Fréttabréf Félags tónlistarskólakennara
NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla Fréttir frá yfirstjórn uppskeruhátíðar tónlistarskóla. Yfirstjórn uppskeruhátíðar tónlistarskóla hefur rætt heiti á uppskeruhátíðinni og eru fulltrúar í stjórninni samhljóða um heitið „NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskóla“. Verðlaunagripir fyrir uppskeruhátíðina munu endurspegla heiti hátíðarinnar en Svafa Björg Einarsdóttir mun hanna gripina. Svafa rekur gler- og keramikverkstæði í Hafnarfirði. Lokatónleikar uppskeruhátíðar tónlistarskóla Eins og fram hefur komið í kynningu á fyrirkomulagi uppskeruhátíðar tónlistarskóla, bæði á svæðisþingum tónlistarskóla sl. haust og í útsendingu yfirstjórnar í nóvember sl., sér yfirstjórn um að skipuleggja þriðja hluta uppskeruhátíðarinnar, sem felst í tónleikum á landsvísu. Undirbúningur gengur vel og hér á eftir fylgja upplýsingar um fyrirkomulag lokatónleika uppskeruhátíðarinnar þar sem valdir nemendur af svæðisbundnu tónleikunum koma saman.
Lokatónleikar uppskeruhátíðarinnar fara fram í Langholtskirkju laugardaginn 27. mars. Að hámarki getur fjöldi atriða á tónleikunum orðið tuttugu og sjö og fer flutningur þeirra fram á milli kl. 10.00-14.00. Útfærsla tónleikanna skýrist þegar svæðisbundnu tónleikarnir hafa farið fram út um land og ljóst er hvaða atriði mynda dagskrá lokatónleikanna (lengd og fjöldi). Lokaathöfn fer fram kl. 16.00 þann 27. mars þar sem veittir verða verðlaunagripir fyrir framúrskarandi tónlistaratriði og þeir nemendur sem fá slíkar viðurkenningar flytja sín verk. Kynnir á lokatónleikunum verður Pétur Grétarsson og valnefnd fyrir lokatónleikana skipa: Arndís B. Ásgeirsdóttir, Gunnar Þórðarson og Guðni Franzson. Yfirstjórn uppskeruhátíðar skipa: Sigrún Grendal, FT, formaður, Árni Sigurbjarnarson, FT, Snorri Örn Snorrason, FÍH, Sigurður Flosason, FÍH, Theodóra Þorsteinsdóttir, STS, Sigurður Sævarsson, STS. Framhald á baksíðu
Uppbygging meistaranáms í hljóðfæra- og söngkennslu í Listaháskóla Íslands Á fundi 8. maí 2009, sem formaður og varaformaður Félags tónlistarskólakennara, FT, áttu með Hjálmari H. Ragnarssyni, rektor Listaháskóla Íslands, LHÍ, og Mist B. Þorkelsdóttur, deildarforseta tónlistardeildar LHÍ, fögnuðu formenn félagsins áformum LHÍ um að setja á laggirnar meistaranám í hljóðfæra- og söngkennslu. Enda um brýnt hagsmunamál fyrir tónlistarkennara og -fræðslu að ræða. Fulltrúar FT lýstu yfir áhuga á því að myndaður yrði starfshópur með fulltrúum hagsmunaðila sem fengi aðkomu að umræðu um inntak fyrirhugaðrar menntunar tónlistarskólakennara. Þá þegar hafði rektor LHÍ ákveðið að skipa slíkan hóp. Slíkt samráð er liður í að skapa sem mesta sátt um kennaranámið og stuðla að því að námið sé sem best í takt við samfélagsþróun og þarfir tónlistarskólanna. Jafnframt líta fulltrúar FT á það sem hagsmuni tónlistarfræðslu í víðum skilningi að efla tengsl tónlistarskólakerfisins og Listaháskóla Íslands.
Samþykkt FT um menntun tónlistarskólakennara kynnt Á fundinum var kynnt samþykkt ársfundar Félags tónlistarskólakennara sem haldinn var 14. febrúar 2009 þess efnis að stjórn félagsins „beiti sér fyrir því að menntun tónlistarskólakennara hér á landi verði aðlöguð alþjóðlegu umhverfi og samræmdum viðmiðum. Í því samhengi verði stuðlað að því að fimm ára háskólamenntun tónlistarskólakennara með fullgildum lokaprófum verði komið á og námslok miði við meistaraprófsgráðu eða sambærilega menntun.“ Vinnuhópur hefur skilað af sér tillögum Hjálmar H. Ragnarsson greindi frá því á svæðisþingi tónlistarskóla á Akranesi síðast liðið haust að skipaður hefði verið starfshópur til að teikna upp og gera tillögur um meistaranám í hljóðfæra- og söngkennslu.
Febrúar 2010 · tölublað 81
Framhald í opnu