Efling samstarfs útflutningsfyrirtækja í hugbúnaðariðnaði með klasa hugmyndafræði

Page 8

Eins og gefur að skilja er oft erfitt að fella öll fyrirtæki undir flokka af þessum toga og á það sérstaklega við um upplýsingtækniiðnaðinn sem er í raun svo samofin allri atvinnustarfsemi í dag að stundum er erfitt að greina þá starfsemi frá annarri starfsemi fyrirtækja. Þegar talað var við fyrirtækin kom í nokkrum tilvikum upp spurningin um það hvort að fyrirtækið skilgreindi sig sem hugbúnaðarfyrirtæki eða ekki. Þegar upp er staðið byggir þetta á endanum á einhverju persónulegu mati og á því hvar fyrirtækin vilja staðsetja sig. Þannig taldi framkvæmdastjóri fyrirtækisins Nox Medical að sitt fyrirtæki, en þar er u.þ.b. þriðjungur starfsmanna í hugbúnaðargerð, félli ekki undir það að vera upplýsingatæknifyrirtæki. Svipað hlutfall starfsmanna er í hugbúnaðargerð hjá Nordic eMarketing, en þar höfðu menn aftur á móti engar efasemdir um að starfsemin félli undir upplýsingatækniiðnað. Þær framfarir sem hafa verið knúðar áfram af framþróun í upplýsingatækni snerta fjölmarga þætti í tilveru okkar og hafa á síðustu áratugum átt stóran þátt í að umbreyta lifnaðarháttum stórs hluta mannkyns. Meiri nýsköpun, aukin framleiðni, einfaldari samskipti og bætt lífskjör má rekja til þeirrar þróunar sem upplýsingatæknin hefur fært þjóðum heims. Iðnaðurinn hefur almennt einkennst af stöðugum vexti, þó vissulega hafi sú djúpa niðursveifla í heimsviðskiptum sem hófst 2008 vissulega haft ákveðin áhrif. Áhrifin voru þó almennt skammvinnari en í mörgum öðrum atvinnugreinum og í sumum greinum upplýsingaiðnaðarins varð hennar tæpast vart. Þannig hefur umfang tölvuleikjageirans stöðugt verið að aukast, en gert er ráð fyrir 7,2% vexti á ári í þessum hluta upplýsingtæknigeirans til ársins 2016. Þá er áætlað að verðmæti iðnaðarins verði USD 83 milljarðar. Samkvæmt Global entertainment and meda outlook frá fyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers. Tölvuleikir verða þar með einn af helstu vaxtarbroddum í skemmtanaiðnaðinum í nánustu framtíð. Einnig hefur verið mikill vöxtur í öllu er tengist farsímum og spjaldtölvum á síðustu árum, Þannig hefur t.d. orðið til í Bandaríkjunum á skömmum tíma ný atvinnugrein sem kölluð er „App Economy”, en síðan árið 2007 hefur störfum í þeim geira fjölgað úr engu í tæplega 500.000 árið 2011 (Where the jobs are: The App Economy, 2012).

8


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.