Fréttabréf Félags tónlistarskólakennara
Lokatónleikar Nótunnar 2013 Kennarar og nemendur hvattir til að fjölmenna Lokatónleikar Nótunnar 2013 verða haldnir í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 14. apríl nk. Á tónleikunum munu 155 nemendur koma fram frá 20 tónlistarskólum af landinu öllu. Þessi þriðji og lokahluti Nótunnar fer fram með tvennum tónleikum þar sem flutt verða 24 tónlistaratriði sem valin hafa verið á fernum svæðistónleikum Nótunnar sem fram fóru 16. mars síðastliðinn. „NótutóN“ samið fyrir Nótuna Lúðrasveit Æskunnar mun flytja NótutóN, lúðrakall Nótunnar, við upphaf tónleika og lokaathafnar. Tryggvi M. Baldvinsson var fenginn til að semja sérstakt lúðrakall fyrir Nótuna og hægt er að nota það í ýmsum útfærslum í öllum hlutum Nótunnar. Valnefnd á lokatónleikunum skipa: Arna Kristín Einarsdóttir, tónleikastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Högni Egilsson, tónlistarmaður, Peter Máté, píanóleikari. Kynnir á lokatónleikunum er: Felix Bergsson.
Tónlistarnemendur bjóða upp á lifandi tónlistarflutning í Hörpuhorninu á 2. hæð Hörpu yfir daginn; fyrir tónleikana kl. 11:30 og á milli viðburða. Dagskrá: Kl. 11:30
Tónleikar I í Eldborg Grunn- og miðnámsatriði
Kl. 14:00
Tónleikar II í Eldborg Mið- og framhaldsnámsatriði
Kl. 16:30
Lokaathöfn í Eldborg
Á lokaathöfn Nótunnar fá níu framúrskarandi atriði verðlaunagrip Nótunnar 2013 auk þess sem besta atriði hátíðarinnar verður valið og hlýtur farandgrip Nótunnar. Þá mun Tónlistarsafn Íslands veita einu atriði sérstaka viðurkenningu í tengslum við „Ísmúsþema“ í viðurkenningarflokknum frumsamin eða frumleg atriði þetta árið. Þessi níu atriði verða flutt við lokaathöfnina en RUV mun taka athöfnina upp og gera þátt um Nótuna. Nótan er nú haldin í fjórða sinn. Sjá nánar á www.notan.is. Kennarar og stjórnendur eru hvattir til að fjölmenna á lokatónleikana og taka þátt í hátíðarhöldunum!
Myndir frá annars vegar verðlaunaafhendingu á svæðistónleikum fyrir Kragann, Suðurland og Suðurnes og hins vegar fyrir Vesturland og Vestfirði 16. mars.
Apríl 2013 · tölublað 95