Fréttabréf Félags tónlistarskólakennara
Aðalfundur Félags tónlistarskólakennara Aðalfundur Félags tónlistarskólakennara, sem haldinn er þriðja hvert ár, verður haldinn laugardaginn 12. nóvember 2011 kl. 13:00-16:00 í salnum Hvammi á Grand Hótel Reykjavík. Dagskrá aðalfundar: A. Setning aðalfundar og aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins: 1.
Skýrsla stjórnar.
2.
Ársreikningar félagsins.
3.
Lagabreytingar. (Engar lagabreytingartillögur liggja fyrir.)
4.
Kosning nýrrar stjórnar.
5.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
6.
Kosning þriggja fulltrúa í samninganefnd.
7.
Önnur mál:
Skólamál – sameiginleg skólastefna KÍ lögð fram. Kjaramál – sameiginleg kjarastefna KÍ lögð fram. Tillaga að ályktun gegn niðurskurði í tónlistarskólum. Tillaga að ályktun um málefni Prófanefndar tónlistarskóla.
B. Á aðalfundinum verður sérstaklega boðið upp á umfjöllun um Prófanefnd tónlistarskóla. Útgangspunktur umfjöllunarinnar verður tillaga stjórnar fagráðs félagsins að aðalfundarályktun og greinargerð þar sem útlistaðar eru betrumbætur sem stjórnin telur æskilegt að gerðar verði á kerfinu í því skini að það þjóni tilgangi sínum sem best. Ályktunin og greinargerðin byggir á niðurstöðum rannsóknar Elínar Önnu Ísaksdóttur, tónlistarskólakennara, á reynslunni af prófakerfi Prófanefndar tónlistarskóla, umræðum og viðbrögðum félagsmanna við niðurstöðum rannsóknarinnar á sex svæðisþingum tónlistarskóla sl. haust sem og á fyrri umræðum um Prófanefnd á svæðisþingum tónlistarskóla. Félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundinn.
Eftirfarandi gögn er að finna á vefsíðu félagsins:
Allir velkomnir!
Viðmiðunarfjárhæðir vegna samkomulags um eflingu tónlistarnáms Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur birt viðmiðunarfjárhæðir vegna samkomulags ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Eins og flestum er kunnugt um undirrituðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms þann 13. maí síðastliðinn í húsakynnum Hörpu.
Samkomulagið felur í sér að ríkissjóður greiðir 480 m.kr. á ársgrundvelli í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en á móti taka sveitarfélögin tímabundið yfir verkefni sem nema 230 m.kr. á ársgrundvelli. Gildistími samkomulagsins er frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga annast úthlutanir framlaga til sveitarfélaga í samræmi við reglur þar að lútandi sem innanríkisráðherra gaf út þann 31. ágúst sl.
Nóvember 2011 · tölublað 90