Fréttabréf Félags tónlistarskólakennara
Svæðisþing tónlistarskóla í ellefta sinn Brýnustu hagsmunamál á sviði tónlistarfræðslu um þessar mundir Svæðisþing tónlistarskóla eru nú haldin í ellefta sinn og fara fram á sex stöðum út um land eins og síðustu ár. Sem fyrr er leitast við að láta viðfangsefni þinganna endurspegla þau hagsmunamál sem eru brýnust hjá stéttinni hverju sinni. Heiti potturinn Undir liðnum „Heiti potturinn“ munu þátttakendur eiga samræðu um nokkur af þeim faglegu málum sem efst eru á baugi um þessar mundir, s.s. lög um tónlistarskóla, kennaramenntun, lögverndun starfsheitis/starfsréttinda, endurskoðun aðalnámskrár o.fl. (sjá nánar á næstu síðu). Púlsinn verður tekinn á stöðu mála og næstu skref rædd. Eftir atvikum verða ályktanir bornar upp um einstök mál. Á svæðisþingum tónlistarskóla 2012 fór fram hópavinna með „þjóðfundarsniði“ þar sem lagt var upp með spurninguna „Hvað liggur þér á hjarta?“. Samantekt frá þessum lið verður dreift og spurningunni „hvað svo?“ varpað fram. Á ársfundi Félags tónlistarskólakennara 2012 voru drög að „manifesto“ lögð fram og rædd. Stefnan hefur verið gefin út í bæklingi undir yfirskriftinni „Tónlist er fyrir alla“ og verður hann lagður fram á þingunum. Kjaramál Kjarasamningar stéttarinnar renna út 31. janúar næstkomandi
og verða kjaramálin á sínum stað á svæðisþingunum undir yfirskriftinni „Hvað segja félagsmenn? – Áherslur í næstu kjarasamningum? – Hvert stefnir?“ Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur Kennarasambands Íslands og Sigrún Grendal, formaður FT munu fara yfir sviðið. Niðurstöður úr könnun FT haust 2013 verða kynntar og speglaðar í samræðu við þátttakendur á þingunum. Kjaraleg staða stéttarinnar og þróun í kjaramálum undangengin ár verður skoðuð í samanburði við viðmiðunarhópa og horft til framtíðar. Innleiðing „skapandi þáttar“ í tónlistarkennslu Á þingunum verður sjónum beint að hinum „skapandi þætti“ í tónlistarkennslu. Rýnt verður í svör félagsmanna við spurningum um þennan þátt í könnun félagsins sem er í gangi. Þátttakendum verður skipt í hópa og gefið tækifæri til að miðla reynslu sinni af innleiðingu þessa þáttar í tónlistarkennsluna, s.s. hvaða nálgun er viðhöfð, hvaða efni er notað, er eitthvað sem vantar upp á o.s.frv. Auk þess að ræða hvernig innleiðing þessa þáttar hefur til tekist í skólastarfi tónlistarskóla verða tengslum þáttarins við grunnþáttinn „sköpun“ í nýrri menntastefnu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla velt upp. Á þingunum munu þátttakendur stilla saman strengi með „tónsköpun“ í upphafi þinga og eftir hádegishlé. Góð ábending barst frá félagsmanni um meiri tónlistarvirkni og verður þetta vonandi að föstum lið á svæðisþingunum! Sjá dagskrá á næstu blaðsíðu
Fékkst þú slóð á könnun FT? Félag tónlistarskólakennara ákvað að framkvæma könnun í upphafi þessa skólaárs þar sem leitað er eftir viðhorfum félagsmanna til nokkurra þátta sem varða kjaramál, starfsumhverfi, lögverndun, framkvæmd nýrra áhersluatriða í aðalnámskrá tónlistarskóla o.fl. Í könnuninni gefst kennurum og stjórnendum færi á að tjá skoðanir sínar og hafa áhrif á hvaða línur verða
dregnar í komandi kjarasamningum og í öðrum þeim málefnum sem spurt er um. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar á svæðisþingum tónlistarskóla nú í haust og notaðar sem útgangspunktar í samræðu á þingunum.
Ágúst 2013 · tölublað 97
Framhald á næstu blaðsíðu