1 minute read

BOÐIÐ UPP Á JÓGA SEM VALGREIN

FRÉTTAHORN FÍV

Framhaldsskóli Vestmannaeyja er einn af þeim framsýnu framhaldsskólum sem hefur um nokkra ára skeið boðið upp á jóga sem valgrein.

Advertisement

Að kynnast jóga strax í framhaldsskóla er dýrmætt, því í dag er langvarandi streita og andlegt álag stórt heilbrigðisvandamál og því er mikilvægt að nemendur öðlist tól og tæki í sína verkfærakistu til að takast á við þær áskoranir. Að kunna að hlúa að sjálfum sér og gefa sér tíma í daglegu amstri er mikilvægt.

Áfanginn er eingöngu verklegur þar sem kenndar eru fjölbreyttar jógastöður og teygjur, mismunandi slökunaraðferðir, hugleiðslutækni og öndunaræfingar. Nemendur elska slökunar tímana enda þurfa þeir á þeim að halda. Í jógatímum fá þeir frí frá símunum sínum og öllu áreiti sem dynur á ungu fólki allan liðlangan daginn. Að kunna að draga athyglina að stað og stund, hægir á hraða hugsanna og þá náum við að hlusta á okkar innri rödd og þorum að standa með sjálfum okkar þannig söfnum við lífsorku.

Ávinningur af jógaiðkun er margvíslegur, þar á meðal að bæta liðleika, styrk, jafnvægi og líkamsstöðu, draga úr streitu og kvíða, auka núvitund og einbeitingu og efla almenna vellíðan. En eitt það mikilvægasta er að við náum að halda betur jafnvægi þegar erfiðleikar steðja að í lífsins ólgusjó. Slík þekking er gott veganesti út í lífið.

Það fallega við jóga er að hver og einn er á sínum forsendum við virðum mörkin okkar og erum ekki í neinni keppni. Það eykur víðsýni og umburðarlyndi að gefa nemendum tækifæri til að læra greinar eins og jóga. Það er með jóga eins og allt annað í lífinu að „æfingin skapar meistarann“.

Katrín Harðardóttir BSc Íþróttafræðingur, ÍAK einkaþjálfari & jógakennari

This article is from: