Page 1

ÍSÍ

Júní 2017

FRÉTTIR


Ávarp forseta

Það er aldrei lognmolla í íþróttahreyfingunni. Sumaríþróttagreinarnar eru nú í fullum gangi og framundan eru spennandi mót og viðburðir. Kvennalandsliðið í blaki stóð sig frábærlega á Evrópumóti smáþjóða en þær stóðu uppi sem sigurvegarar og veitir sá sigur þeim þátttökurétt í Evrópukeppni landsliða. Er það í fyrsta skipti sem íslenskt landslið í blaki öðlast keppnisrétt í riðlakeppni EM. Stelpurnar okkar í knattspyrnulandsliðinu halda brátt til Hollands til þátttöku í lokakeppni EM í knattspyrnu og margir Íslendingar hafa í hyggju að fylgja liðinu og styðja við bakið á stelpunum í þessari spennandi keppni. Þá vann karlalandsliðið í knattspyrnu mikilvægan sigur á Króötum í undankeppni HM. Ólafía Kristinsdóttir ávann sér keppnisrétt á PGA meistaramótinu og varð þar með fyrsta allra Íslendinga til að spila á risamóti í golfi. Það er ævintýri líkast að fylgjast með árangri Íslendinga í íþróttum og við getum verið stolt af okkar fólki. Hjá ÍSÍ hefur einnig verið annasamt. Smáþjóðaleikar eru nýlega afstaðnir í San Marínó en þangað sendi ÍSÍ nærri 200 manna hóp. Íslenskir keppendur stóðu sig vel á leikunum og hafnaði Ísland í 3. sæti í heildina með 60 verðlaun, þar af 27 gullverðlaun. Þátttaka í Smáþjóðaleikum er einn af hápunktunum í starfi ÍSÍ og fjölmennasti hópur þátttakenda sem ÍSÍ sendir til alþjóða íþróttakeppni. Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður haldin í júlí næstkomandi í Ungverjalandi og þangað fer um 50 manna hópur á vegum ÍSÍ. 73. Íþróttaþing ÍSÍ fór fram í maí en þar var m.a. tekin fyrir tillaga um uppfærða Afreksstefnu ÍSÍ sem og ályktun er sneri að vinnu ÍSÍ að mótun nýrrar reglugerðar. Í kjölfarið samþykkti 2

framkvæmdastjórn Afrekssjóð ÍSÍ.

ÍSÍ

nýja

reglugerð

um

Mikil vinna var lögð í að endurskoða Afreksstefnu ÍSÍ og regluverk sjóðsins í kjölfar undirritunar samnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og ÍSÍ um stóraukið fjármagn til afreksíþrótta. Má ætla að góð sátt ríki í hreyfingunni um niðurstöður þeirrar endurskoðunar ef litið er til vinnufunda með sambandsaðilum og umræðum á Íþróttaþingi. Hvatningarverkefnin Lífshlaupið, Hjólað í vinnuna og Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ eru öll afstaðin og tókust vel. Að baki þessum verkefnum liggur heilmikill undirbúningur og utanumhald hjá ÍSÍ en ekki síður hjá þeim sem halda utan um verkefnin í viðkomandi bæjarfélögum og fyrirtækjum. Þar skiptir hvatning og stemming miklu máli en ÍSÍ hefur átt því láni að fagna að eiga að frábæra tengiliði í þessum verkefnum sem leiða verkefnin áfram og koma þeim í framkvæmd. Fyrir það erum við þakklát. Í haust tekur ÍSÍ þátt í Íþróttaviku Evrópu og verður þá bryddað upp á skemmtilegum verkefnum, m.a. í samstarfi við nokkur sérsambönd ÍSÍ. Undirbúningur fyrir Vetrarólympíuleikana í PyeongChang í Kóreu er einnig hafinn, svo og undirbúningur fræðsluviðburða næsta hausts og svona mætti áfram telja. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs íþróttasumars og hvetja ykkur öll til að mæta á sem flesta íþróttaviðburði sem sumarið hefur upp á að bjóða. Af nógu verður að taka.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ


Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og áttunda sinn sunnudaginn 18. júní. Góð þátttaka var í hlaupinu en gera má ráð fyrir að um 10.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum um allt land og víða erlendis. Um 2.000 konur hlupu í Garðabænum, 1.000 í Mosfellsbæ, 200 á Akureyri og rúmlega 200 konur hlupu í Reykjanesbæ. Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 900 m upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum, konum sem körlum, ungum sem öldnum. Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allar konur komi í mark á sínum hraða. Þó svo að hlaupið hafi í upphafi verið ætlað konum eins og nafn þess gefur til kynna þá hafa karlmenn alltaf verið velkomnir í hlaupið. Það var því gaman að sjá hversu margir karlmenn tóku þátt í hlaupinu í dag. Garðbæingar hafa haft þann sið að veita elsta þátttakanda hlaupsins viðurkenningu. Að þessu sinni var það Sólveig Alda Pétursdóttir, fædd 1925, sem fékk afhentan grip sem ÍSÍ og Stjarnan gáfu til minningar um Lovísu Einarsdóttir, íþróttakennara og upphafskonu Kvennahlaupsins. Mosfellingar gáfu að vanda öllum langömmum rós þegar að þær komu í mark. Öldrunarheimili víðsvegar um land hafa boðið sínu heimilisfólki að taka þátt í Kvennahlaupinu. Mikil ánægja er meðal heimilisfólks með þetta framtak og kapp er lagt á að virkja alla til þátttöku. Karlmennirnir hafa þá gjarnan tekið á móti konunum og afhent þeim verðlaunapeninga. Vefsíða Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ er kvennahlaup.is og er hlaupið einnig á Facebook. Myndir úr hlaupinu eru merktar #kvennahlaup á Instagram. ÍSÍ þakkar öllum sem tóku þátt fyrir þátttökuna í ár. Einnig þakkar ÍSÍ Sjóvá, aðal samstarfsaðila Kvennahlaupsins, fyrir stuðninginn sem og öðrum samstarfsaðilum; mbl.is, Ölgerðinni og Beiersdorf.

ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Íþróttaþing ÍSÍ 2017 73. Íþróttaþing ÍSÍ var sett í Gullhömrum í Reykjavík 5. maí sl. Þingfulltrúar voru vel á annað hundrað af öllu landinu. Fulltrúar íþróttamanna voru Kári Steinn Karlsson, Eva Hannesdóttir, Sigurður Atlason og Sigríður Árnadóttir.

Laugardaginn 6. maí var Lárus L. Blöndal einróma endurkjörinn forseti ÍSÍ til næstu tveggja ára með dynjandi lófaklappi en ekkert mótframboð kom fram. Í framkvæmdastjórn voru eftirtaldir sjálfkjörnir, en engin mótframboð bárust:

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, flutti setningarávarp. Sigurjón Pétursson var kjörinn þingforseti og Ólafía Rafnsdóttir 2. þingforseti. Mennta- og menningarmálaráðherra Kristján Þór Júlíusson og formaður UMFÍ, Haukur Valtýsson, fluttu ávörp.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ (sjö til fjögurra ára): Garðar Svansson, Lilja Sigurðardóttir, Sigríður Jónsdóttir, Úlfur H. Hróbjartsson, Viðar Garðarsson, Þórey Edda Elísdóttir og Þráinn Hafsteinsson. Framkvæmdastjórn ÍSÍ (sjö til tveggja ára): Ása Ólafsdóttir, Guðmundur Ágúst Ingvarsson, Gunnar Bragason, Hafsteinn Pálsson, Ingi Þór Ágústsson, Jón Finnbogason og Örn Andrésson.

Við upphaf þings fór einnig fram kjör Heiðursfélaga ÍSÍ. Heiðursfélagar ÍSÍ voru kjörin þau Helga H. Magnúsdóttir, Jón G. Zoëga og Júlíus Hafstein. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ. Það voru Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ sem veittu þeim viðurkenningar. Líney Rut kynnti síðan skýrslu framkvæmdastjórnar. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, kynnti endurskoðaða ársreikninga ÍSÍ. Reikningar sambandsins voru samþykktir án umræðu. Þingforseti kynnti tillögur sem lágu fyrir þinginu en nefndarstörf fóru fram í fundarsölum í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal föstudagskvöldið 5. maí. Þar störfuðu fjárhagsnefnd, allsherjarnefnd, laganefnd og þingnefnd til að fjalla um afreksmál.

Heiðursfélagar ÍSÍ voru kjörin Jón G. Zoëga, Júlíus Hafstein og Helga H. Magnúsdóttir. 4

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti einróma að heiðra þrjá einstaklinga með Heiðurskrossi ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ, fyrir frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Þeir eru Árni Þór Árnason, Guðmundur Harðarson og Steinar J. Lúðvíksson. Fráfarandi stjórnarfólk var heiðrað á þinginu.Helga Steinunn Guðmundsdóttir og Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir voru sæmdar Heiðurskrossi ÍSÍ. Gunnlaugur Júlíusson var sæmdur Gullmerki ÍSÍ. Smelltu hér til að fá allar samþykktir frá þinginu. Hér má sjá Lög ÍSÍ 2017. Myndir frá Íþróttaþingi ÍSÍ 2017 má sjá á myndasíðu ÍSÍ, myndir.isi.is.

Lárus sæmir Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, Heiðurskrossi ÍSÍ.


Framkvæmdastjórn ÍSÍ 2017-2019.

Heiðurskrosshafarnir ásamt varaforseta, forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ.

Fráfarandi stjórnarfólk ÍSÍ var heiðrað á þinginu.

Magnús G. Þórarinsson og Viðar Sigurjónsson þingritarar ásamt Ólafíu Rafnsdóttur og Sigurjóni Péturssyni þingforsetum 73. Íþróttaþings ÍSÍ. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Skipan í stoðsvið ÍSÍ Fagráð Almenningsíþróttasviðs: Garðar Svansson formaður, Hafsteinn Pálsson og Ása Ólafsdóttir. Starfsfólk sviðsins eru Hrönn Guðmundsdóttir sviðsstjóri og Magnús G. Þórarinsson verkefnastjóri. Fagráð Afreks- og Ólympíusviðs: Örn Andrésson formaður, Guðmundur Á. Ingvarsson, Jón Finnbogason, Viðar Garðarsson og Þórey Edda Elísdóttir. Starfsfólk sviðsins eru Andri Stefánsson sviðsstjóri og Örvar Ólafsson verkefnastjóri. Fagráð Þróunar- og fræðslusviðs: Þráinn Hafsteinsson formaður, Ingi Þór Ágústsson og Úlfur H. Hróbjartsson. Starfsfólk sviðsins eru Ragnhildur Skúladóttir sviðsstjóri, Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri og Þórarinn Alvar Þórarinsson verkefnastjóri.

Embættismenn stjórnar ÍSÍ Fyrsti fundur nýkjörinnar framkvæmdastjórnar ÍSÍ fór fram fimmtudaginn 11. maí sl. Framkvæmdastjórnin skipti með sér verkum og skipað var í ráð og nefndir ÍSÍ. Embættismenn stjórnar ÍSÍ eru, auk Lárusar L. Blöndal forseta ÍSÍ: Sigríður Jónsdóttir varaforseti, Hafsteinn Pálsson ritari og Gunnar Bragason gjaldkeri. Yfirlit yfir ráð og nefndir ÍSÍ er að finna á heimasíðu ÍSÍ eða með því að smella hér.

Skipan dómstóla ÍSÍ Á 73. Íþróttaþingi ÍSÍ urðu þau tímamót að konur voru kosnar í báða dómstóla ÍSÍ, í fyrsta skipti frá upphafi dómstóla ÍSÍ. Dómstóll ÍSÍ er þannig skipaður: Gunnar Guðmundsson, Björg Ásta Þórðardóttir, Halldór Frímannsson, Hilmar Gunnlaugsson, Ólafur Björnsson og Sigurður Ingi Halldórsson. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ er þannig skipaður: Björgvin Þorsteinsson, Gestur Jónsson, Helgi Sigurðsson, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Hulda Árnadóttir og Karl Gauti Hjaltason.

Líney í framboði til stjórnar EOC Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur ákveðið að bjóða Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ fram í stjórn Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC). Kosið verður í stjórn samtakanna á aðalfundi þeirra næstkomandi haust en Ísland hefur aldrei átt fulltrúa í stjórn samtakanna. Líney Rut er vel þekkt innan EOC enda hefur hún tekið

6

að sér leiðandi hlutverk í nefndum og ráðum samtakanna undanfarin ár. Gegndi hún m.a. formannsstarfi í eftirlitsnefnd EOC vegna Vetrarólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í Erzurum í Tyrklandi í vetur. Búast má við spennandi stjórnarkosningum á aðalfundinum í haust enda margir sem sækjast eftir sæti í stjórn EOC.


Ný reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi sínum í maí sl. nýja reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ. Með undirritun á samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið þann 28. júlí 2016 um stóraukið framlag í sjóðinn gjörbreyttist hlutverk hans sem kallaði á endurskoðun á Afreksstefnu ÍSÍ og regluverki sjóðsins. Á haustmánuðum 2016 skipaði framkvæmdastjórn ÍSÍ vinnuhóp til að endurskoða reglur Afrekssjóðs ÍSÍ. Vinnuhópurinn leitaði til fjölmargra aðila innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, sem og aðila búsetta erlendis sem hafa mikla þekkingu á alþjóðlegu afreksíþróttastarfi og skilaði vinnuhópurinn af sér skýrslu með ítarlegum tillögum í byrjun mars sl. Á grundvelli tillagna vinnuhópsins hefur framkvæmdastjórn ÍSÍ unnið að nýrri reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ, en sú vinna hefur falið í sér aðkomu Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ sem hefur fundað með fulltrúum sambandsaðila og kynnt hugmyndir varðandi nýja Afreksstefnu ÍSÍ sem og drög að nýrri reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ.

Á 73. Íþróttaþing ÍSÍ lágu fyrir tillögur um uppfærða Afreksstefnu ÍSÍ sem og ályktun er sneri að vinnu ÍSÍ að mótun nýrrar reglugerðar. Báðar tillögurnar voru ræddar í sérstakri nefnd á þinginu og fóru nánast óbreyttar í gegnum þá umræðu, sem gefur til kynna að hin mikla vinna sem átti sér stað fyrir þing hafi skilað af sér tillögum sem sambandsaðilar geta verið sáttir við. Á sama fundi var skipað í stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ og í fyrsta sinni í sögunni eru konur í meirihluta stjórnarmanna. Stjórnin er þannig skipuð: Lilja Sigurðardóttir formaður, Ása Ólafsdóttir varaformaður, Guðrún Inga Sívertsen, Páll Grétarsson, auk Stefáns Konráðssonar formanns Íþróttanefndar ríkisins, sem er fulltrúi frá menntaog menningarmálaráðuneyti. Nýju reglugerðina má lesa með því að smella hér. Skýrslu vinnuhópsins má lesa með því að smella hér. Afreksstefnu ÍSÍ má lesa með því að smella hér.

Ólympíudagurinn 2017 Þann 23. júní sl. var Alþjóðlegi Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim. Hann er haldinn í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar 23. júní árið 1894. Þá má segja að Ólympíuleikar til forna hafi verið endurvaktir og færðir til nútímans. Í tilefni af afmælisdeginum er fólk hvatt til þess að hreyfa sig og takast á við nýjar áskoranir. Hér á Íslandi var haldið upp á Ólympíudaginn. Í tilefni dagsins komu nokkrir íslenskir Ólympíufarar saman og spiluðu á golfmóti Samtaka íslenskra Ólympíufara á Nesvellinum á Seltjarnarnesi. Þar voru sumir að stíga sín fyrstu spor á golfvelli og að slá sinn fyrsta bolta en aðrir orðnir vanir kylfingar.

Ágúst Ögmundsson, Stefán Gunnarsson, Gísli Blöndal og Gunnsteinn Skúlason, ásamt Jóni Hjaltalín formanni SÍÓ.

Nokkrir félagar úr handknattleiksliði Ólympíufara frá Munchen 1972 unnu golfmótið að þessu sinni og fékk verðlaunin afhend frá formanni SÍÓ, Jóni Hjaltalín, sem einnig spilaði með þeim í Munchen.

ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Heiðurshöll ÍSÍ Á 73. Íþróttaþingi ÍSÍ útnefndi ÍSÍ Jón Kaldal frjálsíþróttamann í Heiðurshöll ÍSÍ. Jón Kaldal fæddist í Húnavatnssýslu 24. ágúst 1896 og lést 30. október 1981. Hann hóf að stunda íþróttir hjá ÍR þegar hann fluttist til Reykjavíkur til náms en árið 1918 fór Jón til Danmerkur til frekara náms í ljósmyndun og iðkaði íþróttir þar á meðan á námsdvölinni stóð, undir merkjum íþróttafélagsins AIK. Jón var frábær íþróttamaður og í hópi fremstu hlaupara Norðurlandanna á þessum árum. Danir völdu hann m.a. til þátttöku á Ólympíuleikunum í Antwerpen 1920. Sigrar hans eru fjölmargir bæði heima og erlendis. Var hann lengi íslenskur methafi í 3.000, 5.000 og 10.000 m hlaupum. Hann átti m.a. Íslandsmet í 3 km hlaupi í nærri 30 ár eða allt til ársins 1952. Í höfuðstöðvum ÍSÍ er að finna fjölmarga verðlaunagripi Jóns sem bera afrekum hans glöggt vitni. Árið 1923 varð Jón að hætta keppni í íþróttum, á hátindi síns ferils, vegna veikinda. Árið 1925 sneri hann aftur til Íslands, fullnuma í ljósmyndun, og var þá fljótlega kominn á kaf í leiðtogastörf í íþróttahreyfingunni. Hann var formaður ÍR í allmörg ár og einnig var hann varaforseti ÍSÍ árin 1943-1945. Hann var gerður að Heiðursfélaga ÍSÍ árið 1946 en Jón var einnig Heiðursfélagi ÍR. Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Jón Kaldal í Heiðurshöll ÍSÍ. Hér má sjá síðu Jóns Kaldals í Heiðurshöll ÍSÍ. Jón Kaldal, sonarsonur Jóns, tók við viðurkenningunni fyrir hönd fjölskyldunnar og aðstandenda. 8


Ólympíufjölskylda ÍSÍ 2017-2020 Fulltrúar ÍSÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og fulltrúar nýrrar Ólympíufjölskyldu ÍSÍ skrifuðu undir samstarfssamninga 22. maí sl. Það er ÍSÍ mikil ánægja að kynna nýja Ólympíufjölskyldu ÍSÍ til leiks fyrir yfirstandandi ólympíuöðu. Fyrirtækin í Ólympíufjölskyldu ÍSÍ 2017-2020 eru: Arion banki, Icelandair, Sjóvá, Toyota og Valitor. Ólympíufjölskyldan hefur til margra ára stutt dyggilega við bakið á ÍSÍ og íslenskri íþróttahreyfingu, með það að markmiði að efla íslenskt íþróttalíf og þátttöku Íslands á erlendum vettvangi.

Bogfimi í sókn Mikill vöxtur hefur verið í íþróttagreininni bogfimi á undanförnum árum. Gott gengi íslenskra bogfimikeppenda á Smáþjóðaleikunum mun líklega efla íþróttina enn frekar. Helga K. Magnús­dótt­ir vann til gull­verðlauna í bogfimi með trissuboga og Margrét Einarsdóttir til bronsverðlauna. Einnig unnu tvær ís­lensk­ar bog­fim­isveit­ir, karlasveit og blönduð sveit, til bronsverðlauna. Glæsilegt gengi hjá íslenskum keppendum í bogfimi, en þetta var í fyrsta sinn sem Bogfiminefnd ÍSÍ sendir lið til keppni á Smáþjóðaleikunum. Bogfiminefndin er þessa dagana að efla íþróttina enn frekar á Íslandi því vikuna 7.-14. júní stóð nefndin fyrir þjálfaranámskeiði með styrk frá Ólympíusamhjálpinni. Kennari á námskeiðinu var Pascal Colmaire frá Alþjóðabogfimisambandinu. Sex aðilar útskrifuðust með þjálfararéttindi á 1. stigi að námskeiðinu loknu. Mikil ánægja var með námskeiðið en þetta er í annað sinn sem Bogfiminefndin stendur fyrir námskeiði af þessu tagi með styrk frá Ólympíusamhjálpinni. Pascal Colmaire og Indriði R. Grétarsson stjórnarmaður í Bogfiminefndinni notuðu tækifærið og funduðu með Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ og Ragnhildi Skúladóttur sviðsstjóra Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ um þróun og uppbyggingu íþróttagreinarinnar með sérstaka áherslu á menntun.

Carsten Tarnow og Helga K. Magnúsdóttir.

Þátttakendur á þjálfaranámskeiðinu.

ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Smáþjóðaleikarnir 2017 Smáþjóðaleikarnir 2017 fóru fram 29. maí til 3. júní sl. Þátttökurétt á Smáþjóðaleikunum eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó og San Marínó, og hafa þær verið með allt frá byrjun. Svartfjallaland tók þátt á leikunum árið 2011 í fyrsta sinn og eru því þátttökuþjóðirnar nú níu talsins. Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna 2017 fór fram kvöldið 29. maí. Þormóður Árni Jónsson, júdókappi, var fánaberi íslenska hópsins. Stór hluti af íslensku þátttakendunum tók þátt í setningarhátíðinni en þó var hann fámennari en oft áður. Íþróttafólk í sundi og körfubolta var enn á faraldsfæti þegar hátíðin fór fram vegna bilana í tölvukerfi British Airways. Hópurinn komst þó á leiðarenda aðfaranótt þriðjudags, en keppni hófst á þriðjudeginum.

Í kvenna­flokki hlupu þær Tiana Whitworth, Hrafn­hild Hermóðsdótt­ir, Guðbjörg Bjarna­dótt­ir og Arna S. Guðmunds­dótt­ir á tímanum 45,31 sek (metið var 45,71). Í karla­flokki hlupu þeir Trausti Stef­áns­son, Ívar K. Ja­son­ars­son, Kol­beinn H. Gunn­ars­son og Ari B. Kára­son á tím­an­um 40,45 sek (metið var 40,72)­.

Setningarhátíðin var afar glæsileg. Nokkur hundruð börn stóðu hringinn í kringum hlaupabrautina á íþróttavellinum í San Marínó með blöðrur. Börnin fögnuðu hverri þjóðinni á fætur annarri sem gekk inn á íþróttavöllinn. Áhorfendur létu vel í sér heyra en fjöldi áhorfenda var um 8000. Forseti Ólympíunefndar San Marínó, Gian Primo Giardi, og Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, fluttu ávörp, meðal annars um mikilvægi þessarra leika fyrir þátttökuþjóðirnar. Hátíðinni lauk með tilkomumikil flugeldasýningu.

Í júdó unnust tvö gull og eitt brons. Þormóður Jónsson hlaut gull í +100 kg flokki og Anna S. Víkingsdóttir hlaut gull í -78 kg flokki. Þau unnu bæði alla sína bardaga. Grímur Ívarsson hlaut brons í -100 kg flokki.

Íslenskir keppendur stóðu sig með ágætum á leikunum. Á fyrsta keppnisdegi vann Erla Sigurðardóttir til silfurverðlauna í götuhjólreiðum. Hún keppti einnig í fjallahjólreiðum nokkrum dögum síðar og vann til bronsverðlauna. Íslenskt frjálsíþróttafólk lét vel að sér kveða á leikunum. Ísland endaði í 2. sæti frjálsíþróttakepninnar með 24 verðlaunapeninga og þar af 11 gullverðlaun. Ísland sigraði bæði í kvenna­flokki og karlaflokki í 4x100 m hlaupi auk þess sem báðar sveitirnar settu Íslands­met.

10

Tennis- og borðtennisfólkið okkar stóð sig ágætlega á leikunum, en engin verðlaun unnust í þeim greinum. Bæði kvenna­ landsliðið og karlalandsliðið í körfubolta vann til silfurverðlauna. Ásgeir Sigurgeirsson vann til sinna fjórðu gullverðlauna í loftskammbyssu á Smáþjóðaleikum. Hann fékk frábært skor í undankeppninni, 582, sem er Smáþjóðaleikamet Hann háði harða baráttu í úrslitum sem endaði með sigri. Tveir íslenskir keppendur tóku þátt í skotfimi með leirdúfum og gekk þeim ágætlega. Í bogfimi setti Sigurjón Sigurðsson nýtt Íslandsmet, 630 stig. Helga K. Magnús­dótt­ir vann til gull­ verðlauna í bogfimi með trissuboga og Mar­grét Ein­ars­dótt­ir varð í 3. sæti. Tvær ís­lensk­ar bog­ fim­isveit­ir, karlasveit og blönduð sveit, unnu til bronsverðlauna.


Ísland átti tvö lið í strandblaki, karlalið og kvennalið, sem áttu ágætis mót sem fer í reynslubankann. Kvenna­landsliðið í blaki hafnaði í 4. sæti og karlalandsliðið í blaki hafnaði í 5. sæti. Sundfólkið vann til 24 verðlauna á leikunum, þar af 12 gull, 4 silfur og 8 brons. Íslenska sveitin í 4x100m fjór­sundi kvenna, Hrafn­hild­ur Lúth­ers­ dótt­ir, Eygló Ósk Gúst­afs­dótt­ir, Bryn­dís Rún Han­ sen og Inga Elín Cryer syntu á 4:10,50 og setti þar með mótsmet. Íslenska sveitin í 4x100m fjórsundi karla, Davíð Hildi­berg Aðal­steins­son, Vikt­or Máni Vil­bergs­son, Ágúst Júlí­us­son og Aron Örn Stef­áns­ son, unnu til silfurverðlauna. Þeir syntu á tím­an­ um 3:47,67 og settu þar með landsmet. Keppni á Smáþjóðal­eik­un­um lauk 3. júní. Lokahátíðin fór fram sama kvöld.

Ísland hafnaði í 3. sæti á verðlaunatöflunni með 60 verðlaun, þar af 27 gullverðlaun. Lúx­em­borg vann flest verðlaun eða 98, þar af 38 gull. Kýp­ur var í 2. sæti með 84 verðlaun, þar af 30 gull. Fleiri myndir frá Smáþjóðaleikunum og okkar flotta íþróttafólki má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Heimsókn ráðherra til San Marínó Mennta- og menn­ing­ar­málaráðherr­a Íslands, Kristján Þór Júlí­us­son, sem fer með íþrótta­ mál í ráðuneyti, tók þátt í ráðherrafundi sem haldinn er í tengslum við Smáþjóðaleikana. Fundurinn var haldinn mánudaginn 29. maí. Á fundinum sátu forsetar viðkomandi Ólympíunefnda. Fyrir hönd Íslands sat Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ. Fundarefni var sjálfbærni og var samþykkt yfirlýsing sem ber yfirskriftina Sports in Small States: Environmental and Economic Sustainability. Nú er umhverfisleg- og efnahagsleg sjálfbærni á íþróttaviðburðum grundvallaratriði þegar verið er að skilgreina almennar breytur hvað varðar skipulag og efnahagsleg áhrif á samfélagið í því landi sem viðburðurinn er haldinn. Nú er alþjóðasamfélagið að byggja upp vettvang til að þróa og efla aðgerðir sem miða að því að áhersla

Líney Rut og Kristján Þór.

sé á sjálfbærni við skipulagningu íþróttaviðburða. Íþróttir eru mikilvægur þáttur í umhverfislegri og efnahagslegri sjálfbærni og geta haft jákvæð áhrif. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hafa ráðist í aðgerðir og gefið út lög um sjálfbærni í umhverfismálum á íþróttaviðburðum á þeirra vegum. Ráðherrafundur Smáþjóðaleikanna 2017 var mikilvægur þáttur í því að takast á við þetta mál. Með Kristjáni Þór í för var eiginkona hans Guðbjörg Ringsted. Óskar Þór Ármannsson sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sat fundi og íþróttaviðburði. Hann var einnig viðstaddur setningarhátíð Smáþjóðaleikanna.

Guðbjörg og Óskar Þór.

Líney Rut skipuð í nefnd á vegum EOC Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ hefur verið skipuð í undirbúningsnefnd EOC fyrir Evrópuleikana sem haldnir verða í Minsk í HvítaRússlandi árið 2019 (Minsk 2019 Coordination Commission). Nefndin hefur umsjón og eftirlit með að undirbúningur leikanna gangi samkvæmt

12

áætlun og sé í samræmi við ákvarðanir sem hafa verið. Evrópuleikarnir í Minsk verða 2. Evrópuleikarnir sem haldnir hafa verið en fyrstu leikarnir fóru fram í Bakú í Azerbaijan í júní 2015.


Sýnum karakter „Sýnum karakter“ er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni. Verkefnið Sýnum karakter er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ. Verkefnið er hugsað sem verkfæri fyrir þjálfara til að hlúa að og efla andlega og félagslega þætti hjá börnum og unglingum. Mikilvægi þjálfarans er sett í fókus og einblínt með nýstárlegum hætti á þann jákvæða ávinning sem hlýst af íþróttaiðkun umfram líkamlega, s.s. áhugahvöt, félagsfærni, sjálfstraust, einbeitingu, leiðtogahæfni og markmiðasetningu. Á vefsíðu Sýnum karakter er fjöldinn allur af pistlum eftir þjálfara og afreksíþróttafólk þar sem helsta umfjöllunarefni er efling andlegra og félagslegra þátta í gegnum þjálfun. Í Spekingahorninu á síðunni má lesa pistla eftir dr. Viðar Halldórsson og dr. Hafrúnu Kristjánsdóttur. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu skrifaði nýlega pistilinn Að mynda sterka liðsheild og Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri hjá ÍSÍ, sagði frá sinni reynslu sem foreldri í pistlinum Stuðningurinn í að sleppa takinu. ÍSÍ hvetur alla til að kynna sér síðuna Sýnum karakter. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Hjólað í vinnuna 2017 Verkefnið Hjólað í vinnuna fór fram 3. - 23. maí 2017, fimmtánda árið í röð. Verkefninu lauk formlega með verðlaunaafhendingu í Fjölskylduog húsdýragarðinum í Laugardal. Verðlaun voru veitt til þriggja efstu vinnustaðanna í öllum flokkum fyrir hlutfall þátttökudaga. Í kílómetrakeppninni voru þremur efstu liðunum veitt verðlaun fyrir bæði heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra miðað við fjölda starfsmanna. Þetta árið voru þátttakendur tæplega 6 þúsund talsins (5.720 manns), fjöldi vinnustaða 450 sem skráðu 966 lið til keppni. Skráðir kílómetrar voru 428.926 km sem jafngildir um 320 hringjum í kringum landið. Er þetta aukning á öllum tölum frá árinu áður. Húsfyllir var við afhendinguna í veitingaskála Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og afhentu stjórnarmenn Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Hafsteinn Pálsson og Ása Ólafsdóttir, sigurvegurum verðlaunaplatta í hverjum flokki

14

fyrir sig. Við sama tækifæri afhenti Sesselja Traustadóttir framkvæmdastýra Hjólafærni þremur fyrirtækjum hjólavottun fyrir hjólavænan vinnustað. Að þessu sinni hlaut Reiknistofa bankanna gullvottun frá Hjólafærni og þá hlutu Reykjalundur og Íbúðalánasjóður silfurvottun fyrir hjólavæna aðstöðu. Dómnefnd var fengin til þess að skoða þær fjölmörgu myndir sem komu til greina sem besta mynd Hjólað í vinnuna 2017 á Instagram. Hlutskörpust var mynd Þráins Haukssonar hjá Landslag arkitektum, sem hann tók af litríkum og lúnum reiðfák. Þráinn hlaut hjálm að eigin vali frá Nutcase á Íslandi ásamt þeirri heiðursnafnbót að hafa tekið bestu myndina 2017. Einnig var einn heppinn þátttakandi dreginn út í skráningarleik, William Merré, og fékk hann Trek reiðhjól frá Erninum að verðmæti 100.000 kr. í verðlaun. Vefsíða Hjólað í vinnuna er hjoladivinnuna.is.


Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar verður haldin í Györ í Ungverjalandi dagana 23. - 29. júlí nk. Afar góð skráning er á hátíðina en allar Ólympíunefndir í Evrópu munu þar eiga keppendur. Alls verða þátttakendur rúmlega 3.700. Keppendur verða tæplega fjörutíu og þátttakendur alls 55. Ísland mun eiga keppendur í fimleikum, júdó, frjálsíþróttum, sundi, tennis auk þess að eiga lið í handknattleik drengja. Vefsíðu leikanna má sjá hér. Lukkudýr leikanna er haninn Hugoo.

Þjálfaramenntun ÍSÍ Sumarfjarnám ÍSÍ í þjálfaramenntun 1. og 2. stigs er nú komið í fullan gang. Um 50 nemendur eru í fjarnáminu að þessu sinni og eru þeir búsettir vítt og breytt um landið og koma frá fjölmörgum íþróttagreinum. Aldursdreifing nemenda er líka nokkuð mikil að þessu sinni þar sem nemendur eru allt frá 16 ára og að sextugsaldri. Sem dæmi um íþróttagreinar sem þátttakendur hafa áhuga á

að þjálfa má nefna körfuknattleik, handknattleik, knattspyrnu, blak, skíðaíþróttir, fimleika, sund, jódó, skautaíþróttir, karate, hnefaleika, taekwondo, keilu og kajak- og kanóróður. Upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ má sjá á vefsíðu ÍSÍ.

Fulltrúar ÍSÍ í Ólympíu Dagana 17. júní – 1. júlí fer fram námskeið fyrir unga þátttakendur í Ólympíu í Grikklandi. Tveir þátttakendur taka þátt fyrir hönd ÍSÍ en þau eru Baldvin Fróði Hauksson og Eva Hannesdóttir. Námskeiðið stendur yfir í tvær vikur og verður aðal umfjöllunarefnið að þessu sinni stjórnun, siðferði og menntun í íþróttum og í Ólympíuhreyfingunni. Námskeiðið er byggt á fyrirlestrum og umræðuhópum, en einnig er mikil áhersla lögð á að fulltrúar þjóðanna kynnist, t.d. með þátttöku í íþróttum, á meðan á dvölinni stendur. Þess má geta að Eva keppti í sundi á Ólympíuleikunum í London 2012. Bæði eru þau virk í starfi í sínum greinum, Baldvin sem þjálfari í handbolta og Eva sem þjálfari í sundi. ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS


Ólympíufjölskylda ÍSÍ

Samfélagsmiðlar ÍSÍ Vefsíða

Myndasíða

Facebook

Instagram

Vimeo

Issuu

Árið er 1993... Hér má sjá glæsilegt íþróttafólk sem hljóp í Reykjavíkurmaraþoninu árið 1993. Toby Tancer, Már Hermannsson, Martha Ernstdóttir, Kristján Skúli Ásgeirsson og Jón Stefánsson.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands Íþróttamiðstöðin í Laugardal Engjavegur 6 104 Reykjavík Sími: 514 4000 Netfang: isi@isi.is

ÍSÍ fréttir 2. tbl. 2017

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) varð til við sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands árið 1997. ÍSÍ er landssamband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérsambanda og er einu heildarsamtök íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. ÍSÍ er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmt íþróttalögum. Félagsaðildir í íþróttahreyfingunni eru rúmlega 274 þúsund og fjöldi virkra iðkenda er um 94 þúsund.

Ábyrgðarmaður: Lárus L. Blöndal

Ritstjóri: Ragna Ingólfsdóttir ÍÞRÓTTA– OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

ÍSÍ fréttir júní 2017  
ÍSÍ fréttir júní 2017  
Advertisement