallegt þegar kemur að húsagerðarlist hérlendis. Arkitektúr á Íslandi er að mörgu leyti frábrugðinn öllu sem sést hefur. Ferðalag og saga íslensks arkitektúrs er afar eftirtektarverð

þrátt fyrir að eiga sér stað á lítilli eyju. Fræðigreinin er að einhverju leyti barn síns tíma en þrátt fyrir það hafa Íslendingar afrekað eftirtektarverða hluti í listgreininni.

Augljóst er að mikil breyting hefur átt sér stað í arkitektúr á Íslandi. Teikningar á

húsum, byggingarefni og tenging náttúrunnar við fræðigreinina eru þættir sem hafa allir þróast á sinn hátt. Arkitektúr á Íslandi er upplifun sem hægt er að sækja víða, hvort sem það er í miðbæ Reykjavíkur eða í kyrrðinni í Stykkishólmi. Víðs vegar um Ísland má finna einstök kennileiti sem skreyta landið. Þær byggingar eru þó ólíkar og hafa mismunandi blæ yfir sér. Þetta er einmitt það sem einkennir íslenska byggingarlist. Því til stuðnings eru Íslendingar óhræddir við að gera tilraunir þegar kemur að því að hanna hús og má enn fremur finna mikinn fjölbreytileika í þeim. Þessir tveir þættir móta sérkenni arkitektúrs á Íslandi. Eyjan sækir innblástur í listgreinina víða en Skandinavía hefur þó átt stærstan þátt í þróun íslenskrar húsagerðarlistar. Ef litið er lengra í burtu kemur í ljós að þjóðin er afar sundurleit gagnvart ákveðinni hugmyndafræði um búsetuform. Hún felur í sér annað sjónarhorn sem er Íslendingum ekki kunnugt. Þrátt fyrir það hefur íslenskur arkitektúr ákveðinn blæ og túlkun sem er athyglisverður. Í framhaldi af því mætti segja að hugsunin um að vel skuli vanda það sem lengi skal standa sé höfð að leiðarljósi í því samhengi Arkitektúr á Íslandi er einstakur sökum sérkenna hans en hagkvæmnin er ekki alltaf höfð að leiðarljósi.

Lengi býr að fyrstu gerð

Þegar landnámsmennirnir komu á Ísland var úrvalið af byggingarefni ekki mikið. Þeir nýttu

það sem þeir höfðu og til urðu torfhúsin. Litlu bústaðirnir, sem voru úr timbri og með torfi til að einangra, föðmuðu landslagið. Þessi stíll í arkitektúr var ríkjandi hérlendis fram á miðja 18. öld (Motorhome Iceland, 2019). Í dag eru torfbæirnir ekki margir. Glaumbær í Skagafirði er einn þeirra fáu torfbæja sem hefur tekist að varðveita í gegnum öll þessi ár (Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.). Glaumbær myndaðist og þróaðist yfir 18. og 19. öld og gegndi því hlutverki að hýsa bændur og presta. Þrettán byggingar mynda bæinn sem er sá umfangsmesti og minnst skemmdur í flokki torfbygginga (Waterson, 2022). Þótt torfhúsin hafi einungis verið byggð úr timbri, grjóti, torfi og mold er athyglisvert hvað sum þeirra hafa staðið lengi. Auk Glaumbæjar eru Laufás í Eyjafirði, Grenjaðarstaður í Aðaldal og Burstafell í Vopnafirði dæmi um torfbæi sem eru ennþá til (Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.). Af framansögðu má ráða að torfbæirnir hafi verið mikilvægur partur í sögu íslenskrar byggingarlistar.

En hvernig voru torfhúsin að innan? Burstabæir, yngsta tegund torfhúsa, eru hús sem var raðað hlið við hlið og tengdust með gangi. Í húsunum mátti finna baðstofu sem er eins konar alrými þar sem íbúar vörðu mestum tíma sínum. Þar var ýmist sofið og borðað. Fyrir neðan baðstofuna var svokölluð fjósabaðstofa þar sem húsdýrin voru hýst. Á þessum tíma var varminn frá dýrunum notaður sem kynding fyrir húsið (Alma Sigurðardóttir, e.d.-b). Mynd 1 hér fyrir neðan sýnir grunnmynd af torfbæ á Snæfellsnesi sem var byggður árið 1405. Neðst til hægri á myndinni er skáli, vinstra megin við hann er fjós, eldhúsið þar fyrir ofan og hægra megin við það má finna baðstofu (Sigríður Sigurðardóttir, 2007). Þrátt fyrir að torfhúsin hafi mörg staðið fyrir sínu er augljóst að í dag notum við ekki hlýjuna frá dýrunum til að halda á okkur hita.

Byggingarlist á Íslandi hefur tekið miklum breytingum síðan torfhúsin voru við völd. Fleiri rými eru í nútímahúsum og húsin eru almennt stærri. Jafnframt eru önnur efni notuð til byggingar og er mikið unnið með steinsteypu og timbur (Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.)

Mynd 2 hér að neðan sýnir dæmigerða teikningu af 200 fermetra einbýlishúsi á Íslandi, byggt árið 2008. Bílskúrar og hvað þá bílar voru ekki komnir til sögu þegar torfhúsin voru sem vinsælust. Einnig má finna sjónvarpshol og þvottahús á teikningunni sem eru jafnframt breytingar í arkitektúr frá þeim umrædda tíma. Þar að auki eru fleiri en eitt svefnrými á meðan íbúar torfhúsanna sváfu öll í sama rýminu, baðstofunni. Þar var sömuleiðis eldað en eins og

sjá má á teikningunni fara yfir 15 fermetrar í eldhús. Það er greinilegt að búsetuform hérlendis hefur breyst mikið síðan torfhúsin voru uppi.

Mynd 1

Mynd 2

Ísland er skreytt mörgum aðdáunarverðum mannvirkjum sem finna má víðs vegar um landið. Mörg þeirra eru aðdráttarafl ferðamanna. Eitt þekktasta dæmið í þeim flokki er Harpa. Harpa er menningarmiðstöð og samkomustaður fyrir samfélagið. Byggingin er staðsett í hjarta Reykjavíkur. Auk viðburða býður Harpa upp á veitingar og verslun. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan sem og Stórsveit Reykjavíkur hafa búsetu (Harpa,

e.d.-a) í þessu verðlaunaða mannvirki (IcelandTour.info, e.d.) sem klætt er glerhjúpi.

Henning Larsen í samstarfi við Ólaf Elíasson eru hönnuðir Hörpu. Þess má geta að þúsundir komu að byggingu hennar (Harpa, e.d.-b). Auk Hörpu eru Hallgrímskirkja, Þjóðleikhúsið, Ásmundarsafn, Sundlaugin á Hofsósi (Motorhome Iceland, 2019) og Stykkishólmskirkja

(Sigurður Ægisson, 2023) þekkt kennileiti á Íslandi (Motorhome Iceland, 2019). Í stuttu máli

má segja að margar perlur þeki eyjuna okkar.

Stykkishólmskirkja er talin vera ein fallegasta kirkja í heiminum samkvæmt erlendu arkitektúrtímariti. Helstu eiginleikar kirkjunnar eru að hún veitir huggun, frið og öryggi. Hún var vígð árið 1990 á Snæfellsnesi og teiknuð af Jóni Haraldssyni (Sigurður Ægisson, 2023).

Glæstar útlínur kirkjunnar sem teygja sig upp í himininn sjást vel úr fjarlægð og þykir það einstök sjón (Bourgade, 2023). Jón Haraldsson var þekktur arkitekt á Íslandi. Auk

Stykkishólmskirkju teiknaði hann m.a. Krýsuvíkurskóla, Félagsheimili stúdenta við

Hringbraut og einnig heilsugæslustöðvar og félagsheimili (Birgir Breiðdal, 1989).

Viðurkenningin sem Stykkishólmskirkja hefur hlotið er afar aðdáunarverð og sérstaklega þar sem hún er staðsett á landsbyggðinni. En hverjir eru það sem hafa mótað eyjuna okkar?

Á bjargi byggir hygginn maður hús

Rögnvaldur Ólafsson er talinn vera fyrsti íslenski arkitektinn. Hann var einn þeirra sem kynntu Ísland fyrir nýrri stefnu arkitektúrs snemma á 20. öld (Kumar, e.d.). 26 ára að aldri nam hann húsagerðarlist í Kaupmannahöfn en tókst ekki að klára námið vegna veikinda. Þar af leiðandi hafði hann enga formlega menntun í fræðigreininni. Veikindin drógu hann til dauða 42 ára að aldri. Þrátt fyrir ungan aldur afrekaði Rögnvaldur að hanna tvær sögulegar byggingar, annars vegar Ráðherrabústaðinn í Reykjavík og hins vegar Húsavíkurkirkju. Rögnvaldi var annt um listgreinina húsagerð. Þrátt fyrir að gera tilraunir með steinhús á Íslandi lagði hann áherslu á að gamlar byggingar yrðu ekki rifnar niður að tilefnislausu (Merkir Íslendingar - Rögnvaldur Ólafsson, 2020). Rögnvaldur er gott dæmi um að geta afrekað eitthvað stórt þrátt fyrir að vera ekki með formlega menntun.

Ef út í það er farið má vitaskuld finna lærða arkitekta hérlendis. Einn þeirra fyrstu var Guðjón Samúelsson, fæddur 1887. Líkt og Rögnvaldur leitaði Guðjón til Kaupmannahafnar að læra húsagerðarlist. Þegar heim var komið hafði íslensk húsagerðarlist tekið miklum

breytingum. Bann hafði verið sett á þéttbyggingu timburhúsa í kjölfar bruna í Reykjavík. Þar sá Guðjón tækifæri til að nýta íslenska náttúru í verkum sínum. Fagurfræði var hans hjartans mál og var hann innblásinn af stefnu þjóðernisrómantíkur. Stuðlaberg var því einkennandi í verkum hans (Alma Sigurðardóttir, e.d.-a). Hallgrímskirkja er þekktasta dæmið í þeim flokki en hana teiknaði Guðjón sem var hans lokaverk. Auk Hallgrímskirkju er Guðjón einnig höfundur að Þjóðleikhúsinu og aðalbyggingu Háskóla Íslands og eru þau hans merkustu verk (Hallgrímskirkja, e.d.). Stuðlabergið í Hallgrímskirkju sýnir hvað samband manns og náttúru getur verið fallegt.

Í dag gefst Íslendingum tækifæri á að læra arkitektúr á Íslandi. Á aðalfundi Arkitektafélags Íslands árið 2001 var samþykkt kennsla fræðigreinarinnar hérlendis. Á þessum tíma voru félagsmenn Arkitektafélags Íslands 306 talsins (Kennsla í arkitektúr verði hafin á Íslandi, 2001). Í dag eru 416 skráðir í félagatal AÍ. Þess má geta að einungis er hægt að nema arkitektúr á Íslandi við Listaháskóla Íslands (Arkitektafélag Íslands, e.d.). Íslenskum arkitektum vegnar vel en eftir því sem Viðskiptablaðið (2018) greinir frá eru Íslendingar þeir tekjuhæstu í fræðigreininni samkvæmt alþjóðlegum samanburði. Jafnframt eru einungis 2% líkur á að vélmenni muni taka við störfum þeirra. Þessar fréttir myndu ábyggilega kæta Rögnvald Ólafsson.

Innblástur

Þrátt fyrir að íslenskur arkitektúr sé einstakur er hann samt sem áður undir áhrifum annarra landa. Í dag sækir byggingarlist á Íslandi innblástur sinn mest til Skandinavíu (Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.). Fram að seinni hluta 19. aldar var Skandinavía almennt talin standa höllum fæti í arkitektúr. Það breyttist í kringum árið 1930 þegar virknihyggjan varð vinsæl í Svíþjóð og hefur hún hægt og rólega borist yfir til Íslands. Hinn svokallaði „skandinavíski stíll” hefur aldrei verið jafn vinsæll og um þessar mundir (Huyssteen, 2023). Stíllinn á rætur sínar að rekja til Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar en hefur þó fært sig til annarra landa. Stefnan leggur áherslu á einfaldleika fagurfræðinnar og samspil náttúrunnar auk þess að vera tímalaus og hagnýt. Til að falla inn í umhverfið er notast við stein og timbur sem byggingarefni og hlutlausa liti við gerð skandinavískra húsa. Gjarnan má finna stóra glugga í hönnuninni sem gefa náttúrulegri birtu tækifæri til að njóta sín sem mest. Þar af leiðandi eru skandinavísk

heimili þekkt fyrir að vera björt og hlý sem og að gefa frá sér velkomið umhverfi (Scandinavian Houses Nestled in Spectacular Landscapes, e.d.). Þegar verið er að hanna innra rými í skandinavískum stíl er minna meira. Þá er mikilvægt að hafa í huga að fara ekki yfir um í skreytingum og passa að útlínur séu einfaldar. Þegar kemur að húsgagnavali má oft sjá

náttúrulega áferð eins og teppi gerð úr hampi eða prjónaða og mjúka púða. Til að færa herbergjum ákveðinn brag er hægt að koma fyrir myndarlegum hægindastól, handunnum skenk eða viðarlituðu borðstofuborði. Einkum er mikilvægt að huga að lýsingu og eru fjölbreytt ljós svo sem veggljós, gólfljós eða ólíkir lampar notuð til að færa heimilinu hlýju (A Quick Guide To Scandinavian Style, 2021). Þegar allt kemur til alls hefur skandinavíski stíllinn mikinn persónuleika og setur svip á umhverfið.

En hvaða byggingar á Íslandi eiga rætur sínar að rekja erlendis? Nýbarokkhúsin á Íslandi sem voru vinsæl árin 1915-1930 eru framan af frá dönskum múrarameistaravillum.

Þær sóttu sjálfar innblástur sinn til Englands og Þýskalands. Húsin eru oftast nær einbýlishús sem samanstendur af kjallara, hæð og risi. Stór kvistur framan og aftan á húsunum er einkennandi í framsetningu nýbarokkhúsa og einnig svalir og smáar rúður. Önnur tegund húsa sem Íslendingar hafa notað sem fyrirmynd eru sveitserhúsin. Þau eru upprunalega frá

Frakklandi, Englandi og Þýskalandi en það voru Norðmenn sem komu Íslendingum á bragðið á sveitserhúsum. Sérkenni þeirra er háreistur sökkull, þakið er gjarnan með mikið ris og mikið skraut má finna víða í hönnuninni svo fátt eitt sé nefnt. Að sama skapi má nefna Safnahúsið við Hverfisgötu sem var reist árið 1908. Danskur arkitekt teiknaði húsið undir áhrifum þjóðernisrómantíkur sem mátti víða finna í Danmörku á þessum tíma. Húsið er einnig innblásið af gömlum ítölskum og dönskum byggingum og eru gluggar hússins einkenni þess þar sem þeir eru bogadregnir (Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.) Safnahúsið er eitt af mörgum dæmum um samstarf Danmerkur og Íslands í byggingarlist.

Danmörk hefur lagt sitt af mörkum í arkitektúr á Íslandi. Um miðja 18. öld hóf Danmörk að flytja iðnþróunina til Íslands. Það markaði upphaf steinhúsanna og jafnframt miklar breytingar í byggingarlist hérlendis (Ester, 2021). Á þessum tíma var Ísland ennþá undir stjórn Danmerkur (Stjórnarráð Íslands, e.d.) og voru þessar breytingar af völdum dönsku ríkisstjórnarinnar. Þessi framvinda markaði einnig upphafið að nútímavæðingu Reykjavíkur sem verslunarborg og miðstöð þjóðarinnar (Ester, 2021). Jafnframt eru Danir ábyrgir fyrir teikningum á mörgum af helstu kennileitum Reykjavíkurborgar. Sem dæmi má nefna

Alþingishúsið á Austurvöllum sem danski arkitektinn Ferdinand Meldahl teiknaði. Sú bygging

markaði nýtt upphaf í steinhúsagerð hérlendis. Alþingishúsið tilheyrir nýrenesansstílnum og var mikið um nýja nálgun og tækni sem viðkom byggingu hússins sem Íslendingar höfðu ekki

séð áður. Því til stuðnings var grjótið sprengt og í framhaldi af því höggvið til. Til lengdar á Danmörk stóran þátt í að móta arkitekta á Íslandi. Það hefur tíðkast í mörg ár að Íslendingar

læri arkitektúr í Danmörku. Þar af leiðandi læra íslenskir arkitektar danska tækni og nálgun

(Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.). Augljóst er að Danmörk hefur átt stóran þátt í þróun byggingarlistar á Íslandi.

Tvær andstæður

En hvernig er Ísland samanborið við önnur lönd? Í BA-ritgerð arkitektúrnemans Bjargar Halldórsdóttur (2013) greinir hún frá búsetuformi Japans og Íslands. Þessi tvö lönd eiga það sameiginlegt að huga þarf að jarðskjálftavirkni og veturnir verða kaldir og snjómiklir. Þrátt fyrir

það hafa eyjurnar tvær þróast í afar ólíkar áttir á sviði arkitektúrs. Þróun byggingarlistar í Japan er byggð á nauðsyn og útsjónarsemi. Japanir neyddust til að reiða sig á efni sem voru í landinu til að nota við húsagerð. Bambus, leir, timbur og hálmur urðu þar af leiðandi helstu byggingarefni þeirra. Í hönnun japanskra húsa er lögð áhersla á flæði og sveigjanleika. Með

það að vopni er íbúum gefið það tækifæri að geta aðlagað sig á auðveldan hátt við breytingar sem kunna að verða í fjölskyldulífinu. Innanhússhönnun japanskra húsa er í sjálfu sér einföld auk þess að vera fáguð og vönduð. Jafnframt býðst íbúum upp á það að nota ímyndunaraflið sér að leiðarljósi. Sú hugmynd fellur vel við kínversku hugmyndafræðina um að tómið feli í sér hina sönnu fegurð rýmis sem myndast á milli veggja. Mikið er um fjölbreytni í japanskri byggingarlist og gefst íbúum það tækifæri að geta hannað húsin sín út frá sínum lifnaðarháttum. Jafnframt eru húsin sjálf ekki byggð út frá hentugleikum þeirra sem reistu þau Japönsk hús taka þar af leiðandi til greina hvernig fólk vill lifa lífinu innan veggja þess (Björg Halldórsdóttir, 2013). Augljóst er að mikil hugsun er á bakvið arkitektúr í Japan.

Þar sem eftirspurn eftir stærri íbúðum á Íslandi hefur færst í aukana bitnar það á þeim smærri. Í góðærinu átti ungt fólk sem var að koma sér á fasteignamarkaðinn það til að hunsa minni íbúðir þrátt fyrir notagildi þeirra. Í augum þeirra sagði fermetrafjöldi til um gæði rýmisins. Því má álykta að húsnæðiskaup hafi verið gerð út frá tíðaranda en ekki efnahagsástandi einstaklings og raunverulegum nauðsynjum. Þrátt fyrir eftirspurn á

húsnæðismarkaðinum á Íslandi er framboðið einhæft og tilbreytingarlaust. Lítil þróun hefur

þó átt sér stað í íbúðum hér á landi. Jafnframt er nafnagjöf herbergja afar heilög og ætlast er til að notkun rýmisins framfylgi heiti þess. Sem dæmi má nefna að ákveðin húsgögn fylgja alltaf stofurýmum. Þetta fyrirkomulag felur í sér skort á fjölbreytileika, hugmyndaflugi og flæði

(Björg Halldórsdóttir, 2013). Af ofangreindu má þegar í stað sjá að Japan er frábrugðið Íslandi

hvað varðar fagurfræðilegar áherslur.

Þegar allt kemur til alls er búsetuform í Japan afar ólíkt því sem Íslendingar þekkja. Ákveðin gæði má finna á bakvið hugmyndafræði Japana við gerð heimila þeirra sem eru óþekkt á Íslandi. Miklar breytingar þurfa að eiga sér stað hérlendis til að feta í fótspor Japans og þarf í grunninn að koma með nýja skilgreiningu á hvað íslenskt heimili er. Ef aðferð Japana

væri tekin upp hér á landi myndu aðgerðirnar krefjast mikillar endurhugsunar. Þar má nefna

ógildingu á hefðbundnum nöfnum herbergja og almennt þyrfti að bæta útsjónarsemi, flæði og ímyndunarafli við hönnun rýmis sem gefur íbúum tækifæri til að tjá sig með persónulegri

mótun húsnæðis (Björg Halldórsdóttir, 2013). Það er greinilegt að róttækar breytingar þyrftu að líta dagsins ljós ef Ísland myndi taka upp hugmyndafræði Japans í byggingarlist.

Lokaorð

Þegar öllu er á botninn hvolft virðast Íslendingar hafa gleymt því á ákveðinn hátt hvar

raunverulegar nauðsynjar liggja. Samt sem áður eru auðvitað sérkenni sem einkenna

arkitektúr á Íslandi. Hægt er að segja að Íslendingar hafi snúið við orðatiltækinu „vel skal vanda

það sem lengi skal standa“. Eftir að hafa reist torfbæina þar sem rými voru vel nýtt hefur

þjóðin þróað með sér skort á útsjónarsemi Ef Ísland er borið saman við Japan er greinilegt að

við eigum langt í land ef hugmyndafræði Japana yrði tekin upp hér á landi. Þar má nefna að

hugsa út fyrir rammann hvað varðar herbergjaskipan og að byggja hús ekki út frá hentugsemi byggingarfyrirtækja

Þrátt fyrir að vera ekki fullkomlega með tærnar á hælum Japans er byggingarlist á Íslandi áhugaverð og nokkuð fjölbreytt þar sem ólíkar byggingar má finna á eyjunni. Því má að hluta til þakka landslaginu og náttúrunni sem umlykur landið. Guðjón Samúelsson var með þeim fremstu í þeim flokki og nýtti sér stuðlaberg við gerð Hallgrímskirkju. Hann er einn af þeim mörgu arkitektum sem hafa sótt nám til Danmerkur. Jafnframt er auðsýnt að Danmörk hefur mótað Ísland á sviði arkitektúrs en innblástur sem Ísland hefur sótt á því sviði má rekja víða. Í dag er þó hægt að sækja nám í listgreininni hérlendis sem gæti mögulega haft þær afleiðingar að áhrif Dana á arkitektúr á Íslandi hafi farið minnkandi með árunum. Guðjón er gott dæmi um það hvað samspil manns og náttúru getur verið einstakt. Að auki getur verið forvitnilegt að setja sig í spor íbúa torfbæjanna og velta því fyrir sér hvað þeim hefði fundist um tilhugsunina um Hallgrímskirkju, hvað þá Hörpu. Af framansögðu er ljóst að arkitektúr

hefur breyst verulega frá tímum torfhúsanna. Í dag má finna byggingar um allt land og ólíkar upplifanir og blæbrigði fylgja þeim. Jafnvel þó að perlur megi finna á landsbyggðinni eru vitaskuld flestar merku byggingar landsins staðsettar í Reykjavík. Sá staður er jafnan þar sem flestar tilraunir í arkitektúr hafa verið gerðar á Íslandi, hvort sem það er að sprengja grjót fyrir klæðningu eða klæða alfarið byggingu með glerhjúp. Þegar á allt er litið er saga byggingarlistar á Íslandi mikil og má gera ráð fyrir því að hún haldi áfram að þróast. Það verður spennandi að sjá hvar ferðalag íslensks arkitektúrs mun enda og hvort Íslendingar muni taka upp aðra hugmyndafræði.

Heimildaskrá

Alma Sigurðardóttir. (e.d.-a). Guðjón Samúelsson. Byggingarlist með börnum. https://www.byggingarlist.is/gujn-samelsson-1

Alma Sigurðardóttir. (e.d.-b). Torfhús. Byggingarlist með börnum. https://www.byggingarlist.is/gamli-tminn

A Quick Guide To Scandinavian Style. (2021, júní). IconbyDesign. https://iconbydesign.com/blogs/blog/a-quick-guide-to-scandinavian-style

Birgir Breiðdal. (1989). Jón Haraldsson. Arkitektúr og skipulag, 10(4),41-43. https://timarit.is/page/7803783#page/n41/mode/2up

Björg Halldórsdóttir. (2013). Hugsað út fyrir rammann: Búsetuform á Íslandi borið saman við Japan [óútgefin ritgerð til BA-prófs]. Skemman. https://skemman.is/bitstream/1946/15428/3/Bj%c3%b6rg_Halld%c3%b3rsd%c3%b3 ttir_-_Ritger%c3%b0_til_BA_pr%c3%b3fs.pdf

Bourgade, N. (2023, 23. maí). The 10 Most Beautiful Churches Around the World. Architectural Digest https://www.architecturaldigest.com/story/most-beautifulchurches-around-the-world

Ester. (2021, 8. janúar). Architecture in South Iceland. Héraðsskólinn Historic Guesthouse. https://heradsskolinn.is/is/2021/01/08/architecture-in-south-iceland/

Guðmundur L. Hafsteinsson. (e.d.). Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970. https://www.minjastofnun.is/static/files/skjol-i-grein/agripislhusagG.pdf

Hallgrímskirkja. (e.d.). Um Hallgrímskirkju. https://www.hallgrimskirkja.is/is/umkirkjuna/hallgrimskirkja-husid-og-sagan

Harpa. (e.d.-a). Forsíða. https://www.harpa.is/

Harpa. (e.d.-b). Hönnunin. https://www.harpa.is/honnunin

Huyssteen, J. (2023, 16. ágúst). Scandinavian Architecture – The Soul of Scandinavian Design. Art in Context. https://artincontext.org/scandinavian-architecture/

Húsagerð á Íslandi. (e.d.). Ferlir. https://ferlir.is/husagerd-a-islandi/ IcelandTour.info. (e.d.). Architecture in Iceland. https://www.icelandtour.info/en/icelandinfo/island-lexicon/architecture-in-iceland Íslenskir arkitektar tekjuhæstir. (2018, 11. maí). Viðskiptablaðið. https://vb.is/frettir/islenskir-arkitektar-tekjuhaestir/

Kennsla í arkitektúr verði hafin á Íslandi. (2001, 5. desember). mbl.is. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2001/12/05/kennsla_i_arkitektur_verdi_hafin_a_ islandi/

Kumar, A (e.d.). An architectural review of a location: Iceland. Rethinking The Future. https://www.re-thinkingthefuture.com/rtf-architectural-reviews/a8949-anarchitectural-review-of-a-location-iceland/

Merkir Íslendingar – Rögnvaldur Ólafsson. (2020, 6. desember). Bæjarins besta. https://www.bb.is/2020/12/merkir-islendingar-rognvaldur-olafsson/

Motorhome Iceland. (2019, 19. júlí). The Architecture of Iceland. https://www.motorhomeiceland.com/blog/architecture

Scandinavian Houses Nestled in Spectacular Landscapes. (e.d.). Gessato. https://www.gessato.com/scandinavian-houses/

Sigríður Sigurðardóttir. (2007). Þróun torfbæja: Glaumbær. https://www.glaumbaer.is/static/files/Skjol/i-throun-torfbaeja-1-.pdf

Sigurður Ægisson. (2023, 25. maí). Stykkishólmur Church one of the most beautiful churches in the world. mbl.is.

https://icelandmonitor.mbl.is/news/news/2023/05/25/stykkisholmur_church_one_ of_the_most_beautiful_chur/

Stjórnarráð Íslands. (e.d.). Leiðin til sjálfstæðis. https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/sogulegt-efni/heimastjorn-19041918/leidin-til-sjalfstaedis/

Waterson, L. (2022, 14. október). Turf houses: Iceland´s original ´green´buildings. BBC. https://www.bbc.com/travel/article/20221013-turf-houses-icelands-originalgreen-buildings

Myndaskrá

Mynd 1: Höfundur óþekktur, sótt 27. október 2024, https://encryptedtbn0.gstatic.com/images?q=tbn:ANd9GcQBqk3PYRibMlxNCWzqOZPOeHPHp5Mg27lCg&s

Mynd 2: Samúel Smári Hreggviðsson, sótt 27 október 2024, https://loftmyndir.arborg.is/teikningar/SH-4-A-02.pdf

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.